Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2002


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Orlof
  • Skuldajöfnuður


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. janúar 2003.

Nr. 335/2002.

Tölvuþjónustan á Akranesi ehf.

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Sigurði H. Bjarnasyni

(Atli Gíslason hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Laun. Orlof. Skuldajöfnuður.

T ehf. var dæmd til að greiða S, fyrrverandi starfsmanni sínum, vangoldin laun og aðrar greiðslur í samræmi við ákvæði ráðningar- og kjarasamnings. Var T ehf. ekki heimilt að draga gagnkröfur sínar frá skuldinni, svo sem útlagðan kostnað vegna náms sem S hafði stundað o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verk­kaups.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir  Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Stefndi hóf störf hjá áfrýjanda haustið 1998 en ekki var þá gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Í september 1999 urðu breytingar á ráðningarkjörum hans og skriflegur ráðningarsamningur var gerður 22. mars 2000. Snýst ágreiningur aðila að hluta til um túlkun á ákvæðum þess samnings, en tildrög hans og þau ákvæði samningsins er máli skipta eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi sagði upp störfum í lok júní 2001 og er ágreiningslaust að uppsagnarfrestur var þrír mánuðir miðað við mánaðamót. Í byrjun júlí sama árs var stefnda tilkynnt að ekki væri óskað eftir að hann ynni á uppsagnarfrestinum.

 Í máli þessu deila aðilar um uppgjör dagvinnulauna stefnda vegna mánaðanna maí 2000 til og með september 2001 að desembermánuði 2000 undanskildum, greiðslu orlofsuppbótar vegna maí 1999 til september 2001, greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2000 og vegna starfstíma stefnda á árinu 2001 og greiðslu yfirvinnu vegna mánaðanna september, nóvember og desember 2000 sem og maí og júní 2001. Ágreiningur aðila um fjárhæð orlofs leiðir af ágreiningi þeirra um greiðslu launa fyrir dagvinnu og yfirvinnu. Loks deila aðilar um heimild áfrýjanda til að skuldajafna kröfum, sem hann telur sig eiga á stefnda, við launakröfur hans, auk þess sem ágreiningur er um réttmæti hluta þessara gagnkrafna.

Ágreiningur aðila varðandi dagvinnulaun snýst um það hvort stefndi hafi, til viðbótar föstum 230.000 króna mánaðarlaunum sínum samkvæmt hinum skriflega ráðningarsamningi og 6.5% hækkun þeirra 1. desember 2000, átt rétt á þeim launahækkunum 1. maí 2000 og 1. janúar 2001, sem kveðið var á um í grein 1.2.1 í kjarasamningi milli Verslunarmannafélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að stefndi hafi átt rétt á launahækkunum þessum, en um þær er ekki tölulegur ágreiningur.

Stefndi reisir kröfu um greiðslu fyrir yfirvinnu sem og greiðslu desemberuppbótar og orlofsuppbótar á ákvæðum fyrrgreinds kjarasamnings en áfrýjandi telur að í ráðningarsamningi aðila hafi falist að þessir liðir væru hluti af föstum mánaðarlaunum stefnda og skyldu því ekki greiddir þeim til viðbótar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að þá niðurstöðu hans að stefndi eigi rétt til slíkra greiðslna á grundvelli kjarasamningsins.

 Kröfur sínar um fjárhæð yfirvinnugreiðslna byggir stefndi á skráningu daglegs vinnutíma í dagbók. Hefur áfrýjandi ekki hrakið staðhæfingu hans um að sú skráning hafi verið framkvæmd jafnóðum. Þá hefur hann ekki lagt fram gögn er hnekkja þeirri skráningu, enda verður ekki séð að gögn sem áfrýjandi lagði fram um verkskráningar taki til annars en skráningar á vinnu stefnda vegna útseldra verka, en í málinu liggur fyrir að stefndi vann einnig við verkefni sem ekki voru seld út. Verður skráning stefnda  því lögð til grundvallar og staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð yfirvinnugreiðslna.

Áfrýjandi benti við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti á að í héraðsdómi væri fjárhæð vangreidds orlofs ranglega ákvörðuð þar sem láðst hefði að taka tillit til þess að héraðsdómur tók ekki að fullu til greina kröfu stefnda um yfirvinnugreiðslur. Féllst stefndi á það. Til samræmis við það telst fjárhæð vangreidds orlofs vera 424.386 krónur.

Áfrýjandi heldur því fram að kröfur stefnda til desemberuppbótar 2001 og orlofsuppbótar fyrir tímabilið maí til september á því ári, sem héraðsdómur féllst á, séu ranglega ákvarðaðar þar sem með réttu eigi að hlutfallsreikna fjárhæðir í fyrrgreindum kjarasamningi vegna þessa á síðasta starfsári stefnda með því að margfalda þær með starfstíma stefnda í vikum talið og deila í með 52 en ekki 45 eins og stefndi hafi gert. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féllst stefndi á þetta og ber áfrýjanda því að greiða 30.769 krónur í desemberuppbót vegna 2001 og 6.473 krónur í orlofsuppbót vegna fyrrgreinds tímabils. Að öðru leyti verður niðurstaða héraðsdóms varðandi desemberuppbót og orlofsuppbót staðfest.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi dró áfrýjandi gagnkröfur sem hann taldi sig eiga á hendur stefnda frá þeim greiðslum, sem hann taldi að hinum síðarnefnda bæri á uppsagnarfresti, þannig að ekkert kom til útborgunar. Í málatilbúnaði sínum krefst áfrýjandi þess að gagnkröfurnar komi til skuldajafnaðar framangreindum kröfum stefnda. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups má eigi greiða kaup með skuldajöfnuði nema um það hafi áður verið sérstaklega samið. Verður hvorki talið að krafa áfrýjanda um endurgreiðslu kostnaðar vegna náms stefnda í Rafiðnarskólanum né aðrir liðir gagnkröfu hans hafi slík tengsl við launakröfu stefnda að helgað geti slíka skuldajöfnun þrátt fyrir fyrrgreint ákvæði. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna skuldajafnaðarkröfu áfrýjanda.

Meðal gagna málsins eru launaseðlar stefnda vegna mánaðanna júní, júlí, ágúst, september og október 2001. Samkvæmt þeim hefur áfrýjandi dregið af reiknuðum launum og orlofi stefnda greiðslur til stéttarfélags og lífeyrissjóðs svo og greiðslur vegna meðlags, álagðra skatta og staðgreiðslu skatta. Gögn um skil þessara gjalda hafa hins vegar ekki verið lögð fram í málinu að öðru leyti en því að við lok munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti lagði áfrýjandi fram gögn vegna skila þess sem af stefnda var dregið vegna októbermánaðar. Stefndi krefst þrátt fyrir þetta greiðslu á allri launaskuldinni og mótmælir framangreindum gögnum vegna október sem of seint fram komnum. Lögmaður hans lýsti því hins vegar yfir fyrir Hæstarétti að framvísi áfrýjandi skilríkjum fyrir réttum skilum til þar til bærra móttakenda muni hann ekki krefjast fullnustu dóms fyrir þeim hluta kröfunnar. Þar sem ekki liggja fyrir gögn um skil framangreindra fjárhæða, ef undan eru skilin gögn vegna október 2001, sem fallast verður á með stefnda að séu allt of seint fram komin, verður gegn mótmælum stefnda ekki fallist á kröfu áfrýjanda um lækkun tildæmdrar fjárhæðar sem þeim nemur.

 Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 1.697.507 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

 

 

Dómsorð:

Áfrýjandi, Tölvuþjónustan á Akranesi ehf., greiði stefnda, Sigurði H. Bjarnasyni, 1.697.507 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  8.970 krónum frá 1. júní 2000 til 1. júlí 2000, af 17.940 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2000, af 26.910 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 36.310 krónum frá þeim degi til 1. september 2000, af 45.280 krónum frá þeim degi til 1. október 2000, af 88.994 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, af 97.964 krónum frá þeim degi til 1. desember 2000, af 188.830 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 217.030 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2001, af 236.999 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2001, af 244.349 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001, af 251.699 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2001, af 259.049 krónum frá þeim degi til 1. maí 2001, af 266.399 krónum frá þeim degi til 1. júní 2001, af 368.093 krónum frá þeim degi til 30. júní 2001, af 649.766 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 791.153 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2001, af 1.043.503 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 1.058.503 krónum frá þeim degi til 1. september 2001, af 1.265.203 krónum frá þeim degi til 1. október 2001, af 1.517.553 krónum frá þeim degi til 31. október 2001, en af 1.697.507 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 10. maí 2002.

   Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 9. janúar 2002. Það var þingfest 15. janúar og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 17. apríl sama ár.

   Stefnandi er Sigurður H. Bjarnason, kt. 150165-4909, Heiðarbraut 39 Akranesi. Stefnt er Tölvuþjónustunni ehf., kt. 621191-1449, Vesturgötu 48 Akranesi.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag, Tölvuþjónustan á Akranesi ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda 2.013.267 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sérstaklega 1. mgr. 6. gr., af 8.970 krónum frá 1.6.2000 til 1.7.2000, en af 17.940 kr. frá þeim tíma til 1.8.2000, en af 26.910 kr. frá þeim tíma til 15.8.2000, en af 36.310 kr. frá þeim tíma til 1.9.2000, en af 45.280 kr. frá þeim tíma til 1.10.2000, en af 98.921 kr. frá þeim tíma til 1.11.2000, en af 107.891 kr. frá þeim tíma til 1.12.2000, en af 208.684 kr. frá þeim tíma til 15.12.2000, en af 236.884 kr. frá þeim tíma til 1.1.2001, en af 317.030 kr. frá þeim tíma til 1.2.2001, en af 324.380 kr. frá þeim tíma til 1.3.2001, en af 331.730 kr. frá þeim tíma til 1.4.2001, en af 339.080 kr. frá þeim tíma til 1.5.2001, en af 346.430 kr. frá þeim tíma til 1.6.2001, en af 458.606 kr. frá þeim tíma til 30.6.2001, en af 2.013.267 kr. frá þeim tíma til greiðsludags.  Stefnandi viðurkennir rétt stefndu til að skuldajafna á móti stefnukröfu kr. 158.135, sem færðar eru í bókhald stefndu 19. júní 2001 sem fyrirfram greidd laun.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og 24,5% virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða henni máls­kostnað í samræmi við fram lagðan málskostnaðarreikning.

Um málsástæður stefnanda og önnur atvik og lagarök segir í stefnu að stefnandi hafi hafið störf fyrir stefndu í september 1998.  Aðaleigendur stefndu, Alexander og Eiríkur Þór Eiríkssynir, hafi ráðið stefnanda til starfa og samið við hann um launakjör.  Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila fyrr en í mars 2000. Samkvæmt honum hafi verið samið um að mánaðarlaun stefnanda skyldu vera 230.000 krónur á mánuði frá 1. apríl 2000.  Um orlofsgreiðslur og aðrar greiðslur skyldi fara eftir gildandi kjarasamningi, sem sé kjarasamningur milli Verslunarmannafélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins.  Stefnandi hafi starfað sem tæknimaður á verkstæði stefndu, auk þess að sinna þjónustu við viðskiptavini stefndu. 

Stefnandi hafi ítrekað gert munnlegar athugasemdir um að fá ekki greidda yfirvinnu, desember­uppbót, orlofs­uppbót og fleiri samningsbundnar greiðslur.  Við þeim athugasemdum hafi stefnandi fengið þau svör ein að hann fengi góðar jólagjafir, að laun hans væru há og að hann ætti rétt á bónusgreiðslum í lok árs ef rekstur fyrirtækisins gengi vel.  Þá hafi stefnanda verið gefið til kynna að honum væri frjálst að segja upp störfum hjá stefnda, ef þessar skýringar nægðu ekki.  Eftir því sem tíminn leið hafi ágreiningur milli stefnanda og forsvarsmanna stefndu vegna þessara atriða orðið meira áberandi.  Ágreiningur og erfiðleikar í samskiptum á vinnustaðnum hafi meðal annars orðið til þess að stefnanda hafi verið gefin mjög afdráttarlaus fyrirmæli á svokölluðum verkfundi í febrúar 2001. 

