Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Dánarbússkipti


Föstudaginn 19

 

Föstudaginn 19. mars 2004.

Nr. 25/2004.

A og

B

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

C

D og

E

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Erfðaskrá. Dánarbússkipti.

Deilt var um að hve miklu leyti arfi hafi verið ráðstafað samkvæmt 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og þá hvort farið hefði verið út fyrir heimildir greinarinnar. Var niðurstaða Hæstaréttar sú að mismunur verðmats þeirra eigna sem arfleifendur ákváðu að skyldi renna til A og B hvors um sig og C, D og E samanlagt, skyldi teljast arfur til A og B samkvæmt ákvæði 35. gr. erfðalaga og koma til viðbótar skylduerfðahlutum þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Málið dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. janúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003, þar sem til úrlausnar var ágreiningur aðilanna um nánar tiltekin atriði varðandi opinber skipti á dánarbúi X. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að staðfest verði sú niðurstaða héraðsdóms að meta beri verðmæti hlutafjár í L hf. á 22.179.000 krónur, en bréfin fékk sóknaraðilinn A afhent sem fyrirframgreiðslu á arfi á árinu 1991. Þá krefjast þær „að hinum kærða úrskurði verði að öðru leyti, með eða án heimvísunar, hrundið og honum breytt á þá leið: að verðmat tilkvadds matsmanns dánarbúsins frá 24. september 2002 á framreiknuðu verðmæti fyrirframgreidds arfs til varnaraðila, kr. 19.759.665, samtals til þeirra allra, verði staðfest, að sá mismunur verðmats þeirra eigna sem arfleifendur ákváðu að skyldi renna til skylduerfingja sinna samkvæmt 5. gr. erfðaskrárinnar frá 1989, sbr. ákvæði erfðaskrárinnar frá 1988, arfur að verðmæti samtals kr. 27.236.570, skuli teljast arfur til sóknaraðila samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga og að hann skuli koma til viðbótar skylduerfðahlutum sóknaraðila,  að ákvörðun arfleifenda í erfðaskránum frá 1988 og 1989 um það hvert þar tilgreindar eignir þeirra skuli renna sé ákvörðun arfleifenda á grundvelli 2. mgr. 36. gr. erfðalaga, að skylduerfðahluti erfingjanna allra verði reiknaður þannig út að hann teljist vera 1/3 hluti eigna búsins til hvors sóknaraðila fyrir sig og 1/9 hluti eigna búsins til hvers varnaraðila fyrir sig eftir að arfur til sóknaraðila samkvæmt 35. gr. erfðalaga, þ.e. kr. 27.236.570, hefur verið dreginn frá heildareignum búsins, að kr. 19.759.665, sem var fyrirframgreiddur arfur til varnaraðila komi til frádráttar arfi til þeirra.” Þá krefjast sóknaraðilar óskipt málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur að öðru leyti en því að mat á hlutabréfum í L hf. verði miðað við mat Verðbréfastofunnar hf. frá 4. júlí 2002 að fjárhæð 31.125.000 krónur. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.   

Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar fyrir sitt leyti. Framangreindar kröfur þeirra um breytingar á hinum kærða úrskurði komast því ekki að hér fyrir dómi. Stendur því óbreytt niðurstaða héraðsdómara um að mat á verðmæti hlutabréfa í L hf., sem sóknaraðilinn A fékk afhent sem fyrirframgreiddan arf 1991, að fjárhæð 22.179.000 krónur.

I.

Með dómi Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 242/2003, var vísað frá héraðsdómi máli varðandi ágreining aðila um drög að frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar arfs úr dánarbúi X. Líkt og rakið er í þeim dómi snýst ágreiningur aðila um nokkurn fjölda atriða, sem varða forsendur fyrir skiptingu arfs milli þeirra við skipti á dánarbúi þessu. Eru málavextir raktir í einstökum atriðum í fyrsta kafla tilvitnaðs dóms Hæstaréttar.

Eftir að dómur Hæstaréttar gekk voru í september og október 2003 haldnir fjórir skiptafundir í dánarbúi X. Af fundargerð skiptafundar 22. október sama árs er ljóst að ekki er ágreiningur um hverjir séu erfingjar að búinu. Þá er ekki deilt um gildi erfðarskráa 16. september 1988 og 6. desember 1989. Erfingjar eru einnig sammála um hverjar eignir búsins eru en greinir á um mat á andvirði fyrirframgreidds arfs til sóknaraðilans A og varnaraðila. Þá er ágreiningslaust að ekki hvíli aðrar skuldir en skiptakostnaður á búinu. Ekki er heldur ágreiningur um rétt sóknaraðila til að „erfa og fá í sinn hlut þær eignir sem þær fengu“, eins og segir í áðurnefndri fundargerð. Ekki tókst að jafna ágreining aðila um önnur mál og á skiptafundi 31. október 2003 fóru lögmenn aðila þess á leit að önnur ágreiningsefni þeirra yrðu lögð fyrir héraðsdóm. Vísaði skiptastjóri ágreiningi aðila öðru sinni til héraðsdóms 5. nóvember 2003. Eftir fundinn 31. október sama árs mun varnaraðilum hafa verið greiddar 1.000.000 krónur hverjum af eignum búsins, en sóknaraðilum 3.000.000 krónur hvorri um sig.

Af málatilbúnaði aðilanna verður ráðið að ekki sé lengur ágreiningur um að andvirði eignarhluta í fjórðu hæð fasteignarinnar H [...] sé ákveðið með því að framreikna hlut Y, eiginmanns X, í söluverði samkvæmt kaupsamningi 16. september 1997 án þess að leggja við vexti þannig að andvirðið teljist 10.668.458 krónur.

II.

