Hæstiréttur íslands

Mál nr. 673/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæruvald
  • Niðurfelling saksóknar
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 17. október 2014

Nr. 673/2014

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Helgi Bragason hrl.)

Kærumál. Ákæruvald. Niðurfelling saksóknar. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tilgreindum lið í ákæru á hendur X var vísað frá dómi. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að eftir það tímamark að mál vegna sakarefnis ákæruliðarins var fellt niður á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, hefðu ekki komið fram ný gögn í skilningi 3. mgr. 57. gr. laganna sem réttlætt gætu ákvörðun ákæruvaldsins um að ákæra allt að einu í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. október 2014 þar sem einum lið í ákæru ríkissaksóknara 27. september 2013 á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka umræddan ákærulið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Enda þótt mál hafi verið fellt niður á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 stendur það ekki fortakslaust því í vegi að það verði af ákæruvaldsins hálfu endurupptekið á grundvelli nýrra gagna samkvæmt lögjöfnun frá 3. mgr. 57. gr. laganna, sem fjallar um slíka heimild lögreglu til handa, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 228/1997 á blaðsíðu 1890 í dómasafni þess árs. Mál vegna sakarefnis þess sem 1. liður ákæru tekur til var fellt niður af ákæruvaldsins hálfu samkvæmt ákvörðun sýslumannsins í [...] 24. júní 2011 þrátt fyrir kæru brotaþola 13. apríl sama ár. Eftir fyrrgreinda tímamarkið komu ekki fram ný gögn í skilningi 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 sem réttlætt gætu ákvörðun ákæruvaldsins um að ákæra allt að einu í málinu. Framburður dóttur brotaþola um líkamárás þá sem umræddur ákæruliður tekur til er ekki nýtt gagn í framangreindum skilningi enda lá vitneskja um mögulegan vitnisburð hennar fyrir í skýrslugjöf brotaþola hjá lögreglu 13. apríl 2011. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. október 2014.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 27. september 2013 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...],

„fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart sambýliskonu sinni A, kennitala [...], framin á heimili þeirra að [...], [...]:

1.       Líkamsárás með því að hafa, skömmu fyrir jólin 2009, slegið A hnefahöggi í vinstri vanga með þeim afleiðingum að hún kjálkabrotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.       Ólögmæta nauðung, með því að hafa, sumarið 2010, með ofbeldi dregið A, sem var nakin, út af heimili sínu, ýtt henni niður á gangstéttina og ekki  hleypt henni inn þrátt fyrir að hún reyndi að fá hann til að opna fyrir sér.

Telst þetta varða við 225. gr. almennra  hegningarlaga.

3.       Líkamsárás með því að hafa, sunnudaginn 3. október 2010 slegið A í vinstri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún hlaut þar marblett.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

4.       Ólögmæta nauðung, með því að hafa, fyrri part ársins 2011, þegar kalt var í veðri, með ofbeldi hent A, sem var einungis klædd í bol og buxur, út af heimili sínu.

Telst þetta varða við 225. gr. almennra  hegningarlaga.

5.       Líkamsárás með því að hafa, laugardaginn 2. apríl 2011, slegið A í hægri upphandlegg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

6.       Líkamsárás, með því að hafa, sunnudaginn 3. apríl 2011, hrint A með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti með höfuðið á flísalögðum kanti. Af atlögunni hlaut A sár á enni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra  hegningarlaga.

7.       Líkamsárás, með því að hafa, föstudaginn 2. mars 2012, slegið A í ennið með þeim afleiðingum að hún féll úr stól á miðstöðvarofn og fékk skurð á enni upp við hársvörð.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Mál þetta var þingfest þann 14. nóvember 2013 en í þinghaldi þann 13. febrúar sl. lagði verjandi ákærða fram kröfu um frávísun málsins í heild eða að hluta. Málflutningur um kröfuna fór fram þann 13. mars sl. og þann 12. júní sl. var kveðinn upp úrskurður þar sem vísað var frá dómi 1. tölulið ákærunnar en að öðru leyti var frávísunarkröfu ákærða hafnað. Frávísunarþætti úrskurðarins var skotið til Hæstaréttar sem með dómi uppkveðnum þann 18. ágúst sl. ómerkti hinn kærða úrskurð og vísaði málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar úrskurðar að nýju. Sá málflutningur fór fram þann 11. september sl.

