Hæstiréttur íslands

Mál nr. 827/2016

Dánarbú A (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
B (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu db. A um að tekin yrði skýrsla fyrir dómi af yfirlækni sem stundað hafði A um langt skeið. Hugðist db. A leggja skýrslu vitnisins fyrir Hæstarétt í máli hans gegn B sem áfrýjað hafði verið til réttarins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að upplýst væri að nánustu ættingjar A, sem væru á lífi, væru tveir bræður hans. Hefðu þeir undirritað yfirlýsingu þar sem þeir óskuðu eftir því að læknirinn yrði kvaddur fyrir dóm sem vitni. Í því ljósi, svo og því að það væri dánarbú hins látna sem væri sóknaraðili málsins og hefði umtalsverða hagsmuni af úrslitum þess, jafnframt því að ætla mætti að læknirinn gæti borið um atvik, sem líkleg væru að hafa verulega þýðingu við úrlausn málsins, var fallist á kröfu db. A um að læknirinn yrði kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fá að leiða C yfirlækni sem vitni fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og aðallega kærumálskostnaðar, en til vara að hann verði látinn niður falla.

I

Sóknaraðili er dánarbú sem er undir opinberum skiptum. Hinn látni, A, hafði verið í sambúð með móður varnaraðila, en hún lést [...] 2010, en sjálfur lést hann [...] 2011. Á árinu 2007 gáfu þau út afsal til varnaraðila fyrir íbúð að [...] í [...] og kom fram í afsalinu að kaupverð íbúðarinnar væri að fullu greitt. A var sviptur fjárræði með úrskurði [...]. apríl 2011.

Sóknaraðili krefst þess að tekin verði skýrsla fyrir dómi af áðurnefndum yfirlækni, sem stundað hafi hinn látna um langt skeið, í því skyni að sýna fram á að hann hafi, að minnsta kosti frá því í júní 2007 ,,hvorki haft andlegt hæfi til að fylgjast með úttektum af bankareikningum sínum né til að mæla fyrir um ráðstöfun innstæðueignar sinnar. Einnig ætlar sóknaraðili að leitast við að sanna að í ágúst 2007 hafi A heitinn ekki haft andlegt hæfi til að afsala sér verðmætum eignum sínum.“ Endurrit af skýrslu vitnisins hyggst sóknaraðili leggja fram fyrir Hæstarétti í máli nr. 597/2016 sem hann rekur þar gegn varnaraðila en héraðsdómi í því máli var áfrýjað af hálfu sóknaraðila. Þar gerir sóknaraðili þá kröfu að héraðsdómi verði breytt á þann veg að stefnda, varnaraðila í þessu máli, verði gert að greiða sér 9.477.468 krónur ásamt tilgreindum vöxtum, auk málskostnaðar. Er það sama krafa og hann gerði í málinu fyrir héraðsdómi. Sóknaraðili reisir framangreint mál sitt á því að um sé að ræða kröfu um ,,greiðslu kaupverðs eða skaðabóta vegna kaupa stefnda á eignarhluta“ A ,,í fasteigninni að [...] í [...]“, en hinn látni hafi átt 50% í fasteigninni. Hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi greitt kaupverð fasteignarinnar og geti því ekki borið fyrir sig að afsalið, sem áður greinir, sé gild kvittun fyrir þeirri greiðslu. Sóknaraðili byggir á því að kaupverð helmings eignarinnar hafi verið 8.000.000 krónur en, að frádreginni hlutdeild í áhvílandi skuldum, séu vangoldnar af hálfu varnaraðila 6.931.449 krónur. Þá krefst hann skaðabóta úr hendi varnaraðila fyrir að hafa með ólögmætum hætti tekið út af reikningi hins látna 2.546.019 krónur og sé því krafan í heild, eins og fyrr greinir, 9.477.468 krónur.

