Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Kaupmáli
  • Erfðaskrá


Þriðjudaginn 3. júní 2015.

Nr. 327/2015.

A

(Hróbjartur Jónatansson hrl.) 

gegn

B

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Kaupmáli. Erfðaskrá.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að dánarbú föður hans, C, sem lést í september 2014, yrði tekið til opinberra skipta. C og B, sem sat í óskiptu búi eftir hann, höfðu í febrúar 2013 gert með sér kaupmála þar sem nánar tilgreindar eignir þeirra voru gerðar að séreignum hvors um sig. Í ágúst sama ár höfðu þau hins vegar ritað undir skjal þar sem fram kom að fyrrgreindur kaupmáli væri ógildur og að enginn arfur yrði greiddur út fyrr en að þeim báðum látnum. Þá rituðu þau undir erfðaskrá í september 2013 þar sem fram kom að eftir fráfall beggja skyldu eignir þeirra skiptast jafnt milli fimm barna þeirra, A, D, E, F og G. Krafa A um dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta var á því reist að afturköllun B og C á fyrrgreindum kaupmála hefði verið haldin tilteknum form- og efnisgöllum og því hefði B ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vottar á skjalinu, sem B og C höfðu ritað undir í ágúst 2013 og ætlað var að ógilda umræddan kaupmála, hefðu verið börn þeirra, D og E, sem hefðu hagsmuna að gæta og gætu því ekki verið staðfestingarhæf í skilningi réttarfarslaga. Afturköllun kaupmálans væri því ógild og bæri samkvæmt því að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C. Þar sem kaupmálinn hefði ekki kveðið á um að séreign samkvæmt honum skyldi hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu hefði brostið heimild til að veita B leyfi til setu í óskiptu búi eftir C. Var búið því tekið til opinberra skipta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú föður hans, C, yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný en til vara að áðurgreind krafa um opinber skipti verði tekin til greina. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Atvik málsins eru skilmerkilega rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir gerðu foreldrar sóknaraðila, hjónin C og varnaraðili, með sér kaupmála 17. febrúar 2013 þar sem nánar tilgreindar eignir þeirra voru gerðar að séreignum hvors um sig. Kaupmálinn var móttekinn hjá sýslumanni degi síðar, skrásettur í kaupmálabók sama dag og innfærður í bækur sýslumanns 20. sama mánaðar.

Í handrituðu skjali, dagsettu 24. ágúst 2013 og undirrituðu af C og varnaraðila, sagði að þau hjónin hefðu „fulla dómgreind um að sjá um sín fjármál sjálf. Við hjónum ætlum að ógilda samning sem (kaupmála) gerður var 17. febrúar 2013. Og engin arfur verður greiddur út fyrr en við erum - bæði látin.“ Á undan meginmáli skjalsins kom fram að vottar „að kaupmála“ væru „D og E“ en þau eru börn varnaraðila. Þetta skjal var móttekið hjá sýslumanni 26. ágúst 2013, skrásett samdægurs í kaupmálabók og innfært í bækur sýslumanns 29. sama mánaðar. Meðal gagna málsins er handrituð yfirlýsing varnaraðila og C 4. september 2013, sem þau nefndu erfðaskrá. Þar var mælt fyrir um að eftir fráfall beggja skyldu eignir þeirra skiptast jafnt milli nafngreindra fimm barna hjónanna, þeirra E, D, F, G og sóknaraðila. Á undan meginmáli skjalsins stóð að hjónin hefðu „fulla dómgreind um að sjá um sín fjármál sjálf. 4.9.2013 H“ og var kennitala hans tilgreind. Undir skjalið ritaði sem vottur „I“ og var kennitala hennar tilgreind.

C lést 15. september 2014 og fékk varnaraðili leyfi til setu í óskiptu búi eftir hann með bréfi sýslumannsins í Reykjavík 30. sama mánaðar. Sóknaraðili bar fram við Héraðsdóm Reykjavíkur 10. nóvember 2014 kröfu um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. Varnaraðili andmælti þeirri kröfu í greinargerð sem hún lagði fram á dómþingi 7. janúar 2015 og er málið rekið um þann ágreining.

II

Um heimild sína til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi C vísar sóknaraðili til 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 og 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Er krafan á því reist að varnaraðila hafi ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi eftir C þar sem afturköllun hans og varnaraðila 24. ágúst 2013 á kaupmálanum 17. febrúar sama ár hafi verið haldin þeim form- og efnisgöllum sem nánari grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Af því leiði að síðargreindur kaupmáli sé í fullu gildi og beri að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C.

Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta, þótt maki hins látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi, ef erfingjanum er heimilt að krefjast skipta sér til handa eftir ákvæðum erfðalaga. Þurfa samkvæmt þessu að vera fyrir hendi einhver þau atvik sem veita erfingjanum heimild samkvæmt ákvæðum 13. til 17. gr. erfðalaga til að krefjast þess að skipti fari fram. Þá stendur 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 því ekki í vegi að erfingi, sem telur að langlífari maka hins látna hafi ranglega verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi, geti sett fram kröfu um opinber skipti líkt og sóknaraðili gerir.

D og E rituðu sem vottar á skjalið 24. ágúst 2013, þar sem kaupmálinn 17. febrúar 2013 var afturkallaður, en þau eru eins og áður getur börn varnaraðila. Samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal kaupmáli vera skriflegur. Þá segir í lagagreininni að undirritun hjóna eða hjónaefna skuli staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skuli koma fram að hið vottaða skjal sé kaupmáli og skulu vottarnir vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum. Samkvæmt 88. gr. hjúskaparlaga skal við breytingu eða afturköllun á kaupmála gæta sömu reglna og áður koma fram en af því leiðir að þeir sem votta afturköllun kaupmála skulu vera staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum með sama hætti og þeir sem vottuðu kaupmála í öndverðu. Í e. lið 2. mgr. 57. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að vitni verður ekki látið staðfesta framburð sinn fyrir dómi með eiði eða drengskaparheiti ef dómari telur það svo tengt aðila eða hafa slíka hagsmuni af málsúrslitum að staðfesting sé óviðeigandi.

Þar sem vottarnir á skjali því sem afturkallaði kaupmálann 17. febrúar 2013 voru börn varnaraðila og höfðu þeirra hagsmuna að gæta sem áður getur voru þeir ekki staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum og afturköllunin samkvæmt því ógild. Af því leiðir að kaupmálinn 17. febrúar 2013 er í gildi og ber að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C. Í síðargreindum kaupmála var ekki kveðið á um það að séreign samkvæmt honum skyldi hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu, sbr. 11. gr. erfðalaga. Brast samkvæmt þessu að lögum heimild til að veita varnaraðila leyfi til setu í óskiptu búi eftir C. Getur skjalið frá 4. september 2013, sem einungis var undirritað af einum votti, engu breytt í þeim efnum þegar af þeirri ástæðu að það fullnægði ekki fyrirmælum laga um form erfðaskráa, sbr. ákvæði 40. til 43. gr. og 2. mgr. 45. gr. erfðalaga. Er sóknaraðila að þessu virtu heimilt samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 að leita opinberra skipta á dánarbúinu og verður samkvæmt því fallist á þá kröfu hans.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Bú C er tekið til opinberra skipta.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2015.

Mál þetta barst dóminum með beiðni 21. október 2014 og var þingfest 10. nóvember 2014. Sóknaraðili er A, [...],[...], en varnaraðili er B, [...],[...].

Sóknaraðili krefst þess að dánarbú föður hans, C, er lést 15. september 2014, síðast til heimilis að [...] í [...], verði tekið til opinberra skipta en varnaraðili fékk leyfi til setu í óskiptu búi 30. september 2014. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðaryfirliti að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til virðisaukaskatts auk álags á málflutningsþóknun.

Með úrskurði dómsins 3. desember 2014 var hafnað kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Með úrskurði 17. sama mánaðar var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði veittur frekari frestur til að skila greinargerð.