Stefnandi hafi sagt upp störfum hjá stefndu í lok júní 2001, í lok vinnuviku.  Uppsögn stefnanda hafi miðast við mánaðamót, og þar sem uppsagnarfrestur hans hafi verið þrír mánuðir hafi hann átt að vera frá byrjun júlí 2001 til loka september 2001.  Uppsögnin hafi strax komist til vitundar for­svars­manna stefndu.  Næsta mánudag, 2. júlí 2001, hafi stefnandi komið til vinnu eins og vant var og unnið fram að hádegi.  Eftir hádegi hafi stefnandi verið kallaður á fund hjá forsvarsmönnum stefndu og honum tjáð að hann ætti að hætta vinnu strax og yfirgefa fyrir­tækið.  Um leið hafi honum verið sagt að eiginkonu hans, sem starfað hafi við ræstingar hjá stefndu, væri einnig sagt upp störfum.  Þannig hafi stefnanda fyrirvaralaust verið vísað út af vinnustaðnum.  Stefn­andi hafi ekki fengið greidd laun fyrir líðandi mánuð, heldur hafi þau verið tekin upp í meintar við­skipta­skuldir stefnanda við stefndu, eins og þær skuldir hafi einhliða verið reiknaðar af for­svars­mönnum stefndu.  Jafnframt hafi laun eiginkonu stefnanda fyrir nýliðinn mánuð einnig verið tekin upp í meintar viðskiptaskuldir stefnanda við stefndu.  Stefnda hafi haldið eftir öllum launum stefnanda þannig að hann hafi ekkert fengið útborgað og hafi reyndar ekki enn fengið neitt útborgað af þeim launum sem hann eigi inni hjá stefndu.  Við þennan afdrátt hafi stefndi blandað saman launum og við­skiptaskuldum.  Slíkur skuldajöfnuður sé óheimill og ólögmætur.  Allar aðgerðir stefndu við þetta hafi verið að hennar sjálfdæmi.  Með því að skuldajafna á þann hátt sem stefnda hafi gert hafi stefnandi og fjölskylda hans verið skilin eftir algerlega launalaus og alveg að þarf­lausu og á gróflegan hátt raskað högum fjölskyldu hans og framfærslu hennar.  Stefnandi heldur því fram að framganga forsvarsmanna stefndu hafi að þessu leyti verið ámælis­verð siðferðislega.  Stefndu sé einnig óheimilt að blanda saman viðskiptum sínum við stefn­anda og launum eiginkonu stefnanda, en um það muni fjallað í dómsmáli sem eiginkona stefnanda hefur höfðað gegn stefndu. 

Með framferði sínu hafi forsvarsmenn stefndu brotið rétt á stefnanda.  Framganga forsvars­manna stefndu feli í sér ólögmæta aðferð við uppgjör launa og við uppgjör vegna uppsagnar og loka á ráðningarsamningi.  Því gjaldfalli allar kröfur stefnanda um laun og aðrar greiðslur þá þegar. 

Þegar stefnandi hafi gert sér grein fyrir því að á honum hefði verið brotinn réttur, hafi hann leitað aðstoðar hjá Verslunar­manna­félagi Akraness.  Þaðan hafi strax verið haft samband við stefndu.  Framkvæmdastjóri stefndu hafi svarað með tölvupósti til Verslunarmannafélags Akraness hinn 4. júlí 2001, sbr. framlagt skjal.  Hinn 18. júlí 2001 hafi Verslunarmannafélagi Akra­ness ritað stefndu bréf þar sem gerð hafi verið krafa um leiðréttingar á launum, gerð krafa um leiðréttingu vegna skulda­jafnaðar, o.fl.  Bréf hafi borist frá lögmanni stefndu, dags. 2. ágúst 2001, þar sem kynnt hafi verið að efnislegt svar mundi dragast fram í miðjan ágúst vegna sumarleyfa.  Verslunar­mannafélag Akraness hafi ítrekað kröfu sína um leiðréttingu hinn 20. ágúst 2001 og hinn 24. ágúst 2001.  Þegar engin svör hafi borist og engar leiðréttingar verið gerðar hafi málinu verið vísað til lög­manns.  Innheimtubréf hafi verið sent hinn 28. ágúst 2001 og einnig hinn 30. ágúst 2001 vegna leiðréttingar með tilliti til launa í júní 2001.  Svar við innheimtubréfi hafi borist frá lögmanni stefndu, dags. 13. september 2001.  Lögmaður stefnanda hafi svarað  lögmanni stefndu hinn 9. október 2001.  Tilraunir til að koma af stað viðræðum um lausn þessa máls hafi ekki borið árangur og því sé nauðsynlegt að höfða mál. 

Í stefnu er stefnukrafa ítarlega sundurliðuð undir kaflaheitunum Dagvinnulaun, Yfirvinnulaun, Orlof, Orlofsuppbót, Desemberuppbót og Viðskiptaskuldir:

Dagvinnulaun: 

Stefnandi segir að með ráðningarsamningi aðila hafi verið samið um að mánaðarlaun hans skyldu vera 230.000 krónur frá 1. apríl 2000.  Samkvæmt kjarasamningi skyldu laun hækka um 3,9% hinn 1. maí 2000 og þá hefðu laun stefnanda átt að hækka í 238.970 krónur.  Sú hækkun hafi ekki verið greidd stefnanda.  Mismunurinn sé 8.970 krónur og sé vangreiddur frá og með maí 2000 til og með nóvember 2000 eða í 7 mánuði.  Hinn 1. desember 2000 hafi verið samið um að laun stefnanda hækkuðu í 245.000 kr. á mánuði.  Hinn 1. janúar 2001 hafi  laun átt að hækka um 3% skv. kjarasamningi.  Dagvinnulaun stefnanda hefðu þá átt að hækka í 252.350 krónur á mánuði eða um 7.350 kr.  Sú hækkun hafi ekki verið greidd stefnanda og sé vangreidd frá og með janúar 2001 til og með maí 2001 eða í 5 mánuði.  Laun frá og með júní til og með september 2001 hafi ekki verið greidd út.

Stefnandi eigi rétt á þeim launahækkunum sem mælt sé fyrir um í gildandi kjarasamningi og þær skuli reiknaðar á gildandi umsamin laun milli aðila á þeim tíma sem hækkunin tekur gildi.  Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lágmarkslaun í kjarasamningi skerði ekki rétt stefnanda til annarra greiðslna og réttinda sem kveðið er á um í kjarasamningi, enda eru þau réttindi lágmarksréttindi hans. 

Samantekt stefnanda á vangreiddum mánaðarlaunum er þannig:

 

Yfirvinnulaun

Stefnandi segist hafa unnið mikla yfirvinnu fyrir stefndu, en engin laun fengið greidd fyrir hana. Hann hafi ítrekað kvartað undan þessu en ekki fengið úrbætur.  Þegar stefnandi hafi kvartað undan því að fá ekki greidda yfirvinnu hafi meðal annars verið vísað til þess að í ráðningarsamningi væri kveðið á um að starfsmaður skyldi sinna sínu verksviði svo fullnægjandi væri að mati framkvæmdastjóra þó svo að í sumum tilvikum þyrfti að vinna utan venjulegs dagvinnutíma.  Ágreiningur um laun fyrir yfirvinnu hafi orðið til þess að samskipti á vinnustaðnum hafi orðið erfiðari, og hann hafi meðal annars orðið tilefni til þess að stefnandi hafi verið boðaður á svokallaðan verkfund í febrúar 2001.  Í skýrslu framkvæmdastjóra stefndu af fundi þessum komi fram að verkskráning stefnanda skuli vera að minnsta kosti 8 klst. á dag.  Í þessu segir stefnandi að felist viðurkenning á því að hin almenna regla hafi verið að stefnandi hafi unnið meira en sem dagvinnutíma nemur, auk þess sem litið sé fram hjá því að virkur vinnutími sé styttri en 8 klst. á dag og viðmiðunin því óraunhæf.  Með því að halda sig við þessi ákvæði sé stefnda í raun að segja að stefnandi hafi haft ómælda vinnuskyldu á þeim launum sem um hafi verið samið.  Það sé brot á kjarasamningi og lögum um réttindi verkafólks. 

Í nefndri skýrslu framkvæmdastjóra stefndu liggi fyrir sönnun fyrir því að ágreiningsatriði höfðu komið upp milli stefnanda og stefnda, meðal annars um yfirvinnugreiðslur, fyrir febrúar 2001, enda hafi efni fundarins af hálfu stefndu meðal annars verið að taka á þeim málum.  Jafnframt verði leidd vitni fyrir dómi sem geta staðfest að ágreiningur hafi áður verið kominn upp um laun fyrir yfirvinnu. 

Stefnandi kveðst eiga rétt á launum fyrir yfirvinnu eins og mælt sé fyrir um í gildandi kjarasamningi og að þau skuli reiknuð miðað við gildandi umsamin laun milli aðila á hverjum tíma.  Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lágmarkslaun í kjarasamningi skerði ekki rétt stefnanda til launa fyrir yfirvinnu, sem kveðið er á um í kjarasamningi, enda séu þau réttindi lágmarksréttindi hans. 

Stefnandi kveðst að nokkru leyti hafa haldið saman vinnutíma sínum á tímabilinu september 2000 til júní 2001.  Á þessu tímabili hafi hann alls unnið 148,5 klst. í yfirvinnu. Hver unnin klst. í yfirvinnu skuli greidd með 1,0385% af mánaðarlaunum.  Með vísan til þessa er samantekt stefnanda yfir vangreidd yfirvinnulaun þannig:

Orlof

Stefnandi kveðst eiga rétt á 10,17% orlofslaunum eins og mælt sé fyrir um í lögum og gildandi kjarasamningi, enda sé sérstaklega vísað til þess í ráðningarsamningi hans að um annað en umsamin mánaðarlaun fari eftir gildandi kjarasamningi.  Þau skuli reiknuð af heildarlaunum stefnanda á hverjum tíma.  Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lág­marks­laun í kjarasamningi skerði ekki rétt stefnanda til orlofslauna, sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningi, enda séu þau réttindi lágmarksréttindi hans. 

Í fyrrnefndri skýrslu framkvæmdastjóra stefndu liggi fyrir sönnun um að fyrir febrúar 2001 hafi ágreiningur komið upp milli stefnanda og stefndu, meðal annars um orlof, enda hafi fundinum í febrúar meðal annars verið ætlað að taka á þeim málum.  Auk þess verði leidd vitni fyrir dómi sem geti staðfest að ágreiningur hafi verið kominn upp um orlof áður en svokallaður verkfundur var haldinn í febrúar 2001. 

Fyrir orlofsárið maí 2000 til apríl 2001 beri að reikna 10,17% orlof af heildarlaunum, og það orlof hafi borið  að greiða út við upphaf orlofstöku, en þar sem stefnandi hafi ekki verið farinn í orlof þegar hann var látinn hætta vinnu hjá stefnanda, sé hér miðað við starfslok hans, sem voru hinn 30. júní 2001, enda hafi uppgjör átt að fara fram þá.  Auk þess hafi stefnanda átt að fá greitt orlof af launum frá og með maí 2001 til og með september 2001. 

Samantekt stefnanda yfir vangreitt orlof er þannig:

 

Orlofsuppbót

Stefnandi telur sig eiga rétt á þeirri orlofsuppbót sem mælt er fyrir um í kjarasamningi á hverjum tíma, enda sé sérstaklega vísað til þess í ráðningarsamningi hans að um annað en umsamin mánaðarlaun fari eftir gildandi kjarasamningi.  Fjárhæð orlofsuppbótar sé ákveðin í kjara­samn­ingi.  Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lágmarkslaun í kjara­samn­ingi skerði ekki rétt stefnanda til orlofsuppbótar, sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningi, enda séu þau réttindi lágmarksréttindi hans. 

Í títtnefndri skýrslu framkvæmdastjóra stefndu liggi fyrir sönnun um að fyrir febrúar 2001 hafi ágreiningur komið upp milli stefnanda og stefnda, meðal annars um orlofsuppbót, enda hafi fundinum í febrúar meðal annars verið ætlað að taka á þeim málum.  Auk þess verði leidd vitni fyrir dómi sem geti staðfest að ágreiningur hafi verið kominn upp um orlofsuppbót áður en svokallaður verkfundur var haldinn í febrúar 2001. 

