Hæstiréttur íslands
Mál nr. 355/2003
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Líftrygging
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 355/2003. |
Arnar Benediktsson (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Friends Provident Life and Pensions Ltd og (Garðar Briem hrl.) Kolbrúnu Jónsdóttur (Leó E. Löve hrl.) og Friends Provident Life and Pensions Ltd gegn Arnari Benediktssyni |
Vátryggingarsamningur. Líftrygging. Gjafsókn.
B lést í umferðarslysi en hafði áður tekið líftryggingu hjá F og tilnefnt K sem rétthafa. A, sem var einkaerfingi B, krafðist bóta úr tryggingunni og viðurkenningar á því að K ætti ekki tilkall til hennar. Talið var að A hefði ekki sýnt fram á að skilyrðum 103. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga hefði ekki verið fullnægt við tilnefningu B á K, sem rétthafa tryggingarinnar. Taldist K því réttilega tilnefnd samkvæmt 1. mgr. 102 gr. sömu laga og vátryggingartaki hafa afsalað sér rétti til að afturkalla ákvörðunina eftir 2. mgr. 102. gr. Af því leiddi að ekki reyndi á aðrar málsástæður A né varakröfu hans og voru kröfur hans því ekki teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 9. september 2003 og krefst þess að gagnáfrýjandi Friends Provident Life and Pensions Limited greiði sér 78.815 bresk pund, en til vara 52.543 bresk pund, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. maí 2002 til greiðsludags og að viðurkennt verði að stefnda Kolbrún Jónsdóttir eigi ekki tilkall til greiðslu úr líftryggingu Benedikts Orra Viktorssonar hjá gagnáfrýjanda samkvæmt skírteinisnúmeri 11690396. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 10. desember 2003 og krefst staðfestingar hans að öðru leyti en því að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar.
Svo sem í héraðsdómi greinir er ágreiningslaust að Benedikt Orri Viktorsson sótti 28. mars 2000 um að kaupa líftryggingu hjá gagnáfrýjanda, sem er félag í Englandi, hjá hérlendum löggiltum vátryggingarmiðlara, og tilnefndi sama dag stefndu Kolbrúnu Jónsdóttur sem rétthafa líftryggingarfjárhæðar, og var tilnefningin óafturkallanleg. Líftryggingin tók gildi með útgáfu vátryggingarskírteinis gagnáfrýjanda nr. 11690396 hinn 25. apríl 2000, en í skírteininu er stefndu ekki getið sem rétthafa. Benedikt Orri lést af völdum bifreiðaslyss 8. nóvember 2001. Áfrýjandi er sonur hins látna og eini erfingi hans og krefst í máli þessu bóta úr líftryggingunni.
Aðaláfrýjandi styður kröfu sína fyrst og fremst þeim rökum, að skjal það, sem Benedikt Orri heitinn hafi undirritað, þar sem stefnda Kolbrún er tilnefnd sem rétthafi vátryggingarinnar og Benedikt Orri afsalar sér rétti til að afturkalla tilnefninguna, vísi ekki í vátryggingarskírteinið, enda sé stefnda ekki tilgreind þar sem rétthafi. Tilnefning þessi hafi ekki verið send vátryggingarfélaginu í Englandi. Skjalið uppfylli því ekki formskilyrði 103. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Skilyrðin séu ófrávíkjanleg og eftir skýru orðalagi ákvæðisins valdi vanræksla á að gæta formskilyrðanna því að ákvörðunin verði ógild. Héraðsdómur hafi fallist á þetta í forsendum sínum, en engu að síður talið að vilji vátryggingartaka ætti að ganga framar. Þetta sé ekki rétt niðurstaða að norrænum rétti, sem viðurkenni einungis að frá formreglunum megi víkja í neyðartilvikum.
