Hæstiréttur íslands

Mál nr. 125/2002


Lykilorð

  • Skjalafals


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. september 2002.

Nr. 125/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Steinbergi Finnbogasyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Skjalafals.

S var ákærður aðallega fyrir skjalafals en til vara umboðssvik, með því að hafa framvísað fjórum tékkum undirrituðum af G, hverjum að fjárhæð 1.000.000 króna, og reynt að innleysa þá og síðan innheimta. Sannað þótti að tékkarnir væru úr hefti því sem G átti og var  með undirrituðum en óútfylltum tékkum í spilaklúbbi sem G og S áttu aðild að. S hélt því fram að V hafi afhent sér tékkana í því skyni að tryggja að V myndi innan ákveðins tíma greiða um 4.000.000 króna skuld við sig vegna uppgjörs eftir lok samstarfs þeirra. Talið var að í héraðsdómi hafi verið tekin nægilega skýr afstaða til trúverðugleika framburðar S og vitna málsins. Þótt niðurstaða um sönnun fyrir sekt S hafi orðið að ráðast að talsverðu leyti af mati á sönnunargildi framburðar hans og vitna, varð héraðsdómur ekki ómerktur vegna þess að héraðsdómur hafi ekki verið skipaður þremur dómurum. Þá þótti ekki fram komin í málinu nein haldbær skýring S á því á hvaða grunni skuld V við S hafi byggst eða hvernig fjárhæð hennar gæti verið fundin. Þá hafði V andmælt því að hafa afhent S tékkana og skuldað honum fé. Þegar þessa var gætt þótti ekki komin fram nein haldbær skýring á því hvers vegna S hafði skjölin í höndum og framvísaði þeim í banka í því skyni að fénýta sér þau. Var S sakfelldur fyrir skjalafals og dæmdur til átta mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, en til þrautavara að refsing hans verði milduð.

Í hinum áfrýjaða dómi hefur verið tekin nægilega skýr afstaða til trúverðugleika framburðar ákærða og þeirra vitna, sem gáfu skýrslu fyrir dómi um sakargiftir á hendur honum, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1994. Þótt niðurstaða um sönnun fyrir sekt ákærða hafi orðið að ráðast að talverðu leyti af mati á sönnunargildi framburðar hans og vitna, verður hinn áfrýjaði dómur ekki ómerktur vegna þess að héraðsdómur hafi ekki verið skipaður þremur dómurum. Af þessum sökum eru ekki efni til að verða við varakröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms.

Ákærði hefur meðal annars byggt varnir sínar á því að Vésteinn Gauti Hauksson, sem hafði verið með honum í umsvifamiklum viðskiptum, hafi afhent sér þá fjóra tékka, sem fjallað er um í málinu, í því skyni að tryggja að Vésteinn myndi innan ákveðins tíma greiða um 4.000.000 króna skuld við sig vegna uppgjörs eftir lok samstarfs þeirra. Í málinu er ekki komin fram nein haldbær skýring ákærða á því á hvaða grunni þessi skuld hafi byggst eða hvernig fjárhæð hennar gæti verið fundin. Vésteinn hefur andmælt því við meðferð málsins að hann hafi afhent ákærða tékkana og skuldað honum fé eftir uppgjör þeirra. Þegar þessa er gætt hefur ekki komið fram nein haldbær skýring á því hvers vegna ákærði hafði skjölin í höndum og framvísaði þeim í banka í því skyni að fénýta sér þau. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Steinbergur Finnbogason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 21. júní sl. á hendur ákærða Steinbergi Finnbogasyni, Klyfjaseli 27, Reykjavík, kt. 300773-4009, aðallega fyrir skjalafals, en til vara fyrir umboðssvik með því að hafa, 17. nóvember 1998, sýnt heimildarlaust í Landsbanka Íslands, Langholtsútibúi, fjóra eftirgreinda tékka, hvern að fjárhæð krónur 1.000.000 og alla útgefna til ákærða, sem vissi að tékkarnir voru falsaðir á eyðublöð úr tékkhefti Guðlaugs Búa Þórðarsonar á tékkareikning nr. 7957 hjá Landsbanka Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík, en ákærði hafði komist yfir eyðublöðin í ársbyrjun 1998 undirrituð af Guðlaugi Búa en óútfyllt að öðru leyti, og að hafa jafnframt þann 19. sama mánaðar afhent Björgvin Þorsteinssyni hrl., Tjarnargötu 4, Reykjavík, tékkana til innheimtu á Guðlaug Búa:

1)       Tékki nr. 7360215, dagsettur 15. október 1998.

