Hæstiréttur íslands

Mál nr. 575/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Aðild


Þriðjudaginn 13

 

Þriðjudaginn 13. nóvember 2007.

Nr. 575/2007.

SMÁÍS-Samtök myndrétthafa á Íslandi

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Pétri Péturssyni

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

 

Kærumál. Lögbann. Aðild.

 

S krafðist þess að sýslumanni yrði gert að leggja lögbann við því að P seldi eða hefði milligöngu um sölu á áskrift að sjónvarpsstöðinni Sky til manna búsettra á Íslandi til notkunar hér á landi. Í beiðni S er greint frá því að hann gæti réttinda rétthafa myndefnis hér á landi og hafi ýmis hagsmunamál þeirra með höndum. Einn meðlima S sé 365 miðlar ehf. og komi S fram fyrir hönd félagsins í þessu máli. Í dómi Hæstaréttar sagði að samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé heimilt að félög eða samtök manna reki í eigin nafni mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna sinna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna. Með kröfu um lögbannsgerð væri hvorki leitað viðurkenningar á rétti né lausn undan skyldu. Þegar af þeirri ástæðu gæti S ekki sótt stoð til þessa lagaákvæðis fyrir aðild sinni. Var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu S því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 10. ágúst 2007 um að hafna að leggja lögbann við nánar tilgreindri háttsemi varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að sýslumanninum í Keflavík verði gert að leggja lögbann við því að varnaraðili selji eða hafi milligöngu um sölu á áskrift að sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting (Sky) til manna búsettra á Íslandi til notkunar hér á landi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í beiðni sóknaraðila 30. júlí 2007 til sýslumannsins í Keflavík um lögbannsgerðina, sem málið varðar, var greint frá því að hann gæti réttinda rétthafa myndefnis á Íslandi og hafi ýmis hagsmunamál þeirra með höndum. Félagsmenn í sóknaraðila hafi rétt til dreifingar á yfirgnæfandi hluta kvikmynda, sjónvarpsefnis og tölvuleikja, sem hér séu á markaði. Sagði þar jafnframt að „einn meðlima SMÁÍS er 365 miðlar ehf. og kemur SMÁÍS fram f.h. félagsins í þessu máli“, en eins og greinir í hinum kærða úrskurði telur sóknaraðili háttsemi varnaraðila, sem leitað er lögbanns við, brjóta gegn lögvörðum réttindum þessa félags.

Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, er heimilað að félag eða samtök manna reki í eigin nafni mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna sinna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna, sem dómkrafa tekur til. Með kröfu um lögbannsgerð er hvorki leitað viðurkenningar á rétti né lausnar undan skyldu, heldur ráðstöfunar til að stöðva byrjaða eða yfirvofandi athöfn þess, sem kröfunni er beint að. Þegar af þeirri ástæðu að sóknaraðili getur samkvæmt þessu ekki sótt stoð til þessa lagaákvæðis fyrir aðild sinni að kröfu um lögbann í þágu tiltekins félagsmanns síns verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar, enda hefur sóknaraðili ekki vísað til annarrar haldbærrar heimildar í þeim efnum.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, SMÁÍS-Samtök myndrétthafa á Íslandi, greiði varnaraðila, Pétri Péturssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2007.

Mál þetta, sem þingfest var 6. september sl., var tekið til úrskurðar 28. sama mánaðar. Málið var endurupptekið með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og var málið tekið til úrskurðar á ný sama dag.

Sóknaraðili er SMÁÍS- Samtök myndrétthafa á Íslandi, Laugavegi 182, Reykjavík.

Varnaraðili er Pétur Pétursson, Tjarnargötu 39, Reykjanesbæ.

