Hæstiréttur íslands

Mál nr. 448/2002


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Dráttur á dómsuppsögu


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. mars 2003.

Nr. 448/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Andri Árnason hrl.)

 

Ómerking. Heimvísun. Dráttur á dómsuppsögu.

Þar sem meira en átta vikur höfðu liðið frá munnlegum málflutningi til dómsuppsögu í héraði var hinn áfrýjaði dómur með vísan til fordæma Hæstaréttar ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. september 2002 til sakfellingar samkvæmt ákæru, refsiákvörðunar og sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákæra í máli þessu var gefin út 9. nóvember 2001 og var það þingfest 11. desember sama ár. Málið var tekið til dóms í lok aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Austurlands 5. apríl 2002. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 16. júlí 2002.  Í niðurlagi dómsins sagði, að dómsuppkvaðning hefði dregist umfram lögskilinn tíma vegna embættisanna dómarans.

Samkvæmt 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal kveða upp dóm svo fljótt sem unnt er og að jafnaði ekki síðar en þremur vikum eftir dómtöku. Sé ekki kostur að kveða upp dóm svo fljótt skal gera grein fyrir orsökum þess í dóminum. Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar þykir rétt að líta svo á, að héraðsdómur verði að jafnaði ekki kveðinn upp að réttu lagi án raunverulegs endurflutnings, ef liðnar eru átta vikur frá munnlegum málflutningi, enda getur hann ekki komið að því gagni, sem til er ætlast, þegar dómsuppsaga dregst svo lengi.

Af þessum sökum verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með 16. júlí 2002 og leggja fyrir héraðsdómara að taka það til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt þykir, að kostnaður af meðferð málsins til þessa verði ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði, og ber að greiða hann úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá og með 16. júlí 2002 að telja og er málinu vísað í Héraðsdóm Austurlands til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Greiða skal sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Hilmars Gunnlaugssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 16. júlí 2002.

                Málið, sem þingfest var 11. desember 2001 og dómtekið var að lokinni aðalmeðferð og munnlegum málflutningi 5. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, dagsettri 9. nóvember 2001 gegn X.

„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 24. júní 2001 ekið bifreiðinni VJ526 frá Breiðdalsvík norður að vegamótum þjóðvegar 97 og 96 og síðan beygt án nægilegrar aðgæslu við vegamótin inn á þjóðveg 96, með akstursstefnu í vestur, í veg fyrir bifreiðina U-2717, sem ekið var austur þjóðveg 96 og átti forgang, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum, en við áreksturinn hlaut farþegi í aftursæti bifreiðarinnar U-2717, A, það mikla áverka á höfði með heilablæðingu að hún lést á leið á sjúkrahús og farþegi í framsæti U-2717, B, hlaut brot á höfuðkúpu, nefbeini, lærbeini og mjöðm.

Telst þetta varða við 215. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 1. mgr. 4.  og 1. og 2. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993.”

Þá er gerð krafa um, að ákærða verði gert að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða.

Af hálfu ákærða eru gerðar þær kröfur, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst ákærði þess, að allur sakarkostnaður, þar með talin þóknun til verjanda ákærða, verði greiddur úr ríkissjóði.

                Málavextir eru þeir, samkvæmt frumskýrslu lögreglu, að sunnudaginn 24. júní 2001 kl. 16:48 bárust lögreglunni á Eskifirði boð frá Neyðarlínunni um að alvarlegt umferðarslys hefði orðið við afleggjarann að Breiðdalsvík. Þegar lögreglan hafi komið á  vettvang, hafi mátt sjá tvær bifreiðar, jeppabifreið og fólksbifreið, mikið skemmdar í vinstri vegarkanti þjóðvegar 96 við gatnamótin að Breiðdalsvík. Fólksbifreiðin var sjáanlega mikið meira löskuð.

                Eftir upplýsingum á vettvangi mun fólksbifreiðin hafa verið að koma að sunnan eftir þjóðvegi 96 þegar jeppabifreiðinni, sem var að koma frá Breiðdalsvík, var ekið út á gatnamótin. Fólksbifreiðin virtist hafa lent með hægri hlið á framstuðara og hægra horn jeppabifreiðarinnar. Á ummerkjum á veginum hafi mátt sjá að jeppabifreiðin hafi snúist í heilhring við höggið frá fólksbifreiðinni og stöðvast í öfugri stefnu við akstursstefnu. Fólksbifreiðin hafði stöðvast á festingum vegvísis í vinstri kanti þjóðvegar 96 og mun það hafa varnað því, að bifreiðin ylti fram af veginum og ofan í læk, sem rennur þarna undir veginn.