I

Málavextir

Faðir sóknaraðila, C, sem lést 15. september 2014, og varnaraðili, móðir sóknaraðila, gengu í hjónaband 22. febrúar 2013. Munu þau fram að því hafa verið í áratugalangri sambúð þótt aðila greini á um hvers löng hún hafi verið og hvort hún hafi verið með hléum eður ei. Varnaraðili fékk leyfi til setu í óskiptu búi 30. september 2014. Sóknaraðili er eina barn C og varnaraðila en fyrir átti hún fjögur börn, E, D, F og G. Eftir að til hjúskaparins hafði stofnast mun C hafa flutt úr íbúð að [...] í [...], sem hann hafði átt frá árinu 2012, í íbúð að [...] í [...], þar sem hann og varnaraðili bjuggu saman þar til hann lést.

Varnaraðili og faðir sóknaraðila gerðu með sér kaupmála 17. febrúar 2013 áður en þau gengu í hjónaband. Hann var móttekinn til þinglýsingar degi síðar og færður í bækur sýslumanns 20. sama mánaðar. Var þar mælt fyrir um að nánar tilteknar eignir skyldu lúta séreignafyrirkomulagi í hjúskap aðila. Með 1. gr. hans var fasteign að [...] á [...], fastanúmer [...]og [...], eignarhlutur C í jörðinni [...] á [...], fastanúmer [...],[...],[...],[...]og [...], fasteign að [...] í [...], allar innstæður á bankareikningum á nafni C auk allra ökutækja og véla á hans nafni, gerðar að séreign C. Þá var fasteign að [...] í Reykjavík, allar innstæður á bankareikningum á nafni varnaraðila og öll ökutæki og vélar á hennar nafni, gerð að séreign varnaraðila. Þá var í 2. gr. mælt fyrir um að arður og það sem kæmi í stað séreignar skyldi vera séreign þess sem séreignina ætti.

Þann 24. ágúst 2013 rituðu varnaraðili og C undir handritað skjal þar sem sagði m.a.: „Hjónin hafa fulla dómgreind um að sjá um sín fjármál sjálf.“ Þá sagði: „Við hjónin ætlum að ógilda samning sem kaupmála gerður var 17. febrúar 2013. Og engin (svo) arfur verður greiddur fyrr en við erum – bæði látin.“ Rita varnaraðili og C nöfn sín og kennitölur undir. Efst á skjalinu undir textanum „Vottur að kaupmála“ eru handskrifuð nöfnin „D“ og „E“. Skjal þetta var móttekið til þinglýsingar 26. ágúst 2013 og fært í þinglýsingabækur 29. sama mánaðar.

Varnaraðili og C gerðu með sér erfðaskrá 4. september 2013. Þar lýstu þau því yfir að eftir fráfall þeirra beggja skyldu eigur þeirra skiptast til jafns milli barna þeirra. Rita þau nöfn sín þar undir. Efst á skjalið er ritað: „Hjónin hafa fulla dómgreind um að sjá um fjármál sín sjálf“ og þar undir ritar H nafn sitt ásamt kennitölu. Neðst á skjalið ritar nafn sitt sem vottur I ásamt kennitölu.

Með afsali 20. júlí 2014, sem móttekið var til þinglýsingar 28. sama mánaðar og fært í þinglýsingabækur 1. september sama ár, afsalaði C 50% eignarhluta í jörðinni [...] og öllum eignum sem á jörðinni væru með fastanúmerin [...], [...] og landnúmer [...] ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja beri lögum samkvæmt. Í afsalinu sagði að fullnaðaruppgjör hefði átt sér stað á milli aðila samkvæmt uppgjöri.

Með afsali 20. júlí 2014, sem móttekið var til þinglýsingar 28. sama mánaðar og fært í þinglýsingabækur 1. september sama ár, afsalaði varnaraðili 50% eignarhluta í fasteigninni að [...] í [...] með fastanúmerið [...] ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja beri lögum samkvæmt. Í afsalinu sagði að fullnaðaruppgjör hefði átt sér stað á milli aðila samkvæmt uppgjöri.

Samkvæmt gögnum málsins mun C hafa lent í slysi á jörð sinni að [...] á [...] 6. ágúst 2011. Hann var að vinna við slátt á dráttarvél ásamt sóknaraðila er vélin lenti úti í skurði og C varð undir henni. Mun dráttarvélin hafa lent á vinstri fæti hans. Verður ráðið af gögnum málsins að C hafi átt í ýmsum heilsufarsvandamálum eftir þetta og átti hann að baki nokkrar innlagnir á sjúkrahús er hann lést.

Sóknaraðili óskaði eftir því með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2014 að faðir sinn yrði sviptur fjárræði. Beiðnin hafði ekki fengið úrlausn dómsins er hann lést 15. sama mánaðar og var hún því afturkölluð af hálfu sóknaraðila.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína um opinber skipti á búi föður síns sér til handa á 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. Vísar hann einnig til 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962 þar sem mælt er fyrir um hvaða eignir teljist til óskipts bús frá öndverðu og að hvaða leyti eignir, sem langlífari maki eignast síðar, renni inn í hið óskipta bú. Málatilbúnaður sóknaraðila byggir á því að formannmarki sé á afturköllun kaupmálans frá 17. febrúar 2013, sem gerð var með yfirlýsingu varnaraðila og C heitins 24. ágúst 2013. Þá sé einnig um efnisannmarka að ræða vegna andlegra annmarka C heitins við gerð skjalsins síðara skjalsins. Þetta leiði til þess að yfirlýsingin frá 24. ágúst 2013, þar sem kaupmálinn frá 17. febrúar 2013 var afturkallaður og horfið frá því séreignarfyrirkomulagi sem gilti meðal þeirra hjóna og allar eignir þeirra gerðar að hjúskapareignum, sé ógildur löggerningur. Í raun hafi aldrei stofnast til gilds löggernings hvað þetta varðar og því sé um ógildan löggerning að ræða frá öndverðu.

Sóknaraðili byggir máli sínu til stuðnings á því að í ljósi kaupmálans sem varnaraðili og faðir hans, C, gerðu 17. febrúar 2013 séu ekki og hafi ekki verið lagaskilyrði til þess að varnaraðili fengi að sitja í óskiptu búi með eignir sem tilgreindar hafi verið í kaupmálanum sem séreignir C enda hafi ekki verið mælt þar fyrir um að með séreignirnar skyldi fara sem hjúskapareignir eftir lát C eins og áskilið sé í 11. gr. laga nr. 8/1962. Varnaraðili hafi því í öndverðu ekki átt að fá leyfi til setu í óskiptu búi. Þegar af þessari ástæðu verði að fallast á beiðni sóknaraðila um opinber skipti.

Þá telur sóknaraðili ljóst af framlögðum gögnum að C faðir hans hafi hvorki haft andlegt hæfi til að gera gerninginn 24. ágúst 2013, þar sem áðurnefndur kaupmáli frá 17. febrúar 2013 hafi verið afturkallaður, né til að skilja efni hans. Ágreiningurinn snúist í raun um hvort eignir C séu hjúskapareignir eða séreignir en við mat á því verði að skera úr um gildi kaupmála frá 24. ágúst 2013. Formbrestur og/eða skortur á andlegu hæfi leiði til þess að löggerningur stofnist ekki. Afturköllun kaupmálans hafi því ekki falið í sér gildan löggerning. Eignir C heitins séu því í raun séreignir við andlát hans og falli því ekki til hins óskipta bús samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 8/1962.

Þá hafi yfirlýsingin verið vottuð af tveimur börnum varnaraðila sem hafi haft hag af því að séreignir C yrðu eftirleiðis skráðar sem hjúskapareignir hans vegna væntanlegs búshluta varnaraðila kæmi til fráfalls C. Vottun af þessu tagi sé að mati sóknaraðila markleysa þar sem hún uppfylli ekki lögbundin skilyrði fyrir afturköllun á gildum kaupmála. Samkvæmt 76. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé aðeins hægt að breyta ákvæðum kaupmála um séreignir eða fella þau niður, með nýjum kaupmála. Samkvæmt XII. kafla laga nr. 31/1993 skuli kaupmáli vera skriflegur og eðli málsins samkvæmt skuli tilgreina heiti hans í meginmáli skjalsins. Að auki skuli í honum mæla fyrir um hvernig eignir hjóna skulu skiptast í séreignir og hjúskapareignir, eftir atvikum við skilnað eða andlát. Augljóst sé að umrædd yfirlýsing teljist ekki kaupmáli.

