Hæstiréttur íslands
Mál nr. 686/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Miðvikudaginn 16. desember 2009. |
|
Nr. 686/2009. |
Þorsteinn Jónsson(Jónas Þór Jónasson hrl.) gegn Kone ehf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Þ höfðaði mál á hendur K ehf. til greiðslu vangreiddra launa í uppsagnarfresti að fjárhæð 957.257 krónur en til vara 226.246 krónur. Eftir skýrslutökur við aðalmeðferð málsins í héraði varð sátt með aðilum þar sem K ehf. féllst á að greiða fjárhæð sem svaraði til varakröfu Þ auk tiltekinnar fjárhæðar í dráttarvexti. Kröfur beggja aðilar um málskostnað voru lagðar í úrskurð dómara sem taldi rétt að hvor bæri sinn málskostnað. Var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar. Talið var að ástatt væri með aðilum eins og um ræði í fyrri málslið 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Að því athuguðu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2009, þar sem málskostnaður var felldur niður í máli milli aðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér hluta málskostnaðar hans vegna reksturs málsins í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins hóf sóknaraðili, sem er vélvirki að mennt, störf hjá varnaraðila í september 2003 við uppsetningu á lyftum. Með uppsagnarbréfi 30. apríl 2008 var sóknaraðila sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara frá og með 1. maí 2008. Honum var jafnframt boðinn sá kostur að láta þegar af störfum og fá greiddan þriggja mánaða uppsagnarfrest í samræmi við kjarasamninga eða vinna uppsagnartímann. Sóknaraðili þáði boðið og kaus að vinna ekki í uppsagnarfresti. Með bréfi til sóknaraðila 19. júní sama ár tilkynnti varnaraðili að hann hefði farið rangt með uppsagnarfrestinn, sem væri tveir mánuðir en ekki þrír samkvæmt kjarasamningi málmiðnaðarmanna þar sem sóknaraðili hefði ekki náð fimm ára starfsaldri. Uppsagnarbréfið leiðréttist þar með „enda kemur þar fram að uppsagnartíminn eigi að vera í samræmi við kjarasamninga.“ Kvaðst varnaraðili hafa sent þessa leiðréttingu strax og honum urðu mistökin ljós. Hann greiddi þrátt fyrir þetta og án greiðsluskyldu að eigin sögn sóknaraðila laun í þrjá mánuði, ásamt launauppbót og kaupauka í formi utanlandsferðar fyrir sóknaraðila og konu hans.
Með bréfi lögmanns sóknaraðila 18. september 2008 var varnaraðili krafinn um frekari greiðslu og vísað til þess að á 16 mánaða tímabili fyrir uppsögn sóknaraðila hafi yfirvinnutímar hans verið mun fleiri en miðað hafi verið við í uppgjöri. Var tekið fram í bréfinu að VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna hafi krafið varnaraðila um leiðréttingu á launum sóknaraðila í uppsagnarfresti en henni verið hafnað. Lögmaður varnaraðila svaraði með bréfi 29. október 2008 og hafnaði kröfunni. Höfðaði sóknaraðili þá mál þetta með stefnu sem þingfest var 18. júní 2009, til greiðslu aðallega 975.257 króna en til vara 226.246 króna ásamt tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnaði. Varnaraðili krafðist aðallega sýknu en til vara lækkunar stefnukrafna. Við aðalmeðferð 18. nóvember 2009 gáfu sóknaraðili og fyrirsvarsmaður varnaraðila skýrslur og þrjú vitni voru leidd. Að því búnu reyndi héraðsdómarinn sættir og tókst með aðilum sátt um að varnaraðili greiddi sóknaraðila fjárhæð sem nam varakröfu hans og 50.000 krónur í dráttarvexti. Tekið var fram að með sáttinni væri lokið deilum málsaðila vegna starfsloka sóknaraðila, en málskostnaður var lagður í úrskurð.
II
Sóknaraðili styður kröfu sína með því að við aðalmeðferð 18. nóvember 2009 hafi varnaraðili í fyrsta sinn fallist á greiðsluskyldu sína og náðst hafi sátt um varakröfuna. Verði til þess að líta að þá hafi aðila- og vitnaskýrslum verið lokið og munnlegur málflutningur átt að fara fram, með tilheyrandi undirbúningi. Varnaraðili hafi því stofnað til umtalsverðs kostnaðar vegna vinnu lögmanns sóknaraðila með því að fallast ekki á greiðsluskyldu sína fyrr.
Varnaraðili kveðst hafa greitt sóknaraðila laun í þrjá mánuði í uppsagnarfresti og því greitt honum umsamin laun og gott betur, þar sem sóknaraðili hafi aðeins átt rétt til launa í tvo mánuði. Í héraði hafi hann að auki byggt á því að sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum og yfirvinnu þeirri sem hann hafði haft og því hafi hann ekki átt rétt til frekari launa vegna yfirvinnu í uppsagnarfresti. Eftir skýrslutökur í aðalflutningi hafi héraðsdómari lagt hart að aðilum að ná sáttum. Varnaraðili hafi að lokum fallist á að reyna sættir en tekið fram að það væri án viðurkenningar á greiðsluskyldu. Sáttin sé afrakstur viðræðnanna. Báðir aðilar hafi gert kröfu um málskostnað og héraðsdómari hafi í úrskurði sínum talið rétt að hvor bæri sinn málskostnað. Þessum úrskurði hafi varnaraðili ákveðið að una.
Í málinu liggur ekki fyrir á hvaða forsendum dómsátt aðilanna var gerð. Af efni hennar er þó sýnt að hvorki hefur sóknaraðili fengið framgengt aðalkröfu sinni né varnaraðili aðalkröfu sinni um sýknu. Þegar litið er til þeirrar fjárhæðar sem varnaraðili féllst á að greiða, í samanburði við aðalkröfu sóknaraðila að viðbættum umkröfðum dráttarvöxtum og málsatvik að öðru leyti, er ljóst að ástatt er fyrir aðilum eins og um ræðir í upphafi fyrri málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu athuguðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Þorsteinn Jónsson, greiði varnaraðila, Kone ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2009.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 18. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorsteini Jónssyni, Hraunbæ 110G, Reykjavík á hendur Kone ehf., Síðumúla 17, Reykjavík, með stefnu birtri í júní 2009.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 975.257 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 8. ágúst 2008 til greiðsludags. Til vara að stefnda verði gert að greiða stefnanda 226.246 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 8. ágúst 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
Í þinghaldi 18. nóvember sl. varð sátt í málinu um annað en málskostnað. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, skal málskostnaður ákveðinn með úrskurði dómsins, þegar svo stendur á. Báðir málsaðilar gera kröfu um málskostnað sér til handa úr hendi hins.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður og hvor aðili um sig beri sinn hluta kostnaðar af málinu.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Málskostnaður milli aðila fellur niður.