Hæstiréttur íslands
Mál nr. 11/1999
Lykilorð
- Bifreið
- Manndráp af gáleysi
- Svipting ökuréttar
|
|
Miðvikudaginn 12. maí 1999. |
|
Nr. 11/1999. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Sigurði Ársælssyni (Andri Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Manndráp af gáleysi. Svipting ökuréttar.
S var ákærður fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa ekið sendibifreið sinni á gangandi vegfaranda sem lést af áverkum eftir slysið. Gerðist þetta snemma morguns á Suðurgötu í Reykjavík. Ekki þótti sannað að S hefði ekið of hratt miðað við aðstæður og var talið að hann hefði ekki haft tök á að afstýra slysinu. Var S sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu, svo og að ákærða verði gerð enn frekari svipting ökuréttar.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins. Til þrautavara krefst hann endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um viðurlög.
Mál þetta varðar banaslys, er varð á Suðurgötu í Reykjavík á móts við norðurenda aðalbyggingar Háskóla Íslands, laust eftir klukkan átta að morgni miðvikudagsins 17. desember 1997. Myrkur var en götulýsing góð og yfirborð malbiksins á götunni þurrt. Hámarkshraði þarna var 50 km á klst.
Ákærði kveðst hafa ekið sendibifreið sinni frá heimili sínu í Skerjafirði þennan morgun. Hann hafi ekið á venjulegum umferðarhraða á þessari leið, sem sé 50 til 60 km, á hægri akrein götunnar. Hann hafi verið kominn fram hjá gangbrautarljósum á móts við Brynjólfsgötu er hann hafi skyndilega og fyrirvaralaust orðið var við konu, sem hafi komið út á akbrautina frá hægri. Hún hafi verið á miðri hægri akreininni og hann hafi séð andlit hennar í svip er hann hafi reynt að hemla og sveigja frá til vinstri, en það hafi ekki tekist. Bifreiðin hafi skollið á henni með þeim afleiðingum, sem lýst er í héraðsdómi.
Ákærði styður kröfu sína um sýknu þeim rökum, að akstursskilyrði og aðrar aðstæður hafi verið góðar og ekki kallað á sérstaka aðgæslu. Því hafi gilt almenn varúðarsjónarmið og ekki hafi mátt búast við umferð gangandi vegfarenda á þessum stað, sbr. 2. mgr. 12. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ósannað sé að hann hafi ekið bifreiðinni umfram leyfilegan hámarkshraða í umrætt sinn. Héraðsdómari leggi til grundvallar sakfellingu að hann hafi ekið á um 65 km hraða, en sú niðurstaða verði ekki reist á fyrirliggjandi sönnunargögnum. Engar prófanir hafi farið fram á hemlunarvegalengd bifreiðarinnar við rannsókn málsins. Framlagðar ljósmyndir sýni að hemlaför séu ekki jöfn eftir hægri og vinstri hjólbarða bifreiðarinnar, en við athugun á vegum lögreglunnar eftir slysið hafi hemlabúnaður reynst í lagi. Ljóst sé, að bifreiðin hafi markað hemlaför fyrst og fremst með hjólbörðum vinstra megin, en það skýrist af því að ákærði sveigði henni til vinstri um leið og hann nauðhemlaði. Almennar töflur um hraða í hlutfalli við lengd hemlafara, sem miðist við jafnt átak allra hjólbarða, segi því ekki til um hraða bifreiðarinnar í umrætt sinn. Einnig sé þess að geta að hjólbarðarnir hafi verið negldir. Af hemlaförunum megi því fremur álykta að bifreiðinni hafi verið ekið innan hámarkshraða en yfir. Framburður vitnis, sem ók annnarri bifreið á sömu leið, verði heldur ekki talinn styðja ályktun um of mikinn hraða bifreiðar ákærða. Vitnið hafi ekið bifreið sinni af Sturlugötu til hægri inn á Suðurgötu og borið að sendibifreiðinni hafi verið ekið fram úr skömmu síðar. Fyrir héraðsdómi hafi vitnið dregið úr fyrri framburði hjá lögreglu um að það hafi þá verið komið á um 50 km hraða og talið hraða sinn um 40 km þegar sendibifreiðinni var ekið fram úr á vinstri akrein. Vitnið hafi síðan aukið hraðann í 50 til 60 km. Frá Sturlugötu að slysstað séu 280 metrar. Vitnið hafi talið að 50 til 100 metrar hafi verið á milli bifreiðanna þegar það heyrði að sendibifreiðinni var nauðhemlað. Það bendi til að lítið hafi dregið sundur með bifreiðunum. Framburður ákærða um sinn ökuhraða verði því ekki hrakinn með þessum vitnisburði. Vitnið hafi ekki séð er sendibifreiðin fór yfir á hægri akrein. Það sýni að vitnið hafi ekki veitt bifreiðinni eða akstri hennar sérstaka athygli, sem aftur bendi til að ekkert hafi verið athugavert við akstur ákærða.