                Á vettvangi fékk lögreglan upplýsingar um, að jeppabifreiðinni hefði verið bakkað frá þeim stað, sem hún stöðvaðist á, þangað, sem hún var þegar lögreglan kom á vettang og var tilgangurinn með þeirri færslu sá, að nota dráttarspil í framstuðara jeppans til að draga fólksbifreiðina til og ná henni á hjólin, þar sem hún lá næstum því á hliðinni uppi við festingar vegvísisins. Var þetta gert til þess að komast mætti að þeim slösuðu í fólksbifreiðinni. Tveir menn munu hafa verið í jeppabifreiðinni og sluppu þeir alveg við meiðsl. Í fólksbifreiðinni voru þrír farþegar auk ökumanns. Ökumaður og farþegi vinstra megin aftur í sluppu ómeiddir. Farþegi í framsæti fólksbifreiðarinnar hægra megin slasaðist mikið. Farþegi í aftursæti bifreiðarinnar hægra megin lést af völdum áverk í sjúkrabifreiða á leið til Egilsstaða.

                Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi, að niðaþoka hefði verið, en mjög stillt og gott veður. Hann kvaðst hafa verið að koma frá Breiðdalsvík og stöðvað við gatnamótin og litið til beggja handa og ekki séð neina umferð úr hvorugri áttinni. Þegar hann hafi svo lagt af stað og litið suðureftir hafi hann séð, að það var að koma bíll úr þeirri átt. Fyrst hefði honum fundist hann hafa tíma til að halda áfram, en sá svo, að í óefni var komið. Hann hafi þá rifið í stýrið og reynt að sveigja bílnum til vinstri. Stýrið hafi hins vegar ekki verkað eins og skyldi og hafi hann þá hreinlega frosið og neglt bílinn niður á staðnum og hefði hans bifreið verið kyrrstæð, þegar áreksturinn varð. Ákærði taldi sig hafa fyrst séð hinn bílinn þegar hann var við syðri gatnamótin, þ.e. við veginn, sem liggur upp í Breiðdal. Hann kvaðst ekki hafa séð til bílsins fyrr en hann sjálfur hafði hafið akstur inn á gatnamótin. Fram kom, að nokkuð frá gatnamótunum sunnan við þau og við austurkant vegar stóð mannlaus bifreið. Ákærði sagði, að þegar hann hafi séð, að í óefni var að koma, hafi fólksbifreiðin verið komin á vinstri vegarhelming og stefnt þannig að gatnamótunum og hafi það verið ástæða þess, að hann reyndi að beygja til vinstri.  

                Ákærði sagði, að við áreksturinn hefði bíll hans snúist til þannig, að hann snéri alveg öfugt við fyrirhugaða akstursstefnu hans inn á veginn. Eftir slysið hefði hann bakkað bílnum í þá stöðu, sem hann er sýndur á uppdrætti og sem sjá má af myndum teknum á slysstað, til þess að koma að dráttarspili til að ná hinni bifreiðinni inn á veginn og á hjólin. Hefði þetta verið gert til þess, að komast mætti að bifreiðini til að ná hinum slösuðu út úr henni. Er sú bifreið einnig sýnd á uppdrætti og á myndum í þeirri stöðu, sem hún var í eftir að hún hafði verið dregin til. 