Þá skuli afturköllun og breyting á gildum kaupmála uppfylla sömu reglur og gilda um gerð kaupmála, sbr. 88. gr. laga nr. 31/1993. Samkvæmt 80. gr. sömu laga sé kveðið á um að kaupmáli skuli vera skriflegur og vottaður af tveimur vottum sem skuli vera samtímis viðstaddir og rita nöfn og kennitölur sínar á kaupmálann og skuli koma fram í vottorði þeirra að skjalið sem vottað er, sé kaupmáli. Þá segir að vottarnir skuli vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum. Samkvæmt ákvæðinu skuli vottur að kaupmála, breytingu eða niðurfellingu á kaupmála vera óháður líkt og gildir um þau vitni sem staðfest geti atvik samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 52. gr. þeirra laga sé kveðið á um hverjir geti skorast undan því að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni vegna tengsla við sakarefnið. Aðrir en þeir sem þar eru greindir geti ekki skorast undan skýrslugjöf og teljist því vera staðfestingarhæfir samkvæmt lögum um meðferð einkamála. Samkvæmt b-lið 1. mgr. áðurnefndrar lagagreinar segi að undanþegin skýrslugjöf séu skyldmenni aðila í beinan legg, systkini hans og þeir sem tengjast honum þannig vegna ættleiðingar. Ljóst sé að vottorð um efni eða undirskrift á kaupmála, breytingu á kaupmála eða niðurfellingu á kaupmála, sé því ekki gilt ef skyldleiki votta og aðila að kaupmála er með framangreindum hætti.

Áðurnefndir vottar séu því að mati sóknaraðila vanhæfir að hjúskaparlögum til þess að votta kaupmála eða gerning sem ætlað er að breyta eða fella niður ákvæði um séreignir í kaupmála foreldra sóknaraðila, sbr. 80. gr. laga nr. 31/1993. Þá sé að auki hvorki greint frá því í hinu handritaða skjali að verið sé að votta breytingu eða niðurfellingu á kaupmála né að vottarnir hafi verið viðstaddir þegar C heitinn eigi að hafa undirritað skjalið. Skilyrði laganna um vottun kaupmála séu því ekki uppfyllt. Framangreind handrituð yfirlýsing uppfyllir ekki skilyrði hjúskaparlaga um að teljast kaupmáli eða þau skilyrði laganna um hvernig skuli breyta eða afturkalla séreignarákvæði í kaupmála. Í efni hennar felist aðeins ráðagerð um að ógilda samning þeirra í milli en ekki bein yfirlýsing um að kaupmáli milli þeirra skuli falla úr gildi með þeim réttaráhrifum að séreignir C, eins og þær séu tilgreindar í kaupmálanum, skuli eftirleiðis teljast hjúskapareignir beggja, eins og kveða verði á um í skjali sem ætlað er að breyta séreignarrétti hjóna. Yfirlýsingin sé því marklaus að lögum. Sóknaraðili telur því kaupmálann, sem gerður var 17. febrúar 2013, vera enn í fullu gildi og beri að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C heitins.

Þá skipti skráning síðari kaupmálans eða afturköllun fyrri kaupmálans í kaupmálabók ekki neinu máli og sé þýðingarlaus í þessu tilliti. Skráning kaupmála feli út af fyrir sig ekki í sér neins konar yfirlýsingu eða staðfestingu um að engir þeir annmarkar séu á kaupmála er leitt geti til ógildingar hans síðar.

Að því marki sem yfirlýsing um afturköllun kaupmálans verði talin felast í hinu handritaða skjali heldur sóknaraðili því fram að C hafi ekki verið andlega fær um að ráða högum sínum og fé á þeim tíma er hann ritaði undir yfirlýsinguna. Hann hafi því ekki verið fær um að gera sér grein fyrir því hvað fólst í yfirlýsingunni og hver réttaráhrif hennar væru. Beri því einnig af þeirri ástæðu að fallast á beiðni um opinber skipti og eftir atvikum láta reyna á gildi hinnar handrituðu yfirlýsingar undir opinberum skiptum á búinu yrði því haldið fram að réttaráhrif hennar væru þau að kaupmálinn væri niður fallinn. Bendir sóknaraðili á í þessu sambandi að við undirritanir föður hans á skjöl á árunum 2013 og 2014 hafi hann ritað nafn sitt ólæsilega, án þess að ljúka við föðurnafn sitt og án þess að nota millinafn sitt [...] en hann hafi alla tíð ritað nafn sitt sem C eða C.

Sóknaraðili telur varnaraðila með erfðaskrá 4. september 2013 hafa haft frumkvæði að því að reyna að rýra erfðarétt sóknaraðila eftir föður sinn. Augljóst sé að skjalið fullnægi ekki skilyrðum 2. gr. erfðalaga þar sem með skjalinu sé rýrður réttur sóknaraðila til skylduarfs eftir föður sinn. Þá sé skilyrði 41. og 42. gr. erfðalaga um gerð erfðaskrár ekki uppfyllt. Ekki sé vottað um andlega heilsu arfleifanda enda hafi það verið ómögulegt eins og heilsu C hafi verið háttað. Þá séu vottarnir í nánum tengslum við varnaraðila. Skjalið hafi því ekkert gildi utan það að sýna þann ásetning varnaraðila að nýta sér andleg bágindi C í því skyni að hygla sér og stjúpbörnum C á kostnað sóknaraðila. Þessi háttsemi styðji þann grun sóknaraðila að varnaraðili hafi nú þegar látið stjúpbörnum C í té verulega fjármuni sem hafi verið inni á bankareikningum C og töldust til séreigna hans samkvæmt kaupmálanum frá 17. febrúar 2013.

Samkvæmt læknisvottorði J, 22. september 2014, sé engum vafa undirorpið að andlegt og líkamlegt ástand C hafi verið slíkt, að minnsta kosti árin 2013 og 2014 þegar hann stofnaði til hjúskapar með varnaraðila, að hann hafi með með engu móti getað ráðið högum sínum eða fé. Bersýnilegt sé af vottorðinu að varnaraðili hafi tekið allar ákvarðanir um hagi hans, þar með taldar þær sem lutu að fjármálum hans, svo sem um að freista þess að fella niður kaupmálann og um að 50% hluta af fasteignum C skyldi afsalað til hennar en til ákvarðanatöku af því tagi hafi C augljóslega enga getu eða hæfni haft eða nokkurt frumkvæði.

Í kaupmálanum frá 17. febrúar 2013 sé greint frá séreignum C sem hafi verið umtalsverðar. Þær eignir telur sóknaraðli að eigi að koma strax til skipta og falla a.m.k. að 2/3 hlutum til sóknaraðila samkvæmt 2. gr. erfðalaga. Þær séu utan óskipts bús sbr. 11. gr. erfðalaga. Af gögnum verði ráðið að varnaraðili hafi nýtt sér bágt, líkamlegt og andlegt ástand C heitins til að komast yfir eignir hans og nýtt sér aðstoð tiltekinna lögmanna til þess. Þannig liggi fyrir að varnaraðili hafði frumkvæði að því að helmingshluta í jörðinni að Sjávarhólum, fastanúmer 208-5444 og 208-5446, sem C átti sem séreign samkvæmt kaupmála, var afsalað til hennar 20. júlí 2014. Svo virðist sem varnaraðili hafi í júlí og ágúst 2014 staðið fyrir því að Cgæfi lögmönnum umboð til að undirrita afsöl á 50% eignarhluta hans í fasteigninni [...], fastanúmer [...],[...],[...],[...],[...] og [...]sem og í áðurnefndri fasteign að [...] með tilgreind fastanúmer. Þá sé C sagður hafa ritað undir fullt og ótakmarkað umboð til handa lögmönnunum „til að vinna við mál sitt sem tengist fasteignum [hans] og annars (svo) eignum“. Vegna ástands C og hæfis hans sé óhjákvæmilegt annað en að ætla að um refsiverða misneytingu hafi verið að ræða, sbr. 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá hafi sóknaraðili rökstuddan grun um að varnaraðili hafi gengið í sjóði C heitins á meðan þau bjuggu saman og m.a. ráðstafað fé til stjúpbarna C sem lögum samkvæmt eigi ekkert arfstilkall eftir hann. Sé nauðsynlegt að skiptastjóri kanni ráðstöfun á bankainnstæðum C frá febrúar 2013.