Þegar virt eru framangreind rök ákærða um hemlaför bifreiðar hans og framburð vitnis verður að fallast á að ekki sé fram komin lögfull sönnun af hálfu ákæruvalds um að ákærði hafi ekið hraðar en hann sjálfur hefur borið. Miðað við aðstæður telst það ekki of mikill ökuhraði. Framburður ákærða er jafnframt á þá leið að svo hafi virst sem konan hafi komið skyndilega út á akbrautina frá hægri. Þessum framburði hefur ekki verið hnekkt. Verður við það að miða að ákærði hafi við þessar aðstæður ekki haft tök á að afstýra slysinu. Með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er því ósannað að hann hafi gerst sekur um gáleysi í skilningi 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða að akstur hans hafi verið mjög vítaverður, sbr. 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga, svo sem ákvæðinu var breytt með 25. gr. laga nr. 44/1993. Þá er heldur ekki sannað að ákærði hafi brotið gegn ákvæðum 4. gr., 36. gr. og 37. gr. umferðarlaga, sem tilgreindar eru í niðurstöðu héraðsdóms. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Ársælsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, samtals 175.000 krónur.
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 1998.
Ár 1998, fimmtudaginn 3. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni, settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 839/1998: Ákæruvaldið gegn Sigurði Ársælssyni sem tekið var til dóms 12. nóvember sl.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 29. september sl. á hendur ákærða, Sigurði Ársælssyni, kt. 051250-4009, Skildinganesi 16, Reykjavík, „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 17. desember 1997, á leið norður Suðurgötu við Guðbrandsgötu í Reykjavík, ekið bifreiðinni PR-521 án nægjanlegrar aðgæslu að gatnamótunum og of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðamörk, í myrkri á gatnamótum í þéttbýli, þannig að hann gat eigi stöðvað bifreiðina í tæka tíð er kona gekk vestur yfir götuna þar við gatnamótin með þeim afleiðingum að konan, Stefanía Guðnadóttir, fædd 9. mars 1924, varð fyrir bifreiðinni og hlaut slíka áverka að hún lést skömmu síðar.
Telst þetta varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. og a- og c-liði 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.”
Við þingfestingu málsins óskaði sækjandinn eftir að fellt yrði úr ákærunni orðið vestur í atvikalýsingu.
Málavextir.
Miðvikudagsmorguninn 17. desember 1997, laust eftir klukkan átta, var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um umferðarslys á Suðurgötu á móts við Guðbrandsgötu í Reykjavík. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bifreiðinni PR-521 hafi verið ekið norður Suðurgötu eftir hægri akrein. Gegnt Guðbrandsgötu hafi bifreiðinni verið ekið á gangandi vegfaranda sem muni hafa verið á leið yfir götuna, en ekki vitað hvort hann hafi verið á leið austur eða vestur yfir götuna er slysið varð.
