Hæstiréttur íslands
Mál nr. 131/2007
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 13. september 2007. |
|
Nr. 131/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn Americo Luis Da Silva Conçalves (Gylfi Thorlacius hrl. Kristján B. Thorlacius hdl.) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
A var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa þröngvað Y með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka. Með vísan til forsendna héraðsdóms, sem mat framburð Y trúverðugan, var staðfest sú niðurstaða að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var þar sakfelldur fyrir. Einnig þótti nægilega sannað, með vísan til framburðar Y við lögreglurannsókn og við meðferð málsins, að A hefði gerst sekur um þá háttsemi, sem hann var sýknaður af í héraði. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem hann var dæmdur til að greiða Y 1.000.000 króna í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing hans þyngd og honum gert að greiða Y 2.018.000 krónur með vöxtum eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að kröfu Y verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er þar sakfelldur fyrir og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða. Ákærða er einnig gefið að sök að hafa þröngvað Y til samræðis með því að hafa sett getnaðarlim sinn í munn hennar, en í héraðsdómi var ákærði sýknaður af þessari háttsemi meðal annars með vísan til þess að frá þessu hafi hún ekki skýrt fyrir dómi. Í yfirheyrslu hjá lögreglu daginn eftir atburðinn og við meðferð málsins fyrir dómi bar Y staðfastlega að ákærði hafi að óvilja hennar meðal annars sett lim sinn í munn hennar. Þá sagði ákærði jafnframt að munnmök hafi farið fram. Er samkvæmt framangreindu nægilega sannað að hann hafi einnig gerst sekur um þessa háttsemi. Með vísan til forsendna héraðsdóms um ákvörðun refsingar og fordæma Hæstaréttar er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, en frá henni dragist fimm daga gæsluvarðhaldsvist hans.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að Y eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Eru þær hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur, sem dæmdar verða með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Héraðsdómur vísaði kröfu hennar um þjáningabætur frá dómi og koma þær því ekki til álita fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Americo Luis Da Silva Conçalves, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Frá refsingunni skal draga fimm daga gæsluvarðhaldsvist hans.
Ákærði greiði Y 1.000.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. september 2006 til 18. október sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 457.231 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gylfa Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. janúar sl. er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara dagsettri 16. október 2006 á hendur Americo Luis Da Silva Concalves, portúgölskum ríkisborgara, kennitala 230871-2219, Mýrargötu 10, Reykjavík, ,,fyrir nauðgun og stórfellda líkamsárás, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 10. september 2006, að [...], Reykjavík, þröngvað Y með ofbeldi og hótun um ofbeldi, til samræðis og annarra kynferðismaka með því að setja lim sinn í munn hennar og fingur í leggöng, og beitt hana endurteknu ofbeldi meðan á kynferðismökunum stóð, með því meðal annars að þrýsta kodda að hálsi Y, slá og klípa í kynfæri hennar og brjóst, slá hana víðsvegar annars staðar um líkamann, ýmist með krepptum hnefa eða flötum lófa, og snúa upp á ökkla hennar og slá honum upp við vegg, allt með þeim afleiðingum að Y hlaut veruleg snertieymsli á hálsi, skafsár vinstra megin í nára, sprungur og bjúg á kynfærum, marbletti og húðblæðingar á brjóstum, roða og bólgu á nefi og undir auga, kúlu á hnakka, margúl yfir hægri öxl, 12 sm í þvermál, bólguhellu yfir vinstri rasskinn, mar og bólgu á vinstri ökkla og marbletti á fótleggjum.“
Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 20/1981.
Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y, er krafist skaðabóta að fjárhæð 2.018.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. september 2006 til greiðsludags.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af kröfunni. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa, að mati dómsins.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 11. september 2006 lagði kærandi fram kæru á hendur ákærða vegna meintrar nauðgunar af hans hálfu að morgni sunnudagsins 10. september sl. Hún skýrði lögreglu svo frá að hún hefði farið með systur sinni, B, á veitingahúsið Dubliners. Þegar þangað var komið hafi þær hitt fyrir þrjá menn, sem hétu Luis (ákærði), C og D, sem þær fóru að spjalla við. Vel hafi farið á með systur kæranda og D. Þær hafi svo farið yfir á kaffi Viktor, þar sem mennirnir voru einnig og hafi orðið úr að þær hafi farið að [...], á heimili ákærða, með þeim D og Luis, en C hafi ekki komið með. Vinir þeirra systra hafi ekið þeim þangað. Ákærði, Luis, hafi farið að reyna mikið við hana. Hann hafi strokið henni, farið með hendi undir pils hennar og strokið á henni kynfærin gegnum sokkabuxur sem hún klæddist. Systir hennar hafi spurt hvort þau gætu horft á Stöð 2 í sjónvarpinu, en ákærði hafi sagt að þeir hefðu bara erlendar stöðvar og nokkrar bláar myndir. Hafi hann sett eina slíka í tækið. Ákærði og D hafi rætt eitthvað saman sín á milli. Síðan hafi ákærði beðið kæranda að koma með sér inn í herbergi og hafi kærandi talið að hann hafi viljað leyfa þeim B og D að vera í friði. Ákærði hafi lokað hurðinni inn í herbergið og farið að láta vel að kæranda. Hann hafi klætt hana fyrst úr pilsinu og svo úr sokkabuxunum. Síðan hafi hann klætt hana úr hvítum topp en sjálf hafi hún klætt sig úr brjóstahaldaranum. Ákærði hafi klætt sig úr fötum. Næst hafi ákærði ráðist á hana, gripið um brjóst hennar og kreist þau, bitið þau og og klipið í þau. Hafi hún þá beðið hann að hætta, en hann hafi hent henni á bakið á rúmið, stigið hægri fæti sínum ofan á hægri fót kæranda og barið hana í brjóstin með vinstri hendi, en með þeirri hægri hafi hann klipið hana í kynfærin og sett fingur í kynfæri hennar. Hann hafi tekið kodda og þrýst honum að hálsi hennar og barið hana með hendinni um allan líkamann og í höfuðið. Hann hafi kýlt hana með krepptum hnefa milli fótanna og víðar um líkamann. Hafi hann notað bæði flatan lófa og krepptan hnefa. Hann hafi svo tekið um vinstra ökkla hennar, snúið upp á hann og skellt fætinum upp að vegg og snúið henni á magann. Hann hafi þá tekið um báðar hendur hennar og snúið þær aftur á bak. Síðan hafi hann farið með lim sinn í leggöng hennar og viðhaft harkalegar samfarahreyfingar. Hún kvaðst vera viss um að ákærði hefði haft sáðlát við samfarirnar, hún hafi verið útötuð í sæði um líkama og andlit, en hann hafi slegið hana í andlitið fram og til baka með limnum og margsinnis kallað hana ,,bitch, og fuck me“. Þá hafi hann margsinnis sett lim sinn í munn hennar og nuddað honum um andlitið á henni. Hún hafi ekki þorað að kalla á hjálp, en oft beðið hann að hætta. Hann hafi virt það vettugi og komið fram vilja sínum á ruddalegan hátt. Hún kvaðst hafa fundið fyrir miklum sársauka í fæti, handleggjum, öxlum, andliti og í kynfærum. Þegar ákærði hafði lokið sér af, hefði hún sagt að nú væri nóg komið. Þá hafði hann sagt nei, sett handlegginn yfir hálsinn á henni og krækt öðrum fætinum utan um fætur hennar og haldið henni þannig niðri í rúminu. Hafi hann ekki sleppt fyrr en systir hennar hefði opnað hurðina og kallað til hennar og spurt hvort þær ættu ekki að fara. Þá hafi ákærði sleppt henni og hún hafi náð að klæða sig og fara út. Hún kvaðst hafa farið á neyðarmóttöku um kvöldið og fengið þar viðeigandi læknisskoðun.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 13. september 2006. Hann skýrði svo frá að hann hefði farið á Kaffi Viktor umrædda nótt og þar hefði hann hitt E vin sinn, sem hefði verið þar með tveimur systrum. E hefði spurt hann að því hvort hann gæti gist heima hjá ákærða og sagt að önnur systirin kæmi með. Hafi það orðið úr að þær komu báðar með heim til ákærða. Þær hafi spurt að því hvort hann ætti klámmyndir og hafi hann sett slíka mynd í myndbandstækið. Önnur systranna hafi svo spurt ákærða að því hvort hann vildi hafa við hana samfarir og þau hafi farið saman inn í herbergi. Hann hafi haft samfarir við hana þar og hafi hún snúið sér við og viljað að hann slægi hana í rassinn, sem hann hafi gert. Hún hafi alltaf viljað fá meira og meira, þar til hann hafi lokið sér af og tekið af sér smokk sem hann hafði notað við samfarirnar. Þau hafi svo sofnað saman í rúminu. Hún hafi vaknað um morguninn og viljað kyssa hann bless, en hann ekki viljað það. Hún hafi farið með systur sinni heim. Einn vinur ákærða, C, hafi komið heim um nóttina. Ákærði kvað kæranda aldrei hafa látið í ljós að hún væri á móti þessum samförum, heldur hafi hún átt frumkvæðið að þeim.