Sóknaraðili kveður að ef andlegir annmarkar eru til staðar stofnist ekki gildur löggerningur. C heitinn hafi verið greindur með geðveiki, sljóleika, minnisleysi og verulegan greindarskort. Vottorð K hafi ekkert sönnunargildi í málinu, m.a. vegna vísvitandi rangfærslna. Samkvæmt sjúkraskrárgögnum hafi C verið haldinn verulegum ranghugmyndum og verulegri vitrænni skerðingu þegar umræddur gerningur var gerður í ágúst 2013. Hann hafi verið illa áttaður og ekki munað hvar hann væri eða hvaða ár væri. Varnaraðili hafi verið grandvís um andlega annmarka C sbr. 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Sóknaraðili hafnar því að ástand C hafi einungis verið skammvinnt geðrofsástand eins og varnaraðili haldi fram. Hið rétta sé að hann hafi verið meira og minna á geðdeild frá 12. september 2011 til 18. október 2012 Veikindi hans hafi því verið mjög alvarleg. Þá sé það rangt sem fram komi í vottorði K að C hafi verið útskrifaður 28. október 2011 og eftir það verið undir eftirliti hans. Hann hafi vissulega verið útskrifaður þann dag en hann hafi verið lagður inn aftur viku seinna og verið inni á geðdeild í um ár.

Sóknaraðili kveðst hafa krafist þess 4. september sl. að faðir hans yrði sviptur fjárræði tímabundið til að varna því að varnaraðili misfæri frekar með eignir C. Sú beiðni hafi verið byggð á því að Chafi verið ófær um að ráða fé sínu vegna þess alvarlega heilsubrests sem að framan er lýst og því væru skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga uppfyllt. Sú beiðni hafði ekki fengið meðferð er C lést 5. september sl. og hafi því verið afturkölluð.

Sóknaraðili telur, samkvæmt öllu framansögðu, ljóst að kaupmálinn sem varnaraðili og C gerðu 17. febrúar 2013 sé enn í fullu gildi og beri að leggja hann til grundvallar við skipti á búinu. Þær eignir sem þar eru tilgreindar sem séreignir séu utan hins óskipta bús sem varnaraðili hafi leyfi til setu í, sbr. 11. gr. erfðalaga. Þá liggi einnig fyrir grunur um að varnaraðili hafi ráðstafað innstæðum C sem hafi verið séreignir hans, til barna sinna og þannig rýrt séreignir C sem sóknaraðili sé erfingi að. Séu þegar af þeim ástæðum einnig skilyrði til að taka dánarbú C til opinberra skipta svo skjótt sem verða megi.

Þá telur sóknaraðili dóm Hæstaréttar í máli nr. 200/2015 enga þýðingu hafa fyrir mál þetta. Engin efnisleg afstaða hafi verið tekin í þeim úrskurði til kaupmálans og afturköllunar á honum, heldur einungis getið um það í málsatvikalýsingu að varnaraðili hafi leyfi til setu í óskiptu búi en það sé óumdeilt í þessu máli.

Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 38 gr., til erfðalaga nr. 8/1962, einkum II. kafla, til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum XI-XII kafla og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um málskostnað byggist á 129. gr., 1. mgr. 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila, um að bú C verið tekið til opinberra skipta, verði hafnað. Kröfu sína byggir varnaraðili á því að lagaskilyrði fyrir kröfu sóknaraðila séu ekki uppfyllt.

Varnaraðili hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi 30. september 2014. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi framkvæmt efnislegt og formlegt mat á kaupmálanum frá 24. ágúst 2013, sem afturkallaði kaupmála frá 17. febrúar 2013, og jafnframt á erfðaskrá þeirra hjóna 4 september 2013. Taldi sýslumaður, eftir að hafa lagt efnislegt og formleg mat á fyrrgreind skjöl, að uppfyllt væru skilyrði til setu varnaraðila í óskiptu búi, sbr. 4. mgr. 10 gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Varnaraðili kveður að þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi geti erfingi krafist þess, samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta, hafi hann heimild til þess skv. erfðalögum. Engin efnisleg heimild sé í fyrrgreindu ákvæði, heldur þurfi skilyrði II. kafla erfðalaga að vera uppfyllt svo að unnt sé að krefjast opinberra skipta eftir veitingu búsetuleyfis.

Samkvæmt 7. gr. erfðalaga eigi annað hjóna eftir lát hins rétt á að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja, nema hið látna hafi mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ekkert slíkt hafi verið tekið fram í erfðaskrá varnaraðila og C heitins. Þvert á móti segi þar: „eftir fráfall okkar beggja, skiptast eigur okkar til jafns, á barna okkar.“ Vilji þeirra beggja samkvæmt erfðaskránni var sá að búinu yrði ekki skipt upp fyrr en að þeim báðum látnum. Jafnframt hafi vilji þeirra beggja verið sá að enginn arfur greiddist fyrr en eftir andlát þeirra beggja, sbr. kaupmálann frá 24. ágúst 2013 þar sem segi: ,,og enginn arfur verður greiddur út fyrr en við erum bæði látin.“ Með tilliti til inntaks og vilja aðila í fyrrgreindri erfðaskrá og kaupmála frá 24. ágúst 2014, beri að hafna kröfu sóknaraðila.

Þá séu önnur skilyrði í II. kafla erfðalaga sem heimilað geti erfingja að krefjast opinberra skipta, þrátt fyrir búsetuleyfi, ekki uppfyllt.

Í fyrsta lagi hafi varnaraðili ekki rýrt efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veitt tilefni til að óttast megi slíka rýrnun sbr. 15. og 17. gr. laganna Þá hafi varnaraðili ekki gefið neina gjöf úr óskiptu búinu sbr. 2 mgr. 15 gr. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili byggi heldur ekki á þeim lagaákvæðum eða málsástæðum í kröfu sinni. Af þeim sökum geti þær málsástæður ekki komið til efnislegrar umfjöllunar og beri að hafna kröfu sóknaraðila um opinber skipti á grundvelli þeirra. Auk þess hafi engin skjalleg gögn verið lögð fram því til staðfestingar að varnaraðili hafi með einhverjum hætti misfarið með fé búsins.

Þá sé óljóst á hvaða grein II. kafla laga nr. 8/1962 sóknaraðili byggi kröfu sína um opinber skipti. Krafa hans sé í raun þríþætt. Í fyrsta lagi sé krafist opinberra skipta á grundvelli þess að lagaskilyrði fyrir form kaupmála hafi ekki verið uppfyllt, í öðru lagi að efnisskilyrði á afturköllun á kaupmála hafi ekki verið uppfyllt og í þriðja lagi að C hafi ekki haft andlegt hæfi til að ráða högum sínum og fé á árunum 2013-2014.

Varnaraðili telur ljóst að málsástæður sóknaraðila hvað þetta varðar falli ekki undir þær heimildir II. kafla erfðalaga sem heimili erfingja að krefjast þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta sér til handa. Í raun sé kröfugerð sóknaraðila verulega vanreifuð þar sem ekki sé á neinn hátt rökstutt hvernig skilyrði þessa kafla laganna eigi að leiða til þess að fallast ætti á kröfu hans. Þá séu málsástæður sóknaraðila ekki í samræmi við kröfur hans. Í beiðninni sé fjallað um að kaupmálinn frá 24. ágúst 2013 uppfylli ekki formskilyrði um afturköllun og þar af leiðandi sé kaupmáli frá 17. febrúar 2013 enn í gildi. Á hinn bóginn krefjist sóknaraðili ekki úrskurðar um að síðari kaupmálinn verði ekki lagður til grundvallar við skiptin. Þá sé jafnframt í löngu máli fjallað um andlegt hæfi C heitins en kröfugerð sóknaraðila feli þó ekki í sér að krafist sé úrskurðar um að síðari kaupmálinn sé ekki gildur vegna andlegs vanhæfis C. Þessar málsástæður telur varnaraðili ekki eiga heima í þessum þætti málsins. Þær kæmu til skoðunar eftir að búið hefði tekið til opinberra skipta yrði fallist á kröfu sóknaraðila eða í sjálfstæðu einkamáli um gildi þessara gerninga áður en krafist yrði opinberra skipta.