Málavextir.

Samkvæmt lögregluskýrslu, sem dagsett er 29. janúar 2010, tilkynnti B, starfsmaður fjölskyldu- og fræðslusviðs [...], til lögreglu að A, [...], [...], hefði orðið fyrir líkamsárás af hálfu sambýlismanns hennar, ákærða í máli þessu, þann 23. desember árið áður. Kvað B brotaþola ekki hafa tilkynnt þetta fyrr en þann 27. janúar sama ár og hefði verið farið með hana á Heilsugæslu [...] þar sem komið hefði í ljós að hún væri kjálkabrotin. Þann 22. júlí sama ár mætti brotaþoli hjá lögreglu og kvaðst ekki vilja leggja fram kæru á hendur ákærða, en hann hefði lamið hana hnefahöggi í andlitið þannig að hún hafi kjálkabrotnað. Hafi þau verið að skemmta sér og verið við drykkju og morguninn eftir hefði hún verið á neðri hæðinni að reykja þegar ákærði hefði gengið að henni og slegið hana hnefahöggi  sem komið hafi á kjálkann vinstra megin. Kvaðst hún ekkert hafa gert í þessu fyrr en löngu seinna þegar hún hafi hringt í félagsþjónustuna í [...] og beðið um aðstoð. Hafi starfsmaður félagsþjónustunnar farið með hana til læknis og hafi sést á myndum að hún væri kjálkabrotin. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 22. september sama ár og neitaði sök.

Með bréfum dagsettum 24. júní 2011 til ákærða og brotaþola tilkynnti lögreglustjórinn í [...] að það væri mat ákæruvaldsins að það sem fram hefði komið við rannsókn málsins væri hvorki nægjanlegt né líklegt til sakfellis. Hefði því verið ákveðið með vísan til 145. gr. laga um meðferð sakamála að fella málið niður. 

Þann 13. apríl 2011 mætti brotaþoli hjá lögreglu í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot, líkamsárásir, hótanir og frelsissviptingu. Kvað brotaþoli ofbeldi af hálfu ákærða í hennar garð hafa staðið yfir frá upphafi sambúðar þeirra árið 2005. Hafði verið um nánast vikulegan viðburð að ræða, alltaf á heimili þeirra, og hefði það yfirleitt tengst áfengisneyslu þeirra beggja. Ákærði hafi tvívegis nauðgað henni í endaþarm og í nokkur skipti þvingað hana til að hafa munnmök við hann. Hafi hann hótað því að hún myndi hverfa ef hún kærði hann. Ákærði hafi í eitt skipti stöðvað hana þegar hún hugðist fara út af heimilinu eftir að hann hafi lagt á hana hendur. Hann hafi yfirleitt notað hnefana á hana og slegið hana í upphandleggi þannig að hún hafi fengið marbletti og verið mjög aum í handleggjunum. Þá hafi hann kjálkabrotið hana einu sinni, eða þann 19. desember 2009. Þann 3. apríl 2011 hafi hann hent henni inni í þvottahúsinu þannig að hún hafi rekið höfuðið í flísabrún og fengið skurð ofan við hægra auga.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 9. maí 2011 og neitaði sök en kannaðist við að hafa hrint brotaþola þannig að hún féll á flís og þá kannaðist hann við að hafa oft tekið utan um hana og gæti hún hafa fengið marbletti við það. Þá kannaðist hann við að hafa í einhver skipti hent brotaþola út af heimilinu en hún hafi ekki verið nakin.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 18. apríl 2012 í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot, hótanir og líkamsárásir. Þá skýrði hún m.a. frá því að þann 2. mars sama ár hafi ákærði slegið til hennar þar sem hún sat á stól með þeim afleiðingum að hún hafi fallið á miðstöðvarofn og fengið skurð á ennið. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 4. maí sama ár og neitaði sök.

