Hæstiréttur íslands
Mál nr. 139/2003
Lykilorð
- Tannlæknir
- Sérálit
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2003. |
|
Nr. 139/2003. |
André Bachmann Sigurðsson(Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn Kirsten F. Bjartmars (Valgeir Pálsson hrl.) |
Tannlæknar. Sérálit.
A krafði K um bætur vegna meintra mistaka Ö við tannlæknismeðferð 2. nóvember 1995. Ö var látinn og sat K í óskiptu búi. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið sannað að sýkingar sem A hafði átt við að stríða í kjölfar tannlæknismeðferðar hjá Ö hafi mátt rekja til leifa af mátefni sem Ö notaði við meðferðina. Hins vegar var talið að mátefnið hafi orðið eftir fyrir óhapp. Mátefnið hafi setið eftir í þröngri sprungu og óvíst að hægt hefði verið að sjá það úr munnholi. A leitaði til háls- nef- og eyrnalæknis í upphafi árs 1996 og fann hann leifar efnisins. Ekki tókst hins vegar að fjarlægja það að fullu fyrr en í ágúst 1998. Var talið að sterkar líkur væru fyrir því að ef efnisleifarnar hefðu verið fjarlægðar þegar þær fundust í upphafi árs 1996, eða strax í kjölfarið, hefði A ekki orðið fyrir því heilsutjóni sem síðar hafi orðið. Því var talið ósannað að tjón hafi verið afleiðing meintrar vanrækslu Ö við tannlæknismeðferðina og var K því sýknuð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2003 og krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna tjóns er hann hafi orðið fyrir í læknismeðferð og í kjölfar meðferðar hjá Erni Bjartmars Péturssyni tannlækni árið 1995. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Pétur Kr. Hafstein telur óhjákvæmilegt að dæma áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. desember sl., er höfðað 6. mars sl. af André Bachmann, Hábergi 20, Reykjavík, á hendur Kirsten F. Bjartmars, Reykjaseli, Mosfellsbæ, persónulega og f.h. dánarbús Arnar Bjartmars Péturssonar, og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefndu vegna tjóns er stefnandi varð fyrir í læknismeðferð hjá Erni Bjartmars Péturssyni tannlækni og í kjölfar meðferðarinnar á árinu 1995. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 23. september 2002.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að mati dómsins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.
Í málinu eru engar kröfur gerðar á hendur réttargæslustefnda og engar kröfur eru gerðar af honum.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafi fæðst með klofinn góm upp í hægri nös og hafi hann farið í fjölmargar aðgerðir vegna þess. Hann kom til Einars Thoroddsens háls-, nef- og eyrnalæknis á árinu 1986 en þá hafði stefnandi skekkju á miðsnesi yfir til hægri og andaði ekkert gegnum hægri nösina eins og fram kemur í vottorði læknisins frá 30. nóvember 2000. Þar kemur einnig fram að nösin hafi verið opnuð að einhverju leyti með aðgerð og hafi stefnandi eftir það getað andað í gegnum hana.
Stefnandi leitaði til Arnar Bjartmars Péturssonar tannlæknis á árinu 1995 vegna tanngóms er til stóð að stefnandi fengi til að loka beinglufu er myndaði op milli munn- og nefhols stefnanda. Tekið var mát af gómi stefnanda 2. nóvember 1995 hjá Erni. Voru mátefni lögð yfir góm hans í þeim tilgangi að tryggja að gervigómur, sem smíða þurfti, passaði sem best. Í skýrslu tannlæknisins er skráð að notað var efnið tissue conditioner.
