Hæstiréttur íslands

Mál nr. 250/2005


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Áfengislagabrot
  • Umferðarlagabrot
  • Skilorðsrof
  • Sönnunarfærsla


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. nóvember 2005.

Nr. 250/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Herði Má Lútherssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Áfengislagabrot. Umferðarlagabrot. Skilorðsrof. Sönnunarfærsla.

H var í héraði sakfelldur fyrir vopnalagabrot, áfengislagabrot, ýmis umferðarlagabrot og fíkniefnabrot, auk hegningarlagabrots. Með héraðsdómi hlaut hann tveggja ára fangelsisdóm, en með dóminum var dæmdur upp 20 mánaða skilorðsdómur, er H hlaut í október 2002. Með héraðsdómi var H meðal annars sakfelldur fyrir að hafa í blekkingarskyni notað skráningarmerki annarrar bifreiðar á bifreið er hann ók án ökuréttinda. H játaði að hafa ekið bifreiðinni án ökuréttinda en neitaði að hafa notað skráningarmerkið með þeim hætti sem greindi í ákæru. Hann kom ekki fyrir dóm við aðalflutning málsins. Í dómi Hæstaréttar var talið, með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála, að sakfelling H yrði ekki reist á því sem skráð var eftir honum í lögregluskýrslu, nema önnur atriði styddu þann framburð í verulegum atriðum. Talið var að ekki nyti neinna annarra sönnunargagna við í málinu um að H hafi notað umræddar númeraplötur í blekkingarskyni. Var hann því sýknaður af broti gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga. Með brotum sínum rauf H skilorð fyrrnefnds dóms frá 2002, en ástæða skilorðsbindingarinnar í þeim dómi var sá mikli dráttur sem orðið hafði á málinu hjá ákæruvaldi. Talið var, að við refsiákvörðun nú gæti ekki skipt máli hvaða ástæður lágu til þess að skilorð var dæmt í hinu fyrra máli. Með hliðsjón af fyrrgreindri breytingu á sakfellingu H en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, var refsing H ákveðin fangelsi í 22 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. júní 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu, ákvörðun refsingar, upptöku og sviptingu ökuréttar.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákærðulið I í ákæru 3. janúar 2005. Að öðru leyti krefst hann þess að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.

I.

Í lið I í ákæru 3. janúar 2005 er ákærða gefið að sök að hafa aðfararnótt miðvikudagsins 2. júní 2004 í blekkingarskyni notað skráningarmerkið KR-919 á bifreiðina TU-490 og án þess að hafa ökuréttindi ekið henni úr Breiðholtshverfi, uns lögregla stöðvaði aksturinn við gatnamót Klapparstígs og Grettisgötu. Er þetta talið varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 17. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi, sem þótti réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Á dómþingi í málinu 23. mars 2005 var þetta ákæruefni meðal annars borið undir ákærða. Þá var bókað eftir honum: „Ákærði játar að hafa ekið bifreið þeirri sem greinir í þessum ákærulið án þess að hafa ökuréttindi en neitar að hafa notað skráningarmerki KR-919 með þeim hætti sem greinir í ákærunni.“ Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi kom ákærði ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Var sakfelling hans um þetta ákæruefni byggð á framburði lögreglumanns fyrir dómi, sem þótti eiga sér stoð í frumskýrslu lögreglu og gögnum málsins að öðru leyti.

Í nefndri frumskýrslu lögreglu, þegar ákærði var stöðvaður við akstur bifreiðar, sem skráð er í eigu annars manns, er skráð að hann hafi sagst hafa sett skráningarnúmerin KR-919 sjálfur á bifreiðina, eftir að lögregla hefði fjarlægt númer sem á henni hefðu verið. Hefði hann fengið þessi númer hjá kærustu sinni en hún væri skráð fyrir bifreið sem með réttu ætti að bera þessi númer. Tveir lögreglumenn skrifa undir þessa skýrslu. Annar þeirra kom fyrir dóm og bar að ákærði hefði á staðnum, eftir að bifreiðin hafði verið stöðvuð, viðurkennt að hafa skipt á númeraplötum. Þegar ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 25. nóvember 2004 sagði hann hins vegar að vinur hans, sem hann ekki vildi tilgreina hver væri, hefði sett merkin á bifreiðina.

