Hæstiréttur íslands
Mál nr. 104/2013
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Hættubrot
- Svipting ökuréttar
- Rannsókn
- Málshraði
- Sérálit
|
|
Fimmtudaginn 19. júní 2013. |
|
Nr. 104/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Pétri Jóhanni Sævarssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Umferðarlagabrot. Hættubrot. Svipting ökuréttar. Rannsókn. Málshraði. Sérálit.
P var í ákæru gefið að sök að hafa ekið bifhjóli á ofsahraða undir áhrifum fíkniefna án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Var háttsemin talin varða við ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987, auk 168. gr. og 4. mgr. 220 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms taldi Hæstiréttur sannað að atvik hafi verið með þeim hætti er í ákæru greindi. Þá var staðfest sú niðurstaða að P hafi með aksturslagi sínu raskað öryggi bifreiða og umferðaröryggi á alfaraleið og með því brotið gegn 168. gr. laga nr. 19/1940. Á hinn bóginn hefði ákæruvaldið ekki sýnt fram á að hættan af akstri ákærða hafi verið slík að hann hafi stofnað lífi eða heilsu annarra í augljósan háska svo sem áskilið væri í 4. mgr. 220. gr. áðurnefndra laga. Þá taldi Hæstiréttur að P yrði ekki refsað fyrir brot á 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1987 þar sem það ákvæði væri svo almennt orðað að það gæti ekki, að teknu tilliti til fyrirmæla 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, talist viðhlítandi refsiheimild. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu P og lengd ökuréttarsviptingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara sýknu „af háttsemi sem felld er undir ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987“, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og sviptingu ökuréttar markaður skemmri tími.
I
Í máli þessu er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa ekið bifhjóli á ofsahraða austur Reykjanesbraut föstudaginn 23. júlí 2010 undir áhrifum fíkniefna án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Þegar hann hafi ekið af tvöföldum kafla Reykjanesbrautar inn á vegarkafla þar sem umferð er á einni akrein hafi hann ítrekað farið fram úr til beggja handa bifreiðum, sem óku í sömu akstursstefnu, uns hann kom að stað, austan við álverið í Straumsvík, þar sem lögregla hafði stöðvað umferðina til austurs. Þá hafi hann ekið bifreiðinni þvert yfir Reykjanesbraut inn á göngustíg, sem liggur meðfram henni, en eftir um 100 metra akstur eftir stígnum hafi hann misst stjórn á bifhjólinu og við það fallið í jörðina.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms telst sannað að atvik hafi verið með þeim hætti sem að framan greinir og þau átt sér stað á háannatíma þar sem umferð eftir Reykjanesbraut var mikil í báðar áttir. Með aksturslagi sínu við þessar aðstæður undir áhrifum fíkniefna raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið, jafnframt því sem honum hlaut þrátt fyrir ástand sitt að hafa verið ljós sú almenna hætta sem af framferði hans hlaust, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hann hafi með þessari háttsemi brotið gegn 168. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn hefur ákæruvaldið ekki sýnt fram á að hættan af akstri ákærða hafi verið slík að hann hafi stofnað lífi eða heilsu annarra í augljósan háska, svo sem áskilið er í 4. mgr. 220. gr. laganna. Verður hann því sýknaður af ákæru um það brot. Háttsemi ákærða er að öðru leyti rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru, að því frátöldu að honum verður ekki refsað fyrir brot á 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga þar sem það ákvæði er svo almennt orðað að það getur ekki, að teknu tilliti til fyrirmæla 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, talist viðhlítandi refsiheimild, sbr. dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 33/2012. Einn dómenda, Ólafur Börkur Þorvaldsson, telur að ákærði hafi með óvarkárni í akstri sínum skapað hættu í umferðinni sem varði við 1. mgr. 4. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga og hann telur viðhlítandi refsiheimild. Lætur hann í dæmaskyni nægja að vísa til dóma Hæstaréttar 13. þessa mánaðar í máli nr. 657/2012, 19. febrúar 2009 í máli nr. 452/2008 og 19. júní 2003 í máli nr. 108/2003.