Frávísunarkrafa ákærða.

Ákærði byggir á því að með bréfi dagsettu 24. júní 2011 hafi honum verið tilkynnt um niðurfellingu saksóknar í máli nr. 32-2010-[...] og hafi samrit verið sent til brotaþolans A. Bréf sama efnis hafi verið sent réttargæslumanni brotaþola þann 29. júlí sama ár. Í bréfunum sé tekið fram að heimilt sé að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni innan 14 daga frá dagsetningu bréfanna en það hafi ekki verið gert. Þá hafi brotaþola og lögmanni hennar verið bent á að heimilt væri að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá tilkynningunni en það hafi ekki verið gert. Ákærði bendir á að hann hafi ekki notið lögmannsaðstoðar þegar hann hafi fengið framangreint bréf og því hafi hann staðið í þeirri trú að öll mál sem hann hefði verið kærður fyrir fram til dagsetningar bréfsins, þ.e. liður 1-6 í ákæru, væru búin og hefðu ekki frekari eftirmála, enda hefði hann neitað sök afdráttarlaust í öllum skýrslutökum. Honum hafi síðan verið birt ákæra rúmum tveimur árum frá framangreindu bréfi. Ákærði bendir á að samkvæmt 145. gr. og 147. gr. laga um meðferð sakamála geti ákærandi fellt mál niður. Þar sé einnig kveðið á um rétt brotaþola og lögmanns hans til að kæra þá ákvörðun og einnig um rétt héraðssaksóknara til að fella ákvörðun lögreglustjóra/ákæranda niður, en frestir samkvæmt lögunum séu löngu liðnir.  Þá liggi hvorki fyrir neinar skýringar á þeim drætti sem orðið hafi né af hverju saksóknari taki ákvörðun um að taka málið upp að nýju.

Þá krefst ákærði frávísunar á þeim grundvelli að skýrleika verknaðarlýsingar í ákæru sé mjög áfátt, en m.a. séu þrír ákæruliðir taldir hafa átt sér stað á mjög víðu tímabili, þ.e. 1. tl. „skömmu fyrir jólin 2009“, 2. tl. „sumarið 2010“ og 4. tl. „fyrri part ársins 2011“. Verði að skoða alla þessa þætti í ljósi þess hve langur tími sé liðinn frá ætluðum atburðum og hafi málið dregist mjög í meðförum ákæruvalds og sönnun og varnir erfiðar með vísan til óskýrleikans. Í ljósi þessa er þess krafist aðallega að málinu verði í heild vísað frá dómi en til vara að hluta ákæruliðanna nr. 1-7 verði vísað frá dómi.

Niðurstaða.

