Hæstiréttur íslands
Mál nr. 20/2006
Lykilorð
- Eignaspjöll
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 6.apríl 2006. |
|
Nr. 20/2006. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Þorsteini Hafþórssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Eignaspjöll. Skilorð.
Þ var ákærður fyrir eignaspjöll með því að hafa í eftirlitsferð sem öryggisvörður borið eld að lyftara með þeim afleiðingum að ökumannssæti og klæðning meðfram sætinu brann. Á upptöku úr öryggismyndavél, sem var meðal gagna málsins, sást Þ standa við lyftarann og leggja eitthvað í sæti hans. Stuttu síðar sást eldur inni í húsi lyftarans og Þ aka á brott. Að þessu gættu og því að rannsókn lögreglu hafði leitt í ljós að eldurinn var af manna völdum þótti hafið yfir allan skynsamlegan vafa að Þ hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Þ hefði gegnt trúnaðarstarfi við öryggiseftirlit er hann framdi brotið og að nokkur hætta stafaði af því. Á hinn bóginn varð ekki mikið tjón af brotinu og slökkti hann sjálfur eldinn, auk þess sem hann hafði ekki áður sætt refsingu. Að þessu virtu og að gættu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 var Þ dæmdur í tveggja mánaða fangelsi en fullnustu refsingar frestað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Í máli þessu eru ákærða gefin að sök eignaspjöll með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 18. desember 2004 í eftirlitsferð sem öryggisvörður borið eld að lyftara í eigu Rúmfatalagersins ehf. með þeim afleiðingum að ökumannssæti og klæðning meðfram sætinu brann. Eins og greinir í héraðsdómi eru myndir úr öryggismyndavél meðal gagna málsins.
Ekki verður fjallað um efnisþætti málsins fyrir Hæstarétti, fyrr en tekin hefur verið afstaða til þess hvort annmarkar séu á meðferð þess í héraði sem valdið geta ómerkingu héraðsdómsins. Verður því fyrst fjallað um ómerkingarkröfu ákærða. Kröfu þessa reisir ákærði á því að héraðsdómari hafi ekki skoðað frumgerð upptöku úr öryggismyndavél heldur aðeins eftirgerð hennar þar sem búið hafi verið að auðkenna athafnir ákærða. Sú eftirgerð hefði ekki að geyma myndskeiðið í fullri lengd. Einnig hefði verið rétt að sérfræðingar rannsökuðu myndskeiðið og dómurinn hefði verið skipaður sérfróðum meðdómsmönnum. Fyrir Hæstarétti liggur upptaka úr umræddri öryggismyndavél og einnig sérprentaðar ljósmyndir úr henni. Dómarar hafa kynnt sér þessi gögn. Verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða sömu gögn og lögð voru fram í héraði við aðalmeðferð málsins 11. nóvember 2005. Var þá bókað í þingbók að dómari og sakflytjendur hefðu horft á umræddar myndbandsupptökur. Tveir lögreglumenn, sem komu að rannsókn málsins, gáfu skýrslur fyrir héraðsdómi þar sem meðal annars er að nokkru lýst meðferð lögreglu á umræddum myndbandsupptökum. Að framanrituðu virtu þykja ekki komnar fram ástæður til að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu til málsmeðferðar á ný í héraði.
Á nefndri upptöku sést ákærði hegða sér með þeim hætti sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi. Þannig stendur hann við lyftarann klukkan 04:12:17 og leggur eitthvað í sæti hans. Klukkan 04:12:24 er upptakan hefst að ný er hann komin að bifreið sinni, en á þeirri stundu sést eldur inni í húsi lyftarans. Ákærði ekur svo á brott klukkan 04:12:33. Af hálfu ákærða eru þessar tímasetningar ekki vefengdar en hann var fyrir héraðsdómi sérstaklega spurður út í framlagðar myndir. Að þessu gættu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.