Málsaðilar deila um hvort meta eigi fyrirframgreiðslu arfs, sem varnaraðilar fengu á árunum 1991 og 1992 að fjárhæð 3.000.000 krónur til handa hverjum varnaraðila, með framreikningi þeirrar fjárhæðar samkvæmt verðlagsbreytingum og leggja þar við vexti, þannig að andvirði hverrar greiðslu um sig verði talið 6.586.555 krónur samkvæmt álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. 24. september 2002, eða án þess að reikna vexti þannig að andvirði hverrar greiðslu teljist 4.166.000 krónur samkvæmt álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. 12. desember 2002. Ekki er ágreiningur milli varnaraðila innbyrðis um vægi hverrar greiðslu fyrir sig, þrátt fyrir að varnaraðilinn E hafi fengið greiddar 3.000.000 krónur á árinu 1991, en hinir tveir varnaraðilarnir hvor um sig 3.000.000 krónur nokkru síðar eða á árinu 1992. Með vísan til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 12. gr. laga nr. 48/1989, er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að ekki beri að leggja vexti við fyrirframgreiðslu arfs til varnaraðila, sem nemur hver um sig framreiknuð með vísitölu 4.166.000 krónum eða samtals til allra varnaraðila 12.498.000 krónum. Ekkert er í gögnum málsins til stuðnings því að þessar greiðslur til varnaraðila geti talist hluti af andvirði eignarhluta arfleifenda í umræddri fasteign, H [...], enda tengdust þær ekki sölu þessa eignarhluta, sem var ekki seldur fyrr en löngu eftir að greiðslur til varnaraðila fóru fram, eða með kaupsamningi 16. september 1997. Ber því að líta á þessar greiðslur sem fyrirframgreiddan lögarf til varnaraðila.

III.

Þau ákvæði í umræddum erfðaskrám frá árunum 1988 og 1989, sem einkum skipta máli, eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram var sóknaraðilinn A arfleidd að öllu hlutafé foreldra sinna í L hf. samkvæmt 1. mgr. 2. gr. erfðaskrár þeirra 16. september 1988. Var í 2. mgr. sömu greinar erfðaskrárinnar sérstaklega vísað til ákvæða 35. gr. erfðalaga og tilgreint að hlutaféð skyldi ekki skerða lögarf hennar samkvæmt 2. gr. laganna. Samkvæmt 2. gr. erfðaskrár 6. desember 1989 var sóknaraðilinn B arfleidd að íbúð á 2. hæð hússins að S [...] ásamt íbúð í kjallara hússins og sumarbústað við Þ ásamt nánar tilgreindum mannvirkjum og lausafjármunum þar. Samkvæmt 3. gr erfðaskrárinnar 6. desember 1989 voru varnaraðilar, eins og áður segir, arfleiddir að 50% eignarhlut í 4. hæð fasteignarinnar H [...] eða andvirði þeirrar eignar, yrði hún seld. Þá var í 5. gr. erfðaskrárinnar 6. desember 1989 svofellt ákvæði: „... Jafnframt heldur gildi sínu erfðaskrá okkar frá 16. september 1988 að öðru leyti en því, að 2. mgr. 2. gr. þeirrar erfðaskrár breytist þannig, að arfur til skylduerfingja okkar samkvæmt þeirri erfðaskrá og þessari teljum við jafnan, en að því marki sem hann væri það ekki telst hann falla undir heimild okkar til að ráðstafa eigum okkar með erfðaskrá samkvæmt 2. mgr. 36. gr. erfðalaga sbr. 35. gr.“

Aðilar vilja skýra þetta ákvæði erfðaskrárinnar hver með sínum hætti. Sóknaraðilar byggja á því að við gerð síðastgreindrar erfðaskrár hafi arfleifendur talið tilgreindan arf til erfingja sinna, sem allir voru skylduerfingjar þeirra, jafnverðmætar eignir. Það hafi verið skýr vilji arfleifenda að umræddar eignir skyldu falla til þeirra erfingja sem þeir tilgreindu. Þá hafi það verið ótvíræður vilji þeirra að hugsanlegur mismunur á verðmati eignanna, þegar arfur félli eða væri reiknaður út, skyldi teljast bréfarfur þeirra samkvæmt 35. gr. erfðalaga og mismunurinn skyldi ekki koma til frádráttar skylderfðahlut þessa erfingja.

Varnaraðilar byggja á því að allur arfur, sem tilgreindur er í áðurnefndum tveimur erfðaskrám, sé bréfarfur sem ráðstafað hafi verið samkvæmt 35. gr. erfðalaga. Þar sem óheimilt sé samkvæmt ákvæðinu að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna búsins með erfðaskrá sé ljóst að arfleifendur hafi farið verulega fram úr arfleiðsluheimild sinni. Því hafi hluti þess arfs, sem fyrirfram var greiddur sóknaraðilum, verið skylduarfur. Beri að draga þann hluta frá erfðahlut sóknaraðila við uppgjör búsins. Þegar reiknað sé út hversu stóran hluta arfsins sóknaraðilar fengu greiddan á árunum 1991 og 1992 verði að líta til þess að hvor sóknaraðili um sig hafi fengið sem bréfarf 1/3 hluta af því sem heimilt er að ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga að viðbættum helmingi þess sem á vantaði að samanlagður bréfarfur varnaraðila næði þeim þriðjungi. Tiltaka varnaraðilar sérstaklega að þeir geri ekki kröfu um útlagningu viðkomandi eigna til handa búinu heldur einungis kröfu um peningagreiðslu sem nemur framangreindum mismun.

Samkvæmt framansögðu stendur deila málsaðila um það að hve miklu leyti arfi hafi verið ráðstafað samkvæmt 35. gr. erfðalaga og þá hvort farið hafi verið út fyrir heimildir greinarinnar.

