Hæstiréttur íslands

Mál nr. 551/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 7

Miðvikudaginn 7. október 2009.

Nr. 551/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Tómas Hrafn Sveinsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, nú á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 10. september 2009 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Fram er komið að varnaraðili er undir sterkum grun um að hafa átt veigamikinn þátt í broti sem varðað getur allt að 10 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þegar litið er til upplýsinga um magn og styrkleika þeirra fíkniefna sem um ræðir má fallast á með sóknaraðila að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna samkvæmt sama ákvæði, eins og það hefur verið skýrt af Hæstarétti. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að [...], kt. [...], [...], Mosfellsbæ, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. október 2009, kl. 16:00.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður skemmri tími og til þrautavara að kærði verði aðeins úrskurðaður í farbann.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að lögreglan hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á rúmlega fjórum kg af amfetamíni. Þann 12. ágúst 2009 hafi lögreglan í Árósum í Danmörku lagt hald á pakka sem hafi innihaldið þessi efni og skipt þeim út fyrir lögleg efni. Pakkinn hafi síðan verið sendur undir eftirlit lögreglu hingað til lands. Kærði gaf skýrslu hér fyrir dómi í dag og kom m.a. fram hjá honum að hann hefði farið til Kaupmannahafnar, fengið fíkniefnin afhent og síðan pakkað þeim inn og sent þau til Íslands. Lögreglan telur rannsókn málsins miða vel áfram en framundan sé frekari gagnaöflun og úrvinnsla þeirra gagna.

Lögreglan telur kærða vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Meint aðild kærða sé mikil en hún tengist a.m.k. sendingu fíkniefnanna hingað til landsins. Lögreglan telur öruggt að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Lögreglan telur ætlað brot mjög alvarlegt og með tilliti til hagsmuna almennings sé nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar.

Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur sé um að kærði hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er því fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt eins og krafist er.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. október 2009, kl. 16:00.