Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Matsmenn
- Þóknun
|
|
Föstudaginn 23. janúar 2015. |
|
Nr. 54/2015.
|
Drífa ehf. (Andri Árnason hrl.) gegn Sigríði Maríu Sigurjónsdóttur (Árni Freyr Árnason hdl.) |
Kærumál. Matsmenn. Þóknun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem þóknun til handa S, vegna vinnu hennar við matsgerð í tilgreindu einkamáli, var ákveðin 2.590.320 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014, þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 2.590.320 krónur fyrir störf hennar að tiltekinni matsgerð sem unnin var að beiðni sóknaraðila sem matsbeiðanda. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að þóknun varnaraðila verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 30. desember 2014. Hún krefst þess að þóknun sín verði ákveðin 3.669.620 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014.
Með beiðni móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur, 23. júní sl., óskaði sóknaraðili, Drífa ehf., kt. [...], Suðurhrauni 2c, Garðabæ, eftir úrskurði dómsins um hæfilega þóknun til handa varnaraðila, Sigríði Maríu Sigurjónsdóttur, kt. [...], Laufásvegi 60, Reykjavík, með vísan til 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, vegna vinnu varnaraðila við matsgerð í máli nr. M-119/2012.
Varnaraðili mótmælti fram kominni kröfu við þingfestingu málsins, 26. september sl. Hann krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila 2.924.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt, samtals 3.669.620 krónur, í samræmi við reikning varnaraðila vegna vinnu við matsgerð í matsmáli nr. M-119/2012. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málið var tekið til úrskurðar 9. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi.
I
Málsatvik
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að tildrög málsins málsins séu þau að ágreiningur sé um höfundarrétt að vörum, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. höfundarlaga nr. 73/1972, milli sóknaraðila sem matsbeiðanda og matsþola, Hóras ehf. og Álafoss ehf. Dómkvaddir hafi verið matsmennirnir Sigríður María Sigurjónsdóttir, fatahönnuður og varnaraðili þessa máls og Hjördís Halldórsdóttir hrl., til að gera skriflega matsgerð og vanda hana eftir bestu þekkingu og samvisku.
Í umræddri matsbeiðni var þess óskað að matsmenn lýstu almennt og sjálfstætt útliti og efnissamsetningu vara sem lagðar voru fram með beiðninni, bæði vara matsbeiðanda, þ.e. sóknaraðila, og vara matsþola og voru matsmenn sérstaklega beðnir um „að lýsa helstu einkennum í mynstri, litasamsetningu á vörunum í heild en einnig mynsturs, staðsetningu mynsturs á vörunum, staðsetningu auðkenna (vörumerkja) og efnissamsetningu varanna“ en þær vörur sem um ræðir munu vera húfur, eyrnabönd og vettlingar.
Þá var þess einnig óskað að matsmenn skoðuðu og mætu:
„1. Hvort framangreindar vörur matsbeiðanda teljist frumlegar, þ.e. hvort þær feli í sér sköpun, sem er ný og sjálfstæð.
2. Hvort vörur matsþolenda merktar 847 séu líkar eða sambærilegar vörum matsbeiðanda. Ef matsmenn telja svo vera þá hvaða sérkenni og útlitsatriði varanna þeir telji vera lík eða sambærileg.