Eins og fram kemur í héraðsdómi verður einkum litið til þess við ákvörðun refsingar að ákærði var að gegna trúnaðarstarfi við öryggiseftirlit er hann framdi brot sitt og að nokkur hætta stafaði af því. Á hinn bóginn varð ekki mikið tjón af brotinu og ákærði hafði sjálfur slökkt eldinn er lögregla kom á vettvang. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Að þessu virtu, og að gættu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þorsteinn Hafþórsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 245.813 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. nóvember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. þ.m., er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Kópavogi, útgefinni 19. maí 2005, á hendur ákærða, Þorsteini Hafþórssyni, kt. 290970-4909, Þverbraut 1, Blönduósi, fyrir eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 18. desember 2004, í eftirlitsferð sem öryggisvörður hjá Securitas, borið eld að lyftara í eigu Rúmfatalagersins ehf., þar sem hann stóð við Smáratorg í Kópavogi, með þeim afleiðingum að ökumannssæti og klæðning meðfram sætinu brann.
Framangreind háttsemi ákærða er talin varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu er þess krafist fyrir hönd Rúmfatalagersins, kt. 440887-1209, að ákærði verði dæmdur til að greiða bætur að fjárhæð 60.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Ákærði krefst frávísunar bótakröfu. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna.
I.
Aðfaranótt laugardagsins 18. desember 2004, kl. 04:13, voru lögreglumenn sendir að Rúmfatalagernum við Smáratorg í Kópavogi vegna tilkynningar um eld í lyftara sem væri á bifreiðastæði við lagerdyr fyrirtækisins. Við komu á vettvang var ákærði við umræddan lyftara. Var gluggi vinstra megin á lyftaranum opinn en allir gluggar lyftarans voru sótugir og slökkviduft yfir öllu inni í lyftaranum. Á vettvangi tjáði ákærði lögreglunni að hann hefði ekið framhjá lyftaranum fyrr um kvöldið og hefði þá verið í lagi með hann. Er hann hefði ekið framhjá honum fimm mínútum síðar hefði hann orðið var við að reyk lagði frá honum. Hann hefði þá hringt í Neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð slökkviliðs. Hann hefði svo slökkt eldinn með handslökkvitæki með því að sprauta slökkvidufti inn um glugga sem var opinn á lyftaranum.
Slökkvilið kom á vettvang og tjáði stöðvarstjóri slökkviliðsins, Þórður Bogason, lögreglu, að hann teldi líklegast að kveikt hefði verið í ökumannssæti lyftarans, en engin ummerki væru um sjálfsíkveikju þar sem engir rafmagnsvírar væru nálægt þeim stað þar sem eldurinn byrjaði.
Í lögregluskýrslunni kemur fram að ákærði hafi komið á lögreglustöðina skömmu síðar og sagst hafa skoðað myndbandsupptöku af vettvangnum og að greinilegt væri að um sjálfsíkveikju hafi verið að ræða þar sem enginn hafi sést koma nálægt lyftaranum þegar eldurinn kviknaði.