Orlofsuppbót árið 2000 greiðist fyrir orlofsárið maí 1999 til apríl 2000 og skuli nema 9.400 krónum.  Gjalddagi sé í síðasta lagi hinn 15. ágúst 2000.  Orlofsuppbót árið 2001 greiðist fyrir orlofsárið maí 2000 til apríl 2001 og skuli nema 15.000 krónum.  Gjalddagi sé í síðasta lagi hinn 15. ágúst 2001.  Orlofsuppbót árið 2002 reiknist fyrir orlofsárið maí 2001 til september 2001.  Full orlofs­uppbót á þessu tímabili skuli vera 15.300 krónur, en þar sem stefnandi njóti aðeins réttinda hluta úr ári sé hér miðað við vikufjölda frá byrjun maí 2001 til loka september 2001.  Á þeim tíma séu vikurnar alls 22.  Heilt ár sé reiknað 45 vikur og því eigi stefnandi rétt á 22/45 af 15.300 krónum eða 7.480 krónum.  Vegna ólögmætrar uppsagnar sé gjalddagi við brottvikningu stefnanda eða hinn 30. júní 2001.

Stefnandi kveðst hafa verið margbúinn að ganga eftir því að fá greidda orlofsuppbót án þess að fá greiðslu.  Að greiða ekki orlofsuppbót sé brot á rétti stefnanda og vanefnd stefnda á hluta af launa­greiðslum. 

Samantekt stefnanda yfir vangreidda orlofsuppbót er þannig:

 

Desemberuppbót

Stefnandi segist eiga rétt á þeirri desemberuppbót sem mælt er fyrir um í kjarasamningi á hverjum tíma, enda sé sérstaklega vísað til þess í ráðningarsamningi hans að um annað en umsamin mánaðarlaun fari eftir gildandi kjarasamningi.  Fjárhæð desemberuppbótar sé ákveðin í kjara­samn­ingi.  Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lágmarkslaun í kjara­samningi skerði ekki rétt stefnanda til desemberuppbótar eða annarra greiðslna og réttinda sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningi, enda séu þau réttindi lágmarksréttindi hans. 

Enn vitnar stefnandi til títtnefndrar skýrslu framkvæmdastjóra stefndu. Þar liggi fyrir sönnun um að fyrir febrúar 2001 hafði ágreiningur komið upp milli stefn­anda og stefnda, meðal annars um desemberuppbót, enda hafi fundinum í febrúar meðal annars verið ætlað að taka á þeim málum.  Auk þess verði leidd vitni fyrir dómi sem geta staðfest að ágreiningur hafi verið kominn upp um desemberuppbót áður en svokallaður verkfundur var haldinn í febrúar 2001. 

Desemberuppbót árið 2000 nemi 28.200 krónum.  Gjalddagi hafi í síðasta lagi verið hinn 15. desember 2000.  Full desemberuppbót árið 2001 nemi 40.000 krónum.  Þar sem stefnandi njóti réttinda hluta úr ári sé hér miðað við vikufjölda frá byrjun janúar 2001 til loka september 2001.  Á þeim tíma séu vikurnar alls 40.  Heilt ár sé reiknað 45 vikur og því eigi stefnandi rétt á 40/45 af 40.000 krónum eða 35.556 krónum.  Vegna ólögmætrar uppsagnar sé gjalddagi við brottvikningu stefnanda eða hinn 30. júní 2001.

Stefnandi kveðst hafa verið margbúinn að ganga eftir því að fá greidda desemberuppbót án þess að fá greiðslu.  Að greiða ekki desemberuppbót sé brot á rétti stefnanda og vanefnd stefnda á hluta af launagreiðslum. 

Samantekt stefnanda yfir vangreidda desemberuppbót er þannig:

 

Viðskiptaskuldir

Stefnandi kveðst hafa farið á námskeið hjá Rafiðnaðarskólanum í umsjón og rekstri tölvukerfa í ágúst 2000 og verið þar við nám samhliða vinnu fram undir mánaðamót maí/júní 2001.  Á sama tíma og hann hafi verið í þessu námi hafi hann skilað fullri vinnu hjá stefndu og rúmlega það.  Námskeiðs­gjaldið hafi verið 568.000 krónur, og að frumkvæði forsvarsmanna stefndu hafi verið gert samkomulag um að hún greiddi það, enda hafi forsvarsmönnum hennar verið mjög í mun að stefnandi færi í þetta nám.  Stefnda hafi með þessu tekið á sig skuldbindingu sem ekki hafi verið sýnt fram á með hvaða hætti eigi að hafa breyst og þá ekki heldur sýnt fram á með hvaða rétti hún hefur krafið stefnanda um endurgreiðslu þessa námskeiðsgjalds.  Forsvarsmenn stefndu og stefnandi hafi rætt um að nám hans mundi nýtast í rekstri stefndu, enda hafi fljótlega komið í ljós að svo hafi verið.  Ekki hafi af hálfu stefndu verið krafist neinnar yfirlýsingar stefnanda um að hann skuldbindi sig til að vinna hjá stefnda í ákveðinn tíma eftir að námstíma hans lyki og ekki hafi verið gert neitt samkomulag um það.  Á meðan á námi stefnanda stóð hafi hann verið minntur á, þegar hann gekk eftir greiðslum fyrir yfirvinnu og fleiri samningsbundnar greiðslur, að stefnda hefði gert vel við hann með því að greiða námskeiðsgjaldið og hann ætti ekki að gera slíkar kröfur.  Nám stefnanda hafi strax farið að nýtast í starfsemi stefndu, til dæmis þannig að stefnda hafi getað samið við viðskiptamenn sína um uppsetningu og rekstur nýrrar tegundar af tölvukerfum, og einnig hafi verið gerður samningur um sölu og þjónustu á hugbúnaði frá Microsoft fyrirtækinu sem hefði ella ekki verið gerður.  Með menntun stefnanda og þeim prófum sem hann gat þess vegna tekið hafi stefnda uppfyllt þau skilyrði að tveir starfsmenn fyrirtækisins hefðu ákveðna þekkingu sem Microsoft fyrirtækið setti.  Með því að endurkrefja nám­skeiðs­gjaldið hafi stefnda einhliða ákveðið að fella niður fyrri ákvörðun sína, sem hafi verið tekin að frumkvæði hennar sjálfrar.  Ekki hafi af hálfu stefndu verið léð máls á því að aðilar semdu um hvort og þá að hve miklu leyti gjaldið ætti að skiptast á milli þeirra.  Við starfslok hafi stefnanda verið afhentur reikningur og þess krafist að hann kvittaði á hann um móttöku.  Á reikning þennan sé skráð: „v. útlagt f. Sigurð Bjarnason Námskeið hjá Rafiðnaðarskólanum“.  Með kvittun sinni á reikningseyðublað þetta felist ekki viðurkenning stefnanda fyrir því að skulda stefnda 568.000 krónur, heldur feli áritun stefnanda aðeins í sér staðfestingu á því að stefnda greiddi námskeiðsgjaldið.  Þegar kvittun stefnanda hafi verið fengin hafi heldur ekki orðið nein umræða um að hann væri með kvittun sinni að viðurkenna að skulda stefnda umrædda fjárhæð.  Því er þess vegna mótmælt að á fram lögðu reiknings­yfirliti hafi stefnda fært 568.000 krónur stefnanda til skuldar.

Stefnandi segir að meðan hann vann hjá stefnda hafi hann fengið til afnota GSM síma.  Fyrsti síminn hafi gengið úr sér og eyðilagst,  eins og títt sé um slíka síma.  Þá hafi staðið til að kaupa annan eins.  Stefnandi hafi mælst til þess að keyptur yrði annar og betri sími, dýrari.  Af hálfu forsvarsmanna stefndu hafi það verið samþykkt með þeim skilmálum að stefnandi greiddi sem svaraði þriðjung kaupverðsins og stefnandi hafi samþykkt það.  Þessi sími, sem þannig hafi verið í sameign stefnanda og stefnda, hafi verið orðinn rúmlega eins árs gamall þegar stefnanda hafi verið vikið út af vinnustaðnum og verið þegar byrjaður að bila, enda mikið notaður.  Af hálfu stefndu hafi því aldrei verið hreyft að uppgjör færi fram um verðmæti þessa síma, heldur hafi stefndi skuldfært stefnanda einhliða fyrir öllum þeim hluta kaupverðsins, sem stefnda hafði á sínum tíma greitt.  Með því móti virðist stefnda halda því fram að hans eignarhlutur í símanum hafi haldið verðgildi sínu, þrátt fyrir að alkunna sé að GSM símar gangi úr sér og eyðileggjast á einu til tveimur árum ef þeir eru mikið notaðir eins og sá sími sem hér um ræðir.  Að halda því fram að verðgildi hans hafi haldist óbreytt sé rangt og ósannað, en á fram lögðu reikningsyfirliti séu 28.671 krónur færðar stefnanda til skuldar.

Með fram lögðum greiðsluseðli krefji stefndi stefnanda um 131.023,01 krónur, sem eigi væntanlega að vera lokauppgjör á meintri skuld stefnanda við stefnda, skv. útreikningum stefnda.  Þó sé aug­ljóst að stefnda hafi blandað saman meintum viðskiptaskuldum stefnanda og eiginkonu stefn­anda, þegar niðurstöðutalan er borin saman við fyrrnefnt reikningsyfirlit, en þar komi fram færsla 23.9.2001 sem segi að meint skuld eiginkonu stefnanda hafi verið skuldfærð hjá stefn­anda.  Með þessu móti sé stefnda að blanda saman viðskiptareikningum tveggja viðskiptamanna sinna sem sé í andstöðu við viðurkenndar bókhalds- og reikningsskilareglur, enda liggi ekkert samkomulag fyrir um það.

Um lagarök segir stefnandi þetta: Hann hafi verið félagi í Verslunarmannafélagi Akraness þegar krafa hans stofnaðist.  Hann vísar til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttarins um efndir fjárskuldbindinga og að gerða samninga skuli halda, sérstaklega um skyldu vinnuveitanda til að greiða umsamin laun og aðrar greiðslur, skv. gildandi lögum og kjarasamningi.  Jafnframt er vísað til reglna um rétt stefnanda til launa á uppsagnarfresti, til orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. 

Byggt er á því að stefnda hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og laun á uppsagnarfresti né uppfylla aðrar samningsskyldur sínar um greiðslur lögbundinna og kjarasamningsbundinna greiðslna og með því að skuldajafna meintum viðskiptaskuldum á móti launum. 

Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefndu ótvíræð.  Um sönnun er jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann er bókhalds­skyldur að lögum. 

Vísað er til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, laga nr. 28/1930 um greiðslu verk­kaups, laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr., laga nr. 88/1971 um 40 stunda vinnu­viku, laga nr. 145/1994 um bókhald og laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfests o.fl.  Þá er vísað til kjarasamnings Verslunarmannafélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins. 

Um dráttarvexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987, aðallega III. kafla.  Um varnarþing vísast til 1. mgr. 38. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.  Um málskostnað vísast til XXI. kafla einka­mála­laga nr. 91/1991, aðallega 1. mgr. 130. gr.  Varðandi virðisaukaskatt af málskostnaði vísar stefn­andi til laga nr. 50/1988 og þess að hann er ekki með virðisaukaskattsskylda starfsemi og sé því nauðsyn að fá stefndu dæmda til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði til þess að vera skaðlaus af innheimtukostnaði.

Í greinargerð stefnda er undir fyrirsögninni Málsástæður og önnur atvik

er fyrst almennur inngangur um ráðningarkjör stefnanda, en síðan taka við kaflar sem heita Önnur laun og fríðindi, Uppsagnarákvæði og uppgjör orlofs, Dagvinnulaun, Yfirvinnulaun, Orlof, Orlofsuppbót/desemberuppbót og Viðskiptaskuldir.

Stefnda segir að stefnandi hafi hafið störf hjá sér 1. október 1998, Framkvæmdastjóri stefnda, sem þá hafi verið góður vinur stefnanda, hafi vitað um brennandi áhuga hans á að starfa við tölvur og boðið honum starfið.