IV.

Hin umdeildu ákvæði erfðaskrárinnar frá 6. desember 1989 verða að teljast afar óljós. Vilji arfleifenda telst þó augljós að því leyti að tilgreindar eignir skyldu falla til nafngreindra erfingja. Vafi er hins vegar um að hvaða leyti sú ráðstöfun ákveðinna eigna skyldi hafa áhrif á umfang þess heildararfs, sem í hlut hvers og eins erfingja skyldi falla. Erfingja greinir ekki á um að með erfðaskránni var raskað lögerfðahlutföllum frá því, sem verið hefði ef engri erfðaskrá hefði verið til að dreifa, en greinir á um hve mikið. Í 5. gr. framangreindrar erfðaskrár kemur fram að arfleifendur töldu að eignir þær, sem tilteknar voru í erfðaskránum og falla skyldu til hvors sóknaraðila um sig og varnaraðila samanlagt, væru jafn verðmætar. Þar var þó jafnframt ákvæði þess efnis að þessi arfur félli undir heimildir arfleifenda til að ráðstafa eignunum samkvæmt 2. mgr. 36. gr., sbr. 35. gr. erfðalaga, að því marki sem arfshluti væri ekki jafn. Verður lagt til grundvallar að í tilvísun arfleifenda til líklegs jafngildis erfðahlutanna felist að ráðstöfunin skuli að því leyti ekki raska lögerfðareglum. Í ákvæðinu segir að „að því marki” sem arfshlutarnir myndu ekki reynast jafnverðmætir teldist sá arfur falla undir heimild arfleifenda samkvæmt 2. mgr. 36. gr., sbr. 35. gr. erfðalaga.  Samkvæmt  þessu verður niðurstaðan sú að sá mismunur verðmats þeirra eigna, sem arfleifendur ákváðu að skyldi renna til hvors sóknaraðila um sig og varnaraðila samanlagt, samkvæmt 5. gr. erfðaskrárinnar frá 1989, sbr. ákvæði erfðaskrárinnar frá 1988, skuli teljast arfur til sóknaraðila samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga og koma til viðbótar skylduerfðahlutum sóknaraðila.

Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Eins og að framan er rakið var með dómi Hæstaréttar 1. september 2003 vísað frá héraðsdómi máli varðandi ágreining aðilanna um drög að frumvarpi skiptastjóra um úthlutun arfs úr dánarbúi X. Í þeim dómi var sérstaklega á það bent að aðilunum hefði borið að leggja málið þannig fyrir að leitað yrði úrlausnar um tiltekin ágreiningsatriði í stað þess að leita niðurstöðu um úthlutun arfs á grundvelli tölulegra forsendna, sem engan veginn komi tæmandi fram í gögnum málsins. Þrátt fyrir þetta hafa aðilar að hluta til á ný lagt málið fyrir dómstóla sem ágreining um tilteknar fjárhæðir við útreikning arfshluta, auk þess sem ósamræmis virðist gæta í tölulegri kröfugerð sóknaraðila að þessu leyti. Er málið ekki í því horfi að unnt sé að fella dóm um ágreining aðila umfram það sem þeir leita viðurkenningar á afmörkuðum ágreiningsefnum.

Dómsorð:

Við skipti á dánarbúi X skal fyrirframgreiddur arfur til sóknaraðila, A, talinn nema 22.179.000 krónum.

Við skipti á dánarbúinu skal fyrirframgreiddur arfur til varnaraðila, C, D og E, talinn nema samtals 12.498.000 krónum og skal hann talinn hluti lögarfs þeirra.

Við skipti á dánarbúinu skal litið svo á að mismunur verðmats þeirra eigna, sem arfleifendur ákváðu að skyldi renna til skylduerfingja sinna samkvæmt 5. gr. erfðaskrár 6. desember 1989, sbr. ákvæði erfðaskrár 16. september 1988, skuli teljast arfur til sóknaraðila, A og B, samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og koma til viðbótar skylduerfðahlutum sóknaraðila.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003.

Mál þetta var þingfest 21. nóvember 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 9. desember 2003.

                Sóknaraðilar eru C, D, og E.

                Varnaraðili eru A og B.

 

Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:

             Í fyrsta lagi:

Að viðurkennt verði að arfur skv. erfðaskánum 1988 og 1989 takmarkist við heimildir til ráðstöfunar arfs með bréfarfi á grundvelli 35. gr., sbr. 2. mgr. 36. gr., erfðalaga nr. 8/1962 og litið verði svo á að hafi einhver erfingi fengið úthlutað fyrirfram umfram heimilað hlutfall 35. gr., teljist sú umframfjárhæð fyrirframgreiddur skylduarfur til viðkomandi og eigi þá að koma til frádráttar arfshluta erfingja við skiptin, sbr. 2. mgr. 36. gr.

Í öðru lagi:

Að viðurkennt verði að sóknaraðilar hafi ekki fengið arf sinn skv. 3. gr. erfðaskrárinnar frá 1989 greiddan, þ.e. hlutdeild í húseigninni H.  Þannig hafi greiðsla reiðufjár til sóknaraðila á árunum 1991 og 1992 verið fyrirfram greiddur skylduarfur, og tengist ekki með neinum hætti ákvörðunum í erfðaskrám arfleifanda frá 1988 og 1989.

