Hæstiréttur íslands

Mál nr. 74/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. maí 2008.

 

Nr. 74/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Arunas Bartkus og

(Björn Jóhannesson hrl.)

Rolandas Jancevicius

(Björgvin Jónsson hrl)

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur.

A og R voru ákærðir fyrir kynferðisbrot með því að hafa í sameiningu og með ofbeldi báðir reynt að hafa samfarir við X og neytt hana til að hafa við þá munnmök. Var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi beitt X kynferðislegu ofbeldi, enda hefði ekkert haldbært komið fram í málinu sem veikti framburð X eða drægi úr trúverðugleika hennar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess hve hrottalegur verknaður ákærðu var, þess mikla sálartjóns sem hann olli X og fullkomins skeytingarleysis ákærðu fyrir líðan X, kynfrelsi og æru. Var refsingin ákveðin í ljósi þess og að um samverknað ákærðu var að ræða, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þótti refsing beggja ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Þá voru ákærðu dæmdir til að greiða sameiginlega miskabætur til X að fjárhæð 1.200.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem staðfestingar á sakfellingu ákærðu, þyngingar á refsingu og að þeir verði dæmdir sameiginlega til að greiða X 4.000.000 krónur með vöxtum eins og í ákæru greinir.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og gæsluvarðhald þeirra dregið frá refsingunni. Þá krefjast þeir þess að bótakröfu X verði vísað frá dómi, en til vara að krafan verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu og refsingu. Frá henni skal draga gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt frá 12. nóvember 2007. Þá verður einnig með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða hans að X eigi rétt til miskabóta úr hendi ákærðu. Er fjárhæð þeirra ákveðin 1.200.000 krónur, sem ákærðu verður gert að greiða sameiginlega með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu, Arunas Bartkus og Rolandas Jancevicius. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald þeirra frá 12. nóvember 2007.

Ákærðu greiði X sameiginlega 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2007 til 12. janúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði hvor fyrir sitt leyti málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Björns Jóhannessonar og Björgvins Jónssonar, 435.750 krónur til hvors. Ákærðu greiði sameiginlega annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 237.258 krónur, þar með talda þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2008.

Ríkissaksóknari höfðaði málið með ákæru útgefinni 19. desember 2007 á hendur ákærðu, Arunas Bartkus, kt. [...] og Rolandas Jancevicius, kt. [...], litháískum ríkisborgurum, báðum til heimilis að [...], Reykjavík, til refsingar fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 61/2007, með því að hafa, aðfaranótt laugar­dagsins 10. nóvember 2007, í húsasundi við Laugaveg eða Vitastíg í Reykjavík, í sameiningu og með ofbeldi reynt báðir að hafa samræði við X, fædda 1962 og neytt hana til að hafa við þá munnmök, en við háttsemina hlaut X rispur, roða og bólgu á kynfærum og fjölmargar rispur og marbletti á baki, rass­kinnum, brjóstum og útlimum.

X, [...], Reykjavík, krefst þess að ákærðu verði jafnframt dæmdir til að greiða henni óskipt 4.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2007 til 12. janúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu krefjast sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins og frávísunar á nefndri bóta­kröfu, en að því frágengnu verði þeir dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa og bætur lækkaðar verulega frá því sem krafist er.

I.

Aðfaranótt laugardagsins 10. nóvember 2007 kl. 05:30 leitaði X til Neyðarmóttöku Landspítalans (LSH) vegna nauðgunar, sem átt hefði sér stað milli kl. 03 og 04 um nóttina. Í skýrslu Arnars Haukssonar kvensjúkdómalæknis, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir að X hafi verið verulega ölvuð og í uppnámi. Hún hafi grátið, liðið afar illa og átt erfitt með að rifja upp heildstæða atburðarás, en að sögn X hafi hún hitt tvo útlendinga á veitingastaðnum M við Laugaveg. Mennirnir hafi boðið henni drykk, þá langað að fara og gera eitthvað og hún boðið þeim að koma með sér að hitta vini hennar. Mennirnir hafi fyrst viljað koma við annars staðar, þau farið inn í eitthvert húsasund og leitað skjóls fyrir rigningu. Þar hafi annar mannanna byrjað að reyna við X og hún beðið hann að slaka á, en félagi hans þá kippt undan henni fótum og hún fallið á malar­borna jörðina. Í framhaldi hafi mennirnir dregið niður um hana gallabuxur, flett upp bol hennar og peysu, klipið og kreist brjóst hennar og líkama, sest ofan á andlit hennar, báðir troðið getnaðarlim í munn hennar og annar þeirra jafnvel fengið sáðlát. Mennirnir hafi einnig troðið fingrum inn í leg­göng hennar og hlegið á meðan, auk þess sem annar þeirra hafi reynt að taka hana í rassinn. X hafi streist á móti og beðist vægðar, en hún hefði óttast um líf sitt. Aðspurð kvað hún mennina einnig hafa átt samræði við hana um leggöng og káfað á kynfærum hennar, rassi og brjóstum.

Í skýrslunni er getið um mikinn sand í aftan­verðum brjósta­­­haldara og sand í hári X, eyrum og við nára og leggangaop, en fyrir dómi bar Arnar að sér hefði fundist þetta „sláandi“. Af áverka­lýsingu má ráða að X hafi verið með tvo smáa marbletti á hægra brjósti og aðra tvo innanvert á vinstri upp­hand­­legg, greinilega eftir fingur­góma. Þá hafi hún verið með 3x2 sm. mar­blett á vinstra læri, tvær þverliggjandi rispur á vinstri sköflungi og tvær rispur og byrjandi mar­­blett á hægri fótlegg. Bak hennar ofan­­vert hafi verið alsett hrufli og ótal rispum og á utan­verðum rasskinnum hafi sést skýrar rispur og senni­lega mar. Við skoðun á kyn­færum hafi greinst roði og bólga við ytra leggangaop og í það minnsta þrjár rispur í opinu, en leg­göng hafi verið afar þurr. Nefndir áverkar voru færðir inn á líkamsteikningar og ljós­myndaðir og eru þau gögn meðal framlagðra skjala. Segir í skýrslunni að áverkarnir sam­rýmist vel frásögn X og fyrir dómi áréttaði Arnar að áverkar á kynfærum ættu sér örugglega ytri orsakir, svo sem eftir fingur eða getnaðarlim. Arnari voru sýndar ljósmyndir af baki X og stað­­festi að brjósta­haldari hefði verið úr lagi genginn og hægri hlíri þvældur í hliðar­­stykki flíkurinnar.

Fram kemur í skýrslunni að X sé öryrki, 171 sm. á hæð og hafi vegið 114 kíló. Rennblautar gallabuxur hennar hafi verið teknar til varðveislu og sýni tekin til sæðis­- og kynsjúkdóma­leitar, jafnframt því sem X hafi kl. 07 gefið blóð- og þvag­sýni til alkóhólgreiningar. Reyndist alkó­­hól í blóði 2,09 ‰ og 1,94 ‰ í þvagi.

Hrefna Hugósdóttir hjúkrunarfræðingur var Arnari til aðstoðar umrædda nótt. Fyrir dómi bar hún að X hefði grátið við komu á Neyðarmóttökuna, verið í miklu upp­námi og „tætingsleg“, með úfið hár og mikla möl og lauf í blautum fatnaði sínum. Hrefna staðfesti að X hefði verið ölvuð og bar að við endursögn atburða­ hefði hún farið úr einu í annað, ekki verið viss um nákvæma tímaröð, en lýst hverju atviki fyrir sig og verið mjög föst í sjálfri brotalýsingunni. Hrefna las upp úr eigin skýrslu frásögn X og samrýmist hún lýsingu Arnars í öllum meginatriðum. Hrefna sinnti einnig endur­­komum X 14. og 20. nóvember og 21. desember og ritaði um þær skýrslur. Er nánar vikið að þeim og vætti Hrefnu í XI. kafla.   

II.

Í málinu liggur fyrir að X fór frá vettvangi heim til sonar síns, A, að [...] og að um kl. 04:30 komu þangað dóttir hennar, B og C, sambýliskona A, en þær höfðu verið að vinna á M og vissu einhver deili á ætluðum árásar­mönnum. Af lýsingu þeirra og myndum úr eftirlits­kerfi veitinga­­staðarins beindist grunur að tveimur karl­mönnum, einum hávöxnum, stutt­­­klipptum og með há kollvik, íklæddum dökkum fötum og öðrum lágvaxnari, íklæddum hvítum skóm, í hvítri úlpu og með ljósa húfu á höfði, en þeir sjást eiga samskipti við X laust eftir kl. 03 og yfirgefa staðinn um kl. 03:12. Er óumdeilt að ákærði Arunas svarar til lýsingar á þeim hávaxna og ákærði Rolandas til þess lág­vaxnari. X, sem var íklædd galla­buxum, lopapeysu með rennilás og með hvítan trefil um hálsinn, sést fara út af staðnum um kl. 03:29.