Málsástæður þær sem krafan er reist á eru, að því er varðar fyrri kröfuliðinn, að um sé að ræða vangoldinn hluta kaupverðs framangreindrar fasteignar. Þá hafi varnaraðili valdið sóknaraðila fjártjóni með því að ,,greiða ekki umsamið kaupverð fasteignarinnar“ og beri honum því að greiða skaðabætur sem því nemi. Sóknaraðili virðist einnig reisa kröfur á hendur varnaraðila um skaðabótaskyldu hans vegna vanefnda á samningi á því að hinn látni hafi ekki haft vitræna getu til að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. Hann kveður skaðabótaábyrgð varnaraðila vera svonefnda stjórnunarábyrgð og hann beri því hlutlæga ábyrgð á tjóni sóknaraðila ,,sbr. 52. gr. laga nr. 40/2002, um fasteignakaup.“

Þvert á framangreindar málsástæður, sem allar eru reistar á því að afsalið á fasteigninni sé gilt en samningur um viðskiptin hafi ekki verið réttilega efndur af hálfu varnaraðila, teflir sóknaraðili einnig fram málsástæðum um að afsalið sé ógilt vegna vitrænnar skerðingar hins látna þegar viðskiptin áttu sér stað. Vísar hann því til stuðnings til 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hann eigi því rétt til vangildisbóta sem hann kveður að eigi að gera hann eins settan og samningurinn hefði aldrei verið gerður.

Þann þátt kröfunnar sem lýtur að óheimilum úttektum varnaraðila af bankareikningum A reisir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi sjálfur átt að standa straum af kostnaði við afborganir af veðskuldum er hvíldu á fasteigninni sem um ræðir og rekstrarkostnaði hennar, en hann hafi í staðinn tekið út af bankareikningum hins látna fjárhæðir sem hann hafi notað í þessu skyni. Hann hafi nýtt sér þá aðstöðu að A hafi þá verið ófær vegna vitrænnar skerðingar um að ráða sjálfur fjárhagsmálefnum sínum. Með þessari háttsemi hafi hann valdið hinum látna tjóni, sem dánarbúið krefjist bóta fyrir í málinu. Varnaraðili hafi einnig misfarið með umboð, sem hinn látni hafi veitt honum og þannig bakað sér skaðabótaskyldu sem nemi þessum hluta kröfunnar.

II

Þótt málatilbúnaður sóknaraðila í málinu sem hann nú rekur fyrir Hæstarétti sé óljós og ruglingslegur og þar sé til grundvallar fyrri kröfuliðnum teflt fram málsástæðum um ógildingu, sem ganga þvert á málsástæður, sem áður er lýst í stefnunni og reistar eru á því að gildur samningur hafi stofnast sem varnaraðili eigi þó eftir að efna, verður ekki ráðið til lykta í þessu máli hvaða réttaráhrif hinn óljósi málatilbúnaður eigi að hafa. Á hinn bóginn reisir sóknaraðili síðari lið kröfunnar, um að varnaraðili hafi misnotað sér ætlaða vitræna skerðingu A til þess að taka fé út af bankareikningum hans í blóra við umboð og misfarið með féð á atvikum sem ætla má að áðurnefndur yfirlæknir geti borið um. Geta úrslit málsins að þessu leyti ráðist af framburði vitnisins.

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er það meginregla að hverjum þeim, sem orðinn er 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, er skylt að koma fyrir dóm sem vitni og svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Frá vitnaskyldunni, sem samkvæmt framangreindu er tvíþætt og felur í sér annars vegar skyldu til að koma fyrir dóm og hins vegar til þess að svara spurningum um málsatvik, eru lögmæltar undantekningar. Í 2. mgr. 53. gr. laganna er kveðið á um að vitni sé óheimilt, án leyfis þess sem í hlut á, að svara spurningum um atriði, sem meðal annars eru tilgreind í b. lið málsgreinarinnar. Í þeim staflið er um slík atriði skírskotað til þess að læknir megi ekki upplýsa um einkahagi manns sem hann hefur komist að í starfi sínu. Frá þessari undantekningu er svo vikið í 3. mgr. sömu greinar sem felur í sér að telji dómari hagsmuni aðila máls verulega meiri af því að upplýst verði um þau atriði, sem þagnarskylda tekur til, en hagsmuni hlutaðeigandi af því að leynd verði haldið geti hann eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningum þótt leyfi sé ekki veitt til þess. Er þá áskilið að svarið feli ekki í sér frásögn af einkahögum manns, sem ekki á aðild að máli. Í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, sem hér eiga við, segir að heilbrigðisstarfsmaður verði ekki leiddur sem vitni í einkamáli gegn vilja sjúklings nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburði hans eða málið sé að mati dómara mikilvægt fyrir málsaðila. Skuli slíkur vitnisburður fara fram fyrir luktum dyrum.   