Í febrúar eða mars 1996 kveðst stefnandi hafa fundið fyrir óþægindum í nefi, aðallega þannig að nösin hafi stíflast. Hann leitaði til Einars Thoroddsens vegna þessara óþæginda en í skýrslu læknisins kemur fram að það hafi verið í byrjun árs 1996. Við skoðun hjá honum kom í ljós hvítt efni í nefbotni sem Einar taldi að gæti hafa verið mátefni frá Erni. Einnig var þar örvefur í slímhúð sem hreinsaður var burtu eins og fram kemur í vottorði læknisins frá 30. nóvember 2000. Áður hafði stefnandi fengið bólgur í hægri kjálkaholu og talsvert miklar tannholdsbólgur samkvæmt sama læknisvottorði. Efnið var fjarlægt með nokkrum tilraunum en ekki tókst að ná því öllu fyrr en í svæfingu á árinu 1998. Fram hefur komið að glufan, sem efnið sat í, hafi verið mjög þröng. Erfitt hafi verið að finna efnið enda hafi það ekki sést nema með því að hreyfa til slímhúðina sem hafi verið mjög bólgin. Í vottorði Einars frá 31. janúar 2001 kemur fram að efnið, sem hafi verið í nefbotni stefnanda, hafi hann eiginlega fundið fyrir tilviljun, svo vel hafi það verið falið inni í sprungunni, sem klofið hafi góminn, enda hafi verið þar slímhúðarþykknun í kring og bólgur. Í vottorði hans frá 30. nóvember 2000 kemur fram að líklega stafi tapað lyktarskyn stefnanda af bólgum í nefi, sem komið hafi vegna mátefnisins í gómnum. Ofholdgunin hafi alltaf komið aftur og aftur en reynt hafi verið að loka opinu í janúar 2000 en sú aðgerð hafi ekki heppnast og því hafi ofholdgunin haldið áfram að koma. Um vorið voru sett fúkkalyf, sterar og krem á staðinn þar sem ofholdgunin var í þeim tilgangi að heilbrigður vefur yxi yfir beinið og virtist það hafa komið að tímabundnu gagni.
Stefnandi fór til Bandaríkjanna í maí 2002 og hefur tekist að meðhöndla vandamálið þannig að hann fær ekki lengur sýkingar en hann þarf áfram að vera undir eftirliti háls-, nef- og eyrnalæknis. Enn þarf að hreinsa slím og skán sem safnast fyrir í nösinni og geta valdið vondri lykt.
Í málinu krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu stefndu vegna tjónsins sem stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir vegna meintrar vanrækslu Arnar Bjartmars tannlæknis við máttöku 2. nóvember 1995. Af stefndu hálfu er því mótmælt að vandamál stefnanda sé á nokkurn hátt hægt að rekja til vanrækslu Arnars. Verði þau á annað borð rakin til mátefnisins sé fyrst og fremst því um að kenna hve langan tíma hafi tekið að ná því í burtu. Þá sé ósannað að óþægindi og sýkingar í munnholi og tannholdi stefnanda verði rakin til mátefnisleifanna.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að aðgerðin hafi í upphafi virst hafa tekist vel, en þegar frá leið hafi hann farið að finna fyrir ýmsum óþægindum í munnholi, endurteknum sýkingum þar og í tannholdi, auk mikilla verkja frá munni. Vond lykt hafi þar að auki komið úr nefi hans og síðar hafi hann tapað lyktarskyni, fyrst tímabundið en loks alveg. Einkenni hafi í fyrstu horfið við fúkkalyfjameðferð, en að henni lokinni hafi þau einatt komið aftur.
