Hæstiréttur íslands

Mál nr. 288/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Skip
  • Örorka
  • Miskabætur


                                                         

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010.

Nr. 288/2009.

Vilhelm Þ. Árnason 

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

Sigurði Jónssyni

(Guðmundur Pétursson hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys. Skip. Örorka. Miskabætur.        

V höfðaði mál og krafði S um bætur vegna slyss sem hann kvaðst hafa orðið fyrir við vinnu sínu um borð í m/b Agli SH-195. V kvaðst hafa runnið til og dottið og lent með mjöðm á svonefndri styttu á horni nótakassa. S taldi ósannað að slys þetta hefði átt sér stað. Með framburði vitna og læknisvitjunar V á umræddum tíma þótti sannað að V hefði orðið fyrir framangreindu vinnuslysi. Þá þóttu orsakatengsl slyssins og þeirra áverka sem leiddu til tjóns V nægilega sönnuð. V byggði bótaábyrgð S á því að tjón hans hefði verið sennileg afleiðing vanbúnaðar skipsins. Þilfar þess, þar sem hann datt, hefði verið úr sléttu áli og mjög hált og án hálkuvarnar þegar slysið varð. Talið var að skipverjum hefði verið hætt við að detta á hálu þilfari skipsins þar sem slysið varð og vinnuaðstæður hefðu verið óvenjulegar og varhugaverðar. Þilfarið hefði ekki verið búið í samræmi við fyrirmæli laga og reglna um vinnuöryggi á fiskiskipum. Þá hefði S ekki látið lagfæra þann vanbúnað sem á þilfarinu var eins og honum hefði verið skylt að gera. Fallist var á skaðabótaskyldu S og hann dæmdur til að greiða V bætur.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.221.355 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.981.890 krónum frá 5. maí 1999 til 8. maí 2000 en frá þeim degi af 10.221.355 krónum til 8. júní 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir slysi við vinnu um borð í m/b Agli SH-195 í byrjun maí 1999. Stefndi telur ósannað að slys þetta hafi átt sér stað. Áfrýjandi kveðst hafa verið á dekki við annan mann að snúa nót til að gera hana kastklára. Hann hafi verið á kúluvæng, en yfirvélstjórinn, vitnið Árni Guðjón Aðalsteinsson, hafi verið á hinum. Slysið hafi orðið með þeim hætti að hann hafi runnið til og dottið og lent með mjöðm á svonefndri styttu á horni nótakassa. Hafi hann fundið mikinn sársauka, en harkað af sér og haldið áfram vinnu. Um þremur vikum síðar, 27. maí 1999, hafi hann verið orðinn viðþolslaus og þá farið til læknis. Samskiptaseðill Heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík, ritaður af Kristni Eiríkssyni lækni, er í samræmi við þessa frásögn áfrýjanda. Vitnið Árni Guðjón bar hjá lögreglu 26. nóvember 2000, við sjópróf 12. apríl 2002 og við aðalmeðferð málsins að hann hafi séð áfrýjanda detta eins og áfrýjandi lýsir. Aðrir skipverjar voru ekki á þilfarinu, en báru um að hafa heyrt að hann hefði dottið og meitt sig og séð hann taka verkjatöflur og hafi það verið tengt við atvikið. Þykir með þessu sannað að áfrýjandi hafi orðið fyrir framangreindu vinnuslysi.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af áfrýjanda 4. september 1999 er slysið sagt hafa orðið 26. maí 1999, en í sömu skýrslu kemur einnig fram að hann hafi farið til læknis er þrjár vikur voru liðnar frá slysinu. Sama kemur fram í tilkynningu útgerðar til Tryggingarstofnunar 21. febrúar 2000. Í síðari gögnum er iðulega vísað til slysdags sem 26. maí 1999. Áfrýjandi kveðst hafa látið vita af slysinu sama dag og það átti sér stað. Hafi hann talið að það hefði verið skráð í skipsdagbók. Á dagbókarblað, sem lítur út fyrir að vera frá 26. maí 1999, er skráð að áfrýjandi hafi dottið klukkan 11.15 að morgni og meitt sig á mjöðm. Upplýst er í málinu að blað þetta stafar frá stefnda en er tilbúningur. Meðal starfsskyldna skipstjóra er að sjá til þess að skipsbækur séu færðar og varðveittar, sbr. 8. og 9. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og reglna nr. 138/1986 um skipsbækur. Í dagbók skal skrá allt er varðar ferð skips og sérstaklega skal skrá nákvæmlega um hvert það slys eða tjón, sem verða kann á skipi, mönnum, farmi eða veiðarfærum, og skal þess getið, hvað því olli, hversu það bar að og hvernig brugðist var við, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglna nr. 138/1986. Varðveita skal dagbækur skips eigi skemur en þrjú ár frá því að þær eru fullnotaðar og lengur ef mál hefur verið höfðað sem varðar upplýsingar sem þær eiga að geyma. Dagbók úr m/b Agli SH-195, í því horfi sem framangreindar reglur mæla fyrir um, hefur ekki verið framvísað og verður stefndi að bera halla af því. Eins og að framan greinir er sannað að áfrýjandi fór til læknis 27. maí 1999 og voru þá taldar um þrjár vikur liðnar frá slysinu. Þykir mega ganga út frá því að slysið hafi orðið í byrjun maímánaðar.

