Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Vátrygging
- Endurkrafa
- Málshöfðun
|
|
Föstudaginn 4. febrúar 2000. |
|
Nr. 14/2000. |
Tryggingamiðstöðin hf. (Valgeir Pálsson hrl.) gegn Hjörleifi Bergsteinssyni (Hlöðver Kjartansson hdl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Vátrygging. Endurkrafa. Málshöfðun.
Vátryggingafélagið T höfðaði endurkröfumál á hendur H vegna bóta sem félagið hafði greitt út á grundvelli ábyrgðartryggingar bifreiðar H. Málinu var vísað frá dómi þar sem endurkröfunefnd hafði ekki lokið umfjöllun sinni um kröfuna þegar málið var höfðað, en það var skilyrði málssóknar samkvæmt umferðarlögum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. desember 1999, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði varð varnaraðili valdur að árekstri þriggja bifreiða 28. apríl 1993. Hann var þá undir áhrifum áfengis. Bifreiðin, sem varnaraðili ók, var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Tryggingu hf., sem nú hefur verið sameinað sóknaraðila. Vátryggingafélagið greiddi bætur vegna eignatjóns og líkamstjóns, sem aðrir urðu fyrir við slysið. Hinn 2. júní 1993 og 3. október 1996 lagði svokölluð endurkröfunefnd, sem starfar samkvæmt 96. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, fyrir vátryggingafélagið að beina endurkröfum að varnaraðila að fjárhæð samtals 1.100.009 krónur. Höfðaði félagið mál þessu til samræmis á hendur varnaraðila 6. maí 1997. Vegna nánar tiltekinna annmarka, sem voru á málsmeðferð endurkröfunefndar, var því máli vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 5. nóvember 1998, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 3478. Vátryggingafélagið lagði málið á ný fyrir endurkröfunefnd 20. janúar 1999. Áður en niðurstaða var þar fengin höfðaði félagið þetta mál gegn varnaraðila 4. maí 1999 og krafðist greiðslu á 2.339.004 krónum. Var því borið við í héraðsdómsstefnu að félagið teldi sig knúið til að höfða málið áður en niðurstaða endurkröfunefndar væri fengin, þar sem fyrningarfrestur kröfu hennar væri senn á enda. Málið var þingfest 19. maí 1999. Sama dag ákvað endurkröfunefnd að vátryggingafélagið skyldi beina að varnaraðila endurkröfu að fjárhæð 1.100.009 krónur. Lækkaði félagið kröfu sína því til samræmis með yfirlýsingu á dómþingi 9. júní 1999.
Eftir uppsögu dóms Hæstaréttar 5. nóvember 1998 hafði Trygging hf. nægan frest til að leita nýrrar ákvörðunar endurkröfunefndar án þess að hætta væri á fyrningu hugsanlegrar endurkröfu á hendur varnaraðila samkvæmt 6. málslið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Þegar félagið höfðaði málið skorti þrátt fyrir það skilyrði samkvæmt 96. gr. umferðarlaga fyrir málsókn. Verður því ekki um flúið að vísa málinu enn frá dómi, en engu breytir í þeim efnum að bætt hafi verið úr annmarka á heimild til málsóknarinnar þegar á sama degi og það var þingfest í héraði. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað.
Aðilarnir skulu hvor bera sinn málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. desember 1999.
Ár 1999 miðvikudaginn 29. desember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði kveðinn upp úrskurður þessi í máli nr. E-653/1999, Tryggingamiðstöðin hf. gegn Hjörleifi Bergsteinssyni, sem tekið var til úrskurðar 7. október s.l. að loknum munnlegum málflutningi, en það var endurflutt í dag.
Stefnandi var Trygging h.f., kt. 660269-3399, Laugavegi 178, Reykjavík en er nú eftir sameiningu fyrirtækjanna Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík. Stefndi er Hjörleifur Bergsteinsson, kt. 110734-3879, Flókagötu 5, Hafnarfirði.
Umboðsmaður stefnanda er Valgeir Pálsson hrl. en stefnda hdl. Hlöðver Kjartansson.
Málið er höfðað með stefnu útgefinni 30. apríl s.l. og birtri fyrir stefnda 3. maí s.l. og er þar gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.339.004,- kr. með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. maí 1999 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu með vsk. en stefnandi færði síðar kröfu sína að höfuðstól niður í 1.100.000,- 9. júní s.l.
Stefndi hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautarvara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnandi greiði málskostnað auk virðisaukaskatts.