Byrjunarlaun stefnanda hafi verið kr. 150.000, fyrir utan yfirvinnu, en hafi hækkað hækkað þann 1.janúar 1999 í kr. 170.000 fyrir utan yfirvinnu. Þann 1. september 1999 hafi verið gerður munnlegur ráðningarsamningur og föst laun stefnanda með honum hækkuð úr kr. 170.000 í 210.000. Skv. þeim samningi hafi yfirvinna, orlofs- og desemberuppbót verið hluti af föstum mánaðarlaunum hans. Þessi samningur hafi síðan verið staðfestur skriflega þann 1. apríl 2000 og laun stefnanda þá jafnframt hækkuð úr kr. 210.000 í kr. 230.000.  Eftirfarandi tafla (tafla 1) segir stefnda að sýni launahækkanir stefnanda á því tímabili sem hann starfaði hjá henni:

 

Dagsetning

Laun

% hækkun

1. október 1998

150.000,00

 

1. janúar 1999

170.000,00

13,3%

1. september 1999

210.000,00

23,5%*

1. mars 2000

230.000,00

9,5%

1. desember 2000

245.000,00

6,5%

 

Samtals:

52.8%

 

                   *Yfirvinna færð inn í föst laun

 

Stefnda vísar til málavaxtalýsingar stefnanda þar sem segir m.a: “Um orlofsgreiðslur og aðrar greiðslur skyldi fara eftir gildandi kjarasamningi....” Þetta segir stefnda að sé ekki alls kostar rétt, heldur standi orðrétt í umræddum ráðningarsamningi: “Um orlofsgreiðslur og aðrar skyldur.....” Á þessu sé talsverður munur,  þar sem stefnanda hafi verið vel kunnugt um að aðrar greiðslur en hin föstu mánaðarlaun skv. ráðningarsamningi hafi  ekki verið að ræða.

Vegna yfirlýsingar stefnanda um að hann hafi gert ítrekaðar munnlegar athugasemdir vegna þess að hann hafi ekki fengið greidda yfirvinnu,  desemberuppbót, orlofsuppbót og fleiri samningsbundnar greiðslur tekur stefnda fram, að stefnandi hafi aldrei farið fram á að fá ofangreint greitt enda hafi hann vel vitað að þessar greiðslur hafi verið hluti af hans föstu mánaðarlaunum.

Allir starfsmenn stefndu að stefnanda meðtöldum hafi skrifað undir sams konar ráðningarsamning og enginn þeirra hafi túlkað samninginn á þann hátt sem stefnandi reyni nú. Þessi túlkun stefnanda á ráðningarsamningi hans hafi komið til eftir að stefnandi hætti störfum hjá stefnda.

Máli sínu til frekari sönnunar vísar stefnda til fram lagðra launaseðla stefnanda þar sem sjáist að hann hafi fengið greidda yfirvinnu fram að þeim tíma sem munnlegur ráðningarsamningur var gerður. Eftir þann tíma hafi yfirvinna verið hluti af hans mánaðarlaunum.

Stefnda segir að jólagjafir fyrirtækisins eigi ekki heima í þessari umræðu. Það hafi alltaf verið stefna stefndu að sýna þakklæti til starfsmanna sinna með góðri gjöf um hátíðirnar, en að sjálfsögðu sé það ekki og hafi aldrei verið hluti að starfskjörum þeirra.

Þá segir stefnda að óánægja stefnanda virðist hafa byrjað í október/nóvember 2000 og stigmagnast fram að þeim tíma að hann sagði starfi sínu lausu. Við starfslok stefnanda hafi stjórnendur stefndu ákveðið að stefnandi viki strax frá störfum en fengi greiddan sinn uppsagnarfrest og orlof lögum samkvæmt. Þá hafi ágreiningur milli stefnanda og forsvarsmanna stefndu verið orðinn svo mikill að útilokað hafi verið að stefnandi ynni út uppsagnarfrestinn.

Stefnda segir að þau ummæli stefnanda að hann hafi ekki fengið greidd laun fyrir líðandi mánuð, þ.e. júní 2001, heldur hafi þau verið tekin upp í viðskiptaskuldir, séu röng. Fram komi á launaseðli stefnanda fyrir umrætt tímabil að eftirstöðvar launa hans að frádregnum opinberum gjöldum, lífeyrissjóðs- og stéttarfélagsgreiðslum hafi verið teknar upp í fyrirfram greidd laun en ekki viðskiptaskuldir. Hið rétta sé að eftirstöðvar launa stefnanda (að frádregnum opinberum gjöldum, lífeyrissjóðs- og stéttarfélagsgreiðslum) á uppsagnarfresti og orlofsgreiðsla fyrir árið 2000/2001 hafi verið færðar til lækkunar á viðskiptaskuldum stefnanda.  Eftirfarandi tafla (tafla 2) sýni þetta:

 

Mánuður

Heildarlaun

Skattar

Félagsgjöld

Meðlag

Eftirstöðvar

Júlí

245.000

65.919

12.250

27.790

138.341

Ágúst

245.000

65.919

57.900

27.790

93.341

September

245.000

65.919

12.250

34.738

131.672

Október *

347.084

103.904

17.354

34.738

190.667

 

* Orlofsuppgjör

 

Samkvæmt töflu 2 hafi eftirstöðvar launa stefnanda verið færðar til lækkunar á viðskiptareikningi hans. Stefnandi haldi því nú fram að óheimilt sé að blanda saman launum og viðskiptaskuldum. Engu að síður hafi þessi háttur verið hafður á að ósk stefnanda sjálfs meðan hann vann hjá stefndu. Því til sönnunar sé fram lagt yfirlit yfir viðskiptareikning stefnanda, þar sem greinilega komi fram að laun hans hafi verið færð til lækkunar á viðskiptaskuld hans til langs tíma með fullu samþykki og að ósk hans. Þessi aðgerð stefndu, að færa eftirstöðvar launa til lækkunar viðskiptaskuldar hans, hafi því verið beint framhald af þeim hætti sem hafður hafi verið á til langs tíma. Auðvitað hefði stefnandi getað gert upp viðskiptaskuld sína með öðrum fullnægandi hætti og þannig fengið eftirstöðvar launa sinna greiddar út, en hafi enga viðleitni sýnt í þá veru.

Þá segir stefnda að röng sé sú fullyrðing stefnanda að laun eiginkonu hans hafi verið tekin upp í viðskiptaskuldir hans. Hið rétta sé að laun eiginkonu hafi verið tekin upp í fyrirfram greidd laun hans. Þetta hafi verið gert að beiðni og með samþykki þeirra beggja. Þetta komi fram á yfirliti stefndu um fyrirframgreidd laun stefnanda árin 2000 og 2001.

Stefnda segir að ekki sé hægt að áfellast hana fyrir þennan uppgjörsmáta. Stefnandi hafi lagt inn uppsögn á starfssamningi, fengið greiddan uppsagnarfrest og uppsafnað orlof lögum samkvæmt, en staða hans varðandi fyrirframgreidd laun og viðskiptaúttektir hafi verið honum afar óhagstæð og í raun svo slæm að þrátt fyrir þriggja mánaða uppsagnarfrest og uppsafnað orlof nægi það ekki til að stefnandi sé skuldlaus við stefndu.

Stefnda neitar alfarið ásökunum um að hafa brotið nokkurn rétt á stefnanda. Uppgjör launa hafi verið í samræmi við þá aðferð sem stefnandi hafi haft á um launafyrirkomulag sitt og viðskiptaskuldir. Launagreiðslur á uppsagnarfresti og orlofsuppgjör sé einnig í samræmi við lög og reglur. Vísar stefnda í þessu tilliti í töflu 2 þar sem fram kemur uppgjör við stefnanda.

Önnur laun og fríðindi

Stefnda segir að í desember árið 2000 hafi stefnandi fengið 50.000 króna launauppbót sem hann hafi óskað eftir að væri ráðstafað á eftirfarandi hátt:

Kr. 20.000 greiddar fyrir stefnanda í formi gangnagjalda um Hvalfjarðagöng.

Kr. 30.000 greiddar inn á viðskiptareikning stefnanda þann 31.janúar 2001.

Stefnandi hafi stundað skóla veturinn 2000/2001 tvisvar í viku og þurft af þeim sökum að fara úr vinnu 1 ½ klst. fyrir lok vinnutíma, þ.e. kl. 16.30. Samtals geri þetta 3 klst. á viku veturinn 2000/2001. Þessir tímar hafi ekki verið dregnir af launum stefnanda.

Uppsagnarákvæði og uppgjör orlofs

Stefnda segir að stefnandi hafi sagt upp starfi sínu hjá stefndu frá og með 1. júlí 2001. Uppsagnarfrestur hans hafi verið þrír mánuðir, þ.e. júlí, ágúst og september. Hann hafi átt inni orlof fyrir árið 2000/2001 auk fimm mánaða aukalega, og hafi orlofið verið gert upp með útborgun í október 2001.

Dagvinnulaun

Stefnda segir að ráðningarsamningur sá sem hún gerði við stefnanda og fyrr er lýst, hafi tryggt honum miklu hærri laun en hann hefði fengið skv. kjarasamningi. Kröfu hans um að fá greiddar launahækkanir skv. kjarasamningi Verslunarmannafélags Akraness sé því vísað á bug. Stefnandi hafi aldrei farið fram á að fá þessar launahækkanir á meðan hann gegndi starfi hjá stefndu, og tómlæti hans sé ekki hægt á skilja á annan veg en að túlkun hans á ráðningarsamningnum hafi verið í takt við túlkun stefndu og annarra starfsmanna.

Þá taki stefnandi ekkert tillit til þess í málatilbúnaði sínum að hann hafi fengið 1. desember 2000 launahækkun sem numið hafi  6,5%. Sjá töflu 1.

Stefnanda telji samkvæmt samantekt hans að vangreidd séu laun fyrir júní, júlí, ágúst og september. Varðandi júnímánuð vísar stefnda í fram lagðan launaseðil þar sem fram komi að stefnandi hafi fengið laun eins og venjulega, en hafi þurft að gera skil á áður fyrirfram greiddum launum. Varðandi laun fyrir júlí, ágúst og september vísar stefnda í töflu 2 hér að framan og fram lagðra launaseðla, þar sem glögglega komi fram að stefnanda hafi verið greidd laun á uppsagnartíma sínum og af honum skilað öllum opinberum gjöldum ásamt félagsgjöldum. Öllum kröfum stefnanda um vangreidd dagvinnulaun sé því vísað á bug, þar sem fullnaðaruppgjöri við stefnanda hafi þegar verið lokið og stefnandi hafi sjálfur þessa launaseðla undir höndum.

Yfirvinnulaun

Stefnda ítrekar að yfirvinna hafi verið hluti af föstum mánaðarlegum launum stefnanda skv. ráðningarsamningi, sem hafi verið mun hærri en laun skv. kjarasamningi, eins og áður hefur komið fram. Fullyrðingum stefnanda um að hann hafi unnið mikla yfirvinnu vísar stefnda á bug, enda styðji hana engin rök.  Stefnanda hafi verið gert að vinna tvo laugardaga í mánuði 4 tíma í senn og ekkert annað nema brýna nauðsyn bæri til.

Ef skoðuð er samantekt stefnanda yfir yfirvinnu sem hann telji sig hafa unnið á tímabilinu september 2000 til og með júní 2001, komi í ljós að unnin yfirvinna sé að meðaltali 14,8 klst. á mánuði. Þar af séu 8 klst. fyrir vinnu tvo laugardaga í viku. Eftir standi 6,8 klst. á mánuði sem stefnandi telji vera mikla yfirvinnu. Þá láti stefnandi hjá líða að minnast á að engin yfirvinna hafi verið unnin yfir sumartímann, þ.e. júní, júlí og ágúst og að fyrirtækið hafi verið lokað á laugardögum á því tímabili.

Það veki undrun forsvarmanna stefndu að stefnandi hafi ekki gert athugasemdir fyrr,  telji hann sig hafa verið hlunnfarinn vegna yfirvinnu, sérstaklega í ljósi þess að samningur um að fella yfirvinnu inn í mánaðarlaun hafi verið gerður 1. september 1999. Þá vakni einnig sú spurning af hverju stefnandi hafi ekki haldið yfirlit yfir unna yfirvinnu sína allt frá þeim tíma sem samningurinn var gerður. Allt sýni þetta ótrúverðugleika í málflutningi stefnanda.

Fullyrðing stefnanda um að hann hafi ítrekað leitað eftir greiðslu á yfirvinnu sé röng. Hann hafi aldrei farið fram á slíkt, hvorki munnlega né skriflega og kröfur hans um yfirvinnugreiðslur birtist fyrst í gegnum lögfræðing hans eftir að hann lét af störfum.

Ágreiningur milli stefnanda og stefndu hafi fyrst og fremst lýst sér í því að hann hafi greinilega verið orðinn óánægður í starfi sínu hjá stefndu, og þá sérstaklega síðustu mánuði sem hann vann. Eðlilegar kröfur forsvarsmanna stefndu um agaðri vinnubrögð, betri skil við verkskráningar og aðra þætti verksviðs stefnanda hafi greinilega valdið honum óánægju og óþægindum.

