Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2016

Public Investment Fund (Heiðar Ásberg Atlason hrl.)
gegn
LBI ehf. (Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Vanlýsing

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sem P hafði lýst við slit L ehf. þar sem henni hafði ekki verið lýst fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur rann út og var P ekki talinn hafa sýnt fram á að uppfyllt væru skilyrði 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín að fjárhæð 10.330.975,82 evrur, sem lýst var sem almennri kröfu, fái komist að við slitin. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Public Investment Fund, greiði varnaraðila, LBI ehf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál um slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins 22. desember 2014 með bréfi slitastjórnar LBI hf., með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sbr. lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum, einkum 102. gr. þeirra laga, sbr. lög nr. 44/2009. Málið var tekið til úrskurðar 12. febrúar 2015.

                Sóknaraðili er Public Investment Fund, pósthólf 2992, Riyadh, Sádi-Arabíu. 

Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að krafa hans, nr. 201409-9001 í kröfuskrá varnaraðila, að fjárhæð 10.000.000 evra, auk vaxta til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 330.975,82 evrur, sem var lýst sem almennri kröfu í slitabú varnaraðila, hafi ekki fallið niður gagnvart slitabúi hans af þeirri ástæðu að henni væri ekki lýst í slitabúið fyrir lok kröfulýsingarfrests. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem lagt verði fram við aðalmeðferð málsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum dómkröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu fyrir sig samkvæmt mati dómsins.

II.

Krafa sú sem um ræðir í málinu er tilkomin vegna skuldabréfs sem varnaraðili gaf út í desember 2004. Mun það hafa verið í eigu Gulf International Bank BSC í Bahrain á haustmánuðum 2008. Seðlabanki Sádi-Arabíu eignaðist síðan skuldabréfið 27. mars 2009 en 10. desember 2013 komst skuldabréfið í eigu sóknaraðila máls þessa.

Með innköllun sem birt var í Lögbirtingablaðinu þann 30. apríl 2009 skoraði slitastjórn LBI hf. á alla þá, sem ættu kröfur á hendur bankanum, að lýsa kröfum sínum fyrir slitastjórninni. Í innkölluninni kom jafnframt fram að kröfuhafar skyldu lýsa kröfum sínum innan sex mánaða frá fyrri birtingu innköllunarinnar. Í innkölluninni var þess jafnframt sérstaklega getið, með vísan til 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, að væri kröfu ekki ekki lýst innan frests giltu um það sömu réttaráhrif og um vanlýsingu, og krafan teldist því fallin niður gagnvart varnaraðila nema undantekningar í 1.‒ 6. tölulið lagaákvæðisins ættu við. Frestur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti til að lýsa kröfum á hendur sóknaraðila rann út þann 30. október 2009.

Með kröfulýsingu dags. 8. september 2014 lýsti sóknaraðili kröfu að fjárhæð 10.000.000 evra. Með tölvubréfi, dags. 15. september 2014, hafnaði slitastjórn kröfu sóknaraðila sem of seint fram kominni, með vísan til 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Með bréfi dags. 16. september 2014 lagði sóknaraðili fram mótmæli gegn afstöðu slitastjórnar.

Þann 8. október 2014 var haldinn jöfnunarfundur með slitastjórn vegna ágreinings um afstöðu til kröfu sóknaraðila. Á jöfnunarfundinum lýsti slitastjórn yfir óbreyttri afstöðu sinni. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundinum, en lögmaður sóknaraðila fékk frest til 5. nóvember 2014 til að bera sjónarmið slitastjórnar undir umbjóðanda sinn. Í kjölfarið vísaði varnaraðili málinu til héraðsdóms.

III.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Aðilar málsins hafa afmarkað ágreiningsefni þess við hvort krafa sóknaraðila skuli komast að við slitameðferð varnaraðila þrátt fyrir að hafa verið lýst að loknum kröfulýsingarfresti.

Málatilbúnaður sóknaraðila byggir á því að undanþága 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um sóknaraðila. Samkvæmt meginreglu 118. gr. laganna fellur krafa niður gagnvart þrotabúi ef henni er ekki lýst á hendur því fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur. Frá þeirri reglu séu hins vegar undantekningar sem taldar eru upp í 1. til 6. tölulið greinarinnar. Þannig segi í 2. tölulið 118. gr. að krafa á hendur þrotabúi falli ekki niður ef kröfuhafinn er búsettur erlendis og honum hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu.