Sóknaraðili gerir þær kröfur að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík þann 10. ágúst 2007 í lögbannsmálinu L-2/2007 um að hafna gerðinni og að lagt verið fyrir hann að leggja á lögbann á að varnaraðili selji og/eða hafi milligöngu um sölu á áskrift að bresku sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting (Sky) til aðila búsettra á Íslandi til notkunar á Íslandi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun sýslumanns og kröfu sóknaraðila um lögbann verði hafnað. Varnaraðili krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

Málavextir eru þeir helstir að fyrirtækið 365-miðlar ehf. rekur áskriftarsjónvarpsstöðvar og eru þær helstu Stöð 2, Sýn, Sýn 2, Sýn extra 1 og Sýn extra 2 og kvikmyndastöðin Stöð 2 bíó. Hefur fyrirtækið keypt einkasýningarétt á Íslandi á því efni sem sýnt er á sjónvarpsstöðvum félagsins og hefur greitt fyrir þann rétt umtalsverða fjármuni. Á þann hátt hefur félagið tryggt sér einkasýningarrétt á Íslandi á útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og meistaradeild Evrópu í knattspyrnu næstu þrjú árin, ásamt kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem sýndir eru á sjónvarpsstöðvum félagsins. Jafnframt hefur félagið gert einkaréttarsamninga við Warner, Fox, Disney, Paramount o.fl. um svonefndan fyrsta sýningarrétt á Íslandi á öllum kvikmyndum þeirra, en sýningarsvæði félagsins takmarkast við Ísland.

Ómótmælt er að varnaraðili er persónulega skráður sem rétthafi á léninu skydigital.is samkvæmt rétthafaskráningu ISNIC, þar sem er að finna upplýsingar um rétthafa allra íslenskra léna. Af gögnum málsins sést að á heimasíðunni skydigital.is, sem fram kemur að sé hluti af Digital Ísland ehf.,  var almenningi boðin áskriftarkort að sjónvarpsstöðinni Sky og kaup á Sky Digital móttökutæki. Með umræddu móttökutæki er hægt að ná þeim útsendingum sem varpað er gegnum áskriftastöðvar Sky. Á útskrift af heimasíðunni frá 30. júlí sl. segir:

„Skydigital.is gefur Íslendingum kost á að fá áskrift af Sky Digital gervihnattasjónvarpi, sem býður upp á alla flóruna í sjónvarpsefni, kvikmyndum, sporti, tónlist, afþreyingu og alls lags jaðarefni. Við bjóðum uppá heildarlausn fyrir Sky Digital. Allt frá áskriftarkorti upp í heildarpakka frá Sky með gervihnattadiski og móttakara. Mögulegt er að greiða áskriftina með VISA/EURO eða með eingreiðslu sem greiðist einu sinni á ári. Við bjóðum aðeins vandaðan búnað sem stenst íslenskar aðstæður. Skydigital Ísland setur sér það merkmið að veita viðskiptavinum sínum trausta, alhliða þjónustu um ókomna framtíð.

Sky Digital áskrift.

Vegna samnings milli Sky og hinna ýmsu kvikmynda framleiðenda er aðeins hægt að fá áskrift að Sky Digital opinberlega á Bretlandseyjum (UK). Þeir sem búa á Íslandi þurfa því að fá áskrift í gegnum SkyDigital.is sem hefur milligöngu með að útvega áskrift í Bretlandi. Við eigum ávallt fyrirliggjandi á lager Sky Digital búnað og áskrift og er því engin bið eftir áskriftarkorti. Þeir sem hafa þegar fjárfest í búnaði getum við haft milliöngu með að útvega áskrift“.

Á framlagðri útprentun af sömu heimasíðu frá 27. ágúst sl. hefur textanum verið breytt og þar stendur:

„Skydigital.is gefur Íslendingum kost á að koma sér upp Sky Digital gervihnattasjónvarpi, sem býður upp á alla flóruna í sjónvarpsefni, kvikmyndum, sporti, tónlist, afþreyingu og alls lags jaðarefni. Skydigital Ísland setur sér það markmið að veita viðskiptavinum sínum trausta, alhliða þjónustu um ókomna framtíð.

Sky Digital áskrift.

Vegna samnings milli Sky og hina ýmsu kvikmynda framleiðenda er aðeins hægt að fá áskrift að Sky Digital opinberlega á Bretlandseyjum (UK). Við eigum ávallt fyrirliggjandi á lager Sky Digital búnað“. 

Í gögnum málsins kemur fram að það sé skilyrði fyrir áskrift að Sky að notandi sé búsettur á Bretlandi.