Verkfundur hafi verið haldinn þann 28. febrúar 2001 til að skerpa enn frekar á verkskráningum og vinnuferlum innan fyrirtækisins sem ekki hafi verið í nægjanlega góðu lagi. Ítrekað hafi verið farið fram á það við stefnanda að skrá samviskusamlega  verk sín hvort sem um hafi verið að ræða eigin verk eða útseld verk. Mikill misbrestur hafði verið á þessu. Ummæli stefnanda á þann veg að umræddur verkfundur hafi komið til m.a. vegna ágreinings um yfirvinnu séu röng.  Fundurinn hafi ekki snúist um neitt annað en fram kemur í fram lagðri fundargerð hans, sem sýni að farið hafi verið yfir breytingar á verkskipulagi, vörutalningum og fleiru.

Ummæli stefnanda um það að verkskráning skyldi vera að lágmarki 8 klst. á dag feli í sér viðurkenningu á því að almennt hafi stefnandi unnið meira en 8 klst. á dag sé fjarri sanni. Ástæður þess að á umræddum verkfundi sé sérstaklega tekið á því að verkskráning skyldi nema a.m.k. 8 klst. á dag hafi verið þær að verkskráning stefnanda hafi sjaldnast náð þeim tímafjölda. Það sé ekki óeðlilegt í starfsemi eins og tölvuþjónustu, þar sem lágmarksútkall nemi 1 klst., að hægt sé að að bóka meira en 8 klst. á dag í útselda vinnu þó að viðverutími starfsmanns sé skemmri. Stefndu þykir rétt er að taka fram að stefnanda hafi borið að skrá það sem upp á vantaði á daginn í eigin verk, ef hann var ekki í útseldri vinnu. Eigin verk séu verk sem stefnda sé verkkaupi að og undir það falli t.d. tiltektir, vörutalningar o. fl. Þessi fyrirmæli af verkfundinum hafi því ekkert með yfirvinnu að gera. Þessu til sönnunar hefur stefnda lagt fram skjal sem ber yfirskriftina ,,Samantekin verkskráning Sigurðar Bjarnasonar”. Þar komi fram að frá og með apríl 2000 til og með febrúar 2001 hafi  verkskráningin numið að meðaltali 6,29 klst. á dag. Á tímabili eftir að verkfundurinn var haldinn, þ.e. mars 2001 til og með júní 2001, hafi  þetta hlutfall breyst í 7,88 klst. á dag.

Samkvæmt  fyrirmælum af verkfundi hafi stefnanda borið undantekningarlaust að bóka alla vinnu sem unnin var. Séu bókanir hans fyrir síðustu tvo mánuðina sem hann var við vinnu, þ.e. maí-júní 2001, skoðaðar og bornar saman við samantekt stefnanda yfir yfirvinnu sjáist að stefnandi hafi komið til vinnu 19 daga í maí og 21 dag í júní. Samtals geri þetta 320 klst. í dagvinnu. Af tímaskráningarbókhaldi komi í ljós að stefnandi hafi bókað 305 klst. á þessu tímabili eða 7,62 tíma á dag. Þrátt fyrir þessar staðreyndir haldi stefnandi því fram að hann hafi á umræddu tímabili unnið 62 klst. í yfirvinnu. Hafi svo verið hefði það átt að koma skýrt fram í verkbókhaldi fyrirtækisins. Svo sé ekki.

Stefnda segir að óskiljanleg séu rök stefnanda um, að með umræddum verkfundi 28. febrúar 2001 sannist að ágreiningur hafi verið milli aðila máls um yfirvinnulaun og að efni fundarins hafi að einhverju leyti átt að fjalla um það málefni. Um slíkt hafi ekki verið fjallað á fundinum.

Orlof

Stefnda segir það rétt hjá stefnanda að hann eigi rétt á 10.17% orlofi, enda sé sérstaklega vísað til þess í ráðningarsamningi að orlofsgreiðslur taki mið af gildandi kjarasamningi. Hún vísar til töflu 2 hér að framan og launaseðils fyrir október 2001, sem sýni að gert hafi verið upp orlof stefnanda fyrir 17 mánuði samkvæmt lögum og gildandi kjarasamningi. Á títtnefndum verkfundi 28. febrúar 2001 hafi ekki verið fjallað um orlof, hvað þá að ágreiningur væri um það. Öllum kröfum stefnanda um vangreitt orlof sé því vísað á bug.

Orlofsuppbót/desemberuppbót

Stefnda vísar til ráðningarsamnings stefnanda þar sem skýrt komi fram í 7. gr. að hann sé að föstum launum. Hún áréttar að hann hafi aldrei leitað eftir greiðslu á orlofsuppbót eða desemberuppbót eftir að ráðningarsamningur hafi verið gerður við hann 1. september 1999. Kröfur hans um orlofsuppbót og desemberuppbót hafi  fyrst birst fyrir milligöngu lögfræðings hans eftir að hann lét af störfum. Hvorki hafi verið minnst á orlofsuppbót né desemberuppbót á verkfundinum 28. febrúar 2001.

Viðskiptaskuldir

Stefnda segir að sumarið 2000 hafi stefnandi á eigin spýtur ákveðið að fara í skóla til eins árs til að leggja stund á nám sem beri nafnið “Umsjón og rekstur tölvukerfa”. Það hafi verið haldið af Rafiðnaðarskólanum í Reykjavík. Nám þetta hafi staðið eitt skólaár frá ágúst 2000 til júní 2001. Rangar séu fullyrðingar stefnanda um að hann hafi skilað fullri vinnu samhliða námi sínu. Stefnanda hafi hins vegar strax verið boðið að laun hans skertust ekki þótt að hann sækti þennan skóla. Námstíminn hafi verið þrjár klst. á viku eða nálægt 11 dögum þann tíma sem skólinn stóð yfir. Færa megi rök að því að tekjutap stefndu af þessum sökum hafi numið kr. 613.000 með virðisaukaskatti.

Stefnda segir að skömmu eftir að stefnandi hóf skólavist hafi hún boðið honum að greiða fyrir hann skólagjöldin fyrir námsárið 2000/2001 gegn samkomulagi um að stefnandi gegndi starfi hjá henni eftir að námi hans lyki, þannig að nám hans kæmi fyrirtækinu til góða. Þetta hafi stefnandi samþykkt fúslega og hafi bæði fyrir þennan tíma og eftir að samkomulagið var gert ítrekað lýst því yfir að hann liti á starf sitt hjá stefndu sem framtíðarstarf. Aðeins tæpum mánuði eftir að námi hans lauk hafi hann sagt starfi sínu lausu og brotið þannig umrætt samkomulag.

Á fundi með forsvarsmönnum stefndu, Alexander Eiríkssyni og Eiríki Þór Eiríkssyni, 2. júlí 2001, þar sem rædd hafi verið starfslok stefnanda, hafi hann viðurkennt að hafa brotið umrætt samkomulag og kvittað fúslega upp á reikning þess efnis, sbr. fram lagt skjal, þar sem upphæð skólagjalda sé færð á viðskiptareikning hans. Jafnframt  hafi hann innt stefndu eftir því hvort mögulegt væri að dreifa greiðslum á þessum reikningi. Við þeirri beiðni hafi stefnda fúslega orðið.

Sú skýring stefnanda að uppáskrift hans á reikninginn sé aðeins staðfesting þess að stefnda hafi greitt skólagjaldið sé ótrúleg. Reikningurinn sé stílaður á stefnanda og upphæðin 568.000. Fyrir því kvitti stefnandi.

Fullyrðingar stefnanda um nám sitt og hvernig það hafi orðið til þess að samningar hafi náðst um uppsetningar á nýjum tegundum af tölvukerfum segir stefnda að séu úr lausu lofti gripnar, enda hafi engin rök verið færð fyrir þessari fullyrðingu. Engir samningar sem stefnda hefur gert undanfarin ár hafi komið til vegna náms stefnanda.

Stefnda segir það rétt að með því að tveir tæknimenn fyrirtækis í tölvugeiranum hafi svokallaðar MCP gráður geti  fyrirtækið sótt um Microsoft Certified Partner gráðu. Helsti kostur þess að hafa þessa þá gráðu sé að þá fái fyrirtækið sent mánaðarlega geisladiskasett frá Microsoft til eigin nota. Fullyrðing stefnanda um að samningur um sölu og þjónustu á Microsoft búnaði hafi ekki verið gerður nema með tilkomu náms hans sé mikil mistúlkun af hans hálfu. Microsoft Certified Partner gráða sé alls ekki samningur um sölu né þjónustu á Microsoft hugbúnaði, aðeins viðurkenning á því að innan fyrirtækisins sé tæknifólk sem hefur tekið próf í Microsoft fræðum. Stefnda hafi í 10 ár þjónustað og selt Microsoft hugbúnað, þar af 7 ½  ár án þess að vera með Microsoft Certified Partner gráðu. Þessi gráða sé alls ekki skilyrði þess að geta selt og þjónustað Microsoft hugbúnað. Stefnda hafi verið komin með MCP Partner áður en stefnandi hóf nám í “Umsjón og rekstri tölvukerfa “ haustið 2000, en þar er stefnda verið boðin velkomin sem Microsoft Certified Partner réttum tveimur mánuðum áður en stefnandi hóf nám sitt. 

Stefnda segir að stefnandi hafi engin skil gert á námi sínu til forsvarsmanna stefndu. Engin námsgögn liggi hjá fyrirtækinu, engar niðurstöður úr prófum eða annar árangur. Allt bendi þetta eindregið í þá átt að stefnandi hafi verið í þessu námi í eigin þágu. Samkvæmt námslýsingu hafi stefnandi átt að ljúka MCSE gráðu sem samanstandi af sjö prófum. Forsvarsmönnum stefndu sé ekki kunnugt um að stefnandi hafi lokið þessari gráðu, en það muni hann geta upplýst.

 

Stefnda segir GSM-símann vera í umsjá stefnanda, en hún hafi greitt 1/3 af kaupverði hans. Við starfslok hafi hann ekki boðist til þess að greiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum þessa greiðslu til baka né vakið máls á því á neinn hátt. Þar sem síminn hafi verið í umsjá stefnanda hefði verið eðlilegt að hann hefði boðist til að greiða þennan hluta til baka.  Varðandi verðgildi símans geti stefnda vel fallist á að eðlilegar afskriftir eigi sér stað við uppgjör þessarar skuldar.

Þá vitnar stefnda til  lokamálsgreinar í stefnu þar sem stefnandi gerir athugasemdir við færslu á viðskiptaskuld eiginkonu sinnar upp á kr. 7.470 af hennar viðskiptareikningi yfir á viðskiptareikning hans. Stefnandi bendi á að slíkt sé í andstöðu við almennar bókhaldsreglur. Vel sé hægt að fallast á rök stefnanda varðandi þetta og ekkert sé því til fyrirstöðu að færa skuldina til baka yfir á viðskiptareikning eiginkonu hans.

 

Stefnda mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega. Hann krefst dráttarvaxta af höfuðstól kröfu sinnar frá 30. júní 2001. Hluti krafna stefnanda stafi frá síðara tímabili og þegar af þeirri ástæðu fái dráttarvaxtakrafan ekki staðist.

Tilvísun til helstu lagaákvæða

Vísað er til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttar, þ.á m. um loforð og efndir fjárskuldbindinga, tómlæti og skuldajöfnuð. Þá er byggt á almennum reglum um sönnun. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Skýrslur fyrir dómi gáfu stefnandi, framkvæmdastjóri og gjaldkeri stefndu, Jón Ingi Þórðarson starfsmaður stefndu og tveir fyrrverandi starfsmenn hennar, Dagbjartur Vilhjálmsson og Hafþór Pálsson. Verður gerð grein fyrir því úr skýrslum þessum, sem máli kann að skipta í kaflanum um niðurstöður hér næst á eftir.

   Niðurstöður

   Um meint tómlæti stefnanda. Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði kvartað við framkvæmdastjóra stefndu út af launakjörum sínum fljótlega eftir að breyting var á þeim gerð 1. september 1999. Þessar kvartanir hefðu m.a. annars verið vegna þess að hann hefði ekki fengið greidda yfirvinnu.