II

Með vottorðum fimm lækna sem útgefin eru á tímabilinu frá 13. desember 2000 til 1. mars 2005, Hauks Árnasonar, bæklunarskurðlæknis, 13. desember 2000, 14. júní 2002 og 3. maí 2005, Ragnars Jónssonar, bæklunarskurðlæknis, 27. mars 2001, Hrafns V. Friðrikssonar, yfirlæknis Heilsugæslustöðvarinnar Ólafsvík, 18. nóvember 2001, Björns Zoëga, setts yfirlæknis bæklunarskurðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss, 11. október 2004, Sigurjóns Sigurðssonar, bæklunarskurðlæknis, 1. mars 2005 og einnig með matsgerð Björns Daníelssonar, lögfræðings, og Stefáns Dalbergs, bæklunarskurðlæknis, 19. nóvember 2006 eru orsakatengsl slyssins og þeirra áverka sem leitt hafa til tjóns áfrýjanda nægilega sönnuð. Hann gekkst undir mjaðmaskiptaaðgerð og kann að hafa verið veikari fyrir í mjaðmarlið vegna kastloss sem gert var við þegar hann var 12 ára gamall, en það hafði ekki háð honum síðan. Meginorsök einkenna hans er talin mikið mar í vöðvum í kringum mjaðmarlið. Áfrýjandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans þar sem að það sé sennileg afleiðing vanbúnaðar skipsins. Þilfar þess, þar sem hann datt, hafi verið úr sléttu áli og mjög hált og án hálkuvarna þegar slysið varð.

Upplýst er að þilfarið var smíðað 1994. Ekki verður ráðið af teikningum sem lagðar eru fram í málinu hvaða efni var ráðgert að hafa á gólffleti þess. Stefndi bar fyrir dómi að upphaflega hefði ætlunin verið að hafa á því rifflað ál en horfið hefði verið frá því. Sagði hann hins vegar flesta báta vera með slétt ál á þessu vinnusvæði. Engar athugasemdir hefðu verið gerðar af hálfu Siglingastofnunar og báturinn hefði fengið haffærisskírteini. Vitnið Stefán Birgisson bar einnig að ætlunin hefði verið að setja rifflað ál á þilfarið í upphafi. Hann kvaðst á hinn bóginn ekki hafa séð svona slétt þilfar á öðrum bátum. Skipverjarnir, vitnin Árni Guðjón, Vagn Ingólfsson og Gunnar Helgi Baldursson báru á sama veg. Þeir sögðu allir að þilfarið hefði verið alveg slétt og mjög hált, hefðu menn verið að renna á því og þurft að hafa vara á sér, sögðust Stefán og Gunnar Helgi hafa dottið þar sjálfir. Vitnið Garðar Jóhannesson, skipasmiður, sagði aðspurður fyrir héraðsdómi að þetta væri afar óvenjuleg klæðning á þilfari. Framburður skipstjórnarmanna og skipverja um hvort síðar hafi staðið til að breyta þilfarinu var ekki heldur á sama veg, en hann var samhljóða um að skipið hefði verið tekið í slipp einu sinni á ári, venjulega að hausti, og þilfarið þá málað og sandborið, en málningin hefði skrapast af á einhverjum vikum. Í nýju skjali sem lagt var fyrir Hæstarétt kemur fram að rannsóknarnefnd sjóslysa hafi ekki ályktað í þessu máli, en þó bent á „að varhugavert [væri] að hafa slétta málmklæðningu á þilförum.“

Í 1. mgr. 3. gr. þágildandi laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum, sbr. nú samnefnd lög nr. 47/2003, segir að skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa á hafinu sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir að vinnusvæði skuli búa með hliðsjón af öryggi og velferð skipverja. Í 4. gr. laganna var kveðið á um að ráðherra setti reglur meðal annars um aðbúnað og vinnuaðstöðu skipverja. Í grein 9.1. I. og II. viðauka við þágildandi reglugerð nr. 785/1998 um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum var kveðið á um að vinnusvæði skyldu, bæði í nýjum og eldri skipum, meðal annars þannig búin að starfsmenn væru nægilega vel varðir gegn falli. Hvílir sú ábyrgð á skipstjóra og eigendum skipa, samkvæmt a) lið 6. gr. reglugerðarinnar, að sjá til þess að kröfur þessar séu uppfylltar og komi í ljós gallar sem geti haft áhrif á öryggi og/eða heilsu starfsmanna að láta lagfæra þá eins fljótt og auðið er. Samkvæmt grein 1.7 þágildandi reglna nr. 414/1995 um vinnuöryggi á fiskiskipum 15 metra og lengri var skylt að gera ráðstafanir til þess að draga úr hálku á þilfari til dæmis með stállistum eða á annan viðurkenndan hátt að mati Siglingastofnunar ríkisins.

Nægilega er fram komið í máli þessu að skipverjum hafi verið hætt við að detta á sléttri og hálli álklæðningu vinnuþilfars skipsins þar sem slysið varð og að vinnuaðstæður þessar hafi verið óvenjulegar og varhugaverðar. Var þilfarið ekki búið í samræmi við framangreind fyrirmæli laga og reglna sem varða vinnuöryggi á fiskiskipum og mæla fyrir um að vinnusvæði skuli þannig gerð að skipverjar séu varðir fyrir falli svo sem kostur er. Breytir engu um þetta þó að skipið hafi fengið haffærisskírteini.

