Hæstiréttur íslands
Mál nr. 621/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
- Fasteign
|
Mánudaginn 8. nóvember 2010. |
|
|
Nr. 621/2010. |
A (sjálfur) gegn Héraðsdómi Reykjavíkur (enginn) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Talið var að A hefði tekið áhættu sem ekki hefði verið í samræmi við greiðslugetu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Með vísan til 3. og 5. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 var því beiðni A hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Kæruheimild er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar veðkrafna, sem hvíla á fasteign hans að [...] í Reykjavík.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2010.
Með bréfi er barst dóminum 23. apríl 2010 hefur A, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, óskað heimildar til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009. Samhliða beiðni þessari leggur skuldari einnig fram beiðnir til að leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar skv. X. kafla a laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.
Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé doktor í [...]fræði og starfi hjá [...]tofnun [...]. Skuldari starfi einnig sjálfstætt að hluta til og reki fyrirtækið [...]. Skuldari hafi verið öryrki frá árinu 2007. Skuldari sé fráskilinn og búi einn í eigin húsnæði. Skuldari eigi þrjú börn og þau tvö yngstu búi hjá honum aðra hverja viku.
Upphaf fjárhagserfiðleika skuldara megi rekja til ársins 2002 er skuldari hafi misst heilsuna í kjölfar bílslyss sem hann hafi lent í árið 1999. Næstu ár hafi skuldari ekki getað unnið að ráði en hafi fengið sjúkrabætur og endurhæfingarlífeyri þangað til í febrúar 2004. Síðan hafi skuldari nánast engar tekjur haft fram til vorsins 2007 en þá hafi hann loks fengið örorkulífeyri vegna afleiðinga slyssins.
Skuldari hafi keypt fasteign sína að [...] haustið 2004 og kaupverð hennar hafi verið 14.500.000 krónur. Til að fjármagna kaupin hafi skuldari tekið lán hjá Íslandsbanka nr. [...] að fjárhæð 10.800.000 krónur. Skuldari hafi verið með afar lágar tekjur á árunum 2004-2007 og hafi þá safnast upp neysluskuldir. Einkahlutafélag skuldara, [...], hafi einnig verið rekið með einhverju tapi og því hafi skuldari tekið lán nr. [...] að fjárhæð 4.000.000 króna árið 2006 en það lán sé tryggt með veði í fasteign skuldara. Helmingur lánsins hafi farið í greiðslu vegna tapsins og helmingurinn í framfærslu skuldara sökum lágra tekna hans. Árin 2005 og 2006 hafi skuldari auk þess gefið út tvö tryggingarbréf til Íslandsbanka til tryggingar öllum sínum skuldum en þau séu tryggð veði í fasteign skuldara, samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur.
Skuldari er þinglýstur eigandi fasteignarinnar að [...] í Reykjavík sem er 101,9 m2 íbúð að stærð og að verðmæti 20.950.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Skuldari eigi ekki aðrar eignir.
Kröfur samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009 eru samkvæmt tveimur veðskuldabréfum útgefnum til Íslandsbanka. Annars vegar er til staðar verðtryggt lán nr. [...] frá 2004, upphaflega að fjárhæð 10.800.000 krónur, sem hvílir á 1. veðrétti fasteignarinnar. Það lán stendur nú í 15.574.100 krónum. Hins vegar er um að ræða verðtryggt lán nr. [...] frá 2006, upphaflega að fjárhæð 4.000.000 króna sem hvíli á 4. veðrétti fasteignar skuldara en það stendur nú í 5.061.900 krónum. Auk þess hvíli tvö tryggingarbréf Íslandsbanka á fasteign skuldara en á 3. veðrétti hennar hvílir tryggingarbréf að fjárhæð 500.000 krónur sem útgefið var árið 2006 og á 2. veðrétti fasteignarinnar hvílir tryggingarbréf að fjárhæð 1.000.000 króna sem útgefið var árið 2005.
