Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Haldsréttur
- Vörslur
- Innsetning
|
Föstudaginn 4. mars 2011. |
|
|
Nr. 69/2011. |
Stjörnublikk ehf. (Jón G. Briem hrl.) gegn Guðna Þórðarsyni og Lindu Samúelsdóttur (Björn Þorri Viktorsson hrl.) |
Kærumál. Haldsréttur. Vörslur. Innsetning.
S ehf. flutti inn járn síðla árs 2007 en járnið var við komuna til landsins afhent bankanum L hf., síðar N hf., sem tekið hafði við eignarhaldi þess. Í júnímánuði 2008 var járnið flutt frá hafnarsvæðinu til S ehf., en hluta þess var komið fyrir á lóð K ehf. þar sem það rúmaðist ekki allt hjá S ehf. Flutningsfyrirtækið Í ehf. annaðist flutninginn. G, sem þá var fyrirsvarsmaður Í ehf., flutti járnið sem geymt var hjá K ehf. til geymslu á jörð sinni í Hvalfjarðarsveit Dótturfélag N hf., H ehf., tók síðar við eignarhaldi járnsins og afsalaði í október 2010 því til ST ehf. Síðastgreinda félagið krafðist þess þá að járnið, sem geymt var á landi G og L, yrði afhent sér. G og L héldu því meðal annars fram að járnið væri til afhendingar gegn greiðslu áfallins geymslukostnaðar og að til tryggingar honum hefðu þau haldsrétt í járninu. Deila aðila laut einkum að því hvort flutningurinn í Hvalfjarðarsveit hefði verið að beiðni ST ehf. eða að beiðni, fyrir hönd Í ehf. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að eins og atvikum málsins væri háttað yrði talið að með því að flytja járnið á jörð sína og neita eiganda þess að fá það afhent hefðu G og L með ólögmætum hætti aftrað ST ehf. þess að neyta eignarréttinda sinna yfir járninu. Var aðfararbeiðni ST ehf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. janúar 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að 272,5 tonn af upprúlluðu steypustyrktarjárni yrðu tekin úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og innsetningarbeiðni hans tekin til greina. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara krefjast þau þess að verði fallist á kröfu sóknaraðila um innsetningu skuli sóknaraðila „þá jafnframt gert skylt að greiða áfallinn geymslukostnað að fjárhæð kr. 11.845.575,- auk virðisaukaskatts gegn afhendingu á efninu.“ Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum málsaðila er nægilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir krefst sóknaraðili þess að hann verði settur inn í umráð 272,5 tonna af upprúlluðu steypustyrktarjárni á fasteign varnaraðila að Tungu í Hvalfjarðarsveit. Ágreiningur málsaðila lýtur í fyrsta lagi að því hvort sóknaraðili sé eigandi járnsins en í öðru lagi hvort honum beri að greiða varnaraðilum geymslukostnað áður en hann geti fengið járnið í sínar vörslur.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing 9. febrúar 2011 frá Hömlum 2 ehf., NBI hf. og skilanefnd Landsbanka Íslands hf. þar sem segir að við undirritun afsals 13. október 2010 um sölu á umþrættu steypustyrktarjárni til sóknaraðila hafi láðst að setja tölustafinn 2 fyrir aftan nafn Hamla, en kennitala seljandans Hamla 2 ehf. sé á hinn bóginn rétt í afsalinu. Með þessari athugasemd verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að sóknaraðili sé eigandi járnsins.
Samkvæmt yfirlýsingu Árna B. Halldórssonar, fyrrum fyrirsvarsmanns Stanga ehf., voru um 1.000 tonn af járni, sem félagið lét flytja til landsins á árinu 2007, flutt af athafnasvæði Samskipa hf. við Kópavogshöfn í lok júní 2008. Þann flutning annaðist fyrirtækið Íslandsgámar ehf. Málsaðilar eru sammála um að járnið hafi átt að flytja á starfstöðvar Stanga ehf. en við flutninginn hafi komið í ljós að ekki var rými fyrir allt járnið þar. Því hafi verið gripið til þess ráðs að flytja um 300 tonn af því á lóð nr. 6 við Kistumel í Reykjavík, sem var í eigu einkahlutafélagsins Kistumels. Sú lóð var í næsta nágrenni við starfstöð Stanga ehf. að Kistumel 20. Málsaðila greinir á hinn bóginn á um hvort sú ráðstöfun hafi verið að beiðni fyrirsvarsmanns Stanga ehf. eða annars varnaraðila, Guðna Þórðarsonar, sem var þá fyrirsvarsmaður Íslandsgáma ehf. Fram er komið að Stangir ehf. tóku smátt og smátt af járninu sem var á Kistumel 6 og nýttu það í starfsemi sinni, eða allt þar til í byrjun október 2008 er varnaraðilar, án vitneskju og samráðs við Stangir ehf., fluttu járnið að Tungu í Hvalfjarðarsveit. Fyrirsvarsmaður Stanga ehf. kærði þjófnað á járninu þegar til lögreglu. Varnaraðilar hafa gefið þá skýringu að þau hafi flutt járnið á brott til að koma í veg fyrir að gengið yrði frekar í það.