Ökumaður bifreiðarinnar PR-521, ákærði í máli þessu, kvaðst hafa ekið norður Suðurgötu eftir hægri akrein og kvað ökuhraða bifreiðarinnar hafa verið um 50 km á klst. Gegnt Guðbrandsgötu kvaðst hann skyndilega hafa veitt athygli gangandi vegfaranda á miðri götunni framan við bifreiðina. Kvaðst ákærði hafa hemlað og reynt að beygja frá til vinstri, en vegfarandinn hafi orðið fyrir bifreiðinni. Vegfarandinn hefði skollið framan á bifreiðina og kastast í götuna nokkrum metrum framar, þar sem hann hefði legið meðvitundarlaus.
Þegar lögreglumenn komu á vettvang lá hin slasaða, Stefanía Guðnadóttir, fædd 9. mars 1924, meðvitundarlaus á vinstri akrein götunnar, um níu metrum framan við bifreiðina PR-521. Talsvert blæddi úr höfði hennar, öndun var óregluleg og púls mjög veikur. Var hún flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til aðhlynningar. Að sögn læknis á slysadeild var hin slasaða með mjög alvarlega höfuðáverka, áverka á lunga, auk annarra innvortis áverka og var að lokinni rannsókn lögð inn á gjörgæsludeild þar sem hún lést laust fyrir kl. 11.30 sama dag.
Þar sem hemlaför eftir bifreiðina voru nær eingöngu eftir vinstri hjól hennar (29,8 m) var hún flutt í Bifreiðaskoðun Íslands til skoðunar og reyndist ástand hemla bifreiðarinnar í lagi samkvæmt skoðunarvottorði. Bifreiðin PR-521, sem er Toyota Hiace sendibifreið, var með neglda hjólbarða á öllum hjólum.
Efir hádegi sama dag hafði maður að nafni Bragi Guðlaugsson símasamband við lögreglu og skýrði frá því að þá um morguninn hefði hann ekið inn á Suðurgötu til norðurs frá Sturlugötu. Hafi hann ekið eftir hægri akrein Suðurgötu með 50-60 km hraða á klst. Þá hafi bifreið verið ekið fram úr bifreið hans og hafi ökuhraði þeirrar bifreiðar verið áberandi mikill. Hann kvaðst hafa séð á eftir þessari bifreið norður Suðurgötu, en því næst skyndilega heyrt hemlahljóð og séð hvar bifreiðin leitaði til vinstri á götunni með hemlaljós tendruð. Kvaðst hann síðan hafa komið þar að sem hin slasaða lá í götunni framan við fyrrnefnda bifreið á vinstri akrein, en hann hafi ekki séð til ferða vegfarandans fyrir slysið.
Framburður ákærða við lögreglurannsókn málsins var á þá leið að umrætt sinn hefði hann ekið norður Suðurgötu eftir hægri akrein. Hann hafi ekki fylgst með hraðamæli bifreiðarinnar, en taldi sig hafa ekið með 50 til 60 km hraða á klst. sem hefði verið ríkjandi umferðarhraði. Ákærði kvaðst hvorki gera sér grein fyrir aksturs- né birtuskilyrðum. Hann hafi veitt hinum gangandi vegfaranda, Stefaníu, athygli þar sem hún var stödd á miðri hægri akreininni. Hún hafi þá verið svo skammt frá bifreið hans að hann hafi engan möguleika haft á að afstýra slysi. Kvaðst ákærði ekki geta sagt til um í hvora áttina konan gekk, en hann hafi séð framan í andlit hennar. Hann hafi reynt að aka til vinstri yfir á vinstri vegarhelming, en taldi að konan hefði einnig verið á hreyfingu í þá átt. Ákærði kvaðst hafa hemlað, jafnframt því sem hann hefði beygt til vinstri, en örskömmu eftir að hann varð konunnar var hafi hún lent framan á bifreið hans, hægra megin. Minnti ákærða að konan hefði borist með bifreiðinni þar sem hún lenti á henni þar til akstur stöðvaðist. Þá hefði hún lent í götunni framan við bifreiðina, sem hefði stöðvast á vinstra vegarhelmingi. Er hér var komið kvaðst ákærði hafa hringt eftir aðstoð áður en hann fór út úr bifreiðinni. Hafi hann verið í lostástandi eftir atburðinn. Við frekari umhugsun teldi hann konuna fremur hafa verið á leið vestur yfir en austur yfir götuna. Svo hafi virst sem konan hafi verið óviðbúin slysinu því hún hafi t.d. hvorki borið hönd fyrir sig né sýnt önnur merki um að hún hefði orðið bifreiðarinnar vör.