Í 12. gr. þágildandi reglugerðar nr. 786/1998 um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum voru fyrirmæli um að sérhver starfsmaður væri ábyrgur fyrir því að gæta eigin öryggis og heilsu eftir því sem hann hafi tök á. Áfrýjandi og framangreind vitni, Árni Guðjón, Vagn, Stefán og Gunnar Helgi, kváðu það hafa verið ítrekað rætt um borð að úrbóta væri þörf vegna þess hversu hált þilfarið var og að yfirmönnunum, stefnda og Jens Brynjólfssyni, skráðum skipstjóra, hefði verið þetta ljóst þó að formleg aðfinnsla væri ekki sett fram. Stefndi, sem var eigandi skipsins og starfaði einnig um borð, neitaði því við aðalmeðferð málsins að skipverjar hefðu kvartað yfir því að þilfarið væri hált. Þegar honum var bent á að hann hefði við sjópróf 12. apríl 2002 kannast við að áhafnarmeðlimir hefðu rætt um að „þilfarið væri mjög hált og beinlínis varasamt eða hættulegt“, kvað hann það hafa verið sagt í sambandi við vetrarveður, ísingu og frost. Þrátt fyrir framburð skipverja neitaði Jens því að þeir hefðu kvartað yfir hálku og krafist úrbóta. Auk þess er fram komið að Jens vann oft á þilfari þegar stefndi var í brú. Þegar litið er til þess að um lítinn vinnustað er að ræða og mikil nálægð skipshafnar, þykir ljóst að skipverjar hafi komið því á framfæri með fullnægjandi hætti við yfirmenn að vinnusvæðið væri vanbúið að þessu leyti. Þá mun stefndi hafa látið sandbera þilfarið er það var málað, sem mun venjulega hafa verið einu sinni á ári. Gat honum því ekki dulist, þar sem hann sigldi að jafnaði með bátnum, að þessi ráðstöfun dugði aðeins í skamman tíma. Stefndi lét þannig hjá líða að gera nauðsynlegar og eðlilegar ráðstafanir til þess að þilfarið væri eins öruggt og það gat orðið og að láta lagfæra þann vanbúnað sem á því var, eins og honum var skylt að gera samkvæmt a) lið 6. gr. reglugerðar nr. 785/1998. Ber hann því fébótaábyrgð á því tjóni sem áfrýjandi varð fyrir er hann rann á hálum fleti þilfarsins, og verður stefndi dæmdur til þess að greiða áfrýjanda skaðabætur.

Skipið var á dragnótaveiðum þegar slysið átti sér stað og var áfrýjandi við vinnu. Ekkert er fram komið um að hann hafi borið sig rangt að við verkið eða að orsök slyssins hafi verið önnur en vanbúnaður gólfflatarins. Verður því ekki fallist á með stefnda að áfrýjandi eigi sjálfur einhverja sök á tjóninu.

III

Stefndi mótmælir kröfu áfrýjanda um töpuð lífeyrisréttindi. Með breytingu á 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, sem tóku gildi 1. maí 1999, var lögtekinn nýr stuðull til útreiknings skaðabóta fyrir varanlega örorku. Var markmiðið það að tjónþoli teldist með þeirri aðferð sem þar er lögfest fá að fullu bætt tekjutap vegna varanlegrar örorku. Segir meðal annars í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga að við ákvörðun árslauna skuli miða við meðalatvinnutekjur tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir tjón að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Krafa áfrýjanda um 3.514.000 krónur vegna tapaðra lífeyrisréttinda verður samkvæmt þessu ekki tekinn til greina. Að öðru leyti er ekki ágreiningur um niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um tjón áfrýjanda og tölulegan útreikning þess.

Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda tekin til greina með 6.707.355 krónum. Stefna í héraði vegna ágreinings aðila var upphaflega þingfest 8. júní 2006. Eins og kröfugerð stefnda er háttað og reifun málsaðila beggja teljast áfallnir vextir fyrir 8. júní 2002 fyrndir samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Stefnda veður samkvæmt þessu gert að greiða áfrýjanda framangreinda fjárhæð og vexti eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjanda var veitt gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Ekki er fyrir Hæstarétti gerð krafa um endurskoðun ákvörðunar héraðsdóms um málskostnað og verður því ekki hnikað við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um þann þátt málsins. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans sem ákveðin verður eins og greinir í dómsorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Sigurður Jónsson, greiði áfrýjanda, Vilhelm Þ. Árnasyni, 6.707.355 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 8. júní 2002 til 8. júní 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur.

Stefndi greiði í ríkissjóð 1.005.254 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. febrúar s.l., var höfðað með stefnu birtri 22. janúar 2007.

Stefnandi er Vilhelm Þ. Árnason, Skipholti 6, Ólafsvík, Snæfellsbæ. Stefndi er Sig­urður Jónsson, Skipholti 8, Ólafsvík, Snæfellsbæ. Tryggingamiðstöðinni hf., Aðal­stræti 6-8, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða-, þjáninga- og miskabætur að fjárhæð kr. 10.221.355 með 4,5% ársvöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af kr. 1.981.890 frá 5. maí 1999 til 8. maí 2000 en frá þeim degi af kr. 10.221.355 til 8. júní 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu og málskostnaðar. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur.

Dómur var áður kveðinn upp í málinu 23. júlí 2007, en hann ómerktur í Hæstarétti og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Málavextir:

Stefnandi hóf störf um borð í Agli SH-195 á árinu 1997. Skipið er í eigu stefnda og gert út frá Ólafsvík. Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir slysi um borð í Agli í byrjun maí 1999. Skipið var tryggt hjá réttargæslustefnda.                  Í stefnu er málvöxtum lýst þannig að stefnandi hafi, þegar slysið varð, verið ásamt vélstjóra skipsins við vinnu uppi á dekki við að taka nótina niður. Verkaskipting um borð hafi verið með þeim hætti að allir skipverjar hafi unnið við að taka niður nótina en tveir skipverjar orðið eftir uppi á dekki til að snúa henni við. Stefnandi hafi í umrætt sinn verið á kúluvængnum, en vélstjórinn á hinum vængnum. Þeir hafi dregið nótina og velt henni við þannig að hún væri kastklár. Stefnandi hafi þurft að beygja sig til að geta velt nótinni, en hafi í umrætt sinn runnið til á hálu þilfarinu, hrasað og dottið á styttu, sem sé aftan við lúguna á bátapallinum. Stefnandi kveðst hafa dottið á vinstri mjöðm. Hann hafi strax fundið til mikils sársauka og því legið stutta stund eftir fallið, síðan hafi verkurinn dofnað nokkuð og hann haldið áfram vinnu. Stefnandi kveðst hafa látið stefnda vita af slysinu strax sama dag og talið að það hefði verið fært í skipsdagbók.