Málsavik eru þau að 28. apríl 1993 varð árekstur þriggja bifreiða á Hafnarfjarðarvegi, en þeim var ekið suður veginn í Garðabæ. Bifreiðarnar YM-782 og MA-925 hafði verið ekið á undan bifreið stefnda LT-959, en akstur þeirra hafði verið stöðvaður eða nær stöðvaður á Hraunholtshæð, er þeir nálguðust gatnamót Álftanesvegar og Fjarðarhrauns og hafði bifreið stefnda komið að á vinstri akrein og hafði stefndi ekið henni áfram á bifreiðina MA-925, sem við það kastaðist á bifreiðina UM-782. Báðar bifreiðarnar, sem voru á undan bifreið stefnda skemmdust við áreksurinn og ökumaður bifreiðarinnar MA-925 slasaðist og hlaut varanlega örorku sem metin er 5%. Stefndi var undir áhrifum áfengis við aksturinn og mældist vínandamagn í blóði hans 1,46 promille. Bifreið stefnda var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnanda og greiddi stefnandi samtals í bætur vegna þessara tjóna kr. 2.310.054,50,- og lagði fyrir endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, erindi, þar sem hann leitaði ákvörðunnar hennar um rétt sinn til að beina endurkröfu að stefnda vegna bótakröfugreiðslna 24. mars 1993 og 24. júní 1996. Nefndin ákvað 2. júní 1993 og svo 3. október 1996 vegna síðara erindisins að stefnanda væri rétt að endurkrefja stefnda samtals um kr. 1.100.000,-. Reynt var að endurkrefja stefnda um þessa fjárhæð, en án árangurs. Þann 6. maí 1997 var þingferst í Héraðsdómi Reykjaness mál á hendur stefnda til innheimtu á endurkröfufjárhæðinni og gekk dómur í því 28. nóvember 1997 og var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 820.000,- auk dráttarvaxta. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og með dómi réttarins uppkveðnum 9. október 1998 var málinu vísað frá héraðsdómi, þar eð það miklir annmarkar þóttu á ákvörðunum endurkröfunefndar að virða bæri þær að vettugi við úrlausn málsins. Málið var því lagt að nýju fyrir endurkröfunefndina með bréfi til hennar dags. 20. janúar 1999. Endurkröfunefndin hafði hins vegar ekki tekið ákvörðun um endurkröfurétt stefnanda er stefnan var gefin út 30. apríl s.l. og taldi stefnandi sig tilneyddan að stefna aftur áður en ákvörðunin lægi fyrir til að koma í veg fyrir að stefnukrafan fyrntist sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að ekki hafi verið skilyrði til þessarar málshöfðunar samkv. 1. mgr. 96. gr. umferðarlaga, þar sem ekki hafi legið fyrir gild ákvörðun endurkröfunefndar skv. 96. gr. umferðarl. sbr. reglugerð nr. 556/1993 um hvort í þessu tilfelli skuli beita endurkröfurétti og þá jafnframt í hvaða mæli, en samkv. 95. gr. sé vátryggingarfélagi ekki skylt að gera endurkröfu. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafði lagt þetta mál fyrir endurkröfunefndina 20. janúar s.l., en höfðað málið með stefnu útgefinni 30. apríl s.l. sem birt var stefnda 3. maí s.l. en ákvörðun nefnarinnar hafi legið fyrir 19. maí s.l., þ.e. sama dag og málið var þingfest í Hérðasdómi Reykjaness og 9. júní lagði stefnandi skriflega breytingu á kröfugerð í samræmi við ákvörðun nefndarinnar.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi til dóma Hæstaréttar í dómasafni 1963 bls. 414 og áðurnefnds dóms Hæstaréttar varðandi endurkröfumál þetta.
Stefndi vísar til þess að reglunni um endurkröfu vátryggingarfélaga á hendur tjónvalds, sé ekki ætlað það hlutverk að tryggja fjárhagslega hagsmuni vátryggingarfélaga, heldur sé hlutverkið varnaðarvarsla, en nú á tímun sé mjög dregið í efa að skaðabótareglur og reglur um endurkröfurétt hafi teljandi varnaðaráhrif.
Stefnandi byggir kröfu sína um að frávísunnarkröfunni verði hrundið á því að 6 mánaða fresturinn skv. 11. gr. laga nr. 14/1905 til höfðunar máls eftir frávísun fyrra málsins hafi runnið út í lok apríl s.l. og því verið brýn nauðsyn til að höfða mál þetta, þó að ákvörðun endurkröfunefndar lægi ekki fyrir , en hún hafi verið væntanleg og legið fyrir í upphafi málsins þann 19. maí s.l. og verið lögð fram þann 6. júní s.l.
Enginn spjöll hafi verið með þessu unnin á réttarstöðu stefnda. Stefnandi mótmælir harðlega málskostnaðarreikingi stefnda og færði rök fyrir því að málskostnaður yrði látinn niður falla, ef kröfur stefnda yrðu teknar til greina. Varnarvörlsusjónarmiðin um endurkröfuna og hugleiðingar um, að þau ættu ekki lengur við væru ,, de lege ferende´´ , sjónarmið, sem ættu ekki við í þessu máli.
Um skyldu vátryggingafélaga til að gera endurkröfu vísaði stefndi til 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 556/1993.
Niðurstaða
Í málinu verður að miða við það, hvort skilyrði til málshöfðunar hafi verið til staðar, er stefna var útgefin og birt. Þá lá ekki fyrir ákvörðun endurkröfunefndar, og var þá óvissa um hvort endurkrafa yrði heimiluð og þá í hvað miklu mæli. Þó að úr þessu væri bætt síðar og ákvörðun hafi legið fyrir við þingfestingu málsins, dugir það ekki til að koma fram endurkröfu að þessi ákvörðun liggi fyrir er málið er höfðað, sbr. dómur Hæstaréttar í málum nr. 70/1963 og nr. 62/1998 sem stefndi vitnar í. Krafa stefnda er því tekin til greina og er málinu vísað frá dómi.
Eftir þessum málsniðurstöðum þykir rétt að dæma stefnanda til að greiða stefnda kr. 80.000,- í málskostnað.
Úskurð þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.
Dráttur á uppsögn úrskurðarins er vegna anna dómara við önnur mál.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi Tryggingmiðstöðin h.f. greiði stefnda Hjörleifi Bergsteinssyni kr. 80.000,- í málskostnað.