Er ákærði var spurður hvort konan gæti hafa borið áverka eftir þessar samfarir, kvað hann mögulegt að áverkar væru á rasskinnum hennar, en hann hafi þó aldrei slegið hana svo fast að það hefði skilið eftir sig einhverja marbletti. Hann kvaðst einungis hafa slegið hana létt í rassinn.
Ákærði var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 18. september 2006. Kvaðst hann engu hafa að bæta við fyrri framburð. Hann kvaðst hafa vaknað við það að kærandi hreyfði sig. Hún hefði klætt sig í fötin og viljað kyssa hann bless. Hann hafi ekki viljað það og haldið áfram að sofa. Hann kvaðst ekki hafa séð marbletti á henni, hvorki fyrir né eftir samfarirnar. Hann kvaðst hins vegar hafa veitt því athygli að hún hafi gengið óeðlilega bæði fyrir og eftir samfarirnar og kvaðst halda að það væri vegna þess að hún væri ,,frekar þéttvaxin“. Hann taldi eymsli í leggöngum geta stafað af venjulegum samförum. Þá kvaðst hann hafna bótakröfu kæranda og kvað framkomna bótakröfu sýna fram á hver sé tilgangur hennar með kæru.
Ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 14. september til 18. september 2006 vegna málsins og hefur sætt farbanni frá 18. september.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík voru tekin lífssýni af andliti, eyrum, hægra og vinstra brjósti kæranda, ytri börmum, innri börmum og leggöngum með bómullarpinnum. Ekkert sýnanna gaf svörun við sæðisprófi, en bómullarpinnar sem notaðir höfðu verið til að taka sýni úr leggöngum voru blóðugir. Ekki fannst heldur sæði á spekulum (andanefju), sem er meðal rannsóknargagna málsins. Í klofbót sokknabuxna kæranda fannst blóð, en ekkert markvert fannst við skoðun pils, topps og brjóstahaldara kæranda. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að í innanverðri klofbót sokkabuxna fannst blettur sem gaf jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófi sem sæði og þótt ekki hafi fundist sæðisfrumur í smásjársýni, sem útbúið var úr sýni úr blettinum, sé ekki hægt að útiloka að í blettinum væri að finna lífssýni sem nothæf væru til DNA kennslagreiningar.
Þá liggja frammi ljósmyndir tæknideildar, af áverkum kæranda, sem teknar voru á neyðarmóttöku LSH Fossvogi. Einnig liggja frammi ljósmyndir af vettvangi ætlaðs kynferðisbrots að [...], Reykjavík.
Í skýrslu Óskar Ingvarsdóttur læknis, um komu kæranda á neyðarmóttöku 10. september 2006, kemur fram að kærandi hafi komið á neyðarmóttöku þann dag kl. 20.30. Hún hafi verið í för með systur sinni, B. Frásögn hennar var á þá leið að hún hafi farið út að skemmta sér með systur sinni. Þær hafi hitt tvo menn sem komið hefðu vel fyrir og þær hafi farið heim með þeim. Systir hennar hafi farið með öðrum þeirra afsíðis, en kærandi hafi farið inn í herbergi hins. Hún hafi ekki verið fyrr komin inn í herbergið en hann hafi farið að ganga í skrokk á henni og nauðga henni. Hann hafi bitið hana, klipið, sleikt brjóst hennar, barið hana með hnefa, slegið hana utanundir, rifið í hár hennar, slegið henni utan í vegg og snúið upp á ökkla hennar. Hann hafi haldið henni og tekið hana aftan frá, slegið hana með hnefa í klofið, djöflast með fingrinum í klofi hennar og leggöngum og sprautað sæði yfir andlit hennar. Hún hafi sagt nei við þessu undireins, en það eina sem hann hafi virt, hafi verið er hún grátbað hann um að ,,taka sig ekki rass“. Hún hafi orðið ofsalega hrædd og fundið mikið til, en ekki þorað að öskra og verið hrædd um líf sitt. Hún kvaðst finna mikið til, t.d. í klofinu og ökklanum og fannst hún strax dofin frá hné eftir að hann sneri upp á ökkla hennar. Allan tímann hafi hann talað um að ,,ríða tíkinni“, en hann hafi talað ensku.
Í skýrslu læknisins er að finna reiti, þar sem læknir merkir við tilgreind atvik, eftir frásögn sjúklings. Þannig er merkt já við að kynmök hafi átt sér stað um leggöng, káfað á kynfærum, káfað á brjóstum, káfað á rassi, fingur settur í leggöng, sáðlát á andlit, en merkt nei við kynmök um endaþarm, getnaðarlimur settur í munn og kynfæri konu sett í munn. Þá er einnig merkt nei við ,,smokkur notaður“. Í sömu skýrslu kemur fram að hún hafi þurrkað sér eftir þetta, en ekki skolað sig og að sárt sé að hafa þvaglát.
Í ástandsskýrslu læknisins kemur fram að hún segi frá öllu með mikilli þjáningu. Hún gráti á milli og líði áberandi illa. Hún sé oft niðurlút og feli andlit í höndum sér. Hún lýsi því hvernig hún var lömuð af ótta og hrædd um líf sitt, lýsi því hvernig hún var miður sín af ótta og skömm fyrst eftir atburðinn. Hún hafi varla sofið nokkuð eftir heimkomuna vegna endurupplifunar og mynda af atburðinum. Hún sé trúverðug. Hún sitji í hjólastól, þar sem hún sé með bundið um ökkla og ekki göngufær. Hún sé aum um allt og æi og ói við minnstu snertingu, t.d. við snertingu á andliti, öxl, hnjám, brjóstum, klofi og ökkla. Takmarki það skoðun að nokkru. Um tilfinningalegt ástand segir í skýrslunni að hún sé í losti, fjarræn, gráti, sé óttaslegin, sitji í hnipri og endurlifi árásina.
Um áverka og önnur verksummerki segir í skýrslunni að hún sé með roðaeymsli og bólgu vinstra megin á nefi og undir vinstra auga og út undir gagnauga. Roði og veruleg snertieymsli séu á hálsi frá hægra kjálkabarði og fram að miðlínu og yfir ,,sternocl.mastoideus“ vöðva. Kúla sé aftan á hnakka hægra megin. Geti þessir áverkar verið eftir þungt högg eða þrýsting af hlut.
Hún sé með stóran margúl yfir hægri öxl og veruleg eymsli (12 sm í þvermál). Eymsli séu á báðum úlnliðum og mar (ca 4-5 sm) ofan þumals. Geti þessir áverkar á öxl verið eftir þungt högg eða fall á úlnliðum, t.d. eftir þrýsting.
Á báðum brjóstum sé konan hvellaum við alla snertingu. Dreifðir marblettir séu og smáhúðblæðingar, ca 1- 1½ sm stórar um ofanverð brjóst og einn marblettur beggja vegna neðan geirvörtu. Geti þessir áverkar verið eftir högg eða þrýsting, t.d. undan fingrum. Á hægri fótlegg séu marblettir ca 4 sm á hné og rétt ofan við og bólga og eymsli framan á sköflungi. Á vinstri fótlegg séu lík eymsli og bólga á sköflungi og bólginn ökkli með mari og eymslum yfir liðböndum. Geti þessir áverkar verið eftir högg, fall, þrýsting.
Hún sé með eymsli yfir herðum, bólguhellu yfir hægri rasskinn og á svæðinu séu 2 marblettir, ca 5-6 sm með skarpri efri brún. Mar sé í hnésbót, 2 sm í þvermál. Geti þessir áverkar verið eftir högg eða þrýsting.
Í skýrslu læknis um grindarbotnsskoðun er lýst skafsári í vinstri nára með roða á ca 5x5 sm svæði og sé sárið vessandi að hluta. Sprungur séu milli ytri og innri barma. Leggangaskoðun var óeðlileg og því lýst að svo mikill bjúgur og eymsli hafi verið er reynt var að fara inn með bómullarpinna, að frekari skoðun á leggöngum var ekki gerð að sinni.