Um kl. 10:25 um morguninn tilkynnti verslunarstjóri Rúmfatalagersins lögreglu, að við skoðun starfsmanna á upptöku úr öryggismyndavél frá nóttinni sæist hvar ákærði kæmi að lyftaranum, kveikti í honum og æki síðan brott en kæmi svo aftur og slökkti eldinn með duftslökkvitæki. Lögreglumaður fór í Rúmfatalagerinn og skoðaði upptökuna. Þeirri skoðun lýsir lögreglumaðurinn Páll Ástþór Jónsson, aðstoðarvarðstjóri svo: “Upptakan er mjög skýr. Ljós lýsir vel upp lyftarann og svæðið við hann og myndavélin vel staðsett og sýnir allt vel. Mynd í lit og gæði góð. Á upptökunni sést kl. 04:09 þar sem einkennisklæddur öryggisvörður á merktum Securitasbíl kemur þarna að og stöðvar. Öryggisvörðurinn gengur að lyftaranum vinstramegin og reynir að opna hurð en hún er læst. Hann gengur þá að hurðinni hægramegin og reynir að opna hana en hún er læst. Hann virðist þá ná að opna glugga á hurðinni og teygja sig inn um opinn gluggann. Hann er með sígarettu í munni. Eftir að hafa oppnað lyftarann og litið lítillega inn í hann gengur hann aftur að Securitasbifreiðinni og virðist ná eitthvað. Hann gengur síðan með það að lyftaranum og er þá ekki með sígarettu í munni og stingur sér inn um gluggaopið en er þó með fætur á jörðinni. Þá sést að lítill eldur kviknar þar sem öryggisvörðurinn er inni í lyftarahúsinu. Eldurinn virðist vera heldur vinstramegin í lyftarahúsinu. Hann fer síðan úr lyftarahúsinu meðan eldurinn er enn logandi og gengur rólega að öryggisbifreiðinni og ekur burt. Um tveimur mínútum síðar kemur hann á bifreiðinni og stöðvar aftan við lyftarann, fylgist með honum smástund og ekur síðan áfram úr myndinni. Um 1 1/2 mínútu síðar kemur hann gangandi aftur í myndsviðið með slökkvitæki og sprautar úr því inn um opna gluggann. Skömmu síðar kemur lögreglan á vettvang. Síðan sést þar sem að lögreglumaður bendir honum á öryggismyndavélina. Virðist öryggisvörðurinn verða stressaður við þá vitneskju. Síðan kemur slökkvilið á vettvang.”
Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík var falin rannsókn á brunanaum í lyftaranum og komust sérfræðingar deildarinnar að þeirri niðurstöðu að um íkveikju af mannavöldum hefði verið að ræða. Tæknideildin skoðaði myndbandsupptökuna úr öryggismyndavélinni og liggja frammi í málinu myndskeið sem unnin hafa verið upp úr upptökunni og sýna athafnir ákærða í og við lyftarann umrædda nótt. Svanur Elíson rannsóknarlögreglumaður hjá tæknideildinni staðfesti fyrir dómi að niðurstaða tæknirannsóknar hefði verið að um íkveikju af mannavöldum hefði verið að ræða. Hann kvaðst hafa skoðað myndbandsupptökuna og eftir þá skoðun hefði verið hafið yfir allan vafa í hans huga að ákærði hefði kveikt í lyftaranum.
II.
Hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að er hann hefði komið að þeim stað sem lyftarinn var á hefði hann horft á myndavélina sem er á staðnum til að kanna hvort búið væri að ýta henni upp, en það geri innbrotsþjófar stundum. Þá hefði honum fundist sem rúða hægra megin í lyftaranum væri opin. Hann hefði farið út og séð að rúða á hægri hlið lyftarans var opin upp á hálfa gátt, ca. 15-20 cm. Hann hefði ýtt rúðunni upp og skoðað lyftarann að innan, þ.e. hvort eitthvað væri skemmt, en séð að allt var í lagi. Báðar hurðir lyftarans hefðu hins vegar verið læstar. Hann hefði síðan farið af staðnum og að öðru fyrirtæki, Kraftvélum, sem er í næstu götu. Er hann ók til baka hefði hann fengið efasemdir um að hann hefði lokað rúðunni á lyftaranum og hefði hann því farið aftur að honum. Þá hefðu verið liðnar um 5 mínútur frá fyrri skoðun. Er hann gekk að lyftaranum hefði honum dottið í hug að lyklarnir af lyftaranum gætu verið á gólfi hans og hefði hann ætlað að veifa þeim í myndavélaraugað ef hann finndi þá. Hann hefði ekki fundið neina lykla en komið hefði í ljós að gluggi á lyftaranum var opinn