3. Hvort vörur matsbeiðanda og vörur matsþolenda merktum 847, séu svo líkar að ruglingshætta geti skapast.
4. Hvort þær málmplötur er matsþolendur merkja vörur sínar með líkist eða séu sambærilegar þeim málmplötum sem matsbeiðandi merkir vörur sínar með. Ef matsmenn telja svo vera tilgreini þeir hvaða sérkenni og útlitsatriði séu lík á milli málmplatanna og hvort auðkennin séu til þess fallin að skapa ruglingshættu hjá neytendum um uppruna vörunnar.“
Matsmennirnir framkvæmdu matið og er matsgerð þeirra dagsett 3. júní 2014. Mun matsmaðurinn Hjördís Halldórsdóttir hrl. hafa séð um lögfræðilega hlið verksins en hin faglega og tæknilega vinna verið í höndum varnaraðila. Reikningar matsmanna voru gefnir út í byrjun júní 2014 og mun reikningur matsmannsins Hjördísar hafa verið greiddur fljótlega en hann nam 540.466 krónum með virðisaukaskatti. Stuttar samningaviðræður munu hafa átt sér stað á milli sóknaraðila og varnaraðila en ekki náðst samkomulag um þóknun til varnaraðila og leitaði sóknaraðili þá eftir úrskurði dómsins um hæfilega þóknun til handa varnaraðila.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili telur framlagðan reikning varnaraðila frá 3 júní 2014 fyrir vinnu við matsgerðina vera allt of háan og að umkrafin fjárhæð geti ekki talist hæfileg þóknun í skilningi 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991. Reikningurinn hljóði upp á 2.924.000 krónur, án virðisaukaskatts eða 3.669.620 krónur með virðisaukaskatti. Fjárhæðin sé of há og ósanngjörn og teljist því ekki hæfileg, sérstaklega að teknu tilliti til eðlis og umfangs málsins. Þá séu vinnustundir varnaraðila sundurliðaðar á þann hátt að 4 klukkustundir hafi farið í fundi og samskipti, 32 klukkustundir í lestur gagna, 80 klukkustundir í textasmíð, 16 klukkustundir í myndræna vinnu og 40 klukkustundir í rannsókn. Samtals nemi vinnustundir varnaraðila 172 klukkustundum en tímagjald hennar sé 17.000 krónur. Engar tímaskýrslur liggi þó að baki reikningnum.
Sóknaraðili byggir á því að sá kostnaður sem varnaraðili geri kröfu um sé ekki í neinum takti við álíka matsvinnu og verulega hærri en tíðkist í sambærilegu mati. Megi til hliðsjónar líta til reiknings hins matsmannsins, Hjördísar Halldórsdóttur hrl., frá 3. júní 2014, sem hljóði upp á 430.650 krónur án virðisaukaskatts.
Sóknaraðili kveður að ekki hafi verið komist að samkomulagi við varnaraðila um tiltekið tímagjald og væri tímagjaldi sem nemi 17.000 krónum mótmælt sem of háu. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 eigi að greiða matsmanni hæfileg laun fyrir störf hans en ekki áskilið endurgjald sem kunni að miðast við rekstur hans, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 16. ágúst 2006 í máli nr. 371/2006.
Þá mótmælir sóknaraðili fjölda vinnustunda og sé hann í engu samræmi við umfang málsins. Sundurliðun varnaraðila á vinnustundum sé mjög takmörkuð og ekki liggi fyrir nánari sundurliðun eftir dagsetningum, en varnaraðili verði að bera hallann af því. Sá fjöldi vinnustunda sem varnaraðili geri kröfu um sé með engu móti réttlætanlegur, enda hafi varnaraðili verið fenginn til starfa á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar og beri að miða fjölda vinnustunda við það.
Þá telur sóknaraðili kröfu varnaraðila vera óhóflega og í engu samræmi við undirliggjandi fjárhagslega hagsmuni í málinu. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 teljist þóknun matsmanns til málskostnaðar og geti því eftir atvikum einnig skipt gagnaðila verulegu máli.
Með vísan til alls þessa mótmælir sóknaraðili því að umkrafin þóknun varnaraðila sé hæfileg í skilningi 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 og krefst þess að hæfileg þóknun verið úrskurðuð að álitum, sbr. 1. mgr. 66. gr. sömu laga.
Kröfu sína um málskostnað styður sóknaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili telur reikning sinn vera réttan og eðlilegan og umkrafða fjárhæð hæfilega þóknun til matsmanns í skilningi 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991. Krefst hún þess að sóknaraðila verði með úrskurði gert að greiða þá fjárhæð.