2)       Nr. 7360216, dagsettur 22. október 1998.

3)       Nr. 7360218, dagsettur 29. október 1998.

4)       Nr. 7360217, dagsettur 5. nóvember 1998.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 155. gr., en til vara við 249. gr., almennra hegningar­laga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.  Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik og málsástæður.

Forsaga máls þessa er sú að hinn 21. júní 1999 kærði Guðlaugur Búi Þórðarson meintan þjófnað á fjórum tékkaeyðublöðum úr tékkhefti hans.  Er kringumstæðum lýst þannig að Guðlaugur Búi hafi verið félagi í spilaklúbbi vorið 1998 og hafi hann geymt í húsnæði klúbbsins tékkhefti á eigin reikning í Landsbanka Íslands, nr. 0101-26-7957.  Í heftinu hafi verið eyðublöð sem hafi verið undirrituð af honum en óútfyllt að öðru leyti.  Guðlaugur Búi hafi tekið tékkheftið þegar hann hafi gengið úr klúbbnum en hafi ekki tekið eftir því að eyðublöð vantaði fyrr en Stein­bergur Finnbogason, ákærði í máli þessu, hafi krafið hann um greiðslu á fjórum tékkum úr heftinu, hverjum að upphæð ein milljón króna.  Hafi komið í ljós að tékkar þessir, sem báru númerin 7360215, -216, -217, -218, voru úr áðurnefndu hefti.  Í kærunni er krafist opinberrar rannsóknar á því hvernig ákærði hafi komist yfir tékkaeyðublöðin og hver hafi fyllt þau út.

Meðal gagna málsins er innheimtubréf frá lögmanni ákærða í málinu dagsett 19. nóvember 1998.  Það var sent Guðlaugi Búa Þórðarsyni og í því er skorað á hann að greiða skuld samkvæmt ofangreindum tékkum, ásamt dráttarvöxtum og innheimtu­kostnaði, alls 4.251.801 krónu, innan átta daga frá dagsetningu bréfsins, annars verði mál höfðað til innheimtu skuldarinnar.  Einkamál var höfðað af ákærða á hendur Guðlaugi Búa með þingfestingu stefnu í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. maí 1999.  Guðlaugur Búi tók til varna í málinu og mótmælti kröfunni á þeirri forsendu að tékkarnir væru falsaðir.  Eftir að ofangreind kæra var send lögreglunni var einkamálinu frestað ítrekað þar til ljóst yrði hver framvinda lögreglumálsins yrði.  Einkamálið var loks fellt niður 17. júlí 2000 vegna útivistar stefnanda og var honum gert að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað.

Ljósrit tékkana hafa verið lögð fram í málinu og þar sést að þeir hafa verið fylltir út þannig að vélritað er á þá reikningsnúmer, útgáfudagur og fjárhæð og nafn þess er tékkarnir eru gefnir út til er ritað: „Steinbergur Finbogason”.  Tékkarnir eru undirritaðir og útgefnir með eiginhandaráritun Guðlaugs Búa Þórðarsonar.  Guðlaugur Búi hefur kannast við undirritunina sem sína eigin.  Gjalddagar eru 15. október 1998, 22. október 1998, 29. október 1998 og 5. nóvember 1998.

Sönnunargögn.

Við aðalmeðferð máls þessa gaf ákærði skýrslu, einnig vitnin Guðlaugur Búi Þórðarson, Daníel Erlingsson, Björgvin Hallgrímsson og Vésteinn Gauti Hauksson.

