Hæstiréttur íslands
Mál nr. 20/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 16. janúar 2008. |
|
Nr. 20/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldi var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. janúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 11. janúar 2008 og krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. febrúar 2008 kl. 16.
Þegar litið er til áverka á kæranda sem fram koma á ljósmyndum sem varnaraðili tók og sóknaraðili hefur lagt fram, verður fallist á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Sóknaraðili lagði hald á nokkurt magn mynda og tölvugagna á heimili varnaraðila þegar hann var handtekinn. Má ætla að varnaraðili kunni að torvelda rannsókn á málsatvikum sem gögnin geyma upplýsingar um ef hann gengur laus. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðahaldi allt til þriðjudagsins 22. janúar 2008 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, allt til föstudagsins 1. febrúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð kemur fram að í gær hafi A, kt.[...], kært X sambýlismann sinn fyrir ítrekuð kynferðisbrot sem hún kvað hafa staðið yfir frá vorinu 2005. Hafi síðasta brot átt sér stað aðfaranótt 5. janúar 2008. Kæran lúti að því að X hafi ítrekað frá vorinu 2005 fengið ókunna karlmenn, sem hann hafi komist í samband við á netinu eða annan hátt, til þess að eiga kynferðislegt samneyti við A, stundum fleiri saman. Þetta hafi verið andstætt vilja hennar. Auk þess hafi hún greint frá því að kærði hafi oft haft við hana kynmök gegn vilja hennar. Hafi fjölmörg brot átt sér stað á sameiginlegu heimili þeirra að Y.
A hafi greint frá því, að mennirnir hafi átt við hana kynmök með því að setja lim í leggöng hennar og endaþarm og að hún hafi m.a. þurft að veita þeim munnmök. Kærði hafi stundum verið þátttakandi í hinum kynferðislegu athöfnum. Hann hafi lagt bann við því að verjur væru notaðar.
Þá hafi hún greint frá því að hún hafi orðið að láta að vilja kærða ellegar hafi hún verið beitt líkamlegu ofbeldi af hans hálfu. Fram hafi komið að hann hafi ávallt myndað kynferðislegar athafnir mannanna við A. Kærði ætti því í fórum sínum bæði ljósmyndir og videoupptökur af ætluðum kynferðisbrotum.
A hafi í gær farið í fylgd lögreglumanna inn á heimili þeirra til þess að sækja eigur sínar og hefur nú í sínum fórum tölvugögn. Hún sé nú komin í öruggt skjól.
Á það skuli bent að til meðferðar sé hjá héraðsdómi Reykjavíkur mál á hendur kærða, þar sem hann sé ákærður fyrir líkamsárás á hendur A og föður sínum, en kærði hafi beitt hann ofbeldi þegar hann hafi ætlað að koma A til aðstoðar. Samkvæmt fyrirliggjandi áverkavottorði, sem sé á meðal gagna málsins, hafi afleiðingar árásar kærða á A, m.a. verið rifbeinsbrot, sprungin hljóðhimna auk þess sem hún hafi verið með fjölda marbletta víðsvegar um líkamann. Þá sé þess getið að hún hafi verið með gamla áverka. Hún hafi nú lagt fram kæru vegna annars ofbeldisbrots kærða gagnvart henni.
Lögreglan vinni nú að rannsókn málsins. Í gærkvöldi hafi verið gerð húsleit á heimili kærða og hann verið handtekinn. Lagt hafi verið hald á fartölvu, þrjá síma ofl. Kærða hafi verið kynnt sakarefnið í morgun og neiti hann sök. Rannsókn málsins sé á frumstigi, taka þurfi skýrslur af vitnum og leita að mönnum, sem kunni að vera viðriðnir meint brot gegn A. Enn fremur þurfi að framkvæma tæknivinnu, m.a. reyna að endurheimta tölvugögn sem hafi verið eytt.
Eins og rakið hafi verið og gögn málsins beri með sér megi sjá að rannsókn þessa alvarlega sakarefnis sé á viðkvæmu stigi. Að mati lögreglu megi ætla að verði kærði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni og hugsanlega vitorðsmenn. Telji lögreglan ríka rannsóknarhagsmuni vera fyrir því á þessu stigi málsins að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar sem rökstuddur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. l. mgr. 3. gr. laga nr. 61/2007. Brot gegn ákvæðinu geti varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök sannist.
Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af gögnum málsins er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu allt að 16 árum. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og eða hugsanlega vitorðsmenn, gangi hann laus. Eru því uppfyllt skilyrði a liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991, og verður því tekin til greina krafa lögreglustjóra og úrskurða kærða í gæsluvarðhald, en rétt þykir að gæsluvarðhaldinu verði markaður sá tími sem í úrskurðarorði greinir.
Hervör Þorvaldsdóttir hérðasdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. janúar nk. kl. 16:00.