Í niðurstöðum læknisins kemur eftirfarandi fram: ,,Kona sem kemur rúmlega hálfum sólarhring eftir líkamsárás og nauðgun. Lýsir miklum ótta og þjáningum. Er með ummerki um að gengið hafi verið í skrokk á henni með marbletti og þrota hér og hvar og haltrar vegna bólgu um ökkla. Áverkar geta vel komið heim og saman við sögu og er trúverðug. Veruleg eymsli og þroti við nef og vi. gagnauga og á hægri öxl og vinstri ökkla en ekki staðfest brot. Ekki unnt að full skoða leggöng vegna eymsla en sýni tekin frá húð og kynfærum til DNA leitar. Sýklaræktanir teknar. Fær deyfingarkrem og verkjalyf auk sýklalyfja til að fyrirbyggja chlamydiu. Fær búið um ökkla á slysadeild. Endurkoma til kvenskoðunar innan fárra daga og hefðbundin eftirfylgni a.ö.l.“
Í endurkomuskýrslu frá 13. september 2006, kemur fram að hún fái martraðir vegna árásarinnar, enn sé sárt að pissa og eymsli séu í leggöngum. Hún sé aðeins farin að geta stigið í fótinn. Hún segi að hún eigi mjög erfitt með að sofa.
Þá segir í skýrslunni að hún líti betur út, en segi að sér líði mjög illa. Börn hennar eigi mjög erfitt með að taka þessu og það auki álag hennar.
Í endurkomuskýrslu frá 25. september 2006 segir að stundum sé ,,vont að pissa“. Henni líði enn mjög illa og fari hún varla út úr húsi. Hún sé uppstökk og hún sofi illa. Hún sé enn hölt. Þá kemur fram í skýrslunni að hún eigi tíma hjá sálfræðingi og henni sé bent á að mæta.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa verið á veitingastaðnum Dubliners umrætt kvöld. Kvað hann kæranda hafa þekkt E, en ekki ákærða sjálfan. Kvað hann kæranda hafa spurt sig að því hvert C hefði farið, þar sem hún hefði haft áhuga á C. Hann hefði þá haft samband við C og kvaðst hann vera á veitingastaðnum Viktor og hafi kærandi og systir hans farið þangað. E hafi svo farið yfir á kaffi Viktor, en í lok næturinnar hafi ákærði farið þangað. Hafi þá C verið þar ásamt vinkonu sinni, F, og hafi hann sagt við ákærða að hann ætlaði heim til sín með F. E hafi sagt að systir kæranda vildi ekki sleppa sér og hafi þá ákærði boðið þeim að koma. Hafi E sagt að hún væri með tvíburasystur sinni og hafi ákærði sagt að þau gætu bara öll komið. Hann hafi reiknað með að þau hringdu á leigubíl, en þá hafi komið í ljós að tveir menn biðu fyrir utan veitingastaðinn og hafi þeir verið á bíl. Hafi þau farið öll á bílnum að heimili ákærða. Fyrir utan heima hjá ákærða virtust systurnar og mennirnir sem óku þeim rífast á íslensku í einhverjar mínútur, en að lokum greiddu þær bílstjóranum um 2000 krónur. Þau hafi svo farið inn og E hafi fært þeim samlokur og drykki. Ákærði hafi verið með dvd diska á sófaborðinu og hafi önnur þeirra beðið hann um að sýna þeim. Hafi þá ákærði sagt að þetta væru ekki venjulegar myndir, heldur klámmyndir. Hafi þá önnur konan sagt að hún vildi sjá myndirnar. Þau E og systirin hafi upphafið ástaleiki þarna í sófanum og síðan farið á salernið. Ákærði og kærandi hafi farið inn í herbergi ákærða og hafi það verið vilji þeirra beggja. Ákærði var spurður hvort það hefði verið rætt eitthvað á undan, en kvað svo ekki hafa verið, þetta hafi meira verið í formi þess að þau hafi gjóað augum hvort á annað. Ákærði var spurður um þann framburð í lögregluskýrslu að kærandi hafi spurt ákærða að því hvort hann vildi hafa samfarir við hana. Kvað ákærði þá að við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi ákærði verið taugaóstyrkur og sé hann að segja það sama nú og þá. Þá var hann spurður um þann framburð hjá lögreglu að kynmökin hafi hafist með því að hann hafi legið ofan á henni, en hann lýsi kynmökunum á annan hátt nú. Kvað ákærði þá að hann muni ekki hvað hann sagði hjá lögreglu, en hann kvaðst lýsa atvikum með réttum hætti nú. Hún hafi verið ofan á sér og hafið munnmök. Meðan þetta gerðist hafi F og C verið í einu herbergi íbúðarinnar. Kærandi hafi farið að afklæða sig, en ákærði hafi ekki afklætt hana. Hún hafi slökkt ljósin, en ákærði enn verið klæddur. Hafi þá ákærði afklætt sig. Þau hafi lagst í rúmið og hún hafi hafið munnmök. Hún hafi verið kynferðislega æst og hafi tennur hennar meitt hann og hafi hann beðið hana að vera rólega. Hún hafi svo viljað leggjast ofan á hann en hann hafi beðið hana að vera rólega, því að ákærði hafi viljað ná í smokk. Hafi hún ekki verið hrifin af þeirri hugmynd. Ákærði hafi opnað smokkinn og sett hann á sig. Hún hafi verið ofan á ákærða og hafi þau hafið samfarir. Hún hafi verið með fingur sína í kynfærum sínum og viljað að ákærði setti fingur sína þar. Hún hafi viljað gera þetta allt mjög hratt. Hafi hún beðið ákærða að taka fast um þjóhnappa hennar og slá í rass hennar. Hafi hann gert það. Hafi þau svo skipt um stellingu, hún hafi lagst á fjóra fætur og þannig hafi samförunum lokið. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt hana neinu ofbeldi meðan á þessu stóð. Það sé ein af þeim lygum sem hún hafi haldið fram. Ef um eitthvert ofbeldi hafi verið að ræða, hafi það verið af hennar hálfu. Ákærði var beðinn um að skýra hvað hann ætti við með því, og kvaðst hann þá helst meina það að hún hafi verið svo kynferðislega æst og hennar vilji til kynmaka hafi verið meiri en hans. Hann hafi svo farið á salernið og þar hafi hann tekið af sér smokkinn og þrifið sig. Þegar hann kom til baka, hafi kærandi verið að reykja. Þar sem hann leyfi það ekki í sínu herbergi, hafi hann bannað henni það. Hún hafi ekki verið sátt við það og hafi hann farið á klósettið og slökkt í sígarettunni. Hún hafi sett upp svip þegar hann bað hana um að hætta að reykja, ,,svona svip eins og sá setur upp sem ætlar að berja mann“. Ákærði kvað engan óeðlilegan hávaða hafa fylgt þessum samförum. Hann kvað kynmökin hafa varað dágóða stund, um 1 klukkustund eða þar um bil. Ákærði kvaðst ekki hafa verið drukkinn, kvaðst e.t.v. hafa drukkið um 2-3 bjóra. Kærandi hafi hins vegar verið drukknari en hann, en hún hafi þó ekki verið ofurölvi. Þau hafi lagt sig aftur og sofnað. Hann hafi svo vaknað um morguninn og hafi hún verið að klæða sig í flýti. Hann hafi spurt hvort hún væri að fara og hún hafi svarað játandi. Hún hafi viljað kyssa hann bless, en hann hafi snúið andlitinu undan og hún hafi farið í burtu. Ákærði kvaðst halda að kærandi hafi farið um hálftíu til tíuleytið en þá hafi þau verið búin að sofa í einn til tvo tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við það að systir kæranda kæmi inn í herbergið til þeirra.
Ákærði kvaðst hafa tekið eftir því um kvöldið að kærandi hafi haltrað, en kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort það var meira eða minna þegar hún fór um morguninn. Það sé mjög hljóðbært í húsinu og vel heyrist milli herbergja og íbúða.
Ákærði kvað C vin sinn hafa fengið sms skilaboð úr síma kæranda. Skilaboðin hafi verið á þá leið að ,,þeir skyldu ekki opna hurðina“. Þá hefði C spurt ákærða hvort hann mætti gefa henni símanúmerið hans, en ákærði svarað neitandi.
Spurður um það hvort ákærði geti útskýrt þá áverka sem voru á kæranda við komu á slysadeild, kvaðst ákærði ekki trúa því að hann hefði veitt henni þá áverka.