Stefnandi hafi í fyrstu haldið að ekki væri um alvarlegt slys að ræða og haldið áfram að stunda vinnu sína, sem honum hefði tekist með herkjum með því að taka sterk verkjalyf. Um þremur vikum eftir slysið hafi stefnandi leitað til læknis. Í málinu liggur frammi samskiptaseðill vegna komu stefnanda á Heilsugæslustöðina í Ólafsvík hinn 27. maí 1999, vegna verks í vinstri mjöðm. Þar kemur fram að stefnandi hafi dottið um borð í bát þremur vikum áður. Stefnandi var sendur í röntgen­mynda­töku og síðar til Hauks Árnasonar bæklunarsérfræðings. Í vottorði hans, dags. 13. desember 2000, segir að við skoðun hinn 19. júlí 1999 hafi komið í ljós að stefnandi væri með byrjandi slitbreytingar í vinstri mjöðm. Hafi hann verið settur á biðlista til aðgerðar.

Stefnandi gekkst undir aðgerð á mjöðm hinn 4. febrúar 2000 og var sett plastskál í augnakarlinn og stálkúla með skafti í lærlegginn. Í málinu hafa verið lögð fram nokkur læknisvottorð, til viðbótar þeim sem áður getur, þar sem m.a. kemur fram að læknar telji ekki að kastlos sem gert var við á mjöðm stefnanda þegar hann var 12 ára gamall sé orsök þeirra vandamála sem hann átti í og enduðu með ofangreindri aðgerð. Þá kemur fram að stefnandi hafi ekki haft einkenni frá vinstri mjöðm fyrir hið meinta slys í maí 1999.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 4. september 1999 þar sem hann greindi frá því að hann hefði orðið fyrir slysi hinn 26. maí 1999 um borð í Agli SH-195. Kvaðst hann ekki hafa gefið skýrslu fyrr, þar sem hann hefði ekki gert sér grein fyrir alvarleika málsins, en útgerðarmaðurinn hefði bent honum á að gefa skýrslu. Fyrir liggur ljósrit af blaðsíðu úr dagbók þar sem segir að mánudaginn 26. maí 1999 hafi stefnandi dottið kl. 11.15 um uppstillingu á afturdekki og meitt sig í mjöðm. Af ljósritinu verður ráðið að viðeigandi mánuður hefur verið afmáður úr dagbókinni og þar vélritað „MAÍ“ fyrir framan ártalið 1999.

Í tilkynningu til Tryggingastofnunar ríkisins, dagsettri 21. febrúar 2000, sem undirrituð er af stefnda og Jens Brynjólfssyni skipstjóra, kemur fram að stefnandi hafi orðið fyrir slysi 26. maí 1999, er hann rann til og hrasaði. Hafi hann lent á vinstri mjöðminni á styttu. Þá segir að hann hafi leitað til læknis þremur vikum síðar.

Í örorkumati sem Ragnar Jónsson gerði, dags. 27. mars 2001, var tímabundin læknisfræðileg örorka stefnanda metin 100% í eitt ár og varanleg læknisfræðileg örorka 25%. Á grundvelli matsgerðarinnar sendi lögmaður stefnanda réttargæslu­stefnda kröfu, dags. 3. júlí 2001, um greiðslu úr slysatryggingu. Félagið var reiðubúið til þess að greiða bætur úr tryggingunni og greiddi 264.027 kr. í dagpeninga og 1.459.800 kr. í örorkubætur, eða samtals 1.723.827 kr.

Í framhaldi af þessu fékk réttargæslustefndi upplýsingar um að áhöld kynnu að vera uppi um það hvort stefnandi hefði yfirleitt orðið fyrir slysi um borð í skipinu. Að beiðni réttargæslustefnda voru stefndi og Jens Brynjólfsson skipstjóri boðaðir til skýrslugjafar hjá lögreglu og kannaðist hvorugur við að stefnandi hefði orðið fyrir slysi um borð í bátnum í maí 1999. Lögmaður stefnanda fór þess þá á leit að teknar yrðu skýrslur af öðrum skipverjum og var það gert. Vegna þess ágreinings sem upp var kominn fór fram sjópróf við Héraðsdóm Vesturlands hinn 12. apríl 2002 en þar héldu stefndi og skipstjórinn fast við fyrri framburð um að ekkert slys hefði orðið. Stefndi skýrði svo frá að stefnandi hefði komið að máli við sig um mánaðamótin ágúst/september 1999 þar sem hann þyrfti að fara í mjaðmakúluaðgerð í janúar og honum hefði verið bent á að ef hann gæti sagt að hann hefði lent í slysi þá fengi hann slysabætur hjá bátnum. Stefnandi hefði gefið skýrslu hjá lögreglu og útvegað læknisvottorð. Þá hefði stefndi útbúið dagbók og látið skipstjórann skrifa undir blað til Tryggingastofnunar ríkisins. Stefnandi taldi að stefndi skýrði frá með þessum hætti vegna launadeilu sem skipverjar ættu í við hann. Fór sá ágreiningur fyrir dómstóla og lauk 6. júní 2002, með dómum Hæstaréttar í málum nr. 24/2002 og nr. 25/2002.

Í kjölfar sjóprófsins lagði stefnandi fram kæru á hendur stefnda fyrir rangar sakargiftir, skjalafals og ærumeiðingar. Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur stefnda og með dómi Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. S-550/2003: Ákæruvaldið gegn Sigurði P. Jónssyni, 28. maí 2004, var stefndi sýknaður þar sem ekki þótti sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hefði gegn betri vitund haldið því fram við sjópróf að ekkert slys hefði orðið. 

