Hæstiréttur íslands
Mál nr. 501/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
|
|
Mánudaginn 10. ágúst 2015. |
|
Nr. 501/2015.
|
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2015.
Með beiðni, sem móttekin var 22. júlí sl., hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], [...], nú nauðungarvistaður frá 2. júlí 2015 á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, verði sviptur sjálfræði tímabundið í sex mánuði, sbr. a- og b-lið 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, en Reykjavíkurborg stendur að beiðni sjálfræðissviptingar varnaraðila. Fram kemur í kröfu að foreldrum varnaraðila hafi verið gert viðvart um beiðnina.
Fram kemur í kröfu að varnaraðili hafi verið nauðungarvistaður í 48 klst. á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þann 30. júlí 2014 eftir að lögreglan ók honum á geðdeild með geðrofseinkenni. Í kjölfarið hafi velferðarsvið Reykjavíkurborgar staðið að beiðni, dags. 12. september 2014, um nauðungarvistun í 21 dag skv. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Krafa máls þessa sé gerð á tímabili yfirstandandi nauðungarvistunar.
Krafa sóknaraðila grundvallast á a- og b-lið 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þar sem varnaraðili eigi við alvarlega geðhvarfasýki að stríða ásamt fíknivanda og sé því ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum í bráð. Varnaraðili sé 31 árs gamall karlmaður, sem greinst hafi með geðhvarfasýki árið 2006 og hafi auk þess glímt við fíknisjúkdóm með hléum, en hann hafi að undanförnu verið í neyslu kannabisefna. Hann sé öryrki og búi einn í leiguíbúð. Hann eigi von á sínu fyrsta barni á þessu ári með konu, sem hann sé ekki í sambandi með. Varnaraðili eigi að baki tíu innlagnir á geðdeildir Landspítalans frá árinu 2006 til maí 2014 og ástæður innlagna hafi yfirleitt verið manía með og án geðrofseinkenna auk fíkniefnaneyslu.
Í nóvember 2013 hafi varnaraðili verið sviptur sjálfræði tímabundið í sex mánuði, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 29. nóvember 2013, og í kjölfarið hafi hann um tíma verið í eftirliti hjá geðteymi þjónustumiðstöðvar Breiðholts, en verið útskrifaður þaðan í febrúar 2015 þar sem ítrekað hafði verið reynt að ná sambandi við hann án árangurs. Nýlega hafi hann þó hafið neyslu kannabisefna að nýju. Varnaraðili hafi komið á geðdeild 1. júlí 2015 í fylgd lögreglu eftir að hafa óskað sjálfviljugur eftir sárameðferð á heilsugæslunni í [...]. Hann hafi verið æstur, truflandi og vaðið um gólf. Tíu dögum fyrir innlögn hafi borið á miklu örlæti hjá varnaraðila, en um það leyti hafi hann misst vinnu vegna ógnandi hegðunar í garð viðskiptavina og annarra starfsmanna. Hann hafi sótt mikið í foreldra sína og meðal annars haft samband við þau á nokkurra klukkustunda fresti að næturlagi og brotið hurðarkarm þegar hann fékk ekki umsvifalaust bílfar með móður sinni. Þá hafi lögregla haft afskipti af honum 29. júní 2015 þar sem hann var á nærbuxunum einum klæða. Jafnframt hafi hann stolið bifreið geðteymis [...] og verið handtekinn vegna þess máls.
Í málinu liggur fyrir vottorð B geðlæknis á bráðageðdeild 32C á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 16. júlí 2015. Þar segir að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sjúkdómsgreiningar varnaraðila séu bipolar affective disoder, current episode manic with psychotic symtoms, F31.2 og Mental and behavioural disorders due to use of cannabinoids dependence syndrom, F12.2. Í vottorðinu kemur fram að eftir komu á geðdeild hafi varnaraðili reykt kannabisefni, sem honum hafi tekist að koma þangað inn. Í viðtali 2. júlí sl. hafi varnaraðili verið mjög æstur og eftir að honum hafi veið tjáð að læknir teldi að hann þyrfti að vistast áfram á deildinni til að fá meðferð við örlyndi sínu, þá hafi hann um stund verið mjög andvígur en loks fallist á að taka geðlyf.
Þá hafi verið talið óhjákvæmilegt að standa að nauðungarvistun í 48 klst. skv. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Í kjölfarið hafi velferðarsvið Reykjavíkurborgar staðið að nauðungarvistun í 21 dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, með beiðni, dags. 3. júlí 2015, sem samþykkt hafi verið af hálfu innanríkisráðuneytisins. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi hafnaði kröfu varnaraðila um að samþykki innanríkisráðuneytisins yrði fellt úr gildi og þeirri niðurstöðu hafi varnaraðili tekið illa. Varnaraðili hafi síðan strokið af geðdeild sama dag og hafi ekki fundist fyrr en rúmum sólarhring síðar og þá hafi hann neytt kannabisefna og ekkert sofið.