Ákærði kvaðst hafa búið á Íslandi í tvö ár, en hann hafi dvalið og starfað í 8 löndum í Evrópu og það sem hann er ásakaður um í máli þessu sé fjarri öllu lagi. Hann kvaðst hafa starfað hjá Stálsmiðjunni þann tíma sem hann hefur unnið á Íslandi, en hann kvaðst vera fagmaður í logsuðu.
Vitnið, Y, kvaðst hafa verið á Dubliners umrætt kvöld með systur sinni. Þar hafi komið að þeim þrír drengir og þar á meðal ákærði. Hafi þeir verið að spjalla við þær og hafi þeir komið vel fyrir. Þeir hafi boðið þeim í glas og hafi þær þegið boðið. Vinur ákærða, C, hafi reynt mjög mikið við vitnið og annar vinur ákærða, E, hafi reynt mikið við systur sína og hafi þau verið að draga sig saman. Síðan hafi þær ákveðið að fara á skemmtistaðinn Viktor og þangað hafi mennirnir líka komið. Síðan hafi mennirnir boðið þeim í partý. Þær hafi þá hringt í G og H og beðið þá um ná í sig og aka þeim. Þegar komið var á heimili ákærða, hafi þau verið að ræða saman. Hefði þá ákærði haft á orði við systur hennar að honum fyndist vitnið æðislega sexý. Ákærði hafi verið mjög áleitinn, en vitnið ávallt færst undan. Hún hefði farið inn í eldhús til að losa sig við tyggjó, en ákærði komið á eftir og leitað á hana. Hefði þá vitnið sagt nei, stopp og sett hendurnar fram fyrir sig. Ákærði hefði virt það og systir hennar spurt hvort það væri ekki eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu. Hafi þá ákærði sagt að hann ætti bara ,,bláa mynd“. Þeir E og ákærði hafi svo horft á þessa bláu mynd. Þeir hafi svo rætt saman. Síðan hafi systir kæranda farið á salernið. Hafi þá ákærði spurt hvort hún vildi koma með sér inn í herbergi. Hafi hún gert það og kvaðst hafa haldið að hann vildi gefa þeim C og systur hennar tækifæri til að vera ein. Þegar inn var komið hafi hún litið í kringum sig. Þegar hún hafi snúið sér við hafi ákærði verið búinn að klæða sig úr öllum fötum. Hafi hún strax sagt, nei, ,,I told you no“, en ákærði hafi hent henni á rúmið, og klætt hana úr öllu. Hún hafi þó sjálf klætt sig úr brjóstahaldara. Hann hafi meitt hana svo mikið þegar hann hafi ,,djöflast á brjóstunum“ á henni og hafi hún því sjálf klætt sig úr brjóstahaldaranum. Síðan hafi ákærði ,,djöflast í klofinu“ á henni með fingrum, hann hafi slegið hana með hnefa í klofið, hann hafi slegið hana utanundir, hann hafi kallað hana bitch, whore, og sagt: ,,I am going to kill you.“ Hún hafi svarað á ensku, no, no, no, þegar hún svaraði á annað borð. Síðan hafi hann tekið í annan fót hennar og skellt honum upp við vegg. Henni hafi brugðið mjög þar sem hún hafi fundið til mikils sársauka við þetta. Á augabragði hafi hann verið búinn að snúa henni yfir á magann. Þá hafi hann lamið hana í bakið og axlir og troðið hvítum kodda undir hana. Hún kvaðst aldrei hafa kallað á hjálp, þar sem systir hennar hefði verið ,,vel í því“ og kvaðst hún ekki hafa vitað hvort hún væri sofnuð og ef hún væri sofnuð, þá kvaðst hún hafa verið hrædd um að E tæki þátt í þessu. Síðan hafi ákærði ætlað að ,,ríða henni í rass“ og hún grátbeðið hann að gera það ekki. Hafi það verið það eina sem hann hafi virt. Þetta hafi svo staðið yfir í um eina klukkustund. Hún kvaðst hafa ákveðið að láta þetta yfir sig ganga, þar sem þessu hlyti að ljúka einhvern tíma og hún gæti farið heim til barnanna sinna. Hún kvaðst ekki hafa gefið frá sér nein hljóð meðan á kynmökunum stóð, en hún hafi þó sagt no, stop. Ákærði hefði gefið frá sér hljóð við samfarirnar. Þegar systir hennar bankaði á dyrnar, hafi ákærði verið búinn að setja hönd hennar yfir háls sér og krækja fótunum yfir hana. Þegar systir hennar kom inn, hafi ákærði losað takið. Hún hafi þá klætt sig í flýti í fötin og farið fram. Hún kvaðst ekki hafa getað stigið í fótinn eftir þetta. Systir hennar hafi spurt hvað gerðist. Hafi hún svarað að þetta hefði verið algert helvíti og sagt að ákærði hefði farið svo illa með hana. Systir hennar hafi ekki treyst sér til að hlusta á hana, en þær hafi hringt á vini sína og fengið þá til að sækja sig. Hún hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar og lagt höfuðið á öxl annars strákanna. Þeir hafi þá spurt hvað gerst hefði. Hefði þá systir hennar sagt að þetta hafi ekki verið neitt annað en sadistaháttur og nauðgun, en kærandi kvaðst þó ekki hafa lýst þessu að neinu marki fyrir systur sinni. Hún hafi þó tekið undir það, þegar systir hennar sagði að þetta hefði verið nauðgun. Hún hafi ekki viljað ræða þetta og beðið strákana að keyra sig heim. Hún hafi sest þar niður með systur sinni og strákunum sem keyrðu þær heim og hún hafi sagt þeim hvað gerst hefði. Svo hafi hún lagt sig, en vaknað þegar dóttir hennar vakti hana. Hafði dóttir hennar frétt af því sem gerst hafði frá H, þ.e. öðrum strákanna sem keyrðu þær heim. Þegar leið á daginn hafi hún farið að finna svo mikið til að hún hafi farið á neyðarmóttökuna kl. átta eða hálfníu.
Þegar borinn var undir kæranda sá framburður ákærða að hún hafi átt frumkvæði að kynmökunum, kvað kærandi það vera lygi. Kærandi var spurð um það hvort ákærði hafi notað smokk og kvaðst kærandi hafa séð smokkabréf á kommóðunni í herberginu.
Hún var spurð að því sem fram kemur í lögregluskýrslu að ákærði hafi farið að láta vel að henni er inn í herbergið kom og síðan hafi hann klætt hana úr fötum, en eftir það hafi hann hent henni í rúmið. Kvaðst kærandi þá hafa lýst atvikum rétt fyrir dómi og kvaðst ekki minnast þess að hafa borið um atvik á þann hátt sem í lögregluskýrslu greinir. Hún kvað ákærða hins vegar hafa látið vel að sér frammi í stofu. Hún neitaði því að hafa haft það í hyggju að hafa við hann kynmök er þau fóru inn í herbergið, en kvaðst hafa samþykkt að fara með honum inn í herbergið til þess að leyfa systur sinni og E að vera í einrúmi. Hún var ítrekað spurð af verjanda hvort atvik hafi verið með þeim hætti sem hún lýsti fyrir dóminum og svaraði hún mjög einarðlega játandi. Hún kvað engan annan hafa beitt hana ofbeldi á milli þess sem hún var hjá ákærða og þar til hún fór á neyðarmóttöku.
Hún kvaðst ekki hafa sent sms sem C fékk daginn eftir, heldur hafi systir hennar sent þessi skilaboð án hennar vitundar. Hún kvaðst ekki kannast við að skilaboð hefðu verið send til C til þess að fá símanúmer hjá ákærða.
Þá kvaðst hún ekki heldur kannast við að hafa rétt strákunum sem keyrðu þær peninga, það væri ,,helvítis lygi“.
Vitnið kvað andlega og líkamlega líðan sína vera hræðilega. Það hafi tekið hana ellefu vikur að jafna sig á tognun í ökkla. Hún fái enn verki og kvað hún andlega líðan sína vera mjög slæma. Hún kvaðst enn fá martraðir og hafi hún ekki enn farið á skemmtistað. Hún fari varla í búð, nema í fylgd með fólki. Hún kvaðst hafa farið mjög oft til heimilislæknisins síns, Ingvars Ingvarssonar, vegna þessa, einnig hafi hún farið til Brynjólfs Jónssonar læknis vegna verkja í ökkla og mjöðm, til kvensjúkdómalæknis og til hjúkrunarfræðings á neyðarmóttöku.