Framburður Braga Guðlaugssonar við lögreglurannsókn málsins var á þá leið að hann hefði ekið bifreiðinni KI-693, af gerðinni Toyota Corolla árgerð 1997, norður Suðurgötu af Sturlugötu, laust eftir kl. átta þennan morgun. Er hann ók inn á Suðurgötu kvað hann enga bifreið hafa verið í námunda við bifreið hans. Vitnið kvaðst hafa veitt athygli ökuljósum bifreiðar í baksýnisspeglinum þegar hann hafði náð eðlilegum ökuhraða, um 50 km á klst. Þeirri bifreið, sem var frambyggð dökk sendibifreið, hefði verið ekið yfir á vinstri vegarhelming og fram úr bifreið vitnisins á umtalsverðum hraða. Hraði sendibifreiðarinnar hefði verið aukinn talsvert eftir að henni var ekið fram úr bifreið vitnisins. Kvaðst vitnið ekki hafa veitt bifreiðinni frekari athygli fyrr en hann heyrði hemlahljóð. Hafi hann þá séð sendibifreiðina með logandi hemlaljósum aka frá miðju vegar yfir á vinstri vegarhelming, þar sem hún stöðvaðist skömmu síðar. Taldi vitnið að er þetta gerðist hafi sendibifreiðin verið 50-60 metrum fyrir framan bifreið vitnisins. Kvaðst vitnið hafa ekið áfram eftir hægri akrein, fram fyrir bifreiðina og þá séð að umferðarslys hafði orðið og konu liggjandi í götunni. Vitnið kvaðst hafa hringt í Neyðarlínuna til þess að tilkynna um slysið og verið í símasambandi meðan hann yfirgaf bifreiðina og lýst því sem fyrir augu bar. Þegar þetta gerðist hefði ökumaður sendibifreiðarinnar komið út úr bifreiðinni og hann ásamt öðrum manni stumrað yfir hinni slösuðu. Fljótlega eftir þetta kvaðst vitnið hafa farið af vettvangi. Vitnið kvað veður hafa verið stillt og hita yfir frostmarki þegar slysið varð. Myrkur hefði verið og götulýsing fremur slæm. Akbraut hefði verið þurr og fremur lítil umferð.
Afstaða ákærða til ákærunnar er sú að hann kveðst vera saklaus af þeirri háttsemi sem honum er þar gefin að sök. Ákærði kveðst hafa verið að koma heiman frá sér þennan morgun og hafa ekið norður Suðurgötu eftir hægri akrein götunnar. Hann hafi ekki haft augun á hraðamæli bifreiðarinnar PR-521, en taldi sig hafa ekið á venjulegum umferðarhraða, en hámarkshraði á Suðurgötu sé 50 km/klst. Þegar ákærði var nýbúinn að aka fram hjá gangbrautarljósunum á móts við Brynjólfsgötu kvað hann konu skyndilega hafa skundað, þ.e. gengið rösklega, í veg fyrir bifreiðina. Síðan hafi hún líkt og áttað sig, staðnæmst og snúið við, en það hafi verið um seinan og hafi bifreiðin skollið á konunni í sama mund. Kveður ákærði konuna hafa verið á leið vestur yfir götuna þegar hún varð fyrir bifreiðinni. Slysið hafi átt sér stað um áttaleytið um morguninn og þá hafi verið dimmt, en akstursskilyrði að öðru leyti góð. Hann kveðst ekki muna hvort yfirborð vegarins var blautt eða þurrt, en gerði fremur ráð fyrir að það hefði verið þurrt.
