Hæstiréttur íslands

Mál nr. 679/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Hildur Sunna Pálmadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Eggert Páll Ólason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. liður 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 klukkan 12. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur laugardaginn 28. október 2017

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir þá kröfu að kærða X, fd. [...], verði gert að sæta farbanni, allt til föstudagsins 24. nóvember nk., kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar ætlað kynferðisbrot kærða, X gagnvart 16 ára gamalli stúlku, A. Samkvæmt frumskýrslu hafi lögreglu borist tilkynning um meint kynferðisbrot á [...]. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi brotaþoli verið farin. Hafi lögregla rætt við B vinkonu brotaþola sem hafi sagt að brotaþoli hefði sagt sér að henni hefði verið nauðgað inni á klósetti. B hafi hringt í brotaþola og vísað lögreglu á hana þar sem hún hafi verið utan við skemmtistaðinn [...] ásamt systur sinni sem hún hafi sent skilaboð skömmu eftir að ætlað brot hafi átt sér stað. Brotaþoli hafi í fyrstu ekki þiggja aðstoð lögreglu en fallist loks á að fara með lögreglu á bráðamóttöku í Fossvogi þar sem hún hafi gengist undir skoðun.

                Í frumskýrslu lögreglu komi fram að á skemmtistaðnum [...] hafi lögreglan reynt að ræða við C vinkonu brotaþola en hún hafi verið í svo miklu uppnámi og ekki hafi verið hægt að ná sambandi við hana sökum ástands. Rætt hafi verið við D og E sem hafi haft sömu sögu að segja, að brotaþoli hafi komið til þeirra í uppnámi og sagt að sér hefði verið nauðgað inni á salerni skemmtistaðarins og hafi hún bent þeim á erlendan aðila inni á staðnum sem geranda. Hún hafi sýnt þeim rifnar buxur og nærbuxur og sagst vera að reyna að ná í systur sína.

Kærði hafi verið handtekinn inni á skemmtistaðnum og honum kynnt sakarefnið. Hafi hann sagst hafa hitt brotaþola á barnum og að þau hafi farið saman á salernið á staðnum og stundað samfarir þar. X kvaðst ekki hafa þvingað A til samfara heldur hafi gagnkvæmt samþykki legið þeirra á milli. Þau hafi svo haldið hvort í sína áttina. Hann hafi síðar um kvöldið tekið eftir því að stúlkan hafi virst  niðurlút. Hann hafi spurt hana út í líðan hennar og reynt að hugga hana en vinkonur hennar hafi þá ásakað hann um nauðgun. Hann hafi í kjölfarið lent í miklum ágreiningi við vini stúlkunnar sem hafi endað þegar að lögreglan hafi komið á vettvang.

Í greinargerðinni kemur fram að brotaþoli lýsi atvikum með þeim hætti að hún hafi verið á skemmtistaðnum [...] ásamt vinkonum sínum B og C. Þær hafi verið að dansa á efri hæðinni og haft gaman þegar eldri karlmaður c.a. 35-40 ára hafi komið til þeirra og farið að dansa með þeim. Í fyrstu hafi hún sagt honum að hún væri tvítug en leiðrétt það strax og sagt að hún væri sextán ára. Þau hafi svo farið að kyssast á dansgólfinu. Hún hafi svo farið á barinn ásamt vinkonum sínum og maðurinn á eftir. Hann hafi boðið þeim upp á skot og hún tekið tvö til þrjú skot með manninum. Hún hafi svo allt í einu verið komin með manninum inn á klósett, en muni  ekki hvernig það hafi gerst. Maðurinn hafi læst hurðinni. Brotaþoli muni eftir því að maðurinn hafi verið að kyssa hana og sleikja hana en hún hafi fært andlitið frá og ekki kysst á móti. Hún hafi staðið upp við vegg og hafi hann losað samfelluna og losað buxurnar með því að kippa beltinu burtu og þess vegna hafi buxurnar hennar rifnað. Hún hafi svo verið með buxurnar á hælunum. Þetta hafi gerst hratt og hún ekki vitað hvað hún ætti að gera. Hafi hún ekki sagst hafa verið svo ölvuð, en að hún hafi bara frosið. Maðurinn hafi sleikt á henni kynfærin. Hún hafi ekki viljað þetta heldur staðið bara frosin. Hún hafi sigið niður í gólfið. Þegar hún hafi verið komin í gólfið hafi  maðurinn snúið henni við þannig að hún hafi legið á maganum með andlitið í gólfinu. Hann hafi „puttað“ hana og það hafi verið mjög vont. Hún hafi sagt “ái“ og „þetta er vont” og reynt að ýta höndum hans frá. Það hefði ekki átt að fara fram hjá manninum að hún hafi ekki viljað þetta. Hann hafi svo haft samfarir við hana í leggöng. Hún haldi að hann hafi ekki notað verjur og að hann hafi ekki haft sáðlát. Brotaþoli lýsi því svo að hún hafi verið alveg að fara að gráta en ákveðið að reyna að finna afsökun og hafi sagst þurfa að pissa. Hann hafi stoppað eftir smá stund og hjálpað henni að binda samfelluna. Hún hafi svo farið beint fram. Meðan brotaþoli hafi verið inni á klósetti hafi hún heyrt að vinkonur hennar hafi verið að kalla á hana og reyna að komast inn. Hún hafi svo farið beint inn á næsta klósett við hliðina, þar sem að hún hafi farið að gráta og sent skilaboð til systur sinnar um það sem gerst hefði. B vinkona brotaþola hafi komið inn á klósettið til hennar og hafi hún sagt henni frá því sem gerðist. Hún hafi því næst farið inn á barinn og látið sem ekkert hafi gerst en verið alveg að fara að gráta. Hún hafi svo farið út til systur sinnar sem hafi verið að vinna á bar skammt frá  og hafi lögreglan komið til þeirra hjá [...].