II
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ítrekað gerst sekur um brot á ákvæðum umferðarlaga um ökuhraða frá árinu 2004. Þá var hann með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. mars 2009 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. umferðarlaga, en fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Sá tími var ekki liðinn þegar ákærði framdi þau brot sem að framan greinir. Eftir 60. gr. almennra hegningarlaga verður refsing samkvæmt þeim dómi því tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem honum verður nú gerð. Jafnframt verður refsing ákærða ákveðin sem hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2010 eftir reglum 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi.
Eftir að hafa framið brotin 23. júlí 2010 var ákærði handtekinn á vettvangi og í framhaldi af því var tekin óformleg skýrsla af honum hjá lögreglu. Samkvæmt gögnum málsins verður ráðið að erfitt hafi verið að hafa upp á ákærða í kjölfarið og fram á árið 2011. Það var fyrst 20. september sama ár að tekin var formleg skýrsla af honum hjá lögreglu og 5. desember það ár mun lögregla hafa gengið endanlega frá frumskýrslu sinni í málinu. Ákæra var svo loks gefin út 3. júlí 2012. Samkvæmt þessu hefur rannsókn málsins og útgáfa ákæru dregist meira en góðu hófi gegnir án þess að ákærða verði að öllu leyti um kennt, auk þess sem finna verður að því að ekki var gengið frá frumskýrslu lögreglu um það sem gerðist 23. júlí 2010 strax eftir að atvik áttu sér stað.
Að virtu öllu því sem að framan greinir og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest ákvæði hans um refsingu ákærða. Með skírskotun til 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga er jafnframt fallist á ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar, svo og um sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Pétur Jóhann Sævarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 268.207 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2012.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 23. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 3. júlí 2012, á hendur Pétri Jóhanni Sævarssyni, kt. [...], nú að [...], [...],
„fyrir hegningar- lögreglu- og umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 23. júlí 2010, ekið bifhjólinu [...], austur Reykjanesbraut skammt vestan við Vatnsleysuafleggjara, án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, á 150 kílómetra hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfður hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 3,2 ng/ml) og án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Ákærði raskaði þannig umferðaröryggi á alfaraleið.
Ákærði ók bifhjólinu um 15,3 km leið sem hér greinir:
Austur Reykjanesbraut, skammt vestan við Vatnsleysuafleggjara, og er lögregla hóf eftirför veittu lögreglumenn því athygli að ákærði jók hraða bifhjólsins verulega. Var lögreglubifreiðinni ekið á allt að 200 kíkómetra (sic.) hraða og nálgaðist við það bifhjólið. Þegar lögreglubifreiðin nálgaðist bifhjólið jók ákærði enn hraðann. Er ákærði ók bifhjólinu af tvöföldum kafla Reykjanesbrautar og inn á vegkafla þar sem umferð er á einni akrein, hægði hann á hraða bifhjólsins þar sem að umferð var mikil. Kærði ók í kjölfarið ítrekað hægra megin fram úr öðrum bifreiðum sem óku til austurs auk þess sem hann ók ítrekað vinstra megin fram úr þeim bifreiðum sem ekið var til austurs, þrátt fyrir að framúrakstur væri ekki leyfilegur á þeim vegkafla líkt og gefið er til kynna með óbrotinni miðlínu. Er ákærði var kominn austur fyrir Álverið í Straumsvík þar sem lögregla hafði stöðvað umferðina til austurs, sinnti hann ekki stöðvunarmerkjum lögreglu þar heldur og ók bifhjólinu til norðurs, inn á göngustíg, sem liggur meðfram Reykjanesbraut. Er ákærði hafði ekið um 100 metra á göngustígnum missti hann stjórn á bifhjólinu með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina. Lögreglumenn stöðvuðu þá lögreglubifreiðina og hlupu í átt að kærða og handsömuðu hann þar sem hann var að gera tilraunir til að reisa bifhjólið við og gangsetja það á nýjan leik.