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 2. febrúar 2004, var þess krafist að bótaskylda stefnanda yrði viðurkennd, en réttargæslu­stefndi hafnaði bótaskyldu í bréfi, dags. 15. mars 2004. Mál vegna þessa var svo þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 8. júní 2006, á grundvelli örorkumats Ragnars Jónssonar, en fellt niður 19. janúar 2007. Þá hafði verið aflað matsgerðar þeirra Björns Daníelssonar lögfræðings og Stefáns Dalberg læknis, dags. 20. nóvember 2006. Voru niðurstöður matsins að tímabundið atvinnutjón væri frá 2. janúar  til 8. maí 2000. Stöðugleikapunktur væri 8. maí 2000. Þjáningabætur næðu til tímabilsins frá tjónsdegi, til 8. maí 2000 án rúmlegu, þó með rúmlegu frá 3. febrúar 2000 til 16. febrúar sama ár. Varanlegur miski teldist 25% og varanleg fjárhagsleg örorka 60%. Matsmenn töldu að fallið sem stefnandi hefði orðið fyrir í byrjun maí 1999 væri orsök þeirra einkenna sem hann hefði frá vinstri mjöðm.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því líkamstjóni sem hann hafi orðið fyrir um borð í Agli SH-195 í umrætt sinn. Stefnandi reisir kröfur sínar á almennu sakarreglunni í skaðabótarétti og telur að stefndi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið sér tjóni og að tjónið sé sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.

Stefnandi telur að hann hafi staðið að öllu leyti rétt og eðlilega að því að taka niður nótina, sem hann hafi unnið við í umrætt sinn ásamt vélstjóra bátsins. Stefnandi og samverkamenn hans hafi framkvæmt verkið á þann eina hátt sem mögulegt hafi verið og á þann hátt sem þeim hafi verið fyrir lagt. Ekkert óeðlilegt hafi verið við verklagið í umrætt sinn og verði slysið ekki rakið til neins annars en vanbúnaðar skipsins og þess hversu hált þilfarið á skipinu hafi verið.

Stefnandi vísar til þess að Árni Guðjón Aðalsteinsson, yfirvélstjóri um borð þegar slysið varð, hafi gefið lögregluskýrslu í kjölfar slyssins og tekið í öllu undir málsástæður stefnanda um slæmt ástand þilfarins og aðgerðarleysi skip­stjórnenda um úrbætur, þrátt fyrir áskoranir skipverja.

Um vanbúnað skipsins byggir stefnandi á því að orsök slyssins sé alfarið að rekja til þess að þilfar bátsins hafi verið úr sléttu áli, sem sé mjög hált, sérstaklega þegar það sé blautt. Þilfar bátsins sé nánast alltaf blautt við veiðarnar og hafi það verið til vandræða fyrir skipverja. Þilfar bátsins hafi verið málað þegar það fór í slipp og það orðið stamara, en sú aðgerð hafi dugað skammt, einungis í örfáar vikur. Er slysið hafi átt sér stað hafi málningin verið farin af og þilfarið því mjög hált. Við skýrslutöku hjá lögreglu komi fram hjá Árna, er hann var spurður um ástand þilfarsins, að það hafi verið „... úr sléttu áli, málning hafi verið farin af því og það hafi verið hálla en svell“.

Bent er á að í sjóprófi hafi komið fram hjá stefnanda, sem og öðrum skipverjum, að slétt þilför séu mjög fátíð, ef ekki einsdæmi. Stefnandi byggir á því að þilfarið hafi verið mjög hættulegt og vanbúið til þeirra starfa sem þar voru unnin. Stefndi beri alla ábyrgð á þeim vanbúnaði. Stefnda hafi borið að sjá til þess að allur útbúnaður bátsins væri þannig að af honum stafaði eins lítil hætta fyrir skipverja og mögulegt væri. Vísar stefnandi til 2. mgr. 57. gr. siglingalaga nr. 35/1985 þar sem skýrt komi fram að þeim manni er verkum stjórnar sé skylt að gæta þess að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum. Stefnandi telur að stefndi hafi með athafnaleysi sínu, við að tryggja öryggi starfsmanna sinna, gerst sekur um vítavert gáleysi og þannig bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Stefnandi telur að rík ábyrgð hvíli á vinnuveitendum til að tryggja öryggi starfsmanna sinna á vinnustað og sú ábyrgð vegi sérstaklega þungt þegar starfsmenn hafi ítrekað kallað eftir úrbótum á vinnustað til að tryggja öryggi sitt við vinnu. Með vísan til 2. mgr. 57. gr. siglinga­laga sé því ljóst að aðgerðarleysi stefnda sé bæði saknæmt og ólögmætt.

Stefnandi segir að í sjóprófi komi fram að skipverjar hafi margsinnis rætt við stefnda, sem og skipstjórann, að mikilvægt væri að breyta aðstæðum á þilfarinu þannig að ekki væri eins mikil hálka á því, en ekki hefði verið orðið við þeim beiðnum. Á vetrum hefði þurft að gera sérstakar ráðstafanir eins og að hafa smúl á þilfarinu til þess að takmarka hálkuna á því.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi verið fyllilega meðvitaður um að útbúnaður bátsins hefði ekki verið fullnægjandi og aukið hættu á slysum um borð og gert alla vinnu uppi á dekki mun erfiðari en ella. Stefnandi telur ljóst að tjón hans verði að rekja til vanbúnaðar skipsins, sem ekki hafi verið bætt úr með fullnægjandi hætti þrátt fyrir óskir áhafnarinnar. Stefnandi telur að í þessu sambandi verði einnig að líta til þess, sem fram kemur í álitsgerð Guðjóns Jónssonar, að draga hefði mátt úr hálku á gólfi lestarinnar með því að setja á það málningu með hálkuvörn, en fyrir liggi að málning á gólfinu hafi verið nokkuð tekin að flagna. Samkvæmt þessu verði stefndi að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Stefnandi segir að verulegar endurbætur hafi verið gerðar á þilfari bátsins eftir slys stefnanda því þá hafi stefndi látið setja rifflað ál á þilfarið. Stefnandi telur að í endurbótunum felist viðurkenning stefnda á því að þilfarið, eins og það var þegar slysið átti sér stað, hafi verið hættulegt.

