Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
|
|
Mánudaginn 11. júní 2012. |
|
Nr. 375/2012. |
Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag (Kristinn Brynjólfsson stjórnarmaður) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Hlynur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð.
Hafnað var kröfu M ehf. um að viðurkennt yrði að slitastjórn F hf. hefði í raun samþykkt kröfur sem einkahlutafélagið hafði lýst í slitabúið, þar sem kröfunum hefði ekki verið mótmælt innan þess frests sem getið er um í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 25. maí 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfest yrði með dómi „að varnaraðili hafi í raun samþykkt kröfur þær sem sóknaraðili lýsti fyrir slitastjórn varnaraðila þann 22. september 2009, þar sem kröfunum hafi ekki verið mótmælt innan tilskilins frests eins og skýrt er kveðið á um í 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti ...“
Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði varnaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2012.
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila og var beint til dómsins með bréfi varnaraðila 10. nóvember 2011, sem móttekið var 14. sama mánaðar. Vísaði varnaraðili um lagagrundvöll til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 5. janúar 2012.
Sóknaraðili er Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, Lágabergi 1, Reykjavík, en varnaraðili er Frjálsi Fjárfestingarbankinn hf., Lágmúla 6, Reykjavík.
Í greinargerð sinni krafðist sóknaraðili þess með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að sakarefni málsins yrði skipt þannig að fyrst yrði úrskurðað um fyrstu dómkröfu hans en aðrar kröfur, utan kröfu um málskostnað, yrðu látnar bíða sem varadómkröfur. Varnaraðili tók undir kröfu sóknaraðila að þessu leyti. Féllst dómari á að skipta sakarefni með þessum hætti og var það gert í þinghaldi 16. febrúar sl. Málið var munnlega flutt og tekið til úrskurðar um þennan hluta sakarefnisins 13. apríl 2012.
Sú dómkrafa sóknaraðila sem hér er til úrlausnar er eftirfarandi:
„Dómkrafa 1. Þess er krafist að staðfest verði með dómi að varnaraðili hafi í raun samþykkt kröfur þær sem sóknaraðili lýsti fyrir slitastjórn varnaraðila þann 22. september 2009, þar sem kröfunum hafi ekki verið mótmælt innan tilskilins frests eins og skýrt er kveðið á um í 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti en samkvæmt lagagreininni ber skiptastjóra/slitastjórn að tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa með sannanlegum hætti um afstöðu sína til kröfunnar, ef á hana er ekki fallist, með minnst viku fyrirvara áður en skiptafundur/kröfuhafafundur verður haldinn til að fjalla um skrá um lýstar kröfur.“
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Varnaraðili krefst þess í þessum þætti málsins að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og varnaraðila úrskurðaður málskostnaður.
Ekki þykir ástæða til að rekja þær kröfur sem sóknaraðili hefur uppi í málinu að framangreindri kröfu frágenginni enda ekki til úrlausnar hér.
I
Ekki þykir ástæða til að rekja málavexti hér að því er varðar efnisatriði þeirra krafna sem óumdeilt er að sóknaraðili lýsti í slitabú varnaraðila. Fyrir liggur að sóknaraðili lýsti kröfum í slitabú varnaraðila með bréfi 22. september 2009, sem móttekið var af starfsmanni slitastjórnar þann sama dag. Þá liggur fyrir að umræddra krafna var ekki getið í kröfuskrá sem mun hafa verið send kröfuhöfum í tölvupósti 12. nóvember 2009. Kröfuskráin mun hafa verið send öllum kröfuhöfum varnaraðila sem tilkynning um afstöðu varnaraðila til lýstra krafna og þeim boðið að hafa uppi mótmæli við þeirri afstöðu í síðasta lagi á kröfuhafafundi sem halda skyldi 19. nóvember 2009. Á hann mætti sóknaraðili ekki enda ekki boðaður til fundarins. Sóknaraðili kveðst hafa orðið þess áskynja 7. desember 2009 að kröfulýsingu hans hafi ekki verið að finna á kröfuskrá og kvaðst þegar hafa gert kröfu um leiðréttingu skrárinnar til varnaraðila. Lét sóknaraðila þá þegar uppi þá afstöðu sína að þar sem kröfu hans hefði ekki verið hafnað innan tilskilinna tímamarka teldist slitastjórnin hafa samþykkt hana. Slitastjórn varnaraðila tilkynnti sóknaraðila með bréfi dagsettu þennan dag að vegna mistaka hefði umrædd kröfulýsing ekki verið tekin upp í kröfuskrá en það hefði verið leiðrétt. Var sóknaraðila tilkynnt að kröfum hans hefði verið hafnað og var honum veittur frestur til 18. desember 2009 til að mótmæla þeirri afstöðu slitastjórnar. Mótmæli sóknaraðila munu hafa borist slitastjórn 16. desember 2009 og kemur fram í bréfi hans til slitastjórnar að hann krefjist þess að ágreiningi verði vísað til úrlausnar héraðsdóms. Í greinargerð varnaraðila er því lýst að framhaldskröfuhafafundur hafi verið haldinn 26. október 2011 og þar hafi verið gerð grein fyrir kröfu sóknaraðila og afstöðu slitastjórnar til hennar. Eins og fyrr greinir var ágreiningi þessum vísað til héraðsdóms með bréfi slitastjórnar dags. 10. nóvember 2011 sem móttekið var 14. sama mánaðar.
