Hæstiréttur íslands

Mál nr. 460/2011


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 26. janúar 2012.

Nr. 460/2011.

 

 

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Grétari Torfa Gunnarssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa á dvalarstað sínum þröngvað A til munnmaka, samræðis og endaþarmsmaka með ofbeldi. Framburður A fékk stuðning í læknisfræðilegum gögnum og þóttu lýsingar vitna á ástandi A eftir samskipti þeirra X ekki samræmast framburði X um A hefði verið samþykk því að eiga við hann kynferðismök eða að X hefði haft réttmæta ástæðu til að ætla að svo hefði verið. Þótti framburður X ótrúverðugur og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var vísað til 1., 2. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár. Litið var til einbeitts brotavilja X, alvarleika brotsins og þeirra líkamlegu áverka og vanlíðan sem A hlaut af brotinu. X var einnig gert að greiða A 1.200.000 krónur ásamt vöxtum í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.800.000 krónur auk vaxta eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til einbeitts brotavilja hans, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þeirra atriða sem um getur í héraðsdómi og er hún ákveðin fangelsi í 4 ár. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Ákærði, Grétar Torfi Gunnarsson, sæti fangelsi í 4 ár.

         Ákvæði héraðsdóms um bætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

         Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 711.487 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. maí 2011, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni 10. mars 2011 á hendur Grétari Torfa Gunnarssyni, kennitala [...], [...],[...], „fyrir nauðgun með því að hafa árla morguns laugardaginn 5. júní 2010, á dvalarstað sínum að [...], Reykjavík, með ofbeldi þröngvað A til munnmaka, samræðis og endaþarmsmaka, en ákærði hrinti A á rúm sitt, klæddi hana úr fötum, reif í hár hennar, hélt um háls hennar, togaði í hálsmen svo þrengdi að hálsi hennar og reif af henni gleraugu. Við atlöguna hlaut A sprungu og roða í endaþarmi, marbletti á læri og rasskinn, eymsli yfir nefrót og í hnakka auk þess sem hár losnaði úr hársverði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940“.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. júní 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bótakrafa verði lækkuð verulega. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.

Málsatvik