                 Vitnið, E, ökumaður fólksbifreiðarinnar U 2717, var að koma að sunnan á leið af ættarmóti, sem hann og farþegar í bílnum höfðu verið á um helgina að Hofi í Öræfum og ferðinni hafi verið heitið á Fáskrúðsfjörð. Hann sagði, að veður hefði verið gott, en eftir því sem austar dró, hafi þoka aukist. Hann taldi þó að skyggni hefði verið um 800 m. Þegar hann hafi verið að koma að Breiðdalsvíkurafleggjara hafi hann séð bíl ákærða. Hann hafi hægt ferð eins og hann sé vanur að gera, þegar hann komi að vegamótum. Honum fannst ákærði vera stopp, en þorði þó ekki alveg að fara með það. Hann hafi þá haldið áfram sinni leið og síðan varð áreksturinn. Nánar aðspurður sagði hann, að hann teldi sig hafa verið við Egilsstaðaafleggjarann, þegar hann sá til jeppans og hafi hann þá, að hann minnti, verið kominn að gatnamótunum. Á veginum milli gatnamótanna hafi staðið bíll við hægri vegarkant frá honum séð. Vitnið taldi, að þokan hafi ekki byrgt neitt sýn þarna við gatnamótin. Vitnið sagði, að hann hefði verið á vinstri vegarhelmingi, þegar áreksturinn varð og sagði, að hann hefði, eins og hann taldi eðlilegt, þegar bíll kæmi að honum, reynt að sveigja frá honum. Vitnið sagði, að hann hefði vikið eitthvað til vinstri, er hann fór framhjá kyrrstæða bílnum, en verið kominn aftur inn á hægri vegarhelming eftir það. Hann hefði svo sveigt aftur til vinstri vegna aksturs ákærða inn á veginn. Vitnið sagði, að bíllinn U 2717 hefði ekki verið fallinn til hraðaksturs og hefði mátt koma honum upp fyrir 100 km hraða ef farið var niður brekku, enda hefði vélin ekki verið nema um 80 hestöfl. Hann sagði, að áður en komið er að fyrri vegamótunum sé beinn kafli, aflíðandi upp og taldi hann, að hann hefði hugsanlega getað verið þar á 100 km hraða. Hann taldi sig hafa hafa verið á 70 til 80 km hraða. Hann taldi, að hann hefði séð, að ákærði hafi verið að keyra inn á gatnamótin, um það bil, sem hann hafi verið að koma framhjá kyrrstæða bílnum, en hann taldi, að hann hefði haft augun af jeppanum, er hann var að fara framhjá kyrrstæða bílnum. Hann hafi sveigt aftur til vinstri og hélt, að hann hefði nóg pláss til að komast framhjá fyrir framan hann. Vitnið tók það sérstaklega fram, að hann hefði ætlað að sleppa framhjá jeppanum, enda taldi hann, að hefði hann ekki sveigt til vinstri, hefði hann lent beint í hliðina á honum. Hann var ekki viss um, hvort hann hefði hemlað, þegar hér var komið, en hélt þó ekki.  Hann hefði hægt ferð með því að sleppa olíugjöf. Hann sagðist ekki vera viss um hraðann, en sagðist geta trúað, miðað við þennan bíl,  að hann hefði verið á um 70 til 80 km hraða, eftir að hann hefði hægt ferð.

                Samkvæmt skoðun, sem framkvæmd var á bifreiðunum af dómkvöddum skoðunarmanni, Helga Magnússyni, bifvélavirkja- og vélvikjameistara, var bifreiðin LA 962 (U2717) í ágætu lagi fyrir slysið. Jeppabifreiðin VJ 526 var í lagi fyrir slysið að undanskyldum vandamálum í sambandi við stýri bifreiðarinnar. Í skýrslu sinni segir skoðunarmaður: „Varðandi þær fullyrðingar að stýri bifreiðarinnar festist við snöggt átak á stýrishjóli, kom fram að um var að ræða vandamál sem þekkt er í breyttum jeppum þ.e. þegar búið er að koma fyrir hjálpartjakk á stýrið, sem tengist inn á upphaflegu vökvastýrimaskínu bílsins. Vandamál þetta er tæknilegs eðlis og skýrist af því að vökvi byggir fyrst upp þrýsting í vökvastýrismaskínu, áður en þrýstingur byggist upp í hjálpartjakki og vegna þess, að vökvadæla fyrir vökvastýri er ekki að dæla nægilegu magni vökva við þær aðstæður sem skapast við svo snöggt átak á stýrishjóli. Einnig má ætla að vökvalagnir séu of grannar til þess að leysa þetta vandamál til fullnustu, þó svo að aukið væri við vökvadælingu. Eins og fyrr segir er þetta vandamál vel þekkt og einnig að breyting þessi veldur því að bifreiðin réttir ekki stýri af eftir beygju eins og hún alla jafnan á að gera. Þetta vandamál mætti að mínu mati lágmarka með því að setja sverari vökvalagnir að hjálpartjakk.” Þá segir í skýrslunni: „Breytingar á bifreiðinni virðast vera vel unnar og í samræmi við gildandi reglugerðir.”

Nokkur vitni komu fyrir dóm og gáfu skýrslu um ætlaðan akstur og aksturslag vitnisins E, fyrir slysið. Ekki er talið, að framburður þeirra hafi neina þýðingu í máli þessu og verða þeir ekki raktir frekar.

Þá voru teknar skýrslur af F, sem mun hafa komið fyrstur á vettvang eftir slysið og séra G, sem átti leið um vettvang nokkru fyrir slysið og kom á vettvang skömmu eftir slysið. Hvorugur þessara framburða telst skipta máli um niðurstöðu þessa máls og verða þeir ekki raktir frekar. 

Í jeppabifreiðinni var auk ökumannsins, ákærða, X, D.

Engin skýrsla var tekin af D.

Hvorugur þeirra mun hafa hlotið nein meiðsli í árekstrinum.

Í fólksbifreiðinni voru þrír farþegar auk ökumannsins, E. Þeir voru B, 13 ára, A, 13 ára, og C, 13 ára.

                Engin skýrsla var tekin af þeim farþegum í fólksbifreiðinni, sem komust af, enda upplýst, að þær hefðu verið sofandi, þegar slysið varð.