Með beiðni dagsettri 30. júlí 2007 fór sóknaraðili fram á það við sýslumanninn í Keflavík fyrir hönd 365-miðla ehf. að lagt yrði lögbann við eftirfarandi háttsemi gerðarþola, Digital á Íslandi og varnaraðili máls þessa, sem hér greinir:

„a) Selji og/eða hafi milligöngu um sölu á áskrift að bresku sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting (SKY) til aðila búsettra á Íslandi til notkunar á Íslandi.

b) Selji sérstakan móttökubúnað á Íslandi fyrir áskriftardagskrárefni frá bresku sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting (SKY).

c) Starfræki verfsíðuna WWW. SKYDIGITAL.IS

d) þess er krafist að sýslumaður taki í sínar vörslur gögn hjá gerðarþolulm sem varða hina ólöglegu starfsemi svo sem upplýsingar um hvernig gerðarþolar öðlast áskriftarkort að British Sky Broadcasting (SKY) og um þá einstaklinga og lögaðila sem keypt hafa áskrift af SKY sjónvarpsstöðinni fyrir milligöngu gerðarþola.

e) Þá er þess krafist að lögbannið byrji á starfsstöð gerðarþola án undanfarandi tilkynningar til gerðarþola um beiðni þessa sbr. 26. gr. l. 31/1990 i.f. og 21. gr. 3. mgr. 2. tl. AFL“.

Þann 8. ágúst 2007 var málið tekið fyrir á skrifstofu sýslumannsins í Keflavík og þá krafðist sóknaraðili þess að lagt yrði lögbann á sölu og milligöngu á áskrift að bresku sjónvarpsstöðinni Sky til aðila búsettra á Íslandi, sölu á móttökubúnaði fyrir áskriftardagskrárefni hjá Sky ásamt starfrækslu á heimasíðunni www.skydigital.is. Gerðarþoli var varnaraðili þessa máls ásamt Digital á Íslandi vegna SkyDigital Ísland. Við meðferð málsins hjá sýslumanni var fallið frá beiðni á hendur Digital á Íslandi.

Við fyrirtökuna hjá sýslumanni 8. ágúst sl. voru boðuð lögmæt forföll af hálfu gerðarþola og þess óskað að málinu yrði frestað um einn til tvo daga. Ákvað sýslumaður að fresta málinu til 10. ágúst sl. Þeirri ákvörðun mótmælti gerðarbeiðandi en krafðist þess jafnframt að sýslumaður legði fyrir gerðarþola að hann léti af þeirri athöfn sem krafist væri lögbanns við á meðan á fresti stæði með vísan til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 31/1990. Varð sýslumaður við því og var bókað að hann leggði fyrir gerðarþola að hann hvorki seldi og/eða hefði milligöngu um sölu á áskrift að bresku sjónvarpsstöðinni British Sky Broadcasting til aðila búsettra á Íslandi til notkunar á Íslandi.

Við fyrirtöku málsins 10. ágúst sl. féll gerðarbeiðandi frá lögbannsbeiðni sinni á hendur Digital á Íslandi ehf. þannig að beiðnin beindist þá eingöngu að varnaraðila máls þessa, Pétri Péturssyni. Með úrskurði sama dag hafnaði sýslumaður kröfu gerðarbeiðanda um lögbannn. Sóknaraðili vísaði með bréfi dagsettu 21. ágúst 2007 úrskurði sýslumannsins í Keflavík til úrlausnar héraðsdóms og krafðist þess að ákvörðun sýslumannsins um að synja lögbanni yrði felld úr gildi og að lagt yrði fyrir hann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sóknaraðila.

II.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að ábyrgð varnaraðila felist í því að hann sé persónulega skráður sem rétthafi á léninu skydigital.is og beri því fulla ábyrgð á því að notkun lénsins samræmist gildandi lögum og reglum. Til stuðnings þessu vísar sóknaraðili í reglur ISNIC um lénaskráningu, en þar segi: „Umsækjandi, sem fær skráð lén, verður þar með rétthafi viðkomandi léns í samræmi við reglur ISNIC. Rétthafi ber ábyrgð á að notkun lénsins sé í samræmi við gildandi lög og reglur á hverjum tíma“. Með því að undirgangast umræddan samning hafi varnaraðili gengist undir þá ábyrgð sem fylgir notkun lénsins og á sama grundvelli beri hann einnig ábyrgð á afleiðingum þess að notkun lénsins brjóti gegn samningsbundnum réttindum þriðja manns.