Stefnandi hafi vegna þessara óþæginda leitað til Einars Thoroddsen háls-, nef- og eyrnalæknis og hafi komið í ljós við skoðun hjá honum í byrjun árs 1996 að mátefni hafi orðið eftir í beinglufunni milli munn- og nefhols stefnanda eftir máttöku Arnar Bjartmars á árinu 1995. Þar hafi efnið setið fast í mjúkvef er umlyki barma beinglufunnar. Illa hafi gengið að fjarlægja mátefnið og hafi þurft nokkrar tilraunir til að ná því öllu. Hafi það ekki tekist að fullu fyrr en með aðgerð sem framkvæmd hafi verið í svæfingu á árinu 1998. Stefnandi hefði þá fengið slæmar sýkingar í hægri kjálkaholu auk tannholdsbólgu er rekja hafi mátt til mátefnisins. Við aðgerðina hafi komið í ljós talsverður örvefur og illa lyktandi ofholdgun í nefbotni stefnanda ofan við þann stað þar sem mátefnið hafði setið. Ofholdgunin hafi verið skafin brott. Í kjölfarið hafi heilsufar stefnanda skánað, en er komið var fram á sumarið 1999 hafi tekið að síga á ógæfuhliðina að nýju en þá hafi á ný lagt vonda lykt úr nefi hans. Er hann leitaði til læknis hafi komið í ljós að ofholdgun hafði myndast aftur á sama stað og fyrr. Hafi ofholdgunin verið skafin brott og í kjölfarið hafi stefnandi fengið lyktarskynið að nýju, en það hefði horfið sumarið 1998. Það hafi þó orðið skammvinnur bati, því lyktarskynið hafi horfið aftur fáeinum dögum eftir aðgerðina og hafi ekki komið síðan. Eins hafi ofholdgunin alltaf komið aftur og hafi stefnandi gengist undir allmargar aðgerðir þar sem hún hafi verið skafin burtu. Snemma árs 2000 hafi verið gerð tilraun til að loka gatinu milli munn- og nefhols, en sú aðgerð hafi mistekist þar sem beinplata, er græða átti í góm hans, greri ekki við. Jafnframt hafi ofholdgunin verið skafin brott. Um vorið hafi enn á ný þurft að skafa ofholdgunina brott, en þá hafi verið beitt staðbundinni meðferð er fúkkalyf, sterar og græðandi efni hafi verið borin á þann stað þar sem ofholdgunin óx. Hafi sú meðferð gagnast lengi vel, en svo hafi þó farið að ofholdgunin hafi komið aftur og væri nú orðin að viðvarandi vandamáli. Íslenskir læknar hafi ekki treyst sér til að meðhöndla líkamsmein stefnanda með þeim aðferðum og tækni sem fyrir hendi væru á Íslandi og hafi stefnandi því fengið samþykki Tryggingastofnunar til að leita sér lækninga hjá hópi sérfræðilækna í Bandaríkjunum sem getið hafi sér gott orð fyrir meðhöndlun meina af því tagi er hafi hrjáð stefnanda.
Alls hafi stefnandi undirgengist sex læknisaðgerðir hérlendis þar sem reynt hafi verið að vinna bug á vandamáli hans. Þá skipti tugum læknisvitjanir hans vegna eftirlits og annarrar meðhöndlunar og lyfja- og tannlæknakostnaður vegna meðhöndlunar sjúkdómsins, er rekja megi til mátefnisins og einkenna hans, nemi vel á aðra milljón króna.
Örn Bjartmars Pétursson tannlæknir hafi látist haustið 2000 en stefnda Kirsten F. Bjartmars hafi verið eiginkona hans og sitji hún í óskiptu búi samkvæmt búsetuleyfi sýslumannsins í Reykjavík, dagsettu 15. nóvember 2000.
Þann 2. nóvember 2000 hafi lögmaður stefnanda óskað eftir afstöðu réttargæslustefnda, sem ábyrgðartryggjanda tannlæknisins, til bótaskyldu vegna tjónsins sem um ræði en réttargæslustefndi hafi með bréfi 20. desember sama ár hafnað bótaskyldu vegna tjóns stefnanda og sé hann því knúinn til höfðunar málsins. Sé honum nauðsynlegt að fá bótaskyldu dánarbús Arnar viðurkennda með dómi svo að unnt verði að hefjast handa við að leggja mat á tjón hans.
Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á þeirri meginreglu að sá sem valdi öðrum manni tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti skuli greiða þeim manni skaðabætur er svari til tjóns hans. Örn Bjartmars tannlæknir hafi, er hann tók mát af gómi stefnanda, vanrækt að hyggja að því hvort mátefni kynni að hafa orðið eftir í gómnum, annaðhvort með því að leita þess ekki sjálfur með fullnægjandi hætti eða með því að mæla ekki svo fyrir um að stefnandi skyldi leita til háls-, nef- og eyrnalæknis í þessu skyni. Hafi það gáleysi hans leitt til þess að leifar af mátefni hafi setið eftir í beinglufu í gómi stefnanda og valdið þar víðtækum sýkingum sem hafi dreift sér í nef- og munnholi stefnanda þrátt fyrir brottnám efnisins og ítrekaðar tilraunir lækna til að hafa hemil á þeim. Með þessari háttsemi hafi Örn brotið þá meginskyldu hvers læknis að gæta þess að læknismeðferð valdi sjúklingi hans eigi skaða, sem og þá grunnreglu sem áréttuð sé í 1. mgr. læknalaga nr. 53/1988 að lækni beri að sinna störfum sínum af árvekni. Hafi sýkingar þær er orsakast hafi af ofangreindri háttsemi Arnar verið viðvarandi og valdið stefnanda ýmiss konar tjóni, sem krafist er að viðurkennt verði með dómi að séu á ábyrgð stefndu sem erfingja og umráðamanns dánarbús tjónvaldsins, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Stefnandi vísi til sakarreglunnar sem meginreglu íslensks skaðabótaréttar. Um faglegar skyldur tannlæknis við meðferð sjúklings sé vísað til 1. mgr. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 16. gr. laga um tannlækningar nr. 38/1985. Um ábyrgð tannlæknis á mistökum við meðferð sjúklings sé vísað til 2. mgr. 9. gr. læknalaga. Viðurkenningarkröfu sína byggi stefnandi á 2. mgr. 25. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Þá vísi stefnandi til 1. mgr. 130. gr. sömu laga um málskostnaðarkröfu sína og um varnarþing til 41. gr. laganna, en um aðild stefndu að málinu sem og ábyrgð hennar á greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns stefnanda til 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af stefndu hálfu er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi um árabil verið til meðferðar hjá Erni Bjartmars Péturssyni tannlækni vegna tanngóms, sem hann hafi þurft að nota, svo og vegna annars viðhalds á tönnum sínum. Skráðar komur stefnanda til Arnar séu frá 4. ágúst 1971 og allt til 5. maí 1998. Í nóvember 1995 hafi Örn annast smíði á nýjum gómi fyrir stefnanda. Samkvæmt skráningu á kort stefnanda hjá honum hafi mát fyrir gómnum verið tekið í byrjun nóvember 1995 og um miðjan sama mánuð hafi gómurinn verið tilbúinn. Þá hafi stefnandi verið til meðferðar hjá Erni, meðal annars í byrjun desember sama ár og síðan aftur í apríl 1996.
Stefnandi sé með klofinn góm en ekki liggi skýrt fyrir í gögnum málsins hvernig það lýsi sér að öðru leyti en því að gómurinn sé klofinn upp í hægri nös og að gat eða glufa nái úr munnholi upp í nefbotn. Stefnandi hafi farið í fjölmargar aðgerðir vegna þessa án þess að tekist hafi að loka glufunni. Ekkert liggi fyrir um þessar aðgerðir, hvenær þær hafi verið framkvæmdar eða ástæður þess að þær hafi ekki borið árangur.