Þau E og C munu ekki hafa hlotið nein teljandi meiðsli í árekstrinum. 

                A, lést í sjúkrabíl á leið af slysstað til Egilsstaða. Í skýrslu um réttarkrufningu segir m.a.: „Krufningin leiddi í ljós að áverkar þeir, sem hún hlaut  er hún lenti í bifreiðaslysi leiddu hana til dauða. Var þar um að ræða áverka á höfuð með heilablæðingu (subarachnoidal) svo og hlaut hún mjög alvarlega áverka á ganglimum með læleggsbroti beggja megin og áverkamerki voru í innri líffærum. Hefur hún einnig kastað upp við slysið og sökum meðvitundarleysis hefur matur borist í öndunarvegi. Er því innri lokun á öndunarvegum vegna uppkasta meðverkandi dánarorsök.”

                B, var ekið með sjúkrabíl af slysstað til Egilsstaða og þaðan með þyrlu á slysadeild Landsspítala í Fossvogi. Samkvæmt vottorði Sævars Halldórssonar, læknis, sýndi traumascann við komu á spítalann, „víðtæka áverka, m.a. blæðingu í heilahólf, brot á höfuðkúpu, nefbeini, lærbeini, mjöðm og víðar. Telpan var strax flutt á gjörgæsludeild og vegna hækkandi þrýstings í heila var settur þrýstingsmælir í heilann. Lungnastarfsemi var verulega skert vegna mars á lungum.”

Við aðalmeðferð málsins fóru dómari og málflytjendur á slysvettvang og skoðuðu aðstæður.

Niðurstaða:

Samkvæmt uppdráttum, sem lagðir eru fram í málinu, eru um 220 m milli vegamótanna, þar sem slysið varð, og vegamótanna þar fyrir sunnan, þar sem þjóðvegur 1 liggur upp í Breiðdal.

Ákærði og ökumaður U 2717 voru sammála um að skyggni hefði ekki verið skert af völdum þoku.

Ákærði taldi, að hann hefði séð bifreiðina U 2717 fyrst, þegar hann var að leggja af stað inn á gatnamótin, en þá hefði hún verið við syðri vegamótin, þar sem vegurinn liggur upp í Breiðadal.

Vitnið E taldi sig hafa séð til VJ 526, þegar hann hafi verið staddur við syðri vegamótin og hafi jeppinn þá verið kominn að gatnamótunum, þar sem slysið varð.

Fram kom hjá ákærða, að hann hefði skyndilega séð, að U 2717 var komin yfir á vinstri vegarhelming og þannig á þann vegarhelming, sem hann sjálfur stefndi inn á. Hann taldi sig hafa gert hvort tveggja, að hemla og reyna að beygja frá til vinstri. Hafi honum tekist að stöðva bifreiðina, en beygjan tókst ekki vegna eiginleika í bílnum. Sjá má af uppdrætti lögreglu af vettvangi, för eftir framhjól VJ 526 og virðast þau ekki hafa verið komin yfir miðlínuna, þegar áreksturinn varð.

Ökumaður U 2717 bar það, að hann hann hefði séð VJ 526 ekið inn á gatnamótin þegar hann var að aka framhjá kyrrstæðum bíl, sem stóð mannlaus við veginn nokkru sunnan gatnamótanna. Hann hefði haft augun af jeppanum þegar hann var að aka framhjá þeim bíl, en síðan virst sem hann hefði nægilegt pláss til að komast fyrir framan jeppann á vinstri vegarhelmingi og hefði hann ætlað sér að aka þannig framhjá honum. Hann minntist þess ekki að hafa gert neitt til að hægja ferð þegar þarna var komið. 

Draga má þá ályktun af uppdrætti lögreglunnar af vettvangi, að ökumaður U 2717 hafi haft nægilegt pláss til þess að aka framhjá VJ 526 með þessum hætti, ef það hefði verið gert með gát.

Ósannað er, að skemmra hafi verið á milli bifreiðanna en vegalengdin á milli gatnamótanna, þegar ákærði ók inn á gatnamótin. Þá er ósannað, að ákærði hafi með akstri sínum lokað svo akstursleið U 2717, að ökumaður þeirrar bifreiðar hefði ekki með eðlilegri aðgát getað komist framhjá án óhappa.

Hefur þannig ekki verið sýnt fram á, að ákærði hafi sýnt af sér það gáleysi við aksturinn eða valdið því slysi, sem hér um ræðir með gálausum hætti, að varðað geti við þau lagaákvæði, sem í ákæru greinir.

Leiðir af þessu, að sýkna ber ákærða, X, af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæslulaun á rannsóknarstigi skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Gunnlaugssonar, hdl.  150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.   

Logi Guðbrandsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist umfram lögskilinn tíma vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

                Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.    

Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.