Með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður sakfelling ákærða ekki reist á því sem skráð er eftir honum í lögregluskýrslu, nema önnur atriði styðji þann framburð í verulegum atriðum. Í málinu nýtur ekki neinna annarra sönnunargagna um að ákærði hafi notað umræddar númeraplötur í blekkingarskyni. Verður hann því sýknaður af broti gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga en sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann játaði fyrir dómi, að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn án ökuréttar. Er það brot réttilega fært til refsiákvæða í ákæru.

II.

Að því er snertir kröfu ákærða um mildun refsingar og skilorðsbindingu hennar vísar hann aðallega til þess, að 20 mánaða fangelsisrefsingin, sem honum var gerð með dómi 21. október 2002, hafi verið skilorðsbundin í 3 ár með þeim rökum, að mikill dráttur hefði orðið hjá ákæruvaldinu á meðferð þess máls. Sé í forsendum dómsins vísað til þess að um fíkniefnabrot hafi verið að ræða, sem framið hafi verið í desember 2000. Rannsókn þess hafi verið lokið í sama mánuði, en ákæra ekki gefin út fyrr en 8. maí 2002. Var framkvæmd refsingarinnar frestað vegna þessa mikla dráttar sem orðið hefði á málinu hjá ákæruvaldinu. Ákærði telur að með því að ákveða nú þessa refsingu í einu lagi með refsingu í þessu máli, svo sem gert hafi verið í héraðsdómi samkvæmt 60. gr. sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga, sé hann ekki lengur látinn njóta þeirrar ákvörðunar um skilorðsbindingu eldri dómsins sem þá hafi verið tekin vegna seinagangs í málsmeðferðinni.

Á þessi sjónarmið ákærða verður ekki fallist. Svo sem fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms rauf ákærði skilorð dómsins frá 2002 með brotum þeim sem hann er sakfelldur fyrir í þessu máli, sem raunar eru að hluta til sams konar og brot ákærða í desember 2000, sem dæmt var um þá og fyrr er getið. Við refsiákvörðun nú getur ekki skipt máli hvaða ástæður lágu til þess að skilorð var dæmt í hinu fyrra máli.

III.

Með hliðsjón af fyrrgreindri breytingu á sakfellingu ákærða, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 22 mánuði. Ákærði hefur ekki krafist endurskoðunar á ákvæðum hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar og upptöku.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Hörður Már Lúthersson, sæti fangelsi í 22 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar og upptöku skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 561.082 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur, og skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2005.

Mál þetta var höfðað með ákærum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 7. desember 2004, 3. janúar 2005 og 1. febrúar 2005, á hendur Herði Má Lútherssyni, kt. 280679-3999, Jörfabakka 12, Reykjavík.

Ákæra dags. 7. desember 2004:

      ,,Fyrir eftirtalin brot:

I.

Vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 19. febrúar 2003 átt skotvopn (litkúlubyssu) af gerðinni Inferno, framleiðslunúmer E 013063, án þess að hafa skotvopnaleyfi, en lögregla fann og lagði hald á vopnið við húsleit á þáverandi heimili ákærða að Álftahólum 6, Reykjavík.

M. 010-2003-04458

Telst þetta varða við 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

II.

Áfengislagabrot, með því að hafa á ótilgreindu tímabili til og með 19. febrúar 2003 á þáverandi heimili sínu að Álftahólum 6, Reykjavík, framleitt allt að 125 lítra af gambra (styrkleiki 10%), sem lögreglan fann við húsleit fyrrgreindan dag.

M. 010-2003-04458

Telst þetta varða við varða við a-lið 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998.

III.

Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið eftirtöldum bifreiðum án þess að hafa öðlast ökuréttindi:

1. Að morgni föstudagsins 12. mars 2004 ekið bifreiðinni KY-454 austur Reykjanesbraut, uns lögregla stöðvaði aksturinn til móts við Ásvelli í Hafnarfirði.

M. 036-2004-01315

2. Aðfaranótt þriðjudagsins 23. mars 2004 ekið bifreiðinni OE-122 austur Ártúnsbrekku í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði akstur hans skammt vestan við þjónustustöð Esso á Ártúnshöfða.

M. 010-2004-06488

3.  Að kvöldi miðvikudagsins 16. júní 2004 ekið bifreiðinni MT-343 suður Breiðhöfða í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði akstur hans skammt undan gatnamótum Breiðhöfða og Bíldshöfða.

M. 010-2004-14496

4.  Föstudaginn 2. júlí 2004 ekið bifreiðinni ME-343 suður Gilsbúð í Garðabæ, uns lögregla stöðvaði akstur hans við Gilsbúð nr. 9.

