Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 4. júní 2015.

Nr. 341/2015.

K

(Arnbjörg Sigurðardóttir hrl.)

gegn

M

(enginn)

Kærumál. Gjafsókn.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felldur var niður málskostnaður í máli K á hendur M, sem lauk að öðru leyti með dómssátt, en kveðið var á um gjafsóknarkostnað þeirra úr ríkissjóði. Krafðist K þess að þóknun lögmanns hennar yrði hækkuð. Staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. apríl 2015, þar sem felldur var niður málskostnaður í máli sóknaraðila gegn varnaraðila sem lauk að öðru leyti með dómssátt en kveðið var á um gjafsóknarkostnað þeirra úr ríkissjóði. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að þóknun lögmanns sóknaraðila verði hækkuð úr 1.127.160 krónum í 1.547.117 krónur.“

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. apríl 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. apríl sl., um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 2. ml., 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála og þóknunar samkvæmt 2. ml., 2. mgr. 127. gr. sömu laga.

Mál þetta höfðaði K, kt. [...] á hendur M, kt. [...], vegna ágreinings vegna forsjár, umgengni og meðlag, með stefnu birtri 12. maí 2014.

Dómkröfur aðila voru í öndverðu í aðalatriðum samkynja, en þeir kröfðust báðir aðallega að þeim yrði falin forsjá tveggja barna þeirra, en ennfremur kröfðust þeir meðlags og að með dómi yrði kveðið á um inntak umgengnisréttar.  Þá kröfðust aðilar, hvor um sig, málskostnaðar, en með gjafsóknarleyfum, dagsettum 3. og 8. september sl. var þeim veitt gjafsókn. 

Málið var þingfest 15. maí 2014, en í framhaldi af því var oft þingað í málinu, m.a. um bráðabrigðakröfur aðila.  Þá var af hálfu aðila lögð fram sýnileg gögn, en þar á meðal var matsgerð dómskvadds matsmanns.  Í þinghaldi 15. janúar sl. lýstu lögmenn aðila sýnilegri gagnaöflun lokið og var aðalmeðferð máls ákveðin 10. apríl sl., en henni var síðan frestað til 17. sama mánaðar.  Þann 16. apríl sl. tókst með aðilum sátt um lýst ágreiningsefni.  Í sátt aðila er m.a. kveðið á um að aðilar fari saman með forsjá nefndra barna, en að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda.  Þá eru í sáttinni ítarlega ákvæði um umgengi, en einnig um samskipti aðila. Í niðurlagi sáttarinnar segir að málsaðilar falli frá öllum dómkröfum sínum fyrir utan málskostnað, og er sá ágreiningur hér til úrlausnar.

Lögmenn aðila áréttuðu fyrir dómi kröfur sínar um málskostnað, en báðir vísuðu þá m.a. til fyrrnefndra gjafsóknarleyfa.

Viðfangsefni dómsins samkvæmt framansögðu er að leysa úr ágreiningi um málskostnað og taka afstöðu til gjafsóknarkostnaðar.

Í ljósi málsúrslita og eins og hér stendur á, er það niðurstaða dómsins að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar Arnbjargar Sigurðardóttur hrl.   Af hálfu lögmannsins var lagður fram málskostnaðarreikningur ásamt tímaskýrslu.  Þykir þóknun lögmannsins að teknu tilliti til umfangs málsins og framlagðs málskostnaðarreiknings hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, 1.127.160 krónur, sem greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans Berglindar Jónasardóttur, hdl.  Af hálfu lögmannsins var lagður fram málskostnaðarreikningur ásamt tímaskýrslu.  Þykir þóknun lögmannsins að teknu tilliti til umfangs málsins og framlagðs málskostnaðarreiknings hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti 1.127.160 krónur, sem greiðist úr ríkissjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 tekur dómarinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar málsaðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 470/2011.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar Arnbjargar Sigurðardóttur hrl.  1.127.160 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar talin þóknun lögmanns hans Berglindar Jónasardóttur hdl. 1.127.160 krónur.