Hún kvaðst nú vera að fara í meðferð á göngudeild geðdeildar, þar sem hún fengi meðferð hjá geðlækni og sálfræðingi. Sálfræðingurinn, Berglind, hafi óskað eftir því að hún yrði í viðtölum á tveggja daga fresti.
Vitnið, B, systir kæranda, kvaðst umrætt kvöld hafa verið á veitingastaðnum Dubliners. Þær systurnar hafi setið þar við borð, þegar þrír menn hafi komið að borðinu og sest hjá þeim. Þeir hafi komið vel fyrir og þau hafi verið að spjalla saman. Einn þeirra hafi verið að reyna við systur hennar, en það hafi ekki verið ákærði. Þær hafi setið þarna í einhverja stund, en síðan hafi þær farið yfir á kaffi Viktor. Þeir hafi komið síðar þangað. Þá hafi ákærði verið að sniglast í kringum systur hennar. Mennirnir hafi boðið þeim í partý og hafi þær hringt í tvo stráka, sem hafi ekið þeim að heimili ákærða. Þessir strákar séu vinir systurbarna hennar, en þeir hafi einnig ekið þeim fyrr um kvöldið. Vitnið kvað mennina hafa boðið upp á samloku og drykki. Vitnið kvaðst hafa spurt hvort ekkert væri í sjónvarpinu. Hafi þá verið kveikt á sjónvarpinu, en í sjónvarpinu hafi verið dýralífsmynd. Þá hafi vitnið sagt að það væri nú skárra að horfa á ,,bláa mynd“. Hún kvaðst hafa séð ákærða vera að ,,reyna við“ systur hennar, en systir hennar hafi ekki viljað það og sagt ,,no“. Vitnið hafi svo spurt hvar klósettið væri. Hún hafi svo komið fram og spurt E hvar systir hennar og ákærði væru. Hafi þá E bent eitthvað, en hún kvaðst ekki hafa séð hvert hann benti. Þau E hafi svo farið inn í herbergi til hans, þar sem þau voru saman. Síðar hafi E farið á salernið en hún hafi klætt sig og farið fram. Hún hafi þá aftur spurt um systur sína og hafi þá E bent á rétt herbergi. Hún hafi bankað á dyrnar og séð hvar ákærði og systir hennar lágu í rúminu. Hún kvað að sér hefði virst sem systir hennar væri föst, þar sem fótleggir ákærða hafi verið yfir ákærða og hönd hennar skorðuð við ákærða. Vitnið hafi hjálpað henni í skóna og hjálpað henni við að ganga. Vitnið hefði séð að systir hennar var bólgin í andliti og hún hefði verið hölt. Vitnið hafi þá spurt hvað gerst hefði. Hefði þá systir hennar farið að gráta og sagt að þetta hefði verið hræðilegt og sagt að ákærði hefði slegið hana í andlit og barið hana í klofið og snúið upp á fót hennar og nauðgað henni. Hafi hún verið að reyna að tjá sig um þetta, en á þeim tímapunkti hafi vitnið ekki treyst sér til að heyra þetta allt saman og sagt að þær skyldu tala um þetta þegar heim væri komið. Þegar út var komið hafi kærandi fengið annan strákanna sem náðu í þær til að hjálpa sér við að koma henni fyrir aftur í. Þar hafi systir hennar brotnað niður og strákarnir hafi spurt hvað hefði gerst. Þá hefði vitnið sagt að þetta hefði ekki verið neitt annað en hrottaleg nauðgun og líkamsárás. Þegar heim var komið hefði systir hennar sagt henni hvað gerst hefði og hefði henni liðið mjög illa og hún verið mjög kvalin. Hún kvaðst hafa hjálpað systur sinni upp í rúm. Vitnið hafi svo sofnað sjálf, en vaknað við það að dóttir kæranda kom inn og hefði hún spurt hvað hefði komið fyrir mömmu sína. Hafi þá vitnið sagt við hana að hún skyldi ræða þetta við móður sína. Hún hafi spurt móður sína, sem hefði bara sagt að hún hefði meitt sig í fætinum. Hafi dóttirin ekki látið þar við sitja og viljað fá alla söguna. Hafi þær þá allar farið niður og rætt málin. Viðstaddir hafi verið G, H, F, kærandi og vitnið sjálft. Hafi þá systir hennar sagt að hún hefði orðið fyrir nauðgun og að ákærði hefði meitt hana. Hafi þá verið ákveðið að fara á neyðarmóttöku.
Vitnið kvaðst engin hljóð hafa heyrt í íbúðinni frá herbergi ákærða. Vitnið kvað þær systur búa saman og kvaðst hún hafa tekið eftir breytingu á hegðan systur sinnar í kjölfar þessa. Hún sé enn miður sín, fái martraðir og hún fái verk í ökklann þegar hún vaski upp. Þá hafi hún breyst í skapi, sérstaklega fyrst. Þá hafi hún verið reið út í sjálfa sig og reið út í ákærða. Hún kvað systur sína varla hafa farið út úr húsi frá því að þetta gerðist. Vitnið kvaðst hafa sent C sms úr síma systur sinnar, með skilaboðum um að þær ætluðu að kæra ákærða, þar sem hann hefði farið svo illa með systur sína. Vitnið kvaðst hafa tekið síma systur sinnar og sagt henni að hún ætlaði að senda skilaboð og sagt henni eftir á hvaða skilaboð hún hefði sent. C hafi svarað til baka og spurt hvað hefði komið fyrir og vitnið sent til baka skilaboð um að þær væru á leið upp á neyðarmóttöku og að ákærði hefði nauðgað henni. Vitnið kannaðist við að hafa sent skilaboð úr síma systur sinnar, þess efnis að hann skyldi ,,ekki opna dyrnar“ þar sem börnin hennar væru á leiðinni, en vitnið kvaðst hafa orðið hrædd um að börnin hennar ætluðu að gera mönnunum eitthvað, þar sem þau hefðu orðið mjög reið er þau fréttu hvað gerst hefði.
Vitnið, H, skýrði svo frá að hann og G hefðu keyrt Y og systur hennar á Kaffi Viktor, en þeir voru á bifreið systranna. Svo hefðu þær hringt og beðið þá um að ná í þær. Þá hafi þær verið með tveimur mönnum. Þeir hefðu keyrt þau að heimili mannanna og þær beðið þá um að sækja sig síðar. Þeir hefðu játað því og fengið pening fyrir bensíni. B hefði hringt töluvert síðar, eða undir morgun, og þeir sótt þær. Þegar þær hafi komið út hafi Y verið hölt og G farið út og hjálpað henni inn í bifreiðina. Vitnið kvað hana ekki hafa verið halta fyrr um kvöldið eða nóttina. Þær hefðu rætt saman í bifreiðinni og B sagt eitthvað á þá leið að þetta hefði verið hrottaleg nauðgun. Þegar hún hafi sagt þetta hefði vitnið tekið eftir því hvernig Y hafi verið á sig komin. Þær hefðu verið í hálfgerðu „sjokki“ og greinilega liðið illa, sérstaklega Y. Síðan þegar heim var komið, hefðu þær verið að spjalla í eldhúsinu og hann heyrt á tal þeirra, en hann hafi ekki mikið verið að fylgjast með. Vitnið sagði að þær hefðu aðallega talað um að Y hefði verið lamin og minnst á að þetta hafi verið gegn vilja hennar. Vitnið sagðist muna eftir því að hún sagði að snúið hefði verið upp á ökkla hennar. Kvaðst vitnið hafa sagt dóttur Y frá því að móður hennar hafi verið nauðgað þar sem hann vildi að hún færi á slysavarðstofu. Spurður um tengsl sín við Y sagði vitnið að hann hefði verið með dóttur hennar um tíma.
Vitnið, F, kvaðst ekki muna mikið eftir að hafa komið í íbúðina að [...] umrædda nótt, en hún muni eftir að hafa vaknað þar við hlið C. Hún mundi eftir að hafa hitt C á Kaffi Viktor um kvöldið en mundi ekki eftir að hafa séð þar Y eða önnur vitni í máli þessu. Vitnið sagði að C hefði greint henni frá því að hún hefði sofnað um leið og hún kom í íbúðina. Hún kvaðst ekki hafa heyrt einhver hljóð í íbúðinni og vissi ekki að konurnar hefðu verið í íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa verið undir miklum áhrifum áfengis umrædda nótt.