M. 036-2004-03352

5.  Aðfaranótt laugardagsins 28. ágúst 2004, án þess að hafa öðlast ökuréttindi, ekið bifreiðinni MO-395 norður Arnarbakka í Reykjavík án þess að hafa lögboðin ökuljós bifreiðarinnar tendruð, uns lögregla stöðvaði akstur hans.

M. 010-2004-20418

Teljast brotin í lið III varða við 1. mgr. 48. gr. og brotið í lið III,5 auk þess við 1. mgr. 32. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

IV.

Fíkniefna- og umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 3. október 2004 ekið bifreiðinni KN-500 án þess að hafa öðlast ökuréttindi að bifreiðastæði við Yrsufell 7 í Reykjavík, bakkað bifreiðinni út af bifreiðastæðinu aftur og jafnframt haft í vörslum sínum 0,39 g af marihuana, sem ákærði henti frá sér er lögregla hafði afskipti af honum.

M. 010-2004-23098

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga og  2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að framangreint vopn verði gert upptækt skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga og jafnframt að ofangreint fíkniefni verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.”

Ákæra dags. 3. janúar 2005.

,,Fyrir eftirtalin brot, framin í Reykjavík á árinu 2004:

I.

Hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 2. júní í blekkingarskyni notað skráningarmerkið KR-919 á bifreiðina TU-490 og án þess að hafa ökuréttindi ekið henni úr Breiðholtshverfi, uns lögregla stöðvaði aksturinn við gatnamót Klapparstígs og Grettisgötu.

M. 010-2004-12993.

Telst þetta varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 17. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

II.

Umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 8. júlí ekið bifhjólinu NV-883 án ökuréttinda og ófær um að stjórna því örugglega vegna mikilla áhrifa amfetamíns og slævandi lyfja frá Jörfabakka 12 og svo óvarlega um Arnarbakka að hann missti stjórn á hjólinu og kastaðist af því.

M. 010-2004-16252.

Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.”

Ákæra dags. 1. febrúar 2005.

,,Fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2004:

I.

Áfengislagabrot, með því að hafa á ótilgreindu tímabili fram til 9. febrúar að Karlagötu 17 í Reykjavík framleitt 20 lítra af gambra (styrkleiki 13%) sem lögregla fann og lagði hald á við húsleit.

M. 010-2004-03006

Telst þetta varða við a-lið 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998.

II.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 31. október flutt hingað til lands frá Hollandi 5,53 g af hassi og 0,51 g af marihuana falið í líkama sínum, en ákærði var handtekinn við komu til Keflavíkurflugvallar og lagði lögregla hald á efnið síðar sama dag er það kom úr líkama hans.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 5,53 g af hassi og 0,51 g af marihuana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Málavextir.

Ákæra dagsett 7. desember 2004.

Ákærði hefur játað sakargiftir samkvæmt ákæruliðum III og IV, en varðandi ákærulið I, kvað ákærði að litkúlubyssa sú sem þar greinir hafi verið ónothæf. Varðandi ákærulið II kvaðst ákærði ekki átta sig á magni gambrans sem greinir í ákærulið II. Játning ákærða á þeirri háttsemi er greinir í ákæruliðum III og IV samrýmist gögnum málsins og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákæruliður I.

Málsatvik.

Við húsleit hjá ákærða 19. febrúar 2003 fannst litkúlubyssa af gerðinni Inferno, framleiðslunúmer E 013063, en ákærði hefur ekki skotvopnaleyfi. Samkvæmt skýrslu rannsóknardeildar lögreglunnar er hlaupvídd byssunnar 17 mm og lengd hlaups 22 cm. Ofan á byssunni við hlaupið er 22 mm gat fyrir hleðslu og á þetta gat er fest skotfærageymsla. Neðst á afturhluta handskeftis byssunnar er skrúfgangur, 21 mm snitti til festinga fyrir loftkút, sem sér um endurhleðslu skotfæranna. Frá skeftinu þar sem loftkúturinn er festur er stálleiðsla fyrir loftflæði undir þrýstingi fyrir hleðsluna. Ekki var hægt að mæla þrýsting lofts sem notað er við að þrýsta kúlunni út úr hlaupinu. Í skýrslunni kemur fram að framleiðandi mæli með andlitshlífum við notkun á litkúlubyssum sem þessari.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna um ákærulið þennan.

Ákærði kvað litkúlubyssu þá sem greinir í ákæru hafa verið ónothæfa.

