Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-29

B ehf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)
gegn
A (Fjölnir Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Viðurkenningarmál
  • Gjafsókn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. febrúar 2023 leitar B ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. febrúar 2023 í máli nr. 730/2021: B ehf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda vegna líkamstjóns sem gagnaðili varð fyrir í vinnuslysi 7. febrúar 2019 þegar hann gekk á burðarsúlu í afgreiðslurými húsnæðis leyfisbeiðanda.

4. Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Landsréttur taldi að leyfisbeiðandi sem atvinnurekandi hefði vanrækt að tryggja gagnaðila öruggt vinnuumhverfi. Við sakarmatið var litið til þeirra atriða sem fram koma í reglum nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða um hættu á árekstri við gegnsæja eða hálfgegnsæja skilveggi sem erfitt getur verið að greina án sérstakra varúðarráðstafana. Í málinu lá fyrir að burðarsúlan sem gagnaðili gekk á var samlit loftum og endavegg að baki súlunni.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að með niðurstöðu sinni hafi Landsréttur lagt auknar skyldur á vinnuveitanda. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í málinu liggi fyrir að ekki hafi verið brotið gegn ákvæði í lögum, reglugerðum eða reglum sem kveði á um tiltekna háttsemi. Með niðurstöðunni víki Landsréttur frá þeirri aðferðarfræði sem lögð hafi verið til grundvallar hér á landi við gáleysismat.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.