Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2005


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Tilboð
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. desember 2005.

Nr. 233/2005.

H.B. Harðarson ehf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Sigurnesi ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Verksamningur. Tilboð. Matsgerð.

S gerði í samning við fyrirtækið N um að N reisti stálgrindahús í Garðabæ, legði til álglugga í húsið og setti þá í. Í ljós kom að gluggarnir láku. Tókust samningar með málsaðilum um að HB skyldi gera við gluggana og þétta þá en ágreiningur reis síðar milli þeirra um framkvæmd verksins og endurgjald fyrir það. Höfðaði S mál til heimtu skaðabóta þar sem verk HB hefði verið gallað, en HB krafðist á móti greiðslu þriggja ógreiddra reikninga. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að samningar hafi tekist um tiltekið endurgjald fyrir vinnu HB við þéttingu glugganna og ýmsa aukavinnu. Þar að auki hafi HB unnið að nánar tilgreindum fjórum verkþáttum og var ákvarðað hæfilegt endurgjald fyrir þá. Þá var einnig talið að þurft hafi að lagfæra 20 glugga af 40 gluggum sem HB hafði gert við og var honum gert að greiða S bætur á grundvelli matsgerðar vegna kostnaðar við viðgerð á þeim. Í greinargerð fyrir Hæstarétti mótmælti HB því að virðisaukaskattur væti talinn með í áætluðum viðgerðarkostnaði, en sú málsástæða var talin of seint fram komin með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga um meðferð einkamála. Þá var talið ósannað að S hefði haft til taks leigjanda að fasteigninni á þeim tíma er máli skipti og var því hafnað kröfu S vegna missis leigutekna. Einnig var hafnað kröfu S um bætur vegna kaupa á sérfræðiaðstoð. Var málskostnaður felldur niður fyrir Hæstarétti en HB gert að bera meginkostnað af matsgerð dómkvaddra matsmanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júní 2005. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 10.736.624 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 10.021.678 krónum frá 31. janúar 2003 til 21. nóvember sama ár en af 10.736.624 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. júlí 2005. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda. Þá krefst hann þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 23.813.436 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. janúar 2003 til 8. apríl 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt  1. mgr. 6. gr. laganna frá 8. apríl 2004 til greiðsludags. Til vara krefst hann 4.312.050 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. apríl 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda.

I.

Gagnáfrýjandi mun í september 2001 hafa gert samning við Norðurstál ehf. um að hinn síðarnefndi tæki að sér að sér að reisa stálgrindahús á lóðinni númer 4 við Miðhraun í Garðabæ. Skyldi Norðurstál ehf. leggja til álglugga í húsið og setja þá í. Í ljós kom að gluggarnir láku. Í september 2002 tókust samningar með málsaðilum um að aðaláfrýjandi skyldi gera við gluggana og þétta þá. Reis ágreiningur milli þeirra varðandi framkvæmd þess verks og endurgjald fyrir það. Höfðaði gagnáfrýjandi mál þetta í héraði 25. júní 2004 og reisti málatilbúnað sinn á því að verk aðaláfrýjanda hefði verið gallað og ætti hann aðallega rétt til skaðabóta vegna þess. Var sú krafa þríþætt. Laut hún að bótum vegna kostnaðar við að bæta úr göllum á verkinu, bótum vegna missis leigutekna og loks bótum vegna útgjalda er hann hefði orðið fyrir vegna ráðgjafarvinnu verkfræðings í tilefni af ágreiningi aðila. Aðaláfrýjandi höfðaði gagnsök í héraði 23. júlí 2004 og gerði kröfu um greiðslu ógreidds hluta endurgjalds vegna verksins samkvæmt þremur reikningum. Málavöxtum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir Hæstarétti gera málsaðilar sömu kröfur og fyrir héraðsdómi. Gagnáfrýjandi hefur þó lækkað bótakröfu sína um 761.950 krónur, en það telur hann vera mun á umsömdu endurgjaldi fyrir verkið og því sem hann hafi greitt aðaláfrýjanda í verklaun.

II.

