Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 2. maí 2000. |
|
Nr. 170/2000. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir settur saksóknari) gegn Herbirni Sigurmarssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að H skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess, að ákærða Herbirni Sigmarssyni, kt. 141163-5239, Iðufelli 10, Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16.00.
Með ákæru ríkissaksóknara 17. þ.m. var höfðað opinbert mál á hendur ákærða o.fl., þar sem honum er gefið að sök að hafa í september 1999, í samvinnu við meðákærða Gunnlaug Ingibergsson, flutt inn frá Danmörku með skipi skipafélagsins Samskipa hf. um 7 kg af kannabis, sem fundust við leit lögreglu og tollgæslu 9. september sl. Þá er ákærða gefið að sök að hafa frá ársbyrjun 1998 til september 1999, í samvinnu við meðákærða Gunnlaug, í um 23 skipti á sama hátt flutt inn samtals um 152 kg af kannabis. Fíkniefnin hafi þeir selt meðákærðu Júlíusi Kristófer Eggertssyni, Sverri Þór Gunnarssyni og Ólafi Ágústi Ægissyni o.fl. og hafi þeim verið kunnugt um, að kaupendur efnanna ætluðu þau til frekari sölu hérlendis. Er brot ákærða talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Fyrir liggur sterkur grunur um, að kærði hafi framið brot, sem varðað getur hann allt að 10 ára fangelsi. Um er að ræða ákæru fyrir stórfellt fíkniefnamisferli, en umræddur innflutningur er í ákæru talinn hafa átt sér stað með skipulögðum hætti hátt á annað ár. Brot það, sem ákærða er gefið að sök, er þess eðlis að telja má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, hæstaréttardóms í máli kærða frá 20. mars sl. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er fallist á kröfu ríkissaksóknara, eins og hún er fram sett.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, Herbjörn Sigmarsson, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 28. júní nk. kl. 16.00.