                Laugardagsmorguninn 5. júní 2010, klukkan 7.46, var lögregla kvödd að [...] í Reykjavík, þar sem kona hefði óskað aðstoðar Neyðarlínu vegna nauðgunar. Á vettvangi hittu A, sem sat á grasbala við götuna, og var hún flutt á Neyðarmóttöku. Lögreglukona ræddi við A í sjúkrabifreiðinni á leiðinni á Neyðarmóttöku. Er lýsing A á málsatvikum og verknaðinum skráð í skýrslu lögreglu. Kemur þar fram að brotið hefði átt sér stað í samkvæmi skömmu áður og að af frásögn stúlkunnar hefði mátt ráða að um fullframinn verknað hafi verið að ræða og gerandinn hefði beitt hana þvingunum. Þá kemur fram í skýrslunni að A hafi grátið og verið í miklu tilfinningalegu uppnámi. Hún hafi lýst gerandanum og herberginu þar sem atvikið hefði átt sér stað. Hún hafi m.a. tekið fram að hún hefði grátið í kodda sem var í rúminu, en hún hefði verið með svarta augnmálningu. Þá hefði hún skilið sokkana sína eftir í herberginu. Á slysadeild kom vinkona A, B, sem kvaðst hafa verið með henni um nóttina og hefðu þær endað í samkvæmi í íbúð að [...]. Lögreglumenn fóru í íbúðina og hittu ákærða þar fyrir. Í skýrslu lögreglu um lýsingu á vettvangi kemur m.a. fram að svört augnmálning hafi sést á hvítum kodda sem var í rúmi ákærða og eru ljósmyndir af koddaveri meðal gagna málsins. Þá hafi fundist sokkar á gólfinu, sem komu heim og saman við fótastærð A. Var ákærði handtekinn.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu samdægurs. Hann greindi svo frá að hann hefði verið að skemmta sér um nóttina ásamt C og tveimur piltum frá Bandaríkjunum, sem dveldust hjá þeim í íbúðinni sem þeir hefðu á leigu á [...]. Þeir hefðu hitt tvær stúlkur á veitingastað í miðborginni og hefðu þær fylgt þeim heim. Ákærði kvaðst hafa verið með annarri stúlkunni, sem hann þekkti ekki með nafni. Þau hefðu haft kynferðismök og hefði það verið með fullu samþykki hennar. Ákærði tók fram að stúlkan hefði að vísu ekki samþykkt sérstaklega þegar hann setti getnaðarlim sinn í endaþarm hennar, en hún hefði ekki sett sig upp á móti því. Um síðir hefði stúlkan gert sig líklega til að fara, en hann hefði þá staðið upp, tekið utan um hana, þau lagst aftur í rúmið og haft samfarir, en hún hefði þá verið ofan á. Eftir þetta hefði hún klætt sig aftur og farið.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið ölvaður. Hann sagði þau stúlkuna hafa daðrað mikið, hann hefði verið að reyna við hana og fundist hún vera mjög móttækileg. Ákærði kannaðist við að borist hefði í tal um nóttina að stúlkan væri samkynhneigð, en hún hefði tekið vel á móti honum og hann því talið það orðum aukið. Hann kvaðst ekki muna vel það sem átti sér stað í íbúðinni. Þó myndi hann eftir að hafa fylgt vinkonu stúlkunnar inn í herbergi C og síðan leitt stúlkuna inn í herbergi sitt. Ákærði kvaðst hafa verið að drekka kókómjólk og hefði hann boðið stúlkunni að drekka með sér. Síðan hefði hann afklætt hana og hún ekki andmælt því. Stúlkan hefði ekki sýnt nein merki um að hún væri ósátt við það sem átti sér stað. Hann hefði þó spurt hana í lokin hvort þetta væri í lagi, en þá hefði svipur hennar gefið til kynna að henni líkaði þetta ekki. Hún hefði risið á fætur og klætt sig. Hann hefði þá spurt hana hvort hún vildi ekki gista, risið á fætur og kysst hana og hefðu þau lagst aftur í rúmið og haft samfarir þannig að hún var ofan á.