   Framkvæmdastjóri stefndu kannaðist í skýrslu sinni við að óánægja stefnanda hefði komið upp, að því að hann hélt fyrst haustið 2000, en fyrirsvarsmenn stefndu hefðu ekki vitað af hverju hún stafaði. Það hefði fyrst verið vorið 2001 að hann hefði fengið að vita að stefnandi væri óánægður með launakjör sín. Framkvæmdastjórinn  var spurður við hverja stefnandi hefði kvartað. Hann kvaðst ekki vita það, nema hvað hann hefði greint fyrirsvarsmönnum stefndu frá óánægju með launakjör vorið 2001, þegar þeir hefðu gengið á hann.  En það hefði ekki farið milli mála að stefnanda hefði liðið illa í starfi.

   Einar Jónsson, sem er bókhaldari hjá stefndu og sér um launauppgjör og er prókúruhafi, kannaðist ekki við að stefnandi hefði látið í ljós óánægju með launagreiðslur. Hann hefði ekki rætt um það við sig.

   Jón Ingi Þórðarson, starfsmaður stefndu, kannaðist við að hafa heyrt stefnanda ræða um að hann væri óánægður með launakjör sín. Hann kvaðst ekki muna gjörla hvenær þetta var, það hefði getað verið haustið 2000. Við sig hefði hann aðallega rætt um yfirvinnutíma, sem vitnið kvaðst einnig hafa verið óánægður með. Þeir stefnandi hefði rætt þetta við Alexander framkvæmdastjóra, sem hefði boðið þeim bónus, sem þeir hefðu þegið. Þá hefði verið mikið að gera um tíma. Bónusinn mundi hafa numið 50.000 krónum.

Dagbjartur Vilhjálmsson er fyrrverandi starfsmaður stefndu. Hann kannaðist við að stefnandi hefði rætt um óánægju með launakjör sín. Hann hefði fyrst orðið var við þetta hálfu til einu ári eftir að stefnandi byrjaði hjá stefndu, eða seint á árinu 1999. Sjálfur hefði hann hafið störf hjá stefndu 1994 eða 95 og sagt upp störfum í febrúar 2000. Vitnið sagði að stefnandi hefði látið óánægju sína í ljós við sig og hann vissi til þess að hann hefði kvartað við Alexander og Eirík Þór. Hann kvaðst þó ekki vera viss um að hann hefði verið vitni að því, en stefnandi hefði talað um þetta við sig. Hann og stefnandi hefðu átt samleið í kvörtunum. Hann hefði sjálfur verið óánægður með launakjör sín, einkum að yfirvinna var ekki greidd og of lág laun að sínu mati. Að hluta til hefði þetta verið ástæða þess að hann sagði upp störfum. Hann sagði að þeir stefnandi hefðu kvartað sameiginlega munnlega við Alexander og Eirík Þór. Hann kvaðst hafa heyrt stefnanda kvarta yfir því að hann ætti inn desemberuppbót og orlofsuppbót, alveg eins og hann hefði sjálfur talið.

Hafþór Pálsson starfaði hjá stefndu frá 15. janúar til 15. apríl 2001. Hann kannaðist við að hafa heyrt stefnanda tala ítrekað um óánægju sína með launakjör sín. Að mestu leyti hefði hann talað um þetta við Jón Inga Þórðarson. Hann hefði ekki heyrt hann kvarta við stjórnendur fyrirtækisins, en hann hefði vitað af því sem stefnandi hefði sagt honum, að hann hefði rætt þetta við þá. Vitnið Hafþór sagði að hann hefði starfað á verkstæði stefndu, og það hefði ekki farið fram hjá honum þegar einhverjir voru kallaðir til fundar við stjórnendur stefndu. Eftir svona fundi hefði alltaf myndast einhver umræða á verkstæðinu. Vitnið kannaðist við að stefnandi og Jón Ingi hefðu látið í ljós óánægju sína með því að hætta vinnu fyrr en ætlast hefði verið til. Þeir hefðu hætt að vinna kl. 18, hvernig sem staða á verkefnum þeirra hefði verið. Þetta hefðu þeir rætt um stefnandi og Jón Ingi inni á verkstæðinu þegar hann, vitnið, hefði verið þar. Þetta hefði verið um miðbik eða á síðari hluta starfstíma vitnisins hjá stefndu.

Stefnandi sagði upp störfum hjá stefndu frá mánaðamótum júní/júlí 2001 og var látinn hætta störfum 2. júlí. Hinn 18. júlí 2001 skrifar stéttarfélag stefnanda, Verslunarmannafélag Akraness, f.h. stefnanda stefndu bréf þar sem hún er krafin um vangreiddar launahækkanir skv. kjarasamningi um orlof, orlofsuppbót og desember uppbót. Í kjölfar þessa fara innheimtubréf lögmanns stefnanda 28. og 30. ágúst 2001, svarbréf lögmanns stefndu 13. september s.á. Mál þetta var sem fyrr segir höfðað 9. janúar 2002.

Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á að kröfur stefnanda séu niður fallnar fyrir tómlæti.

 

Um ráðningarsamning. Stefnandi kveðst hafa hafið störf hjá stefndu í september 1998, en stefnda telur að það hafi verið 1. október það ár. Við stefnanda var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur eða ráðning hans staðfest skriflega, sem þó var skylt að gera skv. samkomulagi Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands frá 10. apríl 1996, sbr. auglýsingu nr. 503/1997, sbr. tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533 frá 14. október 1991. Lagðir hafa verið fram launaseðlar stefnanda fyrir mánuðina október 1998 til júlí 1999. Af þeim má sjá að stefnandi hefur á þessum tíma fengið greidda yfirvinnu, og með uppgjöri fyrir nóvember 1998 hefur hann fengið greidda hálfa desemberuppbót. Í ljós er leitt að 1. september 1999 voru gerðar breytingar á ráðningarkjörum stefnanda. Fast kaup var hækkað og hann fékk ekki lengur greitt fyrir yfirvinnu, ekki desemberuppbót eða orlofsuppbót. Skriflegur ráðningarsamningur var þó ekki gerður fyrr en 22. mars 2000.

Ágreiningslaust er með aðilum hvernig staðið var að gerð ráðningarsamningsins. Framkvæmdastjóri stefndu gerði hann. Hann sagði í skýrslu sinni að uppistaðan í honum væri úr samningi sem hann hefði fengið úr öðru fyrirtæki. Stefnandi sagði í skýrslu sinni að undirbúningur að gerð samningsins hefði ekki verið annar en sá að framkvæmdastjórinn hefði kallað sig inn á skrifstofu sína og rétt sér samninginn. Hann hefði lesið hann og spurt einhverra spurninga og svo skrifað undir hann. Framkvæmdastjóri stefndu sagði að samtal hefði ekki orðið um samninginn, nema þá eitthvað almennt, og stefnandi hefði verið sáttur við hann. Það hefðu ekki orðið umræður um yfirvinnu.

Um túlkun á ráðningarsamningnum er ágreiningur með aðilum. Tekur hann einkum til 6. og 7. greinar hans, þ.e. um það hvaða greiðslur skyldu innifaldar í föstum mánaðarlaunum. Að því leyti sem samningur þessi er óljós um þessi efni, er það niðurstaða dómara að stefnda verði með tilliti til tilurðar hans að bera hallann af því, sbr. og fyrrnefnt samkomulag VSÍ og ASÍ frá 10. apríl 1996 og nefnda auglýsingu og tilskipun.

Sjötta grein ráðningarsamningsins er þannig: ,,Starfsmaðurinn fær mánaðarlaun að fjárhæð kr. 230.000,- miðað við 1. apríl 2000. Um orlofsgreiðslur og aðrar skyldur er farið eftir gildandi kjarasamningum við komandi stéttarfélags.”  Sjöunda grein samningsins er á þessa leið: ,,Unnið er eftir svokölluðu hópvinnukerfi þar sem laun skv. lið 6 eru föst en starfsmaður skal sinna sínu verksviði svo fullnægjandi sé að mati framkvæmdastjóra þó svo að í sumum tilvikum þurfi að vinna þá vinnu utan venjulegs dagvinnutíma.”

 

Krafa stefnanda um dagvinnulaun. Stefnandi krefur stefndu um vangreidd dagvinnulaun. Samkvæmt ráðningarsamningi skyldu föst laun hans vera 230.000 krónur á mánuði. Samkvæmt kjarasamningi skyldu launin hækka um 3,9% 1. maí 2000, eða um kr. 8.970 krónur, en þá hækkun hafi hann ekki fengið greidda. Hinn 1. desember 2000 hafi verið samið um að mánaðarlaun stefnanda hækkuðu í kr. 245.000. Samkvæmt kjarasamningi hefðu þau laun átt að hækka um 3% 1. janúar 2001, eða um kr. 7.350, en þá hækkun hafi stefnandi ekki fengið.

Stefnda túlkar svo ráðningarsamninginn að um aðrar greiðslur en hin föstu mánaðarlaun hafi ekki verið að ræða. Af hennar hálfu er á það bent að 1. september 1999, þegar gerður hafi verið ráðningarsamningur við stefnanda og aðra starfsmenn stefndu um föst mánaðarlaun, hafi mánaðarlaun hans verið hækkuð úr kr. 170.000 í kr. 210.000, eða um 23,5%; hinn 1. mars 2000 hafi launin verið hækkuð í kr. 230.000 [Svo skv. launaseðli, þótt ráðningarsamningur miði við 1. apríl. Innskot dómara], eða um 9,5%; og 1. desember 2000 hafi þau verið hækkuð í kr. 245.000, eða um 6,5%.

Framkvæmdastjóri stefndu sagði fyrir dómi að launahækkanir hefðu verið ákveðnar af fyrirsvarsmönnum stefndu, eftir þeirra mati. Þeir hefðu hækkað launin eftir því sem ástæða hefði þótt til. Ekki hefði verið litið til hækkana samkvæmt kjarasamningi.

Framkvæmdastjóri stefndu var spurður hvað átt væri við með orðasambandinu aðrar skyldur, sem stendur í 6. grein ráðningarsamningsins:,,Um orlofsgreiðslur og aðrar skyldur er farið eftir gildandi kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags.” Hann sagði að í kjarasamningi væru margar skyldur lagðar á herðar atvinnurekanda, m.a. veikindadagar, en þarna væri ekki átt við launagreiðslur.

Af hálfu stefndu hefur ekki verið sýnt fram á að þær hækkanir sem gerðar voru á launum stefnanda hafi átt að koma í stað fyrir eða fela í sér þær hækkanir sem kjarasamningar kveða á um að verða skyldu 1. maí 2000 og 1. janúar 2001. Af ráðningarsamningi stefnanda og stefndu frá 22. mars 2000 verður ekki ráðið að svo hafi átt að vera.

Dómari fellst á það með stefnanda að hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lágmarkslaun í kjarasamningi skerði ekki rétt stefnanda en annarra greiðslna og réttinda sem kveðið er á um í kjarasamningi. Vísar hann um þetta til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, til kafla 1.2. í kjarasamningi stéttarfélag aðila frá árinu 2000, einkum greinar 1.2.1., og ennfremur til bókunar sömu félaga sem fylgir nefndum kjarasamningi undir heitinu ,,Bókun 2000 um breytingu á launataxta skrifstofufólks”, en þar segir m.a.: ,,Minnst hækkun við gildistöku samningsins skal þó vera 3,9%.” Og einnig: ,,Telja ber saman heildargreiðslur fyrir fullt starf og miða launahækkunina við það. Séu heildargreiðslur hærri en nýi taxtinn hækka þær um 3,9%.

Samkvæmt framanrituðu felst dómari á kröfur stefnanda um vangreidd dagvinnulaun frá maí 2000 til maí 2001.

Með sömu rökum og hér hafa verið fram færð fyrir vangreiddum dagvinnulaunum fellst dómari á að stefnandi eigi kröfu á orlofi, orlofsuppbót og desemberuppbót , en síðar verður fjallað nánar um þá þætti kröfugerðar tölulega.