eins og hann grunaði. Hann hefði þá slegið í rúðu lyftarans sem hefði þá runnið til baka og hann talið að hún hefði lokast við þetta. Hann hefði farið af staðnum, ekið burtu vestur fyrir Rúmfatalagershúsið að framhlið þess og þaðan í hringtorgið við Bónus, Lækjasmára og ekið austur Dalveg að hringtorgi við Digranesveg. Er hann var í torginu hefði honum verið litið í átt að lager Rúmfatalagersins og séð reyk bera við ljóskastara á þeim stað sem lyftarinn stóð. Hann hefði ekið að lyftaranum og séð að hann var fullur af reyk. Þá hefðu verið liðnar um 2-3 mínútur frá því hann ók frá lyftaranum. Hann hefði lagt bifreiðinni fyrir framan lyftarann en ákveðið að færa hana svo hún yrði ekki fyrir slökkviliðinu er það kæmi á staðinn. Hann hefði svo kallað eftir aðstoð áður en hann yfirgaf bifreiðina. Hann hefði sótt handslökkvitæki í bifreiðina, gengið að lyftaranum og séð að rúðan á honum var ekki lokuð eins og hann hafði haldið. Hann hefði skotið tvisvar úr slökkvitækinu á reykinn en ekki getað greint eld vegna reyks. Lögreglan hefði svo komið á staðinn um 1-2 mínútum eftir að hann slökkti eldinn. Annar lögreglumaðurinn hefði talað um að eftirlitsmyndavél væri á staðnum og hefði honum fundist það gott þar sem hann hefði verið farinn að halda að einhver hefði komið á eftir honum og kveikt í lyftaranum.
Ákærði kvaðst hafa haft samband við Securitas og óskað eftir því að fá tengilið Rúmfatalagersins á staðinn. Hann hefði svo farið með starfsmanni Rúmfatalagersins og horft á myndbandsupptökuna. Honum hefði brugðið verulega þegar hann sá að enginn kom að lyftaranum nema hann. Hann hefði séð á upptökunni að þegar hann gekk frá lyftaranum virtist sem reykur kæmi frá honum. Ákærði tók fram að hann hefði verið kvefaður og lyktarskynið ekki upp á það besta. Hefði hann sagt við tengiliðinn að þetta liti ekki vel út fyrir sig þar sem svo virtist sem hann hefði gert eitthvað. Starfsmaðurinn hefði sagt að þetta yrði athugað daginn eftir. Hann hefði þá farið af staðnum en komið við á lögreglustöðinni til að láta vita að hann hefði yfirfarið öryggismyndbandið hjá Rúmfatalagernum og séð að enginn hefði komið að lyftaranum nema hann og því hlyti að vera um sjálfsíkveikju að ræða. Ákærði kvaðst neita að hafa kveikt í lyftaranum. Er honum var kynnt að eldurinn í lyftaranum hefði verið staðbundinn kvaðst ákærði setja spurningu við hvort sígarettuglóð gæti hafa verið í lyftaranum og eldurinn kviknað þess vegna. Kvað hann starfsmenn Rúmfatalagersins oft vera við vinnu fram að miðnætti til 00:30. Eftir að hafa skoðað myndbandsupptökuna og í framhaldi af spurningu um hvaða hvítan hlut hann hefði verið með í höndunum er hann gekk að lyftaranum, kvaðst ákærði hafa verið með sígarettupakka í hendinni og það sé sá hvíti hlutur sem sjáist á upptökunni. Ákærða var bent á að á upptökunni kæmi fram að hann teygi hendina inn í lyftarann og hlaupi síðan í burtu og að á nákvæmlega sama stað og hönd hans hafi sést kvikni strax eldur sem magnist nokkuð áður en Securitasbifreiðin hverfi úr mynd. Þá kæmi fram að ákærði loki ekki glugganum. Ákærði svaraði þessu svo að hann hefði slegið hendinni í gluggann en hann gæti ekki fullyrt hvort hann hefði lokast eða ekki. Þá sjáist á myndbandinu þegar hann teygi sig inn í lyftarann með vasaljós og sjáist blossi frá vasaljósinu. Ástæða þess að hann hlaupi í burtu hafi verið sú að hann hafði ekki lengur tíma fyrir þetta mál. Ákærði var að lokum spurður um hvað hann hefði séð á öryggismyndbandinu, eftir að hann hafði hlaupið frá lyftaranum, á þeim stað sem hönd hans sást síðast inni í lyftaranum. Ákærði svaraði því til að hann væri sammála því að það hafi komið upp eldur á þessum stað. Hann hefði hins vegar enga skýringu á því hvers vegna þessi eldur kviknaði en hann hefði enga brunalykt fundið þegar hann yfirgaf lyftarann.