Fram er komið að Benedikt Orri samdi við löggiltan tryggingarmiðlara 28. mars 2000 um líftrygginguna og tilnefndi á sérstöku blaði, sem miðlarinn lét honum í té, stefndu Kolbrúnu sem rétthafa í sinn stað og afsalaði sér um leið rétti sínum til að afturkalla þessa tilnefningu. Þetta var í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 20/1954. Í 103. gr. laganna segir að ákvörðun sem þessi sé því aðeins gild, að félaginu sé skýrt frá því skriflega, eða að öðrum skilyrðum uppfylltum sem hér reynir ekki á. Ekki er annað leitt í ljós en Benedikt Orri hafi við þessa samningsgerð afhent tryggingarmiðlaranum þetta skjal með öðrum skjölum, enda tók líftryggingin gildi 25. næsta mánaðar með útgáfu vátryggingarskírteinis. Tryggingarmiðlarinn kom fram fyrir hönd félagsins gagnvart Benedikt Orra og er sýnt að hinn síðarnefndi hafi falið hinum fyrrnefnda að ganga frá vátryggingunni. Verður að telja að við þessar aðstæður hafi það ekki verið í höndum Benedikts Orra að tilkynna félaginu skriflega um tilnefninguna um stefndu sem rétthafa, enda hefur félagið ekki haldið því fram að tilnefning stefndu sem rétthafa hafi verið ógild gagnvart því.
Vegna þessa er ekki sýnt fram á af hálfu aðaláfrýjanda að skilyrði 103. gr. laga nr. 20/1954 hafi ekki verið uppfyllt. Telst stefnda Kolbrún því hafa svo að gilt sé verið tilnefnd rétthafi samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laganna og vátryggingartaki afsalað sér rétti sínum til að afturkalla ákvörðunina eftir 2. mgr. 102. gr. sömu laga. Af því leiðir að hvorki reynir á aðrar málsástæður aðaláfrýjanda né varakröfu hans, sbr. lokamálslið 2. mgr. 104. gr. laganna. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnáfrýjanda og stefndu af kröfum aðaláfrýjanda.
Gagnáfrýjandi hefur krafist málskostnaðar í héraði á þeim forsendum að ekki hafi verið þörf á að stefna honum í málið og gera hann að aðila deilunnar um rétt á fjárhæðinni, sbr. 3. mgr. 104. gr. laganna. Eftir atvikum, sem reifuð hafa verið hér að framan, verður fallist á ákvæði héraðsdóms um málskostnað. Verður dómurinn því staðfestur.
Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, Arnars Benediktssonar, og stefndu, Kolbrúnar Jónsdóttur, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, 300.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur
Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. maí síðastliðinn, er höfðað af Ástu Óladóttur Dorsett, sem búsett er í Texas, Bandaríkjum Norður-Ameríku, fyrir hönd ólögráða sonar hennar, Arnars Benediktssonar, sem búsettur er hjá móður sinni, gegn Friends Provident Life Office, Pixham End, Dorking, Surrey, Englandi, sem nú heitir Friends Provident Life and Pensions Limited, og Kolbrúnu Jónsdóttur, Naustabryggju 29, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndi, Friends Provident Life and Pensions Limited, verði dæmdur til að greiða stefnanda GBP (bresk pund) 78.815, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 5. maí 2002 til greiðsludags, en til vara, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda GBP (bresk pund) 52.543, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 5. maí 2002 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda, Kolbrún Jónsdóttir, eigi ekki tilkall til greiðslu úr líftryggingu Benedikts Orra Viktorssonar hjá Friends Provident samkvæmt skírteinisnúmeri 11690396.