Varnaraðili telur í fyrsta lagi að því fari fjarri að áskilin þóknun sé of há eða ósanngjörn. Að mati varnaraðila geti engu máli skipt hvert eðli og umfang málsins sé eða kunni að vera. Enn hafi ekki verið stefnt í hinum undirliggjandi ágreiningi og því óljóst hvert umfang málsins og hagsmunanna sé. Auk þess beri matsmanni einungis að framkvæma matið í samræmi við matsbeiðni en ekki hafa hliðsjón af málinu sem slíku. Matsbeiðnin sem slík útheimti töluverða vinnu þar sem matsmönnum var m.a. falið að meta tilteknar vörur matsbeiðenda og matsþola og lýsa þeim vörum með ítarlegum hætti. Þá skyldu þeir meta hvort tilteknar vörur matsbeiðanda teldust frumlegar og hvort þær gætu talist sköpun og loks að meta hvort ruglingshætta gæti skapast á tilteknum vörum matsbeiðanda og matsþola.
Varnaraðili telur ljóst að fyrsta atriðið útheimti tæknilega vinnu við að lýsa umbeðnum vörum. Síðari atriðin tvö útheimti þó sérstaklega rannsóknarvinnu. Ekki sé því hægt að halda því fram að tími varnaraðila sem fór í matsgerðina hafi verið tilefnislaus eða í ósamræmi við matsbeiðnina.
Þá sé matsgerðin umfangsmikil, 82 blaðsíður, fyrir utan viðauka og beri með sér mikla vinnu þar sem fjallað sé ítarlega um hvert það atriði sem kom fram í matsbeiðninni.
Í öðru lagi sé það haldlaust að vísa til reiknings hins matsmannsins um eitthvað sem talist getur eðlilegur kostnaður af matsgerðinni þar sem eðlilegar ástæður skýri mismun á vinnu matsmannanna enda hafi hlutverk þeirra verið mjög ólíkt. Fallið hafi í skaut varnaraðila að framkvæma tæknilega vinnu og efnislegan hluta matsgerðarinnar. Það væri því ákaflega ósanngjarnt að þóknun varnaraðila væri takmörkuð við þóknun annars matsmanns sem gegndi allt öðru og minna hlutverki við matsgerðina.
Í þriðja lagi sé það fjarri lagi að tímagjald varnaraðila sé of hátt. Sóknaraðili hafi engan reka gert að því að sýna fram á hvað sé hæfilegt tímagjald. Bendir varnaraðili á að þrátt fyrir að því hafi verið slegið föstu í dómi Hæstaréttar frá 16. ágúst 2006 í máli nr. 371/2006 að þóknun til matsmanns ætti bara að vera það sem teldust laun til matsmannsins fyrir vinnu hans og ekki ætti að taka mið af rekstrarkostnaði hafi í síðari dómum Hæstaréttar verið fallist á mun hærri þóknun en í framangreindum dómi. Vísar varnaraðili þar til dóms Hæstaréttar frá 15. júní 2012 í máli nr. 393/2012 þar sem hæfilegt tímagjald var talið vera 25.900 krónur. Þrátt fyrir að í því máli hafi verið samkomulag um tímagjald breytir það því ekki að það gjald var talið hæfilegt. Varnaraðili sé háskólamenntaður sérfræðingur, sérhæfður í hönnun og höfundarétti, með sérstöðu á sínu sviði sem fatahönnuður með eigin fatalínu sem hafi sinnt háskólakennslu í sínu fagi. Hafi það verið ástæða þess að til hennar hafi verið leitað.
Varnaraðili hafi innt sóknaraðila sérstaklega eftir því hver væri þóknun fyrir vinnu dómkvaddra matsmanna og fengið þau svör frá lögmanni sóknaraðila að vinna færi fram á því tímagjaldi sem matsmaður seldi vinnu sína venjulega á og að matsmenn gæfu út reikning með tímafjölda á uppsettu tímagjaldi. Enginn reki hafi verið gerður að því af hálfu sóknaraðila að semja fyrir fram um ákveðið tímagjald og verði hann að bera hallann af því. Þar sem tímagjald varnaraðila sé hóflegt, þegar litið sé til tímagjalds hins matsmannsins sem vann að gerð matsgerðarinnar með varnaraðila og tímagjalds matsmanna í dómi Hæstaréttar í máli nr. 393/2012, séu engar ástæður til að hnekkja því tímagjaldi sem varnaraðili hafi áskilið sér.
