Hæstiréttur íslands

Mál nr. 726/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Sveitarfélög
  • Ógilding samnings
  • Brostnar forsendur


                                     

Fimmtudaginn 21. maí 2015.

Nr. 726/2014.

Fjarðabyggð

(Hilmar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Lánasjóði sveitarfélaga ohf.

(Hjördís Halldórsdóttir hrl.)

Lánssamningur. Gengistrygging. Sveitarfélag. Ógilding samnings. Brostnar forsendur.

Talið var að tveir lánssamningar milli L og sveitarfélagsins F væru um lögmæta skuldbindingu í erlendum myntum. Þá var því hafnað að reglur um brostnar forsendur gætu haft áhrif á gildi samninganna þar sem talið var ósannað að það hefði verið ákvörðunarástæða F að gengisþróun yrði á tiltekinn veg. Skilyrði ógildingar samninganna á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga voru heldur ekki talin uppfyllt sökum þess að ekki væri fram komið í málinu um að upplýsingaskyldu L hefði verið ábótavant og ekki fallist á að aðstöðumunur milli aðila leiddi til annarrar niðurstöðu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. september 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. nóvember það ár og áfrýjaði hann öðru sinni 12. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á því að skuld hans við stefnda 3. september 2012 vegna tveggja tilgreindra lánssamninga hafi samtals verið aðallega að fjárhæð 420.715.202 krónur, til vara 451.650.338 krónur, en að því frágengnu 656.925.525 krónur. Verði ekki á það fallist krefst áfrýjandi viðurkenningar þess að umræddir lánssamningar séu bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með lögum nr. 150/2006 um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga var rekstrarformi sjóðsins breytt. Hefur stefndi tekið við þeim réttindum og skyldum Lánasjóðs sveitarfélaga sem á reynir í þessu máli.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Fjarðabyggð, greiði stefnda, Lánasjóði sveitarfélaga ohf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2014.

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 12. mars 213, var dómtekið 26. maí sl. Stefnandi er Sveitarfélagið Fjarðabyggð, Hafnargötu 2 á Reyðarfirði. Stefndi er Lánasjóður Sveitarfélaga, Borgartúni 30 í Reykjavík.

Aðalkrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 276.644.202 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 144.071.000 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 420.715.202 kr.

Varakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 292.237.671 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 159.412.667 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 451.650.338 kr.

Fyrsta þrautavarakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að skuld stefnanda við stefnda hafi þann 3. september 2012 verið 427.038.322 kr. vegna lánssamnings 32/2006 og 229.887.203 kr. vegna lánssamnings 42/2006 eða samtals 656.925.525 kr.

Önnur þrautavarakrafa stefnanda er að viðurkennt verði að lánssamningar aðila 32/2006 og 42/2006 , dagsettir 4. september 2006 séu bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Í þriðju þrautavarakröfu krefst stefnandi þess að ógilt verði eftirtalin ákvæði lánssamninga milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka:

Ákvæði greinar 2.1 í lánssamningi 32/2006 um að lánaðar verði „EUR 6.000.000 – sexmilljónir“.

Eftirtalin orð í grein 3.1 í lánssamningi 32/2006 „eða 157.894,74 EUR hver“ og „3.157.894,68 EUR“.

Ákvæði greinar 2.1 í lánssamningi 42/2006 um að lánaðar verði „USD 3.800.000 – þrjármilljónirogáttahundruðþúsund“.

Eftirtalin orð í grein 3.1 í lánssamningi 42/2006 „100.000 USD hver“ og „2.000.000 USD“.

Í fjórðu þrautavarakröfu krefst stefnandi viðurkenningar á því að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986 um að víkja til hliðar að hluta eða breyta lánssamningum 32/2006 og 42/2006 milli stefnda sem lánveitanda og stefnanda sem lántaka séu til staðar.

Þess er jafnframt krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

                Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að þriðju og fjórðu þrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi og stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Með úrskurði dómsins 26. nóvember 2013 var fallist á kröfu stefnda um frávísun þriðju og fjórðu þrautavarakröfu stefnanda.

