Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 8. maí 2009. |
|
Nr. 200/2009. |
A(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Sveitarfélaginu B(enginn) |
Kærumál. Lögræði.
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að A yrði sviptur fjárræði ótímabundið frá 27. mars 2009 á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands Vestra 27. mars 2009, þar sem sóknaraðili var sviptur fjárræði ótímabundið frá 27. mars 2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Félagsmálayfirvöld í sveitarfélaginu B eru bær til að hafa uppi kröfu til fjárræðissviptingar í máli þessu á grundvelli d. liðs 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Í málinu liggur fyrir vottorð Jóns Brynjólfssonar geðlæknis 16. desember 2008 um heilsuhagi sóknaraðila. Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til að svipta sóknaraðila fjárræði frá 27. mars 2009 með heimild í a. lið 4. gr. lögræðislaga. Það athugast þó að héraðsdómara hefði verið rétt, sbr. 11. gr. laganna, að kveðja geðlækninn fyrir dóm til staðfestingar á vottorðinu. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. mars 2009.
I
Mál þetta, sem var þingfest og tekið til úrskurðar 24. þessa mánaðar, barst dóminum 12. janúar sl.
Sóknaraðili er B en fyrir þess hönd fer með málið C félagsmálastjóri.
Varnaraðili er A, [heimilisfang], [...].
Eftir að málið barst dóminum var Einar Sigurjónsson héraðsdómslögmaður skipaður verjandi varnaraðila með vísan til 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Af hálfu sóknaraðila var ekki óskað eftir skipun talsmanns.
Sóknaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til a. liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
II
Varnaraðili sótti þing ásamt skipuðum verjanda sínum við þingfestingu málsins. Þar sagðist hann vera andvígur framkominni kröfu. Verjandi lýsti því yfir að hann hefði kynnt sér hagi varnaraðila og kvaðst telja að varnaraðili væri ófær um að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna, sérstaklega varðandi fyrirhuguð skipti á dánarbúi foreldra hans.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi árum saman átt við geðsjúkdóm að stríða og lengi búið í skjóli aldraðrar móður sinnar sem nú er látin en fyrir liggi að beðið hafi verið um opinber skipti á dánarbúi hennar. Sóknaraðili telur víst að varnaraðili sé ekki fær um að gæta hagsmuna sinna við búskiptin né heldur ráða fé sínu vegna geðsjúkdóms og jafnvel vanþroska eða ellisljóleika. Með því að svipta hann fjárræði verði unnt að koma í veg fyrir að hann verði hafður að féþúfu og draga úr betli hans. Sóknaraðili heldur því fram að hegðan varnaraðila hafi þótt undarleg áratugum saman en hún hafi verið umborin af samfélaginu sem hann þekki vel. Hann sé einfari sem hafi haldið heimili með aldraðri móður sinni þar sem varla nokkur maður hafi fengið að koma inn. Löngum stundum hafi starfsmaður félagsþjónustu ekki fengið að koma inn á heimilið og því verið torvelt að koma að æskilegri þjónustu. Móðir varnaraðila hafi alfarið hafnað þjónustu við heimilið þó þannig að þangað hafi heimahjúkrunarfræðingur fengið að koma. Varnaraðili hafi sjálfur sótt þjónustu í Iðju um tíma en hætt því er halla tók í sjötugt. Eftir lát móður varnaraðila þiggi hann heimaþjónustu, heimsendan mat, aðstoð við fatakaup og fleira smálegt. Að mati sóknaraðila eru húsakynni vart íbúðarhæf og óþrif mikil. Í beiðni sóknaraðila er því einnig lýst að varnaraðili hafi nokkrum sinnum, nauðugur, verið lagður inn á geðdeildir en ekki hafi þurft að óska eftir sviptingu sjálfræðis hans þar sem hann hafi samþykkt dvöl á geðdeild þegar hann hefur verið kominn þangað.