Telst þetta varða við 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 1. mgr. 4. gr., 1. og 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 20. gr., 1. mgr. og g. lið 2. mgr. 36. gr., 2. mgr. 37. gr., 2. mgr. 41. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 5. desember 2011, voru lögreglumennirnir Atli Már Halldórsson og Jóhann Bragi Birgisson hinn 23. júlí 2010 við almennt umferðareftirlit á Reykjanesbraut skammt vestan við Vatnsleysuafleggjara á lögreglubifreiðinni [...]. Í skýrslunni segir að klukkan 15.30 hafi þeir veitt athygli bifhjóli sem ekið hafi verið austur Reykjanesbraut á miklum hraða. Hafi hraðaratsjá í lögreglubifreiðinni sýnt hraðann 155 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Lögreglumenn hafi tendrað neyðarakstursljósker lögreglubifreiðarinnar og veitt bifhjólinu eftirför. Við upphaf eftirfararinnar hafi lögreglumenn veitt því athygli að ökumaður bifhjólsins, ákærði í máli þessu, hafði aukið hraðann umtalsvert og ætlaði sér greinilega ekki að stöðva aksturinn. Bifhjólið hafi fjarlægst hratt og ekki sést í skamma stund. Í skýrslunni segir að lögreglubifreiðinni hafi verið ekið á um 200 km hraða á klukkustund í eftirförinni og hafi lögreglubifreiðin nálgast bifhjólið lítillega. Bifhjólinu hafi þá verið ekið enn hraðar og hafi það fjarlægst lögreglubifreiðina aftur, en þá hafi henni enn verið ekið á um 200 km hraða á klukkustund samkvæmt hraðamæli lögreglubifreiðarinnar. Í skýrslunni segir að er tvöföldum kafla Reykjanesbrautarinnar hafi sleppt og sá kafli hennar þar sem hún er einföld tekið við skammt vestan við Álverið í Straumsvík hafi umferð verið mikil og hafi ákærði því hægt ferðina, en ekið ítrekað fram úr öðrum bifreiðum hægra megin með því aka eftir vegöxlinni og skapað við það athæfi mikla hættu. Einnig hafi ákærði ekið ítrekað fram úr bifreiðum vinstra megin þar sem framúrakstur er óheimill og það gefið til kynna með óbrotinni miðlínu.
Í skýrslunni segir að lögreglumenn hafi óskað eftir aðstoð frá lögreglustöðinni á höfuðborgarsvæðinu til að stöðva ökumann bifhjólsins. Lögreglubifreið hafi verið staðsett skammt frá Reykjanesbraut í Hafnarfirði og hafi lögreglumenn stöðvað umferð um Reykjanesbraut til austurs. Ákærði hafi þá ekið bifhjólinu inn á göngustíg, sem liggi meðfram Reykjanesbraut og inn í Hafnarfjörð. Þegar ákærði hafði ekið u.þ.b. 100 metra á göngustígnum hafi hann misst stjórn á bifhjólinu með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina. Lögreglumenn hafi þá stöðvað lögreglubifreiðina á vegöxl Reykjanesbrautar og hlaupið til ákærða. Hafi ákærði þá verið staðinn upp og verið við það að reisa bifhjólið upp og reyna að gangsetja það. Er lögreglumenn hafi komið að ökumanninum hafi hann tekið bifhjólahjálminn af sér og hafi lögreglumenn þá þekkt hann sem ákærða í máli þessu. Í skýrslunni segir að lögreglumenn hafi tekið kveikjuláslykla bifhjólsins í sínar vörslur. Þá segir að ákærði hafi ekki getað framvísað ökuskírteini.
Í skýrslunni segir að er ákærði hafi reynt að flýja undan lögreglu hafi hann ítrekað stefnt öðrum vegfarendum í hættu með aksturslagi sínu. Þá segir að um 15,3 km hafi verið frá þeim stað þar sem lögreglumenn mættu ákærða og að þeim stað þar sem hann var handtekinn.