Tekin hafi verið skýrsla af F systur brotaþola. Brotaþoli hafi sent henni mynd og skilaboð kl. 04.03 um að hún haldi að sér hafi verið nauðgað.

Þá hafi verið tekin skýrsla af kærða sem haldi því fram líkt og haft sé eftir honum í frumskýrslu lögreglu og fram hafi komið að hann hafi ekki þvingað stúlkuna til samræðis heldur hafi gagnkvæmt samþykki legið fyrir af hálfu bæði hans og stúlkunnar. Lýsi hann því að hún hafi haft frumkvæði af þeirra samskiptum frekar heldur en hann og hún hafi m.a. togað hann inn á salerni skemmtistaðarins. Sé þannig mikið misræmi í framburði aðila sem krefjist frekari rannsóknar lögreglu.

Farið sé fram á að kærði verði úrskurðaður í farbann á grundvelli 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sé á því byggt að skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga séu uppfyllt. Kærði sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem varði fangelsisrefsingu, en til rannsóknar sé ætlað brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða sé gefið að sök kynferðisbrot gegn 16 ára stúlku með því að hafa þvingað hana til að hafa samræði við sig, gegn vilja hennar, með því að notfæra sér yfirburða stöðu sína gagnvart stúlkunni, sér í lagi vegna aldurs og þroskamunar.

Í greinargerðinni kemur fram að kærði sé norskur ríkisborgari og dvelji hér sem ferðamaður en áætlað hafi verið að hann færi til Noregs á morgun. Að öðru leyti hafi hann engin tengsl við landið. Sæti hann ekki farbanni megi ætla að hann reyni að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati lögreglu sé brýnt að tryggja nærveru hans meðan mál hans sé til rannsóknar og annarrar meðferðar hjá yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, sé þess krafist að hann sæti farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða

Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, krefst þess að kærði sæti farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Tilefni kröfugerðarinnar er rakið í greinargerð sóknaraðila en efni hennar hefur verið lýst. Samkvæmt 100. gr. fyrrgreindra laga er það skilyrði þess að fallast megi á kröfu sóknaraðila um farbann að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Auk þess verður eitthvert þeirra sérstöku skilyrða sem rakin eru í fjórum stafliðum í greininni að vera fyrir hendi.

Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins og fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um kynferðisbrot sem varðað getur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Sannist sök varðar brot af þessu tagi eins til sextán ára fangelsi. Almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt.

Krafa sóknaraðila er á því reist að skilyrði b-liðar greinarinnar sé einnig fyrir hendi. Samkvæmt þeim tölulið má beita gæsluvarðhaldi ef ætla má að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi hefur kærði, sem er norskur ríkisborgari, verið á ferðalagi hér á landi og var fyrirhuguð heimför hans áætluð á morgun. Í þessu ljósi er á það fallist að framangreindu skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé uppfyllt.

Ekki eru efni til að hnekkja mati sóknaraðila um nauðsyn þess að tryggja nærveru kærða hér á landi með farbanni vegna rannsóknar málsins hér á landi. Hins vegar þykir dómnum ekki ástæða til að kærða verði gert að sæta farbanni eins lengi og krafa er gerð um miðað við framlögð rannsóknargögn. Verður kærða gert að sæta farbanni til miðvikudagsins 8. nóvember nk. kl. 12:00.

                Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, fæddur [...], skal sæta farbanni allt til miðvikudagsins 8. nóvember nk., kl. 12:00.