Stefnandi byggir einnig á því að aukin áhætta hafi fylgt því að vera á veiðum við svo slæm skilyrði sem raun hafi borið vitni og beri stefndi ábyrgð á öllu tjóni sem af slíku leiði. Stefnandi telur að ítrekað hafi verið staðfest af dómstólum að þeir sem hafi með höndum atvinnustarfsemi sem feli í sér hættulegar aðstæður fyrir starfsmenn beri ríkari bótaábyrgð gagnvart þeim sem slasist við störf í þeirra þágu. Auk þess hvíli á atvinnurekendum sú skylda að tryggja öryggi starfsmanna sinna eftir fremsta megni, en stefndi hafi brugðist þessari skyldu sinni.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt að um bótaskylt slys hafi verið að ræða, með því að tilkynna slysið til Tryggingastofnunar ríkisins og móttaka greiðslu á grundvelli þeirrar skráningar. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekkert skráð um slysið í skipsdagbók, eins og vera ber, og því verði að túlka allan vafa um tildrög slyssins stefnanda í hag. Leitt sé í ljós, með vitnisburði stefnda í sjóprófi, að stefndi falsaði skipsdagbók og móttók greiðslur frá Tryggingastofnun. Stefnandi telur að tjón hans megi rekja til óforsvaranlegra aðstæðna um borð, sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt reglum skaðabótaréttar.

Miskabótakröfu sína styður stefnandi því að slysið hafi valdið honum ómældum þjáningum. Hann hafi þurft að undirgangast aðgerð á mjöðm og þurft að bíða lengi kvalinn eftir þeirri aðgerð. Hann hafi fengið takmarkaðan bata. Þá sé framkoma stefnda í sjóprófinu með þeim hætti að valdið hafi stefnanda andlegum þjáningum og tafið málarekstur hans verulega. Afleiðingar slyssins hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og færni stefnanda bæði til vinnu og tómstunda sé verulega skert. Hafi stefnandi þurft að láta af ýmsu sem hann hafði ánægju af.

Stefnandi vísar til skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings bótakröfu sinni og þeirra læknisfræðilegu gagna sem eru meðal gagna málsins. Útreikningur stefnu­fjárhæðar styðjist við örorkumat Stefáns Dalbergs bæklunarlæknis og Björns Daníelssonar hdl. Niðurstaða þeirra sé sú að örorka stefnanda sé 60% og miski 25%, sem sé sami miski og Ragnar Jónsson bæklunarskurðlæknir hafi metið.

Við upphaf aðalmeðferðar voru af hálfu stefnanda lagðar fram breyttar dómkröfur sem sundurliðast þannig:

Þjáningabætur:

368 dagar þ.e. frá 5. maí 1999 til 8. maí 2000

Rúmliggjandi 13 dagar

kr.      27.040

Án rúmlegu 355 dagar

kr.    397.600

Samtals þjáningabætur                                

kr.    424.640 

Varanlegur miski 4.gr.

  6.229.000 * 25%                                             

kr. 1.557.250 

Varanleg örorka 5 – 8. gr.

      Árslaun 2.692.153 * 7,18500 * 60%

kr. 11.605.871

Árið 1996 1.687.773, uppreiknað 2.221.054

Árið 1997 1.841.508, uppreiknað 2.298.920

Árið 1998 2.715.292, uppreiknað 3.099.320

Skaðabótakrafa samtals 

kr. 13.587.761

Lífeyrisréttindi    

kr.   3.514.000 

Eingreiðsluverðmæti v. lífeyrissj. og TR

kr.   5.420.606

Slysatrygging sjómanna  

kr.   1.459.800

Kr. 10.221.355

Við aðalmeðferð málsins kom fram að ekki væri ágreiningur um ofangreinda kröfu­liði, að því frátöldu að stefndi mótmælir kröfulið um lífeyrisréttindi að fjárhæð 3.514.000 krónur og stefnandi mótmælir frádrætti vegna eingreiðsluverðmætis að fjárhæð 5.420.606 krónur.

Stefnandi byggir kröfu sína vegna tapaðra ellilífeyrisréttinda á útreikningi Vigfúsar Ásgeirssonar hjá Talnakönnun, dags. 8. febrúar 2006. Réttindin séu reiknuð út frá þeirri forsendu að stefnandi hefði unnið sér inn jafn mikil réttindi árin 1999-2006 og hann gerði árið 1998 og síðan greitt iðgjald frá og með 1. janúar 2006 af sömu launum og hann hafði árið 1998, eftir að þau hafa verið hækkuð sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs. Vaxtaútreikningur sé í samræmi við vaxtaforsendur hjá lífeyrissjóðunum. Samtals séu töpuð ellilífeyris­réttindi stefnanda 3.514.000 kr. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 279/1992 sem kveðinn var upp 14. september 1994.

Stefnandi mótmælir því að til frádráttar eigi að koma samtals 5.420.606 krónur samkvæmt útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings, dagsettum 8. maí 2008, vegna eingreiðsluverðmætis bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum vegna slyss. Stefnandi segir að ekki verði séð í útreikningum hjá stefnda við hvaða stuðul sé miðað. Honum sé mótmælt sem allt of háum, enda beri skattframtöl með sér að því fari fjarri að stefnandi hafi fengið greiddar þær fjárhæðir sem krafa stefnda miðist við.

Stefnandi telur að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningarbætur og bætur fyrir varanlegan miska, skuli bera 4,5% vexti frá tjónsdegi, 5. maí 1999 til greiðsludags, sbr. 16. gr. skaðabótalaga. Bætur fyrir varanlega örorku beri 4,5% vexti frá upphafsdegi metinnar örorku, hinn 8. maí 2000, sbr. sömu lagagrein.