                Ákærði kvaðst ekki hafa beitt stúlkuna þvingunum, en hann hefði þó togað í hár hennar, en það hefði verið „hluti af leiknum“. Hann myndi ekki eftir að hafa tekið um háls hennar. Ákærði kvaðst hafa afklætt stúlkuna og haft við hana kynferðismök þannig að hann hefði legið ofan á henni. Hann hefði síðan tvívegis haft kynferðismök við hana þannig að hann setti lim sinn í endaþarm hennar. Þá hefði hann lyft stúlkunni upp á skrifborð í herberginu og haft kynmök við hana þar.

                A gaf skýrslu hjá lögreglu 10. júní 2010. Hún greindi svo frá að hún hefði verið að skemmta sér í miðborginni nóttina sem um ræðir ásamt B, vinkonu sinni og meðleigjanda. Þær hefðu hitt kunningja B, C, á veitingastað og hefði ákærði verið með honum í för, en komið hefði fram að þeir leigðu saman íbúð á [...]. Tveir bandarískir piltar hefðu verið með þeim, sem einnig dvöldust í íbúðinni. Þau hefðu gengið saman á milli veitingastaða, en síðan fylgst að heim á leið, enda öll búsett í vesturbænum. Ákærði hefði verið leiðinlega ölvaður. Þegar þau komu að heimili ákærða og C hefðu þau öll farið saman þar inn og hefði hún sest inn í stofu. Hún kvaðst síðan muna eftir því að hafa verið að huga að heimferð, en þá ekki vitað hvað hefði orðið af B. Hún hefði rekist á ákærða þar sem hann stóð við dyrnar að svefnherbergi sínu og spurt hann um B. Ákærði hefði sagt við hana að hugsa ekki um það hvar B væri og ýtt henni inn í svefnherbergið. Hann hefði síðan farið að kyssa hana þótt hún hefði ekki viljað það. Hann hefði „hent“ henni í rúmið og byrjað að rífa hana úr fötunum. Ákærði hefði fært hana úr öllum fötunum, en lent í basli við að ná af henni stígvélunum. Hann hefði gengið ákveðið til verks og hún ekki vitað hvernig hún ætti að koma sér út úr þessu. Ákærði hefði síðan troðið getnaðarlim sínum upp í munn hennar og inn að koki þannig að hún kúgaðist. Hann hefði rifið af henni gleraugun og hún nokkrum sinnum reynt að setja þau upp, en hann tekið þau af henni jafnharðan. Hann hefði sett liminn í leggöng hennar og haft við hana samræði. Þá hefði hann rifið í hár hennar, snúið henni við og byrjað að setja liminn í endaþarm hennar. Það hefði verið mjög sárt og hún hafi grátið í koddann. Hún kvaðst hafa reynt að rísa upp en ákærði hefði rifið í hár hennar og stjórnað henni þannig. Hann hefði tekið hana hálstaki og togað í hálsmen sem hún var með þannig að þrýsti á barkakýli og hefði hún gefið frá sér „kyrkingarhljóð“. Hún hefði reynt að komast í burtu og náð að rísa upp úr rúminu en ákærði þá komið á eftir henni, lyft henni upp á skrifborð og reynt að hafa samfarir við hana þar. Hann hefði síðan fært hana í rúmið á ný. Hún hefði náð að komast fram úr rúminu og klætt sig í leggings buxur sínar, en ákærði þá togað hana upp í rúm aftur, dregið niður um hana buxurnar og haft samfarir við hana á nýjan leik þannig að hún lá ofan á honum. Hún hefði loks brugðið á það ráð að láta sem hún væri sátt við þetta. Hún hefði sagt ákærða að hún yrði að bregða sér frá og látið sem hún myndi koma aftur. Hún hefði klætt sig í flýti, en skilið eitthvað af fötum sínum eftir í herberginu. Hún hefði yfirgefið íbúðina og ætlað heim til sín, en fundið fyrir svo miklum sársauka í endaþarmi að hún hefði lagst á grasblett og grátið. Hún hefði reynt að hringja í B, sem hafi ekki svarað. Þá hefði hún hringt til vinar síns sem hefði ráðlagt henni að hringja í Neyðarlínuna.

                Aðspurð sagði A að henni hafi ekki fundist hún geta gert neitt á meðan á háttsemi ákærða stóð, henni hafi ekki fundist hún geta öskrað eða hreyft sig. Hún kvað það ekki vera rétt sem hefði komið fram hjá vitnum að hún hefði daðrað við ákærða þetta kvöld. Þvert á móti hefði hann verið „leiðinlegi fulli gaurinn“. Henni hefði fundist hann ógeðslegur. Þá væri það ekki rétt sem hefði komið fram hjá ákærða að hún hefði ekki beðið hann um að láta af háttsemi sinni. Hún hefði sagt honum að hún vildi þetta ekki, að hún væri lesbía og ýtt við honum.

                 Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla Neyðarmóttöku frá 5. júní 2010 um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Í skýrslunni er rakin frásögn hennar af atvikum. Þess er getið að hún hafi verið klædd í leggings buxur sem hafi snúið öfugt, þannig að framhlið hafi snúið aftur. Fram kemur að við skoðun hafi hún reynst aum í hársverði og yfir nefrót. Þá hafi verið lausir hárflókar á hnakkasvæði. Við endaþarm hafi verið roði á húð og fersk sprunga, um 4 mm löng og 2 til 3 mm breið. Segir í skýrslunni að áverkar geti samrýmst lýsingu hennar á atvikum. Í skýrslu Neyðarmóttöku um skoðun á A frá 8. júní 2010 kemur jafnframt fram að hún hafi verið með marbletti á hægra læri eins og eftir fingur og marblett á rasskinn.

                Þá liggur fyrir vottorð dr. D sálfræðings, dagsett 2. maí 2011, um viðtöl við A. Þar kemur m.a. fram að niðurstöður endurtekins greiningarmats hafi sýnt að A þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meintrar nauðgunar og samsvari sálræn einkenni hennar því sem sé vel þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og nauðgun, líkamsárás, stórslys eða hamfarir.

                Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði kvað þá C hafa verið að skemmta sér aðfaranótt 5. júní 2010 og hefðu tveir frændur C frá Bandaríkjunum verið með í för. Þeir hefðu hitt stúlkurnar tvær á bar og hefði vel farið á með þeim A. Ákærði lýsti því að það hefði verið „daður í gangi“ á milli þeirra, nánar tiltekið þannig að hann hefði ítrekað tekið utan um hana. Hún hefði haft orð á því að hún væri samkynhneigð, en ákærði kvaðst hafa dregið þá ályktun af tali þeirra að hún væri tvíkynhneigð. Eftir að heim til þeirra C kom hefðu B og C farið inn í herbergi C, en hann hefði boðið A inn í herbergi sitt. Þau hefðu kysst og síðan haft kynferðismök eftir að hann hefði afklætt hana. Lýsti ákærði því að hann hefði haft samræði og munnmök við stúlkuna. Þá hefði hann sett getnaðarliminn í endaþarm hennar og haft kynferðismök við hana þannig. Síðan hefði stúlkan sagst vera að fara, en hann hefði risið upp og kysst hana og þau farið aftur í rúmið þar sem þau hefðu haft samræði þannig að hún var ofan á. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt stúlkuna þvingunum. Hann kannaðist við að hafa gripið í hár hennar við upphaf kynmakanna, en kvaðst ekki hafa litið á það sem þvingun. Hann kannaðist ekki við að hafa tekið hana kyrkingartaki. Hann lýsti því að stúlkan hefði lyft höndunum þegar hann klæddi hana úr að ofan og þannig aðstoðað hann við að afklæða hana. Aðspurður kvað ákærði hana þó ekki hafa aðstoðað þegar hann lenti í vandræðum með að klæða hana úr stígvélum.

                Ákærði kvaðst ekki hafa upplifað að stúlkan væri ósátt við kynmökin. Hann hefði þó einu sinni spurt hana hvort allt væri í lagi, en hún hefði þá verið að fara og honum hefði fundist hún vera undirleit og skrýtin. Hann hefði talið að hún hefði hugsanlega séð eftir því að hafa haft skyndikynni.

                Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa talið stúlkuna vera samþykka kynferðismökunum. Hann hefði dregið þá ályktun af líkamstjáningu hennar, en hún hefði ekki reynt að berjast á móti eða ýta honum frá. Þá hefði hún ekki beðið hann um að hætta.

                Ákærði kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hversu langur tími leið frá því að þau komu inn í herbergið og þar til kynferðismök hófust, en sagði þau hafa talað aðeins saman áður og drukkið saman kókómjólk.

                A greindi svo frá að þær B hefðu hitt ákærða og C á veitingastað og hefði B kannast við C, en hvorug þeirra þekkt ákærða. Þau hefðu rölt á milli veitingastaða ásamt frændum C frá Bandaríkjunum og hefði komið fram í spjalli þeirra á milli að hún væri samkynhneigð. Hún kvað þær B hafa verið pirraðar á ákærða, en hann hefði verið ölvaður og uppáþrengjandi. Þau hefðu síðan fylgst að heim á leið, en komið hefði í ljós að ákærði og C bjuggu í nágrenni við þær. Einhvern veginn hefði atvikast að þær fóru inn í íbúð þeirra. Þær hefðu sest inn í stofu, en síðan hefði B allt í einu verið horfin. A kvaðst hafa farið að svipast um eftir B. Ákærði hefði staðið í herbergisdyrum sínum og hefði hún spurt hann hvort hann vissi um B. Ákærði hefði svarað að það skipti ekki máli og ýtt henni inn í herbergið. Hún hefði tekið þessu sem gríni í fyrstu, en á einhverjum tímapunkti hefði ákærði hrint henni á rúmið. A lýsti því að við þetta hefði hún eins og lamast eða frosið. Ákærði hefði byrjað að rífa hana úr fötunum og henni hefði ekki fundist hún geta hreyft sig. Herbergið hefði verið lítið og ákærði stór og yfirgnæfandi. Ákærði hefði staðið yfir henni þar sem hún lá í rúminu og troðið getnaðarlim sínum ofan í kok á henni svo að hún kúgaðist. Hann hefði snúið henni í rúminu líkt og hún væri brúða og haft kynferðismök við hana að framan og aftan frá. Hann hefði farið mjög harkalega að þegar hann hafði við hana endaþarmsmök. Það hefði verið mjög sárt og hún grúft sig ofan í kodda og tár lekið úr augum hennar. Ákærði hefði ítrekað rifið í hár hennar þegar hún grúfði sig niður í koddann. Hann hefði síðan snúið henni við og haft við hana samræði. Þá hefði hann hrifsað af henni gleraugun, en hún sé mjög sjónskert og sjái illa án þeirra. Eftir einhvern tíma hefði hún náð að rísa á fætur og reynt að klæða sig. Hún hefði hlaupið út úr húsinu og skilið eftir sokka, auk þess sem hún saknaði hluta af hálsmeni sem hún hefði verið með. Hún hefði gengið áleiðis heim, en fundið til mikils sársauka í endaþarmi og loks hnigið niður á grasbletti við heimili sitt. Þaðan hefði hún hringt í síma B, sem hefði ekki svarað. Í framhaldinu hefði hún hringt í E vin sinn, sem hefði sagt henni að hringja í Neyðarlínuna.