Af því sem að framan er rakið verður ekki séð að járnið hafi verið í vörslum Íslandsgáma ehf. og síðar varnaraðila eftir að það var komið á lóðina nr. 6 við Kistumel, enda nýttu Stangir ehf. járnið að vild um skeið. Af málatilbúnaði málsaðila verður ráðið að það hafi verið flutt þangað af þeirri ástæðu einni að ekki var rými fyrir það á starfsvæði Stanga ehf. Skiptir því ekki máli hvor aðili flutningssamningsins óskaði eftir leyfi til að geyma járnið þar í skamman tíma. Þá er eins og áður segir fram komið að sóknaraðili er nú eigandi þessa járns. Samkvæmt framansögðu verður talið að með því að flytja járnið að Tungu í Hvalfjarðarsveit og neita eiganda þess að fá það afhent hafi varnaraðilar með ólögmætum hætti aftrað sóknaraðila frá því að neyta eignarréttinda sinna yfir járninu. Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 fyrir því að hin umbeðna aðfarargerð fari fram eru samkvæmt framansögðu uppfyllt.
Mál þetta er rekið eftir ákvæðum 12. kafla laga nr. 90/1989 og kemur fjárkrafa varnaraðila, sem þau gera til vara, ekki til álita í málinu.
Eftir þessum úrslitum verða varnaraðilar dæmd til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Stjörnublikki ehf., er heimilt með beinni aðfarargerð að fá um 272,5 tonn af upprúlluðu steypustyrktarjárni tekin úr umráðum varnaraðila, Guðna Þórðarsonar og Lindu Samúelsdóttur.
Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. janúar 2011.
Mál þetta var þingfest 16. nóvember 2010 og tekið til úrskurðar 10. janúar 2011. Gerðarbeiðandi er Stjörnublikk ehf., Smiðjuvegi 2 í Kópavogi. Gerðarþolar eru Guðni Þórðarson og Linda Samúelsdóttir, bæði til heimilis að Tungu í Hvalfjarðarsveit.
Gerðarbeiðandi krefst þess að um 272,5 tonn af upprúlluðu steypustyrktarjárni, sem gæti skipst nokkuð jafnt í 6 mm járn annars vegar og 12−14 og 16 mm járn hins vegar, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslu gerðarþola og fengið gerðarbeiðanda. Við munnlegan flutning málsins krafðist gerðarbeiðandi einnig málskostnaðar úr hendi gerðarþola.
Gerðarþolar krefjast þess aðallega að hafnað verði kröfu gerðarbeiðanda en til vara, nái gerðin fram að ganga, að gerðarbeiðanda verði gert skylt gegn afhendingu á járninu að greiða áfallinn geymslukostnað að fjárhæð 11.845.575 krónur auk virðisaukaskatts. Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu er þess krafist að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða æðri dóms liggur fyrir. Þá krefjast gerðarþolar þess að gerðarbeiðanda verði gert að greiða málskostnað.
I
Síðla árs 2007 flutti fyrirtækið Stangir ehf. tæp 3.000 tonn af járni til landsins frá Ítalíu. Farmflytjandi var Samskip hf. en samkvæmt afgreiðslustaðfestingu 23. júní 2008, sem undirrituð var af fyrirsvarsmönnum Stanga ehf., Samskipa hf. og Landsbanka Íslands hf., var járnið afhent bankanum, sem tekið hafði við eignarhaldi þess. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október sama ár, í kjölfar bankahrunsins, var járninu ásamt ýmsum öðrum eignum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbankans en það félag var nefnt NBI hf.
Í lok júní 2008 var járnið flutt frá athafnasvæði Kópavogshafnar til Stanga hf. Þann flutning annaðist fyrirtækið Íslandsgámar ehf., en fyrirsvarsmaður þess var gerðarþoli Guðni. Ekki var þó unnt að koma öllu járninu fyrir á athafnasvæði Stanga hf. og var hluta af járninu komið fyrir að Kistumel 6 í Reykjavík á lóð fyrirtækisins Kistumels ehf.
Gerðarþoli Guðni heldur því fram að gengið hafi verið í járnið að Kistumel 6 og hluti þess fjarlægður. Af þeim sökum hafi hann brugðið á það ráð að flytja efnið sem eftir var til geymslu að Tungu í Hvalfjarðarsveit, en jörðin er í eigu gerðarþola og þar er rekið geymslusvæði. Einnig fullyrða gerðarþolar að Íslandsgámar ehf. hafi greitt geymslukostnað vegna járnsins þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta.