Ákærði, Steinbergur Finnbogason, neitar sök.  Hann kvaðst hafa fengið tékkana afhenta hjá Vésteini Gauta Haukssyni í byrjun árs 1998, er þeir hefðu átt fund í bifreið. Þeir hefðu áður verið saman í viðskiptum, aðallega bílaviðskiptum. Þeir hefðu keypt tjónabíla hjá tryggingafélögum, látið gera við þá og selt þá með von um hagnað.  Kaupin á bílunum hefðu yfirleitt verið fjármögnuð með bílalánum.  Ákærði kvaðst hafa skrifað upp á lánin oftar en Vésteinn Gauti, vegna fyrri fjárhagsvandræða Vésteins Gauta, m.a. kvað ákærði íbúð sína hafa verið setta að veði fyrir láni vegna þeirra sameiginlegu viðskipta en íbúð hans hefði verið eina veðið sem tiltækt hefði verið.  Guðlaugur Búi hefði útvegað þeim það lán og skrifað upp á sem ábyrgðar­maður en það mál hefði endað með því að íbúðin hefði verið seld á uppboði.  Hann kvað Guðlaug Búa hafa komið að þeirra málum seinnihluta árs 1997 en þá hefði fjárhagsstaða þeirra verið orðin mjög slæm.  Á þeim tíma hefðu þeir rekið spilaklúbb allir þrír, auk Björgvins Hallgrímssonar.  Ákærði kvað rekstur spilaklúbbsins vera einu viðskiptin sem hann hefði staðið í með Guðlaugi Búa.  Aðspurður hvort tékkhefti í eigu Guðlaugs Búa hefði að jafnaði verið geymt í klúbbnum til að hægt væri að skrifa tékka í neyðartilfellum kvaðst ákærði kannast við að einhvern tíma hefðu verið tékkaeyðublöð frá honum á staðnum en kvaðst ekki kannast við að það hefði verið að jafnaði.  Aðspurður kvað ákærði sér ekki hafa þótt neitt sérstaklega skrítið að fá fjóra milljón króna tékka undirritaða af Guðlaugi Búa frá Vésteini Gauta þar sem þeir Guðlaugur og Vésteinn hefðu hafið umfangsmikil viðskipti saman á þessum tíma, aðallega fasteignaviðskipti, þar sem miklir peningar hefðu verið í umferð.  Hann hefði vitað til þess að Guðlaugur Búi hefði farið með Vésteini Gauta um allan bæ til að greiða úr fjármálum þess síðarnefnda.  Hann kvað Véstein Gauta hafa skuldað sér meira en fjórar milljónir.  Um nokkurs konar málamiðlunarupphæð hefði verið að ræða sem þeir hefðu ákveðið að ljúka málinu með.  Enginn skriflegur samningur hefði verið gerður um þetta og hann hefði ekki gefið Vésteini Gauta kvittun fyrir afhendingu tékkanna. Ekki hefði verið ætlun Vésteins Gauta að tékkarnir yrðu innleystir heldur hefðu þeir verið hugsaðir sem trygging fyrir skuld hans við ákærða á meðan hann gæti gengið frá greiðslu á annan hátt.  Aðspurður hvort hann hefði rætt þetta eitthvað við Guðlaug Búa kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa gert það á þeim tíma en þeir hefðu eitthvað rætt þetta síðar.  Ákærði benti á víxil sem lagður hefur verið fram í málinu þar sem hann skrifar undir sem samþykkjandi fyrir hönd Söngsmiðjunnar ehf. en Vésteinn Gauti er útgefandi.  Ákærði kvað víxil þennan, sem er að fjárhæð fjórar milljónir króna, hafa átt að vera tryggingarvíxil vegna yfirdráttar­láns sem ekki hefði fengist samþykkt og hefði Vésteinn Gauti lagt fram tékkana í beinu framhaldi af því.