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 hafi slitastjórn borið að birta innköllun sem hafði að geyma áskorun til lánardrottna um að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsingar á tilteknum stað innan tilgreinds kröfulýsingarfrests. Það leiði hins vegar af 1. mgr. 86. gr. laganna að slitastjórn er jafnframt því að gefa út innköllun samkvæmt 85. gr. rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá, sem kann að telja til kröfu á hendur slitabúi, sé búsettur erlendis. Komi fram vitneskja um slíkt er slitastjórn rétt að tilkynna hlutaðeigandi svo fljótt sem verða má um slitameðferðina, hvenær kröfulýsingarfrestur endar og hvaða réttaráhrif það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins.

Sóknaraðili bendir á að þótt slitastjórn varnaraðila hafi auglýst slitin og birt innköllun í Evrópu og Norður-Ameríku í samræmi við fyrirmæli 86. gr. laga nr. 21/1991 hafi engin auglýsing birst í heimalandi sóknaraðila eða öðrum nágrannaríkjum. Raunar hafi slitastjórn enga auglýsingu birt í Asíu né nokkru landi í Mið-Austurlöndum samhliða öðrum auglýsingum, þrátt fyrir að allar líkur væru á að þar væri að finna kröfuhafa í þrotabú fjármálafyrirtækis sem starfaði á alþjóðlegum markaði.

Í því sambandi er það rakið af hálfu sóknaraðila að markmið innköllunar sé að afla á skömmum tíma tæmandi upplýsinga um skuldbindingar slitabús. Til þess að vanlýsing hafi þau réttaráhrif að krafa á búið falli niður sé henni ekki lýst innan kröfulýsingarfrests, verði kröfuhafi að hafa átt þess raunhæfan kost að lýsa kröfu sinni. Ljóst sé að innköllun var ekki birt í Sádi-Arabíu þar sem sóknaraðili hefur starfstöð og aðsetur og ekki er um það deilt að sóknaraðili fékk ekki sérstaka tilkynningu um að slitastjórn hafi tekið yfir rekstur varnaraðila og hvaða réttarárhrif það hefði. Honum gat því ekki verið kunnugt um þann almenna frest sem gilti um lýsingu kröfunnar. 

Sóknaraðili telur að þrátt fyrir að engin bein lagaskylda hvíli á slitastjórn til að auglýsa slitameðferðina og kröfulýsingarfrest víðar en í Lögbirtingarblaði hér á landi sé óhjákvæmilegt annað en að horfa til þeirrar staðreyndar að slitameðferðin var ekki tilkynnt í Asíu eða Mið-Austurlöndum við mat á því hvort krafa sóknaraðila kemst að við slitin á grundvelli 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu er kveðið á um að kröfuhafi sem búsettur er erlendis komi kröfu sinni að við slitameðferð varnaraðila ef viðkomandi kröfuhafi hvorki vissi né mátti vita um gjaldþrotaskipti skuldara og hann lýsir kröfu án ástæðulausra tafa og áður en skiptafundur er boðaður um frumvarp til úthlutunar.

Sóknaraðili telur bæði skilyrði þessa ákvæðis uppfyllt í málinu, enda hafi hann hvorki vitað né mátt vita um slitin. Varnaraðili var alþjóðlegur banki sem hafði í febrúar og ágúst 2008 staðist álagspróf Fjármálaeftirlitsins. Þá var í ágúst 2008 talið að tekið væri að rofa til í rekstri íslensku bankanna. Lánshæfiseinkunn varnaraðila í september 2008 gaf ekki tilefni til að ætla að ógjaldfærni væri yfirvofandi. Lögformlegur eigandi skuldabréfanna, sem á þeim tíma var Seðlabanki Sádi-Arabíu (e. Saudi Arabian Monetary Authority, „SAMA“), hafði því enga ástæðu til að ætla að fylgjast þyrfti sérstaklega með gjaldfærni útgefanda bréfanna sem mál þetta varðar. 