                Aðspurð lýsti A því að ákærði hefði rifið í hálsmen sem hún bar og ýtt á barka hennar, svo fast að hún hefði gefið frá sér kyrkingarhljóð. Þetta hefði gerst tvisvar og á sama tíma hefði hann verið að rífa af henni gleraugun. Hún sagðist ekki gera sér grein fyrir því hvað leið langur tími frá því að þau fóru inn í herbergið og þangað til ákærði fór að hafa við hana kynferðismök. Hún hefði tekið þessu sem gríni fyrst eftir að ákærði ýtti henni inn í herbergið. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa drukkið kókómjólk þar inni, en dró ekki í efa að svo hefði verið.

                A kvaðst hafa sagt við ákærða í upphafi að hún vildi þetta ekki og að hún væri lesbía, en það hefði verið þegar hann byrjaði að kyssa hana og ýtti henni á rúmið. Hún hefði sagt þetta ítrekað við hann meðan á kynferðismökunum stóð og ýtt honum frá sér. Þá hefði hún reynt að rísa á fætur og komast í burtu.

                Aðspurð kvaðst A ekki hafa kallað á hjálp. Henni hefði fundist sér ógnað og upplifað sig valdalausa, hún hefði lamast. Hún hefði sagt í upphafi þegar ákærði henti henni í rúmið að hún væri lesbía. Hún hefði tekið þessu sem gríni í fyrstu, en þó verið hrædd við ákærða frá því að hann ýtti henni inn í herbergið.

A kvaðst í lokin hafa reynt að leika á ákærða til að komast í burtu. Hún hefði þá haft samræði við hann í stutta stund þannig að hún var ofan á honum. Hún hefði gert þetta eftir að hún reyndi að komast í burtu, en hann togaði hana til sín og bað hana um að fara ekki. 

B greindi frá því að ákærði hefði gefið sig á tal við þær A á veitingastað í miðborginni. Hann hefði verið svo ölvaður að þær hefðu ekki skilið hvað hann var að segja. Þær hefðu síðan slegist í för með ákærða, C og tveimur piltum frá Bandaríkjunum, en þau C hefðu þekkst lítillega. Þau hefðu síðan farið heim til ákærða og C. Fljótlega eftir að þangað kom hefði ákærði fylgt henni inn í herbergi til C og hefði hún dvalið þar það sem eftir lifði nætur. Þau hefðu heyrt einhvern hávaða frá herberginu við hliðina og hefði C lagt við hlustir og sagt ákærða og A vera að hafa kynferðismök þar inni. Henni hefði fundist það skrýtið. B kvaðst hafa sofnað í herbergi C og vaknað um klukkan 8 um morguninn. Hún hefði þá séð á síma sínum að A hefði hringt mörgum sinnum og sent símaskilaboð þar sem kom fram að „hann hefði haldið henni fastri“. Hún hefði náð símasambandi við A sem hefði verið komin á slysadeild og hefði hún farið að hitta hana þar.

B kvað engin sérstök samskipti hafa verið milli A og ákærða um nóttina og hefði hún ekki orðið vör við neitt daður á milli þeirra. Hún kvaðst hafa heyrt að einhver orðaskipti áttu sér stað milli A og ákærða í herberginu. Nánar lýsti hún því að það hefði verið eins og ákærði segði eitthvað við A og hún svaraði einhverju, en síðan hefði ekkert heyrst annað en hljóð sem var eins og brak í rúmi.

Aðspurð sagði B að miklar breytingar hefðu orðið á líðan A eftir þetta atvik. Venjulega hafi hún verið opin og skemmtileg, en eftir þetta hefði hún orðið grátgjörn og oft ekki megnað að koma út úr herberginu sínu dögum saman. Hún hefði flutt úr íbúðinni sem þær leigðu saman þar sem henni hefði fundist erfitt að búa í sama hverfi og ákærði.