III.

Sunnudaginn 11. nóvember fór X á lögreglustöð og kærði hina ókunnu árásar­­­­menn fyrir nauðgun í húsasundi á mótum Vitastígs og Laugavegar 64. X kvaðst hafa verið að drekka bjór heima hjá sér aðfaranótt laugardagsins og ákveðið að kíkja til dóttur sinnar á M. Þar hefði hún hitt kunningjakonu sína og þær tekið tal saman. Síðar um nóttina hefði hún spjallað við kunningja systur sinnar og verið ein við barinn, rétt fyrir lokun staðarins, þegar tveir útlendingar, annar um 185-190 sm. á hæð og hinn um 170 sm., hefðu komið til hennar og sá lægri (ákærði Rolandas) farið að ræða við hana á ensku. X kvaðst hvorki muna efni samtalsins né af hverju hún hefði farið með þeim að útidyrum staðarins, en einhverra hluta vegna hefðu þau síðan gengið saman upp Laugaveginn og hún og ákærði Rolandas jafnvel rætt um að fara á annan veitingastað. Þegar þau hefðu komið að húsasundinu hefði sá hávaxnari (ákærði Arunas) veifað, eins og til merkis um að þau gætu stytt sér leið gegnum sundið, X farið þar inn með ákærðu og framhjá ljósleitri fólksbifreið, en við hlið hennar hefði verið lítið skot. Í sömu andrá hefði ákærði Arunas hrint henni með bakið ofan á vélarhlíf bifreiðarinnar, hann og meðákærði flissað og rætt saman á erlendu tungu­­máli, en í kjölfarið hefði ákærði Arunas löðrungað hana, tekið í hár hennar og sveigt höfuð hennar aftur og annar hvor ákærðu dregið gallabuxur hennar niður á ökkla. Í framhaldi hefðu þeir reynt að snúa henni við, en X streist á móti og fallið með bakið niður á möl við hlið bifreiðarinnar. Þar hefði annar ákærðu rifið upp um hana peysu, bol og brjósta­haldara og ákærði Arunas reynt að þröngva getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar, en þau verið afar þurr og honum því ekki orðið ágengt, en X fundið mikinn sárs­auka á meðan. Ákærði Rolandas hefði síðan reynt að hafa samræði við hana um leggöng, en á meðan hefði ákærði Arunas haldið höfði hennar í föstu taki og reynt að þröngva lim sínum upp í munn hennar. Í kjölfar þessa hefði ákærði sest klof­vega ofan á X, slegið limnum utan í andlit hennar og hlegið á meðan hún hefði neyðst til að opna munninn og hann troðið limnum upp í hana. Ákærði Rolandas hefði svo sest með afturendann upp að andliti hennar, hún reynt að snúa höfðinu frá, en ákærði þá snúið sér við, rekið liminn upp í munn hennar og sagt við hana á ensku að ef hún yrði samvinnuþýð fengi hún að fara eftir um þrjár mínútur. Kvaðst X halda að ákærði Rolandas hefði síðan fellt sæði í munn hennar, en á meðan hefði höfði hennar verið haldið föstum tökum. Hún kvaðst hafa verið skelfingu lostin og reynt að leiða hugann frá téðum atburðum, en að lokum hefðu ákærðu sleppt henni og gengið hlæjandi á brott, en X farið rakleiðis heim til sonar síns, fegin að sleppa lifandi úr klóm ákærðu. Dóttir hennar hefði komið þangað skömmu síðar og ekið henni á Neyðarmóttökuna.

IV.

Ákærðu voru handteknir kl. 15:25 á sunnudeginum og færðir á lög­reglustöð, þar sem Sveinn Magnússon læknir framkvæmdi líkams­skoðun. Í vott­orðum Sveins segir að ákærðu hafi verið samvinnuþýðir, en þar er ákærða Arunas lýst sem vöðvastæltum manni, sem hafi mælst 187 sm. á hæð og vegið 79 kíló. Hann hafi verið með hrufl vinstra megin á efri vör, ferskt hrufl á hægra handarbaki og á framan­verðum vinstri sköflung. Ákærða Rolandas er lýst með sama hætti, en hann hafi mælst 170 sm. á hæð og vegið 70 kíló. Við skoðun hafi sést tvö fersk hruflsár á ofanverðum hægri únlið. Ákærðu var dregið blóð til DNA rann­sókna og sýni tekin til mótefna­mælinga og kyn­sjúk­dómagreiningar. Samkvæmt niður­­stöðum sýklafræði- og veiru­fræði­­deilda LSH, sem Arthur Löve sérfræðingur í veirufræði staðfesti fyrir dómi, reyndist ákærði Arunas með klamydíu og ákærði Rolandas sýktur af lifrar­bólgu C veirunni. Er nánar vikið að vætti sérfræðingsins í XI. kafla.

Ákærðu voru yfirheyrðir að morgni mánudagsins 12. nóvember eftir dvöl í fanga­klefa. Ákærði Rolandas kvaðst hafa kynnst X á M umrædda nótt, rétt fyrir lokun staðarins, ákærði spurt hvort hún væri fús til kynmaka við hann og með­ákærða Arunas, hún verið því samþykk, leyft ákærða að káfa á risastórum brjóstum hennar við barinn, jafnt innan sem utan klæða og hún virst lítt klár í kollinum og auð­trúa þegar þeir hefðu sagt að brjóst hennar væru falleg. Tók ákærði fram að þau hefðu öll verið mjög drukkin. Í framhaldi hefðu þau farið út af staðnum, gengið austur Lauga­veg og upp Vitastíg, fundið þar afdrep í bifreiðskýli við fjölbýlishús og X haft munnmök við ákærða í skjóli fyrir rigningunni þá um nóttina. Ákærði lýsti atburðum nánar á þann veg að X hefði lagst með bakið ofan á vélarhlíf grárrar bifreiðar og dregið buxur sínar niður að hnjám, en ákærði síðan klætt hana úr þeim til að geta glennt fætur hennar betur sundur. X hefði losað um tölu á buxum ákærða, hann því næst klætt sig úr þeim, en þegar á reyndi hefði hann ekki ratað í leggöng X og því ekki getað haft sam­ræði við hana. Hann hefði því spurt X hvort hún vildi ekki totta getnaðar­lim hans í staðinn, hún samþykkt það og ákærði fellt sæði í munn hennar. Á meðan á þessu stóð hefði X runnið nokkrum sinnum ofan af vélar­hlífinni, skollið með rassinn á malarborna jörðina, eflaust rispast við það og ákærðu þurft að hjálpa henni á fætur, en að sögn ákærða hefði X kropið á hnjánum þegar hún hefði tottað hann. Ákærði gat þess að X hefði reynt að aðstoða með­­ákærða við að fá holdris, en gengið erfiðlega, „hún reynt að snerta getnaðar­lim hans með höndunum og gefa honum munnmök“. Með­ákærði hefði í eitt skipti náð stinningu, en hún ekki varað nógu lengi „til að geta stundað kynmök“ við X. Sjálfur hefði ákærði klætt sig í buxur að lokinni full­nægingu, hann og með­ákærði gengið á brott og farið á öldurhús í mið­bænum.   

Ákærði Arunas kvaðst hvorki kannast við að hafa nauðgað X umrædda nótt né heldur að hafa verið á vettvangi slíks brots. Hann sagðist hafa farið út að borða að kvöldi þáliðins föstu­dags ásamt meðákærða Rolandas, þeir drukkið bjór og ákærði verið fremur ölvaður þegar þeir hefðu farið þaðan eftir miðnætti á skemmtistaðinn Vegas. Þar hefðu ákærðu fengið sér bjór og spilað biljarð fram að lokun staðarins, en þá farið heim í leigubifreið, án viðkomu á öðrum veitingastöðum, að því er ákærða minnti. Ákærða var í framhaldi sýnd mynd úr eftir­lits­kerfi M, bar þá kennsl á sig og með­ákærða, en sagðist muna óljóst eftir veru sinni þar og bar fyrir sig ölvun. Ákærða var loks kynnt að meðákærði hefði greint frá því að þeir hefðu báðir átt kynferðis­­legt sam­neyti við X í húsasundi skammt frá veitingastaðnum og sagðist ákærði ekki muna eftir slíku.