Varnaraðili kveður reglum um óskipt bú vera ætlað að tryggja hag hins langlífari maka. Varnaraðili hafi verið í sambúð með föður sóknaraðila í 27 ár og hefðu þau verið gift í rúmlega eitt og hálft ár þegar hann lést. Hún hafi alið honum einn son, sem sé sóknaraðili í máli þessu. Ljóst sé að varnaraðili hafi lagt mikið til búsins á þessum árum og því mikilvægt að hagur hennar sé tryggður.

Með tilliti til alls ofangreinds, þ.e. opinberra skjala sem hafi verið skráð með lögformlegum hætti, sbr. hjúskaparvottorð dags. 22 febrúar 2013, kaupmála frá 24. ágúst 2013 sem skráður var nr. 70/2013 í kaupmálabók sýslumanns, erfðaskrá aðila frá 4 september 2013, búsetuleyfi frá 30. september 2014 og læknisvottorð K, telur varnaraðili ljóst að sóknaraðili hafi ekki heimild til að krefjast opinberra skipta á búi föður síns. Beri af þessum sökum að hafna kröfu sóknaraðila.

Telji dómurinn á hinn bóginn að málsástæður sóknaraðila falli undir lagaskilyrði II. kafla erfðalaga, telur varnaraðili að kröfum sóknaraðila verði samt sem áður að hafna.

Varnaraðili bendir á að kaupmálinn frá 17. febrúar 2013 hafi verið gerður að frumkvæði varnaraðila og C og hafi þau í því skyni haft samband við L, systur hans. Kaupmálinn hafi verið efnislega unninn af L og hafi hún komið sjálf með hann að heimili þeirra hjóna í [...]. Þar hafi þau undirritað kaupmálann en enginn hafi vottað hann þar. Varnaraðili hafi nýverið áttað sig á því að M nokkur hefði vottað kaupmálann. Hún hafi á hinn bóginn ekki verið viðstödd þegar þau undirrituðu kaupmálann. Þá hafi kaupmálinn jafnframt verið vottaður af L, systur C. Hún hafi á hinn bóginn ekki verið viðstödd samtímis því að þau undirrituðu kaupmálann.

Ljóst sé því að skilyrði 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eru ekki uppfyllt og telur varnaraðili að umræddur kaupmáli frá 17. febrúar 2013 sé ógildanlegur. Í athugasemdum með frumvarpi til hjúskaparlaga var sú regla að sömu formreglur gildi um afturköllun kaupmála rökstudd með því að þessa væri þörf þar sem kaupmáli væri oft veigamikill löggerningur og formið hvetji til þess að menn vandi til verka. Þá stuðli formið að því að sönnun fáist fyrir því að hjón hafi undirritað kaupmála af fúsum vilja og hvenær undirritun hafi farið fram. Kaupmálinn hafi verið vottaður af tveimur aðilum, eftir að C og varnaraðili undirrituðu hann en ekki samtímis, en samtímavottun sé gildisskilyrði kaupmála samkvæmt ákvæðinu. Þegar litið sé til þess að vottarnir voru ekki til kvaddir samtímis til undirritunar, auk þess sem þeir voru hvorki viðstaddir undirritun skjalsins, né staðfestu báðir aðilar gerningsins undirritun sína í viðurvist þeirra, sé ljóst að kaupmálinn frá 17. febrúar 2013 sé ógildanlegur.

Hvað varði afturköllun á kaupmála frá 24. ágúst 2013 hafi sóknaraðili byggt á því í fyrsta lagi að handrituð yfirlýsing uppfylli ekki skilyrði hjúskaparalaga um að teljast kaupmáli og í öðru lagi að skilyrði laganna um hvernig skuli breyta eða afturkalla séreignarákvæði í kaupmála þeirra C heitins og varnaraðila, hafi ekki verið uppfyllt.

Varnaraðili kveðst byggja á því að kaupmálinn frá 24. ágúst 2013 uppfylli öll form- og efnisskilyrði 80 gr. laga nr. 31/1991. Í fyrsta lagi sé hann skriflegur og undirritaður af báðum hjónum. Í öðru lagi hafi undirritun hans verið staðfest af tveimur vottum sem hafi verið viðstaddir samtímis undirritun þeirra hjóna. Í skjalinu komi skýrlega fram á tveimur stöðum að um kaupmála sé að ræða, þá hafi jafnframt verið tilgreint að verið væri að votta kaupmála. Þá hafi vottarnir ritað nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Auk þess hafi þeir vottað að um kaupmála væri að ræða, eins og tilgreint sé í skjalinu. Þá hafi þeir vottað rétta dagsetningu, fjárræði og hæfi aðila við gerð kaupmálans. Því sé mótmælt sem fram komi í kröfu sóknaraðila að ekki hafi komið fram í hinu handritaða skjali að verið væri að votta ,,breytingu eða niðurfellingu á kaupmála“. Felist það í eðli máls samkvæmt meginmáli kaupmálans. Auk þess sé ekkert lagaskilyrði fyrir því að tilgreina þurfi sérstaklega við vottun að vottar hafi verið viðstaddir þegar C undirritaði skjalið. Þá beri að geta þess að fyrri kaupmáli hafi ekki heldur falið í sér að vottarnir hafi verið viðstaddir þegar C eða varnaraðili undirrituðu kaupmálann 17 febrúar 2013 og ef dómurinn telur að ógilda eigi síðari kaupmálann á grundvelli þeirra annmarka, beri jafnframt að ógilda fyrri kaupmálann á grundvelli sömu annmarka.

Þá kveður varnaraðili það algert gildisskilyrði kaupmála að þeir séu skráðir í kaupmálabók í samræmi við þær reglur er greinir í hjúskaparlögum. sbr. 82. gr. þeirra. Samkvæmt 84. og 85. gr. þeirra haldi sýslumenn dagbók og kaupmálabók. Þegar kaupmáli eða afturköllun kaupmála sé afhent til skráningar fari fram almenn athugun á því hvort eintök kaupmálans séu þannig gerð að efni, formi og frágangi, að kaupmáli sé tækur til dagbókarfærslu. Ef svo er skuli samkvæmt 2. mgr. 84. gr. laganna árita skjölin um að hann hafi verið færður í dagbók og viðtökudag skjals. Því næst fari fram frekari könnun á því hvort kaupmálinn sé tækur til færslu í kaupmálabók, sbr. 1 mgr. 85 gr. hjúskaparlaga og 2 mgr. 7 gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi í samræmi við reglur hjúskaparlaga skráð afturköllun á kaupmálanum 26. ágúst 2013 í kaupmálabók og hafi skjalið fengið númerið 70/2013 í kaupmálabók. Eftir að kaupmálinn hafi verið skráður í kaupmálabók hafi hann verið áritaður um innritun og viðtökudag skjals sbr. 2 mgr. 85. gr. hjúskaparlaga en afturköllunin hafi verið innfærð þann 29. ágúst 2013. Sýslumaðurinn í Reykjavík mat þar af leiðandi efni, form og frágang skjalsins, taldi skjalið skráningartækt og skráði afturköllun kaupmálans í bækur sína. Ljóst sé því að afturköllun kaupmálans uppfylli öll lagaskilyrði er varða efni, form og frágang.

Þá sé því sérstaklega mótmælt er fram komi í beiðni sóknaraðila að vottarnir hafi verið vanhæfir að hjúskaparlögum til þess að votta afturköllun á kaupmálanum. Samkvæmt 4. málslið 80 gr. hjúskaparlaga sé kveðið á um það skilyrði að vottar skuli vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum. Báðir vottarnir séu lögráða, þ.e. sjálf- og fjárráða, og þar að leiðandi sé það skilyrði uppfyllt. Þá séu þeir staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum. Varnaraðili kveður engin bein ákvæði vera í réttarfarslögum um vanhæfi votta vegna tengsla við hjón, sbr. 51 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 52 gr. laganna sé á hinn bóginn kveðið á um hverjir geti skorast undan því að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Um heimildarreglu sé að ræða en ekki skyldu og því sé þetta valkvætt fyrir vitnið.