Hinn 6. október 2008 mætti Árni Björn Halldórsson, fyrirsvarsmaður Stanga hf., á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík til að leggja fram kæru vegna ætlaðs þjónaðar á járninu sem hafði verið í geymslu að Kistumel 6. Við athugun lögreglu kom í ljós að járnið hafði verið flutt að Tungu, en ekki mun hafa komið til frekari aðgerða lögreglu sem hér hafa þýðingu. Skömmu eftir að málið var kært til lögreglu eða 18. sama mánaðar var bú Stanga hf. tekið til gjaldþrotaskipta.
Gerðarbeiðandi fékk afsal fyrir járninu 13. október 2010 frá Hömlum 2 ehf. Í afsalinu var tekið fram að járnið væri meðal annars geymt á landi gerðarþola að Tungu, en þangað hefði það verið flutt í heimildarleysi. Einnig var tekið fram að afsalsgjafi tæki enga ábyrgð á magni eða gæðum járnsins, auk þess sem gerðarbeiðandi bæri ábyrgð og áhættu af því að sækja járnið á geymslustað og greiða allan kostnað sem af því hlýst.
Með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda 15. október 2010 var þess krafist að gerðarþolar afhentu járnið án tafar. Þessu erindi svaraði lögmaður gerðarþola með tölvubréfi 25. sama mánaðar. Þar kom meðal annars fram að járnið, sem geymt var að Tungu, hefði aldrei verið afhent heldur komið í geymslu á jörðinni. Þar væri járnið til afhendingar gegn greiðslu áfallins geymslukostnaðar sem næmi 69 krónum á tonn á sólarhring en magnið næmi 272,5 tonnum. Samtals næmi því geymslukostnaður í 19 mánuði 10.717.425 krónum (19. mán. x 564.075 kr.). Í tölvubréfinu eru síðan rakin samskipti gerðarþola við fulltrúa Landsbankans Íslands hf. og gerðarbeiðanda, en ekki eru efni til að tíunda þau samskipti nánar hér.
II
Gerðarbeiðandi reisir málatilbúnað sinn á því að allt járnið hafi verið afhent Stöngum ehf. eftir að Íslandsgámar ehf. önnuðust flutning járnsins frá athafnasvæði Kópavogshafnar í júní 2008. Í þeim efnum tekur gerðarbeiðandi fram að Árni Björn Halldórsson, fyrirsvarsmaður Stanga hf., hafi samið við Kistufell ehf. um geymslu á hluta járnsins að Kistumel 6, en þetta hafi Árni staðfest með yfirlýsingu 1. nóvember 2010. Samkvæmt þessu er því andmælt að hluti járnsins hafi ekki verið afhentur heldur komið í geymslu að Kistumel 6 á vegum Íslandsgáma ehf.
Gerðarbeiðandi bendir á að Íslandsgámar ehf. hafi ekki lýst kröfu sinni um þóknun fyrir flutning á járninu í þrotabú Stanga ehf. eða með nokkru móti reynt að tryggja hagsmuni sína gagnvart þrotabúinu. Telur gerðarbeiðanda að það hefði verið réttur vettvangur ef fyrirtækið teldi sig eiga kröfu af þessu tilefni. Samkvæmt þessu geti gerðarþolar ekki borið fyrir sig að flutningskostnaður sé ógreiddur.
Gerðarbeiðandi vísar til þess að enginn sem talið hefur til eignarréttar að járninu hafi beðið gerðarþola að geyma járnið né heimilað öðrum að óska eftir geymslu á því hjá gerðarþolum. Að því gættu andmælir gerðarbeiðandi því að gerðarþolar hafi öðlast haldsrétt í járninu. Eignarréttur gerðarbeiðanda sé því óskoraður og eigi hann skýlausan rétt á að fá járnið úr vörslum gerðarþola, sbr. 78. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
III
Gerðarþolar mótmæla umráðakröfunni á þeim grundvelli að gerðarbeiðandi hafi ekki leitt í ljós að hann sé réttur eigandi járnsins. Þannig hafi gerðarbeiðandi ekki fengið járninu afsalað frá skilanefnd Landsbanka Íslands hf. eða NBI hf., ef eignarhald járnsins fluttist á annað borð til þess félags. Hins vegar liggi ekkert fyrir í málinu um eignarhald Hamla 2 ehf., sem gaf út afsal til gerðarbeiðanda 13. október 2010.
Gerðarþolar vísa til þess að efnið sem var geymt að Kistumel 6 og flutt að Tungu í Hvalfjarðarsveit hafi aldrei verið afhent Stöngum ehf. Þvert á móti hafi járnið verið í umsjá Íslandsgáma ehf. og á ábyrgð þess. Til stuðnings þessu benda gerðarþolar á yfirlýsingu Arnar Þórssonar, framkvæmdastjóra Kistumels hf., en þar staðfesti hann að Íslandsgámar ehf. hafi samið um afnot á lóð félagsins að Kistumel 6 gegn greiðslu. Þegar gengið hafi verið í efnið hafi Íslandsgámar hf. samið við gerðarþola Guðna um geymslu járnsins að Tungu, en þar reki hann geymslusvæði.
Gerðarþolar halda því fram að Íslandsgámar hf. hafi staðið skil á geymslukostnaði þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir það hafi geymslukostnaður ekki verið greiddur í liðlega tvö ár en til tryggingar honum telja gerðarþolar sig eiga haldsrétt í járninu.
Gerðarþolar fullyrða að gerðarbeiðanda hafi verið gerð grein fyrir áföllnum geymslukostnaði, auk þess sem starfsmönnum Landsbankans hafi verið kunnugt um þennan kostnað. Einnig megi ráða þetta af afsali til gerðarbeiðanda, en þar sé tekið fram að gerðarbeiðandi taki á sig alla ábyrgð og áhættu á að sækja járnið á geymslustað og greiði kostnað sem af því hlýst. Samkvæmt þessu telja gerðarþolar að gerðarbeiðandi leggi fram innsetningarbeiðni í vondri trú um betri rétt gerðarþola.
Gerðarþolar mótmæla sérstaklega málskostnaðarkröfu gerðarbeiðanda sem fyrst var höfð uppi við munnlegan flutning málsins. Þá benda gerðarþolar á að mál þetta varði mikla hagsmuni þeirra og því sé mikilvægt að umráðakrafa gerðarbeiðanda nái ekki fram að ganga fyrr en að gengnum dómi Hæstaréttar.
IV
Í málinu liggur fyrir að Íslandsgámar ehf. fluttu í lok júní 2008 járn frá athafnasvæði Kópavogshafnar, en járnið höfðu Stangir ehf. flutt til landsins frá Ítalíu. Járn þetta var að hluta til flutt til Stanga ehf. en að öðru leyti var því komið fyrir að Kistumel 6 í Reykjavík, á lóð í eigu fyrirtækisins Kistumels ehf. Það járn sem var komið fyrir að Kistumel 6 var síðan flutt að Tungu í Hvalfjarðarsveit, en sú jörð er í eigu gerðarþola.
Hinn 13. október 2010 fékk gerðarbeiðandi afsal frá Hömlum 2 ehf. fyrir því járni sem Stangir ehf. höfðu flutt til landsins. Það fyrirtæki er eignarhaldsfélag sem stofnað var af NBI hf. er tók við starfsemi Landsbanka Íslands hf. í kjölfar bankahrunsins. Eingin efni eru til að bera brigður á þessa eignarheimild gerðarbeiðanda.
Gerðarbeiðandi heldur því fram að Íslandsgámar ehf. hafi afhent Stöngum ehf. allt járnið, þar með talið það sem geymt var á lóð Kistumels ehf. Um þetta hafi forsvarsmenn félaganna gert samkomulag svo sem staðfest hafi verið með yfirlýsingu 1. nóvember 2010, sem rituð er af Árna Björgvin Halldórssyni, sem var fyrirsvarsmaður Stanga ehf. Þetta fer hins vegar í bága við yfirlýsingu Arnar Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Kistumels ehf., frá 16. sama mánaðar, þar sem því er lýst yfir að efnið hafi verið geymt á lóðinni á vegum Íslandsgáma ehf. Að þessu virtu er ekki sannað með gögnum sem aflað hefur verið eftir 83. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, að járn það sem umráðakrafan tekur til og geymt var að Kistumel 6 hafi verið þar á vegum Stanga ehf., sem gerðarbeiðandi leiðir rétt sinn frá. Því er ekki loku fyrir það skotið að Íslandsgámar ehf. og síðan gerðarþolar hafi öðlast haldsrétt í járninu vegna geymslugjalda. Verður því talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli gagna málsins, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu verður umráðakrafa gerðarbeiðanda ekki tekin til greina.
Eftir þessum úrslitum verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþolum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda, Stjörnublikks ehf., um að 272,5 tonn af upprúlluðu steypustyrktarjárni verði tekið úr vörslum gerðarþola, Guðna Þórðarsonar og Lindu Samúelsdóttur, með beinni aðfarargerð.
Gerðarbeiðandi greiði hvorum gerðarþola 100.000 krónur í málskostnað.