Mátefni, eins og notað hafi verið í tilviki stefnanda þegar mát var tekið fyrir nýjum gervigómi í nóvember 1995, muni vera mjúkt, hlaup- eða gúmmíkennt efni, sem fylli upp í góminn, og eigi það því óhjákvæmilega greiða leið upp í glufuna milli munn- og nefhols. Þótt efnið sé hreinsað burt af kostgæfni hafi tannlæknirinn ekki tök á að ganga úr skugga um að tekist hafi að fjarlægja efnið algjörlega úr glufunni. Það hafi einmitt gerst þegar mát var tekið af nýjum gómi hjá stefnanda. Hafi Örn lagt ríka áherslu á að stefnandi færi til háls-, nef- og eyrnalæknis í því skyni að fjarlægja leifar mátefnisins, ef eitthvað af því hefði orðið eftir í beinglufunni.
Strax í byrjun árs 1996, eða um tveimur til þremur mánuðum eftir að smíði gervigómsins lauk, hafi fundist leifar af mátefninu við skoðun hjá Einari Thoroddsen lækni og sérfræðingi í háls-, nef- og eyrnalækningum. Engu að síður hafi honum ekki tekist að fjarlægja síðustu leifar efnisins fyrr en í ágúst 1998 og þá með því að svæfa stefnanda. Um leið hafi hann skafið ofholdgaða slímhúð, örvef, og hreinsað af beini. Engar skýringar sé að finna á því hvers vegna ekki var reynt að fjarlægja mátefnið burt með þessum hætti fyrr en gert var. Í millitíðinni hafi læknirinn reynt að fjarlægja það í ótal skipti. Mjög skammur tími hafi liðið frá því mátefnið var sett upp í stefnanda uns það fannst samanborið við allan þann tíma sem síðan leið uns tekist hafi að uppræta það endanlega. Allar líkur bendi því til að ofholdgunarvandamál stefnanda, verði þau á annað borð rakin til mátefnisleifanna, verði fyrst og síðast rakin til þess hversu langur tími leið frá því það fannst í ársbyrjun 1996 og þar til tókst að nema það endanlega á brott um tveimur og hálfu ári síðar. Við munnlegan málflutning var því mótmælt af hálfu stefndu að fyrir lægi sönnun um að efnið, sem Einar Thoroddsen fann í nefbotni stefnanda, hafi verið mátefni frá Erni heitnum Bjartmars.
Í bréfi Rolfs Hanssonar tannlæknis, dagsettu 5. maí 1995, segi að umtalsverð tannholdsbólga hafi verið umhverfis stoðtennur. Af þessu sé auðsætt að bólgumyndun eða ofholdgun hafi verið til staðar í tannholdi stefnanda löngu áður en mátefnið var sett upp í hann. Sé því mótmælt sem algjörlega ósönnuðu að óþægindi og sýkingar í munnholi og tannholdi verði rakin til mátefnisleifanna og því síður að saknæmum mistökum af hálfu Arnar Bjartmars verði þar kennt um. Þá hafi stefnandi um langa hríð átt við bólguvandamál að stríða í hægri kjálkaholu. Sé allsendis ósannað að vandamál þar séu nú af öðrum orsökum en áður. Þá sé ósannað af fyrirliggjandi gögnum að tapað lyktarskyn stefnanda, eða vandamál vegna ofholdgunar, megi rekja til mátefnisins eða einhverra annarra atvika sem virt verði Erni til sakar.
Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um að læknismeðferð, sem stefnandi hafi þurft að gangast undir frá árinu 2000, verði rakin til mátefnisins eða á annan hátt til þeirrar meðferðar sem hann hafi fengið hjá Erni Bjartmars vegna mátunar fyrir nýjum tanngómi í nóvember 1995. Hið sama gildi um læknishjálp í Bandaríkjunum.
Örn Bjartmars hafi á allan hátt staðið tilhlýðilega að verki þegar stefnandi var til meðferðar hjá honum vegna smíði á hinum nýja tanngómi. Hann hafi gert það sem í hans valdi stóð til að upplýsa stefnanda og ráðleggja honum til að tryggja að hugsanlegar leifar mátefnisins yrðu fjarlægðar strax að lokinni máttöku, en gagnstæðum fullyrðingum af hálfu stefnanda sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Fráleitt sé að stefndu geti með einhverjum hætti borið ábyrgð á sjúkdómsástandi stefnanda.