Vitnið, E, greindi frá því að hafa hitt systurnar á Dubliners. Svo hefði hann farið yfir á Kaffi Viktor og hitt systurnar aftur þar. Spurður um samskipti ákærða og Y þar sagði vitnið að þau hafi verið á spjalli. Vitnið sagði að þegar staðnum hafi verið lokað hefðu þau farið út. Önnur systirin hefði sagt að hún væri búin að útvega far og þau farið í íbúð ákærða. Önnur systirin hefði borgað bílstjóranum þegar þau komu þangað. Ekkert spennandi hefði verið í sjónvarpinu og ákærði stungið upp á því að þau horfðu á klámmynd og þær svarað því játandi. Þau hefðu horft á myndina og borðað og drukkið gos. Svo hefði vitnið farið með annarri systurinni inn á klósett. Þegar þau hefðu komið aftur fram hafi ákærði og Y verið horfin úr stofunni. Spurður um það hvort ákærði hafi verið að reyna við Y, eða hvort það hefði verið á hinn veginn, sagði vitnið að þau hefðu bara setið og horft á myndina. Vitnið kannaðist ekki við að Y hafi sagt einhvern tímann „nei“ eða „no“ við ákærða. Vitnið sagði að mjög hljóðbært væri í íbúðinni. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt hljóð úr herbergi ákærða og greindi frá því að hafa af forvitni lagt við hlustir við dyr á herbergi ákærði í smátíma, er hann fór á salernið, en hann hafi ekkert heyrt. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við ákærða síðar um daginn um samskipti hans og Y. Vitnið sagði að önnur systirin, sú sem hann var með, hefði verið mjög drukkin. Vitnið hefði einnig verið undir áhrifum áfengis og búinn að drekka 3-4 bjóra. Um tengsl sín við ákærða sagði vitnið að þeir hefðu unnið saman og umgengjust hvor annan stundum utan vinnu.
Vitnið, C, kvaðst hafa hitt Y og B, systur hennar, á Dubliners. Önnur þeirra hefði gefið sig að E en hin, Y, verið við hlið hans og spjallað. Þau hefðu skipst á símanúmerum. Taldi vitnið að hún hafi verið að reyna við sig. Svo hefði vitnið farið á Kaffi Viktor, þar sem hann fór heim með stúlku sem þar var. Vitnið kvaðst hafa heyrt er þau komu heim í íbúðina, en hann hefði síðan sofnað. Hann hefði ekki farið fram eða hitt fólkið. Vitnið sagði að íbúðin væri óvenju hljóðbær og tal og umgangur heyrðist. Hann hefði ekki heyrt óvenjuleg hljóð úr herbergi ákærða en heyrt síma hringja í nokkur skipti. Hann hefði svo vaknað á bilinu 10 til 11 og þá hefði enginn verið þar lengur. Vitnið greindi frá því að hafa fengið smáskilaboð, að því er vitnið taldi frá þeirri sem hefði verið með ákærða, um að synir hennar væru á leiðinni og þeir ættu ekki að opna. Önnur skilaboð hefðu verið um að ákærði hefði gert henni eitthvað. Þá hafi hún beðið um símanúmer ákærða og sagst vera á leið á spítala, en ákærði ekki viljað að vitnið gæfi upp símanúmerið. Þegar borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu þess efnis að skilaboðin hafi verið þau að ákærði hefði farið illa með hana um nóttina og að hún væri á leið á spítala sagði vitnið að skilaboðin hefðu verið á þá leið. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða, þegar hann fékk skilaboðin, hvort eitthvað hefði gerst og ákærði svarað því neitandi. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis, hafa drukkið 4-5 bjóra, en ekki verið drukkinn.
Vitnið, Ósk Ingvarsdóttir læknir, kom fyrir dóminn. Vitnið sagði að komutími Y til læknis, kl. 20:30, væri sá tími sem læknirinn færi inn á skoðunarstofuna. Það gæti því verið að hún hefði komið aðeins fyrr. Vitnið skýrði frá því að Y hafi komið vegna nauðgunar og líkamsárásar, en hún hefði verið með áverka sem voru á víð og dreif um skrokkinn. Þegar um slíkt sé að ræða, sé alltaf spurt hvort áverkar geti verið eftir fall í stiga eða eitthvert annað óhapp, en hún hafi neitað því. Þá sagði vitnið að áverkarnir hefðu ekki verið þess eðlis að hún hefði fallið á aðra hliðina eða eitthvað slíkt, heldur hafi þetta verið á öllum útlimum og bæði framan til á brjóstkassa, aftan til á hálsi og rasskinn. Áverkar hafi verið það víða að þeir komu heim og saman við lýsingu hennar. Áverkarnir hafi verið ferskir. Vitnið minntist sérstaklega stórs margúls á annarri öxlinni, þeirri hægri að því er vitnið minnti, sem hafi verið áberandi stór og mjúkur þannig að þetta hafi verið stór, dúandi blæðing undir húð. Þetta hafi verið ferskur áverki og ekki orðinn blár. Eins hafi hún verið með vessandi sár í nára sem leit út fyrir að vera nýtt. Spurð um hvort þetta hafi getað komið heim og saman við að konan hafi hlotið áverka um hálfum sólarhring áður svaraði vitnið því játandi, allavega væru þetta ekki nokkurra daga gamlir áverkar. Um áverka á kynfærum, vessandi sár við nára, líkti vitnið því við brunasár eða nuddsár. Þegar vitnið var innt eftir hugsanlegum orsökum fyrir sprungum milli ytri og innri barma, bjúg og miklum eymslum við leggangaskoðun, og hvort þessir áverkar gætu verið eftir harkaleg kynmök eða hvort meira þurfi að koma til, sagði vitnið að harkaleg kynmök þurfi ekki endilega að gefa svona áverka. Eftir kynmök væru sjaldnast áverkar. Þetta vessandi sár hafi litið út eins og núningur við eitthvað hrjúft eins og eitthvað hefði lent á milli við þrýsting og nuddað húðina. Nefndi vitnið sem dæmi um slíkan núning, núning húðar við gallabuxur eða grófa skeggrót. Vitnið var spurt um bjúg í leggangaopinu og veruleg snertieymsli þar, sem voru svo mikil að ekki var unnt að skoða leggöng með áhaldi. Sagði vitnið að slíkir áverkar heyrðu til undantekninga á Neyðarmóttöku og bentu til að eitthvað hefði nýlega ert húðina og sært hana mikið og valdið þessum sársauka. Spurð um andlegt ástand Y sagði vitnið að búið hafi verið að róa hana eitthvað niður þegar vitnið talaði við hana, en hún hefði verið í uppnámi, reið og útgrátin. Hún hefði grátið nokkrum sinnum í skoðuninni og ekki treyst sér til að vera ein þar heldur hefði systir hennar komið með henni. Hún hefði ekki viljað láta senda systurina út eins og yfirleitt væri óskað eftir á Neyðarmóttökunni. Hún kvað áverka á kynfærum geta samrýmst þeirri lýsingu brotaþola á ákverkum að hún hefði verið slegin í kynfæri með hnefa og klipin í kynfærin. Hún hefði lýst þungum höggum í klofið og að ákærði hefði hamast með fingur í leggangaopinu og nuddað ítrekað, bæði á ytri kynfærum og farið með fingur inn í leggöngin. Vitnið mundi ekki eftir því að brotaþoli hefði greint frá því að hafa verið klipin í kynfærin, en mundi eftir því að hún hefði sagst vera klipin í brjóstin og hefði verið tekin mynd af brjóstum. Áverkamerki á þeim gætu komið heim og saman við fingraför. Þegar vitnið var innt eftir því hvernig frásögn sjúklings væri skráð, þegar merkt væri við gátlista um kynferðislegt framferði árásarmanns, sagði vitnið að til grundvallar væri frásögn sjúklings þegar hún segi frá. Reynt væri að fá sjúkling til að orða hlutina. Algengt væri að brotaþolar ættu erfitt með að segja frá öllu sem hefði átt sér stað, yfirleitt væri mikil vanlíðan og skömm, jafnvel gleymska. Þá væri þetta viðbótargátlisti. Merkt væri við það sem viðkomandi væri búinn að segja og svo væri listinn sýndur brotaþola og spurt hvort viðkomandi væri sammála. Margir bættu þá einhverju við listann. Þegar vitnið var innt eftir því hvort ummerki væru á brotaþola um að fingur hefði verið settur í leggöng, sagði vitnið að miðað við einkenni og lýsingu brotaþola, drægi vitnið ekki í efa að áverkar á kynfærum gætu komið heim og saman við frásögn brotaþola um þetta. Spurð um það hvort áverkar á kynfærum, bjúgur og það að ekki hafi verið hægt að skoða brotaþola, gæti fremur stafað af harkalegum samförum en höggum á kynfæri, sagði vitnið þá áverka frekar vera eftir eitthvað annað en samfarir eða nauðgun um leggöng. Það væri ákaflega sjaldgæft að ekki væri hægt að skoða konu leggangaskoðun. Aðspurð um áverka á ökkla sagði vitnið að rætt hefði verið við slysadeild og kvaðst vitnið telja að sá áverki hefði verið greindur sem tognun.