Ákærðu voru samdægurs hnepptir í gæsluvarðhald, sem síðan hefur verið fram­lengt, síðast með dómum Hæstaréttar 21. desember 2007, en samkvæmt þeim skulu ákærðu sæta haldi þar til dómur fellur í málinu, þó eigi lengur en til 31. janúar 2008.

V.

B og C gáfu skýrslur 12. nóvember og A 13. nóvember. Konunum bar saman um að ákærðu hefðu verið dónalegir og klúrir við þær á barnum, sem og að þær hefðu séð mennina ræða við X skömmu fyrir lokun M. Þá bar þeim saman um að X hefði ætlað að bíða þeirra og verða samferða heim, hún farið út á meðan þær lykju uppgjöri og verið horfin einhverju síðar. A bar að X hefði verið í miklu uppnámi þegar hún hefði knúið dyra á heimili hans, föt hennar öll úr lagi gengin, með laufblöðum, möl og sandi í og bolur og brjóstahaldari teygðir og tosaðir. X hefði sagt að tveir útlendingar hefðu elt hana frá M, dregið hana inn í húsa­­sund og nauðgað henni. Vitnin komu fyrir dóm og er framburður þeirra rakinn í XI. kafla.

VI.

X gaf aðra skýrslu 14. nóvember, sem tekin var upp á hljóð- og mynd­diska og liggja þeir frammi í málinu. Hún kvaðst muna eftir að hafa hitt ákærðu á M umrædda nótt og hafa rætt lítillega við þá „og svo, eins og ég sagði í hinni skýrslu­­tökunni, þá mundi ég ekki til þess að hafa farið með þeim út ... og svo hérna veit ég núna að ég gerði það ekki, þess vegna hef ég ekki munað það ...“ X kvaðst í framhaldi ekki muna eftir að hafa farið út af veitingastaðnum, vita nú að hún hefði verið beðin að bíða fyrir utan á meðan dóttir hennar og kærasta sonarins lykju upp­gjöri, en þess í stað hljóti hún að hafa ákveðið að ganga heim og hitt ákærðu einhvers staðar á leiðinni. X nefndi Laugaveg í því sambandi og sagðist ráma í að hafa talað við ákærða Rolandas. Hún kvaðst síðan muna að ákærði Arunas hefði hent eða ýtt henni með bakið ofan á vélarhlíf fólksbifreiðar, sem lagt hefði verið á milli hús­veggja við gangstétt nálægt Laugavegi. X kvaðst og muna eftir svörtu veggjakroti á öðrum veggnum og ráma í hvítar hurðar á hinum, en við hlið bílsins hefði verið lítið pláss og undirlag malar­borið. Henni hefði fundist hún vera afkróuð milli nefndra hús­veggja og sagðist halda að um yfirbyggt rými væri að ræða. Nánar aðspurð um ætlaða árás greindi X frá því að hún hefði orðið hissa við framferði ákærða Arunas, spurt hvaða fíflagangur þetta væri, ákærðu þá hlegið og rætt saman á erlendu tungumáli, þar sem hún hefði legið á vélarhlífinni. Í fram­­haldi hefði ákærði Arunas löðrungað hana, dregið buxur hennar niður á kálfa, lyft upp peysu hennar og brjóstahaldara, klipið hana í brjóstin, ítrekað reynt að snúa henni yfir á magann og X óttast að hann hyggðist eiga við hana enda­þarms­mök. Við þær aðfarir hefði hún fallið með bakið í mölina og ákærði Arunas reynt að hafa við hana samræði um leggöng, en það ekki tekist þar sem leggöngin hefðu verið afar þurr. X kvað ákærða Rolandas einnig hafa reynt að nauðga henni í leg­göng, en á meðan hefði ákærði Arunas verið við hlið hennar, slegið getnaðarlim í andlit hennar og reynt að reka liminn í munn hennar. Að sögn X hefði hún reynt að snúa höfðinu frá, en þá hefði ákærði Rolandas sest öfugur ofan á andlit hennar, því næst snúið sér við, annar hvor ákærðu haldið höfði hennar föstu, ákærði Rolandas þröngvað lim sínum upp í munn hennar og sagt að ef hún yrði almennileg fengi hún fljótlega að sleppa. X kvaðst halda að ákærði hefði fellt sæði í munn hennar. Við svo búið hefðu ákærðu farið á brott og X haldið rakleitt heim til sonar síns. Hún tók fram að ákærðu hefðu hlegið meira og minna meðan á öllu þessu stóð, eins og um einhvers konar skemmti­atriði væri að ræða.

X fór samdægurs í vettvangsgöngu með lögreglu, vísaði á malar­borið húsa­sund á mótum Vitastígs og Laugavegar 64 og kvaðst viss að um vett­vang væri að ræða. Liggja fyrir ljósmyndir af þeim stað, sem sýna útbreitt veggja­krot og hvítar hurðar.

X áréttaði fyrri vitnisburð við skýrslugjöf 5. desember, taldi ofan­greint húsa­­sund vera réttan brota­vett­vang, sagði fráleitt að hún hefði samþykkt að eiga kyn­­mök við tvo ókunna útlendinga á þeim stað og kvaðst myndu hafa boðið ákærðu heim til sín í næsta nágrenni, hefði hún á annað borð viljað slá sér upp með þeim.

Meðal gagna málsins eru niðurstöður rannsókna á lífsýnum frá X og á fatnaði hennar. Í ljós komu sautján blettir á bol hennar og ullarpeysu, sem innihéldu sáð­frumur, not­hæfar til DNA kennslagreiningar. Slík greining hefur ekki farið fram.

VII.

Ákærði Rolandas hélt fast við fyrri framburð við yfirheyrslu 16. nóvember og sagði X hafa samþykkt að eiga kynmök við báða ákærðu í samtali á M. Hann kvað upptökur úr eftirlitskerfi staðarins myndu sýna og staðreyna að ákærðu hefðu snert brjóst hennar. Þeir hefðu síðan farið út við lokun og verið að reykja þegar X hefði komið út, hún áréttað vilja til samfara við ákærðu, þau því næst gengið saman upp Lauga­veg og farið inn í bílskýli í nálægri hliðargötu. Ákærði stað­festi fyrri atvika­­lýsingu í skýlinu, kvað ekkert hafa gerst þar með óvilja X og sagði hana hafa vísað lögreglu á rangan vettvang. Í framhaldi benti ákærði á yfirbyggt bílskýli við Vita­­stíg 15, en ljósmyndir af þeim vettvangi sýna 5x6 metra malarlagt skýli, alsett veggj­akroti og með brúnni hurð innst í öðru horni. Fram kom í máli ákærða að X hefði sagst eiga mann, hún hafa þurft að útskýra rispur á baki eftir að hafa riðið öðrum og því hefði hún lagt fram greinda kæru. Hún hefði engu síður samþykkt kynlíf með ákærðu og látið það í ljós á ensku, eitthvað á þessa leið: „Gott, allt í lagi.“

Ákærði Arunas hélt einnig fast við fyrri framburð, tók fram að hann hefði verið mjög ölvaður umrædda nótt og því myndi hann ekki eftir að hafa verið á M. Hann kvaðst hins vegar muna eftir að hafa farið inn á Vegas og síðan að hafa verið kominn heim. Í framhaldi kvaðst ákærði ekki muna eftir kynferðislegu sam­neyti við X og sagðist hvorki geta staðfest né rengt framburð með­­­ákærða og X í því sambandi. Ákærði kvaðst vera alkóhólisti og eiga það til að fá „blackout“.

Ákærðu voru yfirheyrðir að nýju 12. desember, en við það tækifæri mótmæltu þeir framlagðri bótakröfu X. 

VIII.

Í málinu liggja fyrir greinargóðar ljósmyndir og lýsing aðstæðna við vettvang atburða samkvæmt frásögn X annars vegar og ákærða Rolandas hins vegar. Í báðum tilvikum er um óupplýst rými að ræða. Fram kemur í skýrslum lögreglu að X hafi ekki treyst sér til að fullyrða um vettvang við skoðun 10. nóvember, en eftir að hafa skoðað nokkur port og innkeyrslur 14. nóvember hafi hún verið ­ákveðin í afstöðu sinni. Þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan hafðist ekki uppi á sjónar­vottum og umrædd bifreið hefur ekki fundist. Samkvæmt lauslegri mælingu eru um 250 metrar frá M að sögðum vettvangi X við horn Laugavegar 64 og Vitastígs, en þar, allt að 100 metrum ofan Laugavegs, nokkurn veginn miðja vegu milli Grettisgötu og Njálsgötu, er sagður vettvangur ákærða Rolandas.