Í þriðja lagi:

Að miðað verði við eftirfarandi við útreikning á arfi:

   a.         Mat á hlutabréfum í L hf. sem komu í hlut A

            miðist við mat Verðbréfastofunnar frá 4. júlí 2002 og verði kr. 31.125.000.

   b.         Mat á fyrirframgreiddum arfi B miðist við mat

            Eignarmiðlunarinnar ehf. frá 10. september 2002 og verði kr. 32.000.000.

   c.         Ekki verði reiknaðir vextir ofan á vísitöluútreikning samt. kr. 9.000.000 í

            peningum sem sóknaraðilar fengu sem fyrirframgreiddan arf á árunum

            1991 og 1992, heldur einungis reiknuð vísitala, svo sem gert er í

            útreikningi Verðbréfastofunnar hf. frá 12. desember 2002 og verði samt.

             kr. 12.498.000.

   d.         Bréfarf sóknaraðila, þ.e. hlutdeild í H, beri að meta án vaxta á

             kr. 10.668.458, svo sem fjallað var um í bréfi Verðbréfastofunnar hf. frá

             17. janúar 2003.

Þá er krafist málskostnaðar ásamt VSK samtals að fjárhæð 947.134 kr.

 

Dómkröfur varnaraðila eru að úrskurðað verði í fyrsta lagi varðandi ágreining um eignamat búsins:

                      1.1.                      Að endanlegt verðmat tilkvadds matsmanns dánarbúsins frá 12.

                                            desember 2002 á hlutabréfum í L hf., kr. 22.179.000, verði

                                            staðfest.

                      1.2.                      Að verðmat tilkvadds matsmanns dánarbúsins frá 24. september

                                            2002 á framreiknuðu verðmæti fyrirframgreidds arfs til sóknaraðila,

                                            kr. 19.759.665, samtals til þeirra allra, verði staðfest.

Í öðru lagi að úrskurðað verði varðandi ágreining um túlkun erfðaskránna frá 1988 og 1989:

                      2.1.                      Að sá mismunur verðmats þeirra eigna sem arfleifendur ákváðu að

                                            skyldi renna til skylduerfingja sinna samkvæmt 5. gr. erfðaskrár-

                                            innar frá 1989, sbr. ákvæði erfðaskrárinnar frá 1988, arfur að

                                            verðmæti samtals kr. 27.236.570, skuli teljast arfur til varnaraðila

                                            samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga og að hann skuli koma til

                                            viðbótar skylduerfðahlut varnaraðila.

                      2.2.                      Að ákvörðun arfleifenda í erfðaskránum frá 1988 og 1989 um það

                                            hvert tilgreindar eignir þeirra skuli renna, að frátöldum eignum

                                            samkvæmt tl. 2.1. hér að framan, sé ákvörðun arfláta á grundvelli

                                            2. mgr. 36. gr. erfðalaga.

                      2.3.                      Að hafnað verði þeirri túlkun sóknaraðila á efni erfðaskránna frá

                                            1988 og 1989 að arfleifendur hafi farið umfram heimildir sínar til

                                            arfleiðslu samkvæmt 35. gr. erfðalaga með þargreindum

                                            ráðstöfunum.

                      2.4.                      Að skylduerfðahluti erfingjanna allra verði reiknaður þannig út að

                                            teljist vera 1/3 hluti eigna búsins til hvors varnaraðila fyrir sig og 1/9

                                            hluti eigna búsins til hvers sóknaraðila fyrir sig eftir að arfur til

                                            varnaraðila samkvæmt 35. gr. erfðalaga, þ.e. kr. 27.236.570, hefur

                                            verið dreginn frá heildareignum búsins.

Í þriðja lagi að úrskurðað verði varðandi ágreining um fyrirframgreiðslu arfs:  Að kr. 19.759.665 sem fyrirframgreiddur arfur til sóknaraðila komi til frádráttar arfi þeirra.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila in solidum að mati réttarins.

 

Helstu málavextir: Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2002 var dánarbú X, er lést þann [...]  2001, tekið til opinberra skipta.

X hafði setið í óskiptu búi eftir maka sinn, Y, er lést [...] 1999.  Óumdeilt er að aðilar þessa máls, sem eru dætur og sonarsynir hinna látnu, eru einu erfingjar dánarbúsins.

Erfingjar eru sammála um að erfðaskrár hinna látnu frá 16. september 1988 og 6. desember 1989 séu gildar og sammála um hverjar eignir búsins eru.  Þá var bókað á skiptafundi 22. október 2003, sem lögmenn aðila sóttu, að aðilar væru sammála um að skuldir búsins væru ekki aðrar en skiptakostnaður og ekki væri ágreiningur um rétt B og A til að erfa og fá í sinn hlut þær eignir sem þær fengu.

Í fundargerðinni segir hins vegar að erfingja greini á um mat á fyrirframgreiddum arfi til A og til bræðranna. Ákveðið var að aðilar bæru fyrir skiptastjóra rökstuddar kröfur um ágreining þennan.

                Á skiptafundi 31. október 2003 lagði skiptastjóri fram skjalfestar kröfur aðila með rökstuðningi.  Tilraun hans til að sætta aðila bar ekki árangur og var ákveðið að beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. laga nr. 20/1991.

 

Af hálfu bræðranna segir að eignir búsins séu þessar:

 

                Verðbréfa- og peningaeign samtals  kr.                52.190.395

                fyrirfram greiddur arfur til B             kr.                32.000.000

                fyrirfram greiddur arfur til A            kr.                31.125.000

                fyrirfram greiddur arfur til bræðranna, peningar

                framreiknaðir með vísitölu án vaxta kr.                 12.498.000

                                Samtals eignir      kr.                127.813.395

 

                Af hálfu A og B segir að eignir búsins séu þessar:

 

                Verðbréfa- og peningaeign samtals  kr.                52.190.395

                Fyrirfram greiddur arfur til B,

                matsverð miðað við september 2002                kr.                32.000.000

                Fyrirfram greiddur arfur til A

                matsverð miðað við desember 2002                kr.                 22.179.000

                Fyrirfram greiddur arfur til bræðranna þriggja

                samtals miðað við september 2002                kr.                19.759.665

                                Samtals eignir      kr.                126.129.060

 

Í erfðaskrá arfláta frá 16. september 1988 segir í 2. gr.:

 

Við andlát hins langlífara okkar eða hugsanleg skipti eftir hið skammlífara okkar, skal dóttir okkar [A], eða niðjar hennar, ef hún yrði látin, erfa allt hlutafé okkar beggja í [L hf].