Vitnið, Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur, sem sinnir málum sem koma á Neyðarmóttökuna, greindi frá því að Y hefði verið vísað til sín af hjúkrunarfræðingi. Vitnið kvaðst hafa hitt Y tvisvar sinnum, í fyrsta sinn 27. september sl. Vitnið sagði að Y hafi virst áhyggjufull, leið og árvökul. Þegar vitnið hefði rætt við hana um atburðinn hafi hún grátið og sýnt áberandi aukningu í streituviðbrögðum. Hugsun konunnar hafi virst skýr og rökræn. Hún hafi virst einlæg í frásögn og þrátt fyrir augljós streitueinkenni hafi hún virst hreinskilin um upplifun sína. Hún hefði greint frá miklum ótta og bjargarleysi, þegar atburðurinn hafi átt sér stað, sem sé grundvöllur að fyrsta viðmiði í greiningu áfallastreituröskunar og sýnileg tilfinningaviðbrögð hennar hafi verið í samræmi við frásögn hennar. Hún hafi greint frá einkennum áfallaröskunar sem hafi valdið henni miklu uppnámi. Helstu einkenni hafi verið síendurteknar og ágengar minningar, tilfinningar eins og atburðurinn hafi verið að endurtaka sig, eða það sem kallað er „flash backs“. Einnig hefði hún sýnt sálræna og líkamlega svörun við minningum um atburðinn eða áreitum sem minntu á atburðinn. Þá hafi hún verið með mikil einkenni hliðrunar, þ.e. hún reyndi að forðast hugsanir og atvik sem tengdust atburðum. Hún hefði óttast mjög að fara út úr húsi. Væri slíkt einkennandi eftir slíkan atburð. Hún hafi greint frá miklum erfiðleikum með svefn, þannig að hún ætti erfitt með að sofna og vaknaði oft upp, auk einbeitingarerfiðleika og pirrings, oft út af litlum hlutum, sem olli truflun í daglegu lífi. Þá ætti hún erfitt með að stjórna þessum einkennum. Vitnið sagði að Y hefði fyllt úr sjálfsmatskvarða, svokallaðan „impact of event scale (revised)“ sem notaður er til að mæla einkenni áfallaröskunar. Klínísk einkenni mælist við 35, sem séu mörkin við áfallaröskun. Matið hafi verið lagt fyrir Y í fyrsta viðtalinu 27. september, innan við mánuð frá atburði, og þá hafi hún fengið 73 stig sem gefi sterka vísbendingu um áfallastreituröskun. Vitnið sagði að til að greinast með áfallastreituröskun þurfi að líða mánuður frá atvikinu og því hafi matið verið lagt fyrir Y aftur 22. nóvember og þá hafi heildareinkunn verið 85, sem hafi verið hækkun. Þessi niðurstaða hefði verið í samræmi við mat vitnisins á því að einkenni Y færu versnandi, sérstaklega í hliðrunarhegðun og ótta við umhverfið. Spurð hvort hún yrði til meðferðar hjá vitninu áfram sagði vitnið að miðað við alvarleika einkenna hennar og samspil við líkamlega kvilla sem hún þjáist af hefði vitnið vísað henni á geðdeild þar sem hún þyrfti meira aðhald og meðferð en einu sinni í viku, klukkutíma í senn. Ýmislegt hjá henni hefði ekki verið alveg í góðu jafnvægi fyrir, en eftir atburðinn hefði allt magnast og auk þess þjáist hún nú af áfallastreituröskun sem hafi ekki verið fyrir. Vitnið kvaðst vera viss um að Y hefði ekki þjáðst af áfallastreituröskun fyrir atburðinn og ekkert annað í hennar lífi getað framkallað þessi einkenni. Hún hefði gengið í gegnum þrjá uppskurði á mjöðm og væri líkamlega öryrki og það væri erfitt að eiga við slíkt. Hún hefði átt að stríða við þunglyndi í tengslum við líkamlega kvilla og fengið góða meðferð við því en þunglyndiseinkenni verið nokkuð stöðug. Það sem hún ætti fyrst og fremst við að stríða í dag væru einkenni áfallastreituröskunar sem hefðu verið greind með greiningarviðtali og sjálfsmatskvörðum. Vitnið kvaðst einnig hafa haft frásögn þeirra sem tóku á móti henni á Neyðarmóttöku. Samræmi hefði verið í frásögn, hegðun og líkamlegum einkennum. Vitnið sagði mjög erfitt að segja til um batahorfur Y. Til væru góð meðferðarúrræði en mörg ár geti tekið fyrir einstaklinga að ná tökum á einkennum áfallastreituröskunar og atburðurinn verði alltaf í minninu. Þetta væri spurning um að læra að höndla einkennin og vinna úr áfallinu. Taldi vitnið að Y ætti á brattann að sækja en til væru úrræði sem gætu hjálpað. Engin leið væri að segja hversu langan tíma það gæti tekið.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sök og kvað hann samfarir sem hann hafði við meintan brotaþola, Y, umrædda nótt hafa verið með vilja hennar. Spurður um ofbeldi í garð Y kvaðst hann ekki hafa beitt hana ofbeldi, en viðurkenndi að hafa slegið hana í rassinn að hennar ósk.
Í málinu er fram komið að ákærði og Y fóru á heimili ákærða ásamt systur Y og vini ákærða, E. Y og ákærða ber ekki saman um aðdraganda þess að þau fóru saman inn í herbergi ákærða. Þá ber margt í milli í frásögn þeirra af því sem þar gerðist. Þannig kvað ákærði að hún hefði byrjað að afklæða sig, en ákærði verið fullklæddur þar til ljós voru slökkt. Hafi þá ákærði afklætt sig. Þau hafi lagst í rúmið og hún hafið munnmök, en síðan hafi ákærði sett á sig smokk og þau hafið samfarir, skipt um stellingar og hann slegið í rass hennar að hennar ósk. Ákærði lýsti kynferðislegum athöfnum sínum og Y á nokkuð annan hátt fyrir lögreglu, þar sem hann kvaðst hafa lagst ofan á hana og byrjað þannig kynmökin. Einnig lýsti hann því fyrir dómi, en ekki fyrir lögreglu, að hún hefði verið kynferðislega æst og meitt hann með tönnum sínum og að það hefði fremur verið hún sem beitti ofbeldi við kynmökin, en ekki hann.
Frásögn Y er aftur á móti á þann veg að hún hafi rétt verið komin inn í herbergið er ákærði hafi verið búinn að klæða sig úr öllum fötum, hann hafi hent henni í rúmið og klætt hana úr öllum fötum, nema brjóstahaldara sem hún hafi sjálf klætt sig úr. Hafi hún sagt strax við ákærða að hún vildi þetta ekki, en farið úr brjóstahaldara sjálf, þar sem ákærði hefði meitt hana svo í brjóstunum og brjóstahaldari hafi sært hana. Hefði svo ákærði farið að misþyrma henni.
Hún lýsti þessu á nokkuð annan veg fyrir lögreglu, þar sem hún kvað að kærandi hefði látið vel að henni í herberginu, og klætt hana úr öllum fötum nema brjóstahaldara, sem hún hefði sjálf klætt sig úr. Að því loknu hefði ákærði ráðist að henni, bitið hana, klipið í brjóst hennar og misþyrmt henni að öðru leyti.
Að öðru leyti en því sem að ofan greinir er frásögn Y fyrir dómi í meginatriðum samhljóða frásögn hennar hjá lögreglu um kynferðislega háttsemi ákærða og ofbeldi af hendi ákærða í hennar garð. Hún lýsti mjög nákvæmlega hvernig ákærði hefði beitt hana endurteknu ofbeldi meðan á kynmökunum stóð. Hún hafi reynt að segja no, no, no, við ákærða, en það hefði ekkert þýtt. Hún kvað B, systur sína, hafa bankað á herbergi ákærða er þessu var öllu lokið. Hefði ákærði þá haldið henni í einhvers konar klemmu í rúminu og samrýmist sá framburður hennar frásögn B af því sem hún sá er hún opnaði herbergið. B bar fyrir dómi að Y hefði sagt við sig að þetta hefði verið algert helvíti og að ákærði hefði farið illa með hana, barið hana í klofið, slegið hana í andlitið og nauðgað henni. Kemur þessi framburður B heim og saman við framburð vitnisins H, sem ók þeim systrum heim um morguninn, en hann kvað þær B hafa rætt saman í bifreiðinni um að ,,þetta hefði verið hrottaleg nauðgun“ og er heim var komið hefði hann heyrt að Y hefði verið lamin og að þetta hafi verið gegn vilja hennar.
