Hæstiréttur íslands
Mál nr. 744/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Föstudaginn 13. desember 2013. |
|
Nr. 744/2013. |
Alnus ehf. (Tómas Jónsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í hf. Bankinn hafði með vísan til 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skorað á A ehf. að lýsa því yfir með skriflegum hætti innan 21 dags frá móttöku bréfsins að félagið væri fært um að greiða tiltekna gjaldfallna skuld innan skamms tíma. Í svarbréfi A ehf. mótmælti félagið öllum kröfum bankans og taldi sig ekki vera í skuld við hann. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt framangreint bréf A ehf. hefði ekki verið svo glöggt sem skyldi þótti A ehf. þó hafa brugðist við áskorun Í hf. á þann veg að ekki væri fullnægt skilyrðum 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta. Var kröfu Í hf. um gjaldþrotaskipti hafnað og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2013, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með bréfi 29. janúar 2013, sem birt var fyrirsvarsmanni sóknaraðila 25. febrúar sama ár, skoraði varnaraðili á sóknaraðila, með vísan til 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, að lýsa því með skriflegum hætti innan 21 dags frá móttöku bréfsins að hann væri fær um að greiða tiltekna gjaldfallna skuld við sig innan skamms tíma. Þá var þess einnig óskað að tiltekið yrði hvenær félagið yrði fært um að greiða skuldina. Tekið var fram að yrði sóknaraðili ekki við þessari áskorun myndi varnaraðili krefjast gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila. Með bréfi sóknaraðila 13. mars 2013 sendi lögmaður sóknaraðila bréf til varnaraðila þar sem sagði meðal annars: „Alnus mótmælir öllum kröfum bankans. Forsvarsmenn Alnusar telja skuld félagsins við Íslandsbanka enga vera. Alnus byggir á því að bankinn [hafi] valdið félaginu tjóni sem leiðir til verulegrar lækkunar á kröfum bankans. Jafnframt hafi þær eignir sem bankinn hefur tekið til tryggingar skuldbindingum félagsins að fullu staðið undir þeim.“
Þegar krafa varnaraðila um gjaldþrotaskipti var fyrst tekin fyrir í héraðsdómi 4. september 2013 var mætt af hálfu beggja aðila og bókað að sóknaraðili mótmælti ekki framkominni kröfu og óskaði eftir fresti. Því næst var bókað að málinu væri frestað til 2. október 2013. Verður helst ráðið að það hafi verið gert á grundvelli 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Við fyrirtöku þann dag var málinu enn frestað og það var ekki fyrr en við þriðju fyrirtöku 7. október 2013 sem málið virðist hafa verið fært til meðferðar samkvæmt 168. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 70. gr. þeirra. Framangreind ákvæði laganna verða skilin þannig að koma verði með mótmæli við kröfu gjaldþrotaskiptabeiðanda strax við þingfestingu máls annars verði mótmæli skuldara talin vera of seint fram borin. Þrátt fyrir það verður dómari að gæta að sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði hafi verið fyrir gjaldþrotaskiptum.
Þótt framangreint bréf sóknaraðila 13. mars 2013 í tilefni af áskorun varnaraðila hafi ekki verið svo glöggt sem skyldi þykir sóknaraðili þó hafa brugðist við henni á þann veg að ekki sé fullnægt skilyrðum 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um skiptin og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Eins og atvikum er háttað þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Íslandsbanka hf., um að bú sóknaraðila, Alnusar ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2013.
Krafa sóknaraðila, Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, um að bú varnaraðila, Alnusar ehf., Kringlunni 7, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta, barst dóminum 3. apríl 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 4. september sl. Af hálfu varnaraðila var kröfunni ekki mótmælt en óskað eftir fresti. Málinu var þá frestað til miðvikudagsins 2. október sl. Í þinghaldi þann dag lagði lögmaður varnaraðila fram greinargerð án þess að það sætti andmælum af hálfu sóknaraðila og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili lagði fram greinargerð í sama þinghaldi. Hinn 28. október sl. var málið flutt munnlega og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir
Hinn 25. febrúar sl. var birt fyrir fyrirsvarsmanni varnaraðila áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem skorað var á varnaraðila að greiða skuld við sóknaraðila að fjárhæð samtals 3.130.453.212 krónur, eða lýsa því skriflega yfir innan 21 dags að félagið væri fært um að greiða skuldina innan skamms tíma. Sóknaraðili segir að krafan hafi ekki verið greidd og honum hafi ekki borist skrifleg yfirlýsing sem uppfylli skilyrði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, einungis bréf þar sem kröfu sóknaraðila sé mótmælt.