Loks ber að geta vottorðs frá Veðurstofu Íslands, en samkvæmt því var súld í Reykjavík kl. 03 aðfaranótt laugardagsins 10. nóvember, hægur vindur og þriggja stiga hiti. Veður hafði lítið breyst kl. 06, en þá er skráð rigning og súld.        

IX.

Ákærðu neituðu sök fyrir dómi. Ákærði Arunas kvaðst ekki muna eftir að hafa verið í eða við M umrædda nótt, þótt hann þrætti ekki fyrir það og sagðist ekki minnast þess að hann eða meðákærði Rolandas hefðu átt kynferðislegt samneyti við X. Ákærði tók fram að hann hefði verið mjög drukkinn um nóttina, sagði sem fyrr að hann væri alkóhólisti og ætti vanda til að fá „blackout“ og missa minni um tíma ef hann drykki of mikið. Að sögn ákærða hefði hann byrjað að drekka um kl. 17 daginn áður, farið út að borða um kvöldið og þaðan á Vegas í kringum miðnætti, ásamt meðákærða. Hann kvaðst muna eftir að þeir hefðu spilað biljarð og drukkið bjór, en næst myndi hann svo eftir sér heima í [...]. Ákærði skýrði áverka sína þannig að hann hefði nýlega meitt sig í byggingar­vinnu.

Ákærði Rolandas kvaðst hafa farið á M ásamt meðákærða Arunas, þeir hitt X og sest hjá henni við borð nálægt barnum. Ákærði hefði fært kynlíf í tal, haft orð á því hvort X hefði áhuga á slíku með ákærðu og hún samþykkt að eiga kyn­mök við þá báða. Þau hefðu öll verið mjög drukkin og að leika sér, X látið þá þreifa á brjóstum hennar og haft gaman af. Ákærði kvað þau ekki hafa rætt nánar um stað eða stund kynmaka, en við lokun staðarins hefðu hann og meðákærði farið út, X birst nokkrum mínútum síðar, þau gengið þrjú saman upp Laugaveg og X káfað á kynfærum ákærða. Aðspurður hvort þeir hefðu beðið eftir X í þær 17 mínútur, sem liðu milli þess að ákærðu og hún fóru út af staðnum, sagði ákærði það líklegast, nefndi að þeir félagar hefðu verið að reykja fyrir utan, sagðist ekki viss hvort þeir hefðu beðið komu X, en hafi kynlíf verið ákveðið, þá voru þeir að bíða.

Að sögn ákærða hefðu hann og X byrjað að kyssast á horni Lauga­vegar og Vitastígs, þaðan gengið upp Vitastíg og inn í bifreiðaskýlið við hús nr. 15, en þar hefði ákærði lagt X varlega ofan á vélarhlíf bifreiðar, þau haldið áfram að kyssast, hún losað um buxur þeirra beggja, dregið sínar buxur niður að hnjám og ákærði hjálpað henni úr þeim, svo að hann gæti glennt fætur hennar sundur. Í framhaldi hefði ákærði reynt að hafa samræði við X um leggöng, hún þá runnið ofan af vélarhlífinni og á jörðina, ákærðu hjálpast að við að reisa hana upp að nýju, en X runnið öðru sinni, á rassinn og svo bakið og ákærði þá haldið samfara­tilraunum áfram á jörðinni. Hann kvaðst á engum tíma­punkti hafa náð að setja getnaðarliminn inn í hana og lítið hafa reynt, en X hefði verið stór og mikil um sig og feitur maginn komið í veg fyrir að hann fyndi leggöngin. Þess í stað hefði hann beðið X að hafa við hann munnmök, hún fallist á það, kropið á ber hné niður í mölina, sogið liminn og hann fellt sæði í munn hennar. Meðákærði hefði staðið hjá á meðan, X reynt að gera eitthvað fyrir hann og fróað honum með annarri hendi, en með­ákærði ekki náð stinningu sökum ölvunar. Sagði ákærði X síðan hafa kært þá til lögreglu, af því hún hefði ekki fengið það sem henni hefði verið lofað, þ.e. samræði við báða ákærðu og hún því verið ósátt. Jafnframt sagðist ákærði halda að X hefði eygt fjárvon með kæru sinni. Ákærði kvaðst ekki hafa séð X taka lim meðákærða í munn sér og sagði tilvitnaðar bókanir í skýrslu sinni 12. nóvember vera misvísandi eða rangar að þessu leyti. X lygi til um annað, sem og að meðákærði hefði reynt að eiga við hana samræði. Ákærði þrætti fyrir að hafa beitt X ofbeldi, sagði lýsta áverka á bol hennar og útlimum stafa ýmist af falli niður í mölina eða því að ákærðu þurftu að bisast við að reisa hana á fætur, sagðist ekki vita um tilurð áverka á kyn­færum, en nefndi að þeir gætu annað hvort hafa komið þegar hann hefði reynt að finna leg­göng hennar og farið með fingur að legganga­opi eða verið af völdum kyn­maka við óskyldan aðila síðar um nóttina.

Ákærði kvaðst halda að samneyti í bíl­skýlinu hefði staðið yfir í 35-40 mínútur og benti á að ef X hefði öskrað hefði einhver komið á staðinn. Nánar aðspurður um samskipti við X á M sagði ákærði að hún hefði sýnt af sér þá ókurteisi að láta brjóst sín lafa ber út fyrir fötin og ofan á borð og því hefði ekki verið neitt mál að snerta þau. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að hann væri með lifrarbólgusmit. Hann játti rétt að hann hefði leynt fyrir lögreglu sakaferli sínum í Litháen, kvaðst hafa logið til um þetta til að líta betur út og framburður hans teldist sann­­færandi, en svo hefði lögreglan ekkert hlustað á hann hvort eð er. Ákærði þrætti fyrir að hafa verið með klúrt orðbragð við starfsstúlkur á M, benti á að þær tengdust X og stæðu því algjörlega með henni í málinu. 

X.

X bar fyrir dómi að hún hefði farið á M aðfaranótt laugardagsins 10. nóvember, eftir að hafa setið heima og drukkið 4-5 stóra bjóra. Þar hefðu B og C gefið henni einn eða tvo stóra bjóra, hún spjallað við kunningjakonu sína og einnig skólabróður systur sinnar, áður en hún hefði hitt ákærðu við barinn og átt einhver orðaskipti við þá. Hún hefði þá verið „vel í því“. X kvaðst ekki minnast þess að ákærðu hefðu komið við brjóst hennar og taldi slíkt fráleitt. Eftir lokun staðarins hefði hún verið áfram inni á meðan B og C hefðu tekið til og svo myndi hún eftir að hafa farið út og verið á leið heim til sín. Það næsta sem hún myndi væri að hafa „verið komin í þessa aðstöðu“, afkróuð við ein­hverja innkeyrslu og ákærði Arunas hrint henni ofan á vélarhlíf bifreiðar. Henni hefði brugðið við þetta, reynt að reisa sig upp, spurt hvað væri í gangi og hvort ákærðu fyndist þetta fyndið eða sniðugt.