Vitnið Guðlaugur Búi Þórðarson kvaðst ekki hafa verið lengi í áðurnefndum spilaklúbbi.  Björgvin Hallgrímsson hefði verið sá sem helst hefði verið í forsvari fyrir klúbbinn en þeir hefðu verið fjórir með reksturinn þegar mest var, þ.e. áðurnefndur Björgvin, ákærði, Vésteinn Gauti og hann sjálfur.  Hann og ákærði hefðu hætt á svipuðum tíma en vitnið kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvenær nákvæmlega það hefði verið.  Á meðan hann var félagi hefði ávísanareikningi klúbbsins verið lokað og hefði hann þá opnað reikning í Landsbankanum sérstaklega til nota í sambandi við reksturinn.  Þess vegna hefði legið tékkhefti með nokkrum ávísunum undirrituðum af honum í klúbbnum.  Hann hefði ekki verið þarna öllum stundum en menn hefðu átt að láta vita ef ávísanir væru útfylltar, hvers vegna og fyrir hvaða fjárhæð.  Færa hefði átt inn á svuntuna í heftinu.  Sá sem hefði haft umsjón með rekstrinum hvert kvöld fyrir sig hefði haft heimild til að nota ávísanir.  Heftið hefði verið í skúffu á bak við barinn.  Það hefði ekki verið skilið eftir í skúffunni yfir nótt, sá aðili sem hefði „séð um kvöldið” hefði tekið það með sér.  Fimm til sex manns hefðu einhvern tíma fyllt út ávísun á þessu tímabili en hann hefði ekki fylgst sérstaklega með því hverjir gerðu það þar sem þetta hefði gengið snurðulaust fyrir sig.  Aðspurður hvað vitnið Véstein Gauta hafa haft aðgang að tékkheftinu eins og fleiri, en Vésteinn Gauti hefði raunar sjaldan „séð um kvöld” í klúbbnum.  Það hefðu verið ýmis tilfallandi útgjöld sem hefðu verið greidd með ávísunum úr heftinu.  Reikningurinn hefði verið stofnaður í nóvember 1997 og notaður fram til 21. janúar 1998.  Þessu hefði verið hætt þegar hann hefði hætt þátttöku í klúbbnum og hefði hann aldrei notað þennan reikning í öðrum viðskiptum. Vitnið kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um útfyllingu og framvísun þeirra ávísana sem málið snýst um, þegar hann hefði fengið innheimtubréf frá lög­manni ákærða, dagsett 19. nóvember 1998.  Á þessum tíma hefði verið mikið samband á milli hans og Vésteins Gauta en hann hefði ekki haft mikið samband við ákærða og  hefði ekki átt viðskipti við hann.  Eitthvað hefði verið óuppgert á milli Vésteins Gauta og ákærða þegar þeir hefðu hætt sameiginlegum viðskiptum en hann vissi ekki nákvæmlega hvað það hefði verið mikið eða hver skuldaði hverjum. Vitnið kvaðst hafa haft milligöngu um lán sem ákærði hefði gengist í ábyrgð fyrir og skömmu áður en ávísanirnar hefðu komið fram hefði ákærði misst íbúð sína á uppboði vegna þess láns.  Vitnið kvaðst hafa skrifað upp á það lán sem ábyrgðarmaður og hefði hann verið búinn að leggja töluverða vinnu í að koma því í horf áður en gengið var að íbúðinni.  Hann hefði gert þetta sem vinargreiða við Véstein Gauta.  Aðspurður hvort hann hefði afhent Vésteini Gauta ávísanir kvaðst vitnið einhvern tíma hafa greitt eitthvað fyrir hann en hann hefði algerlega hætt að nota ávísanir á umræddan reikning eftir að hann dró sig út úr rekstri klúbbsins, hann hefði haft ávísanareikning í Búnaðarbankanum og annan reikning í Landsbankanum.  Hann hefði aldrei afhent Vésteini Gauta tékka á sína persónulegu reikninga.  Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa nokkru sinni vélritað ávísun.  Aðspurður kvaðst vitnið halda að hann hefði hent umræddu tékkhefti þar sem hann hefði ekki fundið það þegar málið kom upp.  Hann hefði verið hættur að nota reikninginn, eins og áður kom fram.  Vitninu var þá bent á að hann hefði tilkynnt heftið glatað í janúar 1998 en málið hefði ekki komið upp fyrr en í nóvember 1998.  Kvað vitnið þá það vera rétt, hann hefði tilkynnt heftið glatað í janúar en látið loka reikningnum þegar málið kom upp.   