Eins og rakið er í héraðsdómi var ekki gerður skriflegur samningur með aðilum um framkvæmd alls hins umdeilda verks. Ágreiningslaust er að aðaláfrýjandi hóf verkið á grundvelli skriflegs tilboðs 5. september 2002 og að það tilboð samsvari endurgjaldi að fjárhæð 6.361.950 krónur með virðisaukaskatti. Þá er ágreiningslaust að aðaláfrýjandi hafi unnið að fleiri verkþáttum en innifaldir voru í upphaflegu tilboðsverði og sýnist raunar gengið út frá því að svo muni verða í tilboðinu sjálfu. Gagnáfrýjandi heldur því fram að samningur hafi komist á með aðilum um framkvæmd aukaverka gegn 2.400.000 króna endurgjaldi en aðaláfrýjandi telur að þrátt fyrir samningatilraunir hafi ekki tekist að semja um fast endurgjald fyrir viðbótarverk og hafi allt verkið þróast yfir í að vera unnið í tímavinnu. Meðal gagna málsins er frásögn Jóns Guðmundssonar verkfræðings af verkfundi 6. febrúar 2003, en Jón var eftirlitsmaður gagnáfrýjanda með framkvæmd verksins. Frásögnin er í formi bréfs til gagnáfrýjanda dagsetts 20. október 2003. Frásögn þessi er í 15 liðum þar sem farið var yfir verkþætti sem „verktakar töldu að á vantaði greiðslur.“ Af frásögn af umræðum um einstaka liði sýnist að varðandi fimm þeirra hafi verið rætt hvort þeir væru hluti „seinna tilboðs“. Þá er meðal gagna málsins óundirrituð fundargerð Þorsteins Egilssonar af fundi aðila 8. og 9. apríl 2003, en gagnáfrýjandi fékk Þorstein til aðstoðar í tilefni ágreinings aðila. Í fundargerðinni kemur ítrekað fram að gerður hafi verið viðbótarsamningur milli aðila um nánar tilgreind aukaverk. Er bókað að samningur þessi hafi verið gerður um mánaðamótin október og nóvember 2002. Enda þótt það rýri sönnunargildi þessara gagna að þau stafa frá mönnum sem tengdust gagnáfrýjanda eru þau til styrktar öðru sem fram er komið um að sönnur teljist færðar á að viðbótarsamningur hafi tekist með aðilum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsóms verður staðfest sú niðurstaða hans að samningar hafi tekist um endurgjald að fjárhæð 8.761.950 krónur fyrir vinnu aðaláfrýjanda fyrir þéttingu glugganna og ýmsa aukavinnu. Þá verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms með vísan til forsendna hans að aðaláfrýjandi hafi að auki unnið að þar nánar tilgreindum fjórum verkþáttum og að hæfilegt endurgjald fyrir þá sé samtals 455.000 krónur.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður einnig staðfest sú niðurstaða hans að aðaláfrýjanda beri á grundvelli niðurstöðu dómkvaddra matsmanna að greiða gagnáfrýjanda 2.537.000 krónur vegna kostnaðar við viðgerð á 20 gluggum í húsinu. Í greinargerð til Hæstaréttar mótmælti aðaláfrýjandi því að virðisaukaskattur væri talinn með í áætluðum viðgerðarkostnaði eins og gert er í matsgerð hinna dómkvöddu manna, enda væri fasteignin að Miðhrauni 4 skráð svonefndri frjálsri skráningu samkvæmt reglugerð nr. 577/1989. Gagnáfrýjandi mótmælti þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Verður á það fallist að ekki verði á henni byggt fyrir Hæstarétti með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994. Loks er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að hafna kröfu gagnáfrýjanda vegna missis leigutekna og sérfræðiaðstoðar með vísan til forsendna hans. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest um annað en málskostnað.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi reisti gagnáfrýjandi kröfu sína um bætur vegna kostnaðar við að bæta úr galla á verki aðaláfrýjanda á mati dómkvaddra manna. Beiddist hann dómkvaðningar þeirra og greiddi 536.929 krónur í matskostnað. Með hinum áfrýjaða dómi, sem hér er staðfestur að þessu leyti, var fallist á hluta þeirrar kröfu er gagnáfrýjandi reisti á matinu. Ber því að haga málskostnaðarákvörðun fyrir héraðsdómi þannig að aðaláfrýjandi beri að mestu kostnað af matinu. Að öðru leyti er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.   

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, H.B. Harðarson ehf., greiði gagnáfrýjanda, Sigurnesi ehf., 500.000 krónur í málskostað í héraði.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2005.

             Mál þetta, sem var dómtekið 18. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 25. júní 2004 af Sigurnesi hf., Suðurlandsbraut 30, Reykjavík gegn H.B. Harðarsyni ehf., Skógarhlíð 10, Reykjavík.

             Með gagnstefnu birtri 23. júlí 2004 höfðaði H.B. Harðarson ehf. gagnsök í málinu á hendur Sigurnesi hf.

I.

Dómkröfur.

Aðalsök.

Aðalstefnandi krefst þess aðallega, að aðalstefndi greiði honum 24.575.386 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. janúar 2003 til 8. apríl 2004, en  með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. apríl 2004 til greiðsludags.

Til vara er þess krafist, að aðalstefndi greiði aðalstefnanda 4.312.050 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. apríl 2004 til greiðsludags.

Að auki krefst aðalstefnandi í báðum tilvikum að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts.

Aðalstefndi krefst þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda og aðalstefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu skv. mati dómsins eða skv. málskostnaðarreikningi sem fram verður lagður við aðalmeðferð málsins.

Gagnsök.

Gagnstefnandi krefst þess, að gagnstefndi greiði gagnstefnanda 10.736.624 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 10.021.678 krónum frá 31. janúar 2003 til 21. nóvember 2003 og af 10.736.624 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar skv. mati Héraðsdóms eða eftir atvikum málskostnaðarreikningi sem fram verður lagður við aðalmeðferð málsins.

             Gagnstefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum gagnstefnanda en til vara að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega.

Í báðum tilvikum krefst gagnstefndi, að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda að skaðlausu, að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

II.

Sundurliðun dómkrafna.

Aðalstefnandi sundurliðar aðalkröfu málsins á eftirfarandi hátt:

Kostnaður við að bæta úr og ljúka verki                                                  kr.    5.074.000

Missir leigutekna                                                                                          kr.  19.187.280

Kostnaður vegna vinnu Verkfræðistofu SP ehf.                                     kr.       314.106

Samtals                                                                                                           kr.  24.575.386

Varakrafa aðalstefnanda er að fjárhæð 4.312.050 krónur sem er fundin út á eftirfarandi hátt.

             Áætlaður kostnaður við lagfæringu skv. matsgerð      kr.     5.074.000

             - Aðalstefnandi hélt eftir við greiðslu til aðalstefnda       kr.                761.950

                                                                                                          kr.     4.312.050

Gagnstefnandi sundurliðar dómkröfu sína á eftirfarandi hátt:

Vegna reiknings nr.   735  eftirstöðvar                        kr.       559.666

                              88                                                  kr.  10.021.678

                            237                                                  kr.       155.280

          Samtals                                                                               kr.  10.736.624

III.

Málavextir.