Atvik máls og ágreiningsefni

Á árinu 2006 tók stefnandi lán hjá stefnda til að framkvæmda. Lánssamningarnir eru tveir, báðir undirritaðir 4. september 2006. Samningarnir eru samhljóða varðandi annað en lánsfjárhæðina. Í samningi nr. 32/2006 er lánsfjárhæðin 6.000.000 evra en í samningi nr. 42/2006 er fjárhæðin 3.800.000 Bandaríkjadalir. Samhliða samningsgerðinni undirritaði bæjarstjóri stefnanda óútfylltar beiðnir um útborgun lánanna.

Á forsíðu beggja lánasamninganna er handritað annars vegar EUR og hins vegar USD, en prentaður texti á forsíðu tekur ekki annað fram en að um lánssamning sé að ræða, númer hans og nöfn samningsaðila. Lánsfjárhæð er í grein 2.1 í samningunum tilgreind í viðkomandi mynt og þar kemur fram að útborgun sé í einu lagi eigi síðar en fimm bankadögum eftir að beiðni lántaka um útborgun lánsins berst lánveitanda. Í grein 2.3 kemur fram að tilgangur lánanna sé að fjármagna framkvæmdir samkvæmt fjárhagsáætlun stefnanda árið 2006. Endurgreiða beri lánin með 19 afborgunum, þar af 18 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti sem samtals nema ríflega helmingi lánsfjárhæðarinnar en afganginn skuli greiða í einu lagi á 19. gjalddaganum, sbr. 3. gr. samninganna. Fjárhæð endurgreiðslna er tilgreind í sömu mynt og lánsfjárhæðin. Vextir samkvæmt 4. gr. samninganna eru annars vegar EURIBOR + 0,13% álag á lánið í evrum og LIBOR + 0,13% álag á lánið í Bandaríkjadölum. Vextir eru breytilegir.

Til tryggingar lánunum setti stefnandi, með heimildi í 73. gr. laga nr. 45/1998, tekjur sínar, þ.e. framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og útsvarstekjur sbr. 5. gr. samninganna. Komi til vanskila er stefnda heimilt á grundvelli ákvæðis sömu greinar að ganga að framangreindum tekjum án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar, sbr. einnig ákvæði reglugerðar nr. 123/2006.

Lánin voru greidd út þann 1. september 2006 í viðkomandi myntum. Á skjöl, sem undirrituð voru af því tilefni, eru handritaðar upplýsingar um fjárhæð lánanna og viðmiðunargengi í íslenskum krónum. Á tímabilinu fram að 11. september 2006 skipti stefnandi lánsfjárhæðinni í íslenskar krónur.

Endurgreiðslur virðast í öllum tilvikum nema einu, þann 1. september 2007, hafa verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Greitt var af lánunum á sex mánaða fresti í samræmi við samningsskilmála. Síðasta afborgun fyrir málshöfðun þessa var innt af hendi í september árið 2012.

                Stefndi, sem er í eigu sveitarfélaga, þ. á m. stefnanda, tók lán erlendis í sömu myntum og hann lánaði stefnanda til að fjármagna lánin til hans. Í útlánareglum stefnda, samþykktum 2. febrúar 2005, er kveðið á um að útlánavextir af endurlánafé skuli vera með 0,05% álagi á vaxtakostnað sjóðsins.

Ágreiningur reis milli aðila um lögmæti lánanna. Í bréfaskiptum í júní 2012 lýstu aðilar sjónarmiðum sínum í þessu efni. Telur stefnandi að lánin séu lán í íslenskum krónum sem bundin eru með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla og beri því að endurreikna þau í samræmi við fordæmi Hæstaréttar þar að lútandi. Þá leiði sjónarmið um brostnar forsendur og grunnrök 36. gr. laga nr. 7/1936 einnig til þess að ósanngjarnt sé að hann einn beri gengisáhættu lánanna. Sjónarmið stefnda er það að lánin séu fullkomlega lögmæt og hefur hann hafnað öllum kröfum um endurútreikning þeirra. Ágreiningur þessi er ástæða málaferla nú.

                Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, gaf aðilaskýrslu fyrir dómi og sömu leiðis Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri stefnda. Í skýrslu Páls kom fram að hann hefði gegnt stöðu fjármálstjóra hjá stefnda þegar umdeild lán voru tekin. Við undirbúning lántökunnar hafi verið skoðaðir ýmsir lánamöguleikar og hliðsjón höfð af heildarskuldbindingum sveitarfélagsins, hlutfalli innlendra og erlendra lána og áætlunum um tekjur á lánstímanum. Aðspurður af hverju lán með þessum skilmálum hefði verið tekið svaraði hann því til að það hefði verið til að lágmarka fjármagnskostnað. Hann staðfesti að hafa gert greiðsluáætlun vegna lánanna og sent stefnda. Í greiðsluáætluninni sé miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla á þeim tíma sem áætlunin var gerð. Hann sagði þó að alltaf hefði verið gert ráð fyrir einhverjum gengisbreytingum og óvissan af því kunn en engan hefði órað fyrir að hún yrði jafnmikil og raun varð á. Þá kvaðst hann ekki geta fullyrt að stefnda hafi mátt vera ljóst að tiltekin gengisþróun væri forsenda lántökunnar. Hann einfaldlega myndi ekki nákvæmlega hvað þeim fór á milli. Þá sagði hann að forsvarsmaður stefnda hefði sent honum drög að bókun bæjarráðs þar sem lánveitingin var heimiluð. Í bókuninni kemur fram að bæjarráð samþykki að taka allt að 800.000.000 kr. lán hjá stefnda í erlendri mynt. Þá heimilaði ráðið að lánið yrði í upphafi að hluta eða í heild í íslenskum krónum enda yrði því breytt í lán í erlendum myntum ekki síðar en 1. október þ.á. Jafnframt kemur fram í bókuninni að tekjur sveitarfélagsins muni standa til tryggingar láninu sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og að lánið sé tekið til framkvæmda á vegum sveitarfélagsins, sbr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir kröfur sínar á þremur meginmálsástæðum. Í fyrsta lagi að lánasamningarnir hafi verið með ólögmætri gengistryggingu, í öðru lagi að veruleg forsenda stefnanda hafi brostið fyrir lánssamningunum sem leiði til ógildingar þeirra að hluta og í þriðja lagi að fyrir hendi séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, til að víkja samningsákvæði til hliðar eða breyta því.

                Í aðalkröfu er farið fram á að viðurkennt verði að staða skuldbindinga stefnanda samkvæmt lánssamn­ing­um 32/2006 og 42/2006 við stefnda hafi þann 3. september 2012 hafi verið 420.715.202 kr. og er byggt á útreikningi frá KPMG og gert ráð fyrir því að sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana vegna hverra afborgana eigi við, samanber dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012.

                Í varakröfu er byggt á útreikningum miðað við að lánin hafi borið vexti skv. 4. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 frá gildistöku laga nr. 151/2010 en fram að gildistöku laganna, eða til og með gjalddaga þann 1. september 2010, hafi greiðslur stefnanda vegna vaxta verið fullnaðargreiðslur og því skuli draga höfuðstólsgreiðslur frá skuld í íslenskum krónum. Í þrautavarakröfu er þess krafist að sanngirnismati verði beitt og eftirstöðvar lánssamninganna metnar þannig að aðilar skipti að jöfnu á milli sín þeirri hækkun sem orðið hefur á lánunum vegna gengisbreytinga.

                Til nánari stuðnings þessari málsástæðu vísar stefnandi til þess að lánið hafi verið tekið til að sinna lögbundnum verkefnum sveitarfélags, það hafi verið tryggt með veði í tekjum stefnanda í íslenskum krónum sem hafi veitt stefnda aukna réttarvernd. Stefndi sjálfur hafi talið lánið gengistryggt í umfjöllun í ársreikningi sínum árið 2006. Báðir aðilar hafi nálgast viðfangsefnið þannig að verið væri að lána ákveðna upphæð í íslenskum krónum, að veðið væri tekjur í íslenskum krónum og að endurgreiðsla yrði með íslenskum krónum. Það hafi verið raunverulegt inntak samnings aðila. Meginreglan hafi verið sú að endurgreiðslur yrðu í íslenskum krónum, nema beiðni kæmi fram um annað frá stefnanda. Samningarnir séu því í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Sé fallist á það byggir stefnandi á því að reikna beri eftirstöðvar lánsins í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 og miði aðalkrafan við það.