C kvaðst hafa orðið var við daður á milli A og ákærða um nóttina. Þau hefðu setið saman á veitingastaðnum þar sem þau hittust og spjallað mikið saman. Hann hefði hins vegar verið að spjalla við B. C sagðist hafa farið beint inn í herbergi sitt eftir að þau komu heim í íbúðina og hefði hann farið upp í rúm. Síðar hefði B komið inn til hans og taldi hann að hún hefði sagt honum að A hefði farið inn í herbergi ákærða. Síðan hefðu þau heyrt hljóð úr herberginu eins og rúmið væri á hreyfingu.

F greindi frá því að hafa verið í för með ákærða, C og bróður sínum G í umrætt sinn. Þeir hefðu hitt stúlkurnar tvær á veitingastað í miðborginni. Ákærði og A hefðu verið að spjalla saman og hefði honum fundist þau daðra. Hann hefði ekki skilið hvað þeim fór á milli, en samskipti þeirra hefðu verið vinsamleg. Hann sagðist hafa gist í herbergi andspænis herbergi ákærða, en ekki hafa heyrt neitt óvenjulegt um nóttina.

G kvað vel hafa farið á með ákærða, C og stúlkunum tveimur og hefðu ákærði og A faðmast. Spurður hvernig þau hefðu faðmast sagði G ákærða hafa tekið utan um stúlkuna, en hann myndi ekki með vissu hvort hún hefði tekið utan um hann.

E kvaðst hafa fengið símtal frá A um klukkan 7.30 morguninn sem um ræðir og hefði hún verið hágrátandi og eins og frávita. Hún hefði náð að stynja upp úr sér að henni hefði verið nauðgað og hefði hann sagt henni að hringja í Neyðarlínuna. E sagði þau A vera nána vini. Hann lýsti líðan hennar þannig að hún væri nær ónýt eftir að þetta gerðist og gréti í tíma og ótíma.

H lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang við [...] í umrætt sinn, rætt við A og ritað eftir henni lýsingu á því sem gerst hefði. A hefði virst hafa orðið fyrir miklu áfalli. Til að byrja með hefði hún lýst atvikum með „stikkorðum“, en þegar komið var á slysadeild hefði verið meira samhengi í frásögn hennar. Vinkona A hefði komið á slysadeild og hefði hún rætt við hana einnig. Stúlkurnar hefðu ekki virst ölvaðar. Þær hefðu verið skýrar og vel áttaðar á stað og stund. H kvaðst hafa farið á heimili ákærða í kjölfarið og handtekið hann. Ákærði hefði verið nývaknaður og hefði hann virst dálítið hissa á komu lögreglu.

I kvensjúkdómalæknir staðfesti skýrslu sína um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Hann sagðist hafa metið frásögn A mjög trúverðuga, en hún hefði verið undir miklu álagi og greinilega upplifað það sem gerðist sem mjög alvarlegan hlut. Hún hefði verið íklædd leggings buxum, sem sneru öfugt, og taldi hann það til marks um að hún hefði klætt sig í flýti. Hún hefði borið áverka sem samrýmdust lýsingu hennar á atvikum. Roði og eymsli hefðu verið yfir hársverði og nefi og lausir hárflókar á hnakkasvæði. Þá hefðu verið sár og sprunga við endaþarm, en slíkur áverki geti komið við það að kynferðismök hafi verið án undirbúnings og gegn vilja viðkomandi. Vitnið sagðist hafa dregið þá ályktun að stúlkan hefði verið hárreitt og reynt að hafa við hana endaþarmsmök.

J hjúkrunarfræðingur lýsti samskiptum við A við komu á Neyðarmóttöku, en stúlkan var að hennar sögn í miklu uppnámi, grét og leið mjög illa. Þá staðfesti vitnið skýrslu um endurkomu brotaþola á Neyðarmóttöku.