Í skýrslunni segir að ákærði hafi verið handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð. Þar hafi ákærði tjáð lögreglu að hann hefði verið að aka austur Reykjanesbraut á eftir [...] sínum þegar hann hefði aukið hraðann aðeins og þá mætt lögreglunni. Hann hefði haldið að hann væri sviptur ökurétti og því hefði hann ákveðið að reyna að stinga lögreglu af. Hann kvaðst ekki vita á hvaða hraða ók bifhjólinu. Í skýrslunni segir að samkvæmt upplýsingum úr ökuskírteinaskrá hafi ákærði verið með ökuréttindi í lagi.
Í skýrslunni segir að ákærði hafi verið beðinn um að gefa þvagsýni og hafi sýnið sýnt jákvæða svörun við fíkniefnapróf. Hafi hjúkrunarfræðingur komið á lögreglustöðina og dregið blóð úr ákærða klukkan 16:50. Þá segir að ákærði hafi viðurkennt að hafa neytt kannabisefna fyrir u.þ.b. viku, en ekki fundið til áhrifa fíkniefna við aksturinn.
Í samantektarskýrslu lögreglu, dags. 5. desember 2011, segir að illa hafi gengið að fá ákærða í yfirheyrslu hjá lögreglu og hafi ítrekað verið reynt í marga mánuði að hringa í farsíma hans ásamt því að fara á heimili hans. Einnig hafi verið rætt við [...] ákærða án árangurs. Hinn 20. september 2011 hafi lögreglumenn séð ákærða á gangi í Reykjanesbæ og fengið hann til að mæta í skýrslutöku þann sama dag. Þar hafi ákærði viðurkennt að hafa verið ökumaður bifhjólsins í greint sinn og að hafa neytt ólöglegra fíkniefna um tveimur sólarhringum áður en atvikið átti sér stað. Samkvæmt skýrslunni vildi ákærði ekki tjá sig að öðru leyti.
Í matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 6. ágúst 2010, segir að í blóði ákærða hafi mælst 3,2 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli og þá hafi fundist kannbínóðar í þvagi ákærða. Þá segir að tetrahýdrókannbínól sé í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil séu á íslensku forráðasvæði.
Á meðal gagna málsins er skýrsla rannsóknardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum þar sem getur að líta yfirlitsmynd, sem sýnir hvar ákærði ók bifhjólinu [...] út af Reykjanesbraut og inn á göngustíg, sem liggur til austurs meðfram Reykjanesbraut.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.
Ákærði játaði að hafa ekið bifhjólinu undir áhrifum fíkniefna í greint sinn, en neitaði sakargiftum að öðru leyti Kvaðst hann ekki muna glöggt eftir því sem gerðist þar sem langt væri um liðið síðan atvik gerðust og þá hefði hann verið í mikilli neyslu og óreglu á þessum tíma. Kvaðst hann muna eftir því einu að hafa ekið bifhjólinu og að hafa verið stöðvaður við aksturinn. Hann kvaðst aðspurður ekki muna eftir að hafa verið að flýja undan lögreglunni og sagðist ekki vita á hvaða hraða hann ók. Hann sagðist ekki vita eða muna af hverju lögreglan stöðvaði hann í umrætt skipti. Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa ekið fyrst á 150 km hraða á klukkustund og síðan á allt að 200 km hraða á klukkustund, en tók fram að hann myndi ekki eftir atvikum. Hann kvaðst ekki muna eftir því hvernig veðrið var þennan dag. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir því hvort lögreglan var með kveikt á forgangsljósum við eftirförina eða þegar lögreglan stöðvaði hann. Þá sagðist hann ekki muna eftir því að hafa ekið öfugu megin fram úr bifreiðum og sagðist stórefa að hann hefði gert það. Ekki sagðist hann muna eftir að hafa ekið bifhjólinu inn á göngustíg við Reykjanesbrautina eða að hafa misst stjórn á bifhjólinu á göngustígnum. Þá sagðist hann aðspurður ekki muna eftir að hafa reynt að gangsetja bifhjólið að nýju þegar lögreglumenn komu að honum og handtóku hann. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa reynt að flýja lögregluna. Ákærði kvaðst hins vegar muna eftir að hafa verið fluttur af lögreglu á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en kannaðist ekki við það sem eftir honum væri haft í frumskýrslu lögreglu, þ.e. að hann hefði haldið að hann væri sviptur ökurétti og því hefði hann ákveðið að reyna að stinga lögregluna af. Kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa rætt við lögreglumennina í greint sinn, en kvaðst þó ekki draga það í efa að það hefði hann gert. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að vera í langvarandi neyslu fíkniefna áður en atvik málsins áttu sér stað og sagðist ekki muna eftir stórum hluta af því sem gerðist á þessu tímabili.