Að lokum krefst stefnandi þess, að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Jafnframt gerir stefnda, Kolbrún Jónsdóttir, þá kröfu, að málið verði dæmt eins og það væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Stefnandi er sonur Benedikts Orra Viktorssonar, kt. 221067-4529, sem lést 8. nóvember 2001 eftir alvarlegt umferðaslys. Er stefnandi, sem býr hjá móður sinni, Ástu Dorsett Óladóttur, í Texas, Bandaríkjum Norður-Ameríku, eini lögerfingi Benedikts Orra heitins. Eftir lát Benedikts Orra gekkst Ásta í að kanna réttarstöðu stefnanda, meðal annars vegna líftryggingar, sem faðir hans hafði tekið hjá stefnda, Friends Provident Life and Pensions Limited, sem þá hét Friends Provident Life Office, samkvæmt líftryggingarskírteini nr. 11690396. Í ljós kom, að Benedikt Orri hafði sótt um líftryggingu hjá tryggingafélaginu 28. mars 2000. Að samkomulagi varð milli hans og þáverandi sambúðarkonu, stefndu, Kolbrúnar Jónsdóttur, að iðgjaldið yrði dregið af greiðslukorti hennar. Er fram komið í málinu, að Benedikt Orri var illa staddur fjárhagslega og naut ekki lánstrausts í bönkum. Á sama tíma ritaði Benedikt Orri undir „óafturkallanlega tilnefningu rétthafa líftryggingar-fjárhæðar” til handa stefndu, Kolbrúnu. Gekk líftryggingin í gildi 25. apríl 2000.
Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 8. nóvember 2002, og þá fékk stefnda, Kolbrún, gjafsókn með bréfi ráðuneytisins 27. maí 2003.
II.
Af hálfu stefnanda er byggt á því, að faðir hans og stefnda, Kolbrún, hafi búið saman í um eitt ár, og hafi sambandi þeirra lokið um sjö mánuðum áður en hann dó. Hafi Benedikt Orri byrjað sambúð nokkrum mánuðum fyrir andlátið með Helgu Rán Sigurðardóttur, sem einnig lést í áðurnefndu umferðarslysi. Hafi Benedikt Orri verið búinn að gera upp skuld sína við stefndu, er þau slitu samvistum, og hafi verið búið að færa bifreið, sem hafi verið ástæðan fyrir tilnefningu hennar sem rétthafa nefndrar tryggingar, af nafni hennar og yfir á nafn þáverandi sambýliskonu Benedikts Orra.
Fjölskylda Benedikts Orra heitins dragi í efa, að Benedikt Orri hafi verið í andlegu ástandi til þess að geta gefið slíka yfirlýsingu, eða að hann hafi gert sér grein fyrir hugsanlegum afleiðingum hennar. Þá sé þess hvergi getið, að honum hafi verið gerð grein fyrir, hvað umrædd yfirlýsing gæti haft í för með sér fyrir hann og erfingja hans. Stefnandi bendi einnig á, að yfirlýsingin sé á mjög einföldu formi, og þar sé hvorki vísað til lagaákvæða né líftryggingarinnar sem slíkrar, heldur einungis til umsóknarinnar. Hafi Benedikt Orri margítrekað við fjölskyldu sína, að hann hefði búið svo um hnútana, að stefnandi fengi verulega fjármuni, félli Benedikt Orri frá.
Umrædd tilnefning hafi ekki verið send tryggingafélaginu til samþykktar eða skoðunar, eins og þó sé skylt samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. Hafi félaginu einungis verið tilkynnt um tilvist tilnefningarinnar eftir andlát Benedikts Orra og í tengslum við kröfu stefndu á greiðslu samkvæmt tryggingunni. Hafi tilgreining Benedikts Orra heitins á stefndu sem bótaþega aldrei verið bindandi gagnvart stefnda Friends Provident, þar sem félaginu hafi aldrei borist staðfesting þar að lútandi. Er á því byggt af hálfu stefnanda, að íslensk lög eigi að gilda um tilnefningu Benedikts Orra heitins á stefndu sem tryggingabótaþega, þar sem tilnefningin hafi verið gerð á íslensku og aldrei verið send út til tryggingafélagsins.