Mótmælt sé að Örn heitinn hafi ekki gætt þess að valda stefnanda ekki skaða og að hann hafi ekki sinnt starfi sínu af árvekni. Sé af og frá að Örn hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmri háttsemi eða háttsemi sem á einhvern hátt hafi farið í bága við ákvæði læknalaga nr. 53/1988 eða laga um tannlækningar nr. 38/1985.
Málskostnaðarkröfur stefndu séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndu hafi ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi með höndum og sé því nauðsyn að tekið verði tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
Niðurstaða
Stefnandi hafði klofinn góm upp í hægri nös þegar Örn heitinn Bjartmars tannlæknir tók mát af gómi hans 2. nóvember 1995 eins og hér að framan er rakið. Telja verður að með gögnum málsins sé sannað að hvítlitað efni, sem Einar Thoroddsen háls-, nef- og eyrnalæknir fann í nefbotni stefnanda í byrjun árs 1996 og fjarlægði að hluta þá og einnig síðar, hafi verið leifar af mátefni sem Örn heitinn notaði í umræddu tilviki. Í tannlæknaskýrslu Arnar heitins kemur fram að við máttöku var notað efnið tissue conditioner. Efni þetta getur verið glært en orðið hvítt og matt að einhverjum tíma liðnum frá notkun.
Þegar stefnandi fann fyrir óþægindum og öðrum einkennum í nefi, einkum nefstíflu, nokkru eftir að umrætt mátefni var notað, leitaði hann til háls-, nef- og eyrnalæknis. Læknirinn skýrði svo frá fyrir dóminum að stefnandi hafi komið til hans í byrjun árs 1996 og þá hafi ólykt verið úr nösinni. Nösin hafi verið þröng þrátt fyrir aðgerð sem framkvæmd var á árinu 1986 til að lagfæra misfellur á henni. Bólga hafi verið í slímhúð. Allt í einu hafi glitt í eitthvað hvítt í nefbotninum. Læknirinn kvaðst hafa byrjað að narta í þetta efni og hafi hann náð út einhverju af því en það hafi setið rígfast. Hann hafi síðan náð efninu út smátt og smátt en vegna þess hve erfitt var að ná því hafi endað með því að hann hafi þurft að taka það út í svæfingu nokkru síðar, en í vottorði hans frá 30. nóvember 2000 og greinargerð, dagsettri 27. nóvember 2002, kemur fram að það hafi verið í ágúst 1998. Efnið hafi væntanlega verið í sprungunni í gómnum vegna klofnunarinnar. Glufan sé mjög þröng og sprungan sjáist ekki nema með því að þreifa hana. Allt hafi verið mjög þétt þarna, enda slímhúð bólgin og ofholdgun til staðar. Hann lýsti efninu þannig að það líktist helst frosnu tyggjói. Sá tími sem tók að ná efninu burtu hafi getað haft áhrif vegna þess að því lengur sem sýkingarvaldur sitji því meiri hætta sé á þrálátum bólgum og sýkingavandamálum. Efnið hafi sést illa. Þarna hafi verið þröng glufa og þar hafi setið eitthvað sem erfitt geti verið að meta hvenær hafi náðst að fullu. Væntanlega hafi efnið ekki sést frá munni. Ekki eigi að vera nauðsynlegt að sjúklingur fari í skoðun til háls-, nef- og eyrnalæknis eftir máttöku enda eigi efni ekki að sitja eftir og þess vegna eigi ekki að vera þörf á slíkri skoðun. Efnið eigi allt saman að fara með mátinu um leið og það sé fjarlægt.