Mál þetta varðar fasteignina nr. 4 við Miðhraun í Garðabæ.  Hinn 10. september 2001 gerði aðalstefnandi samning við Norðurstál ehf., um að hinn síðar-nefndi tæki að sér að reisa stálgrindarhús á lóðinni. Samkvæmt verksamningi skyldi Norðurstál ehf. leggja til álglugga og setja þá í. Norðurstál ehf. varð síðan gjaldþrota.

Fljótlega eftir að byggingu hússins lauk, fór að bera á því að gluggar lækju. Í september 2002 tókust samningar með málsaðilum um að gagnstefnandi framkvæmdi viðgerð á gluggunum og þéttingu þeirra.  Ágreiningur málsaðila lýtur að endurgjaldi fyrir þessa verkþætti.

Aðalstefnandi heldur því fram að upphaflega hafi verið samið um að hann greiddi gagnstefnanda 6.361.950 krónur með virðisaukaskatti fyrir verkið.  Í byrjun nóvember 2002 hafi síðan verið gerður samningur um viðbótarverk að fjárhæð 2.400.000 krónur með virðisaukaskatti og samtals hafi því verið samið um að aðalstefnandi greiddi gagnstefnanda 8.761.950 krónur. Aðalstefnandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að gert hafi verið ráð fyrir öðru en tilboðsvinnu.

Gagnstefnandi telur, að 5. september 2002 hafi verið komist að samkomulagi um ákveðið verð, það er 10.000 krónur per fermetra af flatarmáli glugga í húsinu og þá hafi verið gert ráð fyrir ákveðnu verklagi við viðgerðina.  Hann heldur því fram, að síðar hafi komið í ljós, að með því verklagi hafi ekki fengist viðunandi lausn á vandamálinu og hafi þá verið, í samráði við verkfræðing aðalstefnanda, gripið til umfangsmeiri lagfæringa sem fólust í vinnu við gluggana sjálfa, m.a. til þess að tryggja rétta öndun til að koma í veg fyrir slaga.  Einnig hafi klæðning hússins ofan glugga og á þakkanti  verið rofin og þéttuð og einangrun aukin.  Gagnstefnandi heldur því fram, að ekkert samkomulag hafi náðst vegna endurgjalds þessa verkþáttar og hafi því verið miðað við vinnustundafjölda og efniskostnað enda ekki um annað að ræða í stöðunni.

Snemma í janúar 2003 lagði gagnstefnandi  niður vinnu. Ástæðu þess kveður hann vera þá, að hann hafi ekki fengið greitt fyrir verkið.  Aðalstefnandi kveðst hafa sent gagnstefnanda bréf 5. maí 2003, þar sem fundið var að vinnubrögðum hans og honum gefinn kostur á því að ljúka verkinu.  Gagnstefnandi kveðst aldrei hafa fengið það bréf.

Aðalstefnandi fékk síðan aðra aðila, meðal annars Fleyga ehf., til að ljúka verkinu. Aðalstefnandi taldi veigamikla galla vera á verki gagnstefnanda og fékk því dómkvadda tvo matsmenn til að meta verkið.  Þeir voru Helgi S. Gunnarsson og Hjalti Sigmundsson og skiluðu þeir matsgerð 5. febrúar 2004.

Aðalstefnandi greiddi 8.000.000 króna vegna verksins og hélt eftir 761.950 krónum.  Gagnstefnandi sendi aðalstefnanda reikning 31. desember 2002 að fjárhæð 10.021.678 krónur og síðan tvo reikninga 21. október 2003, annan að fjárhæð 559.666 krónur (þá búið að draga frá 8.000.000 króna innborgun) og hinn að fjárhæð 155.280 krónur.

Gagnstefnandi sendi aðalstefnanda innheimtubréf 28. nóvember 2003 þar sem krafist var ógreiddra verklauna samtals að fjárhæð 12.577.042 krónur.  Þessu bréfi var ekki sinnt af hálfu aðalstefnanda.

Í kjölfar matsgerðarinnar eða 8. mars 2004 krafði aðalstefnandi gagnstefnanda um greiðslu að fjárhæð 37.710.835 krónur vegna þeirra margvíslegu galla sem hann taldi vera á verki og vinnu gagnstefnanda, missis leigutekna, útlagðs kostnaðar og innheimtuþóknunar.  Því bréfi var ekki sinnt og var því  mál þetta höfðað sem stefnu birtri 25. júní 2004.

Gagnsökin var síðan höfðuð með stefnu birtri tæplega mánuði seinna eða 23. júlí 2004.

IV.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök.

Af hálfu aðalstefnanda er á því byggt, að verk aðalstefnda hafi verið gallað í skilningi kaupalaga nr. 50/2000, verksamningaréttar og almennra reglna kröfuréttar. Samningur milli málsaðila komst á í lok árs 2002 og gildi því kaupalög nr. 50/2000 um verksamning aðila, eftir atvikum með lögjöfnun eða samkvæmt undirstöðurökum ákvæða laganna. Enn fremur gilda óskráðar reglur verksamninga­réttarins.

  Aðalstefnandi telur að verkið hafi ekki staðist þær kröfur sem gerðar voru til aðalstefnda.  Aðalstefndi hafi einnig fengið í lið með sér undirverktaka sem hann beri ábyrgð á. Aðalstefnandi telur að verkið hafi verið haldið veigamiklum göllum, bæði vegna vinnu aðalstefnda og einnig virðist efnisvali hafa verið ábótavant að nokkru leyti. Þá hafi verkið alls ekki verið klárað. Aðalstefnandi telur því, að verk aðalstefnda hafi verið haldið alla í skilningi IV. kafla kaupalaga nr. 50/2000, meginreglna verktakaréttar og eftir atvikum ÍST 30 og þeirra sjónarmiða sem staðallinn byggir á og beri aðalstefnandi ábyrgð á göllunum.