Vitnið Daníel Erlingsson kvaðst hafa verið meðlimur í áðurnefndum spila­klúbbi.  Einhverra hluta vegna hefði ávísanareikningi klúbbsins verið lokað og þá hefði Guðlaugur Búi opnað reikning á sínu nafni.  Nokkrar undirritaðar ávísanir úr tékkhefti á þann reikning hefðu verið í klúbbnum að jafnaði, þá í vörslum þess sem haldið hefði utan um reksturinn það kvöld en það hefðu verið m.a. ákærði, Vésteinn Gauti og Brynjar Valdimarsson.  Hann vissi til að tékkar úr heftinu hefðu verið notaðir oftar en einu sinni en þá hefði verið haft samband við Guðlaug Búa og honum sagt hver upphæðin væri.  Vitnið kvaðst ekki muna til þess að talað hefði verið um að einhverjar ávísanir hefðu horfið en hann hefði frétt af því þegar tékkar þeir er málið snýst um komu fram.  Hann hefði verið hættur í klúbbnum þegar þeir komu fram.

Vitnið Björgvin Hallgrímsson kvaðst hafa verið meðlimur í spilaklúbbi sem staðsettur hefði verið við Klapparstíg.  Enginn sérstakur hefði verið eigandi klúbbsins en vitnið kvaðst hafa verið í forsvari ásamt m.a. Guðlaugi Búa, ákærða og Vésteini Gauta.  Vitnið kvaðst hafa verið meðlimur frá upphafi, í ágúst 1996, en hætt fyrrihluta árs 2001.  Hann kvaðst kannast við að tékkhefti í eigu Guðlaugs Búa hefði verið á staðnum og ávísanir úr því hefðu verið notaðar í þágu klúbbsins.  Fleiri tékkhefti hefðu verið notuð, m.a. í eigu vitnisins.  Vitnið kvaðst hafa heyrt um hina umdeildu tékka hjá ákærða.  Hefði ákærði sagt sér að hann hefði fengið tékkana hjá Vésteini Gauta og hefði sér skilist að um uppgjör hefði verið að ræða vegna bílaviðskipta þeirra.  Þegar hann hefði minnst á þetta við Véstein Gauta síðar hefði hann ekki viljað kannast við að hafa afhent ákærða tékka.  Aðspurður hvort hann hefði vitað um einhver fjárhagsleg tengsl á milli ákærða, Vésteins Gauta og Guðlaugs Búa kvaðst vitnið vita að þeir hefðu allir verið saman í að kaupa bíla, gera við þá og selja.  Vitnið kvaðst hafa gengist undir fjárskuldbindingar vegna klúbbsins og hefði hann þurft að greiða yfirdráttarskuld hjá SPRON sem ábyrgðarmaður.  Ákærði hefði einnig verið ábyrgðarmaður að skuldinni en Guðlaugur Búi hefði verið skráður reikningseigandi.  Þetta hefðu verið um þrjár og hálf milljón króna.  Aðspurður hversu lengi Guðlaugur Búi hefði verið meðlimur í spilaklúbbnum kvaðst vitnið ekki vera viss en kvað það hugsanlegt að það hefði einungis verið í nokkra mánuði. 