Ákærði kvaðst hafa farið í fíkniefnameðferð áður en atvik málsins áttu sér stað, en sagðist síðan hafa fallið og ekkert muna eftir því sem gerðist á meðan á því tímabili stóð. Hann sagðist síðan hafa tekið sig á sjálfur með aðstoð vina og fjölskyldu og hætt neyslu fíkniefna og snúið lífi sínu til betri vegar. Sagðist ákærði t.d. hafa sótt námsekið í hugrænni atferlismeðferð. Kvaðst ákærði nú [...]. Þá væru [...] á heimilinu. Ákærði kvaðst ekki kannast við það að erfitt hefði verið að ná í hann til að taka af honum skýrslu vegna málsins. Kvaðst hann til dæmis hafa mætt fyrir dómi í desember 2010.
Atli Már Halldórsson lögreglumaður sagðist hafa verið við umferðareftirlit á Reykjanesbraut í umrætt sinn ásamt öðrum lögreglumanni þegar þeir hefðu orðið varir við bifhjól, sem hefði verið ekið á miklum hraða. Þeir hefðu opnað fyrir ratsjána í lögreglubifreiðinni og sagði hann að sig minnti að talan 155 hefði birst á skjánum. Þeir hefðu þá tendrað forgangsljósin, snúið bifreiðinni við og veitt bifhjólinu eftirför, en þá hefði ökumaður bifhjólsins aukið hraðann verulega. Áður en þeir hófu eftirförina hefðu þeir misst sjónar á bifhjólinu í skamma stund, en þeir hefðu þekkt hjólið og ökumann bifreiðarinnar aftur. Kvaðst vitnið hafa verið ökumaður bifreiðarinnar og sagði að hraðamælir lögreglubifreiðarinnar hefði sýnt 200 km hraða á klukkustund, en þó hefði þeir ekki nálgast bifhjólið mikið. Þeir hefðu þó haldið sama bili á milli bifhjólsins og lögreglubifreiðarinnar meira og minna allan tímann. Vitnið sagði að þeir hefðu haft samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og óskað eftir að Reykjanesbraut yrði lokað inn í Hafnarfjörð og hefði það verið gert. Þeir hefðu síðan séð að ökumaður var kominn inn á göngustíg, sem liggur meðfram Reykjanesbrautinni frá Álverinu í Straumsvík og inn í Hafnarfjörð og þar hefðu þeir séð ákærða missa stjórn á hjólinu í lausamöl og detta á göngustígnum. Þeir hefðu þá stöðvað bifreiðina og hlaupið til ákærða þar sem hann hefði verið að reyna að gangsetja hjólið að nýju. Vitnið sagði að ákærði hafi orðið að fara yfir akbraut fyrir umferð úr gagnstæðri átt og yfir vegöxlina og lausamöl þar fyrir neðan til að komast inn á göngustíginn, en vitnið sagði að þar hefði ekki verið neinn stígur út af veginum.
