Hæstiréttur íslands
Mál nr. 830/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Hald
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2014 |
|
Nr. 830/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Hald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem L var gert að aflétta haldi á nánar tilgreindri bifreið og afhenda X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2014, þar sem sóknaraðila var gert að aflétta haldi á nánar tilgreindri bifreið og afhenda varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að henni verði hafnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 125.500 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2014.
I.
Mál þetta, sem rekið er á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, í tilefni af kröfu sóknaraðila sem barst dóminum 25. september sl., var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. október sl.
Sóknaraðili er X, [...]. Varnaraðili er Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
Krafa sóknaraðila er sú að varnaraðila verði gert að létta haldlagningu bifreiðarinnar [...] og skila henni til rétts umráðamanns. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Krafa varnaraðila er aðallega sú að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað.
II.
Helstu málsatvik
Lögregla lagði hald á bifreið með skráningarnúmerinu [...] hinn 13. janúar 2013. Dóttir sóknaraðila A var þá eigandi bifreiðarinnar. Lék grunur á um að stolinn hjólbarði með áfastri felgu væri undir bifreiðinni. Að beiðni lögreglu sótti þjónustufyrirtækið B bifreiðina og fór með hana athafnasvæði sitt. Þar var hjólbarðinn tekinn undan bifreiðinni og afhentur réttum eiganda sínum. Ekki var lögð fram kæra í málinu, vegna hjólbarðastuldarins. A, sem var ökumaður bifreiðarinnar er hún var haldlögð, var handtekin 13. janúar 2013 og sætti gæsluvarðhaldi í kjölfarið á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008. Hinn 22. sama mánaðar var bifreiðin skráð á nafn móður hennar, sóknaraðila máls þessa. Gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðili afhendi henni bifreiðina. Fyrir liggur að B vill ekki afhenda bifreiðina án greiðslu áfallins kostnaðar fyrirtækisins sem í maí 2013 nam tæplega 300.000 kr.
III.
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að varnaraðili hafi aldrei upplýst hana eða A um hvar bifreiðin væri geymdi. Hafi lögmaður þeirra í apríl 2013 komist að því að bifreiðin væri í vörslu B. Fyrirtækið hafi ekki viljað afhenda bifreiðina nema greitt væri fyrir geymslu hennar.
Sóknaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu varnaraðila að A eða verjandi hennar hafi verið upplýst um það að lokinni skýrslutöku 13. janúar 2013 að unnt væri að nálgast bifreiðina hjá B.
Sóknaraðili vísar til þess að hún eigi sem umráðamaður bifreiðarinnar rétt á að fá hana afhenta. Samkvæmt 72. gr. laga nr. 88/2008 sé lögð skylda á lögreglu um það, að eigin frumkvæði, að koma munum sem hafi verið afhentir í hendur þess sem eigi tilkall til þeirra. Engin gögn séu til um það að varnaraðili hafi tilkynnt sóknaraðila með sannanlegum hætti að haldlagningu hafi verið aflétt og hvert hún gæti sótt bifreiðina. Taka bifreiðarinnar hafi byggt á heimildum lögreglu til beitingar þvingunarúrræða og verði kostnaður við haldlagningu ekki felldur á sóknaraðila.
Málsástæður varnaraðila
Til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísar varnaraðili til þess að skilyrði þess að mál verði rekið á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 sé það að mál sé enn til rannsóknar hjá lögreglu. Lagt hafi verið hald á bifreiðina þar sem á henni var stolinn hjólbarði. Eftir að hann hafi verið afhentur réttum eiganda hafi málinu verið lokið. Sóknaraðili verði því að sækja rétt sinn eftir öðrum leiðum.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar varnaraðili til þess að lögregla sé ekki lengur með vörslu bifreiðarinnar. Haldi hennar hafi verið aflétt 13. janúar 2013 og A og verjanda hennar tilkynnt um að unnt væri að nálgast bifreiðina hjá B daginn eftir. Varnaraðili bendir á að lögmaður sóknaraðila hafi verið í samningaviðræðum við fyrirtækið í því skyni að leysa út bifreiðina þannig að vandséð sé hvernig unnt sé að halda því fram að bifreiðin sé ennþá haldlögð af lögreglu.