Enn fremur sé því mótmælt að í efni kaupmála 24 ágúst 2013 felist ,,aðeins ráðagerð um að ógilda samning þeirra í milli en ekki bein yfirlýsing um að kaupmáli milli þeirra skuli falla úr gildi með þeim réttaráhrifum að séreignir C, eins og þær eru tilgreindar í kaupmálanum, skuli eftirleiðis teljast vera hjúskapareignir beggja, eins og kveða verður á um í skjali sem ætlar að breyta séreignarrétti hjóna“. Sé ætlunin að breyta séreign þurfi til þess kaupmála. Kaupmáli frá 24. ágúst 2013 felldi úr gildi kaupmála frá 17 febrúar 2013 og þar með urðu eignir C hjúskapareignir varnaraðila. Jafnframt urðu eignir varnaraðila hjúskapareignir C.

C heitinn og varnaraðili hafi tekið um það ákvörðun árið 2014 að fasteignirnar [...] og [...] yrðu skráðar á þau sameiginlega. Leituðu þau af þeim sökum til lögmanna til að sjá um skjalagerð fyrir sína hönd og var tekið af þeim umboð 7. júlí 2014. Hafi gagnkvæmur samningur/afsöl frá 20. júlí 2014 verið unninn í samræmi við vilja þeirra beggja, um að varnaraðili yrði 50% eigandi fasteignarinnar [...] og C heitinn yrði 50% eigandi fasteignar sem var séreign varnaraðila, [...] í Mosfellsbæ.

Þá telur varnaraðili að við túlkun á kaupmála frá 24. ágúst 2013 beri að liggja viljakenningu til grundvallar. Með afturköllun á kaupmálanum hafi tilgangur þeirra verið að allar eignir þeirra yrðu hjúskapareignir. Sá vilji endurspeglist í erfðaskrá frá 4. september 2013, en þar sé tiltekið að ,,eftir fráfall okkar beggja skiptast eigur okkar til jafns á barna okkar“. Ljóst sé m.t.t. túlkunar á erfðagerningi þessum að þau telji allar eigur þeirra vera hjúskapareignir. Það sé eðlilegt þegar litið sé til þess að C og varnaraðili voru búin að vera í sambúð í 27 ár áður en þau giftu sig árið 2013 og fannst óeðlilegt að þau myndu hvorugt erfa hitt. Af þeim sökum hafi þau afturkallað fyrri kaupmála. Í samræmi við þann vilja hafi varnaraðili afsalað sér 50% af fasteign sinni [...] til C heitins og C afsalað sér 50% fasteignarinnar [...] til varnaraðila.

Þá telur varnaraðili að líta verði til þess að fyrri kaupmálinn, dags. 17 febrúar 2013, hafi verið gerður fyrir tilstuðlan þeirra beggja. Þau hafi svo tekið sameiginlega ákvörðun um að afturkalla þann kaupmála og gera allar eignir sínar að hjúskapareignum enda búin að vera í sambúð í 27 ár og gift í rúmlega ár og ljóst að varnaraðili hefði lagt mikið til búsins allan þennan tíma.

Með vísan til afturköllunar á fyrri kaupmálanum, afsala frá 20. júlí 2014 og vilja C og varnaraðila, sé ljóst að eignir varnaraðila séu hjúskapareignir C heitins og eignir C heitins séu hjúskapareignir varnaraðila.

Varnaraðili kveðst mótmæla því sem fram komi í kröfu sóknaraðila að C ,,hafi ekki verið andlega fær um að ráða högum sínum og fé á þeim tíma er hann á að hafa ritað undir téða yfirlýsingu. Hann hafi því ekki verið fær um að gera sér grein fyrir því hvað í yfirlýsingunni fælist, hvort í henni fælist afturköllun á séreignarákvæði kaupmálans með þeim réttaráhrifum að séreignir C yrðu eftirleiðis hjúskapareignir hans eða þeirra beggja eða eitthvað annað.“.

Varnaraðili telur þvert á móti að C hafi verið andlega fær um að ráða högum sínum og fé á þeim tíma er hann undirritaði kaupmálann 24. ágúst 2013, enda hefði hann verið fjárráða og sjálfráða þegar umþrætt skjal var gert. Því til frekari staðfestingar kveðst varnaraðili vísa til læknisvottorðs K læknis við Heilsugæsluna í Mosfellsumdæmi. K hafi verið heimilislæknir þeirra hjóna yfir tvo áratugi og því manna best þekkt andlegt og líkamlegt ástand þeirra beggja. Fram komi í læknisvottorði hans að þrátt fyrir ranghugmyndir C og geðsjúkdóm hafi hann fram á mitt sumar 2014 verið það vel áttaður að gjörðir hans, m.a. að giftast sambýliskonu sinni til 27 ára, hafi verið meðvituð aðgerð.

Halda verði til haga að C hafi farið í skammvinnt geðrofsástand þann 13. september 2011 sem hafi gengið fljótt tilbaka. Jafnframt hafi hann verið endurlífgaður með hjartahnoði þann 15. september 2011 og náð meðvitund fljótlega. Hann hafi útskrifast þann 28. október 2011 og þá verið reglulega í eftirliti hjá Heilsugæslu Mosfellsumdæmis fram á mitt sumar árið 2014. Gerningar þeir sem um er deilt í máli þessu séu kaupmálar sem hafi verið undirritaðir 17. febrúar 2013 og 24. ágúst 2013 og umboð 15. júlí 2014. Þegar þessir gerningar voru undirritaðir hafi C r verið í reglulegu eftirliti hjá áðurnefndum lækni. Hafi hann því haft bestu innsýn í andlegt og líkamlegt ástand hans á þeim tíma. Telur K í læknisvottorði sínu að hann hafi alltaf verið vel „orienteraður“ á þessum tíma og vel áttaður á stað og stund, þrátt fyrir að vera „lyfjaður“ vegna geðsjúkdóms síns. Varnaraðili og C hafi m.a. rætt við K um væntanlegt hjónaband sitt árið 2013 og eftir að þau giftu sig hafi þau að hans sögn virst ánægð eins og fram komi í vottorði hans. Þá kemur þar fram að C og varnaraðili hefðu allan þann tíma sem þau mættu til K haft miklar áhyggjur af sóknaraðila, syni þeirra. Síðasta heimsókn C á heilsugæsluna hafi verið þann 17. júlí 2014. Hann hafi þá verið slappur, kvartað undan þreytu og að hann þyrfti sífellt að vera að leggja sig. Lífsmörk hafi þó verið innan eðlilegra marka og C ,,vel áttaður á stað og stund“ eins og segi í vottorðinu.

Læknisvottorð J innkirtlasérfræðings sem sóknaraðili byggi kröfu sína um andlegt hæfi C á er dagsett 22. september 2014 og varðar innlögn C á Landspítalann þann 19. júlí sama ár vegna þvagteppu og versnandi nýrnastarfsemi. C hafi verið útskrifaður 14. ágúst 2014 og hafi samanburðarniðurstöður sýnt töluverðar framfarir í innlögninni á MMSE-prófi og ADL-prófi. Til samanburðar hafi hann fengið 8/30 á MMSE þann 24. júlí 2014 en síðar 19/30 á sama prófi. Í læknisvottorði telur læknirinn að C hafi sýnt töluverðar framfarir í legunni sem stafi líklega af veikindum sjúklings við komu en þau hafi skýrst af þvagteppu og versnandi nýrnastarfsemi sem hafi að mestu gengið til baka með viðeigandi meðferð.

Varnaraðili telur af framansögðu ljóst að um tímabundin veikindi C hafi verið að ræða sem endurspegli engan veginn ástand hans á árinu 2013.

Við mat á vægi læknisvottorða verði að hafa í huga að J læknir sé innkirtlasérfræðingur og hafi einungis verið með hann til meðferðar frá 19. júlí til 14. ágúst 2014, hún þekki því ekki til fyrri heilsufarssögu C. Það geri hins vegar K heimilislæknir hans til tuttugu ára. Hafi hann jafnframt verið eini læknirinn sem hafði hann til meðferðar á því tímabili sem umþrættir gerningar voru undirritaðir og hafi læknisvottorð hans og síðari vitnisburður verulegt vægi við mat á líkamlegu og andlegu hæfi hans.