Upphafstími dráttarvaxta miðist við að mál hafi verið þingfest 8. júní 2006, en það fellt niður með samkomulagi aðila og höfðað aftur.

Um lagarök vegna bótaábyrgðar vísar stefnandi til almennra meginreglna skaðabótaréttarins, auk 171. og 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Um fjárhæð skaða- og miskabóta vísast til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum laga nr. 37/1999. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. og 131. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi hafnar því að um saknæman vanbúnað skipsins hafi verið að ræða sem stefndi beri ábyrgð á sem útgerðarmaður og eigandi. Stefndi vísar til þess að aðila málsins greini á um það hvort stefnandi hafi yfirleitt orðið fyrir einhverjum meiðslum um borð í skipinu í maí 1999, eins og stefnandi heldur fram. Stefndi fullyrðir að frumgögn málsins hafi verið útbúin gegn betri vitund, að beiðni stefnanda, í þeim tilgangi að svíkja út bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og réttargæslustefnda. Þá hafi skipstjórinn, Jens Brynjólfsson, skrifað undir tilkynningu til Tryggingastofnunar, dags. 21. febrúar 2002, að beiðni stefnda, þvert gegn vilja sínum, enda hafi honum sem skipstjóra verið allsendis ókunnugt um að stefnandi hefði orðið fyrir einhverjum meiðslum í starfi sínu um borð í skipinu.

Stefndi segir að í lögregluskýrslunni sem stefnandi gaf 4. september 1999 sé rangur tjónsdagur gefinn upp, 26. maí 1999, en fyrir liggi að þá hafi skipið ekki verið á sjó. Þetta sé einkennilegt svo ekki sé meira sagt í ljósi þess stutta tíma sem þá hafi liðið frá meintu atviki.

Stefndi telur að framburður skipverja hjá lögreglu, við sjóprófi og í máli ákæruvaldsins gegn stefnda, þar sem fullyrt er að slys hafi orðið, sé ekki marktækur í máli þessu, þar sem skipverjarnir hafi þá átt í harðvítugri kjaradeilu við stefnda. Hljóti að verða skoða framburð þeirra í því ljósi og er honum mótmælt.

Það er því að mati stefnda ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir slysi um borð í Agli SH-195 í maí 1999. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, enda vafalaust að um þetta hafi stefnandi sönnunarbyrðina.

Fari hins vegar svo að ekki verði fallist á framangreind sjónarmið stefnda er bótaskyldunni engu að síður mótmælt.

Um meintan vanbúnað skipsins heldur stefndi því fram að þilfarið hafi ekki verið hálla en gengur og gerist í bátum af því tagi sem hér um ræðir. Báturinn hafi verið byggður eftir ströngustu kröfum Siglingamálastofnunar og af hennar hálfu hafi aldrei verið gerðar athugasemdir við búnað þilfarsins. Stefndi telur óhjákvæmilegt að undir vissum kringumstæðum geti myndast hálka á dekkinu, en hér sé ekkert óvanalegt á ferð og fráleitt að um geti verið að ræða saknæman vanbúnað eins og stefnandi heldur fram. Er því sérstaklega mótmælt að vatn eða bleyta valdi hálku á þilfarinu eins og stefnandi haldi fram. Stefndi bendir á að þilfarið hafi verið sett í bátinn 1994, eða 5 árum fyrir meint óhapp stefnanda. Í gögnum málsins komi fram að menn reki minni til þess að í einu tilviki hafi skipverji fallið á þilfarinu og hlotið einhver meiðsl. Að mati stefnda segir þetta allt sem segja þarf um meintan vanbúnað.

Slys það sem hér um ræðir eigi að hafa orðið í maímánuði þegar aðstæður séu hvað bestar á Íslandsmiðum. Því sé a.m.k ekki haldið fram að þarna kunni að hafa verið ísing eða hálka, sem vissulega geti orðið um borð í skipum yfir vetrarmánuðina. Jafnframt beri skipverjum saman um það, að til að koma í veg fyrir hálku á veturna sé smúllinn notaður, þ.e. sjó sprautað á dekkið til að koma í veg fyrir að frjósi.sama skapi sé augljóst að dekkið sé rennblautt, sem ekki hafi orðið til vandræða svo vitað sé, þrátt fyrir að oft hafi veður verið válynd og veltingur mikill.

Stefndi telur að hafa beri í huga að stefnandi hafi verið þrælvanur sjómaður og verið að framkvæma einfalt verk, sem hann hafi margsinnis unnið áður. Ekkert við framkvæmd þess hefði átt að geta komið honum á óvart. Stefnandi hafi hafið störf um borð skipinu 1. júní 1997, eða því sem næst tveim árum fyrir meint óhapp.

Stefndi mótmælir því að dómstólar hafi staðfest ríkari ábyrgð atvinnurekanda þar sem aðstæður hafi verið hættulegar og er því sérstaklega mótmælt að þetta geti átt við í máli þessu.

Jafnframt mótmælir stefndi því að hann hafi viðurkennt að bótaskylt slys hafi orðið um borð í bátnum með tilkynningu til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. febrúar 2000, og vísar til þess sem fyrr er rakið varðandi þetta atriði, þ.e. að tilkynningin hafi verið útbúin gegn betri vitund að beiðni stefnanda. Augljóst sé að slík tilkynning geti aldrei skapað stefnanda nokkurn rétt.

Stefndi telur að því fari fjarri að lögfull sönnun liggi fyrir í máli þessu um að málsástæður stefnanda eigi við rök að styðjast og því telur stefndi að fallast beri á kröfur hans um sýknu.