Vitnið sagði að þar sem tvöfaldur kafli á Reykjanesbrautinni endaði og brautin yrði einföld hefði verið mikil umferð úr gagnstæðri átt, en þar hefði ákærði ítrekað ekið farið fram úr bifreiðum öfugu megin, þ.e. eftir vegöxlinni hægra megin. Þá hefði ákærði farið fram úr bifreiðum vinstra megin þar sem framúrakstur væri bannaður með heilli, óbrotinni miðlínu.
Vitnið sagði að akstursskilyrði hefðu verið góð þennan dag, léttskýjað og þurrt, en umferð hefði verið mikil úr báðum áttum. Vitnið sagði að ákærði hefði klárlega stemmt umferðaröryggi og verfarendum í hættu með aksturslagi sínu. Vitnið staðfesti að um 15,3 km hefðu verið frá þeim stað þar sem þeir mættu ákærða og að þeim stað þar sem hann hefði verið handtekinn, en vitnið sagði að þeir hefðu ekið þessa leið aftur og mælt vegalengdina með kílómetramæli lögreglubifreiðarinnar.
Vitnið kannaðist við að hafa rætt við ákærða á lögreglustöðinni og sagði að ákærði hefði tjáð þeim að hann hefði haldið að hann væri sviptur ökurétti. Vitnið staðfesti að hafa gert skýrslu og yfirlitsmynd á skjali merktu 13, bls. 1-4.
Vitnið staðfest að illa hefði gengið að ná í ákærða vegna málsins. Kvaðst vitnið halda að það hefði farið þrisvar á lögheimili ákærða til að boða hann í skýrslutöku, en hann hefði aldrei verið heima. Þá kvaðst vitnið ítrekað hafa reynt að hringja í ákærða, en ýmist hefði ekki verið svarað eða slökkt hefði verið á símanum. Þá kvaðst vitnið hafa rætt við [...] ákærða, sem hefðu ekki vitað hvar hann var niður kominn. Sagði vitnið að það hefði tekið fjóra til sex mánuði að hafa upp á ákærða, en vitnið sagðist hafa endað á því að lýsa eftir ákærða í kerfum lögreglu. Vitnið sagði að samantektarskýrsla lögreglu, dags. 5. desember 2011, væri unnin í lok máls áður en málið færi til meðferðar hjá lögreglufulltrúa. Þá sagði hann að ástæða þess að frumskýrsla væri einnig dagsett þann dag væri sú að villa hefði verið upphaflegu frumskýrslunni, sem hefði verið lagfærð, skýrslan stofnuð aftur í kerfinu og síðan prentuð út 5. desember 2011. Vitnið staðfesti skýrslur sínar í málinu.
Jóhann Bragi Birgisson lögreglumaður kvaðst hafa setið í farþegasæti lögreglubifreiðar sem lögreglumaðurinn Atli Þór ók í greint sinn. Hann sagði að þeir hefðu verið við almennt umferðareftirlit á Reykjanesbraut og verið á leið til Keflavíkur. Hann lýsti málsatvikum á sama veg og vitnið Atli Þór. Staðfesti vitnið að hafa mælt ökuhraða bifhjólsins 155 km á klukkustund og sagði að sig minnti að þeir hefðu fest töluna inni í tækinu. Þá staðfesti hann að lögreglubifreiðinni hefði verið ekið á allt að 200 km hraða á klukkustund á eftir ákærða án þess að nálgast hann. Vitnið sagði að ákærði hefði aldrei horfið úr sinni augnsýn, enda hefði hann ekki verið ökumaður lögreglubifreiðarinnar. Hann staðfesti og að ákærði hefði ekið fram úr bifreiðum öfugu megin, þ.e. hægra megin, með því að aka eftir vegöxlinni og þá hefði hann ekið fram úr bifreiðum vinstra megin þar sem framúrakstur væri bannaður með óbrotinni miðlínu, t.d. við Álverið í Straumsvík þar sem tvöfaldur kafli Reykjanesbrautarinnar endaði og einfaldur kafli tæki við. Þá sagði vitnið að ákærði hefði ekið bifhjólinu inn á göngustíg norðan megin við Reykjanesbrautina þar sem hann hefði misst stjórn á hjólinu. Vitnið sagði að ákærði hefði stemmt umferðaröryggi ítrekað í hættu með aksturslagi sínu.