Hlutafé það, sem fellur til [A] eða niðja hennar samkvæmt erfðaskrá þessari, erfir hún samkvæmt heimild í 35. gr. erfðalaga og skerðir því ekki lögarf hennar skv. 2. gr. erfðalaga.

 

Í erfðaskrá arfláta frá 6. desember 1989 segir í 2. gr.:

 

Við andlát hins langlífara okkar eða hugsanleg skipti eftir hið skammlífara okkar, skal dóttir okkar [B] erfa sumarbústað okkar í [...] við [Þ] ásamt ... .  Ennfremur skal [B] erfa íbúð okkar við [S], ásamt íbúð í kjallara hússins.

               

                Í 3. gr. sömu erfðaskrár segir:

 

Við andlát hins langlífara okkar eða hugsanleg skipti eftir hið skammlífara okkar, skulu þrjú börn sonar okkar, [Z], þeir [C], [D] og [E], erfa 50% af IV. hæð húseignarinnar [H] hér í borg, sem við hjónin eigum í óskiptri sameign með [Q]. ...

 

                Í 5. gr. sömu erfðaskrár segir:

 

Erfðaskrá okkar frá 27. apríl 1965 skal aðlöguð erfðaskrá þessari eftir því sem við getur átt, en heldur að öðru leyti gildi sínu.  Jafnframt heldur gildi sínu erfðaskrá okkar frá 16. september 1988 að öðru leyti en því, að 2. mgr. 2. gr. þeirrar erfðaskrár breytist þannig, að arfur til skylduerfingja okkar samkvæmt þeirri erfðaskrá og þessari teljum við jafnan, en að því marki sem hann væri það ekki telst hann falla undir heimild okkar til að ráðstafa eignum okkar með erfðaskrá samkvæmt 2. mgr. 36. gr. erfðalaga sbr. 35. gr.

 

Samkvæmt gögnum málsins fékk E fyrirfram upp í arf frá afa sínum og ömmu, X og Y, 3.000.000 kr., þann 9. september 1991.  Og samkvæmt erfðafjárskýrslum, sem dagsettar eru 25. september 1991, fékk B frá foreldrum sínum fyrirframgreiðslu á arfi þær eignir, sem tilgreindar voru að hún fengi í arf í erfðaskránni frá 1989, en A hlutabréf í L hf. „sbr. erfðaskrá hjónanna dags. 6.12.1988, sbr. erfðaskrá dags. 16.9. 1988."  Þá fengu þeir bræður C og D fyrirframgreiðslu á arfi frá afa sínum og ömmu, X og Y, 3.000.000 kr. hvor samkvæmt erfðafjárskýrslum, sem dagsettar eru 9. júní 1992.

Skjalfest er samkomulag, dags. 25. september 1991, þar sem ritað er:

 

Við undirrituð, [X] og [Y] sem höfum í dag afhent dóttur okkar [A] hlutabréfaeign okkar í [L hf.] að nafnverði kr. 5.002.200,-, höfum í dag gert með okkur það samkomulag, að arður, sem greiddur verður af hlutabréfum þessum og/eða jöfnunarhlutabréfum, sem gefin kunna að verða út á grundvelli þeirra, mun [L hf.] greiða okkur, [X] og [Y], óskipt, ævilangt eða þangað til við ákveðum annað.

Samkomulag þetta undirritar [A] ofanrituðu til staðfestingar og skal þessi kvöð skráð á hlutabréfin, enda heldur kvöðin gildi sínu þrátt fyrir hugsanlegt framsal bréfanna til annarra.

 

Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að A]hafi fengið 25. september 1991 sem fyrirfram greiddan arf öll hlutabréf arfláta í L hf.  Verðbréfastofan hf. hafi metið með ákveðnum hætti verðmæti þeirra miðað við árslok 1990 og framreiknað síðan til 4. júlí 2002 með vísitölu byggingarkostnaðar og komist þannig að þeirri niðurstöðu að verðmætið væri u.þ.b. 31.125.000 kr.  Verði það að teljast réttlát niðurstaða.

                Þá er byggt á því að með erfðaskránni frá 6. desember 1989 hafi sóknaraðilum verið ákveðinn arfur, þ.e. helmingur fjórðu hæðar fasteignarinnar H [...]  Eignin hafi verið seld á árinu 1997 án þess að nokkur greiðsla kæmi til sóknaraðila en andvirði eignarhluta sóknaraðila, miðað við forsendur og reikningsaðferð sem þeir viðurkenni, sé 10.668.458 kr.

                Þá er reist á því að með erfðaskránum frá 1988 og 1989 hafi arflátar ráðstafað verðmætum samtals að fjárhæð 73.793.458 kr., en allar eignir búsins hafi numið 127.813.395 kr. að verðmæti eins og áður greindi.  Samkvæmt 35. gr. erfðalaga sé óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna með erfðaskrá þegar niðjar eða maki taka arf.  Í 2. mgr. 36. gr. laganna segi að arfleifandi geti mælt svo fyrir í erfðaskrá, að tiltekinn skylduerfingi hans skuli fá í sinn hlut ákveðna muni úr séreign hans eða hjúskapareign, enda fari verð þessara muna ekki fram úr skylduerfðahluta erfingjans að viðbættum þeim eignarhluta, sem arfleifanda er heimilt að ráðstafa samkvæmt 35. gr.

