Hæstiréttur íslands
Mál nr. 144/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 15. mars 2006. |
|
Nr. 144/2006. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106 gr. laga nr. 19/1991.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans væri til meðferðar fyrir æðri dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. maí 2006 kl. 17. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og kröfu sóknaraðila vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ekki verður séð að krafa um málskostnað í héraði hafi verið höfð uppi fyrir héraðsdómi og kemur hún þegar af þeirri ástæðu ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2006.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], verði með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. maí 2006, kl. 17.00.
Í greinargerð Ríkissaksóknara kemur fram að dómþoli hafi verið handtekinn þann 2. september 2005 grunaður um að hafa ásamt fleiri aðilum svipt A frelsi sínu þar sem hann hafi verið við vinnu sína í versluninni [...], með því að hafa neytt hann út úr versluninni og í farangursgeymslu bifreiðar. Þaðan hafi dómþoli og félagar hans farið með A út í Skerjafjörð þar sem dómþoli hafi veittst að honum með hótunum og barsmíðum og ógnaði honum með skotvopni (startbyssu) og krafið hann um peninga. Í framhaldi af því hafi A á ný verið neyddur í farangursgeymslu bifreiðarinnar og hafi verið farið með hann í Landsbankann við Hagatorg þar sem hann hafi verið þvingaður til að taka fé út af bankareikningi sínum og greiða dómþola og félögum hans. Dómþoli hafi að mestu leiti viðurkennt þessi brot sín.
Þann 21. október 2005 hafi dómþoli ásamt fleirum ákærður vegna ofangreinds máls fyrir ætluð brot gegn 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómþoli hafi verið þann 9. desember 2005 dæmdur í 2 ára fangelsi en þeim dómi hafi hann áfrýjað til Hæstaréttar.
Áður en dómþoli hafi verið handtekinn þann 2. september 2005 hefði hann setið í gæsluvarðhaldi frá 22. júlí á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála vegna brota sem hann hafi verið grunaður um að hafa framið fyrir 22. júlí. Þann 2. september 2005 hafi dómþoli verið dæmdur í 16 mánaða fangelsi en frestað hafi verið fullnustu 13 mánaða skilorðsbundið í 3 ár. Dómþoli hafi tekið sér þá frest til að taka ákvörðun um áfrýjun dómsins og hafi þá verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Örfáum klukkustundum eftir að dómþoli hafi verið látinn laus hafi hann verið handtekinn grunaður um ofangreind brot gegn 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga og rofið þar með skilorð dómsins.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 3. febrúar 2006 hafi dómþoli verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald meðan mál hans sé til meðferðar fyrir æðra dómi en þó ekki lengur en til 17. mars 2006. Dómfelldi hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar sem fellt hafi úrskurðinn úr gildi. Í dómi Hæstaréttar komi fram að af þeim þremur mánuðum sem dómþoli þurfi að afplána vegna dómsins frá 2. september 2005, dragist frá 47 dagar vegna gæsluvarðhalds og eigi dómþoli því eftir að afplána 43 daga. Síðan segi í dómi Hæstaréttar: “Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga er kveðið á um að sé dómþoli í gæsluvarðhaldi skuli hann þegar hefja afplánun refsingar nema að rannsóknarhagsmunir bjóði annað. Þar sem ekki er byggt á því í máli þessu að rannsóknarhagsmunir styðji áframhaldandi gæsluvarðhald varnaraðila og hann átti óafplánaða 43 daga af refsingu samkvæmt dómi 2. september 2005, sem mun samkvæmt framansögðu hefjast um leið og gæsluvarðhaldsvist hans lýkur, eru ekki lagaskilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldsvist hans á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.”
Með bréfi Fangelsismálastofnunar dags. 10. mars 2006 hafi dómþola verið kynnt að 56 daga gæsluvarðhald yrði dregið frá refsingunni í stað 47 daga eins og áður hefði verið ákveðið. Nú í dag, 14. mars, ljúki dómþoli afplánun.
Þann 2. maí nk. sé fyrirhugaður málflutningur í Hæstarétti. Sú krafa sé gerð að dómþoli verði látin sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar til dómur fellur í Hæstarétti. Dómþoli sé fíkniefnaneytandi og fjármagni neyslu sína með afbrotum og séu miðað við hegðun dómþola þann 2. september sl. þegar hann framdi alvarlegt hegningarlagabrot um þremur klukkustundum eftir að hann hafi verið látinn laus, yfirgnæfandi líkur á því ef hann yrði látinn laus þá héldi hann áfram afbrotum. Dómþoli hafi með vísan til ofangreindra lagaákvæða sætt gæsluvarðhaldi frá 3. september 2005, að undanskildu tímabilinu frá 8. febrúar 2006 til dagsins í dag.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála og með hliðsjón sakaferli dómþola þyki nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í máli hans.
Dómþoli hefur nú afplánað þá refsingu sem hann hefur hlotið. Brotaferill hans er rakinn hér að framan. Þykir af honum mega ætla að dómþoli muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus meðan máli hans sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar Íslands er ekki lokið. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á að skilyrði séu til að taka kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald til greina.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 18. maí 2006, kl. 17.00.