Meðal gagna málsins er lánssamningur, dagsettur 27. febrúar 2007, milli Glitnis banka hf. sem lánveitanda og varnaraðila sem lántaka, að fjárhæð að jafnvirði 4.410.000.000 króna ,,í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum “. Samkvæmt beiðni um útborgun láns, dagsettri sama dag, óskaði varnaraðili eftir að lánið yrði greitt út í sjö lánshlutum. Lánshluti eitt var að fjárhæð 1.764.000.000 króna, og var verðtryggður miðað við neysluvísitölu 268 stig og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í IKR inn á tiltekinn bankareikning. Lánshluti tvö var að fjárhæð 617.400.000 krónur, ,,óverðtryggt Reibor“ og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í IKR inn á tiltekinn bankareikning. Lánshluti þrjú var að fjárhæð 4.664.551,22 Bandaríkjadalir (USD) og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í Bandaríkjadölum inn á tiltekinn bankareikning. Lánshluti fjögur var að fjárhæð 3.393.871,10 bresk pund (GBP) og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í breskum pundum inn á tiltekinn bankareikning. Lánshluti fimm var að fjárhæð 3.530.824,66 evrur (EUR) og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í evrum inn á tiltekinn bankareikning. Lánshluti sex var að fjárhæð 11.395.348,84 svissneskir frankar (CHF) og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í svissneskum frönkum inn á tiltekinn bankareikning. Lánshluti sjö var að fjárhæð 631.805.157 japönsk jen (JPY) og var tekið fram að lánshlutinn væri greiddur út í japönskum jenum inn á tiltekinn bankareikning. Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins skyldi endurgreiða þann hluta lánsins sem ekki var verðtryggður með einni greiðslu 15. mars 2010 en þann hluta lánsins sem var verðtryggður skyldi endurgreiða með einni greiðslu 15. mars 2012. Með viðauka við lánssamninginn, dagsettan 11. september 2008, var bætt við lánið 175.000.000 krónum til viðbótar. Samkvæmt beiðni um útborgun láns, dagsettri sama dag, var viðbótarlánið verðtryggt miðað við neysluvísitölu 312,8 stig.
Samkvæmt 6. gr. lánssamningsins setti varnaraðili, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á láninu, Glitni banka hf. að handveði öll verðbréf sem væru í vörslum bankans á hverjum tíma á tilteknum vörslureikningi. Jafnframt setti varnaraðili bankanum að handveði hlutabréf varnaraðila í tveimur nafngreindum lögaðilum, öðrum dönskum en hinum breskum. Sóknaraðili hefur staðhæft að hann hafi leyst upp þær tryggingar sem settar hafi verið fyrir greiðslu kröfunnar og hafi ráðstafað andvirði þessara trygginga, að fjárhæð 1.204.145.199 krónum, inn á skuldina.
Með bréfi, dagsettu 13. mars sl., var fyrrnefndri áskorun sóknaraðila svarað. Þar segir að varnaraðili mótmæli öllum kröfum sóknaraðila. Varnaraðili sé ekki í skuld við sóknaraðila. Sóknaraðili hafi auk þess valdið varnaraðila tjóni sem leiði til verulegrar lækkunar á kröfum sóknaraðila. Þá hafi þær eignir sem sóknaraðili hafi tekið til tryggingar skuldbindingum varnaraðila að fullu staðið undir þeim.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að skilyrði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., væru uppfyllt. Skuld varnaraðila væri fallin í gjalddaga og tryggingum fyrir henni hefði verið ráðstafað. Eftirstöðvar skuldarinnar væru ógreiddar. Í svari varnaraðila væri viðurkennt að skuld væri til staðar, þar sem ýjað sé að verulegri lækkun kröfu. Með bréfinu hafi ekki verið sýnt fram á gjaldfærni. Þá sé meint tjón varnaraðila ósannað. Fjallað hafi verið um sama lánssamning í dómi Hæstaréttar Íslands 23. ágúst 2012 í máli nr. 455/2012 og hafi öllum kröfum varnaraðila í málinu verið hafnað. Ákvæði 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að skilyrðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, til þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, sé ekki fullnægt. Varnaraðili vísar til þess að svo mögulegt sé að ná fram gjaldþrotaskiptum á búi aðila gegn vilja hans verði annars vegar að vera til staðar raunveruleg skuld, hins vegar óræk sönnun um eignaleysi aðilans. Hvorugt þessara skilyrða sé uppfyllt í þessu máli. Varnaraðili hafni því að vera í skuld við sóknaraðila en enginn dómur hafi gengið um kröfu sóknaraðila. Þær eignir sem sóknaraðili hafi tekið til tryggingar skuldbindingum varnaraðila hafi að fullu staðið undir þeim. Í lánssamningi varnaraðila við Glitni banka hf. hafi settar tryggingar verið metnar á 150% af lánsfjárhæð og beri sóknaraðila að sanna að þessar tryggingar hafi ekki verið fullnægjandi. Jafnframt hafi sóknaraðili valdið varnaraðila tjóni sem leiði til verulegrar lækkunar á kröfu sóknaraðila. Gegn andmælum varnaraðila liggi þannig ekkert fyrir um meinta skuld hans við sóknaraðila.