Vitnið Vésteinn Gauti Hauksson kvaðst hafa verið meðlimur í spilaklúbbnum í skamman tíma, frá því í október 1997 fram í janúar 1998, en þá hefði hann hætt og ákærði „borgað sig út”, þ.e. greitt sér það sem hann hefði lagt í klúbbinn.  Hann hefði vitað um tékkaeyðublöð frá Guðlaugi Búa sem hefðu verið til taks í klúbbnum en hann hefði aldrei notað þau sjálfur og ekki fylgst með því hverjir hefðu notað þau.  Allir hefðu vitað að um tékka á persónulegan reikning Guðlaugs Búa var að ræða.  Aðspurður um tengsl hans við ákærða kvaðst vitnið hafa verið í samstarfi við hann um kaup og sölu á tjónabílum.  Það hefði staðið í um ár og hefði samstarfi þeirra verið að ljúka í kringum áramótin 1997–1998.  Vitnið kvaðst ekki kannast við að ákærði hefði haft uppi kröfur á hendur honum, vegna samstarfsslitanna, sem námu fjórum milljónum eða meira.  Hvorugur þeirra hefði verið sáttur við fjárhagslegt uppgjör vegna þeirra viðskipta en hvor um sig hefði talið hinn skulda sér peninga.  Hann hefði talið ákærða skulda sér um hálfa milljón en ákærði hefði krafið sig um meira en það.  Þeir hefðu hist á veitingastaðnum Jómfrúnni til að ræða þessi mál og þar hefðu þeir útbúið einhvers konar uppgjör sín á milli, sem ákærði hefði fallist á að yrðu lok þeirra mála.  Uppgjörið hefði m.a. falist í því að vitnið hefði tekið á sig skuldir sem kona ákærða hefði verið ábyrgðarmaður fyrir og hún hefði verið leyst undan þeim ábyrgðum.  Ákærði hefði tekið á sig einhverjar aðrar skuldir.  Guðlaugur Búi hefði útvegað ákærða lán með veði í íbúð ákærða en lánið hefði verið ætlað til greiðslu á yfirdráttarskuld ákærða.  Þetta hefði Guðlaugur Búi eingöngu gert af greiðasemi, engin viðskipti á milli hans og ákærða hefðu búið að baki.  Lánið hefði verið komið í vanskil og Guðlaugur Búi hefði verið að reyna að skuldbreyta því en ákærði hefði ekkert aðhafst og hefði íbúðin síðan farið á uppboð.  Ákærði hefði verið ósáttur við Guðlaug Búa vegna þessa og hefði haft uppi orð á fundinum á Jómfrúnni um að Guðlaugur Búi „skyldi borga þetta á annan hátt” en hann hefði ekki vitað við hvað hann átti fyrr en innheimtubréf hefði borist Guðlaugi Búa vegna tékkanna viku síðar.  Frásögn ákærða um að hann hefði fengið tékkana hjá honum væri ósannindi. Borin voru undir hann ummæli ákærða um að vitnið hefði látið hann hafa tékkana sem tryggingu fyrir skuld hans og kvað vitnið það vera ósatt.  Nánar spurður hvort lánið sem Guðlaugur Búi hefði útvegað hefði ekki verið fyrir ákærða og vitnið í sameiningu kvaðst vitnið ekki telja það, reyndar hefði það aldrei verið rætt sérstaklega.  Hann hefði t.d. tekið á sig skuld við VÍS vegna bílaláns sem hefði verið vegna þeirra sameiginlegu viðskipta en kona ákærða hefði verið í ábyrgð vegna þess láns.

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök skjalafals en til vara umboðssvik.  Ákærði framvísaði tékkum þeim, sem mál þetta snýst um, undirrituðum af Guðlaugi Búa Þórðarsyni og reyndi að innleysa þá og síðan innheimta.  Sannað þykir að tékkarnir eru úr hefti því er Guðlaugur Búi átti og var til staðar með undirrituðum en óútfylltum tékkum í framangreindum spilaklúbbi. Tékkareikningurinn var stofnaður 27. nóvember 1997 til notkunar vegna klúbbsins og lagðar inn á hann 50.000 krónur. Keypti Guðlaugur Búi tékkhefti með eyðublöðum númer 7360201 til 7360225. Tilkynnt var símleiðis að tékkheftið væri glatað um eða eftir miðjan janúar 1989. Tékkar númer 7360201 til 7360209 og 7360212 til 7360214 voru innleystir á tímabilinu 28. nóvember 1997 til 21. janúar 1998. Þeir tékkar sem ákært er vegna eru númer 7360215-7360218. Önnur eyðublöð úr heftinu hafa ekki komið fram. Lagt var inn á reikninginn nokkrum sinnum á framangreindu tímabili, hæsta upphæðin var 150.000 krónur, hæsta úttektar­fjárhæð var 100.000 krónur. Samkvæmt málsgögnum hefur engin önnur notkun verið á þessum reikningi. Ljóst er af framburði vitna og ákærða sjálfs að hann, ásamt öðrum, hafði aðgang að tékkheftinu.