             Aðalstefnandi telur sig hafa orðið fyrir verulegu tjóni, sem aðalstefndi beri ábyrgð á m.a. á grundvelli sakarreglunnar innan samninga sem og óskráðum reglum kröfu- og samningaréttarins. Á beinu tjóni, s.s. vegna kostnaðar við úrbætur, ber stefndi ábyrgð á grundvelli skaðabótareglna kaupalaga nr. 50/2000 vegna galla og almennra meginreglna kröfuréttar. Á afleiddu eða óbeinu tjóni ber aðalstefndi einnig ábyrgð. Er um þá ábyrgð m.a. vísað til 1.- 3. mgr. 40. gr. og 67. gr. kaupalaga nr. 50/2000 auk almennra reglna kröfuréttarins.

Einstaka liði kröfugerðar sinnar rökstyður aðalstefnandi á eftirfarandi hátt.

1.          Kostnaður við að bæta úr og ljúka verkinu.

Varðandi þennan lið er vísað til matsgerðar.  Fjárhæðin er 5.074.000 krónur samanber tölulið 14, a-d-lið, í matsgerðinni. Raunkostnaður aðalstefnanda við að láta klára verkið er í raun hærri, samanber til dæmis umfjöllun í tölulið 14 e í matsgerð, en til að gæta samræmingar er miðað við matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna að þessu leyti. Er því krafist að aðalstefndi greiði aðalstefnanda bætur að fjárhæð 5.074.000 krónur.

             Aðalstefnandi telur það leiða af þeim sjónarmiðum sem að framan eru rakin að honum hafi verið heimilt að láta gera við verkið á kostnað aðalstefnda þar sem hann kláraði ekki verkið auk þess sem vinnubrögð hans voru ófullnægjandi.

2.          Missir leigutekna.

Aðalstefnandi telur að vegna galla á verkinu og þeirrar staðreyndar að aðalstefndi lauk ekki verkinu að fullu  hafi ekki verið hægt að leigja út húsnæðið að Miðhrauni 4 á tímabilinu janúar 2003 til júní sama ár. Verður því að líta svo á að vegna háttsemi aðalstefnda hafi aðalstefnandi orðið af verulegum leigutekjum.

Byggt er á því, að leiguverð sé 630 krónur á hvern fermetra á mánuði og er vísað er til mats Agnars Agnarssonar, sölustjóra atvinnuhúsnæðis hjá Stórhúsum ehf. Stærð hússins er 5.076 fermetrar. Er krafa aðalstefnanda vegna missis leigutekna því 3.197.880 krónur fyrir hvern mánuð sem hann gat ekki leigt húsið út vegna vanefnda stefnda eða 19.187.280 krónur fyrir tímabilið janúar til júní 2003.

3.         Kostnaður vegna vinnu Verkfræðistofu SP ehf.                                        

             Aðalstefnandi telur að vegna galla á verkinu og augljóslega fráleitra krafna aðalstefnda hafi hann þurft að fá aðkeypta þjónustu til að koma verkinu í samt lag og annast samskipti við aðalstefnda. Aðalstefnandi hafi notið ráðgjafarvinnu Þorsteins Egilssonar hjá Verkfræðistofu Stanleys Pálssonar ehf. og hafi þurft að greiða fyrir þá vinnu 314.106 krónur sem hann krefur aðalstefnda um.

4.         Vextir.

Dómkrafa aðalstefnanda er því að fjárhæð 24.575.386 krónur.  Hann krefst vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. janúar 2003 til upphafsdags dráttarvaxta. Samkvæmt ákvæðinu bera kröfur um skaðabætur vexti frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað. Aðalstefndi hafi lagt niður vinnu í janúar 2003 án þess að hann hefði klárað umsamið verk auk þess sem verkið var gallað. Hin bótaskylda háttsemi átti sér stað á verktíma aðalstefnda en til að gæta alls hófs er miðað við lok þess mánaðar sem aðalstefndi hætti vinnu endanlega. Miðast því upphafstími vaxtakröfu stefnanda við 31. janúar 2003.

Dráttarvaxta er krafist af allri fjárhæðinni frá 8. apríl 2004 en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi gerði kröfu á hendur stefnda vegna hinna veigamiklu galla verksins.

Varakrafa aðalstefnanda:

             Til vara er gerð krafa um að aðalstefndi veiti afslátt af verkinu og greiði aðalstefnanda í samræmi við það. Aðalstefnandi telur ljóst að verkið hafi ekki verið í samræmi við byggingarreglugerðir, góðar venjur og hefðir. Um beitingu afsláttar-heimildar sérstaklega er vísað til 38. gr. kaupalaga nr. 50/2000 og almennra reglna verksamningaréttar. Afsláttur er reiknaður í samræmi við 38. gr. kaupalaga sem kveður á um að afsláttur skuli reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi.

          Varðandi útreikning varakröfu þá tekur aðalstefnandi fram að hann hafi greitt 8.000.000 króna til aðalstefnda og saman standi sú greiðsla af  6.361.950 krónum í aðalverk og 1.638.050 krónum sem aukaverk. Samið var um greiðslu í heild að fjárhæð 8.761.950 krónum. Matsmenn hafa staðfest að sú fjárhæð er mun hærri en sanngjarnt var af stefnda að fara fram á fyrir vinnu sína við verkið. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna í lið 14 er áætlaður kostnaður við lagfæringu aðalverks 5.074.000 krónur. Telur aðalstefnandi þá fjárhæð réttmætan afslátt af verkinu að frádreginni þeirri fjárhæð sem aðalstefnandi hélt eftir vegna heildarverksins, 761.950 krónur. Er því afsláttarkrafa aðalstefnanda 4.312.050 krónur.