Samkvæmt vottorði B geðlæknis hefur varnaraðili ítrekað hótað starfsfólki spítalans lífláti, meiðingum og nú síðast innbrotum og stuldi. Ekki sé metið svo að hann sé ofbeldismaður í eðli sínu þótt læknum sé ekki ljós hugsanleg afbrotasaga. Í núverandi ástandi sé hins vegar ekki hægt að útiloka þá hættu þar sem hann sé ör, pirraður, markalaus og hvatvís. Sé sjúkrasaga hans metin virðist varnaraðili hafa náð bestum tíma í kjölfar sjálfræðissviptingar árið 2013.
Í niðurstöðu vottorðs læknis segir að varnaraðili hafi ekki í þessari legu sýnt batamerki eftir framfarir fyrstu sólarhringana. Þá hafi varnaraðili þrátt fyrir reynslu sína ekki innsæi í að hann sé veikur og hvað þurfi til þess að ná og síðar viðhalda bata. Þá hafi hann óraunhæf plön og hugmyndir um neysluvanda sinn og hvernig hann muni stjórna honum í framtíðinni.
Þá segir orðrétt í vottorði læknis:
„Þrátt fyrir meðferð með jafnvægislyfjum [...] og geðrofslyfjum [...] í 16 daga þá er [varnaraðili] enn mjög ör, marklaus og ítrekað hótandi í samskiptum. Það er mat undirritaðs að [varnaraðili] þurfi á áframhaldandi meðferð næstu mánuði og tryggja þurfi meðferðarrammann með sjálfræðissviptingu. Ef til þess kæmi myndi [varnaraðili] að líkum leggjast inn á endurhæfingarsvið geðsviðsins þegar bráðafasa lýkur og í framhaldi útskriftar vera í viku eftirliti með lyfjagjöf. Undirritaður styður og mælir með sjálfræðissviptingu til sex mánaða.“
B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorð sitt. Hann kvaðst sem sérfræðingur vera ábyrgur fyrir meðferð varnaraðila í innlögn hans nú. Hann lýsti því að varnaraðili hafi verið æstur og ógnandi er hann var lagður inn og staðfesti að varnaraðili væri haldinn geðhvarfasýki og kannabisfíkn. Varnaraðili sýni vissan bata en sé innsæislaus á veikindi sín og telji örlyndi eðlilegt ástand og annað ástand óeðlilegt. Varnaraðili sé andvígur lyfjatöku en láti til leiðast við þær aðstæður sem hann sé í en sé mótfallinn því að taka önnur lyf utan deildar en róandi eða örvandi. Því beri brýna nauðsyn til að hann verði sviptur sjálfræði í sex mánuði, en að öðrum kosti muni veikindi varnaraðila versna og koma til innlagnar að nýju fljótlega.
Dómari ásamt verjanda varnaraðila og talsmanni sóknaraðila ræddu við varnaraðila þar sem hann var á deild 32C á geðdeild LSH, en starfsmenn geðdeildar töldu ekki fært að láta varnaraðila koma fyrir dóm. Varnaraðili gerði grein fyrir afstöðu sinni til fram kominnar kröfu og mótmælti henni, kvaðst örlyndur og hafa í æsku verið greindur með ADHD, en ekki vera haldinn geðhvarfasýki. Hann kvaðst hafa dregið til baka hótanir sínar í garð B og gaf skýringar á stroki sínu af geðdeild, en það hafi hann gert til að hlífa starfsfólki við framkomu sinni, en hann hafi verið þungur og fúll.
Verjandi varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og krefst hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 17. gr. lögræðislaga.
Niðurstaða
Með vottorði og skýrslu geðlæknisins B er í ljós leitt að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og kannabisfíkn. Telja verður að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og sjúkdómssögu varnaraðila, sem nær yfir langan tíma eða allt frá árinu 2006, að tímabundin sjálfræðissvipting til sex mánaða sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu hans. Reynslan sýnir að nauðsynleg læknishjálp og meðferðarúrræðum verður ekki viðkomið þar sem sem varnaraðili hefur skv. vottorði læknisins hvorki innsæi í veikindi sín né í hvað þurfi til þess að ná og síðar viðhalda bata. Vægari úrræði komi því ekki að haldi og telja verður að meðalhófs sé gætt með mörkum sjálfræðissviptingar til sex mánaða. Þá hefur geðlæknir gert grein fyrir því hvaða meðferðarúrræðum þurfi að grípa til.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið er talið uppfyllt séu að skilyrði a- og b-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett.
Með vísan til 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður málsins úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði og er þóknunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Allur kostnaður málsins, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 136.400 kr. greiðist úr ríkissjóði.