                Verði ekki fallist á að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða byggir stefnandi í öðru lagi á því að að ógilda beri samning aðila á grundvelli reglna kröfuréttar um brostnar forsendur. Sú forsenda hafi brostið, að endurgreiðsla lánsins í íslenskum krónum yrði í samræmi við áætlun sem gerð var við lántökuna. Sú forsenda hafi verið veruleg og verið ákvörðunarástæða sem stefnda hafi verið ljós auk þess sem sanngjarnara sé að leggja áhættuna af henni á stefnda.

                Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að víkja beri samningi aðila til hliðar að hluta eða breyta þannig að ákvæði um endurgreiðslu verði ógilt og í staðinn fari um endurgreiðslu með sama hætti og ef lánið hefði verið með ólögmætri gengistryggingu eða þannig að miðað verið við stöðu lánsins 3. september 2012. Vísar stefnandi til 36. gr. laga nr. 7/1936 til stuðnings þessari málsástæðu. Byggir hann á því að það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera lánssamn­ingana fyrir sig með þeim hætti sem stefndi gerir. Til frekari rökstuðnings vísar stefnandi til fjárhæðar lánsins, þess að hann hafi eingöngu tekjur í íslenskum krónum, lánið sé tryggt með öruggu veði í tekjum stefnanda, augljós aðstöðumunur sé á aðilum stefnda í hag, auk þess sem stefndi hafi samið lánsskilmálana og þess gengishruns krónunnar sem kom til eftir samningsgerðina. Jafnframt vísar hann til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og nú laga 108/2007 um sama efni, sem og þeirra Evrópureglna sem þessir lagabálkar byggja á varðandi þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til stefnda sem fjármálafyrirtækis.

                Stefnandi byggir á því að ástæða þess að lánssamningar aðila hafi verið tengdir við þróun erlendra gjaldmiðla hafi verið sú að vaxtakjör yrðu ella óásættanleg, þ.e. að vaxtakjör í samræmi við 4. og 10. gr. vaxta­laga 38/2001 væru óásættanleg. Eins og gögn málsins beri með sér hafi staða lánanna samkvæmt útreikn­ingi stefnda, eftir greiðslu gjalddaga 1. september 2012, verið ríflega 986 milljónir króna eða 124 milljónum hærri en ef þessi útreikningur sem aðilar beinlínis vildu komast hjá væri lagður til grundvallar. Sé fallist á að forsendur hafi brostið með þeim afleiðingum að ákvæði um erlenda gjaldmiðla í láns­samn­ingunum séu ógild, þá sé byggt á því að dómur geti kveðið upp úr um það hvaða kjör miða skuli við á grundvelli 36. gr. samningalaga. Við slíkt mat beri að horfa til aðalkröfu og varakröfu annars vegar og stöðu lánssamninga 32/2006 og 42/2006 ef þeir eru reiknaðir með vöxtum skv. 4. og 10. gr. vaxta­laga 38/2001 hins vegar. Síðan sé eðlilegt að skipta áhættunni af þessari ófyrirsjáanlegu þróun á milli aðila að teknu tilliti til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Í fyrstu þrautavarakröfu byggir stefnandi á því að sanngirnismat eigi að leiða til þess að þessari áhættu sé skipt milli aðila að jöfnu, hafi ekki verið fallist á fyrri kröfur, og eftirstöðvar lánsins teljist samkvæmt því vera 656.925.525 krónur.