Af útprentun af heimasíðu skydigital.is komi fram að á henni sé boðin fram sala á áskriftakortum og milliganga um útvegun á áskrift að Sky Digital í Bretlandi. Á heimasíðunni sé jafnframt tekið fram að „vegna samnings milli Sky og hinna ýmsu kvikmyndaframleiðenda er aðeins hægt að fá áskrift að Sky Digital opinberlega á Bretlandseyjum (UK). Þeir sem búa á Íslandi þurfa því að fá áskrift í gegnum SkyDigital.is sem hefur milligöngu með að útvega áskrift í Bretlandi. Við eigum ávallt fyrirliggjandi á lager Sky Digital búnað og áskrift og er því engin bið eftir áskriftakorti. Þeir sem hafa þegar fjárfest í búnaði getum við haft milligöngu með að útvega áskrift“. Þá sé jafnframt gefinn sá möguleiki á heimasíðunni að panta áskrift með tölvupósti á sala@skydigital.is eða með því að hringja beint í varnaraðila í síma 893 6861 sem sé sama símanúmer og varnaraðili gefi upp í skráningu sinni á léninu. Því til viðbótar segi undir liðnum Sky kreditkortaáskriftir: „...er okkar sérstaða sú að geta haft milligöngu með að útvega Sky gagnvirkt áskriftarkort“.

Af þessu telur sóknaraðili ljóst að varnaraðili hafi stundað sölu á og haft milligöngu um að útvega áskriftir að Sky og hafi verið grandvís um þá staðreynd að einungis með búsetu á Bretlandseyjum sé hægt að fá löglega áskrift að Sky. Því liggi fyrir ásetningur hans til þess að brjóta á hlutaðeigandi höfundarréttindum.

Sóknaraðili byggir einnig á því að sala varnaraðila á áskrifakortum að Sky sjónvarpsstöðinni brjóti skýlaust höfundarréttindi rétthafa, bæði erlendra og innlendra, en samkvæmt 46. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 sé óheimilt að dreifa til almennings myndritum án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá gerð myndefnisins. Samkvæmt 3. gr. s.l. hafi höfundur ákvörðunarrétt til dreifingar. Verk teljist birt þegar það sé með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega, sbr. 2. gr. s.l. Sóknaraðili telji að það myndefni sem 365 miðlar ehf. hafi sýningarétt á hérlendis njóti verndar laganna og teljist það aðeins löglega birt hafi því verið dreift af hálfu 365 miðla ehf. Hafa verði í huga svæðisbundna tæmingu á hugverkaréttindum sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu en í því felist að rétthöfum sé heimilt að binda dreifingarheimildir við tiltekin svæði, svo sem einstök lönd, og verði allir að hlíta slíkum ákvörðunum rétthafanna meðan verkin sjálf njóti verndar. Því telji sóknaraðili að dreifing á myndefni frá sjónvarpsstöðinni Sky í gegnum áskriftarkort að sjónvarpsstöðinni Sky, sem bundin sé að samningum um dreifingu sama myndefnis á Bretlandseyjum og fengin eru með svikum, teljist vera skýlaust brot á sýningarrétti 365 miðla ehf. og varði refsingu, sektum eða allt að tveggja ára fangelsi, sbr. 54. gr. höfundarlaga.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að sjónvarpsstöðin Sky hafi keypt rétt til sýningar frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu ásamt sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem sýndar séu á sjónvarpsstöðvum þess fyrirtækis. Myndefni það sem sýnt sé á stöðvum Sky, sé keypt frá sömu framleiðendum og 365-miðlar ehf. kaupa efni sitt, og sýni Sky sömu sjónvarpsþætti og kvikmyndir á svipuðum sýningartímum. Í lögbannsbeiðni sóknaraðila er fullyrt að eftirtaldir sjónvarpsþættir og kvikmyndir séu brot af því efni sem Stöð 2 og Sky hafi rétt á á sitt hvoru markaðssvæðinu:

24 (Fox)

Nip Tuck (Warner)

The Simpsons (Fox)

Cold Case (Warner)

Las Vegas (CBS Paramount)

Pirate Master (Mark Burnett production)

Bones (Fox)4400 (CBS Paramount)

Mile High (Sky One/Target Entertainment)

Standoff ((Fox)

Rome (HBO)

Yu-Gi-Oh (4Kids Entertainment)

Pokemon (Sena fyrir Ísland)

Þá kveður sóknaraðili sjónvarpsstöðina Sky Movie hafa sýnt kvikmyndirnar Monster in Law, Aeon Flux, Lemony Snicket´s: A Series of Unfortunate Events, Date Movie og Memoirs of a Geisha dagana 26. og 27. júlí en Stöð 2 eigi réttinn á þeim fyrir markaðssvæðið Ísland í sjónvarpi.        

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 50. gr. b í höfundarlögum sé óheimilt að sniðganga tæknilegar ráðstafanir án samþykkis rétthafa til að framleiða, flytja inn, dreifa, selja, leigja, auglýsa til sölu eða leigu eða eiga í viðskiptalegum tilgangi búnað, vörur eða íhluti til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum. Hið sama gildi um þjónustu. Sala varnaraðila á sjóræningjakortum og móttökubúnaði að áskriftarsjónvarpi fari einnig í bága við fyrrnefnd ákvæði höfundarlaga. Hafi varnaraðili því gerst sekur um refsiverðan verknað með sölu áskriftarkorta á Íslandi að Sky sjónvarpsstöðinni og beri hann einnig fébótaábyrgð gagnvart 365-miðlum ehf., sbr. 56. gr. höfundarlaga.

Ljóst sé að varnaraðili sé annar tveggja skráðra eigenda og prókúruhafi að félaginu Digi-Sat ehf. í Keflavík og þá liggi fyrir í málinu bréf frá Sky til þess félags frá 7. nóvember 2002 þar sem Sky krefst þess að Digi-Sat ehf. hætti allri sölu á Sky-Digital búnaði og Sky áskriftarkortum. Megi því ljóst vera að varnaraðili hafi staðið með einum eða öðrum hætti, persónulega og í gegnum fjölmörg einkahlutafélög sín, að sölu og/eða milligöngu um sölu á Sky áskriftarkortum í mörg ár og þá verið grandvís um ólögmæti þess. Því sé ótvírætt að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt til að lagt verði lögbann við því að varnaraðili stundi stórfelld brot á réttindum 365-miðla ehf. með því að selja eða hafa milligöngu um sölu á ólöglegum aðgangskortum að sjónvarpsstöðinni Sky.

III.

Varnaraðili byggir á því að vegna eðlis málsins verði ekki leyst úr kröfu sóknaraðila án aðildar bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky. Varnaraðili eigi engan hlut að útsendingu og dreifingu efnisins þar sem það sé Sky sem sendi úr umrætt efni og gefi út áskriftarkort  að stöðinni. Þá byggir varnaraðili á því að SMÁÍS eigi ekki aðild að málinu að lögum.

Varnaraðili hefur mótmælt málsatvikalýsingu sóknaraðila í öllum meginatriðum og er því lýst yfir af hans hálfu í greinargerð að hann persónulega hafi ekki og muni ekki selja eða hafa milligöngu um sölu á Sky áskriftarkortum. Málatilbúnaður sóknaraðila byggist á órökstuddum fullyrðingum um ætlaða ólögmæta háttsemi varnaraðila án þess að lögð séu fram gögn þeim til stuðnings. Engin opinber rannsókn hafi farið fram, vitnamál verið höfðað né hafi önnur sönnunarfærsla farið fram.