Þá kom D sálfræðingur fyrir dóminn sem vitni og staðfesti vottorð sitt um viðtöl við A. Vitnið sagðist rekja áfallastreituröskun sem A greindist með til hinnar meintu nauðgunar, en ekkert annað hefði komið fyrir hana sem gæti skýrt þessi einkenni. Vitnið sagðist hafa álitið A mjög einlæga og trúverðuga í frásögn sinni og hefði verið samræmi í frásögn hennar. Hún hefði lýst því að hún hefði upplifað mikla ógn og bjargarleysi, en það séu algeng viðbrögð þeirra sem verði fyrir kynferðisofbeldi að frjósa eða lamast. Vitnið sagði A enn glíma við áfallastreituröskun vegna þess sem hefði átt sér stað. Þarfnaðist hún frekari meðferðar vegna þessa og væri erfitt að segja til um hvort hún myndi ná bata. 

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Hann játar því að hafa haft munnmök, samræði og endaþarmsmök við A svo sem í ákæru greinir, en kveðst hafa talið stúlkuna vera samþykka kynferðismökunum. Kveðst ákærði hafa dregið þá ályktun af því að hún hafi ekki reynt að sporna við kynferðismökunum eða beðið hann um að hætta. Ákærði kveðst ekki hafa beitt stúlkuna þvingunum við kynferðismökin svo sem honum er gefið að sök.

A hefur borið að ákærði hafi þröngvað sér með ofbeldi til kynferðismaka með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Er sú lýsing að einhverju leyti í samræmi við framburð ákærða, sem hefur kannast við að hafa togað í hár stúlkunnar á meðan á kynferðismökunum stóð. Þá fær framburður A stuðning í læknisfræðilegum gögnum, en við læknisskoðun reyndist hún m.a. vera aum í hársverði og voru lausir hárflókar á hnakkasvæði, auk þess sem fersk sprunga var við endaþarm. Kvensjúkdómalæknir bar við aðalmeðferð málsins að slíkur áverki geti komið við það að kynferðismök hafi verið án undirbúnings og gegn vilja viðkomandi.

 Vitni bera að A hafi verið illa á sig komin, í miklu uppnámi og grátandi eftir að hún yfirgaf heimili ákærða. Miðað við ástand hennar þykir ótrúverðugur framburður ákærða um að hún hafi verið samþykk því að eiga við hann kynferðismök eða að hann hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að svo væri. Breytir engu þar um þótt félagar ákærða hafi tekið undir framburð hans um að þau hafi daðrað um nóttina, en nánar aðspurðir gátu ákærði og vitnin ekki lýst því með öðrum hætti en að ákærði hefði tekið utan um stúlkuna og að þau hefðu talað mikið saman. 

Framburður A er trúverðugur að mati dómsins. Hefur framburður hennar verið á einn veg um þau atriði sem skipta máli og fær jafnframt stoð í læknisfræðilegum gögnum svo sem rakið hefur verið. Framburður ákærða er að sama skapi ótrúverðugur um tiltekin atriði auk þess að vera í andstöðu við gögn málsins. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn A til grundvallar í málinu. Þykir sannað að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað A til kynferðismaka svo sem í ákæru greinir. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er fæddur í nóvember 1980. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nauðgun. Brot hans var mjög alvarlegt og hefur hann með háttsemi sinni valdið brotaþola mikilli vanlíðan, auk þess sem hún hlaut líkamlega áverka af. Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.

Réttargæslumaður brotaþola hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta. Er vísað til þess að um alvarlegt kynferðisbrot sé að ræða, sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá hafi brotaþoli orðið fyrir miklu áfalli við brotið og í kjölfar þess.

Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Í málinu liggur fyrir vottorð sálfræðings þar sem kemur fram að brotið hafi valdið brotaþola mikilli vanlíðan og kom fram í vitnisburði sálfræðingsins að brotþoli þarfnaðist langvarandi meðferðar vegna einkenna áfallastreituröskunar og sé óvíst um bata. Með hliðsjón af framansögðu þykja bætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hdl., 313.250 krónur, þóknun verjanda síns við lögreglurannsókn málsins, Ívars Bragasonar hdl., 62.750 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 276.100 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 398.115 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir, Eggert Óskarsson og Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

 

Dómsorð:

Ákærði, Grétar Torfi Gunnarsson, sæti fangelsi í 3 ár.

Ákærði greiði A 1.200.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. júní 2010 til 8. nóvember 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hdl., 313.250 krónur, þóknun verjanda síns við lögreglurannsókn málsins, Ívars Bragasonar hdl., 62.750 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 276.100 krónur. Ákærði greiði 398.115 krónur í annan sakarkostnað.