IV.
Niðurstaða
Mál þetta er rekið á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en í ákvæðinu er m.a. kveðið á um að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda.
Sóknaraðili gerir kröfu til þess að varnaraðili afhendi henni bifreið með skráninganúmerinu [...] sem varnaraðili lagði hald á 13. febrúar 2013 með heimild í 68. gr. laga nr. 88/2008. Tilefni haldlagningarinnar voru grunsemdir varnaraðila um að eins hjólbarða bifreiðarinnar, ásamt áfastri felgu, hefði verið aflað með refsiverðum hætti. Var hjólbarðanum komið í hendur réttmæts eiganda en hann mun ekki hafa lagt fram kæru í málinu. Af hálfu varnaraðila er því fram haldið að rannsókn málsins hafi í kjölfarið verið hætt. Eigandi bifreiðarinnar var á þessum tíma dóttir sóknaraðila, A, en bifreiðin var skráð á móður hennar, sóknaraðila máls þessa 22. sama mánaðar. Er bifreiðin var haldlögð var hún að ósk varnaraðila sótt af þjónustufyrirtækinu B. Mun bifreiðin enn vera á starfstöð B en fæst ekki afhent nema gegn greiðslu til fyrirtækisins fyrir þjónustu þess.
Í 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að lögregla skuli aflétta haldi þegar því er ekki lengur þörf. Samkvæmt 2. mgr. 72. gr. laganna skal lögregla hlutast til um að skila munum til þess sem á rétt til þeirra. Í athugsemdum sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögunum kemur fram að með ákvæðinu sé ráðgert að lögregla hlutist að eigin frumkvæði til um að koma munum, sem haldi hefur verið létt af, í hendur þess sem á tilkall til þeirra. Fyrir liggur að ekki var lengur þörf á haldlagningu bifreiðarinnar eftir að hjólbarðanum hafði verið skilað. Fullyrðir varnaraðili að A og verjanda hennar hafi, að aflokinni skýrslutöku af henni 13. janúar 2013, verið tilkynnt munnlega að nálgast mætti bifreiðina hjá B daginn eftir. Ekkert er skráð um afléttingu haldsins í samtímagögnum og er þessi fullyrðing varnaraðila, gegn andmælum sóknaraðila, því ósönnuð. Samkvæmt orðanna hljóða verður að skýra ákvæði 2. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008 með þeim hætti að varnaraðili hafi samhliða afléttingu haldsins í janúar 2013, eða þegar eftir því var leitað vorið 2013, átt að hlutast til um að skila bifreiðinni til réttmæts eiganda. Dugar ekki í þessum efnum fyrir varnaraðila að vísa til þess að sóknaraðili geti nálgast bifreiðina hjá B þar sem fyrir liggur að bifreiðin fæst ekki afhent nema gegn greiðslu áfallins kostnaðar. Sá kostnaður, sem er til kominn vegna haldlagningarinnar, verður ekki felldur á sóknaraðila. Þar sem varnaraðili hefur ekki hlutast til um að skila bifreiðinni verður að telja að hún sé í raun enn haldlögð. Af því leiðir að þeirri rannsóknarathöfn sem í haldlagningunni felst er enn ekki lokið og verður því ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila. Þar sem óumdeilt er að ekki er lengur þörf á haldlagningu bifreiðarinnar verður fallist á kröfu sóknaraðila um afhendingu hennar.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 125.5000 kr.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Kolbrúnu Sævarsdóttur héraðsdómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, afhendi sóknaraðila, X, bifreið með skráninganúmerinu [...].
Varnaraðili greiði sóknaraðila 125.500 kr. í málskostnað.