Telur sóknaraðili að þetta renni frekari stoðum undir grandleysi, þar sem fjárfestir í Sádi-Arabíu gat ekki og hefði ekki mátt vita af greiðsluþroti varnaraðila í október 2008, án þess að innköllun eða auglýsing þar um væri birt í hans heimsálfu. Sóknaraðili vísar enn fremur til þess að SAMA fjárfesti ekki beint í áðurgreindu skuldabréfi. Bréfið var lítill hluti, um 0,3%, af mjög stóru safni skuldabréfa sem SAMA eignaðist við áðurgreindan samruna. Safnið innihélt m.a. skuldabréf í tengslum við undirmálslán (e. subprime mortgages) og vanefndir á slíkum skuldabréfum séu algengar. Vanefndir á greiðslu vaxta af bréfinu sem mál þetta varðar voru ekki sérgreindar í eignasafninu og gáfu SAMA ekki tilefni til að kanna stöðu varnaraðila sérstaklega.

Af hálfu sóknaraðila er haldið fram að tilefni hafi orðið til frekari athugunar þegar skuldabréfastaðan sem mál þetta varðar var á gjalddaga og greiðsla barst ekki. Hafi sóknaraðili þá komist að því að bú varnaraðila hafi verið tekið til slitameðferðar. Rétt er að taka fram að Gulf International Bank í Englandi tók við umsjón eignasafnsins sem skuldabréfastaðan sem mál þetta varðar tilheyrir í desember 2013 en í því voru um 500 skuldabréfastöður og mikill hluti þeirra var eitraðar eignir (e. distressed assets). Eftir að Gulf International Bank UK, og þar með einnig sóknaraðili, komst að því að kröfu þyrfti að lýsa með formlegum hætti til að hún kæmist að við slitameðferð varnaraðila lýsti sóknaraðili kröfu sinni. Kröfu sóknaraðila hafi því verið lýst án ástæðulausra tafa.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að kröfu hans hafi verið lýst án ástæðulausra tafa. Varnaraðili fær ekki skilið málatilbúnað sóknaraðila öðruvísi en svo að hann byggi sjálfur á því, að í desember 2013 hafi honum verið ljós nauðsyn þess að lýsa kröfu með formlegum hætti. Telur varnaraðili að yfirlýsingar sóknaraðila þessa efnis feli í sér einhliða yfirlýsingu málsaðila sem beri að virða til samræmis við 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bendir varnaraðili á að þrátt fyrir ofangreinda yfirlýsingu sóknaraðila sé kröfunni ekki lýst fyrr en 14. september 2014. Í málatilbúnaði sóknaraðila felist því viðurkenning á að a.m.k. átta og hálfur mánuður hafi liðið frá því hann fékk vitneskju um slitameðferðina og þar til hann taldi nauðsynlegt að lýsa kröfu. Í þessu samhengi ber að geta þess að kröfulýsingarfrestur skal samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 að jafnaði vera tveir mánuðir en getur undir sérstökum ástæðum orðið frá þremur allt að sex mánuðum. Telur varnaraðili ljóst að þegar af þessari ástæðu beri að staðfesta ákvörðun varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila sem of seint fram kominni.

Varnaraðili telur einnig að sóknaraðili hafi mátt gera sér grein fyrir að LBI hf. væri í slitameðferð í desember 2009. Þannig segi frá því undir lið 26 í greinargerð sóknaraðila að hann hafi farið að grennslast fyrir um stöðu varnaraðila þegar greiðsla barst ekki á gjalddaga skuldabréfsins. Telur varnaraðili að greinargerð sóknaraðila verði ekki skilin öðruvísi en svo að þar sé átt við lokagjalddaga skuldabréfsins, 21. desember 2009, þar sem sóknaraðili greinir sérstaklega frá því að vanefndir á greiðslu vaxta hafi ekki verið sérgreindar í eignasafni sínu og ekki gefið tilefni til að kanna stöðu varnaraðila sérstaklega.