II
Sóknarðaðili kveðst byggja kröfu þá sem til úrlausnar er í þessum þætti málsins á því að í 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem gildi um slitameðferð varnaraðila sé að finna skýr ákvæði um frest slitastjórnar til að hafna lýstum kröfum. Telji sóknaraðili að þar sem lýstri kröfu hans hafi ekki verið mótmælt innan þess frests sem lögbundinn sé hafi varnaraðili í raun samþykkt þær að öllu leyti og sé bundinn af því að lögum. Skuli allir vera jafnir fyrir lögum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar. Telji sóknaraðili að lög um tímafresti hljóti að gilda að jöfnu fyrir kröfuhafa sem og slitastjórnir/skiptastjóra, en ljóst sé að við það efnahagshrun sem hér hafi orðið hafi margir kröfuhafar tapað háum fjárhæðum þar sem kröfur þeirra eða athugasemdir hafi ekki borist innan tilskilinna tímamarka sem kveðið sé á um í lögum. Í því tilviki sem hér um ræði hafi sóknaraðila sem kröfuhafa ekki verið tilkynnt um afstöðu slitastjórnar fyrr en tæpum mánuði eftir að lögbundinn frestur til þess hafi runnið út.
Sóknaraðili kveðst vísa kröfu sinni til stuðnings til stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands auk þeirra laga og réttarheimilda sem að framan eru nefndar. Þá vísar hann til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá vísar hann til að krafa hans um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. síðastnefndra laga og við lög nr. 55/1980 varðandi virðisaukaskatt á málflutningsþóknun. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og fyrirsvarsmaður hans sem flytji málið sé ekki launamaður hjá félaginu heldur fái hann greitt fyrir vinnuframlag sitt samkvæmt reikningi. Sóknaraðila beri því nauðsyn til að fá úrskurð fyrir virðisaukaskatti ofan á málskostnað úr hendi varnaraðila.
III
Varnaraðili kveðst í greinargerð sinni hafna því alfarið að þær kröfur sem sóknaraðili hafi lýst hafi verið viðurkenndar við slitameðferð varnaraðila, eins og sóknaraðili haldi fram. Vísar varnaraðili til þess að samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gildi ákvæði gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst, en fundir slitastjórnar til að fjalla um viðurkenningu lýstra krafna nefnist kröfuhafafundir. Beri því við úrlausn umræddrar dómkröfu sóknaraðila að horfa til ákvæða gjaldþrotaskiptalaga.
Varnaraðili krefjist þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað fyrst og fremst af þeirri ástæðu að kröfur sóknaraðila hafi aldrei verið viðurkenndar við slitameðferð varnaraðila. Það sé skýr og augljóst meginregla við gjaldþrotaskipti eða slitameðferð að aðeins þær kröfur sem séu viðurkenndar af skiptastjóra eða slitastjórn viðkomandi gjaldþrotaskipta- eða slitabús teljist viðurkenndar við búskiptin. Þessi meginregla styðjist m.a. við skýrt orðalag 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 þar sem segi m.a. að þegar kröfulýsingarfresti sé lokið skuli skiptastjóri tafarlaust gera skrá um þær kröfur sem hafi komið fram, þar sem hann láti í ljósi sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Kveður varnaraðili að með öðrum orðum verði kröfur aðeins viðurkenndar af slitastjórn með ákvörðun þess efnis. Kröfur teljist hins vegar ekki endanlega samþykktar við skipti fyrr en áskilnaði 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt, en þar segi:
„Að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu telst afstaðan endanlega samþykkt við skiptin.“
Aðeins með þeim hætti sem lýst sé í 1. mgr. 119. gr. og 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 geti kröfur talist „endanlega samþykkar“ við slitameðferð varnaraðila. Ákvæðin verði aðeins skýrð þröngt og eftir orðanna hljóðan samkvæmt almennum lögskýringarreglum.
Með samræmisskýringu við önnur ákvæði gjaldþrotaskiptalaga megi einnig ráða að viðurkenning slitastjórnar/skiptastjóra sé skilyrði þess að krafa teljist viðurkennd við búskipti, s.s. 156. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fjallað sé um efndir viðurkenndra krafna.