Eins og áður hefur verið rakið var við aðalmeðferð málsins bókað að ekki væri ágreiningur um kröfuliði, eins og þeir eru sundurliðaðir í dómkröfu sem lögð var fram við aðalmeðferð, að því frátöldu að stefndi mótmælir kröfulið um lífeyrisréttindi að fjárhæð 3.514.000 kr. og stefnandi mótmælir frádrætti vegna eingreiðsluverðmætis að fjárhæð 5.420.606 kr.

Stefndi telur að ekki séu lagaskilyrði fyrir kröfu stefnanda um töpuð lífeyrisréttindi að fjárhæð 3.514.000 kr.  Hér vanti því lagagrundvöllinn. Auk þess sé forsendum öllum í útreikningi stefnanda mótmælt. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2002, sem kveðinn var upp 18. september 2003.

Um frádrátt vegna eingreiðsluverðmætis er vísað til 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og útreiknings Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingastærðfræðings, dags. 8. maí 2008.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda og talið að bótaréttur sé hér fyrir hendi telur stefndi að stefnandi hljóti að verða að bera verulegan hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Byggist það á því að stefnandi hafi verið vanur sjómaður og hann unnið einfalt verk, sem hann hefði margsinnis unnið áður. Honum hefðu verið allir hnútar kunnugir um borð og hann vitað manna best hvað helst bæri að varast. Samkvæmt gögnum málsins hafi veður verið gott og allar aðstæður hinar bestu. Stefndi fullyrðir að með eðlilegri aðgæslu, sem krefjast megi af reyndum sjómanni eins og stefnanda, hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir óhappið og á því beri stefnandi sjálfur ábyrgð. Eigin sök sé því augljós að mati stefnda.

Vaxtakröfu er mótmælt þar sem vextir, áfallnir fyrir 8. júní 2002 séu fyrndir, sbr. 3. gr. 2. tl. laga nr. 14/1905.

Forsendur og niðurstaða:

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni, þar sem hann hafi ekki uppfyllt skyldur sínar sem útgerðarmaður að því er varðar útbúnað og aðstæður á vinnustað. Stefnandi telur ljóst að ástæða þess að hann slasaðist við störf sín í þágu stefnda, hafi verið að þilfar bátsins Egils SH-195, hafi verið vanbúið og of hált, en stefnandi og samstarfsmaður hans í umrætt sinn hafi framkvæmt vinnu sína með þeim eina hætti sem mögulegt var og í samræmi við fyrirmæli. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að óforsvaranlegt sé að hafa þilfar bátsins úr sléttu áli og að margoft hafi starfsmenn um borð talað um þetta vandamál við útgerðarmann og skipstjóra og óskað eftir úrbótum, en því ekki verið sinnt.

Stefndi hafnar því að um saknæman vanbúnað skipsins hafi verið að ræða sem stefndi beri ábyrgð á sem útgerðarmaður og eigandi. Hann heldur því fram að þilfar bátsins hafi ekki verið hálla en gengur og gerist í bátum af því tagi sem hér um ræðir. Báturinn hafi verið byggður eftir ströngustu kröfum Siglingamálastofnunar, sem aldrei hafi gert athugasemdir við þilfarið. Óhjákvæmilegt sé að undir vissum kringumstæðum myndist hálka á dekkinu, en hér sé ekki neitt óvanalegt á ferð og fráleitt að um geti verið að ræða saknæman vanbúnað. Þá mótmælir stefndi því að bótaskylt slys hafi yfirleitt orðið í þetta sinn.

Í skýrslum fyrir dómi kom fram af hálfu stefnda og Jens Brynjólfssonar, sem var skráður skipstjóri í umræddri ferð, að aldrei hefði verið kvartað við þá um að þilfarið væri of hált.  Fram kom að upphaflega hefði verið ætlunin að þilfarið væri úr riffluðu áli, en þegar til kom hafi það ekki verið mögulegt. Að þeirra mati var algengt á þessum tíma að þilför væru slétt og ekkert sérstakt við þilfarið að þessu leyti.  Stefnandi og aðrir skipverjar sem báru vitni í málinu, töldu að þilfarið hefði verið allt of hált, og að margoft hefði verið talað um það við útgerðarmann og skipstjóra og að nær einsdæmi væri að þilför væru úr sléttu áli. Ekki kom þó beint fram að kvartað hefði verið markvisst vegna þessa, frekar að þetta hefði verið í umræðunni um borð og ekki gæti annað verið en að yfirmenn vissu af þessu.

Fyrir liggur í málinu haffærisskírteini vegna Egils SH-195 gefið út án athugasemda. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við þilfarið eða útbúnað þess af hálfu Siglingamálastofnunar. Þá er það mat dómsins að gera verið ráð fyrir að reyndir sjómenn hagi vinnu sinni með tilliti til aðstæðna og séu meðvitaðir um þær hættur sem skapast þegar þilfar verður hált.

Það er því niðurstaða málsins að ekkert hafi komið fram sem sýni fram á að þilfarið á skipi stefnda, Agli SH-195, hafi verið vanbúið með þeim hætti, þegar umræddir atburðir áttu sér stað, að það verði metið stefnda til sakar í skilningi skaðabótalaga og almennu sakarreglunnar í skaðabótarétti. Um óhappatilviljun hafi því verið að ræða sem stefndi geti ekki verið talinn ábyrgur fyrir og verður hann því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og til atvika málsins þykir rétt að málskostnaður á milli aðila í máli þessu falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, málskostnaður lögmanns hans sem telst hæfilega ákveðinn 504.000 krónur og 35.642 króna útlagður kostnaður vegna vitna, samtals 539.642 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn kvað upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, ásamt sérfróðu með­dóms­mönnunum, Vilbergi Magna Óskarssyni, skólastjóra Skipstjórnarskóla Tækni­skólans, og Vilmundi Víði Sigurðssyni, stýrimanni.

Dómsorð:

Stefndi, Sigurður Jónsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Vilhelms Árnasonar.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 539.642 krónur greiðist úr ríkissjóði.