                Önnur þrautavarakrafan er sett fram sem viðurkenningarkrafa á grundvelli sömu málsástæðna og koma fram í aðalkröfu fari svo að dómurinn fallist á málsástæður að baki aðalkröfu en telji ekki unnt að fallast á þá útreikninga sem lagðir eru til grundvallar þeirri kröfu.

                Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísast til 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að lán stefnanda hafi verið lögmæt lán í erlendum myntum. Í öðru lagi séu skilyrði almennra reglna samningaréttar um brostnar forsendur ekki fyrir hendi. Í þriðja lagi eigi 36. gr. samningalaga ekki við í málinu. Loks, í fjórða lagi, séu gerðar athugasemdir við fjárhæð einstakra krafna stefnanda, einkum hvað varðar sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana. Eigi þessar málsástæður við um allar kröfur stefnanda.

                Líta beri til raunverulegs inntaks samninganna og taka mið af þeirri meginreglu samningaréttar að aðilum sé frjálst að ákveða inntak samninga sinna. Af þessum ástæðum geti það ekki ráðið úrslitum í málinu þótt orðið gengistrygging hafi komið fyrir í skýringum við ársreikning stefnda fyrir árið 2006. Sé það raunar svo að hugtökin erlend lán og gengistryggð lán hafi verið notuð jöfnum höndum í ársreikningnum. Raunverulegt inntak samninga aðila komi fram í 2.1 gr. þeirra, þar sem stefnandi skuldbindi sig til að taka að láni og stefndi að lána tilgreindar fjárhæðir í tilteknum erlendum gjaldmiðlum. Lánsfjárhæðin hafi því verið tilgreind í erlendum gjaldmiðlum og stefnandi fengið afhent lánsféð í erlendri mynt. Raunverulegar efndir samningsins hafi því verið í samræmi við inntak hans. Því eigi VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu ekki við í málinu og nægi hvort þessara atriða eitt og sér til að lánin teljist vera í erlendri mynt með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar. Til viðbótar þessu veiti öll samskipti aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar, auk bókunar bæjarráðs stefnanda, skýrar vísbendingar um að ávallt hafi staðið til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Jafnframt sé gjaldmiðill viðkomandi láns tilgreindur á forsíðu hvors samnings fyrir sig. Að lokum séu vextir samkvæmt lánssamningunum til samræmis við það að um erlent lán sé að ræða tilgreindir LIBOR- og EURIBOR-vextir. Geti að mati stefnda enginn vafi leikið á því að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða. Fái þau atriði sem rakin séu í stefnu ekki haggað því.

                Stefndi byggir einnig á því að almennar reglur samningaréttar um brostnar forsendur eigi ekki við í málinu. Í stefnu sé á því byggt að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir töku lánanna frá stefnda „að höfuðstóll lánsins og endurgreiðslur væri í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru þar um við lántökuna“. Framangreind áætlun sé skjal sem stefnandi hafi útbúið þar sem sett sé fram greiðsluáætlun, jafnt í viðkomandi erlendum myntum sem íslenskum krónum. Í sjálfum samningum aðila, gr. 3.1, komi síðan fram skýr greiðsluáætlun í þeim erlendu gjaldmiðlum sem lánin samanstóðu af. Bæði höfuðstóll lánsins og endurgreiðslur hafi verið í samræmi við greiðsluáætlun í erlendum myntum, jafnt þá skýru greiðsluáætlun sem fram komi í gr. 3.1 lánssamninganna sjálfra, sem í greiðsluáætluninni sem stefnandi hafi sjálfur gert. Verði umfjöllun stefnanda því ekki skilin á annan veg en þann að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir töku lánanna að gengi íslensku krónunnar gagnvart viðkomandi erlendu myntum héldist óbreytt út lánstímann. Þessu hafnar stefndi alfarið og telur þennan málatilbúnað ótrúverðugan. Engin skilyrða fyrir ógildingu á grundvelli brostinna forsendna séu uppfyllt. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um mögulegar gengissveiflur íslensku krónunnar og sé því hafnað að forsenda lántökunnar hafi verið að gengi hennar héldist óbreytt út samningstímann og einnig því að það hafi verið ákvörðunarástæða hans fyrir gerð þeirra. Þvert á móti hafi ákvörðunarástæðan að öllum líkindum verið sú að mun hagstæðari kjör hafi boðist á lánum í erlendum gjaldmiðlum en í íslenskum krónum á þessum tíma. Stefnandi hafi valið að taka áhættu sem fylgi slíkum lánum gegn því að fá mun betri kjör. Þar sem óbreytt gengi íslensku krónunnar geti ekki hafa verið forsenda stefnda fyrir lántökunni, hvað þá ákvörðunarástæða, beri þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu stefnanda. Af sömu ástæðum geti stefnda ekki hafa verið þessi ætlaða ákvörðunarástæða ljós. Loks geti það ekki talist sanngjarnara að leggja áhættuna af ætluðum forsendubresti á stefnda fremur en stefnanda. Stefndi sé í eigu sveitarfélaga landsins og sé hlutverk hans að endurlána til þeirra lánsfé sem stefndi sjálfur taki að láni. Sé tilgangur þessa fyrirkomulags m.a. sá að auðvelda sveitarfélögum, líkt og stefnanda, að eiga kost á betri lánskjörum á innlendum og erlendum lánsfjármörkuðum. Stefnandi sé meðal eigenda stefnda og ætti eðli máls samkvæmt að vera fullkunnugt um þetta eðli starfsemi hans.