Varnaraðili bendir enn fremur á að samkvæmt i-lið 9. liðar skilmála skuldabréfsins sé kröfuhöfum heimilt að gjaldfella eftirstöðvar skuldarinnar standi útgefandi bréfsins ekki skil á vaxtagreiðslum innan 14 daga frá gjalddaga þeirra. Ljóst sé að nokkur tilvik vanefndar samkvæmt þessum skilmálum hafi þegar verið komin fram. Þannig sé í málatilbúnaði sóknaraðila vísað til þess að eignir sem SAMA hafi tekið yfir frá öðrum aðila og síðan fært til sóknaraðila hafi að verulegu leyti verið svokallaðar eitraðar eignir, m.a. undirmálslán og skuldir fjármálafyrirtækja sem stóðu höllum fæti. Telur varnaraðili að undir þessum kringumstæðum verði að ætla að ríkt tilefni hafi verið fyrir sóknaraðila til þess að hafa náið eftirlit með eignum sínum. Byggir varnaraðili á því að skýra verði tómlæti sóknaraðila honum í óhag við mat á því hvort kröfulýsing hans uppfylli 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili mótmælir því að það eigi að hafa þýðingu við mat á því hvort 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfulýsingu sóknaraðila að ekki hafi verið birtar auglýsingar í Asíu eða Mið-Austurlöndum þegar varnaraðili birti auglýsingar í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Varnaraðili bendir enn fremur á að í greinargerð sinni hafi sóknaraðili kosið að líta fram hjá skilmálum skuldabréfsins hvenær tilkynningar teljast hafa verið birtar eigendum skuldabréfa, sbr. 1. tölul. 11. liðar skilmálanna. Í þessum lið skilmálanna sé sérstaklega kveðið á um að tilkynningar varðandi skuldabréfin teljist hafa verið veittar með gildum hætti ef þær eru birtar í leiðandi dagblaði á enskri tungu sem er í almennri dreifingu í London, og séu skuldabréfin skráð í kauphöllinni í Lúxemborg, þá dagblaði sem er í almennri dreifingu í þar í landi. Gert er ráð fyrir að slík birting í dagblaði fari fram í Financial Times í London og Wort eða Tageblatt í Lúxemborg. Varnaraðili telur því að sóknaraðila hefði átt að vera kunnugt um slitameðferð varnaraðila 20. maí 2009, við birtingu innköllunar vegna slitameðferðar varnaraðila í The Times. Sambærilegar innkallanir voru síðan birtar í þeim blöðum sem beinlínis er gert ráð fyrir í skilmálunum, í Financial Times 2. júní 2009, Tageblatt 5. júní og Luxemburger Wort 6. júní.

Þá hafi varnaraðili einnig látið birta innköllun, 15. september 2009, í upplýsingaveitum Euroclear og Clearstream, í samræmi við 2. tölul. 11. liðar skilmála skuldabréfsins. Innköllunin var send beint á alla skuldabréfaeigendur í gegnum SWIFT-kerfi vörsluaðila, undir auðkenninu 299BRUP fyrir gjaldþrot. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins teljast allar tilkynningar hafa verið veittar eigendum skuldabréfa á sjöunda degi frá því tilkynning er afhent Euroclear og/eða Clearstream.

Til viðbótar við allt ofangreint var innköllunin einnig birt á ensku á heimasíðu varnaraðila 8. maí 2009. Þar, eins og í öllum ofangreindum tilkynningum, hafi verið að finna upplýsingar um kröfuhafafund, form krafna, skjalagerð og leiðbeiningar um hvar finna megi frekari upplýsingar um kröfulýsingar og tilkynningar frá slitastjórn.

Af hálfu varnaraðila er fallist á sjónarmið sóknaraðila að hann hafi verið alþjóðlegur banki en að sama skapi er lögð áhersla á að sóknaraðili var ekki þekktur kröfuhafi í skilningi laga nr. 21/1991. Telur varnaraðili að við skýringu á 2. mgr. 86. gr. laganna verði að hafa í huga meginregluna um jafnræði kröfuhafa og skýrar skyldur skiptastjóra í 85. gr. og 1. mgr. 86. gr. gþl. Er það með öllu ótæk niðurstaða að erlendur kröfuhafi geti verið betur settur en innlendur aðili fyrir það eitt að hunsa þær tilkynningar sem voru birtar í samræmi við skilmála skuldabréfsins eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að ofan. Enn síður eigi erlendur aðili að geta unnið betri rétt við það að hafa aðildarskipti að skuldabréfinu, eins og hér háttar til.