Í málinu er upplýst að nánustu ættingjar A, sem eru á lífi, séu tveir  bræður hans. Hafa þeir undirritað yfirlýsingu 8. desember 2016, sem lögð hefur verið fram í málinu, en þar kemur fram að þeir óski eftir að áðurnefndur yfirlæknir verði kvaddur fyrir dóm sem vitni. Í því ljósi, svo og því að það er dánarbú hins látna sem er sóknaraðili málsins og hefur umtalsverða hagsmuni af úrslitum þess, jafnframt því sem  ætla má að yfirlæknirinn geti borið um atvik, sem líkleg eru til að hafa verulega þýðingu við úrlausn málsins, verður fallist á kröfu sóknaraðila um að yfirlæknirinn verði kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar í áðurnefndu skyni.   

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð

Sóknaraðila, dánarbúi A, er heimilt að leiða C yfirlækni fyrir dóm sem vitni vegna hæstaréttarmálsins nr. 597/2016.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2016

                Með bréfi, sem barst dóminum 5. október sl., krafðist dánarbú A, Suðurlandsbraut 4a, Reykjavík, þess að tekin yrði vitnaskýrsla af C yfirlækni til framlagningar í Hæstaréttarmáli nr. 597/2016. 

                Varnaraðili, B, [...], [...], krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá, til vara að dómurinn úrskurði um vitnaskyldu læknisins er varði upplýsingar úr sjúkraskrá A og að sjúkraskráin verði í heild frá byrjun júní 2007 lögð fram, ef á vitnaskyldu verður fallist. 

                Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, til vara að hann verði felldur niður. 

                Ágreiningur þessi var tekinn til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. nóvember sl. 

                A hafði búið með D, sem lést [...] 2010.  Sjálfur lést A þann [...] 2011.  Dánarbú hans er til opinberra skipta.  Varnaraðili er sonur D.  Hinn 15. ágúst 2007 höfðu A og D gefið út afsal til stefnda fyrir íbúð sem þau áttu saman að [...] í [...].  Í afsalinu segir að kaupverð sé að fullu greitt. 

                A var sviptur fjárræði með úrskurði 14. apríl 2011, en hann var þá með heilabilunarsjúkdóminn alzheimer. 

                Sóknaraðili höfðaði mál á hendur varnaraðila í október 2013.  Er byggt á því af hálfu dánarbúsins að varnaraðili hafi ekki greitt neitt fyrir hluta A í íbúðinni.  Þá var enn fremur krafist endurgreiðslu úttekta varnaraðila af bankareikningi A.  Var byggt á því af hálfu dánarbúsins að A hefði verið svo langt leiddur af sjúkdómi sínum að hann hafi verið ófær um að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. 

                Dómur gekk í málinu [...]. maí 2016.  Var varnaraðili sýknaður af kröfum dánarbúsins.  Dánarbúið skaut málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu útg. 26. ágúst 2016. 

                Í beiðni um töku vitnaskýrslu segir að sóknaraðili hyggist sanna að hinn látni hafi a.m.k. frá því í júní 2007 hvorki haft andlegt hæfi til að fylgjast með úttektum af bankareikningum sínum, né til að mæla fyrir um ráðstöfun á innistæðu sinni.  Jafnframt vilji hann sanna að í ágúst 2007 hafi hinn látni ekki haft andlegt hæfi til að afsala sér verðmætum eignum sínum. 