Vitnið, Kristján Kristjánsson lögreglumaður, kvað ekki hafa verið unnt að prófa virkni byssunnar, en hún hafi ekki borið þess merki að hún væri biluð. Vitnið kvað ástæðu þess að ekki var unnt að prófa virkni byssunnar hafa verið þá að lögregla ætti ekki búnað til að fylla á loftkútinn, en engar kúlur hafi verið í byssunni. Vitnið kvað byssuna ónothæfa þegar enginn þrýstingur sé á henni, og gaskúturinn tómur.

Vitnið, Húnbogi Jóhannsson lögreglumaður, kvað sig minna að byssan hafi verið ónothæf og ekki unnt að skjóta úr henni þegar hún var haldlögð og gashylkið tómt.

Niðurstaða.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 16/1998 er skotvopn skilgreint sem vopn eða tæki sem hægt er, með sprengikrafti, samanþjöppuðu lofti eða á annan sambærilegan hátt, að skjóta úr kúlum, höglum eða öðrum skeytum. Sannað er með framburði ofangreindra vitna að umrædd byssa var ónothæf þegar hún var haldlögð, þar sem gaskúturinn var tómur og enginn þrýstingur á henni. Engu að síður er ljóst að byssa þessi fellur undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. laga nr. 16/1998 á skotvopni, sem leyfi þarf til að eignast, sbr. 1. mgr. 12. gr. skotvopnalaga, en ákærði hefur ekki slíkt leyfi. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í þessum ákærulið og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákæruliður II

Málsatvik.

Við húsleit hjá ákærða 19. febrúar 2003 fannst blá síldartunna og tók lögregla sýni úr tunnunni, en grunur lék á að hún innihéldi landa. Samkvæmt sýnum úr innihaldi hennar var um að ræða gulleitan gerjandi vökva, gambra, og magn etanóls í vökvanum 10%. Ákærði hefur viðurkennt að í tunnunni hafi verið gambri, en kvaðst ekki átta sig á því hvort rétt sé greint frá magni gambrans í ákæru.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2003 kvað ákærði að brugg hefði verið í tunnunni og að í tunnunni hefðu verið um 125 lítrar. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 27. nóvember 2003 kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við athugun Rannsóknarstofu Háskóla Íslands á etanólmagni vökvans og kvaðst hann telja að innihald tunnu þeirrar er fannst á heimili hans 19. febrúar 2003 hafi verið um 115-120 lítrar en ekki 125 lítrar, þar sem tunnan hefði ekki verið alveg full.

Vitnið, Húnbogi Jóhannsson lögreglumaður, bar fyrir dómi að umrædd gambratunna hafi verið haldlögð, en lögreglan hafi losað innihaldið úr tunnunni á vettvangi. Verjandi ákærða hafi verið á staðnum og ákærði hafi sjálfur sagt að tunnan innihéldi tiltekið magn. Lögregla hafi haft samband við innflytjanda þann sem sjái um innflutning á sams konar tunnum og fengið upplýsingar um hversu mikið magn slíkar tunnur rúmuðu. Að því loknu hafi verið dregin ályktun um það hversu mikill gambri hafi verið í tunnunni umrætt sinn, en hún hafi verið nánast full er lögregla lagði hald á gambrann. Tveir lítrar vökvans sem var í tunnunni hafi verið teknir til alkóhólrannsóknar. Vitnið staðfesti að það hefði tekið skýrslur af ákærða 20. febrúar 2003 og 27. nóvember 2003.

Niðurstaða.

Ákærði kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en við þingfestingu þess kvaðst hann ekki ,,átta sig á magni gambrans” sem ákært er fyrir.

Ákærði var yfirheyrður tvisvar hjá lögreglu um þennan þátt málsins, fyrst 20. febrúar 2003, en þá kvað hann að í gambratunnunni hefðu verið 125 lítrar af gambra. Við síðari yfirheyrslu hjá lögreglu kvað ákærði að í tunnunni hefðu verið 115-120 lítrar, þar sem tunnan hefði ekki verið alveg full.

Vitnið, Húnbogi Jóhannsson, kvað umrædda tunnu hafa verið haldlagða, en hún hefði verið nánast full af gambra, sem hellt hefði verið niður á vettvangi. Vitnið kvað að upplýsinga hefði verið aflað hjá innflytjanda sams konar tunna, um hversu mikið magn slíkar tunnur rúmuðu og einnig hefði ákærði gefið upp á vettvangi tiltekið magn af gambra, og hefði lögregla gengið út frá því að það væri magn gambrans í tunnunni. Þegar framangreint er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að í umræddri gambratunnu hafi verið allt að 125 lítrar af gambra og er ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákærulið II og er háttsemi hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákæra dagsett 3. janúar 2005.