Þá hefur vitnið C, félagi ákærða, staðfest fyrir dómi að hann hafi fengið smáskilaboð úr síma Y þennan dag, um að ákærði hefði gert henni eitthvað og farið illa með hana og hún sagst vera á leið á spítala.
Y fór á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar hálfum sólarhring eftir að hún kom frá ákærða. Er áverkum hennar lýst í læknisvottorði Óskar Ingvarsdóttur, en Ósk bar fyrir dómi að áverkar hefðu verið það víða um líkamann að þeir hefðu komið heim og saman við lýsingu hennar á tilurð þeirra. Áverkarnir hefðu verið ferskir og minntist vitnið sérstaklega stórs margúls á annarri öxl. Þá hafi hún verið með vessandi sár í nára og svo mikill bjúgur og eymsli hefði verið við leggöng að ekki reyndist unnt að skoða leggöng með áhaldi. Kvað vitnið að slíkir áverkar heyrðu til undantekninga á Neyðarmóttöku og kvaðst telja að þeir áverkar stöfuðu af einhverju öðru en samförum eða nauðgun um leggöng. Vitnið kvað Y hafa lýst því að ákærði hefði klipið hana í brjóst og gætu áverkar á þeim komið heim og saman við fingraför. Þá hefði hún lýst þungum hnefahöggum í klofið og að ákærði hefði hamast með fingur í leggangaopinu og nuddað þar ítrekað. Vitnið kvað svokallaðan gátlista, þar sem hakað er við tilgreinda háttsemi, vera gerðan eftir frásögn sjúklings.
Samkvæmt framburði vitnisins Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings ber Y skýr og sterk merki áfallastreituröskunar eftir háttsemi ákærða. Hún kvað hana ekki hafa þjáðst af áfallastreituröskun fyrir atburðinn og engir aðrir erfiðleikar í hennar lífi, sem hún þurfi að kljást við, framkalli þau einkenni sem vísi á áfallastreituröskun. Vitnið sagði erfitt að segja til um batahorfur hennar og engin leið væri að segja til um hversu langan tíma það gæti tekið.
Framburður Y fyrir dómi var skýr og nákvæmur og að mati dómsins var framburður hennar trúverðugur, þrátt fyrir ofangreint ósamræmi milli frásagnar hennar fyrir lögreglu og fyrir dómi, um aðdraganda meintrar háttsemi ákærða. Fær framburður hennar styrka stoð í framburði vitnanna, B og H, sem bæði sáu hana strax eftir atburðinn og heyrðu frásögn hennar af ofbeldi og nauðgun ákærða. Þá rennir og stoðum undir framburð hennar að vitnið, C, félagi ákærða, móttók smáskilaboð í síma sínum, sama dag og atburðir gerðust, þar sem vitnið, B, bar ákærða svipuðum sökum og greinir í ákæru. Einnig koma þeir áverkar sem Y bar við komu á neyðarmóttöku, algerlega heim og saman við lýsingu hennar á verknaði ákærða og tilurð áverkanna.
Þegar allt framangreint er virt og horft til trúverðugs framburðar Y er að mati dómsins ótrúverðugur framburður ákærða um háttsemi hans umræddan morgun og hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir að öðru leyti en því að ósannað er að ákærði hafi sett lim sinn í munn Y, enda er þeirrar háttsemi ekki getið í gátlista læknis á neyðarmóttöku og hún skýrði ekki frá þeirri háttsemi fyrir dómi. Ákærði er samkvæmt framangreindu sakfelldur fyrir samræði gegn vilja Y og að hafa sett fingur í leggöng hennar gegn vilja hennar, sem og fyrir þá líkamsárás sem lýst er í ákæru. Þá er og sannað að afleiðingar árásar ákærða hafi verið þær sem í ákæru greinir.
Ákæruvaldið telur háttsemi ákærða varða 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 20/1981. Þótt grófleiki ofbeldis sem ákærði beitti brotaþola og lýst er í ákæru, hafi að sönnu verið mikill, hafa líkamsárásir eins og þar er lýst, verið felldar undir 217. gr. almennra hegningarlaga, ef afleiðingar ofbeldisins eru ekki aðrar en þær sem lýst er í ákæru. Er það mat dómsins að ekki séu fyrir hendi atvik í máli þessu sem stutt geti að háttsemin verði að auki heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og að fella beri líkamsárásina undir 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga tæmir sök gagnvart 217. gr. sömu laga og verður ekki beitt samhliða við refsiákvörðun. Verður háttsemi ákærða samkvæmt framangreindu heimfærð til 194. gr. almennra hegningarlaga.
Refsiákvörðun
Ákærði hefur aldrei áður gerst sekur um refsivert brot svo vitað sé. Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að brot ákærða er mjög alvarlegt og sérstaklega hrottalegt. Hann beitti brotaþola endurteknu, grófu, ofbeldi meðan á nauðguninni stóð og virti að vettugi óskir hennar um að láta af háttseminni. Brotaþoli bar auðsæ merki um ofbeldi ákærða við skoðun hjá lækni, ekki síst á viðkvæmum líkamshlutum, svo sem brjóstum og kynfærum, en kynfæri hennar voru svo illa leikin að ekki reyndist unnt að skoða þau hefðbundinni kvenskoðun. Þá hefur brotaþoli þurft að glíma við alvarlegar afleiðingar árásarinnar, bæði líkamlegar og andlegar.
Ákærði á sér engar málsbætur og er refsing hans ákveðin fangelsi í fjögur ár.
Bótakrafa.
Brotaþoli hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.018.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. september 2006 til 18. október 2006, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar við réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Brotaþoli kveður að í kjölfar nauðgunar og líkamsárásar ákærða hafi henni liðið mjög illa, bæði líkamlega og andlega. Hún hafi fundið til mikils sársauka í fæti og í öxlinni og við þvaglát. Hún hafi átt erfitt með svefn, fengið martraðir og ekki þorað að fara út úr húsi. Hún hafi verið rúmföst frá 10. september sl. til 18. september sl. Atlaga hans að brotaþola hafi haft mjög alvarleg áhrif á líkama, persónu, andlega heilsu og kynfrelsi brotaþola og ófyrirséð sé, hvort brotaþoli nái sér að fullu. Krafist sé þjáningabóta fyrir tímabilið 10. september 2006 til 18. september 2006.
Til stuðnings kröfum sínum vísar brotaþoli til 3. gr. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig er vísað til XX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt framburði vitnisins, Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings, sýndi brotaþoli mjög sterk einkenni um áfallastreituröskun í kjölfar brots ákærða. Þá lýsti vitnið, B, sem býr með brotaþola, því að lundarfar hennar hefði breyst eftir atburðinn, hún færi vart úr húsi og væri reið bæði sjálfri sér og ákærða.
Með vísan til niðurstöðu í refsiþætti málsins og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þykir ákærði með háttsemi sinni hafa valdið brotaþola miska og er ákærði skaðabótaskyldur gagnvart henni vegna þess. Verknaður ákærða var hrottalegur og ruddalegur og var til þess fallinn að valda brotaþola sálrænum örðugleikum. Bætur til handa brotaþola eru ákveðnar 1.200.000 krónur, sem ákærði er dæmdur til að greiða með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. september 2006 til 18. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Krafa um þjáningabætur að fjárhæð 18.000 krónur er ekki studd viðhlítandi gögnum og er þeim kröfulið vísað frá dómi.
Sakarkostnaður.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði sakarkostnað málsins 683.633 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar héraðsdómslögmanns, 460.401 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, sem er ákveðin 191.232 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, sem dómsformaður, Páll Þorsteinsson og Sandra Baldvinsdóttir.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Americo Luis Silva Goncalves, sæti fangelsi í 4 ár.
Ákærði greiði Y 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. september 2006 til 18. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins 683.633 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar, héraðsdómslögmanns, 460.401 krónu, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, 191.232 krónur.