                Stefndi hafi tekið erlend lán sérstaklega til að fjármagna lánveitinguna til stefnanda, líkt og rakið hafi verið að framan. Stefnandi þurfi að standa full skil á þessum lánum. Þar af leiðandi sé því alfarið hafnað sem röngu að tjón stefnda af því að fallist yrði á kröfur stefnanda nemi aðeins lægri ávöxtun, eins og staðhæft sé af hálfu stefnanda. Þvert á móti muni tap stefnanda nema verulegum fjárhæðum. Yrði slík niðurstaða ekki sanngjörn í garð stefnda í ljósi framangreinds hlutverks hans, og þeirrar staðreyndar að hann hafi aðeins tekið 0,05% vaxtamismun á lánveitingunni, til að standa undir eigin rekstri.

                Stefndi mótmælir því einnig að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera samninga fyrir sig. Stefnandi hafði val um það hvernig lán hann tæki. Honum hafi staðið til boða lán í íslenskum krónum eða erlendum myntum og honum hafi verið ljós mismikil áhætta sem fylgdi lántöku. Þá feli krafa stefnanda í sér afar lága raunvexti af láninu miðað við vísitölu krónunnar. Engin sanngirnisrök mæli með því að viðurkenna slík lánskjör. Stefnandi sé stórt sveitarfélag með greiðan aðgang að sérfræðiþekkingu. Hann hafi tekið upplýsta ákvörðun um að velja áhættumeiri leiðina gegn lægri vöxtum, eftir að hafa kannað rækilega þá kosti sem í boði voru. Stefndi sé hins vegar í raun ekkert annað en milligönguaðili, sem hafi gefið stefnda kost á greiðari aðgangi að erlendum lánsfjármörkuðum á betri kjörum en hann hefði notið ella. Stefndi muni þurfa að standa full skil á lánum sem hann hafi tekið til að fjármagna lán til stefnanda. Í ljósi þessa yrði það gríðarlega ósanngjarnt að hann bæri mikið tap af þessu milligönguhlutverki sínu. Það sé því bæði eðlilegt og sanngjarnt að stefnandi endurgreiði lánsféð með umsömdum hætti, rétt eins og stefndi þurfi að gera.

                Með vísan til alls framangreinds beri því að sýkna stefnda af öðrum kröfum stefnanda en krafist er frávísunar á.

                Þá mótmælir stefndi forsendum útreikninga stefnanda. Verði fallist á að samningarnir feli í sér ólögmæta gengistryggingu verði að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð og miða við að skuldin beri vexti frá upphafi sem taki mið af 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 sem beri að leiðrétta með hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana eigi ekki við í málinu. Í öllu falli beri lánið framangreinda vexti frá 16. júní 2010, þar sem stefnandi geti ekki talist hafa verið í afsakanlegri lögvillu frá þeim tíma.

