Hæstiréttur íslands
Mál nr. 3/2005
Lykilorð
- Bifreið
- Vöruflutningar
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 2. júní 2005. |
|
Nr. 3/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X(Jónas Haraldsson hrl.) |
Bifreiðir. Vöruflutningar. Kröfugerð.
Ákæruvaldið krafðist frávísunar frá héraðsdómi á máli þar sem X var gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið vörubifreið á tilteknum tveimur tímabilum án þess að taka sér tilskilinn vikulegan hvíldartíma. Var þetta talið varða við tiltekin ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987, reglugerðar nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins með síðari breytingum og reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum. Taldi ákæruvaldið efnislýsingu þeirra brota sem X voru gefin að sök vera í 2. mgr. 1. töluliðar 6. gr. og 3. tölulið 8. gr. fyrrnefndrar reglugerðar ráðsins. Ástæður þær sem ákæruvaldið hafði fyrir kröfu sinni um frávísun málsins taldi það felast í 4. tölulið 1. gr. sömu reglugerðar þar sem hugtakið „vika“ var skilgreint en rannsókn málsins fyrir útgáfu ákæru hefði ekki miðast við þetta. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ákæra hefði verið gefin út á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fram hefði farið og byggði rannsóknin á þeirri skýringu á efnisákvæðum umræddrar reglugerðar sem handhafi ákæruvalds hafði þá. Hafði ekki verið mælt fyrir um frekari rannsókn málsins áður en ákvörðun um útgáfu ákæru var tekin. Varð við svo búið ekki fallist á að undirbúningi undir málshöfðun hefði verið áfátt í meginatriðum, sbr. 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var X því sýknaður af kröfum ákæruvalds.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess nú krafist að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
Ákærði krefst sýknu.
Með ákæru 20. apríl 2004 var ákærða gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið vörubifreiðinni [...] annars vegar á tímabilinu frá 11. maí 2002 til 17. sama mánaðar samfellt í 7 daga „án þess að taka sér tilskilinn vikulegan hvíldartíma“ og hins vegar á tímabilinu frá 5. júní 2002 til 13. sama mánaðar samfellt í 9 daga „án þess að taka sér tilskilinn vikulegan hvíldartíma.“ Var þetta talið varða við þágildandi 6. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins með síðari breytingum, sbr. reglugerðir nr. 658/1998, 768/2000 og 851/2000 um breytingar á þeirri reglugerð og 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum. Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt þann akstur sem var tilefni ákærunnar.
Við málflutning fyrir Hæstarétti leiðrétti ákæruvaldið heimfærslu þeirra brota sem ákærða eru gefin að sök og taldi efnislýsingu þeirra vera í 2. mgr. 1. töluliðar 6. gr. og 3. tölulið 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85.
Ástæður þær sem ákæruvaldið hefur fyrir kröfu sinni um frávísun málsins frá héraðsdómi telur það felast í 4. tölulið 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85. Þar segi að merking hugtaksins „vika“ sé tímabilið „frá kl. 00.00 á mánudegi til kl. 24.00 á sunnudegi“. Verði að meta hverja slíka viku sérstaklega, þegar tekið sé til athugunar, hvort brotið hafi verið gegn 3. tölulið 8. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt fyrri lið ákærunnar hafi akstur ákærða staðið frá laugardegi til föstudags en samkvæmt hinum síðari frá miðvikudegi til fimmtudags vikuna á eftir. Rannsókn málsins fyrir útgáfu ákæru hafi ekki miðast við þetta og beri því með vísan til 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að vísa málinu frá héraðsdómi.
Svo sem að framan greinir hefur ákæruvaldið ekki krafist staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms. Ákæra var gefin út á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fram hafði farið og byggði rannsóknin á þeirri skýringu á efnisákvæðum umræddrar reglugerðar sem handhafi ákæruvalds hafði þá. Honum hefði verið í lófa lagið að mæla fyrir um frekari rannsókn málsins, áður en ákvörðun um útgáfu ákæru yrði tekin. Það gerði hann ekki heldur var ákæra gefin út með sakargiftum um að ákærði hefði með akstri sínum gerst sekur um brot gegn hinum tilvitnuðu reglugerðarákvæðum. Ekki verður við svo búið fallist á að undirbúningi undir málshöfðun hafi verið áfátt í meginatriðum, svo sem það er orðað í 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991. Ef fallist yrði á ástæður ákæruvalds fyrir kröfu um frávísun málsins frá héraði myndu þær því leiða til sýknu af sakargiftum ákærunnar en ekki frávísunar frá héraðsdómi. Með hliðsjón af þessu sem og því, að ákærði krefst sýknu, verður hann sýknaður af kröfum ákæruvalds, án þess að leysa þurfi frekar úr sakaratriðum málsins.
Eftir þessum úrslitum ber að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvalds.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Jónasar Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. september 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. september s.l., hefur lögreglustjórinn á Akureyri höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru, útgefinni 20. apríl 2004, á hendur X [...];
„fyrir umferðarlagabrot hér á landi á árinu 2002 við akstur vöruflutninga-bifreiðarinnar [...].
A.
Ekið samfellt í 7 daga á tímabilinu frá 11. maí 2002 til 17. maí 2002, án þess að taka sér tilskilinn vikulegan hvíldartíma.
B.
Ekið samfellt í 9 daga á tímabilinu 5. júní 2002 til 13. júní 2002, án þess að taka sér tilskilinn vikulegan hvíldartíma.
Telst þetta varða við 6. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 og 1. gr. reglugerðar um akstur og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 136, 1995, sbr. reglugerð nr. 658, 1998, reglugerð nr. 768, 2000 og reglugerð nr. 851, 2000 og 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutning á vegum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði einungis gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hdl.
Bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi hefur ákærði viðurkennt þá háttsemi sem honum er að sök gefin í ákæru, þ.e. að hafa annars vegar ekið bifreiðinni samfellt í 7 daga frá 11. maí til 17. maí 2002, án þess að taka tilskilinn hvíldartíma, og hins vegar að hafa ekið samfellt í 9 daga á tímabilinu 5. júní til 13. júní 2002, án þess að taka sér tilskilinn hvíldartíma, en aksturstími hafi verið misjafnlega langur frá degi til dags.
Með framangreindri háttsemi sinni braut ákærði skýr ákvæði þeirra laga og reglugerða sem upp eru talin í ákæru og skiptir þá eigi máli hversu langur aksturstími hans var hvern dag né hvernig hvíldartíma hans var háttað utan hinna samfelldu akstursdaga.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki gerst sekur um refsivert hátterni áður.
Við ákvörðun refsingar þykir mega taka tillit til hins langa tíma er liðið hefur frá brotinu og þar til ákært var í málinu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin kr. 25.000 í sekt til ríkissjóðs og komi 3 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.
Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jónasar Þórs Jónassonar hdl., kr. 60.000.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, greiði kr. 25.000 í sekt til ríkissjóðs og komi 3 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jónasar Þórs Jónassonar hdl., kr. 60.000.