                Nú sé ljóst að arflátar hafi farið fram úr heimild sinni samkvæmt 35. gr. erfðalaga með erfðaskránum frá 1988 og 1989.  Hluti af þeim arfi sem varnaraðilar, B og A, fengu greitt fyrirfram 1991, teljist því skylduarfur, og beri að taka mið að því við búskiptin, sbr. 1. mgr. 29. gr. erfðalaga.

                Tölulega gera sóknaraðilar svofellda grein fyrir þessu:

 

                Ráðstafað með erfðaskrám árin 1988-1989                kr.                73.793.458

                Heimilt að ráðstafa með bréfarfi 1/3 af kr. 127.813.395                kr.                42.604.465

                Hluti sem telst skylduarfur                kr.                31.152.993

 

                „Sé litið til arfshluta hvers og eins erfingja er bréfarfsheimildin til hvers þeirra kr. 14.201.488. þ.e. 1/3 af kr. 42.604.465.  Það sem vannýtt er af bréfarfi til einhvers erfingja kemur til greiðslu annarra.  Arfur sem þeim var ætlað umfram það hlýtur því að teljast skylduarfur."

 

                Arfshluti A skv. erfðaskránni frá 1988 sé samtals                kr.                31.125.000

                Bréfarfur hennar var 14.201.488 - helmingur vannýttrar            

                heimildar til bréfarfs til sona Z, þ.e. 14.201.488 -

                10.668.458 = 3.533.030 : 2 = 1.766.515 + 14.201.488                kr.                15.968.003

                Skylduarfur A af þessum hluta er því                kr.                15.156.997

 

                Arfshluti B skv. erfðaskránni frá 1989 sé samtals                kr.                32.000.000

                Bréfarfur hennar var 14.201.488 - helmingur vannýttrar

                heimildar til bréfarfs til sona Z, þ.e. 14.201.488 -

                10.668.458 = 3.533.030 : 2 = 1.766.515 + 14.201.488                kr.                15.968.003

                Skylduarfur B af þessum hluta er því                kr.                16.031.997

 

                Arfshluti sona Z skv. erfðaskránni frá 1989        kr.                10.668.458

                Bréfarfur þeirra      kr.                14.201.488

               

„Þar sem bréfarfshluti til sona [Z] var ekki fullnýttur með erfðaskránni kemur bréfarfurinn ekki til frádráttar nú.  Sá hluti bréfarfshluta til sona [Z] sem er vannýttur skiptist milli [A] og [B] (3.533.030 : 2 = 1.766.515)"

 

Af hálfu sóknaraðila er talið að skylt sé að sá hluti skylduarfs A og B, sem greiddur hafi verið fyrirfram - með hlutabréfum til A og með fasteignum til B - komi til frádráttar arfi er nú sé til úthlutunar við opinber skipti.  En jafnframt beri að draga frá úthlutun við opinber skipti fjárhæðir, sem sóknaraðilar fengu greitt fyrirframt - E 9. september 1991 3.000.000 kr. og  C og D 9. júní 1992 samtals 6.000.000 kr.  Heildareign búsins sé 127.813.395 kr.  Skylduarfur þar af sé 2/3 eða 85.208.930 kr. Eftir eigi að skipta 52.190.392 kr. sem þannig beri að skipta:

 

                   a.                   Í hlut B

                                      Skylduarfur 1/3 af kr. 85.208        kr.                   28.402.976

                                      Að frádregnum fyrirfram greiddum

                                      skylduarfi svo sem áður sagði         kr.                   16.031.997

                                                   kr.                   12.370.979

 

                   b.                   Í hlut A

                                      Skylduarfur 1/3 af kr. 85.208        kr.                   28.402.976

                                      Að frádregnum fyrirfram greiddum

                                      skylduarfi svo sem áður sagði         kr.                   15.156.997

                                                   kr.                   13.245.979

 

                   c.                   Í hlut sona Z

                                      Bréfarfur skv erfðaskránni 1989                   kr.                   10.668.458

                                      Skylduarfur 1/3 af kr. 85.208        kr.                   28.402.976

                                                   kr.                   39.071.434

                                      Að frádregnum fyrirfram greiddum

                                      arfi árið 1991 og 1992                   kr.                   12.498.000

                                                   kr.                   26.573.434

 

Af hálfu varnaraðila er byggt á því að Verðbréfastofan hf. hafi lagt nýtt mat á hlutabréf arfláta í L hf. 12. desember 2002 þannig að verðmæti þeirra varð metið á 22.179.000 kr. í stað 31.125.000 kr.  Þetta endurmat hafi verið réttmætt í ljósi kvaðar, sem arflátar lögðu á hlutabréfin samtímis og A, dóttir þeirra, fékk þau sem fyrirframgreiðslu á arfi, en Verðbréfastofunni hf. hefði ekki verið kunnugt um þessa kvöð við fyrra matið.

                Þá er byggt á því að Verðbréfastofan hf. hafi framreiknað verðmæti þeirra fjármuna, sem bræðurnir fengu greidda fyrirfram upp í arf, og nemi það 19.759.665 kr. samtals til þeirra allra, en þessum útreikningum hafi ekki verið hnekkt af hálfu sóknaraðila.

Þá er byggt á því að arfleifendur hafi ákveðið með erfðaskránni frá 1988 að A skyldi erfa og fá í sinn hlut hlutabréf þeirra í L hf.  Jafnframt hafi þau ákveðið að sá arfur skyldi ekki koma til frádráttar skylduarfi hennar.  Einnig hafi arfleifendur ákveðið með erfðaskránni frá 1989 að B skyldi erfa og fá tilteknar fasteignir í sinn hlut eftir þau.  Þá hafi arfleifendur ákveðið með erfðaskránni frá 1989 að bræðurnir skyldu erfa eignarhlut þeirra í tiltekinni fasteign.  En færi svo að hún yrði seld áður en arfur félli, skyldu bræðurnir fá söluverð hennar.