Eftirstöðvar krafna miðað við að skuldari sé í skilum nema rúmlega 20.636.000 króna og í vanskilum eru tæplega 988.400 krónur.
Heildartekjur skuldara eru 205.411 krónur á mánuði og hefur þá verið tekið tillit til vaxtabóta. Heildargreiðslubyrði af veð- og samningskröfum nemur um 171.570 krónum á mánuði. Áætluð framfærsla skuldara er 120.293 krónur á mánuði án tillits til afborgana af húsnæði. Greiðslugeta skuldara um hver mánaðamót er því neikvæð um 80.452 krónur. Gert er ráð fyrir 80.000 krónum í afborganir af íbúðarhúsnæði á mánuði verði beiðni skuldara um greiðsluaðlögun samþykkt.
Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Íslandsbanka um að niðurstaða greiðslumats skuldara hafi verið neikvæð og engin lausn fundist á greiðsluvanda hans. Einnig liggur frammi staðfesting á miðlun greiðslna frá Íslandsbanka.
Forsendur og niðurstaða
Leitað er greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009.
Fram kemur í beiðni skuldara að hann sé öryrki vegna afleiðinga bílslyss sem hann lenti í árið 1999 en meginorsakir fjárhagserfiðleika hans megi rekja til tekjuleysis á árunum 2004-2007 í kjölfar slyssins.
Í beiðni skuldara kemur fram að gert sé ráð fyrir að hann greiði af veðlánum sem svari til leigu á þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu í febrúar 2010 miðað við febrúar 2010. Tillaga skuldara felst í að hann greiði 80.000 krónur á mánuði í afborgarnir af íbúð sinni að [...] en það sé sú afborgunarfjárhæð sem hann geti greitt af fasteigninni að frádregnum framfærslukostnaði. Samkvæmt töflu Neytendasamtakanna um meðalleiguverð á íbúðarhúsnæði nam meðalleiguverð fyrir 3 herbergja íbúð í febrúar 2010 124.178 krónum. Í júlí 2010 nam meðalleiguverð fyrir 3 herbergja íbúð 133.138 krónum.
Í 3. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði kemur fram að héraðsdómara beri að hafna um greiðsluaðlögun sé fjárhagur skuldara slíkur að annaðhvort megi honum vera kleift að standa í fullum skilum án greiðsluaðlögunar, meðal annars með því að nýta sér önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði, eða ljóst verði að telja að honum yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna. Þar kemur fram að mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar. Í 5. tl. 2. mgr. 4. gr. sömu laga kemur síðan fram að hafna beri beiðni um greiðsluaðlögun hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Sú fjárhæð sem skuldara er fært að greiða í afborganir af íbúðarhúsnæði sínu er langt undir meðalleiguverði fyrir samsvarandi húsnæði á almennum markaði, sbr. áðurnefnda viðmiðun Neytendasamtakanna. Þannig þykir ljóst að skuldari sé ófær um að standa undir greiðslu lágmarksfjárhæðar fastrar mánaðargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009. Auk þess ber að líta til þess að skuldari var afar tekjulágur árin 2004-2007, eins og fram hefur komið. Skattframtal 2005 fyrir tekjuárið 2004 liggur ekki fyrir í gögnum málsins en í skattframtali 2006, fyrir tekjuárið 2005, kemur fram að skuldari hafði aðeins 1.050.000 krónur í heildartekjur og í skattframtali 2007, fyrir tekjuárið 2006, kemur fram að skuldari hafði 2,3 milljónir króna í heildartekjur. Með lántökum þeim sem skuldari stóð að á árunum 2005-2006 og tryggðar eru með 2.-4. veðrétti fasteignar hans, verður ekki hjá því komist að líta svo á að skuldari hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Þegar af þessum ástæðum ber að hafna beiðni skuldara um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sbr. 3. og 5. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðlána er hvíla á eign hans að [...], Reykjavík.