IV
Niðurstaða
Um matsgerðir er fjallað í IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili máls þess rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín í matsmáli nr. M-119/2012 samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi matsbeiðanda, sóknaraðila í máli þessu. Ákvæðið hefur verið túlkað svo að matsbeiðanda beri að greiða matsmanni hæfileg laun fyrir störf sín. Í 1. mgr. 66. gr. sömu laga kemur fram að dómari leysi úr ágreiningi, meðal annars um greiðslur til matsmanna, með úrskurði. Á hann því úrskurðarvald um hæfilega þóknun til varnaraðila fyrir störf hennar sem matsmaður.
Í málinu liggur fyrir að varnaraðili grennslaðist fyrir um það hjá lögmanni sóknaraðila hvert væri tímagjald í málum sem þessum og fékk þau svör að yfirleitt væri miðað við það tímagjald sem matsmaðurinn seldi vinnu sína venjulega á og að hún skyldi gefa út reikning fyrir þann tíma sem hefði farið í verkið og á því tímagjaldi sem hún setti upp svo lengi sem það væri innan skynsemismarka. Verður að líta svo á að varnaraðili hafi að fengnum þessum upplýsingum áskilið sér 17.000 krónur í tímagjald. Dómurinn telur að sóknaraðili verði að bera hallann af því að ekki hafi samist með skýrum hætti með aðilum um endurgjald og verður að líta svo á að það hafi staðið honum nær en varnaraðila í ljósi ofangreindra samskipta. Þá telur dómurinn að ljóst megi vera að vinna sú sem fólst í matsgerðinni hafi krafist sérfræðiþekkingar á mjög afmörkuðu sviði. Dómurinn telur því ekki unnt að draga almenna ályktun um hæfilega þóknun fyrir þessa vinnu út frá matskostnaði í öðrum, ósambærilegum málum þótt hliðsjón megi hafa af niðurstöðu í dómi Hæstaréttar frá 16. ágúst 2006 í máli nr. 371/2006 hvað þetta varðar. Þá telur dómurinn ekki unnt að líta til dóms Hæstaréttar frá 15. júní 2012 í máli nr. 393/2012 þar sem í því máli hafði samist með aðilum um tiltekið tímagjald. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið, þykir hæfilegt endurgjald til varnaraðila fyrir vinnu hennar við umrædda matsgerð vera 12.000 krónur.
Matskostnaður í þess tilviki, eins og í öðrum matsmálum, ræðst fyrst og fremst af fjölda vinnustunda sem hafa farið í verkið og því tímagjaldi sem lagt er til grundvallar. Þótt tímafjöldi sá er í matið fór af hálfu varnaraðila sé vissulega nokkuð hár, eða 172 klukkustundir, verður að líta til þess að mat það sem óskað var að fram færi samkvæmt matsbeiðninni var nokkuð umfangsmikið. Ætla verður að það hafi krafist töluverðra rannsókna og ákveðinnar undirbúningsvinnu vegna samanburðar á vörum, auk þess sem viðfangsefnið krafðist þess að verkið væri unnið af mikilli nákvæmni. Þegar litið er til umfangs verkefnisins verður áðurnefndur tímafjöldi því ekki talinn óeðlilegur. Þegar þetta er metið telur dómurinn að hafa verði í huga að sóknaraðila var í lófa lagið að fylgjast með framvindu verksins enda var verkið unnið á hans kostnað sem matsbeiðanda. Þá hefur það ekki þýðingu við þetta mat þótt matsbeiðandi sjálfur hafi talið að ekki færi mikill tími í verkið. Með hliðsjón af ofangreindu, reikningi varnaraðila og sundurliðun hans, þykir hæfileg þóknun varnaraðila fyrir matsgerð í máli nr. M-119/2012 vera 2.064.000 krónur en samtals 2.590.320 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Eins og atvikum er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðrún M. Eysteinsdóttir hdl. en af hálfu varnaraðila Árni Freyr Árnason hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Sóknaraðili, Drífa ehf., greiði varnaraðila, Sigríði Maríu Sigurjónsdóttur, 2.590.320 krónur fyrir störf hennar að matsgerð í máli nr. M-119/2012, sem unnin var að beiðni sóknaraðila sem matsbeiðanda.
Málskostnaður fellur niður.