Stefnandi var fyrir dóminum spurður hvort það hefði verið rætt við starfslok að hann endurgreiddi kostnaðinn við námið í Rafiðnaðarskólanum. Hann sagði að það hefði ekki verið. Hann hefði verið kallaður á fund með fyrirsvarsmönnum stefndu eftir hádegi mánudaginn 2. júlí 2001. Þeir hefðu spurt sig á þá leið hvort hann ætlaði að skilja við stefndu og skilja við allt sem hann skuldaði henni. Hann kvaðst hafa svarað að það væri ekki það sem hann hefði hugsað sér. Það hefði ekki verið rætt hvernig hann ætlaði að borga til baka eða ,,hvað þeir teldu að ég skuldaði þeim”. Stefnandi kannaðist við að sér hefði á nefndum fundi með forsvarsmönnum stefndu verið afhentur reikningur stefndu, stílaður á hann (fram lagður í málinu), vegna greiðslu námskeiðs fyrir hann að fjárhæð kr. 568.000 krónur. Hann kannaðist við að hafa kvittað á reikninginn. Kvittunin er þannig: ,,Mótt: S Bj”. Hann var spurður fyrir hvað hann hefði verið að kvitta. Hann kvaðst hafa verið að kvitta fyrir því að ,,þessi kostnaður væri út af þessu námskeiði”. Hann hefði þá skilið það svo að þetta væri eitthvað fyrir bókhaldið. Sér hefði skilist nokkrum dögum seinna að stefnda hefði með þessu reikningi verið að rukka hann um þessa fjárhæð og að hann hefði þarna kvittað undir eitthvað sem hann hefði ekki átt að gera. En hann hefði ekki verið að kvitta undir reikninginn með það í huga að þetta væri kostnaður sem honum bæri að greiða. Stefnandi var þá spurður hvort hann minntist þess að hann hefði óskað eftir að fá að skipta upphæðinni. Hann kvaðst muna eftir að hafa rætt við Alexander framkvæmdastjóra hvort þeir gætu ekki komist að einhverju samkomulagi um það sem hann skuldaði stefndu. Hann hefði sagt að nógur tími væri til þess. Þetta hefði ekki verið rætt nánar.

Stefnandi kannaðist við, aðspurður, að við starfslok sín hjá stefndu hefði hann verið búinn að taka út fyrirfram greidd laun. Honum var sýnt yfirlit stefndu yfir fyrirfram greidd laun stefnanda 2000 og 2001. Hann sagði að rétt gæti verið skv. færslu 29. júní 2001 að fyrirfram greidd laun hefðu þá verið kr. 158.135. Hann kvaðst ekki gera athugasemd við að þessi fjárhæð kæmi til frádráttar launum hans í uppsagnarfresti.

Stefnandi kannaðist einnig við að hann hefði átt ógreidda viðskiptaskuld við stefndu við starfslok. Honum var sýndur fram lagður viðskiptareikningur hans við stefndu. Hann sagði rétt að eftir færslu 30. maí 2001, hefði heildarupphæð skuldar verið kr. 80.903. Stefndu hefði ekki verið heimilt að skuldajafna þessari fjárhæð á móti launum hans. Ef forsvarsmenn stefndu hefðu spurt við starfslok hans hvort þeir mættu það, hefði hann heimilað það. En þeir hefðu ekki spurt.

Stefnandi var þá spurður hvort hann hefði gefið samþykki fyrir því að launum hans væri skuldajafnað á móti viðskiptakröfum þegar starfslok bar að. Hann neitaði því. Hann hefði þó áður gefið leyfi til slíks skuldajöfnunar. Það hefði verið árið 2000. Einar Jónsson, sá sem séð hefði um bókhaldið í fyrirtækinu og verslunina og einnig launaútreikning, hefði verið að draga af honum upp í fyrirframgreidd laun og viðskiptaskuld. Aftur á móti hefði ekkert við dregið af honum árið 2001 af því hann hefði beðið Einar að hætta því. Hann hefði dregið til baka leyfi sitt til að skuldajafna launum á móti skuldum. Því hefði engin slík heimild verið fyrir hendi við starfslok. Hann hefði beðið Einar um þetta af því að fjármál heimilis hans hefðu verið erfið og hann hefði þurft á peningum að halda, hann hefði þurft að fá frest á greiðslu viðskiptaskuldar. Hann kvaðst líka hafa óskað eftir því við Einar að ekki yrði tekið af launum hans til greiðslu í séreignar lífeyrissjóð.

Alexander Eiríksson framkvæmdastjóri stefndu var spurður um fund hans og stjórnarformanns stefndu með stefnanda 2. júlí 2001, eftir að stefnandi hafði sagt upp starfi.  Hann sagði á á fundinum hefði verið fyrst og fremst rætt um starfslok stefnanda. Af hálfu stefndu hefði þá verið óskað eftir að stefnandi ynni ekki uppsagnarfrestinn. Síðan hefði námskeiðskostnaðurinn  komið til umræðu. Fyrirsvarsmenn stefndu hefðu spurt stefnanda hvort hann hefði hugsað sér að brjóta það samkomulag sem þeir hefðu gert við hann um greiðslu á kostnaðinum og hvort honum fyndist ekki eðlilegt að hann greiddi hann til baka.  Stefnandi hefði ekki gert athugasemdir við það. Þá hefði Eiríkur Þór farið fram og skrifað reikninginn og komið með hann inn aftur. Á meðan hefði stefnandi spurt sig að því hvort hann mætti gera upp þennan reikning með einhverri skiptingu. Hann hefði fúslega orðið við þeirri beiðni, sagt að það yrði ekki vandamál. Síðan hefði stefnandi kvittað upp á reikninginn. Bent var á að kvittunin á reikninginn væri ,,Mótt: SBj” og spurt hvort skilja bæri þetta á annan veg en þann að stefnandi hefði tekið við reikningnum. Framkvæmdastjóri stefndu kvaðst ekki vita hvað væri almenna viðhorfið, en þegar hann færi í verslun og keypti eitthvað fyrir sitt fyrirtæki og væri látinn kvitta fyrir móttökuna, þá væri hann að viðurkenna skuld.

Framkvæmdastjóri stefndu var spurður hvernig það hefði komið til að hluti launa stefnanda í uppsagnarfresti hefði verið ráðstafað upp í skuldir hans við stefndu. Hann sagði að haft hefði verið það fyrirkomulag sem hefði áður verið haft í langan tíma. Segja mætti að það hefði frekar hallað á ógæfuhliðina hjá stefnanda, hans fyrirframgreiddu laun og viðskiptakröfur hefðu hækkað umtalsvert. Haustið 2000 hefði verið ákveðið að reyna að ná þessu niður í samráði við hann. Um áramótin 2000/2001 hefði hann farið fram á að þessu yrði frestað til 1. júní, meðan hann væri í skólanum, og þá mætti halda áfram að draga af launum hans. Hann hefði farið fram á þetta við sig og Einar, bókhaldara fyrirtækisins. Það hefði verið vandalaust að verða við þessari beiðni. Síðan hefði hann hætt þegar átti að fara að draga af launum hans aftur.

Einar Jónsson sagði í skýrslu sinni að fram að áramótum 2000/2001 hefði hann með í samræmi við samkomulag við stefnanda dregið af launum hans ákveðna krónutölu í mánuði hverjum vegna skulda hans við stefndu. Þetta hefði m.a. verið vegna vöruúttekta, sem hefði verið litið svo á að væru í raun úttektir upp í laun. Þetta hefði nær eingöngu verið tölvubúnaður.

Einar Jónsson var einnig spurður um einn frádráttarlið á launaseðli stefnanda fyrir ágúst 2001, að fjárhæð kr. 45.650. Skýring á launaseðlinum er Fyirfr.v. viðb.líf.iðg.2000. Hann sagði að þessi frádráttur vegna viðbótar lífeyrisiðgjalds árið 2000. Í desember það ár hefði launþegum boðist að kaupa sér 2% réttindi, hækkun á viðbótarréttindum launþega, sem hefðu verið frádráttarbær til skatts á miðju ári 2000. Í desember hefði þeir mátt kaupa sér viðbótarrétt til að fá 4% réttindi fyrir allt árið, sem hefðu verið frádráttarbær til skatts. Hann kvaðst hafa borið þetta undir allar starfsmenn stefndu, sem hefðu greitt tvö prósentin, þeirra á meðal stefnanda. Stefnda skyldi leggja út fyrir þessu og þetta yrði síðan dregið af launum þeirra í 12 greiðslum á næsta ári. Í ársbyrjun 2001 hefði stefnandi beðið sig sérstaklega um að fresta öllum afdrætti, fyrirframgreiðslum og öðru því sem um hefði verið samið, þar á meðal þessu, fram til 1. júní, eða þangað til hann lyki námi í Rafiðnaðarskólanum, því hann ætti í erfiðleikum. Hann hefði orðið við þessu og hefði aðeins dregið af launum stefnanda það sem lögskylt var, staðgreiðslu, lífeyrissjóðsiðgjöld o.fl.

Hinn 29. júní 2001 hafði stefnda greitt stefnanda kr. 158.135 fyrirfram í laun. Við launauppgjör fyrir júní 2001 var stefndu heimilt að skuldajafna launum stefnanda á móti þessari fjárhæð. Stefnandi hefur tekið tillit til þessa frádráttar í endanlegri kröfugerð sinni.

Stefndu var óheimilt að skuldajafna á móti launum stefnanda öðrum kröfum sínum á hendur honum, enda er ósannað að hann hafi heimilað slíka skuldajöfnun, sbr. 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups. Stefnda hefur ekki gagnstefnt í þessu máli til að fá dóm um kröfur sínar á hendur stefnanda, og verður ekki frekar um þær fjallað hér. Þetta á við um 80.903 króna viðskiptaskuld, um kostnað við námskeið  að fjárhæð kr. 568.00 og ennfremur um 1/3 af verði farsíma. Þá var stefndu einnig óheimilt að skuldajafna á móti launum stefnanda skuldum eiginkonu hans við stefndu.

Að þessu athuguðu ber að taka til greina kröfur stefnanda um vangreidd laun fyrir mánuðina júní, júlí, ágúst og september 2001 með þessum breytingum: Frá launafjárhæð júnímánaðar, kr. 252.350, dragast kr. 158.135, og laun stefnanda fyrir þennan mánuð verða því kr. 94.215. Þá er rétt að frá launum ágústmánaðar dragist kr. 45.650, sbr. skýringu Einars Jónssonar á þessum frádráttarlið, og verður þá launafjárhæðin fyrir ágúst kr. 206.700. Rétt er að gjalddagi launa hvers mánaðar sé fyrsti dagur næsta mánaðar.

Krafa stefnanda um laun fyrir yfirvinnu. Stefnandi sagði í skýrslu sinni að við þá breytingu á starfskjörum hans sem gerð var í september 1999 hefði hann fengið föst mánaðarlaun. Í þeim hefði falist vinnuskylda upp á 40 tíma í dagvinnu á viku, þ.e. að vinna að jafnaði frá 9 til 18 með klukkutíma í hádegismat, og að vinna annan hvern laugardag fjóra tíma, frá 10-14, þann tíma sem stefnda hefði opið, á móti öðrum starfsmanni. Fyrirtækið hefði þó verið lokað á laugardögum yfir sumarið. Sú yfirvinna sem hann krefðist nú greiðslu fyrir, væri vinna sem hann hefði unnið eftir venjulegan vinnutíma. Nefndir tveir laugardagar í mánuði væri þar ekki meðtaldir. Hann sagðist aðspurður hafa skilið samninginn svo að fasta yfirvinnan á laugardögum væri falin í þeim launum sem tiltekin væru og eins ef hann mætti fyrir venjulegan vinnutíma á morgnana til að fara í einhver verk, en það hefði hann stundum gert. Þegar hann hefði mætt fyrir dagvinnutíma, t.d. til að vinna verk uppi á Hvanneyri, hefði verið talað um að hann hætti þá fyrr en venjulega.

Lögmaður stefndu vitnaði til þess að við umrædda launabreytingu, sem orðið hefði 1. september 1999, hefðu laun stefnanda hækkað úr kr. 170.000 í kr. 210.000 eða um 23 ½ % og spurði hver hefði verið ástæða þeirrar hækkunar. Stefnandi kvaðst ekki muna það. Hann var þá spurður hvort ástæðan hefði getað verið sú að fyrir 1. september 1999 hefði hann fengið greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu, en með breytingunni hefði hann verið settur á fastlaunakerfi, þar sem greiðsla fyrir yfirvinnu hefði verið sett inn í föstu launin. Stefnandi kvaðst halda að þessi hækkun hefði verið eðlileg þróun af launaskriði sem verið hefði í fyrirtækinu. Þessi breyting hefði verið vegna launahækkunar sem búið hefði verið að tala um, og svo hefði laugardagsvinnan verið felld inn í föstu launin. Talað hefði verið um að önnur yfirvinna yrði greidd, öll útseld yfirvinna yrði greidd alveg í botn. Hann hefði fljótlega gert athugasemdir út af þessu. Hann kvaðst ekki vita hvort aðrir starfsmenn stefndu hefðu fengið sérstaklega greitt fyrir yfirvinnu, en hann vissi að aðrir en hann hefðu verið með fastlaunasamning.