X var farin að gráta þegar hér var komið frásögn hennar. Í framhaldi skýrði hún frá því að ákærði Arunas hefði löðrungað hana á vélarhlífinni og reynt að rífa niður um hana buxur, en hún streist á móti og reynt að ýta honum frá. Ákærði hefði haft betur, dregið buxurnar niður, lyft upp peysu hennar og bol og klipið hana í brjóstin, eins og hann vildi meiða hana. Þegar hún hefði maldað í móinn og reynt að lag­færa fatnaðinn hefði hann hlegið og löðrungað hana. Því næst hefði ákærði reynt að þröngva getnaðarlim inn í leggöng hennar, notað til þess hendur og lim, hún fundið sárs­auka í kynfærum, en náð að klemma fætur þannig saman að ákærði hefði hætt þeim tilraunum. X kvaðst ekki vita hvað ákærði Rolandas hefði haft fyrir stafni á meðan, en í kjölfarið hefði ákærði Arunas reynt að snúa X yfir á magann, hún þá óttast endaþarmsmök og streist á móti, en við það hefði hún hafnað á bakinu í mölinni fyrir neðan bifreiðina. Ákærði Rolandas hefði þá reynt að nauðga henni um leg­göng, hún fundið fyrir því með sama hætti og fyrr, en ákærða ekki tekist ætlunar­verk sitt. Á meðan hefði ákærði Arunas haldið um háls hennar og höfuð, slegið lim sínum í andlit hennar og reynt, án árangurs, að troða limnum upp í munn hennar. Ákærðu hefðu báðir hlegið og rætt saman á erlendu tungumáli, ákærði Rolandas því næst hætt við að reyna samræði, snúið sér við, með buxurnar á hælunum og sest öfugur með rassinn ofan á andlit hennar. X hefði reynt að snúa sér undan, en ávallt skorist á baki vegna malar­undir­lagsins. Á meðan hefðu ákærðu hlegið, ákærði Rolandas snúið sér aftur við, sett hnén ofan á axlir hennar og þröngvað lim sínum upp í munn hennar, en ákærði Arunas aðstoðað með því að halda höfði hennar föstu. Ákærði Rolandas hefði haft á orði að ef hún væri kyrr eða stillt í nokkrar mínútur fengi hún að fara. X kvaðst halda að ákærða hefði orðið sáðfall í munn hennar, en sagðist ekki viss, því allt hefði þetta verið eins og í hryllingssögu. Hún sagði ákærðu hafa hætt í kjölfarið, þeir hlegið sem fyrr og gengið á brott, en X farið rakleitt heim til sonar síns. Hún kvaðst ekki vita hve lengi þetta hefði staðið yfir og ekki minnast þess að hafa kallað á hjálp, sagðist hafa verið rosalega hrædd, reynt að líta ekki framan í ákærðu og leiða hugann að einhverju öðru. Hún hefði þó beðið þá að hætta, en þeir bara hlegið að henni.

Borin var undir X fyrri frásögn, ýmist á Neyðarmóttöku eða hjá lögreglu, um að hún hefði orðið samferða ákærðu út af M, gengið með þeim upp Lauga­veg, rætt við ákærða Rolandas, ætlað að bjóða þeim heim til vinafólks og ákærði Arunas vísað henni og meðákærða inn í húsasund. Í framhaldi bar X að hún hefði í öllum tilvikum verið að geta í eyður og draga ályktanir um það sem hlyti að hafa gerst, en í raun myndi hún ekki eftir greindum atburðum. X kvaðst hafa sagt lög­reglu hið sama við skýrslu­gjöf 12. nóvember, en sá vitnisburður ekki skilað sér á blað. X vildi ekki full­yrða að hún færi með rétt mál varðandi ætlaðan brotavettvang, en sagðist fremur viss í sinni sök. Öðru máli gegndi um atburði í húsa­sundinu eða bíl­skýlinu, en X sagðist muna þá alla „eins og vídeó­mynd“ í höfði sínu og tók fram að við árás ákærðu hefði runnið af henni „eins og að fara í kalda sturtu“. X var spurð hvort mögulegt væri að hún ruglaðist að einhverju leyti á ætluðum þætti ákærðu hvors um sig og sagði það útilokað. Í fram­haldi var X kynnt misræmi í frásögn um það hvort ákærði Arunas hefði fyrst reynt að nauðga henni um leggöng og svo reynt að snúa henni yfir á magann, eða öfugt. Hún kvaðst ekki viss um þetta, enda hefði allt verið svo hræðilegt. Síðan þá hefði henni liðið ömurlega, átt erfitt með svefn, fengið lyf í því sambandi og hún leitað sál­fræði­aðstoðar. Hún hefði lengi vel ekki þorað að fara út fyrir hússins dyr, ekki viljað vera ein heima og orðið tauga­veikluð ef hringt var dyra­bjöllu eða í síma. Þá hefði henni verið brugðið vegna lifrarbólgu­sýkingar ákærða Rolandas og hún orðið hrædd við smit.

XI.

B bar að ákærðu hefðu komið á M á undan X, B afgreitt þá á barnum og þeir verið örir, afar dónalegir og klúrir í orðbragði. Ákærði Rolandas hefði til að mynda sagt við hana eitthvað á þessa leið: „I like you, you give me money and I will fuck you“. Þá hefði hann spurt C hvort hún ætti kærasta og því næst spurt hvort hún vildi ekki eignast tvo til viðbótar. B bar að þegar X hefði komið á staðinn hefði hún fengið sér bjór, rætt við gamla vinkonu og síðar sest að spjalli við ákærðu í sófa við barinn. B hefði heyrt þá biðja X að fara eitthvert með þeim, en hún neitað og einnig sagt eitthvað á þessa leið: „I´m not going to fuck you guys“. B kvaðst ekki vita um ölvunar­ástand ákærðu, en sagði X hafa verið „vel í glasi“ við lokun staðarins um kl. 03, en þá hefði B beðið ákærðu að yfirgefa staðinn og jafnframt bannað móður sinni að fara með þeim út að reykja, eins og þeir hefðu talað um. Hún kvað X hafa verið sátta við þá ákvörðun og hafa nefnt að hún ætlaði að bíða eftir B og C og verða þeim samferða. Hún hefði því setið nokkra stund inni á staðnum og ekkert minnst á ákærðu, en síðan orðið að fara út og bíða þar á meðan fjár­hags­legt uppgjör færi fram. Þar hefði X staðið skamma stund, en verið farin þegar B hefði gáð næst. B og C hefðu síðan lokið uppgjöri um kl. 04-04:15 og gengið heim til C á [...]. X hefði verið í „sjokki“, buxur hennar blautar, gróður í hári hennar og trefli og bolur og brjóstahaldari snúnir. A hefði sagt að X hefði orðið fyrir árás tveggja manna í einhverju porti og B stungið upp á því að hún færi á Neyðar­móttökuna. Þar hefði X sagt henni að tveir menn hefðu nauðgað henni.

C bar að X hefði komið á M einhvern tíma eftir miðnætti, ákærðu verið þar fyrir og C afgreitt þá á barnum. Þeir hefðu ekki verið sjáanlega ölvaðir, en örir og einkar dónalegir, spurt hve mikið kostaði að sofa hjá C og einnig spurt um framboð og verðlag á vændiskonum. C hefði því ekki litist á þá. Hún kvað X hafa fengið sér í það minnsta einn bjór og ekki virst áberandi ölvuð. Hún hefði rætt við ákærðu í sófa við barinn, en C ekki heyrt orða­skil. X hefði síðan ætlað út við lokun staðarins um kl. 03, en þær B stöðvað hana, því ákærðu hefðu verið á leið út á sama tíma. X hefði hvorki tekið þessu illa né haft orð á því að hún vildi fara burt með ákærðu, hún því setið áfram inni meðan á tiltekt stóð og ýmist sagst ætla að verða samferða stúlkunum eða fara ein heim. X hefði síðan orðið að fara út vegna fjármálauppgörs og C næst séð hana heima á [...] milli kl. 04:15 og 04:30. X hefði verið í „sjokki“, lítið getað tjáð sig, en þó sagt að „þeir“ hefðu ráðist á hana. C hefði strax skilið það svo að um ákærðu væri að ræða og að þeir hefðu nauðgað henni. „Útgangurinn“ á X hefði borið þess merki, hún verið „drulluskítug“, trefill hennar og hár full af laufi, peysa og bolur togaðir til og brjóstahaldari „á hliðinni“.   

A bar að X hefði ítrekað hringt dyrabjöllu heim hjá honum og verið hágrátandi, illa til fara og föt hennar rifin og tætt. Hann hefði spurt hvað komið hefði fyrir og X sagst hafa verið á bar og þaðan farið áleiðis heim þegar tveir menn hefðu ráðist á hana og nauðgað henni í húsasundi. B og C hefðu komið skömmu síðar og þá skýrst um hverja væri að ræða. A kvað móður sína hafa verið undir áhrifum áfengis, en alls ekki ofurölvi. Borin voru undir A ummæli hans hjá lögreglu, höfð eftir X, að tveir útlendingar hefðu „elt hana frá M“ og sagðist hann hafa skilið X svo að viðkomandi hefðu annað hvort elt hana eða beðið eftir henni.