Varnaraðili telur því ljóst, með vísan til læknisvottorðs K ,að C hafi haft andlegt hæfi til að undirrita kaupmála 24. ágúst 2013, sem afturkallaði kaupmálann frá 17. febrúar 2013. Vísar hann sérstaklega til þeirra ummæla í vottorðinu að C hafi fram á ,,mitt sumar 2014 verið það vel meðvitaður, orienteraður að gjörðir hans, m.a. að gifta sig sambýliskonu sinni til 27 ára hafi verið meðvituð aðgerð“. Jafnframt hafi hann skilið efni og inntak síðari kaupmálans og þann tilgang hans að eignir þeirra beggja yrðu sameiginlegar hjúskapareignir þeirra. Sá vilji endurspeglist í því að C hafi gefið lögmanni sínum umboð í júlí 2014 um að [...] yrðu í 50% eigu eiginkonu sinnar auk þess sem C fékk 50% hlut í fasteign varnaraðila í [...].

Þá sé mótmælt ályktunum sóknaraðila um að andlegt hæfi C komi fram í því hvernig hann ritaði nafn sitt. C hafi ávallt ritað nafn sitt án millinafnsins [...], eins og sjáist á afsali frá árinu 1996. Hvorki á því skjali né kaupmálanum frá 24. ágúst 2013 eða umboðinu 2014 sé notað millinafnið [...]. Þá ljúki hann ekki við að rita föðurnafn sitt á þessu skjölum. Er því sérstaklega mótmælt þeirri málsástæðu sóknaraðila að það ,,helgist af slæmu andlegu og líkamlegu ástandi hans“.

Þá kveðst varnaraðili mótmæla öllum málsástæðum er varða erfðaskrá C og varnaraðila, enda eigi þær málsástæður ekki við í þessum þætti málsins með tilliti til kröfugerðar sóknaraðila. Skýrt komi fram í erfðaskránni að arfur skuli ekki útdeilast fyrr en eftir fráfall þeirra beggja.

Þá er því alfarið hafnað af hálfu varnaraðila að hún hafi verið grandvís um andlega annmarka C í skilningi 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 og notfært sér það sér í hag.

Jafnframt mótmælir varnaraðili sérstaklega ítrekuðum fullyrðingum í kröfu sóknaraðila um að varnaraðili hafi ,,nú þegar látið stjúpbörnum C í té verulega fjármuni voru inn á bankareikningum C og töldust til séreigna hans“ sem röngum og haldlausum. Þvert á móti hafi sóknaraðili fengið mest útdeilt af öllum börnum varnaraðila. Á árunum 2010-2014 hafi varnaraðili millifært 5.319.514 krónur af bankareikningi sínum á sóknaraðila. Inn í þessar millifærslur vanti ótal bensíngreiðslur, matargreiðslur og önnur útgjöld. Þá kveðst varnaraðili hafa greitt húsaleigu fyrir sóknaraðila á [...] sem nemi verulegum fjárhæðum. Þrátt fyrir góðmennsku varnaraðila hafi sóknaraðili komið mjög illa fram við hana og föður sinn um langa hríð og hafi þau haft stöðugar áhyggjur af honum. Endurspeglist það hvað best í læknisvottorði K læknis þar sem segi um þetta: ,,Höfðu þau allan tíma sem þau mættu reglulega til undirritaðs miklar áhyggjur af syni þeirra og eina barni sem beið haustið 2011 eftir dómi vegna innbrota og/eða fíkniefnasölu“.

Þá telur varnaraðili að dómur Hæstaréttar í máli nr. 200/2015 hafi fullt sönnunargildi um málsatvik í þessu máli þar til hið gagnstæða sannist. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að fasteignin [...] væru hjúskapareign C heitins.

Með tilliti til alls framangreinds telur varnaraðili ljóst að hafna beri kröfu sóknaraðila um að fram fari opinber skipti á búi föður hans.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 38 gr., til erfðalaga nr. 8/1962, einkum II. kafla, til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum XI.-XII. kafla og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, Krafan um málskostnað byggist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. þeirra laga og krafa um álag á málskostnað byggist á 131. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu hefur sóknaraðili krafist opinberra skipta sér til handa á búi föður síns, C sem lést 15. september 2014, en varnaraðili, móðir sóknaraðila, fékk leyfi til setu í óskiptu búi 30. sama mánaðar. Sóknaraðili byggir kröfu sína á 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og vísar einnig til 1. mgr. 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962 kröfu sinni til stuðnings.

Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 getur erfingi krafist þess að dánarbú verði tekið til opinberra skipta hafi hann heimild til þess eftir ákvæðum erfðalaga þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Reglan geymir þó engar efnislegar heimildir til handa erfingja en í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 20/1991 segir m.a. að krafa erfingja í slíkum tilvikum sé háð því að heimild standi til hennar í ákvæðum II. kafla erfðalaga. Í þeim kafla erfðalaga er í greinum 7 til 20 að finna reglur um óskipt bú. Þau ákvæði sem helst koma þar til skoðunar eru 15. og 17. gr. Í fyrra ákvæðinu er mælt fyrir um að erfingi geti farið fram á opinber skipti geti hann sannað að maki sem situr í óskiptu búi vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun. Í því síðara segir að hafi efni bús rýrnað til muna vegna fjárstjórnar maka geti erfingjar við búskipti krafist endurgjalds vegna þessa úr búinu. Verði rýrnunin ekki bætt með þeim hætti megi krefjast greiðslu á helmingi þess er á vantar úr séreign makans.

Þrátt fyrir tilvísanir sóknaraðila til 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 8/1962 er málatilbúnaður hans að nokkru óskýr og í beiðni hans er í kafla um málsatvik jöfnum höndum greint frá atvikum máls og málsástæðum svo að erfitt er að nokkru að festa hönd á því hverjar þær eru. Málatilbúnaður sóknaraðila hefur þó skýrst undir rekstri málsins og við munnlegan flutning þess. Þykir því ekkert vera því til fyrirstöðu að fjalla efnislega um kröfu hans. Þá verður ekki séð að framsetning krafna og sjónarmiða í beiðni sóknaraðila hafi haft áhrif á möguleika varnaraðila til að taka til varna sem hann og gerði með ítarlegri greinargerð.

Að þessu sögðu verður málatilbúnaður sóknaraðila skilinn svo að varnaraðili hafi að hans mati ranglega fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Ráðagerð eða yfirlýsing sem varnaraðili og faðir sóknaraðila, C, gáfu 24. ágúst 2013 með undirritun skjals þar sem kaupmáli þeirra frá 17. febrúar 2013 var afturkallaður og allar eignir þeirra hjóna gerðar að hjúskapareignum sé vegna form- og efnisgalla ógild með öllu. Hefur sóknaraðili á því byggt að C heitinn hafi skort andlegt hæfi til að skilja efni og áhrif afturköllunar fyrri kaupmálans. Síðari kaupmálinn sé því ógildur samkvæmt efni sínu og því sé kaupmálinn frá 17. febrúar 2013, þar sem mælt var fyrir um séreignafyrirkomulag aðilanna í hjúskap, enn í fullu gildi og beri að leggja hann til grundvallar við skipti á dánarbúi C heitins. Af þessu leiði að ekki séu skilyrði til þess að varnaraðili, móðir hans, fái að sitja í óskiptu búi með eignir sem tilgreindar hafi verið í kaupmálanum frá 17. febrúar 2013 sem séreignir C heitins. Þær eignir eigi því ekki að renna inn í hið óskipta bú heldur koma strax til skipta. Því beri að fallast á kröfu hans um opinber skipti.

Varnaraðili hefur mótmælt því að sóknaraðili geti krafist opinberra skipta á grundvelli 3 mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Hefur hann bent á að óljóst sé á hverju krafan sé byggð. Þá sé krafan sjálf í andstöðu við þær málsástæður sem sóknaraðili byggi á. Allt að einu geti sóknaraðili ekki, í máli þar sem krafist sé opinberra skipta, byggt á því að gerningar sem færðir hafi verið athugasemdalaust í bækur sýslumanns séu ógildir eða ógildanlegir á grundvelli þess að formreglum hafi ekki verið fylgt við gerð þeirra eða að föður hans, C, hafi skort andlegt hæfi til að rita undir þá og skilja þýðingu þeirra. Þá sé óljóst á hvaða efnisreglum II. kafla erfðalaga sóknaraðili byggi og tilvísun hans til 11. gr. þeirra laga, sem fjalli um hvaða eignir falli undir óskipt bú, hafi ekkert gildi.