Í beiðninni er því ennfremur lýst að varnaraðili hafi verið í tengslum við ráðgjafa félagsþjónustunnar. Hann hafi þá helst viljað ræða peningamálin sem standi illa þrátt fyrir að hann hafi í tekjur óskertar tryggingabætur og sáralítil útgjöld vegna húsnæðis. Þetta skýrist af því að varnaraðili hafi iðulega sent stóran hlut bóta sinna til frænda síns og konu hans sem hafi haft varnaraðila að féþúfu árum saman en þau séu bæði þroskaskert. Varnaraðili hafi stundað betl í bænum og undan því hafi mikið verið kvartað við félagsþjónustu og lögreglu enda hegðun hans oft óþægileg og andfélagsleg. Reynt hafi verið að stöðva peningasendingar varnaraðila til frænda hans m.a. með því að rita bréf til félagsmálayfirvalda þar sem þau búa en allt á árangurs. Þá kemur fram í beiðninni að félagsmálastjóri hafi margsinnis rætt við varnaraðila og hvatt hann til að fá sér skipaðan fjárhaldsmann en það hafi hann ekki viljað. Raunar efast félagsmálastjóri um að varnaraðli geri sér grein fyrir því hvað um er að ræða og þá hafi hann þvertekið fyrir að honum yrði skipaður ráðsmaður við búskiptin.
Sóknaraðili heldur því fram að dómgreind varnaraðila sé verulega skert vegna geðsjúkdóms hans og þá geri hann sér illa eða alls ekki grein fyrir stöðu sinni og hagsmunum. Þetta leiði til þess að óhjákvæmilegt sé að fara þess á leit að hann verði sviptur fjárræði.
Með beiðni sóknaraðila fylgir ítarlegt vottorð Jóns Brynjólfssonar geðlæknis þar sem rakin er saga varnaraðila. Gerð grein fyrir heilsufari hans og geðskoðun sem fram fór í lok síðasta árs. Í samantakt og niðurstöðu vottorðsins segir svo „72ja ára gamall karlmaður, ógiftur og barnlaus öryrki sem hefur átt við geðræn vandamál að stríða stóran hluta ævi sinnar. Á síðari árum greinst með alvarlegan geðsjúkdóm og fengið viðeigandi læknismeðferð við honum bæði með innlögnum á sjúkrahús og eftirliti og lyfjameðferð í héraði. Það hefur komið fram í viðtölum við A að hann hafi átt ákaflega erfiða æsku. Reyndist vel hæfur til náms og náði m.a. landsprófi á sínum tíma. Um miðja ævi fer að halla undan fæti hjá A, hann greindist síðan með geðhvarfasjúkdóm og afbrigði af geðklofa, sem lyf hafa oft ráðið illa við, einkum vegna þess að sjúklingur hefur verið sérstaklega ósamvinnuþýður framan af með lyfjatöku en með eftirliti starfsfólks heilsugæslu hefur lyfjataka gengið átakalaust og heilsufar A verið með skásta móti síðustu árin en einnig hafa líkamlegir sjúkdómar hrjáð hann nú á efri árum, svo sem offita og algjört þrekleysi. A hefur allan sl. áratug ekki sinnt sínum frumþörfum, hefur ekki hjálparlaust sinnt eðlilegri fæðutöku, hirt sig né stjórnað úrgangi. Heilbrigðis- og félagsþjónusta hefur veitt honum mest mögulega aðstoð sem hefur gert honum kleif að búa áfram heima. Aðstoð hefur verið þröngvað inn á hann þar sem hann hefur hvorki innsæi né frumkvæði til að bera sig eftir björginni varðandi athafnir daglegs lífs.
Það er ljóst að innsæi A í eigin veikindi er mjög skert og hann spjarar sig einungis utan stofnunar með ýtrustu aðstoð. Hann hefur ranghugmyndir um sekt sem dregur úr getu hans til umsýslu jarðneskra eigna og gerir hann þ.a.l. óhæfan til að stjórna fjármálum sínum.“
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og sjónarmiða verjanda varnaraðila, þykir fram komin nægileg þörf til að varnaraðili verði með vísan til a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 sviptur fjárræði líkt og krafist er.
Þóknun, verjanda varnaraðila, Einars Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
A kt. [...], [heimilisfang], [...] er sviptur fjárræði frá 27. mars 2009.
Þóknun, skipaðs verjanda varnaraðila, Einars Sigurjónssonar, héraðsdóms-lögmanns, 60.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.