Arthur Löve bar að ákærði Rolandas væri sýktur af lifrarbólgu C veirunni og að hún væri í öllum líkamsvessum. Hins vegar liðu yfirleitt áratugir áður en sýkingar­ein­kenni kæmu fram, en í verstu tilfellum leiddi veiran til skorpulifrar eða lifrarkrabba­meins og eftir atvikum dauða. Á hinn bóginn hefði veiran í fjölda tilvika alls engin áhrif á heilsufar viðkomandi og taldi Arthur ekkert benda til þess að ákærða hefði mátt vera kunnugt um sýkinguna. Hann kvað algengustu smitleiðina vera gegnum blóð­blöndun, svo sem hjá sprautusjúklingum, en fólk gæti einnig smitast með sæði, ef það kemst í opin sár. Ella væri afar lítil eða engin smithætta. Að sögn Arthurs líða ávallt 2-6 mánuðir frá ætluðu smiti og þar til unnt er að kveða upp úr um hvort slíkt hafi átt sér stað. Komi í ljós að X hafi smitast séu um 25% líkur á því að veiran valdi henni skaða. Aðspurður um klamydíusmit ákærða Arunas bar Arthur að baktería af þessum toga hefði yfirleitt lítil eða engin áhrif á heilsu hins smitaða og gæti viðkomandi því borið hana mánuðum eða árum saman án þess að vita af því.

Hrefna Hugósdóttir staðfesti fyrir dómi þrjár skýrslur vegna endurkomu X á Neyðarmóttökuna, 14. og 20. nóvember og 21. desember. Við þá fyrstu hefði X verið mjög illa á sig komin, sýnt mikil andleg og líkamleg kreppuviðbrögð, fundist hún skítug, sagst lítið geta sofið, finna fyrir ógleði og hafa enga matarlyst. Við það tæki­­­færi hefðu verið teknar myndir af nýju mari á brjóstum og kviði X. Sex dögum síðar hefði staðan verið lítt breytt, X litið illa út, sagst enn vera aum í hálsi, baki og öxlum og afar kvíðin vegna óvissu um sjúkdóms­smit af völdum ákærðu. Við síðustu greiningu hefði staðan verið eilítið skárri, sektarkennd minni, en X sem fyrr afar döpur og kvíðin og hún kvartað um höfuðverki og mikla vöðva­bólgu í herðum. Hún þyrði vart út úr húsi, endurlifði atburði, ætti erfitt með svefn og vaknaði oft um nætur.

Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur staðfesti fyrir dómi álitsgerð um líðan X og afleiðingar ætlaðra kynferðisbrota. Segir þar að X hafi verið vísað til Rögnu um miðjan nóvember, þær ræðst við í síma, X vart treyst sér í viðtal og ekki mætt í tvö slík, en 19. desember sagst vera að niðurlotum komin, hrædd og kvíðin vegna komandi jóla. Þær hefðu mælt sér mót og X komið í fjögur viðtöl, 7., 8., 9. og 11. janúar. Ragna kvað X bera skýr og afdráttarlaus einkenni áfallastreituröskunar í sam­­ræmi við viðurkennda staðla, sem komið hefðu fram í nefndum viðtölum og sál­fræði­­prófunum og lýstu sér í miklum ótta og hjálpar­leysi, miklum svefntruflunum, endur­­upplifun atburða og hliðrun, þ.e. X reyndi að koma sér hjá og flýja aðstæður, sem gætu leitt hugann að sömu atburðum. Ragna kvað X einatt hafa verið sjálfri sér samkvæm í svörun og taldi einsætt að hún væri ekki að spinna upp atburði og umrætt sjúkdómsástand. Hún kvað eldri þunglyndis­einkenni X ekki hafa áhrif á mat sitt, en þunglyndi gæti magnast við hið nýja áfall og vissulega gert X erfiðara með að vinna úr því. Ragna kvað X eiga afar langt í land með að ná bata af nefndu sjúkdómsástandi, gat þess að X eygði nú von og ætti að geta náð sér að fullu, en til þess þyrfti langvarandi viðtalsmeðferð, mun fleiri en þau tíu viðtöl, sem Neyðarmóttakan tryggði fórnarlömbum kynferðis­afbrota.            

XII.

Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sam­bandi ber að meta skynsamlegan vafa til hagsbóta fyrir ákærðu, bæði um atriði er varða sekt þeirra og önnur, sem telja má þeim í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr., en sönnunar­­mat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunar­­­gögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.

Niðurstaða í málinu veltur á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist lögfull sönnun um að ákærðu hafi umrætt sinn, í húsasundi við Lauga­veg eða Vitastíg, í sameiningu og með ofbeldi reynt að hafa samræði við X og neytt hana til að hafa við þá munnmök, allt með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Komi til sak­fellingar varðar háttsemin eigi minna en árs fangelsi og eftir atvikum allt að 16 ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Í ákæru er brotavettvangur sagður við Lauga­veg eða Vitastíg. Ákærða Rolandas og X ber ekki saman um þetta atriði. Telur X að brotið hafi verið gegn henni í húsa­sundi á mótum Vitastígs og Laugavegar 64, en ákærði hefur lýst kynmökum, með samþykki þeirra beggja, í bifreiðaskýli að Vitastíg 15. Hitt eru þau sammála um, að atburðir áttu sér stað á og við hlið fólksbifreiðar, sem lagt hafði verið á malarbornu undir­­lagi milli húsveggja, alsettra veggjakroti og koma að því leyti báðir staðir til greina, en hvorugur þeirra er upplýstur að næturlagi. Með hliðsjón af því að X var fyrir dómi ekki fullviss um réttan stað og hafði áður borið að hún héldi að um yfir­byggt rými væri að ræða ber, að því marki sem máli kann að skipta, að miða við tilgreindan vettvang ákærða, sbr. 47. gr. laga um meðferð opin­berra mála.

Ákærði Arunas hefur frá upphafi borið fyrir sig minnisleysi eða „blackout“ sökum ölvunar og sagst hvorki muna eftir að hafa hitt X á M né heldur að hafa átt annað samneyti við hana umrædda nótt. Hann kveðst síðast muna eftir sér á Vegas og eftir það að hafa verið kominn til síns heima. Er ekkert fram komið í málinu, sem hnekkir þeim framburði. Ber því að leggja hann til grundvallar, en sakar­neitun ákærða skoðast í sama ljósi. Dómur um sekt hans eða sýknu veltur því stórum á fram­burði meðákærða Rolandas, vætti X og annarra vitna og mati á trú­verðug­leika þeirra og öðrum sönnunargögnum málsins.

Í málinu er óumdeilt að ákærðu og X tóku tal saman á M skömmu fyrir lokun og að þau hafi setið við borð nálægt barnum. Meðal fram­lagðra gagna er mynd­diskur með ótímasettum ­upptökum úr eftirlitsmyndavéla­kerfi staðarins, sem sýna stúkað and­dyri og hluta veitinga­salar þar fyrir innan, en barinn sést ekki á mynd. Umrætt borð er til vinstri þegar komið er inn úr anddyrinu og er ávallt í hægri jaðri mynd­­reits. Þá liggja fyrir 52 ­ljósmyndir úr sama kerfi, sem búið er að tíma­­­­­setja. Á upp­tökunum sést X koma inn á Marlo á undan ákærðu. Dóms­vætti B og C um hið gagn­stæða fær því ekki staðist, en B hafði áður borið hjá lögreglu að hún vissi ekki hvert þeirra hefði komið fyrst. Hefur slíkt misræmi ekki áhrif á sönnunarstöðu ákæruvaldsins, enda um aukaatriði máls að ræða, sem lýtur ekki að sakarefni. Á sömu upptökum sést að X er að reykja í anddyrinu þegar ákærðu koma á staðinn, að þeir ganga í átt að barnum og hverfa úr mynd og að X heldur í sömu átt skömmu síðar og hverfur sjónum. Einhverju síðar sjást ákærðu fara tvívegis fram í anddyri, báðir með bjórglas í hendi í seinna skiptið, en í sama mund gengur X að borðinu, íklædd lopapeysu og með trefil um hálsinn, sest þar, að því er ætla verður og hverfur úr myndreit. Af ljós­myndum má ráða að klukkan hafi þá verið 03:01. Í framhaldi má sjá ákærða Rolandas setjast hjá X, fara síðan aftur fram í anddyri og snúa til baka í fylgd ákærða Arunas, um kl. 03:05 samkvæmt ljósmyndum. Ákærði Rolandas settist á móti X og ákærði Arunas við hlið hennar, en sést síðan aðeins í fætur hans og X er ekki á mynd. Í kjölfar þessa sést ákærði Rolandas marg­­sinnis beygja sig yfir borðið til X og tvívegis standa á fætur og teygja sig ankannalega yfir borðið með útréttar hendur, sem fara í hvarf. Í seinna skiptið, um kl. 03:11 af ljósmyndum að dæma, kemur B að borðinu og strax í kjöl­farið stendur ákærði Rolandas á fætur og fer út af staðnum, kl. 03:12:00. X fylgir honum eftir fram í anddyri, með bjórglas í hendi og ákærði Arunas einnig, en X snýr til baka, kl. 03:12:07 að því er ætla má og mætir ákærða Arunas í anddyrinu, áður en hann fer út kl. 03:12:11. X sést horfa á eftir honum í nokkrar sekúndur, en hverfur því næst að barnum. Henni bregður síðan nokkrum sinnum fyrir, milli þess sem aðrir gestir eru að tínast burt og kl. 03:29 sést þegar B fylgir henni til dyra. X stendur fyrir utan skamma stund og án nokkurs skyn­samlegs vafa sést ákærða Rolandas þá bregða fyrir á mynd.