Varðandi lagarök er vegna vanefnda og vanefndaúrræða vísað til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Einnig er vísað til kaupalaga nr. 50/2000 og meginreglna kröfuréttar og verksamningaréttar. Enn fremur til ÍST 30 og sjónarmiða sem staðallinn byggir á. Krafa um dráttarvexti styðst við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Málskostnaðarkrafan styðst við lög um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna.

V.

Málsástæður og lagarök aðalstefnda í aðalsök.

Varðandi einstaka kröfuliði aðalstefnanda tekur aðalstefndi fram eftirfarandi:

1.          Kostnaður við að klára verkið.

Aðalstefnandi byggir á að niðurstaða matsmanna sé lögð til grundvallar.  Aðalstefndi telur að horfa beri til þess, að enginn verksamningur var gerður og um tímavinnuverk var að ræða. Aðalstefndi  kaus að hætta við verkið óklárað, þar sem hann hafði ekki fengið verklaun sín greidd. Því sé óskilgreint hvað eftir stóð af verkinu, því í öllu falli verði aðalstefnda ekki gert greiða neitt vegna þess. Skilgreiningu þessa er ekki að finna í matsbeiðninni. 

             Aðalstefndi telur að hinn þátturinn hljóti að vera endurvinnsla verksins eftir lausn Fleyga ehf., en hér ber að horfa til þess að sú lausn var lakari en lausn aðalstefnda.  Þá verði að horfa til þess, að talsvert mikil vinna aðalstefnda nýttist Fleygum ehf., þar á meðal styrkingar glugganna, póstar og boranir, sem höfðu verið talsvert tímafrekar. Augljóst sé að niðurstaða matsgerðar nær engan veginn  að vera tæk sem sönnunargagn hvorki í vörn aðalstefnanda gegn kröfum í gagnsök né sem grunnur skaðabótakröfu í aðalsök.

Aðalstefndi tekur fram, að ef hlutirnir hefðu gengið eðlilega fyrir sig, hefði aðalstefnandi greitt aðalstefnda verklaun eftir framvindu og gefið síðan aðalstefnda kost á því, að bæta úr leka, eftir því sem tilefni var til vegna óþéttrar límingar á ýmsum stöðum, en það var ekki gert. Aðalstefnda var aldrei bent á leka af völdum ófullnægjandi límingar og aldrei gefinn kostur á að bæta úr, en þann úrbótarétt á hann tvímælalausan samkvæmt kaupalögum og IST 30. 

             Aðalstefndi tekur fram að hann hafi skilað góðu vinnuframlagi við þær aðstæður sem hér um ræðir og á rétt á verklaunum í samræmi við framlagða reikninga, samanber gagnsök málsins.

2.          Missir leigutekna.

Aðalstefndi tekur fram, að um sé að ræða stórt húsnæði sem enginn leigjandi eða kaupandi var fundinn að, áður en bygging hófst. Hann telur að markaðsaðstæður fyrir hús af þessum toga hafi verið erfiðar á liðnum árum. Í gluggum hússins hafi verið fjölmörg auglýsingaskilti frá hinum ýmsu fasteignasölum á höfuðborgarsvæðinu.  Þessar sölutilraunir stóðu yfir meðan á framkvæmdum aðalstefnda stóð og urðu starfsmenn hans ekki varir við að þær drægju að sér athygli áhugasamra.

Við útleigu á slíkri skemmubyggingu  skiptir litlu sem engu máli hvort leki er með gluggum eða ekki.  Um var að ræða leit að leigjanda sem hefði mikla plássþörf í skemmubyggingu fyrir geymslu eða grófan iðnað, og ytrabyrði eða þétting með glugga hefði lítið að segja. Allar staðhæfingar um leigumissi af völdum þess eru stórlega orðum auknar og þeim einfaldlega vísað á bug. Viðgerð á gluggum takmarkaði ekki nýtingu húsnæðisins því unnt var að vinna við einn glugga í einu og setja krossviðarspjöld í op á meðan viðgerð fór fram.

3.          Verkfræðiþjónusta.

Aðalstefndi tekur fram, að aðalstefnandi naut liðsinnis og ráðgjafar Jóns Guðmundsson verkfræðings og ekki hafi verið lagður fram reikningur hans.  Aðalstefndi getur ekki séð hvers vegna leitað var til Verkfræðiþjónustu Stanleys Pálssonar.

4.          Vaxta- og dráttarvaxtakröfum er mótmælt.

Aðalstefndi gerir einnig eftirfarandi athugasemdir:

Hann telur að í húsið hafi verið sett gluggakerfi sem ekki var vottað. Glugga-kerfið er þannig hannað að það sjálft og ísetning þess gerir ráð fyrir tvöfaldri þéttingu, ytri þéttingu sem hindrar að vatn komist inn og síðan innri þéttingu sem miðar að því að vatn sem kemst inn komist út aftur.

Gluggakerfi þessu var snúið öfugt þegar það var upphaflega sett í húsið.  Ein ástæða þess var sú, að opnanleg fög sem á það höfðu verið sett gerðu ráð fyrir opnun í öfuga átt.  Úrræði þau sem húsbyggjandi greip til, til þess að kerfið virkaði, þó öfugt væri í húsinu, fólust m.a. í því að bora göt að utanverðu í þeim tilgangi að tryggja að vatn sem kæmist inn í prófíla læki út.  Þegar aðalstefndi og verkfræðingur aðalstefnanda komu að verkinu þótti hinum síðarnefnda það miklar „skemmdir“ hafa verið unnar á kerfinu með nefndum borunum o.fl. að ekki væri skynsamlegt, úr því sem komið væri, að snúa gluggunum við og hafa þá eins og hönnun kerfisins gerði ráð fyrir.  Betra væri að reyna að framkvæma lagfæringar á þeim öfugum til að ná þeim þéttum. Aðalstefndi telur að þétting hafi tekist  að verulegu leyti en leki kom þó fram. 