Fyrir dómi neitaði ákærði sök og var framburður hans mjög á sömu lund og í skýrslu hans hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa athugað lása og glugga á lyftaranum er hann kom fyrst að honum. Komið hefði í ljós að 15 cm rifa var á öðrum glugganum. Hann hefði átt við gluggann og talið sig hafa lokað honum og farið til eftirlits á annan stað. Er hann hefði ekið aftur framhjá lyftaranum hefði vaknað hjá honum grunur um að hann hefði ekki lokað glugganum nægilega vel. Hann hefði því farið aftur að lyftaranum og lýst inn í hann til að athuga hvort lyklar kynnu að hafa gleymst inni í honum. Kvað hann slíkt geta gerst þegar um tæki er að ræða sem ekki er læst með ræsilyklunum heldur hengilásum eins og umræddur lyftari. Ákærði kvaðst hafa teygt hönd sína inn í lyftarann með lítið vasaljós til að lýsa. Hann hefði haldið á Prince sígarettupakka í hendinni og vasaljósinu er hann fór að lyftaranum, teygði hönd sína inn í hann og lýsti inn í hann. Kvað hann hvíta hlutinn sem sjáist á myndbandinu vera sígarettupakkann. Ákærði kvaðst ekki hafa skilið hann eftir inni í lyftaranum. Hann hefði svo ekki mátt vera að þessu lengur, slegið í gluggann á lyftaranum og beitt afli við að loka honum. Hann hefði síðan haldið sína leið en er hann hefði litið síðar um öxl hefði hann séð reyk bera við ljós hjá lyftaranum. Hann hefði þá hringt og beðið um aðstoð slökkviliðsins, sótt slökkvitæki í öryggisbifreiðina og sprautað inn í lyftarann sem hefði verið fullur af reyk. Hann hefði séð glóð í sæti lyftarans og sprautað á hana. Ákærði kvaðst halda að einhver glóð kunni að hafa verið í lyftaranum og kunni eldur að hafa komið upp vegna súgs sem hafi myndast vegna gegnumtrekks. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við reyk í lyftaranum er hann gekk frá honum í síðara skiptið og hefði hann ekki fundið neina reykjarlykt inni í lyftaranum. Hann hefði á hinn bóginn verið kvefaður. Ákærði kvaðst allan tímann hafa vitað af öryggismyndavélinni við lyftarann.
Ákærði kvaðst hafa verið búinn að starfa hjá Securitas í 3 ár en áður hefði hann unnið í 1 ár í slökkviliði. Hann hefði verið að komast á Neyðarlínuna en umrædda nótt hefði hann verið úti við eftirlitsstörf í veikndaforföllum.