Í ljósi umfangs þeirra viðskipta sem áttu sér stað með skuldabréf útgefin af varnaraðila skömmu eftir fall bankans, svo og þeirrar staðreyndar að öll slík viðskipti áttu sér stað án aðkomu slitastjórnar varnaraðila, verður að telja það hafa verið ómögulegt að vita eða halda utan um hverjir færu með kröfur á hendur varnaraðila á grundvelli útgefinna skuldabréfa og enn frekar hvar þeir aðilar væru búsettir.

Væri fallist á málatilbúnað sóknaraðila, að hann hafi ekki átt þess raunhæfan kost að lýsa kröfu sinni þar sem innkallanir voru ekki birtar í heimalandi hans, leiðir það óhjákvæmilega til þess að 2. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 verði með vísan til jafnræðis kröfuhafa skýrð þannig að varnaraðila beri að birta auglýsingar í öllum löndum heims. Í slíkri lögskýringu fælist gríðarlega kostnaðarsöm og íþyngjandi skylda gagnvart varnaraðila, sem ekki verður séð að eigi sér stoð í settum lögum.

IV.

Niðurstaða                                            

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem ákvæðinu var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, gilda ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess.

Í upphafsorðum 118. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram sú meginregla að krafa falli niður ef henni er ekki lýst áður en kröfulýsingarfrestur líður. Þessi regla á sér hins vegar nokkrar undantekningar sem taldar eru í 1. til 6. tölulið 118. gr. Er þar á meðal sú undantekning sem sett er í 2. tölulið 118. gr. og ágreiningur þessa máls lýtur að. Samkvæmt því ákvæði getur kröfuhafi, sem búsettur er erlendis og ekki hefur fengið tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, komið kröfu sinni að þrátt fyrir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn, svo framarlega sem kröfuhafanum hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um slitin.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að vörsluaðilum skuldabréfs þess sem krafa sóknaraðila í bú varnaraðila byggist á hafi verið send tilkynning um kröfulýsingarfrest með tilkynningu í upplýsingakerfi Euroclear. Þá hafi vörsluaðilum verið send tilkynning 15. september 2009 um framlengingu greiðslustöðvunar til 26. nóvember með SWIFT-skeyti. Í greinargerð varnaraðila er skorað á sóknaraðila að upplýsa hvar skuldabréfið sem er grundvöllur kröfu hans hafi verið vistað 15. september og þess krafist að lagt verði til grundvallar að SWIFT-skeytið hafi verið réttilega afgreitt og móttekið á þeim degi.

Varnaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn um það í málinu, t.d. með útskrift úr þeim kerfum sem notast var við, hvenær þessar tilkynningar voru sendar og þá hverjum. Í ljósi þessa er ekki unnt að leggja til grundvallar að sóknaraðila hafi verið sendar umræddar tilkynningar og hann þannig haft vitneskju um efni þeirra áður en kröfulýsingarfresti lauk. Af sömu ástæðu verður heldur ekki lagt til grundvallar að varnaraðili beri halla af því að hafa ekki orðið við umræddri áskorun.

Af hálfu varnaraðila hefur hins vegar verið haldið fram að hann hafi veitt allar tilkynningar um skuldabréfin í samræmi við 1. tölul. 11. liðar skilmála þeirra með birtingu innköllunar vegna slitameðferðar varnaraðila í The Times 20. maí 2009, Financial Times 2. júní 2009, Tageblatt 5. júní 2009 og Luxemburger Wort 6. júní 2009. Samkvæmt ofangreindum lið skilmálanna teljast tilkynningar varðandi skuldabréfin hafa verið veittar með gildum hætti ef þær eru birtar í leiðandi dagblaði á enskri tungu sem er í almennri dreifingu í London, og séu skuldabréfin skráð í kauphöllinni í Lúxemborg, þá dagblaði sem er í almennri dreifingu þar í landi.

Ekki er í gögnum málsins að finna afrit þeirra auglýsinga sem varnaraðili hefur vísað til að þessu leyti en hann hefur í máli þessu aðeins lagt fram yfirlit yfir þær auglýsingar sem birtar voru í dagblöðum um slit sín og hvenær birting fór fram. Í ljósi þess að sóknaraðili hefur ekki mótmælt því að umrædd birting hafi farið fram og raunar haldið því fram í greinargerð sinni til dómsins að auglýst hafi verið eftir kröfulýsingum í bú varnaraðila í öllum löndum þar sem varnaraðili hafði verið með starfsstöð verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi hlutast til um birtingu tilkynninga um slit sín í samræmi við þá skilmála skuldabréfsins sem vitnað er til hér að framan. 