             Aðalstefndi mótmælir þeirri staðhæfingu aðalstefnanda, að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé áfellisdómur yfir störfum hans, hvað varðar undirbúning, hönnun og gerð glugganna. Hið rétta sé, að undirbúningur og hönnun var unnin af Jóni Guðmundssyni og hlýtur því skýrslan að vera áfellisdómur yfir störfum hans í þágu aðalstefnanda, enda ábyrgðin hans sem sérfræðings eða eftir atvikum byggingarstjóra hússins sem átti að tryggja að allar útfærslur væru unnar eftir fyrirliggjandi samþykktum teikningum.

             Aðalstefndi telur niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna ranga. Sú lausn sem verkfræðingur aðalstefnanda kaus var sú besta sem fáanleg var við þær aðstæður sem upp voru komnar, úr því að hann hafði tekið þá ákvörðun að snúa gluggunum ekki rétt.  Þar sem aðalstefnandi tók þá ákvörðun að hafa gluggana áfram öfuga varð að velja leið þar sem reyndi á líftíma þéttiefna meir en ella.

             Aðalstefndi telur að lausn sú, sem unnin var af  Fleygum ehf. hafi haft þann vankant að blikkplata er látin ná frá ytra byrði inn fyrir glugga og upp með þeim að innanverðu sem veldur leiðni og svokallaðri „kuldabrú“ sem mun hafa þær afleiðingar í náinni framtíð að rakaþétting myndast og tæring verður sem ætla má að sé ekki komin fram þegar þessi orð eru rituð en hugsanlegt að unnt verði að greina í vettvangsgöngu við aðalmeðferð málsins. Þessi hætta er svo augljós byggingafróðum að ekki þykir tilefni til að biðja um yfirmat til þess að sannreyna þennan ágalla.

             Aðalstefndi tekur fram, að matsgerðinni sé verulega áfátt, þar sem hún taki ekki á þáttum sem hafa veigamikla þýðingu.  Af þessum sökum sé  sönnunargildi hennar takmarkað og um leið bent á, að sönnunarbyrði hvílir á aðalstefnanda í þessu máli samkvæmt grundvallarreglum kauparéttarins og verktakaréttarins. Varðandi ágallana er eftirfarandi tekið fram:

Matsliður 5. Aðalstefndi er sammála því að heppilegast hefði verið að snúa kerfinu rétt. Sú tilraun til þéttingar sem hér er vísað til var ekki unnin af aðalstefnda.

Matsliður 6. Ásetning loka var verkliður sem eftir var þegar aðalstefndi hvarf frá verkinu.  Lokin voru þá ekki fáanleg.

Matsliður 7. Hér eru ekki færð rök fyrir nauðsyn álvinkla.

Matsliður 8. Til þess að forðast misskilning skal tekið fram að aðalstefndi kom ekki að ákvörðunartöku um það hvernig gluggunum skyldi snúið.

Matsliður 9. Aðalstefndi telur hér vantalinn mikinn hluta þeirrar vinnu sem hann vann.

Matsliðir 11 og 12. Verið var að leysa vandamál í góðri samvinnu við verkfræðing aðalstefnanda. Leið sú sem Fleygar ehf. fóru var til skoðunar en þótti ekki traust hæfa byggingunni. Það var hlutverk aðalstefnanda, verkfræðingsins og byggingarstjóra að tryggja að farið væri eftir byggingareglugerð og útfærslan  teiknuð.

Matsliðir 14, 16, 17, 19 og 21. Aðalstefndi telur rangt, að miða útreikninga við það verk sem Fleygar ehf. framkvæmdu.  Verkefni aðalstefnda var langtum umfangsmeira og krafðist enn fremur talsvert lengri tíma í tilraunastarfsemi og vangaveltum með verkfræðingi.

Matsliður 20. Aðalstefndi telur, að hér sé sönnun þess að verk hans var ekki metið heildstætt. Veigamiklir liðir, t.d. við viðgerð á klæðningu víðsvegar vegna leka ofan glugga o.s.frv., hafa einfaldlega ekki verið metnir eins og lög gera ráð fyrir og engin eftirfylgni höfð í frammi af hálfu aðalstefnanda í kjölfarið til að fá úr því bætt með frekari vettvangsgöngu og upplýsingum frá aðalstefnda. Þessum veigamikla matslið var einfaldlega ekki svarað.

Aðalstefndi telur að almennt séð og faglega sé  niðurstaða hvað varðar mat á úrbótum röng, auk þess sem matið svarar ekki þeim spurningum sem spurt er. Þá hafi matsbeiðni þann veigamikla ágalla að vera ekki sniðin að því sem mál þetta snýst um í grundvallaratriðum.  Í matsbeiðni sé ekki vikið að útgefnum reikningum aðalstefnanda sem krafist hafði verið greiðslu á og óskað álits á því hvort krafið endurgjald sé eðlilegt miðað við umfang þess verks sem stefndi vann.

             Aðalstefndi leggur sérstaka áhersla  á, að skoða þyrfti vatnssöfnun ofan á u-bita sem er hluti burðarvirkis hússins ofan glugganna og afleiðingar hennar, en engin athugun virðist hafa farið fram á þeim þætti.

Aðalstefndi mótmælir því, að verk hans hafi verið gallað. Það var húsinu sjálfu sem var verulega áfátt og það ekki hæft til þeirra nota sem eigandi þess, aðalstefnandi, ætlaði það, auk þess sem byggingarlag hentar ekki við íslenskar aðstæður, sem eru afar sérstæðar og þekkjast ekki í öðrum heimshlutum þ.á m. í því landi sem húsið er hannað og framleitt.  Þá ber húsið merki þess að byggingaraðili þess hafði á verktíma átt við fjárhagsörðugleika að etja og farið skemmstu leiðir við allar útfærslur.

