Hæstiréttur íslands
Mál nr. 73/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 8. febrúar 2007. |
|
Nr. 73/2007. |
Ákæruvaldið(Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Arnar Sigfússon hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. mars 2007 kl. 14. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu 31. janúar 2007 játaði varnaraðili aðild sína að innbrotum í tvö íbúðarhús eftir að hann hafði strokið úr vörslu lögreglu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. febrúar 2007.
Mál þetta barst dóminum með bréfi sýslumannsins á Akureyri dagsettu í dag og var samdægurs tekið til úrskurðar eftir að kærði hafði mætt í dóminn ásamt skipuðum verjanda sínum. Krefst sýslumaður þess að kærði X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 16. mars 2007, kl. 16:00.
Verjandi kærða krefst þess aðallega að kröfu sýslumanns verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Kveður sýslumaður málsatvik þau að til rannsóknar hjá lögreglu séu 16 mál sem varði við 244. gr., 248. gr., 252. gr., 2. mgr. 257. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Um er að ræða tvö rán og tilraun til ráns 28. og 31. október sl. og hefur ákærði játað þau brot. Hefur hann einnig játað þjófnað úr bíl þann 30. desember sl. og innbrot í íbúðarhús og þjófnað þann 17. janúar sl. Þá er kærði grunaður um nokkur innbrot og þjófnaði og eina íkveikju á tímabilinu frá 27.-30. janúar sl. og hefur hann játað að hafa framið einhver þeirra brota. Í bréfi sýslumanns eru einnig nefnd þrjú tilvik þar sem kærða er gefið að sök vörslur fíkniefna. Af hálfu sýslumanns er vísað til þess að við yfirheyrslur yfir kærða hafi komið fram að hann sé í fíkniefnaneyslu og fjármagni neyslu sína með innbrotum. Brotaferill kærða sé samfelldur og hafi verið að færast í aukana. Það sé mat lögreglu að kærði muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi svo unnt sé að ljúka rannsókn málanna og taka ákvörðun um saksókn vegna þeirra. Kveðst sýslumaður byggja kröfu sína á framangreindu, framlögðum gögnum og c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Álit dómsins.
Kærði hefur fyrir lögreglu viðurkennt aðild sína að sumum þeirra mála sem nefnd eru í bréfi sýslumanns. Liggja fyrir lögregluskýrslur og önnur rannsóknargögn sem renna stoðum undir játningar hans og grun lögreglu um að kærði hafi framið þau brot sem greint er frá í bréfi sýslumanns.
Kærði hefur aðeins einu sinni hlotið refsingu, þann 20. janúar 2004 fyrir fíkniefnalagabrot. Hins vegar er til þess að líta að kærði hafði fyrir lögreglu játað að hafa framið framangreind rán og eitt innbrot og þjófnað þegar sú brotahrina sem varð á tímabilinu frá 27.-30. janúar sl. hófst. Þann 30. janúar sl. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 ásamt tveimur félögum sínum. Að kvöldi 30. janúar struku þau úr fangelsinu og brutust þá þegar inn í tvö íbúðarhús og stálu þar ýmsum munum auk bifreiðar sem stóð fyrir utan annað húsanna. Þegar þessa er gætt verður fallist á með sýslumanni að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum ef hann fer nú frjáls ferða sinna. Fangelsisrefsing er lögð við þeirra háttsemi sem kærði er borinn sökum um. Er því skilyrðum fullnægt c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að taka til greina kröfu um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Af gögnum málsins má ráða að rannsókn hinna ýmsu brot kærða sé á lokastigi og virðist því ekki þörf á að afmarka gæsluvarðhaldinu lengri tíma en til föstudagsins 2. mars n.k. kl. 14:00.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á l y k t a r o r ð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 2. mars 2007, kl. 14:00.