Því er lýst að við gerð erfðaskrárinnar frá 1989 hafi arfleifendur talið arf þennan til erfingja sinna, sem voru allir skylduerfingjar þeirra hjóna, jafn verðmætar eignir.  Það hafi verið skýr vilji afleifendanna að umræddar eignir skyldu falla til þeirra erfingja sem þeir tilgreindu.  Ennfremur hafi það verið ótvíræður vilji þeirra að hugsanlegur mismunur á verðmati eignanna þegar arfur félli eða yrði reiknaður út skyldi vera/teljast arfleiðsla þeirra samkvæmt 35. gr. erfðalaga og mismunurinn skyldi ekki koma til frádráttar skylduerfðahlut þess erfingja sem þann arf fengi í sinn hlut.  Þessi vilji arfleifenda komi skýrt fram í 5. gr. erfðaskrárinnar frá 1989.

Vísað er til þess sem segi í erfðaskránni frá 1988 varðandi arf til A og 5. greinar erfðaskrárinnar frá 1989 um arf til beggja systranna, B og A, þess efnis að reynist verðmat arfs til lögerfingja þeirra hjóna ekki jafnt þegar til verðmats hans komi, beri að líta svo á að það sem á milli ber, mismunurinn, falli undir heimildir þeirra til arfleiðslu á grundvelli ákvæða 35. gr. erfðalaga.  Það sem á milli beri, mismunurinn, nemur samtals 27.236.570 kr. - (32.000.000 -13.471.215 = 18.528.785 + 22.179.000 -13.471.215 = 8.707.785) og sé hann þannig vel innan marka heimilda arfleifenda til arfleiðslu samkvæmt 35. gr. erfðalaga.  Arfleiðsluheimildir arfleifenda samkvæmt 35. gr. erfðalaga nemur 1/3 hluta af kr. 126.129.060,- eða kr. 42.043.020,- miðað við heildarverðmæti búsins samkvæmt matstölum, sem stuðst er við.

Þá er reist á því, að sá mismunur verðmats þeirra eigna sem arfleifendur ákváðu að skyldi renna til skylduerfingja sinna samkvæmt 5. gr. erfðaskrárinnar frá 1989, sbr. ákvæði erfðaskrárinnar frá 1988, eða arfur að verðmæti samtals 27.236.570 kr., skuli teljast arfur til þeirra samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga og að hann skuli koma til viðbótar skylduerfðahluta þeirra.  Reikna beri skylduerfðahluti erfingjanna allra þannig út að hann teljist vera 1/3 hluti heildareignar búsins til varnaraðila, A og B, hvorrar fyrir sig eftir að arfur til þeirra samkvæmt framansögðu, þ.e. 27.236.570 kr., hefur verið dreginn frá.  Þessi túlkun 5. gr. erfðaskrárinnar frá 1989 leiði til þess að sá arfur, sem arfleifendur ákváðu að skyldi renna til bræðranna, geti talist ákvörðun arfleiðenda á grundvelli 2. mgr. 36. gr. erfðalaga en ekki arfur samkvæmt 35. gr. erfðalaga og sá arfur telst því til skylduarfs þeirra enda rennur jafnhá fjárhæð til hvors varnaraðila sem skylduarfur til samræmis.

Nánar tölulega gera varnaraðilar grein fyrir kröfum sínum með eftirfarandi hætti:  Arfur til systranna samkvæmt erfðaskránum á grundvelli 35. gr. erfðalaga, samtals að fjárhæð 27.236.570 kr. er fyrst dreginn frá heildareignum búsins sem eru að matsvirði samtals 126.129.060 kr.  Þá stendur eftir skylduerfðahlutur erfingjanna, 98.892.490 kr., sem fyrst er skipt í þrennt, eða 32.964.163 kr., sem er þá skylduerfðahlutur systranna hvorrar fyrir sig.  Skylduerfðahlutur bræðranna er sama fjárhæð en hver þeirra erfir 1/3 hluta þeirrar fjárhæðar.

Til viðbótar skylduerfðahluta B kemur síðan framangreindur arfshluti hennar, mismunafjárhæðin samkvæmt 5. gr. erfðaskrárinnar frá 1989, að fjárhæð 18.528.785 kr.  Síðan er hinn fyrirframgreiddi arfur að fjárhæð 32.000.000 kr. dreginn frá heildararfi til hennar og nemur þá arfshluti B samtals 19.492.948 kr.  Erfðahlutur A er reiknaður út á samsvarandi hátt, skylduerfðahlutur að fjárhæð 32.964.163 kr. að viðbættum arfshlutanum samkvæmt erfðaskránum, mismunafjárhæðinni, eða 8.707.785 kr., og síðan er hinn fyrirframgreiddi arfur dreginn frá, eða 22.179.000 kr., og þá nemur heildararfur til A 19.492.948 kr.

Erfðahlutur bræðranna er reiknaður út á sama hátt, skylduerfðahlutur nemur 32.964.163 kr., sem innifelur arf þeirra samkvæmt erfðaskránni frá 1989, en frá honum er hinn fyrirframgreiddi arfur að fjárhæð 19.759.665 kr. dreginn og þá nemur heildarerfðahlutur bræðranna þriggja 13.204.498 kr.