VI.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök.  

             Gagnstefnandi byggir kröfu sína á því, að hann hafi unnið þá vinnu sem gagnstefndi óskaði eftir. Löglegur bindandi samningur hafi myndast og gagnstefnda beri að greiða það sem krafist er auk dráttarvaxta og kostnaðar.

Krafa gagnstefnanda, 10. 736.624 krónur, byggist á þremur reikningum.

1.          Í fyrsta lagi á  reikningi nr. 735 að fjárhæð 8.559.666 krónur, dags. 10.10.2003. Um er að ræða vinnu starfsmanna gagnstefnanda í september og októbermánuði 2002 í alls 1742 klst., samtals 5.887.625 krónur með vsk. Efni sem var aðallega þéttiefni, límbönd, skrúfur, hnoð, plast, gler o.fl. þ.h., samtals 494.325 krónur með vsk., og loks vinna Þ.B. verktaka ehf., og aðkeypt vinna hjá Blikksmiðnum hf. ásamt leigu á vinnupöllum, alls 2.177.716 krónur m. vsk. Heildarfjárhæð reikningsins er því 8.559.666 krónur. Inn á reikning þennan hafa verið greiddar fjórar innborganir sem fram koma á reikningnum sjálfum, samtals 8.000.000 króna. Eftirstöðvar eru 559.666 krónur sem ekki hafa fengist greiddar þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.

2.          Í öðru lagi reikningi nr. 88, dags. 31.12.2002, að fjárhæð 10.021.678 krónur. Hér er um að ræða vinnu starfsmanna gagnstefnanda á tímabilinu frá  1. nóvember 2002 til 6. desember 2002,  alls 862 klst., þ.e. 2.926.557 krónur með vsk. Efni sem samanstendur af þéttiefni, límbandi, grisju, sandpappír o.fl., samtals 471.864 krónur, og loks efni og vinna Þ.B. verktaka ehf., Blikkvers sf. og Blikksmiðsins h.f. í nóvember og desember 2002 ásamt flutningskostnaði og leigu fyrir vinnupalla 6.623.257 krónur. Samtala reikningsfjárhæðar er því 10.021.678 krónur. Reikningurinn hefur ekki fengist greiddur þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.

             Bent er á að í texta reikningsins er ranglega sagt að hann byggist á tilboði. Efni hans og fylgiskjöl öll bera það með sér að ekki sé um tilboðsverk að ræða.

3.          Í þriðja lagi byggist krafan á reikningi nr. 237, að fjárhæð 155.280 krónur dags. 10.10.2003, sem samanstendur af eftirfarandi:

Vinnu Elvars Ólafssonar, starfsmanns gagnstefnanda, við að skila vinnupöllum í janúar 2003, 4.109 krónur með vsk. Efni, aðallega gler, þrýstislanga og þéttiefni, samtals 5.821 krónur með vsk. Leigu á vinnupöllum og vinnu Þ.B. verktaka ehf., 209.592 krónur m. vsk. Frá er dregin vinna sem var ofreiknuð í reikningi nr. 235 fyrir mistök, samtals 64.242 krónur, og er samtala reikningsins því að teknu tilliti til leiðréttingarinnar 155.280 krónur. Innheimtutilraunir hafa ekki borið árangur.

             Gagnstefnandi áréttar, að ekki hafi verið um tilboðsverk að ræða, heldur eigi að greiða fyrir verkið í tímavinnu. Jafnframt er mótmælt að minnispunktar sem skildir voru eftir í ógáti af gagnstefnanda skuli vera notaðir af gagnstefnda með þeim hætti sem gert er í málinu.

             Gagnstefnandi bendir á, að af hálfu gagnstefnda hafi það ekki verið véfengt, að vinna skv. reikningum gagnstefnanda sem fyrrnefndi hefur sjálfur kynnt sér og lagt fram í málinu hafi verið unnin í húsinu eða efni það sem tilgreint er á efnisreikningum hafi verið notað í húsið og akstursnóturnar séu vegna flutnings efnis til og frá húsinu.

Krafa gagnstefnanda sé í samræmi við útselda vinnu smiða  og verkamanna með eðlilegu álagi, á byggingamarkaði, enda liggja ekki fyrir sönnunargögn í málinu um hið gagnstæða, en sönnunarbyrði hvað þetta varðar hvílir á verkkaupa skv. almennum reglum kröfuréttarins.

             Varðandi þá málsástæðu gagnstefnda að verkið sé haldið galla, útfærsla sú sem notuð var hafi verið röng sem gagnstefnandi er talinn ábyrgur fyrir og auk þess hafi vinnubrögðum verið áfátt, tekur gagnstefnandi eftirfarandi fram:

Hvað varðar ætlaða galla, vísast til þess sem hér að framan greinir. Verksamningur var gerður en forsendur hans, sem lagðar voru sameiginlega með forsvarsmanni gagnstefnanda, meðverktaka hans og sérfræðiráðgjafa gagnstefnda reyndust rangar. Tæknileg umsjón var alfarið í höndum Verkfræðiþjónustu Jóns Guðmundssonar, sem kom að málinu sem hönnuður ásamt því að vera eftirlitsaðili gagnstefnda.

Miðað við tilboð það sem gert var áttu verklaun miðað við útreiknaðan fermetrafjölda að vera rúmlega 6.000.000 króna með vsk. Gagnstefndi hefur þegar greitt 8.000.000 króna sem sýnir einfaldlega fram á  að verkefnið var víðtækara og umfangsmeira en tilboðið gerði ráð fyrir þannig að því var vikið til hliðar. Allar staðhæfingar gagnstefnda um viðbótarverksamning í stefnu er  tilhæfulaus enda enginn slíkur samningur gerður. Gagnstefnandi telur matsbeiðnina staðfesta að unnið hafi verið við annað en glugga og verkið verið mun umfangsmeira.