                Þá mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda að augljós aðstöðumunur sé á milli aðila. Stefndi sé ekki viðskiptabanki eða fjármálafyrirtæki á almennum markaði heldur starfi eingöngu á grundvelli lögbundins hlutverks síns. Stefndi hafi verið opinber stofnun þegar lánið hafi verið veitt og hafi verið bundinn af takmörkuðu starfsleyfi, lögbundnum tilgangi sínum og samþykktum sem eigendur samþykktu, þar með talið stefnandi. Það sé því ekki augljós aðstöðumunur á lánveitanda og lántaka í umræddum viðskiptum aðila máls þessa.

                Öll framangreind sjónarmið leiði jafnframt til þess að almennar reglur um brostnar forsendur eða 36. gr. samningalaga geti ekki gert það að verkum að stefnandi fái lán í íslenskum krónum á afar lágum erlendum vöxtum. Geti það aldrei hafa verið forsenda eða ákvörðunarástæða stefnanda fyrir lántökunni. Telja yrði ósanngjarnt að samningsvextir stæðu óhaggaðir, yrðu lánin af einhverjum ástæðum talin í íslenskum krónum.

                Varakrafa stefnanda grundvallast á því að stefnda sé heimilt að reikna vexti á lánssamninga aðila skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá gildistöku laga nr. 151/2010. Líkt og rakið hafi verið hér að framan byggir stefndi á því, verði af einhverjum ástæðum talið að um íslenskt lánsfé hafi verið að ræða, að það beri slíka vexti frá upphafi. Í öllu falli beri það slíka vexti frá 16. júní 2010, enda hafi stefnandi ekki getað verið í afsakanlegri lögvillu frá þeim tíma, sbr. bréfaskrif stefnanda. Ber því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.

                Stefndi mótmælir því að sanngirnisrök mæli með því að fyrsta þrautavarakrafa stefnanda verði tekin til greina. Þvert á móti yrði afar ósanngjarnt að hann bæri tap af því milligönguhlutverki sínu sem lýst hefur verið hér að framan, þ.e. að veita stefnanda aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum á betri kjörum. Stefndi muni þurfa að endurgreiða það lán sem hann tók til að endurlána stefnanda að fullu. Þá leiði af því að sé um að ræða ólögmæta gengistryggingu, beri að líta fram hjá ákvæðum samninganna um vexti, enda ákvæðin í órjúfanlegum tengslum við gengistrygginguna, sbr. fjölda dóma Hæstaréttar þar að lútandi, og miða þess í stað við Seðlabankavexti. Með því að miða við slíka vexti væri stefnandi að fá íslenskt lánsfé á lægstu mögulegu vöxtum á hverjum tíma. Það virðist hins vegar ekki duga stefnanda í þrautavarakröfu, heldur vilji hann ganga lengra og miða stöðu lánsins miðja vegu frá þeirri fjárhæð og fjárhæð lánsins miðað við samningsvexti. Stefndi fái ekki séð hvernig slík kröfugerð samræmist þessari dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þá fái stefndi ekki séð hvaða sanngirnissjónarmið eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að stefnandi fái lánsfé á tvöfalt betri kjörum en þau bestu sem buðust hverju sinni. Beri því að sýkna stefnda af þrautavarakröfu stefnanda.

                Krafa stefnda um málskostnað er reist á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða dóms

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að lán sem hann tók hjá stefnanda á árinu 2006 hafi verið lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi heldur því fram að lánið hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldmiðlum.