Þegar ákærði hafði komið auga á konuna, nokkrum metrum fyrir framan bifreiðina, kvaðst hann hafa nauðhemlað og reynt að sveigja frá yfir á vinstri vegarhelming. Kvaðst hann engin tök hafa haft á að afstýra slysinu. Konan hafi borist með bifreiðinni allt þar til hún stöðvaðist. Ákærði kveður fyrstu viðbrögð sín hafa verið að hringja í Neyðarlínuna, en síðan hafi hann farið út úr bifreiðinni og reynt að hlúa að konunni, sem hafi verið með lífsmarki þegar hann kom að henni. Fljótlega hefðu menn komið þarna að og einnig farið að hlúa að konunni.
Ákærði kvað umferð norður Suðurgötu þennan morgun ekki hafa verið þunga, en á hægri akrein fyrir framan bifreiðina sem hann ók hefði verið bifreið og einnig hafi verið bifreið fyrir aftan á hægri akrein, og kveðst ákærði hafa haft áhyggjur af að bifreið hans myndi lenda utan í hlið þeirrar bifreiðar þegar hann var að beygja í nauðhemluninni.
Ákærði kveðst hafa ekið á almennum umferðarhraða norður Suðurgötu umrætt sinn, en með því eigi hann við 50-60 km hraða á klst. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvar konan var stödd er hún sneri við. Spurður um hver kynni að vera ástæða þess að hann sá konuna ekki fyrr, kvaðst ákærði ekki geta svarað því beint Hann væri búinn að fara yfir þetta mál í huga sér, en enga skýringu fundið. Hann teldi skýringuna þó vera þá að konan hefði verið komin yfir götuna þegar hún hafi skyndilega ákveðið að snúa við. Spurður um hvort mögulegt væri að hann hefði litið af akbrautinni eitthvað til hliðar. kveður ákærði sig ekki reka minni til þess. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að hafa farið fram úr neinni bifreið á leið sinni norður Suðurgötu. Það mætti þó vel vera, en hann minntist þess ekki. Götulýsingu á Suðurgötu þennan morgun kvað hann hafa verið þokkalega.
Ákærði kvað bifreiðina PR-521 vera búna dagljósabúnaði, en það þýði að ævinlega sé kveikt á ökuljósum bifreiðarinnar þegar hún er í akstri. Ákærði var beðinn að útskýra hvers vegna hemlafar vinstra megin virtist vera afdráttarlausara en hægra megin, þrátt fyrir að hemlabúnaður hefði við skoðun reynst vera í lagi. Hann kvaðst hafa nauðhemlað og sveigt frá konunni og eftir á að hyggja teldi hann að bifreiðin hefði við nauðhemlunina flutt þungann til, þannig að hann hefði lent meira á framhjólum hennar. Aðspurður hvort lengd hemlafaranna gæti af þessum ástæðum gefið til kynna hraða bifreiðarinnar kvað hann sér finnast að lengd þeirra gæti engan veginn gefið hraðann til kynna.
Vitnið Bragi Guðlaugsson, kt. 310350-4359, skýrði svo frá að þennan morgun hefði hann ekið bifreið sinni, KI-693, af Sturlugötu inn á Suðurgötu til norðurs eftir hægri akrein götunnar. Áður en hann beygði inn á Suðurgötu hefði hann litið til vinstri og séð bílljós í fjarska. Þegar vitnið hafði ekið á að giska 10-20 metra norður Suðurgötu kvaðst hann hafa séð, í baksýnisspegli bifreiðar sinnar, ökuljós bifreiðar sem ekið var eftir sömu akrein, og nálguðust bifreiðina KI-693 nokkuð hratt, enda hefði sú bifreið þá ekki verið búin að ná mikilli ferð. Þegar bifreið vitnisins var komin á nokkra ferð hefði bifreiðin sem á eftir kom skipt um akrein og ekið fram úr bifreið vitnisins og hefði dregið í sundur með bifreiðunum. Taldi vitnið að bifreið sín hefði verið búin að ná u.