Vitnið sagði að ákærði hefði viðurkennt fyrir þeim að hann hefði ekki stöðvað vegna þess að hann hefði haldið að hann væri sviptur ökurétti, sem ekki hefði reynst rétt. Vitnið staðfesti að illa hefði gengið að boða ákærða til skýrslutöku í málinu og kvaðst telja að um hálft ár hefði tekið að hafa uppi á ákærða. Loks staðfesti vitnið skýrslur sínar í málinu.
III.
Ákærði hefur játað að hafa ekið bifhjólinu undir áhrifum fíkniefna í greint sinn, en hefur neitað sakargiftum að öðru leyti. Kvaðst ákærði muna eftir því einu að hafa ekið bifhjólinu og að hafa verið stöðvaður við aksturinn. Þá kvaðst ákærði muna eftir því að hafa verið fluttur á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en kvaðst ekki muna eftir því að hafa rætt við lögreglumenn þar, þótt hann segðist ekki draga í efa að það hefði hann gert. Þá kannaðist hann ekki við það sem eftir honum væri haft í frumskýrslu lögreglu. Að öðru leyti bar ákærði við algjöru minnisleysi vegna langvarandi fíkniefnaneyslu áður en atvik málsins áttu sér stað. Kvaðst hann t.d. ekki muna eftir að hafa verið að flýja undan lögreglu eða á hvaða hraða hann ók. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa ekið öfugu megin fram úr bifreiðum eða að hafa ekið bifhjólinu inn á göngustíg við Reykjanesbraut og misst þar stjórn á hjólinu. Loks sagðist hann ekki muna eftir að hafa verið að reyna að gangsetja hjólið að nýju þegar lögregla kom að honum og handtók hann.
Lögreglumennirnir Atli Már Halldórsson og Jóhann Bragi Birgisson lýstu því báðir að þeir hefðu mælt ökuhraða ákærða 155 km á klukkustund þegar þeir mættu honum á Reykjanesbraut skammt vestan við Vatnsleysuafleggjara. Einnig lýstu þeir því að þeir hefðu hafið eftirför á eftir ákærða. Kvaðst vitnið Jóhann Bragi aldrei hafa misst sjónar á ákærða, enda hefði hann verið farþegi í lögreglubifreiðinni. Fram kom hjá báðum að Atli Þór hafi ekið lögreglubifreiðinni í greint sinn og kvaðst hann hafa misst sjónar á ákærða á meðan hann sneri lögreglubifreiðinni við, en kvaðst hafa þekkt ákærða og bifhjólið aftur þegar lögreglubifreiðin nálgaðist ákærða á Reykjanesbrautinni á leið til Hafnarfjarðar. Lögreglumennirnir báru báðir um það að við eftirförina hefði hraðamælir lögreglubifreiðarinnar sýnt hraðann 200 km á klukkustund án þess að þeir næðu ákærða. Þá lýstu þeir því báðir að þegar tvöföldum kafla Reykjanesbrautar sleppti og ákærði ók inn á vegarkafla þar sem umferð er á einni akrein hefði ákærði ekið ítrekað hægra megin fram úr öðrum bifreiðum, sem ekið var til austurs, en auk þess hefði hann ítrekað ekið vinstra megin fram úr öðrum bifreiðum, sem ekið var til austurs, þrátt fyrir að framúrakstur væri ekki leyfilegur á þeim vegarkafla og það gefið til kynna með óbrotinni miðlínu. Þá lýstu þeir því báðir að þegar lögregla hafði stöðvað umferð um Reykjanesbraut til austurs við Hafnarfjörð hefði ákærði ekið inn á göngustíg norðan við Reykjanesbrautina og misst þar stjórn á bifhjólinu. Ennfremur lýstu þeir því báðir að ákærði hefði gert tilraun til að reisa hjólið við og gangsetja það að nýju þegar þeir hlupu í átt að ákærða á göngustígnum og handtóku hann. Þá lýstu lögreglumennirnir því báðir að ákærði hefði viðurkennt fyrir þeim á lögreglustöðinni að hann hefði ekki viljað stöðva aksturinn því hann hefði haldið að hann væri sviptur ökurétti. Loks lýstu lögreglumennirnir því að ákærði hefði ítrekað stefnt umferðaröryggi og öðrum vegfarendum í hættu með aksturslagi sínu.
Framburður lögreglumannanna var skýr og greinargóður og bar þeim saman um málsatvik. Þykir sannað með trúverðugum framburði þeirra að ákærði hafi hagað aksturslagi sínu eins og greinir í ákæru. Með játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir og sannað að ákærði hafi ekið undir áhrifum fíkniefna í greint sinn.
Atvik málsins áttu sér stað á háannatíma um klukkan 15.30 á föstudegi á miðju sumri. Fram kemur í gögnum málsins og framburði áðurgreindra lögreglumanna að umferð var mikil í báðar áttir á Reykjanesbraut á þessum tíma. Þykir í ljós leitt að ákærði hafi með aksturslagi sínu raskað öryggi bifreiða og umferðaröryggi almennt á þeirri leið sem hann ók og því brotið gegn 168. gr. almennra hegningarlaga. Með athæfi sínu þykir ákærði einnig hafa brotið gegn 4. mgr. 220. gr. laganna, en ljóst þykir að hann hafi með ofsaakstri sínum undir áhrifum fíkniefna og háskalegum framúrakstri í mikilli umferð á Reykjanesbraut stefnt lífi eða heilsu annarra vegfarenda í augljósan háska. Háttsemi ákærða er og að öðru leyti rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Með vísan til framangreinds og 4. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga er ekki fallist á það með verjanda að sök ákærða sé fyrnd.
Ákærði er fæddur í [...] 1981. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1999 hlotið 13 dóma fyrir ýmis brot, einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt og einu sinni undir viðurlagaákvörðun. M.a. hlaut ákærði með dómi 10. mars 2009 tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás og akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hann sviptur ökurétti í 12 mánuði, frá 7. apríl 2009. Með dómi 30. desember 2009 var honum gert að greiða 100.000 króna sekt fyrir akstur sviptur ökurétti. Með dómi 13. desember 2010 var ákærði dæmdur til greiðslu 112.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot og akstur undir áhrifum fíkniefna. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti í tvo mánuði frá 8. mars 2011. Síðast gekkst ákærði undir greiðslu 34.000 króna sektar hjá lögreglustjóra vegna fíkniefnalagabrots.
Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið áður en dómurinn frá 13. desember 2010 gekk. Ber því að dæma ákærða hegningarauka við þann dóm samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna. Með broti sínu nú hefur ákærði ítrekað brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að brot ákærða beindist að mikilvægum hagsmunum og að mikil hætta var búin af verknaði hans, sbr. 1. og 3. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá er litið til þess hversu styrkur og einbeittur vilji hans var, sbr. 6. tl. sömu greinar, en ákærði ók um 15,3 km leið án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og eftir að hann missti stjórn á hjólinu gerði hann tilraun til að reisa hjólið við og gangsetja það þótt lögreglumenn væru á leið til hans.
Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Meðferð málsins hefur dregist nokkuð, sem að hluta til á rót að rekja til þess að erfiðlega gekk að hafa uppi á ákærða til skýrslugjafar hjá lögreglu. Með hliðsjón af því að nokkuð langt er um liðið síðan atvik málsins áttu sér stað, sem og því að ákærði hefur tekið sig á, leitað sér aðstoðar og snúið lífi sínu til betri vegar þykir rétt að skilorðsbinda refsingu ákærða eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 198.093 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 125.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Pétur Jóhann Sævarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 198.093 í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 125.500 krónur.