Dómurinn telur með vísan til þess sem fyrir liggur ósannað að Örn heitinn hafi vanrækt að leita að mátefni í munni eða gómi stefnanda að máttöku lokinni þrátt fyrir að efnið hafi síðar fundist í nefbotni stefnanda enda nægir það ekki sem sönnun fyrir því að unnt hafi verið að finna efnið frá munnholi. Eins og fram hefur komið er sprungan, sem mátefnið hefur væntanlega náð að festast í, mjög þröng. Endurteknar aðgerðir á gómnum hafa hugsanlega þrengt enn frekar svæðið sem um ræðir og þannig aukið hættu á að mátefni yrði eftir. Líklegt þykir að símhúð hafi gefið eftir þegar mátefninu var þrýst á góminn og að efnið hafi þrengt sér inn í glufuna sem hefur svo lokast að hluta aftur. Þetta telur dómurinn að gerst hafi fyrir óhappatilviljun. Vegna atvika og aðstæðna, sem hér hefur verið lýst, er alls óvíst að efnið hefði fundist þrátt fyrir leit að því samkvæmt hefðbundnum vinnuaðferðum og að viðhafðri eðlilegri aðgæslu. Er því ósönnuð meint vanræksla Arnar heitins að þessu leyti.
Engin haldbær gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta að Örn heitinn hafi vísað stefnanda til háls-, nef- og eyrnalæknis að lokinni máttöku 2. nóvember 1995 til að unnt væri að ganga úr skugga um að mátefni hefði ekki orðið eftir eins og raun varð á. Dómurinn telur ósannað að venja sé að vísa sjúklingi til sérfræðings í því skyni að hann leiti að mátefnum eftir máttöku enda hljóti það að fara eftir aðstæðum og þörfum hverju sinni og því matsatriði hvenær slíkar leiðbeiningar eigi við. Engu breytir í því sambandi þótt því sé haldið fram af stefndu að starfsvenja hafi verið hjá Erni heitnum að ráðleggja sjúklingum að leita til sérfræðings í þessu skyni. Stefnandi fékk einkenni frá nefi tiltölulega skömmu eftir að mátefnið varð eftir í sprungunni. Hann leitaði þá fljótlega til háls-, nef- og eyrnalæknis, eins og áður er komið fram. Út frá fyrirliggjandi þekkingu og reynslu af aðskotahlutum í nösum má leiða að því sterkar líkur að hefðu allar mátefnisleifar verið fjarlægðar þegar þær fundust í byrjun árs 1996, eða strax í kjölfarið, hefði stefnandi ekki orðið fyrir því heilsutjóni er síðar varð. Þeir fylgikvillar sem lýst er í málatilbúnaði stefnanda eru á hinn bóginn eðlileg afleiðing af því hve langan tíma tók, þ.e. að minnsta kosti tvö eða tvö og hálft ár, að ná leifum af mátefninu úr sprungunni. Af þessu leiðir að ósannað er að vandamál stefnanda hafi verið afleiðing af hinni meintu vanrækslu Arnar heitins á að veita stefnanda fyrirmæli um að leita til háls-, nef- og eyrnalæknis í því skyni að unnt væri að leita að leifum af mátefni í gómi stefnanda.
Að fengnum þessum niðurstöðum verður að telja ósannað að Örn heitinn Bjartmars hafi valdið stefnanda tjóni sem stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir við eða í kjölfar læknismeðferðar Arnar heitins á árinu 1995. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennd verði bótaskylda þeirra vegna hins meinta tjóns stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 416.100 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Halldórs Backmans hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án þess að tillit hafi verið tekið til virðisaukaskatts.
Dóminn kveða upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari og meðdómendarnir Magnús Björnsson tannlæknir og Þórir Bergmundsson háls-, nef- og eyrnalæknir.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Kirsten F. Bjartmars og dánarbú Arnar Bjartmars Péturssonar, skulu sýkn vera af kröfum stefnanda, Andrés Bachmanns Sigurðssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 416.100 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Halldórs Backmans hdl., 400.000 krónur.