Mál þetta varðar kröfu sóknaraðila um að fram fari opinber skipti á búi föður hans en varnaraðili fékk að honum látnum leyfi til setu í óskiptu búi 30. september 2014 eins og áður sagði. Í málinu er sá ágreiningur einn til úrlausnar hvort lagaskilyrði séu til þess að fallast á kröfu sóknaraðila. Í málinu verður því eðli málsins samkvæmt ekki kveðið upp úr með það hvort löggerningar sem varnaraðili og Cheitinn gerðu sín á milli séu hvort heldur sem er ógildir frá öndverðu eða ógildanlegir enda lýtur kröfugerð sóknaraðila í raun ekki að því að umræddir gerningar, einn eða fleiri, verði felldir úr gildi eða þeim hnekkt að öðru leyti þótt það sé þó að nokkru leyti grundvöllur málatilbúnaðar hans að ekki verði á tilteknum löggerningum byggt vegna form- og efnisannmarka. Þá verður heldur ekki í þessu máli skorið úr um eða tekin afstaða til þess hvort faðir sóknaraðila hafi haft andlegt hæfi til að standa að þeim gerningum er um ræðir eða hvort varnaraðili hafi notfært sér andlegt ástand C við gerð framangreindra gerninga sér í hag, í skilningi laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Sóknaraðili hefur máli sínu til stuðnings vísað til dóms Hæstaréttar frá 28. ágúst 2006 í máli nr. 412/2006 þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að skiptum á dánarbúi hafi ekki með réttu verið lokið þar sem í umsókn eftirlifandi maka um leyfi til setu í óskiptu búi hafði ekki verið greint frá því að til staðar var kaupmáli milli eftirlifandi maka og þess látna, þar sem tilteknar eignir voru gerðar að séreignum. Þær eignir sem enn voru til staðar við lát makans hafi því ekki getað runnið til óskipta búsins heldur hafi borið að láta þær koma til skipta, sbr. 1. mgr. 11. gr. erfðalaga. Erfingjum var því heimilt að fara fram á opinber skipti á búnu samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Dómurinn telur atvik í þessu máli ekki vera sambærileg og því geti umræddur dómur ekki verið til leiðsagnar um hvernig fara skuli með kröfu sóknaraðila. Í því máli sem hér liggur fyrir dóminum fékk varnaraðili leyfi til setu í óskipu búi 30. september 2014. Hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að upplýsingar um þá gerninga sem um ræðir í málinu hafi ekki legið fyrir, heldur verður þvert á móti ekki annað séð en að skjal það er varnaraðili og faðir sóknaðila rituðu undir 24. ágúst 2013 hafi verið fært í þinglýsingabækur athugasemdalaust og því legið fyrir í bókum sýslumanns er varnaraðili fékk leyfi til setu í óskiptu búi.

Jafnvel þótt talið verði að ekki beri að skilja fyrirmæli 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 svo bókstaflega að þau útiloki að krafa verði sett fram um opinber skipti í tilviki þar sem erfingi telur langlífari maka þess látna ranglega hafa verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi verður ekki talið, eins og málið liggur fyrir dóminum, unnt að fullyrða eða slá því föstu að varnaraðili hafi ranglega fengið leyfi til setu í óskiptu búi eins og um var að ræða í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 412/2006. Telji sóknaraðili að svo sé er honum sú leið fær að fá hnekkt þeim gerningum sem hann telur að ranglega hafi verið lagðir til grundvallar er varnaraðila var af sýslumanni veitt leyfi til setu í óskipu búi. En um gildi þeirra verður ekki fjallað í máli er varðar kröfu erfingja um að opinber skipti fari fram á dánarbúi látins maka þess er situr í óskiptu búi. Er þá einnig haft til hliðsjónar það sjónarmið að reglum um óskipt bú er öðrum þræði ætlað að tryggja hag eftirlifandi maka. Þá verður ekki séð að unnt sé eins og málið liggur fyrir dóminum að slá því föstu að leyfi til setu í óskiptu búi hafi verið veitt í andstöðu við fyrirmæli 7. gr. erfðalaga nr. 8/1962 þar sem mælt er fyrir um að eftir lát annars hjóna eigi hitt rétt á að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja, nema hið látna hafi mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram.

Það er því niðurstaða dómsins að ekki sé unnt að verða við kröfu sóknaraðila um að fram fari opinber skipti á búi föður hans þar sem lagaskilyrði standi ekki til þess að á kröfu hans verði fallist

Fram kemur í kröfu sóknaraðila um opinber skipti að hann hafi „rökstuddan grun um að [varnaraðili] hafi gengið í sjóði C heitins á meðan þau bjuggu saman og m.a. ráðstafað fé til stjúpbarna C sem lögum skv. eiga ekkert arfstilkall eftir hann. Er nauðsynlegt að skiptastjóri kanni ráðstöfun á bankainnstæðum C frá febrúar 2013 til dags. dato.“ Þá kemur þar fram að sóknaraðili hafi krafist þess síðastliðið haust að faðir hans yrði sviptur fjárræði tímabundið „til þess að varna því að [varnaraðili] myndi misfara frekar með eignir C“. Sú beiðni hafi á hinn bóginn ekki fengið meðferð fyrir dóminum þegar C hafi látist 15. september sl. Varnaraðili hefur krafist þess að litið verði fram hjá þessum þætti í málatilbúnaði sóknaraðila enda sé hann órökstuddur með öllu og ekki hægt að styðjast við getgátur sóknaraðila hvað þetta varðar. Óljóst er af beiðni sóknaraðila hvort hér er um sérstaka málsástæðu að ræða af hans hálfu. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að þessi sjónarmið væru til fyllingar öðrum sjónarmiðum hans um að tilefni væru til þess að taka bú föður sóknaraðila til opinberra skipta. Dómurinn telur að líta verði svo á að sóknaraðili byggi í raun ekki á þeirri málsástæðu að varnaraðili hafi á einhvern hátt misfarið með fé búsins sem veiti honum rétt til að krefjast opinberra skipta á búinu á grundvelli 15. eða 17. gr. erfðalaga. Jafnvel þótt svo væri talið telur dómurinn ljóst að sjónarmið sóknaraðila hvað þetta varðar eru hvorki studd gögnum né hefur hann freistað þess að sýna fram á með annarri sönnunarfærslu að þau eigi við rök að styðjast. Verður því ekki séð að unnt sé að fjalla frekar um þessi sjónarmið sóknaraðila og verður þeim því hafnað. Þá virðist umfjöllun sóknaraðila um þennan þátt málsins byggjast á því að varnaraðili hafi að einhverju leyti misfarið með fé föður sóknaraðila á meðan hann var enn á lífi en slíkt getur eðli málsins samkvæmt ekki fallið undir ráðstafanir á grundvelli 15. og 17. gr. erfðalaga og koma ekki hér til frekari skoðunar.

Þá verður ekki fallist á með varnaraðila að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2015, þar sem falllist var á kröfu varnaraðila um útburð leigjanda úr fasteigninni að [...] á [...], fastanúmer [...], sé tekin efnisleg afstaða til afturköllunar kaupmálans frá 17. febrúar 2013 með nýjum kaupmála 24. ágúst 2013 eða til þess hvort eignir varnaraðila og C skyldu lúta hjúskapar- eða séreignarfyrirkomulagi í hjúskap þeirra enda var það ekki sakarefni þess máls.

Í samræmi við ofangreind málsúrslit verður sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts. Við ákvörðun um málskostnað er auk úrslita málsins litið til umfangs og þess málsins fyrir dóminum Ekki er þó unnt að fallast á að málarekstur sóknaraðila hafi verið með öllu þarflaus og telur dómurinn því ekki efni til þess að fallast á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða álag á málflutningsþóknun.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Eiríkur Guðlaugsson hdl. en af hálfu varnaraðila Jónas Örn Jónasson hdl.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R SK U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að dánarbú föður hans, C, sem lést 15. september 2014, skuli tekið til opinberra skipta.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, B, 650.000 krónur í málskostnað.