þ.b. 40 km hraða þegar sú bifreið, sem var sendibifreið, nokkuð dökk að lit, ók fram úr bifreið vitnisins. Kveðst vitnið ekki hafa farið upp í meira en 50-60 km hraða er hann ók norður götuna. Vitnið taldi sendibifreiðinni hafa verið ekið norður Suðurgötu eftir vinstri akrein. Þegar sendibifreiðin var komin alllangt fram úr bifreið vitnisins kvaðst hann hafa séð og heyrt að henni var snögghemlað, og er vitnið kom að sendibifreiðinni hefði hann stöðvað lítið eitt fyrir framan hana og þannig lokað hægri akreininni. Sendibifreiðin hefði verið á vinstri akreininni, lítið eitt á ská. Í sama mund og vitnið stöðvaði bifreiðina hefði borið þarna að tvo menn sem sögðu vitninu að hringja í Neyðarlínuna og tilkynna um slys. Kvaðst vitnið hafa lýst fyrir starfsmönnum Neyðarlínunnar hvað þarna hefði átt sér stað og reynt að lýsa ástandi konunnar. Þá hefði fleira fólk verið komið að og verið að hlynna að konunni. Vitnið kvað konuna hafa legið á vinstri akreininni fyrir framan sendibifreiðina. Kvað vitnið sér hafa virst sem konan væri ekki með lífsmarki. Vitnið kvað slysið hafa átt sér stað laust eftir klukkan átta. Það hafi verið snjólaust og þurrt, en dimmt, akstursskilyrði góð og götulýsing þokkaleg.
Aðspurður hvort verið gæti að sendibifreiðin hefði farið yfir á hægri akrein á ný eftir að henni hafði verið ekið fram úr bifreið vitnisins kvaðst vitnið telja að svo hefði ekki verið. Kveður vitnið lýsinguna á þessum stað ekki vera svo mikla að unnt sé að gera sér grein fyrir staðsetningu bifreiða á götunni, þ.e. hvort þær eru á hægri eða vinstri akrein. Vitnið taldi að þegar hann heyrði að sendibifreiðinni var nauðhemlað hefðu 50-100 metrar verið á milli bifreiðar hans og sendibifreiðarinnar. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar konan varð fyrir sendibifreiðinni. Hefði hann ekki séð hana fyrr en eftir slysið. Vitnið taldi að hann hefði verið búinn að aka á að giska 30-40 metra norður Suðurgötu þegar sendibifreiðinni var ekið fram úr bifreið hans og taldi bifreið sína þá hafa verið í öðru ganghraðastigi. Borin var undir vitnið skýrsla hans hjá lögreglu 17. desember 1997. Vitnið staðfesti efni skýrslunnar.
Vitnið Heimir Andri Jónsson lögreglumaður, kt. 100767-4659, sá í dóminum frumskýrslu málsins, kvað hana rétta og staðfesti nafnritun sína undir hana. Þá sá vitnið ljósmyndir teknar á slysstað. Vitnið staðfesti að ljósmyndirnar hefðu verið teknar á vettvangi.
Vitnið Guðlaugur Einarsson lögreglumaður, kt. 290158-5679, sá í dóminum vettvangsuppdrátt dagsettan 17. desember sl. Kvað vitnið uppdráttinn vera réttan og staðfesti að hafa fært inn á hann afstöðu bifreiðar og hinnar slösuðu eftir bestu vitund og samvisku og kannaðist við nafnritun sína á uppdrættinum. Þá sá vitnið ljósmyndamöppuna og staðfesti að ljósmyndirnar hefðu verið teknar á vettvangi. Vitnið kvaðst hafa mælt hemlaför bifreiðarinnar og mætti treysta því að hemlaförin hefðu verið færð hlutfallslega rétt inn á vettvangsuppdráttinn.
Í ályktun krufningarskýrslu segir svo: „Krufningin leiddi í ljós að banamein konunnar voru fjöláverkar þeir sem hún hlaut er hún varð fyrir bifreið sem vegfarandi á leið yfir götu. Voru áverkarnir mestir á brjósthol hægra megin og höfuð hægra megin svo rif brotnuðu og skaði varð á lungum með blæðingum inn í brjósthol og nálæg líffæri.
Reynt var að gera skurðaðgerð og stöðva blæðingar en áverkarnir voru þess eðlis að ekki varð við ráðið og lést hún af völdum fjöláverkanna.”