 

Niðurstaða:  Deilt er um hvort verðmæti hlutafjár í Lýsi hf. sem A fékk afhent frá foreldrum sínum sem fyrirframgreiðslu á arfi 1991 sé rétt metið 31.125.000 kr., eins og sóknaraðilar halda fram, eða 22.179.000 kr., svo sem haldið er fram af hálfu varnaraðila.  Verðbréfastofan hf. lagði mat á verðmæti hlutafjár þess sem hér um ræðir.  Eins og áður var greint frá var viðkomandi starfsmönnum Verðbréfastofunnar hf. ekki kunnugt um kvöð, sem fylgdi afhendingu hlutabréfanna til A, er þeir mátu bréfin í fyrra sinn að verðmæti 31.125.000 kr., en í seinna matinu er kvöðin tekin með í reikninginn.  Verður því að telja að rétt sé í frumvarpi til úthlutunar úr dánarbúin að miða við seinna matið.

Þá verður að telja rétt að meta í frumvarpi til úthlutunar fyrirframgreiðslu arfs að fjárhæð samtals 9.000.000 kr. til sóknaraðila án vaxta - en framreiknaða með vísitölu 12.498.000 kr. - enda ekki um lánsfé að ræða.  Og fallist er á með sóknaraðilum að fjárhæðin sé réttilega hluti af skylduarfi, enda liggja engin gögn frammi í málinu því til stuðnings að þess fjárhæð geti talist hluti af andvirði húseignarhluta arfláta, H [...], er sóknaraðilum var ánafnað í erfðaskránni 1989 og seld var 16. september 1997. 

                Í erfðaskránni frá 6. desember 1989 segir m.a. að erfðaskrá arfláta frá 16. september 1988 haldi gildi sínu að öðru leyti en því, að arfur til skylduerfingja þeirra, A, samkvæmt þeirri síðarnefndu „teljum við jafnan, en að því marki sem hann væri það ekki telst hann falla undir heimild okkar til að ráðstafa eigum okkar með erfðaskrá samkvæmt 2. mgr. 36. gr. erfðalaga sbr. 35. gr."

                Samkvæmt þessari yfirlýsingu verður að líta svo á að með erfðaskrám arfláta 1988 og 1989 sé ánafnað í einu lagi öllum eignum sem þar eru taldar til þeirra erfingja sem þar er getið, þ.e. eignum að verðmæti 32.000.000 kr. til B, eignum að verðmæti 22.179.000 kr. til A, en hluta í fasteigninni H - sem af Verðbréfastofunni hf. er framreiknaður án vaxta að verðmæti 10.668.458 kr. - saman til bræðranna, C, D og E.

                Í 5. gr. erfðaskrárnar frá 1989 segir berum orðum að arflátar telji sig hafa með henni ráðstafað eignum sínum jafnt í þrjá hluta í samræmi við erfðarétt skylduerfingja - en þrír synir látins sonar arfláta taka saman einn hluta.  Verði þetta ekki jöfn skipti í raun, er vísað til heimildar arfláta samkvæmt 2. mgr. 36. gr. erfðalaga.

Nú hefur með erfðaskrám augljóslega ekki verið náð jöfnum skiptum milli erfingja.  Reynir því á ákvæði 2. mgr. 36. gr. um heimild arfláta til að ráðstafa með erfðaskrá eignum sínum til skylduerfingja sinna á þann hátt sem gert var.

                Skylduarfur B og A er samanlagt 44,44% af heildarverðmætum dánarbúsins og skylduarfur bræðranna samanlagt 22,22% af heildarverðmætum dánarbúsins.  Samanlagður skylduarfur allra - miðað við að heildareignir búsins séu að verðmæti 126.129.060 kr. - eru þá 84.086.040 kr. og því heimilt að ráðstafa með erfðaskrá samkvæmt 35. gr. erfðalaga verðmætum að fjárhæð 42.043.020 kr.  Með erfðaskrá er hins vegar ráðstafað 64.847.548 kr., eða 22.804.528 kr. fram yfir þriðjung af eignum búsins.

Heimild 2. mgr. 36. gr. erfðalaga fyrir arfláta, að ákveða með erfðaskrá að ákveðin eign hans falli í hlut tiltekins skylduerfingja, er frávik frá aðalreglunni í 35. gr. laganna og ákveðnum takmörkunum háð, sem taka verður mið af við bússkiptin eins og sóknaraðilar benda réttilega á.

Samkvæmt framangreindu verður talið rétt að arfur skv. erfðaskránum 1988 og 1989 takmarkist við heimildir til ráðstöfunar arfs með bréfarfi á grundvelli 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962.  Þá ber í frumvarpi til úthlutunar úr dánarbúinu að taka mið af því að hafi einhver erfingi fengið fyrirfram umfram heimilað hlutfall 35. gr., telst sú umframfjárhæð fyrirframgreiddur skylduarfur til viðkomandi.

Eftir atvikum er rétt að aðilar beri sinn kostnað af málinu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Í frumvarpi til úthlutunar úr dánarbúi X ber að meta verðmæti hlutafjár í L hf., sem varnaraðili, A, fékk afhent frá foreldrum sínum sem fyrirframgreiðslu á arfi 1991, að fjárhæð 22.179.000 kr.

Rétt er í frumvarpinu að framreikna 9.000.000 kr., sem sóknaraðilar, C, D og E, fengu fyrirfram upp í arf á árunum 1991 og 1992, með vísitölu að fjárhæð 12.498.000 kr., en ekki reikna með vöxtum.  Fjárhæðin verði talin hluti af skylduarfi en ekki hluti af andvirði eignar arfláta, H [...].

Rétt er í frumvarpinu að taka mið af því að arfur samkvæmt erfðaskrám arfláta frá 1988 og 1989 takmarkast við 1/3 hluta eigna arfláta.  En hafi einhver erfingja fengið umfram teljist sú fjárhæð fyrirframgreiddur skylduarfur til viðkomandi.

Málskostnaður fellur niður.