Í gögnum málsins liggur fyrir að skuldabréfið sem krafa málsins er sprottin af hafi verið gefið út af varnaraðila í desember 2004 en að eigandi bréfsins á haustmánuðum 2008 hafi verið Gulf International Bank BSC í Bahrain. Seðlabanki Sádi-Arabíu hafi síðan eignast kröfuna sem hluta af eignasafni Gulf International Bank í 27. mars 2009 og verið eigandi kröfunnar þegar slitaferli varnaraðila hófst. Krafan var síðan færð til sóknaraðila 10. desember 2013 samkvæmt gögnum málsins.

Telja verður ljóst að þegar aðilaskipti verða að kröfu með þeim hætti sem átt hefur sér stað í þessu máli sé almennt ekki unnt að ganga út frá því sem vísu að slitastjórn sé fært að afla sér vitneskju um hver kunni að telja til kröfunnar í skilningi 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991. Við slíkar aðstæður verða að jafnaði ekki gerðar ríkari kröfur um að slitastjórn geri ráðstafanir til að kynna kröfuhöfum sem búsettir eru erlendis um skipti, umfram það tilkynna skiptin í gegnum sérstök upplýsingakerfi tengd kröfunni, eða birta auglýsingu erlendis á grundvelli 2. mgr. 86. gr. laganna, þar sem hlutaðeigandi er tilkynnt um gjaldþrotaskiptin og hvenær kröfulýsingarfrestur endi og hverjar afleiðingar það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins.

Þegar kveðið er sérstaklega á um það í skilmálum skuldabréfs, með þeim hætti sem gert er í 1. tölul. 11. liðar skilmála skuldabréfs þess sem sóknaraðili byggir kröfu sína á, að tilkynningar um skuldabréf skuli auglýstar í tilteknum miðlum og tilteknum löndum, verður enn fremur að leggja til grundvallar að slitastjórn, eða eftir atvikum skiptastjóra, sé almennt heimilt að ganga út frá því að nægilegt sé að afmarka auglýsingar sínar erlendis, samkvæmt 2. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, við þau lönd sem tilgreind eru í slíkum skilmálum. Af sömu ástæðu verður að telja að fyrirmæli í skuldabréfi, um að tilkynningum vegna þessa skuli hagað með ákveðnum hætti í tilteknum miðlum, gefi eiganda þess fullt tilefni til að afla sér vitneskju um afdrif skuldabréfsins í sömu miðlum og gera þá í kjölfarið þær ráðstafanir sem hann telur þörf á í ljósi slíkrar vitneskju. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þess að ekki er ágreiningur um það að tilkynningar um slit varnaraðila og kröfulýsingarfrest hafi verið birtar í þeim miðlum sem tilgreindir voru í skilmálum skuldabréfsins sem krafa sóknaraðila lýtur að, verður að leggja til grundvallar að eiganda skuldabréfsins, sem þá var Seðlabanki Sádi-Arabíu, hafi mátt vera kunnugt um slit varnaraðila í síðasta lagi 6. júní 2009 en þá höfðu tilkynningar um slitin bæði verið birtar í dagblöðum í London og Lúxemborg. Á þeim tíma stóðu eftir rúmlega 4 mánuðir af fresti til að lýsa kröfu á hendur varnaraðila en kröfulýsingarfresti lauk 30. október 2009. Kröfulýsing sóknaraðila barst varnaraðila hins vegar ekki fyrr en 8. september 2014 eða rúmlega fimm árum síðar.

Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki ráðið á hvaða forsendum sóknaraðili ætti hafa rýmra svigrúm til að lýsa kröfu í bú varnaraðila en Seðlabanki Sádi-Arabíu, sem var eigandi kröfunnar þegar auglýsingar um skipti varnaraðila og kröfulýsingarfrest voru birtar og þegar kröfulýsingarfresti lauk. Af þessum sökum og með vísan til þess sem rakið er hér að framan er því ekki fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 til þess að sóknaraðili geti komið að kröfu sinni við slit varnaraðila. Kröfu sóknaraðila í máli þessu er því hafnað.

Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila í máli þessu er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 550.000 krónur í málskostnað.