Niðurstaða.
Mál þetta varðar banaslys á Suðurgötu við Guðbrandsgötu, hér í borg, laust eftir kl. átta að morgni 17. desember 1997. Myrkur var, en götulýsing góð og yfirborð malbikaðrar götunnar þurrt og slétt. Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var vindátt austan eða austnorðaustan, þrjú vindstig, skýjað, hiti nálægt sjö gráðum og skyggni 50-60 km. Vitnið Bragi Guðlaugsson kveðst hafa séð aðdraganda slyssins, en hann sá ekki til ferða konunnar sem varð fyrir bifreið ákærða. Að sögn ákærða sá hann ekki til ferða konunnar fyrr en örskömmu áður en hún varð fyrir bifreið hans. Óljóst er hvort konan var á leið norður eða suður yfir Suðurgötu greint sinn og telur dómurinn ekki unnt að slá neinu föstu í þeim efnum. Þar sem slysið varð hagar svo til að umferðareyja er sem skilur að eystri og vestari akbraut Suðurgötu. Myndar vestari akbraut Suðurgötu gatnamót við Guðbrandsgötu, en umferðareyjan er heil þannig að ekki er hægt að komast af Guðbrandsgötu yfir á eystri akbraut Suðurgötu. Verður að fallast á það með ákærða að vegna þessara aðstæðna verði þetta ekki talin eiginleg gatnamót í skilningi 2. gr. umferðarlaga. Engin merkt gangbraut er á þeim stað þar sem konan gekk yfir götuna, en allnokkru sunnar er merkt gangbraut með handstýrðum umferðarljósum.
Ákærði telur sig hafa ekið norður Suðurgötu á eðlilegum umferðarhraða þennan morgun og hefur nefnt 50-60 km hraða á klst. í því sambandi, en hámarkshraði á Suðurgötu er 50 km á klst. Miðað við árstíma voru akstursskilyrði ákjósanleg, en bifreiðin sem ákærði ók var búin negldum vetrarhjólbörðum. Ef miðað er við hemlaför á vettvangi fær sá ökuhraði sem ákærði tilgreinir ekki staðist. Allt að einu eru þó eigi efni til að taka alfarið mið af lengd hemlafara þegar hraði bifreiðarinnar sem ákærði ók er metinn. Dómurinn telur þó ekki varhugavert með hliðsjón af lengd hemlafaranna að slá því föstu að ákærði hafi ekið á um 65 km hraða á klukkustund greint sinn. Telur dómurinn framburð vitnisins, Braga Guðlaugssonar, styrkja þessa niðurstöðu fremur en veikja.
Þá þykir við úrlausn málsins mega miða við framburð ákærða um aðdraganda slyssins að öðru leyti en því sem að framan segir, en framburður hans fær að hluta til stuðning í framburði vitnisins, Braga Guðlaugssonar. Þannig verður að telja að ákærða hefði átt að vera unnt að sjá til ferða konunnar mun fyrr en raun varð, enda ekkert sem byrgði honum sýn. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að hinn gangandi vegfarandi átti umtalsverða sök á slysinu.
Að öllu framanrituðu virtu telur dómurinn sannað að ákærði hafi ekið án nægjanlegrar aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðamörk, í myrkri í þéttbýli með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Verður hann samkvæmt því sakfelldur fyrir brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu í málinu. Við ákvörðun refsingar ber samkvæmt framansögðu að taka tillit til sakar konunnar. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tuttugu daga, skilorðsbundin til tveggja ára.
Þá þykir ekki verða hjá því komist að líta svo á að ákærði hafi með framferði sínu unnið til þess að verða sviptur ökurétti, svo sem krafist er í ákærunni og samkvæmt lagaákvæði því er þar greinir. Þykir hæfilegt að svipta ákærða ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Loks ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með taldar 60.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, og jafnháa fjárhæð í saksóknarlaun í ríkissjóð.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Ársælsson, sæti fangelsi í 20 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og niður skal hún falla að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 60.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, og jafnháa fjárhæð í saksóknarlaun til ríkissjóðs.