Með hliðsjón af því, sem nú síðast er rakið, framburði ákærða Rolandas og 47. gr. laga um meðferð opinberra mála, ber að leggja til grundvallar, sem staðreynd í málinu, að ákærðu og X hafi gengið saman frá M, austur Laugaveg, þá um það bil 250 metra leið að horni Laugavegar 64 og Vitastígs og þaðan að bifreiðaskýlinu við Vita­stíg 15, sem stendur sömu megin götunnar. Er sú niðurstaða samrýmanleg dóm­s­­­vætti X, en sökum ölvunar virðist hún ekki muna atburði frá því að hún fór út af staðnum og þar til ákærði Arunas á að hafa hrint henni á vélarhlíf bifreiðar í skýlinu. Þá ber að leggja til grund­vallar þann framburð ákærða Rolandas, að hann hafi þreifað á brjóstum X inni á staðnum, en fyrr­nefnd mynd­skeið úr eftirlitskerfinu styðja slíka ályktun og hefur X ekki getað borið gegn því, þótt hún telji framburð hans frá­leitan. Ber ákærðu að njóta vafans, sem af þessu kann að leiða, sbr. 47. gr. laga um meðferð opinberra mála, enda telst hann skynsamlegur samkvæmt framan­sögðu.

Öðru máli gegnir um þann framburð ákærða Rolandas að hann hafi ámálgað við X hvort hún væri reiðubúin að eiga samræði við báða ákærðu og hún lýst sig fúsa til þess, jafnvel með orðunum „gott, allt í lagi“ upp á ensku. Ber hér að líta til þess vitnis­­burðar B fyrir dómi, sem dómurinn metur áreiðanlegan, að hún hafi heyrt móður sína hafna kynferðislegu samneyti við ákærðu, þess að þeir voru X blá­­­ókunnugir, þess að ákærðu fóru út af staðnum 17 mínútum á undan X, þess að hún sést aldrei á myndupptökum kíkja fram í anddyri eða sýna önnur merki um að vilja fara út og loks þess að B og C hafa borið, með samhljóða og trú­verðugum hætti fyrir dómi, að X hafi rætt um að verða þeim samferða heim, ekki minnst einu orði á ákærðu og ekki farið út fyrr en stúlkurnar báðu hana að bíða eftir þeim fyrir utan á meðan uppgjör færi fram. Er því ekkert fram komið í málinu, sem styður greindan framburð ákærða Rolandas. Þegar við þetta bætist sú skýring ákærða fyrir dómi, að líklegast sé að hann og meðákærði hafi beðið X fyrir utan M og að ef áður hafi verið ákveðið að hún vildi eiga samræði við þá báða, þá hafi þeir verið að bíða eftir henni, er það álit dómsins að téður framburður sé í senn ótrú­verðugur og hald­­laus. Því til samræmis er sönnunargildi hans hafnað. Að þessu gættu verður lagt til grund­vallar, að frá sjónarhóli X hafi tilviljun ein ráðið því að hún hitti ákærðu fyrir utan veitinga­­staðinn, gekk með þeim upp Laugaveg og þaðan að bifreiðaskýlinu við Vitastíg 15.             

Kemur þá til kasta dómenda að vega og meta trúverðugleika framburðar ákærða Rolandas annars vegar og X hins vegar um atburði í skýlinu. Breytir engu í því sambandi þótt ákærðu hafi, annar eða báðir, komið við brjóst X á M, hún kysst ákærða Rolandas á leið frá veitingastaðnum og jafnvel þreifað á kyn­færum hans áður en þau komu að skýlinu, svo sem ákærði heldur fram, enda ólíku saman að jafna, ætluðu og til þess að gera saklausu atlæti ölvaðrar manneskju og þeim fádæma ofbeldisverknaði, sem X hefur lýst.

Framburður ákærða Rolandas fyrir dómi um kynferðislegt samneyti við X sam­­rýmist í stórum dráttum frásögn hans hjá lögreglu, þótt vissulega sé þar greinar­munur, sér í lagi varðandi tilraun til samræðis, en ákærði gat þess fyrst fyrir dómi að hann hefði einnig reynt samræði við X á malarbornu undirlagi skýlisins. Lýsing hans þykir engu síður með ólíkindum, ekki síst sá framburður, að X hafi verið fús til samræðis á vélarhlíf bifreiðar og síðan á mölinni við hlið hennar, og að þegar sam­ræði hafi ekki tekist hafi X viljað gefa honum munnmök og veitt honum full­nægingu, krjúpandi á berum hnjánum í mölinni, án þess að hljóta minnstu áverka á hnjám, svo sem þó verður að ætla, ef framburður ákærða á við rök að styðjast. Þá bendir framburður ákærða um að hann og meðákærði hafi þurft að reisa X á fætur í miðjum klíðum fráleitt til þess að hún hafi haft vilja eða getu til kynmaka um nóttina og ekki nýtur framburðar ákærða um hvaða unað hún átti að hljóta af samneyti við hann. Á hinn bóginn hélt ákærði því fram fyrir dómi að X hefði sárnað að fá ekki notið samræðis við báða ákærðu við umræddar kringumstæður, nánast eins og um van­­efndir samnings væri að ræða, og því hefði hún kært þá til lögreglu. Auk þessa teldi hann X hafa eygt fjárvon með haldlausri kæru. Þegar við þetta bætist mis­vísandi framburður ákærða um þátt meðákærða Arunas og sú staðreynd, að þeir skildu X eftir í bílskýlinu án þess að huga að líðan hennar og ástandi, telur dómurinn tormerki á því að festa trúnað á framburð ákærða Rolandas fyrir dómi.

X hefur verið stöðug í vitnisburði sínum um atvik í bifreiðaskýlinu, þótt lýsing atburðarásar hafi ekki ávallt verið með nákvæmlega sama hætti. Hún hefur þó einatt borið á sama veg, hjá lögreglu og fyrir dómi, um óvænta árás ákærða Arunas, hvernig hann hafi hrint henni á vélar­hlíf bifreiðar og löðrungað hana. Þá hefur hún við ítarlega skýrslugjöf hjá lögreglu 14. nóvember og fyrir dómi borið með svipuðum hætti um að ákærði Arunas hafi í fram­haldi dregið niður buxur hennar, svipt upp peysu og bol og klipið hana í brjóstin, reynt að snúa henni yfir á magann, eins og hann hyggðist eiga við hana enda­þarms­mök og reynt að nauðga henni um leggöng, annað hvort á húddi bifreiðarinnar eða á malarborinni jörð við hlið hennar. Í kjölfar þessa hafi ákærði Rolandas einnig gert tilraun til nauðgunar um leggöng, á meðan ákærði Arunas hafi reynt að troða getnaðarlim sínum í munn hennar, en ákærði Rolandas því næst gert hið sama og líklega fellt sæði í munn hennar. Téður vitnisburður sam­rýmist í stórum dráttum skýrslu X hjá lögreglu 11. nóvember og fær einnig stoð í frásögn hennar á Neyðarmóttökunni. Þótt greinarmunur kunni að vera á lýsingu hennar þar má ekki gleyma hinu, að X var ekki aðeins ölvuð umrædda nótt heldur einnig í gríðar­­­­legu uppnámi, svo sem gögn málsins bera með sér. Er því vart við því að búast að frásögn hennar hafi verið skipuleg eða að hún hafi getað greint frá atburðarás í smá­atriðum. Að þessu gættu er það mat dómenda að vitnisburður X fyrir dómi sé í senn áreiðanlegur og án ofhermis, ekki síst um atriði sem horfa ákærðu beinlínis til hags­bóta, svo sem um það hvort ákærða Arunas hafi tekist að þröngva lim sínum í munn hennar og hvort ákærða Rolandas hafi orðið sáð­fall. Þá fær vætti X stoð í samhljóða vitnisburði B, C og A um hörmu­lega líðan hennar strax í kjölfar atburða og um ytra útlit, vætti Arnars Haukssonar læknis og Hrefnu Hugós­dóttur hjúkrunar­­fræðings á Neyðarmóttökunni um sömu atriði, áverkalýsingu Arnars, því áliti hans fyrir dómi að téðir áverkar samrýmist frá­sögn X og loks vætti Rögnu Ragnars­dóttur sál­fræðings um að X beri ótvíræð og sterk einkenni áfalla­streitu­röskunar. Bendir vitnisburður þeirra eindregið til þess að X hafi orðið fyrir alvar­legu áfalli og að umrætt ástand megi rekja til samskipta hennar við ákærðu.

  Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt telja dómendur hafið yfir skyn­sam­legan vafa, að ákærðu hafi beitt X kyn­ferðis­legu ofbeldi, eins og hún hefur lýst því fyrir dómi og að leggja skuli þá lýsingu til grund­vallar, enda ekkert haldbært fram komið í málinu, sem veikir vitnisburð X eða dregur úr trúverðugleika hennar. Breytir því engu sakar­neitun ákærða Rolandas og fram­burður hans fyrir dómi um þátt með­ákærða Arunas. Er þannig sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í ákæru, þó þannig að dæma ber ákærða Arunas fyrir tilraun til þröngvaðra munnmaka samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningar­­laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga og heimfæra ber á sama veg tilraun hans og meðákærða Rolandas til að nauðga X um leggöng.

XIII.

Ákærði Arunas er tæpra 32 ára og ákærði Rolandas 28 ára. Þeir hafa ekki áður orðið uppvísir að refsiverðri háttsemi hér á landi. Samkvæmt gögnum frá Interpol í Vilnius, sem ákærðu hafa staðfest fyrir dómi, hlaut ákærði Arunas 5 ára fangelsisdóm í Litháen fyrir fjár­kúgun með dómi 5. júlí 2002, sem hann segir að hafi síðar verið lækkaður í 4½ árs fangelsi. Þá hafi hann 14. nóvember 2004 verið dæmdur í árs fangelsi fyrir þjófnað. Ákærði kveðst hafa afplánað hluta refsinganna, en hvorki liggja fyrir gögn um reynslulausn né skilyrði hennar. Með sama hætti hefur ákærði Rolandas viðurkennt að hafa 23. nóvember 1999 hlotið tveggja ára fangelsi fyrir þjófnað og 7. nóvember 2002 fjögurra ára fangelsi fyrir rán og hann afplánað þær refsingar í heima­landi sínu.

Við ákvörðun refsinga verður litið til aldurs ákærðu og greinds sakaferils. Þá ber að horfa til þess hve hrotta­legur verknaður ákærðu var, bæði í ljósi kringumstæðna og þeirra svívirði­legu og niðurlægjandi aðferða, sem þeir beittu gagnvart konu, sem þeir þekktu lítt og áttu ekkert sökótt við, þess gríðarlega sálartjóns, sem þeir ollu X samkvæmt áreiðanlegu vætti sálfræðings og fullkomins skeytingar­leysis fyrir líðan hennar, kynfrelsi og æru, þegar þeir veittust að henni í bílskýlinu, not­­­færðu sér og hlógu að bjargarleysi hennar, auðsýndu einbeittan ásetning til að koma fram vilja sínum og skirrðust einskis, þrátt fyrir beiðni hennar um miskunn, en við svo búið hurfu ákærðu á braut, eins og ekkert hefði í skorist. Hefur annar þeirra síðan borið við minnisleysi um atburði og hinn með auvirðilegum hætti vænt X um falska kæru, sem rót eigi að rekja til fjárgræðgi og vonbrigða með samfund við ákærðu í umræddu rými, um miðja nótt í þriggja stiga hita, og að auki gefið í skyn að hún hafi hlotið áverka á kynfærum við samræði með óskyldum aðila, í kjölfar samskipta við ákærðu. Að gættum öllum þessum atriðum er það ekki aðeins álit dómenda, að ákærðu hafi unnið til þungrar refsingar og eigi sér engar málsbætur heldur einnig, að þyngja beri refsingu þeirra sérstaklega í ljósi samverknaðar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningar­­laga. Þykir refsing ákærðu hvors um sig þannig ákveðin fangelsi í fimm ár. Samkvæmt 76. gr. sömu laga þykir rétt að til frádráttar refsingunum komi óslitið gæslu­varðhald ákærðu frá 12. nóvember 2007 til uppsögu þessa dóms.

XIV.

Með hliðsjón af sakfellingu ákærðu og skírskotun til 2. mgr. 172. gr. laga um með­­ferð opinberra mála ber að dæma um bótakröfu X, en hún krefst 4.000.000 króna miskabóta á grundvelli 26. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Er einsætt að X á rétt til slíkra bóta samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Við mat á fjárhæð þeirra verður litið til álitsgerðar Rögnu Ragnarsdóttur sálfræðings og vitnisburðar fyrir dómi um að X uppfylli greinilega öll megineinkenni áfallastreituröskunar, sem tengja megi við háttsemi ákærðu, sem og vættis Hrefnu Hugós­dóttur hjúkrunarfræðings og skýrslna hennar um endurkomur X á Neyðar­­mót­tökuna, en umrædd sönnunargögn, sem dómurinn telur áreiðanleg, sam­rýmast lýsingu X og tveggja barna hennar fyrir dómi og taka af öll tvímæli um miklar og alvarlegar afleiðingar af kyn­ferðisbrotum ákærðu á sálarlíf og geðheilsu X, sem hún á enn langt í land með að leysa úr. Sú viðbára ákærðu að fyrri þunglyndissjúkdómur X eigi að horfa til lækkunar miskabóta á ekki við rök að styðjast, sbr. hæstaréttardómur 2. maí 2002 í máli réttarins nr. 52/2002, enda ber hún ekki ábyrgð á þeim áhrifum, sem sá sjúkdómur kann að hafa á núverandi ástand hennar og batahorfur. Þegar við þetta bætist að ákærðu stóðu saman að atlögu gegn kynfrelsi X, sem er til þess fallið að auka enn á ótta hennar, niðurlægingu og van­líðan, þykja miska­bætur hæfilega ákveðnar 2.000.000 krónur. Ber sú krafa vexti samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2007 til 12. janúar 2008, en dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðslu­dags.

XV.

Samkvæmt 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar. Þannig greiði þeir óskipt 85.600 krónur vegna læknisverka Sveins Magnússonar, þ.e. að frádregnum 41.800 krónum vegna verka tengdum þriðja aðila, sem ekki sætir ákæru í málinu. Enn fremur, 7.000 krónur vegna áðurnefnds vott­orðs Veðurstofu Íslands, 27.564 krónur vegna rannsókna á sýnum frá X, 40.000 krónur vegna álitsgerðar nefnds sálfræðings og loks þóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðs­­­dómslögmanns, réttargæslumanns X á rannsóknar- og dómstigi máls, sem þykir hæfilega ákveðin 369.516 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, eða samtals krónur 529.680. Þá greiði ákærði Arunas þóknun Ingimars Ingimarssonar héraðs­dóms­­lög­manns vegna verjanda­­starfa á rannsóknarstigi, sem þykir hæfilega ákveðin 336.648 krónur að með­töldum virðisaukaskatti. Sömuleiðis greiði ákærði Rolandas einn 415.307 króna þóknun Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns vegna sam­bæri­legra starfa. Loks greiði ákærðu hvor fyrir sig málsvarnarlaun skipaðra verjenda hér fyrir dómi, sem ákveðin eru í dómsorði að teknu tilliti til aksturs­kostnaðar og virðis­auka­skatts.

Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari sótti málið af hálfu ákæru­valdsins.

Héraðsdómararnir Jónas Jóhannsson, Sigríður Ingvarsdóttir og Símon Sigvaldason kváðu upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærðu, Arunas Bartkus og Rolandas Jancevicius, sæti fangelsi fimm ár. Frá refsingum þeirra dregst óslitið gæsluvarðhald frá 12. nóvember 2007.

Ákærðu greiði X óskipt 2.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2007 til 12. janúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði Arunas greiði 336.648 króna þóknun Ingimars Ingimarssonar héraðs­dóms­lög­manns vegna verjanda­­starfa á rannsóknarstigi og 600.588 króna málsvarnarlaun Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, verjanda síns fyrir dómi

Ákærði Rolandas greiði 415.307 króna þóknun Bjarna Haukssonar héraðsdóms­lög­manns vegna verjanda­­starfa á rannsóknarstigi og 600.588 króna málsvarnarlaun Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda síns fyrir dómi.

Annan sakarkostnað, krónur 529.680, greiði ákærðu óskipt, þar með talda 369.516 króna réttargæsluþóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns.