Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Miðvikudaginn 5. febrúar 2014. |
|
Nr. 12/2014. |
Anna
Björg Ingadóttir (Þórður Heimir Sveinsson hdl.) gegn Frjálsa
hf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál.
Gjaldþrotaskipti.
Kærður var
úrskurður héraðsdóms þar sem bú A var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu F hf.
A hafði skuldbundið sig með lánssamningi til að endurgreiða F hf. lán að
fjárhæð 60.000.000 krónur. Lýsti F hf. kröfu á hendur A á grundvelli
samningsins að fjárhæð tæpar 83.000.000 krónur. Óumdeilt var að í samningnum
var mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu lánsins og hafði það tvívegis verið
endurreiknað í samræmi við dóma Hæstaréttar. A hélt því fram að
endurútreikningurinn hefði ekki verið réttur og krafa bankans því of há.
Hæstiréttur taldi A ekki hafa hnekkt útreikningum F hf. A hélt því einnig fram
að fjárkrafa bankans væri nægilega tryggð með veði í tiltekinni fasteign, sbr.
1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því til
stuðnings aflaði A einhliða mats löggilts fasteignasala á söluverðmæti
eignarinnar þar sem það var sagt vera 83.000.000 krónur. Við meðferð málsins í
héraði mótmælti F hf. sönnunargildi þessa mats og vísaði til þess að skráð
fasteignamat eignarinnar væri 72.100.000 krónur. Beiðni A um að dómkvaddur yrði
sérfróður maður til að meta verðmæti eignarinnar var hafnað með úrskurði
héraðsdóms og undi A þeirri niðurstöðu. Með hliðsjón af 1. mgr. 27. gr. laga
nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og að því virtu sem að framan greinir
taldi Hæstiréttur að A hafi ekki fært sönnur á, gegn andmælum F hf., að
fjárkrafan væri nægilega tryggð með veði í eigninni. Var hinn kærði úrskurður
því staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta
dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi
I. Jónsson.
Sóknaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 31.
desember 2013 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. janúar 2014. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013 þar sem bú sóknaraðila var tekið
til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr.
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn
kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og
kærumálskostnaðar.
Varnaraðili
krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum
er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram skuldbatt sóknaraðili
sig með lánssamningi 25. október 2007 til að endurgreiða varnaraðila, sem þá
hét Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., lán að fjárhæð 60.000.000 krónur með 72
jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti. Þó skyldi aðeins greiða áfallna vexti
af höfuðstól lánsins á fyrstu tólf gjalddögunum, í fyrsta sinn 2. desember
2007. Fyrir liggur að greitt var af láninu tólf sinnum, í síðasta skipti 24.
febrúar 2009. Heldur varnaraðili því fram að einungis hafi verið greiddir
vextir af láninu eins og fram kemur í endurútreikningi þess frá 3. mars 2011
þar sem er að finna yfirlit yfir innborganir á lánið. Sóknaraðili hefur ekki
sýnt fram á að þetta sé rangt, til dæmis með því að leggja fram greiðslutilkynningar
eða kvittanir fyrir þeim innborgunum. Því verður að leggja til grundvallar að
ekkert hafi verið greitt af höfuðstól lánsins.
Krafa
varnaraðila 27. maí 2013 um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta
er reist á 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 þar sem 22. apríl sama
ár hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá henni. Jafnframt lýsti varnaraðili
kröfu á hendur sóknaraðila á grundvelli áðurgreinds lánssamnings að fjárhæð
82.963.832 krónur. Óumdeilt er að í samningnum var mælt fyrir um ólögmæta
gengistryggingu lánsins. Af þeim sökum hefur varnaraðili endurreiknað lánið í
samræmi við dóma Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 og 14.
febrúar 2011 í máli nr. 603/2010 þannig að það hafi borið vexti, sem eru jafnháir
vöxtum er Seðlabanki Íslands hafi ákveðið samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá lántökudegi til útreikningsdags auk
dráttarvaxta. Í samræmi við það kveður varnaraðili stöðu lánsins vera
88.364.477 krónur miðað við 2. október 2013. Þá hefur varnaraðili einnig
endurreiknað lánið miðað við forsendur dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli
nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 þar sem miðað er við að
það hafi borið sömu vexti og áður greinir frá síðustu innborgun af því 24.
febrúar 2009 til útreikningsdags. Samkvæmt þeim útreikningi segir varnaraðili
stöðu lánsins vera 84.117.818 krónur miðað við 2. október 2013. Hefur
sóknaraðili ekki hnekkt þessum útreikningum varnaraðila.
Sóknaraðili
heldur því fram að varnaraðili geti ekki krafist gjaldþrotaskipta þar sem
fyrrnefnd fjárkrafa hans sé nægilega tryggð með veði í fasteigninni
Þrastarhöfða 55 í Mosfellsbæ, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Þessu til stuðnings aflaði sóknaraðili einhliða mats löggilts fasteignasala á
söluverðmæti eignarinnar þar sem það var sagt vera 83.000.000 krónur í maí
2013. Við meðferð málsins í héraði andmælti varnaraðili sönnunargildi þessa
mats og vísaði til þess að skráð fasteignamat eignarinnar væri 72.100.000 krónur.
Sóknaraðili fór fram á að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að meta verðmæti
eignarinnar, en þeirri beiðni var hafnað að kröfu varnaraðila með úrskurði
héraðsdóms 11. nóvember 2013. Undi sóknaraðili þeirri niðurstöðu.
Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um
skráningu og mat fasteigna segir að skráð matsverð fasteignar
skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega
nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum. Með
hliðsjón af því lagaákvæði og að virtu því, sem að framan greinir, verður ekki
talið að sóknaraðili hafi fært sönnur á, gegn andmælum varnaraðila, að
fyrrnefnd fjárkrafa sé nægilega tryggð með veði í umræddri fasteign. Samkvæmt
því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila
verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði
úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili,
Anna Björg Ingadóttir, greiði varnaraðila, Frjálsa hf., 250.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður
Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013.
Krafa sóknaraðila, Frjálsa hf., Lágmúla 6, Reykjavík um að bú
varnaraðila, Önnu Bjargar Ingadóttur, Skeljatanga 40, Mosfellsbæ, verði tekið
til gjaldþrotaskipta barst dóminum 4. júní 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 4.
september sl. Lögmaður varnaraðila mótmælti kröfunni og var þá þingfest þetta
ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Lögmaður varnaraðila lagði fram greinargerð ásamt
fylgiskjölum í þinghaldi 25. september sl. Málinu var þá frestað til
framlagningar greinargerðar sóknaraðila til miðvikudagsins 2. október sl. Í
þinghaldi þann dag lagði lögmaður sóknaraðila fram greinargerð ásamt
fylgiskjölum og var málinu frestað til munnlegs málflutnings til mánudagsins
11. nóvember. Þegar málið var tekið fyrir þann dag óskaði lögmaður varnaraðila
eftir því að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns til þess að meta
verðmæti fasteignarinnar að Þrastarhöfða 55 í Mosfellsbæ. Lögmaður sóknaraðila
mótmælti því að beiðnin yrði lögð fram. Krafan var tekin til úrskurðar í
þinghaldinu eftir að lögmenn aðila höfðu tjáð sig um kröfur sínar. Úrskurður
var kveðinn upp samdægurs og kröfu varnaraðila hafnað. Málinu var þá frestað
til munnlegs málflutnings til fimmtudagsins 14. nóvember sl. Var málið flutt
munnlega þann dag og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til
gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá
krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til
virðisaukaskatts.
Málavextir
Hinn
25. október 2007 gerðu Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., varnaraðili og Páll
Borgar Guðjónsson með sér lánssamning, auðkenndan nr. 716214. Samkvæmt
samningnum lofaði bankinn að lána varnaraðila og Páli Borgari 60 milljónir
króna, verðtryggt miðað við gengi svissnesks franka og japansks jens. Lánið bar
að greiða til baka með 72 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti. Fyrstu tólf
gjalddagana bar einungis að greiða áfallna vexti af láninu, í fyrsta sinn 2.
desember 2007. Fyrsti gjalddagi afborgunar skyldi vera 2. desember 2008.
Óumdeilt er að gengistrygging lánsins var ólögmæt þar sem hún braut í bága við
ákvæði laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Til tryggingar á greiðslu
skuldar samkvæmt lánssamningnum gáfu varnaraðili og Páll Borgar út
veðtryggingarbréf 25. október 2007. Með bréfinu er fasteignin að Þrastarhöfða
55 í Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0049, sett Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að
veði með fyrsta veðrétti.
Með
skilmálabreytingu, dags. 25. febrúar 2009, var skilmálum lánssamningsins
breytt. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að
ekki væri byggt á þessari skilmálabreytingu. Kemur hún því ekki til frekari
skoðunar.
Ágreiningur
er milli aðila um hvenær lánið fór í vanskil. Sóknaraðili byggir á því að engin
afborgun hafi verið greidd af höfuðstól lánsins. Síðast hafi verið greitt af
láninu 24. febrúar 2009 en þá hafi gjalddagi fyrir nóvember 2008 verið
greiddur. Varnaraðili kveðst hins vegar hafa greitt afborgun 2. mars 2009 í
samræmi við fyrrnefnda skilmálabreytingu. Í kröfu sóknaraðila um töku bús
varnaraðila til gjaldþrotaskipta segir að síðasti greiddi gjalddagi af láninu
sé 2. mars 2009. Sömuleiðis er ágreiningur milli aðila um fjárhæð kröfu sóknaraðila
og hvort hún sé nægilega tryggð með fyrrnefndu veði.
Sóknaraðili
segir að bú Páls Borgars hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 26. október 2011
og hafi skiptum lokið án þess að nokkuð hafi fengist upp í þessa kröfu.
Árangurslaust
fjárnám var gert hjá varnaraðila 22. apríl sl. að kröfu Arion banka hf.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að lán samkvæmt umræddum
lánssamningi hafi verið endurreiknað í mars 2011. Við endurreikning lánsins
hafi sóknaraðili tekið mið af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 471/2010 og
600/201 [sic]. Sóknaraðili mótmælir
því að óheimilt sé að höfuðstólsfæra vexti í samræmi við 12. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda eigi túlkun varnaraðila sér ekki stoð í
texta ákvæðisins. Endurreikningur lánsins hafi verið kynntur lántaka með bréfi.
Lánið uppfylli ekki skilyrði fyrir endurreikningi á grundvelli
fullnaðarkvittana í ljósi stuttrar greiðslusögu, vanskila og fjárhæðar
viðbótarkröfu, með hliðsjón af upprunalegum höfuðstól.
Vegna verulegra vanskila hafi sóknaraðili gjaldfellt lánið
13. janúar 2013. Við gjaldfellingu lánsins hafi ekki verið tekið tillit til
dráttarvaxta af gjaldföllnum afborgunum. Staða kröfunnar í beiðni um
gjaldþrotaskipti sé því lægri en rétt staða kröfunnar.
Sóknaraðili hafnar málatilbúnaði varnaraðila um að krafa hans
sé nægilega tryggð með veði í fasteigninni að Þrastarhöfða 55, þar sem skuldin
sé lægri en sem nemi verðmæti fasteignarinnar. Sóknaraðili bendi á að
varnaraðili hafi selt umrædda fasteign 12. janúar 2012 til félagsins Uppleið
ehf. Ekki verði byggt á verðmati sem varnaraðili hafi aflað einhliða.
Fasteignamat eignarinnar sé 72.100.000 krónur. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 6/2001
um skráningu og mat fasteigna skal fasteignamat á hverjum tíma endurspegla
gangverð eignar umreiknað til staðgreiðslu.
Lán varnaraðila hafi verið endurreiknað í samræmi við dóm
Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, sbr. dóm réttarins í máli nr. 603/2011. Sé
einungis tekið tillit til höfuðstóls og vaxta sé skuld varnaraðila rétt rúmar
84.100.000 krónur.
Lánið uppfylli ekki skilyrði fyrir frekari endurreikningi á
grundvelli fullnaðarkvittana, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og
464/2012. Niðurstaða þessara dóma feli í sér undantekningu frá þeirri
meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem hafi fengið minna greitt en hann á
rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Sóknaraðili
hafnar því að atvik þessa máls séu með þeim hætti að víkja eigi frá
meginreglunni. Væri eigi að síður fallist á rétt varnaraðila til endurreiknings
í samræmi við þessa dóma næmu eftirstöðvar höfuðstóls við síðasta greidda
gjalddaga 60 milljónum króna. Með því að nota hagfelldustu útreikniaðferð fyrir
varnaraðila, þ.e. að reikna eingöngu vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001,
sbr. 3. gr. sömu laga, og líta með öllu fram hjá því að ekki hafi verið greitt
af láninu síðan í febrúar 2009, séu eftirstöðvar skuldarinnar í dag samt sem
áður rúmlega 84 milljónir króna. Því skipti ekki máli fyrir úrlausn um kröfu
sóknaraðila hvort lánið uppfylli skilyrði fyrir frekari endurreikning. Ljóst sé
að skuldin sé ekki nægjanlega tryggð með veði.
Sóknaraðili bendi á að í máli nr. 464/2012 hafi ekki verið
ágreiningur um útreikniaðferð og því hafi álitaefni um hana ekki komið
sérstaklega til úrlausnar.
Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila 22.
apríl sl. að kröfu Arion banka hf. Því hafi ekki verið haldið fram að
fjárnámsgerðin gefi ranga mynd af fjárhag varnaraðila. Varnaraðili sé ógjaldfær
og séu skilyrði uppfyllt fyrir því að bú hennar verði tekið til
gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl.
Í kröfu um gjaldþrotaskipti sundurliðar sóknaraðili kröfu
sína á svofelldan hátt:
|
Höfuðstóll |
77.009.813 krónur |
|
Dráttarvextir til 27. maí 2013 |
3.615.182 krónur |
|
Innheimtuþóknun |
1.811.300 krónur |
|
Endurrits- og
birtingarkostnaður |
2.500 krónur |
|
Kostnaður vegna fjárnáms |
250 krónur |
|
Kostnaður vegna uppboðs |
14.000 krónur |
|
Kröfulýsing |
14.000 krónur |
|
Gjaldþrotaskiptabeiðni |
7.000 krónur |
|
Kostnaður vegna gjaldþrotaskiptameðferðar |
15.000 krónur |
|
Upplýsingaöflun |
7.000 krónur |
|
Vextir af kostnaði |
2.335 krónur |
|
Virðisaukaskattur |
465.452 krónur |
|
Samtals |
82.963.832 krónur |
Málsástæður og lagarök
varnaraðila
Varnaraðili
vísar til þess að í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 153/2010 og
471/2010 hafi lán varnaraðila verið endurreiknað 28. mars 2011 samkvæmt lögum
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og þeim var breytt með lögum nr.
151/2010. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins hvernig endurreikningurinn hafi verið
kynntur varnaraðila.
Varnaraðili
byggir í fyrsta lagi á því að endurreikningur sóknaraðila sé rangur og alltof
hár, þar sem ekki hafi verið farið að fordæmum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011
og 464/2012 við endurreikninginn.
Samkvæmt
beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið
gjaldfelldar 13. janúar 2013 með vísan til ákvæða lánssamnings aðila, þrátt
fyrir að þá hafi legið fyrir fyrrnefnd fordæmi Hæstaréttar um
fullnaðarkvittanir. Af þessu leiði að endurreikningur lánssamningsins, eins og
hann komi fyrir í beiðni sóknaraðila, sé of hár og að hluta til ólögmætur.
Dómur
Hæstaréttar í máli nr 464/2012 gangi lengra en fyrri sambærilegur dómur í máli
nr. 600/2011. Fyrrnefndi dómurinn árétti fordæmi síðarnefnda dómsins um að útgefnir
greiðsluseðlar bankans og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum í samræmi við þá
hafi jafngilt fullnaðarkvittunum. Því megi ekki krefja lántaka síðar um
viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra gjalddaga, eins og sóknaraðili geri í
endurreikningi sínum. Dómurinn í máli nr. 464/2012 hafi gengið lengra og
samþykkt tiltekna reikniaðferð. Í dóminum segi m.a. að samningsvextir
gengisláns skuli standa, að óheimilt sé að reikna gengislán afturvirkt miðað
við vexti Seðlabankans og hvernig eigi að meðhöndla greiðslur sem þegar hafi
verið greiddar inn á lánið. Með þessum dómi hafi endanlega verið skorið úr um
það hvernig fara eigi með greiddar afborganir neytenda af ólögmætum
gengistryggðum lánum.
Endurreikningurinn
virðist hafa farið þannig fram að fundnir hafi verið meðalvextir Seðlabanka
Íslands á árinu 2007, 17,44444%, sem lánið hafi borið frá stofndegi lánsins 6.
nóvember 2007 til 5. nóvember 2008. Reiknaðir vextir á þeim tíma hafi numið
10.466.640 krónum og hafi þeir verið lagðir við höfuðstól lánsins. Nýr höfuðstóll
hafi verið 70.466.640 krónur. Af þeim höfuðstól hafi síðan verið reiknaðir
vextir og þannig koll af kolli, fram til þess tíma sem endurreikningur lánsins
miðist við, sem sé 2. mars 2011. Síðan hafi allar greiðslur varnaraðila auk
vaxta af þeim verið dregnar frá heildarfjárhæð lánsins eftir á. Greiðslur
varnaraðila sem svari til fullnaðarkvittana á tímabilinu 11. desember 2007 til
24. febrúar 2009 séu ekki lagðar til grundvallar.
Endurreikningur
sóknaraðila byggi að meginstofni á því að notaðir séu breytilegir óverðtryggðir
vextir Seðlabanka Íslands samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og
endurreikningurinn byggi alfarið á lögum nr. 151/2010. Gengið sé út frá því að
lánið hafi frá stofndegi borið vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3.
gr. sömu laga. Sóknaraðili telji sig því eiga kröfu aftur í tímann um slíka
vexti þar sem hann hafi fylgt lögum nr. 151/2010 við endurreikninginn. Á móti
komi að varnaraðili hafi greitt afborganir af láninu frá stofndegi. Þar sem
vextir af láninu hafi verið hærri samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. gr.
sömu laga, en lánssamningurinn hafi kveðið á um, eigi sóknaraðili rétt á þeim
mismun sem hann hafi reiknað út. Þar af leiðandi sé ekki tekið tillit til
fullnaðarkvittana sem liggi fyrir í málinu.
Fordæmisgildi
dóms Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 sé vart hægt að skilja þannig að það sé
sérstaklega háð því hvort lán hafi verið í fullum skilum, enda breyti það ekki
þeirri meginreglu sem fram komi í dóminum. Krafa sem byggist á ólögmætum
skilmála geti auk þess aldrei verið í vanskilum þar sem slík krafa sé ekki
lögvarin. Kröfuhafi eigi ekki rétt til efnda nema hann hafi uppi rétta kröfu.
Lög
nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, hafi tekið gildi 29. desember 2010
og geti fyrst gilt frá þeim tíma, en ekki afturvirkt. Skipti ekki máli þótt
varnaraðili hafi ekki greitt af láninu þar sem greiðslur hafi verið orðnar svo
háar að ekki hafi verið við ráðið. Reikningur sóknaraðila á greiðslum samkvæmt
lögum nr. 151/2010 allt frá stofndegi lánsins 25. október 2007 feli í sér
afturvirkni sem ekki standist meginreglur um afturvirkni laga. Því verði við
endurreikning að styðjast við þá vexti sem komi fram í lánssamningi aðila frá
þeim tíma þegar varnaraðili hafi hætt að greiða af láninu 24. febrúar 2009 fram
til gildistöku laga nr. 151/2010. Að auki sé óljóst hvort sóknaraðila hafi
verið heimilt að reikna vexti á lánið eftir lögum nr. 151/2010 þar sem lög nr
121/1994 um neytendalán standi því í vegi að nýir og óhagstæðir vextir neytenda
í óhag komi í stað fyrri vaxta.
Í
öðru lagi byggir varnaraðili á því að óheimilt sé að höfuðstólsfæra vexti
samkvæmt lánssamningi aðila á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr.
38/2001, sbr. 1., 3. og 5. mgr. 18. gr. sömu laga, eins og þeim var breytt með
lögum nr 151/2010. Með gagnályktun frá 1. mgr. 12. gr. laganna sé slíkt
óheimilt þegar skuldari hafi greitt afborganir og vexti á því tímabili sem um
ræðir. Það samrýmist ekki heldur fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr.
600/2011 og 464/2012.
Endurreikningur
sóknaraðila sé því í andstöðu við 12. gr. laga nr. 38/2001. Svo virðist sem
sóknaraðili hafi endurreiknað ólögmæt lán sem falli undir 18. gr. laganna
þannig að vextir séu lagðir við höfuðstól, hvort sem greitt hafi verið af
láninu eða ekki. Ákvæði 18. gr. laganna heimili aðeins að vaxtareikna
upphaflegan höfuðstól. Tekið sé fram í athugasemdum með frumvarpi sem varð að
lögum nr. 151/2010 að ekki sé heimilt að krefjast vanskilavaxta eða annarra
vanskilaálaga. Útreikningur vaxtavaxta sé í eðli sínu vanskilaálag. Samkvæmt
12. gr. laganna sé einungis heimilt að leggja vexti við höfuðstól, sé
vaxtatímabil lengra en 12 mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir. Hér sé
greinilega átt við samningsbundið vaxtatímabil, ekki vaxtatímabil aftur í
tímann. Ekki sé skýrt kveðið á um það í 18. gr. að heimilt sé að reikna
vaxtavexti aftur í tímann frá stofndegi/útborgunardegi láns, en slíkt hefði
verið nauðsynlegt fyrir svo íþyngjandi vaxtareikning.
Í
athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 38/2001 segi um 12. gr. að
ákvæðinu sé ætlað að mæla ótvírætt fyrir um þá aðalreglu að heimilt sé að
leggja almenna vexti við höfuðstól kröfu við útreikning vaxta, nema önnur
niðurstaða leiði af samningum, venju eða lagafyrirmælum. Í þessu felist að 18.
gr. laganna gildi að öllum líkindum framar 12. gr.
Að
auki telur varnaraðili að ekki sé heimilt að reikna vaxtavexti á grundvelli 12.
gr. laga nr. 38/2001 á þeim grundvelli að ákvæði lánssamnings gefi ekki til
kynna að heimilt sé að leggja vexti og verðbætur endurreiknaðs láns við
höfuðstól þess á 12 mánaða fresti.
Vegna
þeirrar óvissu sem ríkti hér á landi í kjölfar bankahruns sé óeðlilegt að bæta
vöxtum og verðbótum veltureiknings við höfuðstól, þar sem lántakendur hafi ekki
vitað hvort þeir ættu að greiða afborganir gengistryggðra lána, sbr. 7. gr.
laga nr. 38/2001 með lögjöfnun.
