Hæstiréttur íslands
Mál nr. 581/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. september 2017, þar sem Símanum hf., Vodafone hf. og Nova ehf. var gert skylt að láta lögreglu í té upplýsingar um notkun á símanúmerinu [...] á tímabilinu frá klukkan 00.00 hinn 4. september 2017 til klukkan 23.59 degi síðar, þar með talin yfirlit um hringd og móttekin símtöl, send og móttekin símskilaboð, aðra gagnanotkun, hvaða GSM endurvörpum símtækið tengdist hverju sinni, inn á hvaða símaendurvarpa það kom og hvaða IMEI númer notað var úr umræddu símanúmeri á sama tímabili. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Hæstarétti hefur borist bréf sóknaraðila, þar sem upplýst er að honum hafi verið afhentar framangreindar upplýsingar. Samkvæmt því er ljóst að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 14. september 2017
Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Akureyri, krefst þess að Símanum hf., Vodafone hf. og Nova ehf. verði gert skylt að láta lögreglu í té upplýsingar um notkun á símanúmerinu [...] á tímabilinu frá klukkan 00:00 þann 4. september 2017 til klukkan 23:59 daginn eftir, þ.m.t. yfirlit um hringd og móttekin símtöl, send og móttekin símskilaboð, aðra gagnanotkun, hvaða GSM endurvörpum símtækið tengdist hverju sinni og inn á hvaða símaendurvarpa það kom.
Rétthafi símanúmersins er varnaraðili, X. Hann krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að aðgerð verði markaður skemmri tími en krafist er.
Sóknaraðili rannsakar nú meint brot varnaraðila sem eru talin felast í frelsissviptingu, líkamsárás, ráni og hótunum, gegn nafngreindum manni aðfaranótt 5. september. Beinist grunur að fleirum um að hafa framið brotin í félagi við varnaraðila. Varnaraðili situr nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar. Hann neitar sök. Sóknaraðili telur að með þeim upplýsingum sem beðið sé um um símanotkun hans megi færa sönnur á að hann hafi verið í samskiptum við aðra sakborninga. Skipti það miklu máli fyrir rannsóknina að fá umbeðna heimild.
Dómari telur skilyrði 83. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt. Verður fallist á beiðnina. Ekki þykir ástæða til að marka aðgerð skemmri tíma en krafist er.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Símanum hf., Vodafone hf. og Nova ehf. er skylt að láta lögreglu í té upplýsingar um notkun á símanúmerinu [...] á tímabilinu frá klukkan 00:00 þann 4. september 2017 til klukkan 23:59 daginn eftir, þ.m.t. yfirlit um hringd og móttekin símtöl, send og móttekin símskilaboð, aðra gagnanotkun, hvaða GSM endurvörpum símtækið tengdist hverju sinni, inn á hvaða símaendurvarpa það kom og hvaða IMEI númer notaði umrætt símanúmer á sama tímabili.