Guðlaugur Búi hefur neitað að hafa afhent Vésteini Gauta umrædda tékka eða aðra tékka af persónulegum reikningum sínum eða hafa gefið honum heimild til að fylla út tékka útgefna af sér.  Einnig hafnar hann því að hafa stofnað til nokkurra skuldbindinga gagnvart ákærða. Verður að telja ósennilegt að Guðlaugur Búi hafi lagt fram tékka fyrir svo hárri fjárhæð til frjálsra afnota af sínum persónulega tékkareikningi í þágu Vésteins Gauta, enda hefur hann neitað því. Þá gefa innistæður á reikningnum og notkun hans ekki tilefni til svo hárra greiðslna sem mál þetta snýst um. Engin gögn eða haldbær rök styðja þá fullyrðingu ákærða að hann hafi mátt gera ráð fyrir því að Guðlaugur Búi væri að greiða meinta skuld Vésteins Gauta við hann.  Er raunar um svo háa fjárhæð að ræða, að sú skýring ákærða, að um vinargreiða Guðlaugs Búa við Véstein Gauta hafi verið að ræða þykir ærið langsótt, jafnvel þótt þeir hafi staðið saman í umfangsmiklum viðskiptum á þessum tíma. Ljóst þykir af framburði ákærða og vitna að engin samskipti á milli ákærða og Guðlaugs Búa skýra það hvers vegna ákærði hefði getað tekið við í góðri trú svo háum fjárhæðum í ávísunum útgefnum af Guðlaugi Búa án staðfestingar frá honum. Ákærði bar að hann hefði ekki haft samband við Guðlaug Búa áður en hann reyndi að innleysa tékkana.