                Sóknaraðili vísar til XI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 73. gr. og 75. gr., sbr. 76. gr. 

                Varnaraðili reifar frávísunarkröfu sína ekki sérstaklega. 

                Varnaraðili byggir á því að upplýsingar úr sjúkraskrá verði ekki veittar nema nánum aðstandanda látins einstaklings og það sama gildi um skýrslutöku af lækni.  Vísar hann hér til 15. gr. laga nr. 55/2009.  Í þessu tilviki sé engum nánum aðstandanda til að dreifa.  Sambýliskona hins látna sé fallin frá og hann hafi verið barnlaus. 

                Yrði fallist á að fjarskyldari ættingjar eigi sama rétt og nánir aðstandendur yrðu þeir að standa allir að beiðni um skýrslutöku.  Ekki dugi að skiptastjóri dánarbús standi einn að beiðni.  Dánarbúið eigi engan rétt á upplýsingum úr sjúkraskrá. 

                Varnaraðili byggir á 2. gr. laga nr. 55/2009.  Mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklings skuli virtur.  Upplýsingar í sjúkraskrá séu viðkvæmar og þær séu trúnaðarmál.  Þá vísar hann til 12. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga og 17. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. 

                Verði fallist á að vitnaskýrsla verði tekin af lækninum krefst varnaraðili þess að sjúkraskráin verði lögð fram, ella geti hann ekki metið að hverju þurfi að spyrja. 

                Loks vísar varnaraðili til þess að úrslit einkamálsins ráðist ekki af gildi ráðstöfunar hins látna, heldur því hvort kaupverð fasteignar hafi verið greitt.  Upplýsingar úr sjúkraskrá breyti hér ekki neinu. 

                Niðurstaða

                Frávísunarkrafa varnaraðila er órökstudd og verður henni hafnað. 

                Óumdeilt er að sóknaraðila er almennt heimilt að afla skýrslna fyrir héraðsdómi til framlagningar í Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 76. gr., sbr. 75. gr. laga nr. 91/1991.  Kemur þá til skoðunar hvort sérákvæði í lögum hindri töku skýrslu af C yfirlækni sem vitni í þessu tilviki. 

                Samkvæmt b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er meginreglan sú að lækni er óheimilt að skýra frá því sem honum hefur verið trúað fyrir eða hann komist að á annan hátt í starfi sínu.  Ákvæði þetta ber að skýra í samræmi við ákvæði laga nr. 34/2012.  Þar er mælt fyrir um trúnaðarskyldu í 17. gr. og í 3. mgr. 18. gr. er lagt bann við því að heilbrigðisstarfsmaður verði leiddur sem vitni, nema sjúklingur samþykki, nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburðinum.  Skýra verður ákvæði þetta svo, í samræmi við 12. gr. laga nr. 74/1997, að bannið gildi einnig eftir að sjúklingur er látinn.  Í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er dómara heimilað að leggja fyrir vitni að svara spurningum, sem ella mætti ekki svara, ef hagsmunir af því að spurningu verði svarað eru verulega meiri en hagsmunir af því að leynd verði haldið. 

                Megindeiluefnið í Hæstaréttarmálinu er hvort varnaraðili hafi á sínum tíma greitt hinum látna helming kaupverðs íbúðarinnar.  Heilsa A heitins á þeim tíma er ekki lykilatriði við þessa sönnunarfærslu, þótt vissulega geti slíkar upplýsingar haft áhrif við mat á öðrum gögnum.  Verður því ekki talið heimilt að víkja frá meginreglu b-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/20102.  Verður að hafna kröfu sóknaraðila um að C yfirlæknir verði leiddur sem vitni. 

                Málskostnaður verður ekki ákveðinn í þessu ágreiningsmáli. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, dánarbús A, um að leiða C yfirlækni fyrir dóminn sem vitni.