Ákærði hefur játað sakargiftir samkvæmt ákærulið II og samrýmist játning hans gögnum málsins og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða. Ákærði hefur játað því að hafa ekið án ökuréttinda eins og greinir í ákærulið I, en neitað því að hafa notað skráningarmerkið KR-919 með þeim hætti sem greinir í ákæru.

Ákæruliður I.

Málsatvik.

Í frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 2. júní 2004 kemur fram að för ákærða, sem ók bifreiðinni KR-919, hafi verið stöðvuð á gatnamótum Klapparstígs og Grettisgötu, umræddan dag. Ákærði hafi sagt að hann hefði sett skráningarnúmerin KR-919 sjálfur á bifreiðina, eftir að lögregla hefði fjarlægt gömlu númerin, en raunverulegt skráningarnúmer bifreiðar þeirrar er ákærði ók umrætt sinn er TU-490.

Vitnið, Haraldur Logi Hringsson lögreglumaður, bar fyrir dómi að lögregla hefði verið að fylgjast með ákærða í nokkurn tíma áður en för hans var stöðvuð umrætt sinn, vegna gruns um að bifreið sú sem ákærði ók umrætt sinn væri með röng skráningarmerki. Lögregla hafi svo mætt ákærða á bifreiðinni, en lögregla hafi vitað að ákærði væri án ökuréttinda. Lögregla hafi rætt við ákærða og kynnt tilefni þess. Ákærði hefði verið mjög rólegur er lögregla ræddi við hann og hefði hann strax viðurkennt að hann hefði skipt á númeraplötum og sett  númeraplötu KR 919 á bifreiðina sem hann ók, en sú bifreið hefði áður verið númerslaus. 

Ákærði kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en við þingfestingu þess neitaði ákærði því að hafa notað skráningarmerkið KR-919 með þeim hætti sem greinir í ákæru. Ákærði játaði fyrir dómi að hafa ekið bifreiðinni án ökuréttinda.

Með framburði vitnisins Haraldar Loga Hringssonar, sem á sér stoð í frumskýrslu lögreglu og gögnum málsins að öðru leyti, er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærulið þessum greinir og er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæra dagsett 1. febrúar 2005.

Ákærði hefur játað sakargiftir samkvæmt ákærulið II og samrýmist játning hans gögnum málsins og er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur efasemdir um að magn gambra hafi verið það sem greinir í ákærulið I.

Ákæruliður I.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 9. febrúar 2004 var lögregla kvödd að Karlagötu 17, Reykjavík, þann dag, en tilkynnt hafði verið um vatnsleka í íbúðinni. Tilkynnandi hafi tjáð lögreglu að mikil brugglykt hefði verið í íbúðinni og þar hafi verið bruggtunna í stofu. Leigjandi íbúðarinnar var A, kærasta ákærða. Hún tjáði lögreglu að hún ætti bruggtækin og bruggið, en afsalaði sér tunnunni með brugginu í. Ragnar Jónsson lögreglumaður, kom á vettvang og ljósmyndaði vettvang, auk þess sem hann tók tunnuna með brugginu til rannsóknar.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 25. nóvember 2004 kvaðst ákærði hafa bruggað það sem fannst í tunnunni og kvaðst ákærði hafa ætlað að drekka það sjálfur, enda hafi verið um lítið magn að ræða.

Í tæknideildarskýrslu Ragnars Jónssonar frá 25. febrúar 2004 kemur fram að lagt hafi verið hald á 30 lítra tunnu, en í henni hafi verið ætlaður gambri. Tunnan hafi verið færð á lögreglustöðina við Hverfisgötu og tekið sýni úr tunnunni. Styrkleiki gambrans hafi verið mældur með forprófi og verið 13%, en 100 ml gambrans voru mældir. Gambranum hafi verið hellt niður í niðurfall í porti lögreglustöðvarinnar. Teknar voru ljósmyndir á vettvangi af tunnunni.

Þá liggur frammi skýrsla Ragnars Jónssonar frá 12. janúar 2005, þar sem því er lýst að ætlaður gambri hafi verið í 30 lítra plasttunnu, en tunnan hafi ekki verið full. Magn vökvans hafi ekki verið mælt, þar sem ekki hafi fundist nægjanlega stórt ílát til að hella vökvanum í. Enginn mælikvarði hafi verið hafður við myndatökuna og hvorki hæð né ummál tunnunnar mælt. Þá segir í skýrslunni að ekki verði lagt mat á það magn sem í tunnunni hafi verið með neinni nákvæmni, en nokkrar líkur séu á því að magnið hafi verið meira en 20 lítrar, þar sem um 30 lítra tunnu hafi verið að ræða, sem ekki var full.