                Fjöldi dóma liggur fyrir þar sem reynt hefur á framangreint álitaefna. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki tekst á hendur. Koma önnur atriði tengd samnings­gerðinni þá fyrst til skoðunar ef samningsákvæðin sjálf taka ekki af vafa um þetta atriði. Af mörgum dómum um þetta efni má nefna dóma réttarins í málum nr. 524/2011, 337/2013 og 602/2013. Umdeild lán eru í lánasamningum sögð vera í tilgreindum erlendum myntum, fjárhæð þeirra er tilgreind í þeim myntum án þess að tilgreint sé jafnvirði þess í íslenskum krónum. Þá eru vextir tilgreindir sem EURIBOR- eða LIBOR-vextir með tilteknu álagi. Afborganir og vextir voru reiknaðir af lánunum í erlendum myntum á greiðsluseðlum í samræmi við ákvæði samningsins þar að lútandi og staða lánanna sömuleiðis tilgreind í þeim myntum. Engar vísbendingar eru í öðrum skjölum tengdum lánveitingunni sem benda til annars  en að um erlend lán sé að ræða. Þá er ekki fallist á það með stefnanda að framkoma aðila í aðdraganda samningsgerðarinnar sýni fram á að ætlunin hafi verið að taka lán í íslenskum krónum. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og aðilaskýrslu forsvarsmanns stefnanda fyrir dómi en að ætlunin hafi verið sú að taka lán í erlendri mynt. Í þessu sambandi skiptir tilgangur lántökunnar ekki máli og heldur ekki sú staðreynd að tekjur stefnanda voru í íslenskum krónum og þar með einnig veð stefnda. Umdeild lán eru samkvæmt framansögðu lán í erlendum myntum og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt stefndi hafi greitt afborganir í íslenskum krónum.

                Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að reglur um brostnar forsendur samninga geti haft áhrif á gildi lánasamninganna. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki annað ráðið en að þær forsendur sem hann byggir á að hafi brostið, með þeim afleiðingum að ógilda eigi samninga aðila, séu þær að gengi íslensku krónunnar hafi fallið meira en hann gerði ráð fyrir. Ekki er um það deilt að gengi krónunnar féll gríðarlega. Á hinn bóginn er ósannað að það hafi verið forsenda eða ákvörðunarástæða stefnanda að gengisþróun yrði með tilteknum hætti og að stefnda hafi mátt vera ljós sú forsenda þegar samningar voru gerðir. Af framlögðum gögnum má ráða að stefnandi hafi tekið ákvörðun um lánskjör með hliðsjón af lánakjörum á markaði og metið eða átt að meta áhættu og ávinning af mismunandi lánakjörum sem honum stóðu til boða. Verður því að líta svo á að gengisþróun hafi verið áhætta sem stefnandi tók en ekki forsenda sem leitt geti til ógildingar samkvæmt reglum kröfuréttar um brostnar forsendur samninga. Ekki verður séð að greiðsluáætlun stefnanda, sem hann sendi stefnda 28. ágúst 2006, hafi þýðingu í þessu sambandi en í umræddri greiðsluáætlun eru afborganir lánsins umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við tiltekið gengi sem er nálægt gengi viðkomandi gjaldmiðla á lántökudegi.

                Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 geti leitt til ógildingar samninga aðila að hluta eða í heild. Byggir sú niðurstaða á því að stefnanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um eðli þeirrar áhættu sem erlend lán fela í sér. Ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi hafi ekki búið yfir fullnægjandi upplýsingum um eðli og áhættu af lántöku í erlendri mynt eða að minnsta kosti verið í aðstöðu til að afla sér slíkra upplýsinga. Stefnandi hafði tök á að meta, eftir atvikum með aðstoð sérfræðinga, hvort sú áhætta væri ásættanleg. Jafnframt verður, með hliðsjón af skyldum og ábyrgð stjórnenda sveitarfélags, ekki fallist á að aðstöðumunur milli aðila eigi að leiða til annarrar niðurstöðu. Þá er stefnandi sjálfur einn eigandi stefnda og mátti honum af þeim sökum vera ljóst að lánveitingar stefnda til hans voru fjármagnaðar með erlendum lántökum hans. Sanngirnisök mæla því ekki með því að áhætta stefnanda verði lögð á stefnda.

                Með framagreindum rökstuðningi verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum sem deilt er um er hann hæfilega ákveðinn 800.000 kr.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

                Stefndi, Lánasjóður Sveitarfélaga, er sýkn af kröfu stefnanda, Fjarðabyggðar.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.