Verði ekki fallist á þetta sjónarmið er á því byggt, að tilgreiningin sé niður fallin vegna brostinna forsendna, enda hafi tilnefning stefndu í fyrsta lagi verið vegna þess, að Benedikt Orri og stefnda hafi verið í sambúð á þessum tíma og að auki ruglað saman reitum fjárhagslega. Hafi tryggingin verið tekin, svo að stefnda bæri ekki skarðan hlut frá borði vegna ábyrgðar, sem hún hafi verið í vegna bílakaupa Benedikts Orra. Þau hafi hætt saman sjö mánuðum áður en Benedikt lést, auk þess sem allar skuldir, er stefnda var í ábyrgð fyrir vegna Benedikts Orra, hafi þá verið uppgerðar. Ástæða þess, að hún hafi verið tilgreind sem tryggingaþegi, hafi því verið niður fallin. Í þessu sambandi sé vakin sérstök athygli á, að þau Benedikt Orri og stefnda hafi hvorki verið gift né skráð í sambúð þann tíma, sem samband þeirra varði. Samkvæmt þeim venjum, sem skapast hafi hér á landi varðandi óafturkallanlegar tilnefningar, falli þær sjálfkrafa niður við sambúðarslit. Sé þessi venja mjög eðlileg, enda í hæsta máta óeðlilegt, að aðili, sem ekki er í neinum fjölskyldutengslum eða erfðatengslum, hagnist á andláti með þeim hætti, sem hér um ræðir.
Stefnandi heldur því að auki fram, að umrædd yfirlýsing/tilnefning uppfylli ekki þær kröfur, sem gerðar séu samkvæmt lögum nr. 7/1936, og vísist þar til 36. gr. laganna, þar sem fram komi, að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í þessu sambandi megi einnig benda á tilskipun/directive 1993/13 „on unfair terms in consumer contracts”, þar sem finna megi sambærileg ákvæði. Umrædd ákvæði hafi orðið skuldbindandi fyrir Bretland á árinu 1995 og verið tekin inn í lög nr. 7/1936, sbr. breytingalög nr. 14/1995. Uppfylli því umrædd tilnefning þannig hvorki bresk né íslensk lagaákvæði. Sé tilnefningin því ógild gagnvart umræddri tryggingu og hafi þannig ekkert lagagildi.
Varðandi varakröfu á hendur stefnda Friends Provident, vísist til þess, að samkvæmt meginreglu 104. gr. laga nr. 20/1954 geti vátryggingartaki ekki ráðstafað meiru af vátryggingarfénu en sem nemur þeim hluta, sem hann mátti ráðstafa samkvæmt erfðaskrá, þ.e. 1/3 hluta. Af því leiði, að stefnandi hljóti að eiga a.m.k. tilkall til 2/3 hluta tryggingarfjárins.
Af hálfu stefndu, Kolbrúnar, er á því byggt, að þau Benedikt Orri hafi stofnað til vinskapar í júlí 1998. Hafi þau verið „saman”, eins og kallað sé, opinberað trúlofun sína og búið á sama stað í um tvö ár. Þau hafi þó aldrei hafið formlega sambúð með þeim réttindum og skyldum, sem lög gera ráð fyrir að stofnast geti. Iðgjöld hinnar umdeildu tryggingar og sparnaðar, sem stofnað hafi verið til samtímis, hafi verið greidd mánaðarlega með skuldfærslu á greiðslukort stefndu. Hafi Benedikt Orri og stefnda haldið áfram vináttu sinni og þau ákveðið í sameiningu, að engu skyldi breytt varðandi tilnefninguna, þótt þau hættu við fyrirhugaða giftingu og hættu að vera „saman” eða búa á sama stað. Bendi stefnda á, að staðfestingu ákvörðunarinnar um óbreytta tilnefningu megi m.a. ráða af því, að iðgjöld hafi, sem fyrr, verið gjaldfærð á greiðslukort hennar, en auk þess bendi hún á, að Benedikt Orri hafi verið mjög vel inni í öllu, sem varðaði vátryggingar, og m.a. breytt öðrum vátryggingum sínum, sem undirstriki enn, að hann hafi ekki viljað breyta tilnefningunni, sem mál þetta snúist um. Þá hafi hann rætt um tryggingarnar við Emil Kogan, bandarískan eiginmann nafngreindrar vinkonu sinnar, og hafi komið fram í því samtali, að stefnda væri rétthafi hugsanlegra tryggingabóta.