Með
vísan til framangreinds telji varnaraðili að óheimilt hafi verið að leggja
vexti við höfuðstól á hverju 12 mánaða tímabili. Ákvæði 12. gr. komi þó ekki í
veg fyrir að rétt endurreiknaðir vextir verði lagðir við höfuðstól í einu lagi
þegar sá endurreikningur liggi fyrir.
Í
þriðja lagi byggir varnaraðili á því að samkvæmt 14. gr. laga nr. 121/1994 um
neytendalán eigi neytendur rétt á að fá réttan endurreikning í samræmi við
fordæmi Hæstaréttar og um leið rétta greiðsluseðla, sbr. einnig 5. til 7. gr.
laganna. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 14. gr. sé lánveitanda óheimilt að krefjast
greiðslu á frekari vöxtum eða lántökukostnaði en sé tilgreindur í samningi,
sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði eigi við gerð
lánssamnings að liggja fyrir heildarlántökukostnaður. Auk þess hafi engin árleg
hlutfallstala kostnaðar verið tilgreind í lánssamningi aðila, sbr. 5. tl. 1.
mgr. 6. gr. laganna.
Ákvæðum
samninga um gengistryggð lán hafi verið breytt með setningu laga nr. 151/2010.
Með dómum í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi Hæstiréttur komist að þeirri
niðurstöðu að slík breyting með íþyngjandi, afturvirkum hætti stangaðist á við
eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að endurreikningur
sóknaraðila innihaldi ekki kröfu um réttar efndir samkvæmt samningi aðila. Af
þeim sökum teljist sá skilmáli sem sóknaraðili byggi innheimtu vaxta á, einnig
vera ósanngjarn samningsskilmáli í skilningi 36. gr. a til d í lögum nr. 7/1936
um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Í
fjórða lagi telur varnaraðili að innheimta láns á grundvelli endurreiknings, án
þess að tekið hafi verið tillit til dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og
464/2012, og sem fari í bága við 12. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr. sömu
laga, teljist óréttmætir viðskiptahættir í skilningi 8. gr. laga nr. 57/2005 um
eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Sérstaka
kröfu verði að gera til fjármálafyrirtækja um færni, alúð og góða trú. Samkvæmt
19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sé sérstök skylda lögð á
fjármálafyrirtæki að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskipahætti
og venjur á fjármálamarkaði. Sóknaraðili hafi brotið gegn þessu með
endurreikningi sínum.
Sóknaraðili
hafi ekki farið þá eðlilegu leið við innheimtu skuldarinnar að krefjast uppboðs
á eigninni í samræmi við veðtryggingarbréf. Þess í stað krefjist sóknaraðili
þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, sem sé mun meira
íþyngjandi innheimtuaðgerð.
Í
fimmta lagi vísar sóknaraðili til þess að lagt hafi verið fram verðmat löggilts
fasteignasala á hinni veðsettu fasteign, dags. 7. maí sl. Niðurstaða
verðmatsins sé á þá leið að verðmæti eignarinnar þann dag sé 83 milljónir
króna. Staða skuldar varnaraðila við sóknaraðila sé í kringum 65 til 70
milljónir króna. Því eigi fasteignin að standa undir stöðu skuldarinnar.
Varnaraðili sé því gjaldfær.
Niðurstaða
Fyrir
liggur að fjárnám var gert hjá varnaraðila 22. apríl sl. sem lauk án árangurs.
Krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta barst
dóminum 4. júní sl., innan þess frests sem greinir í 1. tl. 2. mgr. 65. gr.
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Gildi gerðarinnar hefur ekki verið
hnekkt, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 58/2011, 347/2011 og
620/2013. Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema
hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á
skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms
tíma.