Byggt er á því að orðalag lögbannskröfunnar sé svo óskýrt að hún eigi ekki að ná fram að ganga. Sóknaraðili beri ábyrgð á skýrleika kröfunnar og því að ekki sé þar útskýrt nánar hvernig „sala“ eða „milliganga“ af hálfu varnaraðila á að fara fram. Enginn geti útbúið og selt Sky áskriftarkort nema Sky sjónvarpsstöðin sjálf en kortin séu gefin út á nafn einstaklinga eða félaga og sé opnað fyrir útsendingu gegn greiðslu frá þessum aðilum. Varnaraðila sé ómögulegt að útbúa og selja slík kort. Bendir varnaraðili jafnframt á að ekki sé unnt að leggja lögbann við milligöngu nema skilgreint sé í lögbannskröfunni nákvæmlega í hverju hún sé fólgin.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að allan sönnunargrundvöll vanti undir kröfur sóknaraðila og að málið jafnt að formi og efni hafi breyst í grundvallaratriðum frá framlagningu lögbannsbeiðninnar. Í upphaflegri lögbannsbeiðni hafi verið krafist lögbanns við nánar tilteknum athöfnum gerðarþola án þess að skilgreindur hafi verið sérstaklega hlutur hvers og eins að þeim þáttum sem lögbannskrafan lúti að. Þá sé með almennum hætti fullyrt að gerðarþolar starfræki verslun í Reykjanesbæ og selji m.a. móttökubúnað, að gerðarþoli miðli ólöglega áskriftarkortum að Sky, að gerðarþolar séu í samstarfi við brotamenn í Bretlandi og að gerðarþolar taki gjald fyrir sölu áskriftarkorta. Varnaraðili neiti alfarið þessum ásökunum. Eftir að fallið hafi verið frá stórum hluta krafnanna og breytingar gerðar á aðild málsins, hafi ekki verið gerð grein fyrir áhrifum þess á málsatvikalýsingu og málsástæður og teljist málið því vanreifað að þessu leyti. Varnaraðila sé ómögulegt að átt sig á ætluðum þætti sínum í þeirri athöfn sem lögbannskrafan beinist að.

Enn fremur liggi ekki fyrir næg sönnun fyrir því að varnaraðili hafi viðhaft eða viðhafi þá háttsemi sem lögbannskrafan lúti að. Varnaraðili mótmælir því að hann hafi viðhaft eða hafi í hyggju að viðhafa þá háttsemi sem í lögbannsbeiðni og kröfum sóknaraðila ræðir og beri sóknaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að staðhæfing hans um annað sé rétt. Varnaraðili persónulega flytji hvorki inn né selji móttökubúnað fyrir gervihnattasjónvarp en það gerði hins vegar einkahlutafélagið SkyDigitalIsland ehf. sem hann sé hluthafi og stjórnarmaður í en félagið sé ekki aðili að þessu máli.

Varnaraðili kveðst vera rétthafi og ábyrgðaraðili að léninu skydigital.is. Um sé að ræða upplýsingamiðil en engin sala eða milliganga um sölu fari fram gegnum vefsíðuna. Sú málsástæða að varnaraðili sem ábyrgðaraðili vefsíðunnar hafi persónulega selt eða haft milligöngu um sölu á áskriftarkortum Sky sé of seint fram komin. Leysa verði úr máli þessu á þeim grunni sem lögbannskrafan var reist á þegar hún kom fram hjá sýslumanni en í beiðninni sé byggt á því að gerðarþolar starfræki verslun í Reykjanesbæ sem selji m.a. móttökubúnað til að ná útsendingum Sky. Það sé í tengslum við þessa starfsemi sem hin ætlaða ólöglega miðlun áskriftarkorta fari fram en ekki gegnum vefsíðuna eins og haldið sé fram hér fyrir dóminum. Mótmælir varnaraðili því að lög og reglur hafi verið brotnar við starfrækslu síðunnar og vísar m.a. til þess að síðan hafi verið leiðrétt vegna misskilnings sóknaraðila á efni hennar.

Jafnvel þótt fallist verði á að framsetning efnis á vefsíðunni hafi farið gegn lögvörðum rétti sóknaraðila, telji varnaraðili það ekki geta verið tilefni lögbannskröfu á hendur varnaraðila persónulega. Í fyrsta lagi hafi ummælin verið fjarlægð af vefsíðunni og þá hafi varnaraðili ekki sett umræddar setningar inn á síðuna. Loks geti sóknaraðili leitað réttar síns fyrir almennum dómstólum með venjulegum hætti.

Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi hvorki gert sennilegt að lögvarinn réttur hans standi til kröfunnar né að réttindi hans muni fara forgörðum. Málatilbúnaður sóknaraðila um eign á sýningarrétti á Íslandi á nánar tilteknu efni sem studdur sé flóknum samningum á ensku, sé ekki til marks um að lögvarinn réttur hans sé skýr og alls ekki að brotið hafi verið gegn rétti hans með áratuga móttöku á sjónvarpsstöðinni Sky.

Enn fremur sé af hálfu varnaraðila vísað til þess að sóknaraðili fullyrði að á bresku sjónvarpsstöðinni Sky sé sýnt efni sem réttur hans taki til. Varnaraðili sé eðli málsins samkvæmt ekki í stakk búinn að taka afstöðu til þess hvort Sky sjónvarpsstöðin sýni efni sem sóknaraðili eigi einkasýningarrétt á  en engin sönnunarfærsla hafi farið fram um þetta atriði. Geri sjónvarpsstöðin Sky það og hagi hún útsendingum sínum þannig að útsendingar stöðvarinnar nái langt út fyrir lögsögu hennar, þá sé því mótmælt að tugþúsundir Íslendinga, sem keypt hafi áskriftarkort af Sky, hafi brotið gegn rétti sóknaraðila. Sóknaraðili beini hvorki kröfum sínum að Sky né þeim einstaklingum sem eru áskrifendur að sjónvarpsstöðinni. Þá hafi sóknaraðili ekki látið reyna á réttarstöðu sína fyrr og því sé ekki til staðar hin brýna nauðsyn sem réttlæti beitingu bráðabirgðatryggingarúrræðis.

Niðurstaða.

Varnaraðili hefur mótmælt því að Samtök myndrétthafa á Íslandi, SMÁÍS, eigi aðild að lögum að máli þessu. Við úrlausn þessa ágreiningsatriðis verður að líta til ákvæða 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, en þar segir að félag eða samtök manna geti í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Samkvæmt framlögðum samþykktum SMÁÍS er tilgangur samtakanna m.a. að standa saman að réttaraðgerðum gegn hvers konar skerðingum á lagalegum rétti og öðrum hagsmunum félagsmanna hér á landi. Að þessu virtu verður að telja aðild sóknaraðila í samræmi við lög.

Af hálfu sóknaraðila hafa verið lögð fram gögn sem sýna að 365-miðlar ehf. hafa gert einkaréttarsamninga um nánar tilgreint sjónvarpsefni við ýmsa erlenda aðila. Af hálflu sóknaraðila hefur verið fullyrt að 365-miðlar ehf. og sjónvarpsstöðin Sky kaupi myndefni frá sömu framleiðendum og því sé um að ræða sömu sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem sýndar séu bæði hjá 365-ljósvakamiðlum ehf. og Sky. Séu sýningartímabil áþekk eða hin sömu og fyrir bragðið séu dagskrár sjónvarpsstöðvanna tveggja nokkuð keimlíkar flesta daga. Varnaraðili hefur hins vegar mótmælt því sem ósönnuðu að á sjónvarpsstöðinni Sky sé sýnt efni sem réttur sóknaraðila tekur til. Þegar litið er til mótmæla varnaraðila að þessu leyti og þess að engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem sýna fram á að á stöðvum 365-miðla ehf. og Sky sé sýnt sama myndefni á áþekkum sýningartímabilum, verður að telja að sóknaraðili hafi hvorki sannað né gert sennilegar fullyrðingar sínar um að sala eða milliganga um sölu á áskriftarkortum að Sky brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Er skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því ekki fullnægt og verður því þegar af þeirri ástæðu synjað um lögbann.

Samkvæmt framansögðu er dómkröfum sóknaraðila í málinu hafnað og fallist á það með varnaraðila að sýslumaðurinn í Keflavík hafi með réttu hafnað beiðni sóknaraðila um lögbann.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 375.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Samtaka myndréttarhafa á Íslandi, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 10. ágúst 2007 um að synja um lögbann í máli L-2/2007.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 375.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

 

 

 

 

...