Vitnið, Ragnar Jónsson lögreglumaður, bar fyrir dómi að magn gambra í tunnunni hafi verið áætlað. Þá hafi ekki farið fram mæling á innihaldi tunnunnar á vettvangi, þar sem ekki hafi fundist nægilega stórt ílát á vettvangi til að hella vökvanum í. Tunnan hafi verið færð á lögreglustöðina, en vitnið kvaðst ekki vita hvort tunnunni hefði verið fargað, þannig að magn ætlaðs gambra hafi verið metið út frá ljósmyndum. Tekin hafi verið til skoðunar sambærileg tunna og gerðar mælingar. Vitnið taldi að í tunnunni hefðu verið um 20 lítrar, varlega áætlað.

Vitnið staðfesti undirskrift sína undir skýrslu frá 12. janúar 2005.

Niðurstaða.

Ákærði bar fyrir dómi að hann áttaði sig ekki á magni gambrans sem gerður var upptækur umrætt sinn. Í skýrslu Ragnars Jónssonar lögreglumanns, kemur fram að hvorki hafi verið mælt ummál umræddrar tunnu, né hæð hennar. Þó er fullyrt í skýrslu lögreglumannsins að um 30 lítra tunnu hafi verið að ræða. Þá var magn gambrans ekki mælt, en magnið metið út frá ljósmyndum af tunnunni. Því er ekki unnt að slá því föstu að um 30 lítra tunnu hafi verið að ræða. Ljóst er þó af ljósmyndum þeim sem liggja frammi í málinu að gambrinn var í stórri tunnu og tekið var úr tunnunni 100 ml sýni. Samkvæmt sýninu var um áfengi að ræða. Gegn neitun ákærða á því magni gambra sem ákært er fyrir í ákærulið þessum, er samkvæmt framansögðu ekki fram komin lögfull sönnun þess að magn gambrans hafi verið það sem í ákæru greinir

Fyrir liggur hins vegar að tunnan innihélt gambra og ákærði hefur eingöngu gert athugasemdir við magn gambra þess sem greinir í ákæru.

Ákærði er því sakfelldur fyrir framleiðslu á gambra á ótilgreindu tímabili fram til 9. febrúar að Karlagötu 17, Reykjavík, og varðar sú háttsemi hans við þau refsiákvæði sem í ákæru greinir.

Refsiákvörðun.

Ákærði var dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi í júní árið 2000 fyrir hilmingu, fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot. Í nóvember sama ár var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundna fyrir rán, fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot og var þá fyrri dómurinn dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Þá var ákærði á árinu 2001 tvisvar sektaður fyrir ökuhraðabrot og að aka án ökuréttinda. Í janúar 2002 var hann sektaður fyrir að aka án ökuréttinda auk fleiri umferðarlagabrota. Ákærði hlaut síðast 20 mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn í 3 ár, 21. október 2002, fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum, en með dóminum var dæmdur upp skilorðshluti dómsins frá nóvember 2000.

Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu hefur ákærði rofið skilorð síðastgreinds dóms og ber því að ákvarða refsingu ákærða með hliðsjón af 60. gr. almennra hegningarlaga og ákveða refsingu ákærða í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar verður einnig litið til þess að ákærði hefur verið samvinnuþýður við meðferð málsins og játað langmestan hluta brota sinna. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár. Þegar virtur er fjöldi brota ákærða frá því að hann hlaut skilorðsdóminn 21. október 2002, þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsingu að neinu leyti.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir 8 umferðarlagabrot, en hann hefur áður ítrekað gerst sekur um akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Með hliðsjón af framangreindu og vísan til 101. gr. umferðarlaga er ákærði sviptur ökurétti í 6 mánuði, frá birtingu dómsins að telja.

Þá eru gerð upptæk til ríkissjóðs Inferno litkúlubyssa, 0,90 g af marihuana og 5.53 g af hassi.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði allan sakarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

d ó m s o r ð:

Ákærði, Hörður Már Lúthersson, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði er sviptur ökurétti í 6 mánuði, frá birtingu dómsins að telja.

Upptækt er gert skotvopn af gerðinni Inferno, framleiðslunúmer E 013063, ásamt 0,90 g af marihuana og 5,53 g af hassi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.