Ekki er ágreiningur um það milli aðila að sóknaraðili á kröfu
á hendur varnaraðila. Varnaraðili kveðst hafa greitt fyrstu afborgun samkvæmt
skilmálabreytingu, dags. 25. febrúar 2009, en fyrsti gjalddagi samkvæmt henni
hafi verið 2. mars 2009. Hún hafi ekkert greitt af láninu eftir það.
Sóknaraðili segir í beiðni sinni um gjaldþrotaskipti að síðasti greiddi
gjalddagi af láninu sé sömuleiðis 2. mars 2009. Sama dagsetning kemur fram í
yfirliti yfir stöðu þessa máls, dags. 2. október sl. Í greinargerð sóknaraðila
segir að varnaraðili hafi greitt í síðasta sinn af láninu 24. febrúar 2009 en
þá hafi hún greitt gjalddaga í nóvember 2008 sem forsendu fyrir
skilmálabreytingu. Þetta er í samræmi við framlagða endurreikninga sóknaraðila
á láninu, þar sem gerð er grein fyrir greiðsluflæði lánanna. Samkvæmt þessu
verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi greitt fyrstu tólf
gjalddaga lánsins, desember 2007 til og með nóvember 2008.
Ágreiningur aðila snýst í fyrsta lagi um það hvort
endurreikningur sóknaraðila sé réttur. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi
ekki gætt réttra aðferða við endurreikninginn og krafa hans sé því of há, rétt
staða skuldarinnar sé í dag kringum 65 til 70 milljónir króna. Sóknaraðili
hafnar því að endurreikningur hans sé rangur. Lán varnaraðila hafi verið
endurreiknað í mars 2011 og lánið uppfylli ekki skilyrði til frekari
endurreiknings á grundvelli fullnaðarkvittana.
Með vísan til gagna málsins er fallist á það með sóknaraðila
að höfuðstóll kröfu hans, án tillits til dráttarvaxta, nemi þeirri fjárhæð sem
tekin er fram í beiðni um gjaldþrotaskipti, þ.e. 77.009.813 krónum. Fullyrðing
varnaraðila um að höfuðstóll kröfunnar sé á bilinu 65 til 70 milljónir króna er
ekki rökstudd og fær ekki heldur stoð í gögnum málsins. Sóknaraðili hefur lagt
fram endurreikning á láni varnaraðila miðað við að tekið sé tillit til
fullnaðarkvittana og hefur varnaraðili ekki heldur hnekkt þeim endurreikningi.
Samkvæmt honum er ljóst að krafa sóknaraðila nemur a.m.k. 84.117.818 krónum með
dráttarvöxtum.
Aðilar málsins deila einnig um verðmæti fasteignarinnar
Þrastarhöfða 55 í Mosfellsbæ, fastanúmer 229-0049, sem var sett að veði fyrir
skuldum varnaraðila með veðtryggingarbréfi, útgefnu 25. október 2007, og hvort
krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði í eigninni. Samkvæmt 27. gr. laga
nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal fasteignamat á hverjum tíma
endurspegla gangverð eignar umreiknað til staðgreiðslu. Fasteignamat
eignarinnar er 72.100.000 krónur. Varnaraðili hefur aflað mats löggilts
fasteignasala á söluverði eignarinnar og var niðurstaða hans sú að sölverð
hennar væri 83 milljónir króna. Samkvæmt þessu er ljóst að krafa sóknaraðila er
ekki nægilega tryggð með veði í eigninni, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr.
21/1991, án tillits til ágreinings aðila um heildarfjárhæð kröfunnar og án
tillits til þess hvort miðað sé við fasteignamat eignarinnar eða fyrrnefnt
verðmat.
Samkvæmt þessu eru öll skilyrði uppfyllt fyrir því að bú
varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ber því
að fallast á kröfu sóknaraðila.
Í
ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili
greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Ásbjörn
Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna
dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest, en
dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
Úrskurðarorð:
Bú
varnaraðila, Önnu Bjargar Ingadóttur, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili
greiði sóknaraðila, Dróma hf., 250.000 krónur í málskostnað.