Vitnið Aðalsteinn Aðalsteinsson ransóknarlögreglumaður kvaðst hafa kannað gögn vegna íkveikju í sama lyftara sem átti sér stað 8. apríl 2004. Kvað hann tvo unglingsstráka þá hafa kveikt í lyftaranum. Eftir þann bruna hefði sæti lyftarans verið endurnýjað. Allt aðrar skemmdir hefðu orðið í seinni brunanum. Hann kvaðst hafa skoðað upptökuna í öryggismyndavélinni og kvaðst hann geta fullyrt að um íkveikju hefði verið að ræða. Samkvæmt upptökunni hefði ákærði látið hlut frá sér inni í lyftaranum og farið síðan. Þá virðist eldur kvikna og eftir 20 sekúndur hafi verið kominn upp eldur. Það geti ekki hafa verið vegna sígarettuglóðar. Hann kvað eignarhald lyftarans ekki hafa verið kannað sérstaklega í málinu.
III.
Í máli þessu hefur verið leitt í ljós með rannsókn lögreglu og þykir sannað, að eldur sá er upp kom í lyftara Rúmfatalagersins aðfaranótt laugardagsins 18. desember 2004 var af manna völdum en sá möguleiki að um sjálfsíkveikju hafi verið að ræða hefur verið útilokaður. Í málinu hefur verið lögð fram myndbandsupptaka úr öryggismyndavél sem sýnir umræddan lyftara og kemur fram á upptökunni að á þeim tíma er máli skiptir umrædda nótt var ákærði sá eini er kom nærri lyftaranum og hafði afskipti af honum. Hér að framan hefur verið rakið hvernig ákærði kom oftar en einu sinni að lyftaranum og hvernig eldur kom upp inni í lyftaranum nokkrum sekúndum eftir að ákærði hafði verið með hönd sína inni í honum með eitthvað hvítt í hendinni sem hann virðist hafa skilið eftir inni í lyftaranum. Kemur þetta berlega í ljós á myndbandsupptökunni sem dómari, sakflytjendur og ákærði horfðu á í aðalmeðferð málsins.
Í málinu er byggt á því að Rúmfatalagerinn ehf. sé eigandi umrædds lyftara enda hefur annað ekki verið leitt í ljós. Í málinu liggur fyrir krafa Rúmfatalagersins um að sá er olli íkveikjunni í lyftaranum og skemmdum á honum verði látinn sæta refsingu lögum samkvæmt. Telst því áskilnaði 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga fullnægt.
Þegar allt það sem fram hefur komið í málinu er virt og þá einkum umrædd myndbandsupptaka svo og rannsókn Tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík, þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að ákærði hafi lagt eld að lyftaranum eins og honum er gefið að sök í ákæru en þar er háttsemi ákærða réttilega færð til refsiákvæðis. Það haggar ekki þessari niðurstöðu að ekki liggur fyrir af hvaða hvötum ákærði framdi verknaðinn. Við ákvörðun refsingar verður ekki horft framhjá því að ákærði var að gegna mikilsverðu trúnaðarstarfi við öryggiseftirlit er hann framdi brot sitt. Ber að virða það til refsiþyngingar. Á hinn bóginn ber að líta til þess að tjón af brotinu varð lítið og að ekki var talin hætta á að eldsvoðinn hefði í för með sér almannahættu. Samkvæmt því þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Rétt þykir að ákveða, einkum í ljósi þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu, að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og að hún skuli falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Ákærði mótmælir framkominni bótakröfu Rúmfatalagersins og krefst hann frávísunar kröfunnar vegna vanreifunar. Fallist er á að bótakrafan sé vanreifuð. Í kröfunni er vísað til mats sem ekki hefur verið lagt fram. Kröfunni fylgja engin gögn og er hún því ekki dómtæk, en frekari gagnaöflun og málflutningur vegna kröfunnar myndi tefja refsiþátt málsins. Er kröfunni því vísað frá dómi.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnalaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 186.750 krónur og er þá meðtalinn 24,5 % virðisaukaskattur. Er þá tekið tillit til starfa verjandans á rannsóknarstigi málsins. Annan kostnað leiddi ekki af meðferð málsins
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Þorsteinn Hafþórsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Skaðabótakröfu Rúmfatalagersins ehf., að fjárhæð 60.000 krónur er vísað frá dómi.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, 186.750 krónur.