Varnaraðili vísi jafnframt til þess að misbrestur á að tilkynna kröfuhafa um að kröfu hans hafi verið hafnað geti að lögum ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að krafa viðkomandi teljist viðurkennd, enda sé enga slíka reglu að finna í gjaldþrotaskiptalögum eða öðrum lögum. Misbrestur á að tilkynna kröfuhafa um að kröfu hans hafi verið hafnað geti eðli málsins samkvæmt aðeins leitt til þess að kröfuhafa verði gefinn aukinn frestur til að koma á framfæri mótmælum sínum, eins og gert hafi verið í því tilviki sé hér sé til umfjöllunar. Í máli þessu hafi sóknaraðili því ekki orðið fyrir neinum réttarspjöllum nema síður sé. Þá hafi öðrum kröfuhöfum sem lýst hafi kröfu við slitameðferð varnaraðila verið tilkynnt um afstöðu slitastjórnar varnaraðila til kröfu sóknaraðila á framhaldskröfuhafafundi varnaraðila þann 26. október 2011 og hafi ágreiningsefninu í kjölfarið verið vísað til dóms til úrlausnar.
Varnaraðili vísi jafnframt til sjónarmiða sem byggi á meginreglum laga, eðli máls og almennum sanngirnisrökum til stuðnings framangreindu. Sú niðurstaða að kröfur sóknaraðila teldust viðurkenndar við slitameðferð varnaraðila vegna mannlegra mistaka og í andstöðu við þá afstöðu varnaraðila að krafan yrði ekki viðurkennd fengi engan veginn staðist.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum XII. kafla og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum XVIII. kafla. Þá kveðst hann vísa til réttarheimilda um meginreglur laga og eðli máls auk sanngirnisraka. Um málskostnað kveðst hann vísa til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. segir að þegar kröfulýsingarfresti sé lokið skuli skiptastjóri tafarlaust gera skrá um þær kröfur sem hafi komið fram, þar sem hann láti í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Ákvæði þetta, sem gildir um slitameðferð varnaraðila sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, leggur þær skyldur á skiptastjóra/slitastjórn að taka afstöðu til allra krafna og lýsa þeirri afstöðu í kröfuskrá. Markar þessi ákvörðun skiptastjóra/slitastjórnar upphaf þeirrar málsmeðferðar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 21/1991 og er ætlað að skera úr um réttmæti krafna og leysa úr hugsanlegum ágreiningi um þær, eftir atvikum með aðkomu dómstóla. Ákvæðið er óundanþægt utan að í lokamálslið 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 segir að skiptastjóra sé þó óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja megi fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar við skiptin.
Með vísan til framangreindrar lagareglu er því hafnað að lög standi til þess að athafnaleysi eða mistök skiptastjóra/slitastjórnar geti leitt til þess að krafa teljist viðurkennd við gjaldþrotaskipti eða slitameðferð enda mælir ákvæðið fortakslaust fyrir um að skiptastjóra/slitastjórn beri að taka sjálfstæða afstöðu til hverrar kröfu. Væri annar skilningur í andstöðu við málsmeðferðarreglur laga nr. 21/199 og leiddi t.d. til þess að aðrir kröfuhafar glötuðu rétti sínum til að hafa uppi andmæli við umræddri kröfu. Ákvæði 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, sem sóknaraðili vísar einkum til, varðar m.a. rétt kröfuhafa til að fá sannanlega innan tilgreindra tímamarka tilkynningu um að skiptastjóri/slitastjórn hafni kröfu hans að öllu leyti eða að hluta þannig að honum gefist ráðrúm til að mótmæla þeirri afstöðu. Varðar ákvæðið því mikilvæg réttindi kröfuhafa og markar það tímabil sem hann getur réttilega mótmælt afstöðu skiptastjóra/slitastjórnar og láti hann það undir höfuð leggjast telst hann una niðurstöðunni. Hins vegar verður ákvæðið ekki skilið á þann veg að krafa teljist samþykkt þó tilkynning farist fyrir. Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að slík niðurstaða sé í andstöðu við jafnræðisreglur. Málsmeðferðarreglum laga nr. 21/1991 er ætlað að tryggja jafnræði kröfuhafa sem lýsa kröfum í þrotabú, en skiptastjóri/slitastjórn gegnir við málsmeðferðina hlutverki hlutlauss úrlausnaraðila sem ekki getur talist hafa sjálfstæða hagsmuni af úrlausn um einstakar kröfur.
Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir verður kröfu sóknaraðila í þessum þætti málsins hafnað.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði endanlegrar úrlausnar málsins.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Framangreindri kröfu sóknaraðila, Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, sem auðkennd er sem „Dómkrafa 1“ í greinargerð hans er hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegrar úrlausnar málsins.