Framkvæmdastjóri stefndu sagði í skýrslu sinni að eftir 1. september 1999 hefði ekki verið greitt fyrir yfirvinnu, nema þá í öðru formi, sem bónusgreiðslur eða eitthvað slíkt. Í föstu laununum hefði líka verið fólgin desemberuppbót og orlofsuppbót.

Framkvæmdastjórinn var spurður um orðalagið í sumum tilvikum í 7 grein ráðningarsamningsins, þar sem segir: ,,[. . .] þó svo að í sumum tilvikum þurfi að vinna þá vinnu utan venjulegs dagvinnutíma.” Hann svaraði: ,,Það sem er hugsað með þessari grein er einfaldlega það, að þú ert kannski að vinna í ákveðnu verki sem ekki er hægt að ljúka í dagvinnutíma einhverra hluta vegna, sem venjulega ætti ekki að vera, en í einhverjum tilvikum er nauðsynlegt að gera það. Með þessari grein var verið að árétta það við starfsmann að hann myndi þá ljúka því verki þó svo að það yrði fyrir utan venjulegan dagvinnutíma.” Hann kvaðst ekki geta fallist á að í greininni fælist að starfsmanni bæri laun fyrir yfirvinnu að öðru leyti. Stefnandi hefði ekki gert neina athugasemd við þessa grein samningsins fyrr en eftir að hann lét af störfum.

Um vinnutíma stefnanda sagði aðilinn Alexander að almennt hefði hann verið virka daga 9 til 18, en tvisvar í viku hefði hann farið af stað 8:30 inn að Hvanneyri. Einnig hefði hann átt að vinna 4 tíma annan hvern laugardag. Aðilanum var bent á að þessa vinnutíma væri ekki getið í ráðningarsamningi. Hann taldi þó svo vera, í 7. grein hans. Hann var þá spurður hvort hann teldi að samkvæmt 7. greininni hefði stefnda getað krafið stefnanda um ótiltekna yfirvinnu. Hann kvað nei við, þarna hefði fyrst og fremst verið að taka á undantekningatilvikum. Það hefði þó komið fyrir að menn ynnu ,,eitthvað fram eftir”, en hann vissi ekki í hve oft það hefði verið. Það hefði þó ekki verið þannig að ,,maður gæti beðið manninn um að vinna endalaust”. Gert hefði verið ráð fyrir að tilfallandi vinna utan reglulegs vinnutíma gæti verið í kringum 20-25 tíma á mánuði. Hann kvaðst muna eftir einum sérstökum ,,álagspunkti” haustið 2000. Þurft hefði að vinna eitt eða tvö kvöld langt fram á nótt. Þá hefði verið unnið meira en mönnum hefði fundist að ætti að vera eðlilegt. Þá hefði starfsmönnum verið greiddur 50.000 króna bónus. Þetta hefði verið einhliða ákveðið af fyrirsvarsmönnum stefndu. En viðmiðunin væri í samningnum, ,,ætli hún sé ekki milli 30 og 40 tímar, sem er viðmiðunin inni í samningnum.” Þetta hefði verið fundið þannig út að þegar munnlegi samningurinn var gerður haustið 1999, þá hefðu verið teknir saman launaseðlar viðkomandi næstliðna 6 eða 8 mánuði  og búin til tala út úr þeim, deilt í með fjölda mánaðanna, og hún síðan hækkuð ,,eitthvað aðeins til viðbótar”. Spurt var hvers vegna viðmiðunin 30-40 tímar hefði ekki verið skráð í ráðningarsamninginn og þessi útreikningur á vinnuframlagi. Hann sagðist ekki hafa nein sérstök rök til að leggja fram í því dæmi. 90-95% af þessum samningi, eða uppistaðan að honum, væri úr samningi sem hann hefði fengið úr öðru fyrirtæki, og 7. greinin væri svo til óbreytt frá honum. Þetta samningsform væri orðið talsvert algengt.

 Framkvæmdastjóri stefndu kannaðist ekki við að stefnandi hefði rætt við hann um að hann vildi frá greitt fyrir útselda yfirvinnu.

Það verður niðurstaða dómara að ekki verði ráðið af ráðningarsamningum frá 22. mars hve margar yfirvinnustundir stefnanda hafði borið að vinna í mánuði hverjum samkvæmt honum. Framburður framkvæmdastjóra stefnanda um þetta var á reiki; annars vegar taldi hann að samningurinn fæli í sér 20-25 vinnustundir, en síðar nefndi hann 30-40 stundir. Honum og stefnanda bar hins vegar saman um hver átt hefði að vera reglubundinn vinnutími samkvæmt samningnum, þ.e. að jafnaði frá 9-18 mánudag til föstudags með klukkustund í hádegismat, og auk þess fjórar stundir annan hvern laugardag.

Dómari fellst á það með stefnanda að hann eigi rétt á launum fyrir yfirvinnu eins og mælt er fyrir um í kjarasamningi. Hærri dagvinnulaun í ráðningarsamningi en samið er um sem lágmarkslaun í kjarasamningi skerði ekki rétt hans til launa fyrir yfirvinnu sem kveðið er á um í kjarasamningi.

Stefnandi krefst launa fyrir 148 ½  klst. í yfirvinnu. Kröfuna byggir hann á því að hann kveðst ,,að nokkru leyti hafa haldið saman vinnutíma sínum á tímabilinu september 2000 til júní 2001,” eins og þetta er orðað í stefnu. 

Við skýrslutöku af stefnanda var vitnað til þess að í dagbók hans hafa verið skráðar 6 vinnustundir laugardaginn 23. september 2000 og í skrá stefnanda yfir yfirvinnutíma, sem hann krefst að fá greidda, hafa verið ritaðir 6 tíma þennan dag. Spurt var hvernig þetta kæmi heim og saman við það að stefnandi segðist hafa átt að vinna á laugardögum skv. ráðningarsamningi. Stefnandi sagðist gera ráð fyrir að þarna hefði átt að skrá 2 tíma ,,umfram” en ekki 6. Hann bætti við að sér hefði borið að vinna 4 tíma annan hvorn laugardag, eða tvo laugardaga í mánuði. Hann kvaðst gera ráð fyrir að þessi tiltekni laugardagur, 23. september 2000, væri einn þeirra sem hann hefði ekki átt að vinna. Hann sagði ennfremur að það tímabil sem hann hefði skráð í dagbók sína unnar vinnustundir, hefði hann skráð allar vinnustundir, ekki bara yfirvinnustundir, líka þá laugardaga sem honum hefði borið að vinna.

Framburður stefnanda um vinnu hans laugardaginn 23. september 2000 er á reiki. Af dagbókinni verður ekki séð hvort honum bar að vinna þennan dag. Verður að gera ráð fyrir að svo hafi verið, og fækkar þar yfirvinnustundum um fjórar. Stefnandi skráir hjá sér 11 yfirvinnustundir laugardaginn 25. nóvember 2000; næsta laugardag, þ.e. 2. desember 8 stundir; þar næsta laugardag, 9. desember, 9 stundir. Annað hvort einn eða tvo þessara þriggja laugardaga hefur honum borið að vinna fjórar stundir, og verður ekki séð hvort heldur hefur verið.  Verða honum því reiknaðar 7 yfirvinnustundir 25. nóvember, 8 stundir 2. desember og 5 stundir 9. desember. Laugardaginn 19. maí 2001 reiknar stefnandi sér 5 yfirvinnustundir, en rétt er að þeim verði fækkað um fjórar. Laugardag 2. júní 2001 reiknar hann sér fjórar stundir, og þykir dómara rétt að fella þær út. Að öðru leyti þykir dómara rétt að leggja skráningu stefnanda til grundvallar kröfu hans, enda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við hana nema að því er tekur til laugardaga. Stefnandi telst því eiga rétt á greiðslu fyrir 128 ½  yfirvinnustund (148,5–5x4).  Reikningsaðferð stefnanda hefur ekki verið andmælt. Þá er enn að athuga að upplýst er að stefnandi fékk í desember 2000 50.000 króna greiðslu vegna mikillar yfirvinnu. Er rétt að sú fjárhæð sé dregin frá kröfufjárhæð stefnanda.

Í samræmi við framanritað verða stefnanda dæmd laun fyrir yfirvinnu sem hér segir:

Frá heildarfjárhæð yfirvinnulauna í desember 2000 ber að draga kr. 50.000 sem fyrr segir, og verður sú fjárhæð þá kr. 19.969 og samtalan þá kr. 278.124. Gjalddagar í síðasta dálki eru skv. kröfu stefnanda, og fellst dómari á þá.

Orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót. Stefnandi á rétt til orlofs úr hendi stefndu, svo sem hann krefst, sbr. niðurstöður í kaflanum um dagvinnulaun hér að framan, sbr. 4. kafla kjarasamninga sem binda aðila máls, og lög nr. 30/1987 um orlof. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við útreikning stefnanda á orlofinu, og verða þær teknar til greina. Stefnandi á og rétt til orlofsuppbótar og desemberuppbótar skv. kjarasamningi, kafla 1.4. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við útreikning þessara krafa stefnanda , og verða þær dæmdar honum. Rétt er þó að gjalddagi orlofs fyrir mánuðina maí til september 2001 sé útborgunardagur samkv. síðasta launaseðli stefnanda, þ.e. 31. október 2001, gjalddagi orlofsuppbótar vegna maí 2000 til apríl 2001 verði 15. ágúst 2001 og gjalddagi orlofsuppbótar vegna maí 2001 til september 2001 verði fyrr nefndur síðasti útborgunardagur, þ.e. 31. október 2001, og sá dagur teljist einnig gjalddagi fyrir desemberuppbót 2001.             

Samkvæmt niðurstöðum hér að framan verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda kr. 1.708.487 (dagvinna 905.155 + eftirvinna 278.124 + orlof 429.572 + orlofsuppbót 31.880 + desemberuppbót 63.756). Dráttarvexti ber að reikna frá gjalddögum, eins og fram kemur í dómsorði.

Rétt er að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað, og skal hann vera 450.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Málið sótti fyrir stefnanda Jón Haukur Hauksson hdl., en Helgi Birgisson hrl. hélt uppi vörnum fyrir stefndu.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Tölvuþjónustan á Akranesi ehf., greiði stefnanda, Sigurði H. Bjarnasyni kr. 1.708.487 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 30. júní 2001, en frá 1. júlí sama ár samkv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, svo sem hér greinir: af kr. 8.970 frá 1. júní 2000 til 1. júlí 2000, en af kr. 17.940 frá þeim degi til 1. ágúst 2000, en af kr. 26.910 frá þeim degi til 15. ágúst 2000, en af kr. 36.310 frá þeim degi til 1. september 2000, en af kr. 45.280 frá þeim degi til 1. október 2000, en af kr. 88.994 frá þeim degi til 1. nóvember 2000, en af kr. 97.964 frá þeim degi til 1. desember 2000, en af kr. 188.830 frá þeim degi til 15. desember 2000, en af kr. 217.030 frá þeim degi til 1. janúar 2001, en af kr. 236. 999 frá þeim degi til 1. febrúar 2001, en af kr. 244.349 frá þeim degi til 1. mars 2001, en af kr. 251.699 frá þeim degi til 1. apríl 2001, en af kr. 259.049 frá þeim degi til 1. maí 2001, en af kr. 266.399 frá þeim degi til 1. júní 2001, en af kr. 368.093 frá þeim degi til 30. júní 2001, en af kr. 652.820 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en af kr. 794.207 frá þeim degi til 1. ágúst 2001, en af kr. 1.046.557 frá þeim degi til 15. ágúst 2001, en af kr. 1.061.557 frá þeim degi til 1. september 2001, en af kr. 1.268.257 frá þeim degi til 1. október 2001, en af kr. 1.520.607 frá þeim degi til 31. október 2001, en af kr. 1.708.487 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað, virðisaukaskattur af málflutningsþóknun innifalinn.