Ekkert tilefni sé til annars, en að óafturkallanleg tilnefning Benedikts Orra á stefndu sem rétthafa tryggingabóta standi óhögguð, enda sé það í samræmi við heimild í lögum nr. 20/1954. Ætti fyrrgreint eitt út af fyrir sig að nægja sem grundvöllur þess, að ekki sé tilefni til að hrófla við tilnefningunni, en auk þess telji stefnda, að sannað sé, að Benedikt Orri hafi alls ekki viljað breyta tilnefningunni, heldur hafi hann þvert á móti látið tilnefninguna standa, þrátt fyrir að honum gæfust mörg tækifæri til hins gagnstæða.
Vangaveltum í sóknarskjölum um andlegt vanhæfi Benedikts Orra til að taka ákvarðanir eins og um tilnefningu rétthafa vátryggingabóta er mótmælt sem röngum.
Í stefnu sé því haldið fram, að stefnandi hafi ekki fengið neinar eignir eftir lát föður síns. Þetta sé rangt og sé stefndu kunnugt um, að greitt hafi verið út tryggingarfé vegna annarrar vátryggingar en mál þetta snýst um. Þá sé fullyrt í stefnu, að gert hafi verið upp við stefndu vegna iðgjaldagreiðslna hennar, fjár sem skuldfært hafi verið á greiðslukort hennar, en því sé mótmælt.
Stefndi, Friends Provident Life and Pensions Limited, byggir sýknukröfu á því, að vegna þess ágreinings, sem upp hafi verið kominn, hafi stefnda verið ómögulegt að greiða líftryggingarféð til annars hvors aðila og öðlast þar með lausn undan greiðsluskyldu sinni. Hafi honum því verið nauðugur einn sá kostur að geymslugreiða féð. Hafi stefndi gert allt, sem í hans valdi stóð, til að leysa mál þetta farsællega með endanlegum hætti, þannig að hann gæti fullnægt greiðsluskyldu sinni. Stefnda sé óheimilt samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 105. gr. (sic) laga nr. 20/1954 að greiða fjárhæðina til annars hvors aðila máls þessa, fyrr en skorið hefur verið úr því með sátt eða lögsókn, hver eigi rétt til líftryggingarfjárins.
Eins og mál þetta er lagt upp, sé stefnda hins vegar nauðsynlegt sem varnaraðila í málinu að taka afstöðu til þess, hvorum aðilanum beri líftryggingarféð. Hafi stefndi þegar lýst þeirri afstöðu sinni, að með tilgreiningu rétthafa og afsali réttar til þess að afturkalla þá tilnefningu, hafi hinn látni með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn til þess að stefnda, Kolbrún, eigi að fá greiddar tryggingabæturnar. Tilnefning þessi sé að frumkvæði hins látna og hún verið gerð með aðstoð löggilts vátryggingamiðlara. Því sé ekki um að ræða ósanngjarna samningsskilmála, heldur ósk hins látna um ráðstöfun tryggingarfjárins, sem hann hafi sjálfur gert, án atbeina stefnda. Jafnframt sé óhjákvæmilegt að líta til þess, að tekið sé fram í tilnefningunni, að Benedikt Orri geri sér grein fyrir, að erfðaréttur lögerfingja falli niður. Sé ekki mögulegt að ganga gegn vilja hins látna með því að greiða bæturnar til annars en hins tilnefnda rétthafa, enda við engar venjur að styðjast, sem breytt geti skýrum fyrirmælum tryggingartaka. Breyti þar engu þótt önnur líftryggingafélög, svo sem Samlíf, leggi annað til grundvallar, þegar tilnefning rétthafa er gerð við töku tryggingar, enda komi það skýrt fram á þar til gerðu eyðublaði hjá viðkomandi tryggingafélagi. Telji stefndi sér skylt að líta til þeirrar röksemdar, að ef ætlun hins látna hefði verið önnur en að fella sig við þá skipan, að Kolbrún Jónsdóttir væri rétthafi bótanna, hefði honum verið í lófa lagið að fella trygginguna úr gildi og taka nýja tryggingu öðrum til hagsbóta.
Um varakröfu stefnanda vísi stefndi til sömu málsástæðna og um aðalkröfu. Skýrt sé tekið fram í tilnefningunni, að með vali á stefndu, Kolbrúnu, sem rétthafa bóta, myndi hún rýma út tilkalli niðja hans til líftryggingarfjárins. Þá sé um að ræða óafturkallanlega ánöfnun, sbr. lokamálslið 2. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1954, og stefnda því ekki unnt að líta á tilnefninguna sem arfleiðsluskrá.
III.
Fram kemur í 3. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingasamninga, að hafi vátryggingarfjárhæð samkvæmt 102. gr. enn eigi verið greidd hinum tilnefnda rétthafa, og einhver gefi sig fram við félagið og sanni nægilega með því að sýna hjúskaparvottorð, útskrift af skiptagerð eða með einhverju þess háttar, að hann sé einn af eftirlátnum vandamönnum vátryggingartaka og beri af þeim sökum fram mótmæli gegn því, að fjárhæðin sé greidd hinum tilnefnda rétthafa, megi félagið þá ekki greiða fjárhæðina, fyrr en skorið hafi verið úr því með sátt eða lögsókn milli aðila, hver rétt eigi á fjárhæðinni. Eins og atvikum máls þessa er háttar, var hinu stefnda tryggingafélagi óheimilt að greiða umþrætt tryggingarfé út samkvæmt nefndri lagagrein, og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna það af kröfum stefnanda í máli þessu.
Svo sem áður greinir sótti Benedikt Orri Viktorsson, faðir stefnanda þessa máls, um líftryggingu 28. mars árið 2000 hjá hinu stefnda tryggingafélagi hjá hérlendum, löggiltum vátryggingamiðlara. Rétthafi samkvæmt líftryggingunni var stefnda, Kolbrún Jónsdóttir. Sama dag ritaði Benedikt Orri undir óafturkallanlega tilnefningu rétthafa líftryggingarfjárhæðarinnar. Kemur fram í yfirlýsingunni, að Benedikt Orri gerði sér grein fyrir því, að með undirskrift sinni á hana, félli niður erfðaréttur lögerfingja hans á bótum samkvæmt tryggingunni. Gekk líftryggingin í gildi 20. apríl sama árs. Mælt er fyrir um heimild til slíkrar ráðstöfunar, sem að framan greinir, í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga, en þau lög eiga við um þann löggerning, sem mál þetta er sprottið af.
Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að Benedikt Orri hafi verið fyllilega bær til þess að gera þá ráðstöfun, sem mál þetta á rætur að rekja til. Má í því sambandi benda á, að hann hafði einnig keypt tryggingar hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., og voru tryggingabætur samkvæmt þeim greiddar út eftir andlát hans, samtals 6.184.455 krónur. Verður því að leggja til grundvallar, að vilji hans hafi staðið til nefndrar ráðstöfunar, enda er ekkert fram komið í málinu, sem bendir til annars en að svo hafi verið. Eru því engin efni til að víkja umræddum samningi Benedikts Orra við hið stefnda tryggingafélag til hliðar samkvæmt heimild í 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14/1995 og tilskipun 93/13/EBE frá 5. apríl 1993. Þá verður heldur ekki talið, að samningurinn sé fallinn niður vegna brostinna forsendna eða að venjur, sem skapast hafi hér á landi um óafturkallanlegar tilnefningar, leiði til þess, að tryggingin hafi fallið niður við sambúðarslit Benedikts Orra og stefndu, Kolbrúnar.
Samkvæmt 103. gr. laga nr. 20/1954 skulu ákvörðun vátryggingartaka, sem um ræðir í 102. gr., og afturköllun hennar, því aðeins gildar, að [trygginga]félaginu sé skýrt frá þeim skriflega, eða þeirra hafi verið getið þeirra á skírteininu eða skráð á það athugasemd um þær. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum, segir, að þegar vátryggingartaki tilnefnir annan mann sem rétthafa í sinn stað, sé þar um mikilvægt hagsmunamál að ræða, og sé þess þá þörf, að réttur þess, er tilefndur er, sé sem ótvíræðastur. Sama sé að segja um afturköllun slíkrar yfirlýsingar. Þurfi hún að vera sem vafalausust. Hafi þess vegna verið talið rétt að binda gildi þessara gerninga við tiltekið form, annaðhvort þannig, að félaginu sé látin í té skrifleg yfirlýsing vátryggingartaka eða að félagið geti þess í skírteininu, að þessar ákvarðanir hafi verið teknar.
Af gögnum málsins er ljóst, að hinni óafturkallanlegu tilnefningu rétthafa líftryggingarfjárhæðar þeirrar, sem mál þetta snýst um, barst ekki hinu stefnda tryggingafélagi, fyrr en eftir andlát Benedikts Orra. Þá var tilnefningarinnar heldur ekki getið á viðkomandi tryggingarskírteini. Voru því fyrrgreind formskilyrði laga nr. 20/1954 ekki uppfyllt.
Umrædd líftrygging var keypt hjá löggiltri vátryggingamiðlun. Samkvæmt því þykja bæði vátryggingartaki, Benedikt Orri, og hinn tilnefndi rétthafi tryggingarfjárins, stefnda Kolbrún, hafa haft réttmæta ástæðu til að treysta því, að sá eindregni vilji vátryggingartaka, sem fram kemur í óafturkallanlegri tilnefningu rétthafa tryggingarinnar, næði fram að ganga. Hafi þau því enga ástæðu haft til að ætla, að formskilyrði nefndra laga væru ekki uppfyllt, heldur hafi þau með réttu mátt telja fullnægjandi, að tilnefningunni yrði komið á framfæri við hina löggiltu vátryggingamiðlun. Verður og að hafa í huga í því sambandi, að formskilyrði 102. gr. laganna um vátryggingasamninga eru sett til að tryggja, að viljaafstaða þess, er slíka yfirlýsingu gefur, komi skýrlega fram og þar með, að öruggt sé, að sá, er njóta á ákvörðunar vátryggingartaka, geri það. Þá þykir ekki verða horft fram hjá því, að stefnda, Kolbrún, greiddi allan tímann iðgjald tryggingarinnar. Síðast, en ekki síst, verður að líta til þess, að hefði ætlun Benedikts Orra hefði verið önnur en sú, að stefnda, Kolbrún, væri rétthafi bótanna, hefði honum verið í lófa lagið að fella trygginguna úr gildi og taka tryggingu öðrum til hagsbóta. Það gerði hann hins vegar ekki. Er það því niðurstaða málsins, að vilji tryggingartaka verði, eins og hér stendur á, að ganga framar formskilyrðum 103. gr. nefndra laga um vátryggingasamninga. Er stefnda, Kolbrún, samkvæmt því sýknuð af kröfu stefnanda um, að viðurkennt verði, að hún „eigi ekki tilkall til greiðslu úr líftryggingu Benedikts Orra Viktorssonar hjá Friends Provident”, heldur verður þvert á móti talið, að stefnda sé rétthafi hennar.
Eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hans, Kristínar Edwald hdl., sem eru hæfilega ákveðin 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þá greiðist gjafsóknarkostnaður stefndu, Kolbrúnar, þar með talin laun lögmanns hennar, Leós Löve hrl., sömuleiðis 350.000 krónur, úr ríkissjóði.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Friends Provident Life and Pensions Limited og Kolbrún Jónsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda, Arnars Benediktssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hans, Kristínar Edwald hdl., 350.000 krónur, og gjafsóknarkostnaður stefndu, Kolbrúnar Jónsdóttur, þar með talin laun lögmanns hennar, Leós Löve hrl., 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.