Samkvæmt gögnum málsins tók lögreglustjórinn í [...] þá ákvörðun þann 24. júní 2011 að fella niður mál nr. 32-2010-[...], en ríkissaksóknari hefur með ákæru í máli þessu ákveðið að höfða mál á hendur ákærða vegna þess sakarefnis sem lögreglustjóri hafði fellt niður. Er þar um að ræða 1. ákærulið í máli þessu. Ákvörðun um niðurfellingu málsins var tilkynnt ákærða með bréfi dagsettu sama dag og brotaþola var tilkynnt um niðurfellinguna með bréfi dagsettu 29. júlí sama ár. Í bréfinu kemur fram að rannsókn málsins sé lokið og hafi rannsóknargögn verið yfirfarin með hliðsjón af 145. gr. laga nr. 88/2008 þar sem það sem komið hafi fram við rannsókn málsins hafi eigi verið talið nægjanlegt eða líklegt til sakfellis. Þá er einnig tekið fram í bréfinu að lögreglan hafi tekið ákvörðun um að rannsaka málið að eigin frumkvæði, sbr. 2. mgr. 52. gr. sömu laga, en brotaþoli hafi ekki kært árásina til lögreglu. Ríkissaksóknari óskaði eftir skýringum lögreglustjóra á niðurfellingu málsins með tölvupósti þann 23. ágúst 2013 og þá er jafnframt bent á að brotaþoli hafi lagt fram kæru í skýrslutöku þann 13. apríl 2011, sbr. mál nr. 032-2011-[...]. Svarbréf lögreglustjórans í [...] er dagsett þann 18. september 2013 og þar er lýst þeim atriðum sem gætu hafa vegið talsvert við ákvörðun um niðurfellingu málsins. Er þar um að ræða að brotaþoli kæri ekki hið ætlaða atvik, lögreglu berist ekki vitneskja um atvikið fyrr en  rúmum mánuði síðar, óljóst sé hvenær árásin eigi að hafa átt sér stað, brotaþoli leiti ekki til læknis fyrr en rúmum mánuði eftir hina ætluðu árás, engin vitni hafi verið að atburðinum og grunaði neiti sök. Lögreglustjóri tekur fram að varðandi kæru í máli nr. 032-2011-[...], sem varði aðallega brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga, en taki einnig til þessa máls, þá hafi það mál verið undir forræði lögreglustjórans á [...] og geti lögreglustjórinn ekki séð annað en að vitneskja um nýja afstöðu brotaþola, sem fram komi í skýrslutökum í apríl 2011, hafi ekki legið fyrir hjá embættinu á þessum tíma.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglunni í [...] vegna máls nr. 32-2010-[...] þann 22. september 2010. Ákærði var síðan yfirheyrður vegna máls nr. 032-2011-[...] hjá lögreglunni á [...] þann 9. maí 2011, en þá lá fyrir kæra sem brotaþoli hafði komið á framfæri við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 13. apríl sama ár. Í skýrslutöku yfir brotaþola er vísað til málsnúmersins 32-2010-[...] og í skýrslutöku þann 9. maí sama ár er ákærði spurður um þær sakargiftir sem 1. ákæruliður tekur til. Ákærði er aftur yfirheyrður vegna máls nr. 32-2011-[...] þann 4. maí 2012, en í þeirri skýrslutöku er ekkert vikið að þeim sakargiftum er 1. ákæruliður tekur til. Þegar hér var komið sögu hafði lögreglustjórinn í [...] fellt niður mál nr. 32-2011-[...] og stóð ákærði í þeirri trú að það mál væri úr sögunni þar til honum var birt  ákæra í máli þessu þann 9. október 2013 samkvæmt gögnum málsins.

Samkvæmt 4. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008 getur héraðssaksóknari fellt ákvörðun lögreglustjóra úr gildi að eigin frumkvæði ef hann telur hana andstæða lögum eða fjarstæða að öðru leyti, enda sé það gert innan tveggja mánaða frá því að hún var tekin. Ríkissaksóknari getur með sama skilorði fellt úr gildi þá ákvörðun héraðssaksóknara eða lögreglustjóra að fella mál niður eða falla frá saksókn. Ákæra vegna 1. tl. ákæru í máli þessu var gefin út þann 27. september 2013 og var þá framangreindur frestur löngu liðinn. Ber því að vísa 1. tl. ákærunnar frá dómi.

Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó má sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt tilgreind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna. Dómari getur gefið aðilum færi á að tjá sig um atriði að þessu leyti, ef þurfa þykir. Samkvæmt framansögðu verður ákæru ekki vísað frá dómi af þessum sökum en ákærða gefst kostur á að koma að vörnum í samræmi við framangreint lagaákvæði við efnismeðferð málsins.  

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá dómi 1. tl. ákæru í máli þessu. Að öðru leyti er frávísunarkröfu ákærða  hafnað.