Þá andmælir varnaraðili því að fyrir liggi sönnun um eignaleysi hans. Varnaraðili hafi mótmælt meintri skuld við sóknaraðila og því væri markleysa að lýsa því yfir að hann sé fær um að greiða hana. Sóknaraðili hafi engin rök fært fyrir ætluðu eignaleysi varnaraðila en um það beri sóknaraðili sönnunarbyrði. Þess í stað kjósi sóknaraðili að draga ályktanir af bréfi varnaraðila frá 13. mars sl.
Fram kom við munnlegan flutning málsins hjá lögmanni varnaraðila að ákvæði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið bætt við lögin með lögum nr. 95/2010. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 95/2010 sé tilgangur þessa ákvæðis sá að flýta gjaldþrotaskiptum þegar óumdeilt sé að skilyrði séu uppfyllt fyrir því að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta leggi skyldu á sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili dregið að innheimta ætlaða kröfu sína, en þrjú ár séu liðin frá fyrri gjalddaga. Þá hafi fjárnám ekki verið gert hjá varnaraðila.
Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991, einkum til 7. gr., 65. gr. og 66. gr. Einnig vísar varnaraðili til meginreglna laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um sönnun. Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Varnaraðili mótmælti ekki kröfu sóknaraðila þegar hún var fyrst tekin fyrir í héraðsdómi 4. september sl. Verða mótmæli varnaraðila því talin komast að.
Varnaraðili mótmælir því í fyrsta lagi að hann sé í skuld við sóknaraðila. Lánssamningur sá sem sóknaraðili byggir kröfu sína á var gerður á milli Glitnis banka hf. sem lánveitanda og varnaraðila sem lántaka. Ekki virðist vera um það deilt að sóknaraðili hafi tekið við kröfum samkvæmt þessum lánssamningi, en málsástæður varnaraðila, sem lúta að því að hann sé ekki í skuld við sóknaraðila, snúast um það að eignir, sem sóknaraðili hafi tekið til tryggingar skuldbindingum varnaraðila, hafi að fullu staðið undir þeim, auk þess sem sóknaraðili hafi valdið varnaraðila tjóni sem leiði til verulegrar lækkunar á kröfu sóknaraðila. Samkvæmt þessu er nægilega sannað að sóknaraðili sé kröfuhafi samkvæmt umræddum lánssamningi.
Varnaraðili byggir á því að þær eignir sem hafi verið settar til tryggingar skuldbindingum hans við sóknaraðila hafi að fullu staðið undir þeim. Varnaraðili mótmælir því ekki að höfuðstóll kröfu sóknaraðila sé sá sem greinir í kröfu sóknaraðila eða að þessar eignir hafi verið seldar fyrir þá fjárhæð sem sóknaraðili greinir. Varnaraðili hefur engar líkur leitt að því að viðkomandi eignir hafi verið seldar fyrir lægra verð en sem nam verðmæti þeirra. Söluandvirði umræddra eigna er til muna lægra en fjárhæð höfuðstólsins eins og sér. Verður því að hafna þessari málsástæðu varnaraðila. Málsástæða varnaraðila um ætlað tjón hans er ekki frekar rökstudd og gegn mótmælum sóknaraðila er hún ósönnuð.
Í öðru lagi andmælir varnaraðili því að fyrir liggi sönnun um eignaleysi hans. Varnaraðili hafi mótmælt meintri skuld við sóknaraðila og því væri markleysa að lýsa því yfir að hann sé fær um að greiða hana. Í 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 er skýrt mælt fyrir um að þegar áskorun lánardrottins samkvæmt því ákvæði hefur verið réttilega birt skuldara þá verði skuldari að lýsa því yfir að hann sé fær um að greiða skuld sína við sóknaraðila á þann veg sem kveðið er á um í ákvæðinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 9. maí 2012 í máli nr. 262/2012. Það gerði varnaraðili ekki með bréfi sínu 13. mars sl., enda eru þar engin rök færð fram fyrir þeirri afstöðu varnaraðila að skuld hans sé engin, að sóknaraðili hafi valdið honum tjóni og að tryggingar fyrir skuldbindingum varnaraðila hafi að fullu staðið undir þeim.
Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Varnaraðili hefur enga grein gert fyrir eignum sínum og skuldum. Varnaraðili hefur því ekki fært sönnur á að hann sé gjaldfær. Eru skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt fyrir því að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila og taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Bú varnaraðila, Alnusar ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.