Ákærða og Vésteini Gauta ber saman um að þeir hafi gert munnlegt málamiðl­unar­samkomulag um skuldaskil sín og er ljóst að hvorugur var ánægður með niður­stöðuna.  Hélt ákærði því fram að Vésteinn Gauti hefði afhent honum tékkana til tryggingar uppgjöri þeirra í byrjun árs 1998. Vésteinn Gauti kannaðist ekki við að ákærði hefði talið Véstein skulda sér vegna samstarfsslitanna yfir fjórar milljónir króna og kvaðst sjálfur hafa tekið að sér greiðslu á láni og talið ákærða skulda sér um hálfa milljón. Samkvæmt framburði hans átti fundur þeirra um uppgjörið sér stað viku áður en Guðlaugi Búa barst innheimtubréf vegna tékkanna, sem var í nóvember 1998. Vésteinn Gauti bar að hann hefði ekki haft tékkana undir höndum og kvaðst ekki hafa afhent ákærða tékkana til tryggingar eða greiðslu, eins og ákærði heldur fram. Jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á að ákærði og Vésteinn Gauti hafi staðið í bílaviðskiptum saman, og einhver mál þeirra hafi verið óuppgerð, þá hefur ákærði ekki gert sennilegt fyrir dóminum að Vésteinn Gauti hafi skuldað honum fjórar milljónir króna eða aðra verulega upphæð, sem skýrt geti tilkomu tékkanna, eða að tiltekin viðskipti þeirra í millum hafi staðið á bak við tékkana. Engin gögn, skrifleg eða munnleg, styðja fullyrðingu ákærða um að Vésteinn Gauti hafi afhent honum tékkana sem greiðslu fyrir skuld eða tryggingu fyrir greiðslu skuldar, eða að afhending þeirra hafi verið hluti af einhvers konar samningi þeirra um uppgjör.  Ljóst er að fjármál ákærða og Vésteins Gauta voru samtvinnuð og ekki vel frá þeim gengið, engu að síður þykir sú einhliða skýring ákærða ótrúverðug, að Vésteinn Gauti hafi afhent honum tékka að fjárhæð fjórar milljónir króna í bifreið í ársbyrjun 1998, án þess að taka nokkra kvittun fyrir. Í ljósi þeirrar notkunar tékkareikningsins sem hér að framan hefur verið lýst er þessi skýring einnig ótrúverðug.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja sannað að efni tékkanna, að frátalinni undirskrift, stafaði ekki frá eiganda reikningsins, Guðlaugi Búa, og þar með að efni þeirra hafi verið falsað. Ákærði hafði aðstöðu til að nálgast tékkana undirritaða af Guðlaugi Búa í spilaklúbbi þeirra á þeim tíma sem hann kveðst hafa fengið þá afhenta. Svo sem rakið hefur verið er skýring hans á því hvernig hann fékk þá í hendur og tilefni þess ruglingsleg og óskýr og stangast á við vitnisburð Guðlaugs Búa og Vésteins Gauta. Þar sem ákærði þykir ekki hafa gert fullnægjandi grein fyrir handhöfn sinni á tékkunum og frágangur þeirra er tortryggilegur, auk þess sem að um mjög háar fjárhæðir er að ræða, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að honum hafi verið fullljóst að efni þeirra var falsað. Engu að síður sýndi hann tékkana í Landsbanka Íslands og er þeir reyndust innistæðulausir lét hann þá í lögfræðiinnheimtu hjá Björgvini Þorsteins­syni hrl. án þess að eiga nokkurn rétt til greiðslu úr hendi Guðlaugs Búa.  Í kjölfarið höfðaði ákærði einkamál til greiðslu tékkanna á hendur Guðlaugi Búa.  Með þessari háttsemi hefur ákærði notað fölsuð skjöl í þeim tilgangi að blekkja með þeim í lög­skipt­um og telst hann með því hafa fullframið brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er hann fundinn sekur samkvæmt aðalkröfu ákæruvaldsins sem er réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

Refsiákvörðun.

Ákærði er fæddur í júlí 1973 og var því 25 ára þegar hann framdi brot það er hann hefur verið fundinn sekur um.  Hann hlaut tvo dóma fyrir skjalafals á árinu 1990, en var þá ekki orðinn 18 ára.  Hann hefur þrisvar sinnum gengist undir greiðslu sektar með sátt og einu sinni hlotið dóm vegna umferðarlagabrota, síðast 21.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í tvo mánuði fyrir ölvunarakstur í apríl 1997. Hefur sakarferill ekki áhrif á refsingu.

Við ákvörðun refsingar þykir rétt að taka mið af því að brotið varðar háar fjárhæðir og háttsemin bendir til ákveðins brotavilja. Á hinn bóginn verður að líta til þess að mál þetta á rætur að rekja allt aftur til ársins 1998 og æska og kæruleysi í fjárskiptum þeirra aðila sem því tengjast kann að hafa skapað aðstæður sem leiddu til brotsins. Ekkert tjón varð af brotinu. Með allt þetta í huga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Málið hefur verið mjög lengi í meðferð. Það var kært í júní 1999 og ákæra gefin út í júní 2000. Fyrir dóminum hefur málið einnig tafist mjög af ástæðum sem ákærða verður ekki kennt um. Hátt á fjórða ár er þannig liðið frá því að brotið var framið. Eftir atvikum þykir því rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði skal greiða allan almennan sakarkostnað. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 160.000 krónur sem ákærði skal greiða að tveimur þriðju hlutum, en einn þriðji hluti skal greiðast úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Guðjóni Magnússyni fulltrúa lögreglu­stjórans í Reykjavík.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð

Ákærði, Steinbergur Finnbogason, skal sæta fangelsi í átta mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá dóms­uppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði skal greiða allan almennan sakarkostnað. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, skulu vera 160.000 krónur og greiði ákærði tvo þriðju hluta, en einn þriðja hluta skal greiða úr ríkissjóði.