Í matsgerð undir matslið nr. 20 segir að komið hafi fram á matsfundi að gagnstefnandi hafi unnið ýmis önnur verk óskilgreind, sem ekki hafi fengist sundurliðað með nákvæmum hætti í hverju fólust. Matsmenn lögðu því ekki mat á þennan lið.  Í þessu sambandi skal tekið fram, að gagnstefnandi vann víðsvegar við viðgerðir á húsinu á verktímanum m.a. á þaki og liggur fyrir að vinna hans var ekki bundin við glugga og umgjörð þeirra. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu matsmanna í niðurstöðu matsins hefur gagnstefndi enga tilburði sýnt til þess að fá verkliði þessa metna til þess að fylla myndina fyrir matsmönnunum og virðulegum dómi á síðara stigi. Er hér um alvarlegan sönnunarskort að ræða sem gagnstefnandi ber hallann af og veikir hans málatilbúnað.

Í málatilbúnaði gagnstefnda er byggt á matsgerð dómkvaddra matsmanna, þar sem staðhæft er að sú leið sem farin var og samþykkt af verkfræðingi gagnstefnda sé ekki sú sem henti við viðgerð á húsi því sem hér um ræðir. Gagnstefnandi mótmælir þessari staðhæfingu og telur hana ekki á réttum rökum reista. Áskilur hann sér rétt til þess að færa fram frekari sannanir á síðari stigum málsins fyrir því að aðgerðir hans hafi verið árangursríkar og þær sem hentuðu því húsi sem hér  um ræðir.

Gagnstefnandi bendir á að sú leið sem farin var af Fleygum ehf. og metin var hentug af dómkvöddum matsmönnum sé þess eðlis að kuldabrú myndist með fram gluggum og komi til með að valda slaga og tæringu þegar fram líða stundir.  Þetta sé neyðaraðgerð til að fá gluggana þétta og réttlætanleg sem slík.

             Gagnstefnandi tekur fram að vissulega sé rétt að gluggarnir hafi lekið eftir viðgerð þá sem hann framkvæmdi og rétt sé, að kominn hafi verið fram leki áður en hann hætti störfum við framkvæmdina. Lekinn hafi komið í gegnum klæðningu og það hafi verið vandamálið. Vatnið hafi síðan komið út með gluggunum. Hann telur sig hafa átt lögmætan úrbótarétt og sér  hafi ekki verið gefinn kostur á að njóta þess réttar. Staðhæfing um að honum hafi verið boðinn sá réttur standist ekki og sér hafi komið á óvart að nýir menn voru skyndilega komnir að verkinu áður en hann hafði klárað verkið og fengið svigrúm til að framkvæma eðlilegar úrbætur.

Gagnstefnandi bendir á að það sé röng og beinlínis villandi staðhæfing af hálfu gagnstefnda að viðgerð við glugga hafi hindrað sölu hússins. Húsið hafi verið byggt sem skemma og gagnstefndi hafi gert tilraunir til þess að selja húsnæðið sem vandaðra og betra húsnæði en það í raun var.

Um lagarök vísast til almennra reglna kröfuréttarins, þá sérstaklega verksamningaréttar. Um kröfu um dráttarvexti vísast til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um kröfu um málskostnað vísast til laga um meðferð einkamála nr. 91/l991.

VII.

Málsástæður og lagarök gagnstefnda í gagnsök.

          Gagnstefndi áréttar að fyrir verk gagnstefnanda í heild hefði samist svo um með aðilum að hann greiddi samtals 8.761.950 krónur og er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að breytingar hafi orðið á samningi aðila. Verkið hafi verið unnið á grundvelli fasts tilboðs. Gagnstefnandi byggir á því að „grunnur samkomulagsins“ hafi ekki verið réttur og því hafi verið leitast við að gera nýtt samkomulag. Því er alfarið hafnað af hálfu gagnstefnda að gagnstefnandi hafi kvartað undan samkomulaginu og því síður farið fram á að greitt yrði á grundvelli tímavinnu.

             Þá er því mótmælt, að gripið hafi verið til „umfangsmeiri lagfæringa“ á verkinu svo sem byggt er á af hálfu gagnstefnanda í gagnstefnu. Einu breytingarnar fólust í þeim aukaverkum sem greitt var fyrir að fullu af hálfu gagnstefnda. Enn fremur er rangt að Jón Guðmundsson hafi verið hafður með í ráðum um hinar meintu umfangsmiklu lagfæringar. Allri umfjöllun um að Jón Guðmundsson hafi haft tæknilega umsjón með verki gagnstefnanda er alfarið mótmælt. Gagnstefndi áréttar að allar hugmyndir og öll hönnun á verki gagnstefnanda hafi verið unnin af hans hálfu. Hann kom enn fremur fram sem sérfræðingur á því sviði, sem verkið tók til. 

Gagnstefndi mótmælir sem rangri og ósannaðri þeirri fullyrðingu gagnstefnanda, að hann hafi ætlað að halda verkinu áfram eftir áramót 2002. Þegar atvik og gögn eru virt blasi við hversu ótrúverðug þessi fullyrðing gagnstefnanda er. Gagnstefnandi hætti störfum fyrir áramótin 2001/2002,  þegar verkið var óklárað. Engin teikn voru á lofti um að hann hæfi störf á ný. Raunar reyndi fyrirsvarsmaður gagnstefnda ítrekað að fá hann til að klára verkið. Gagnstefndi telur það einkennilegt, að gagnstefnandi leggi niður vinnu og finni svo að því, að gagnstefndi hafi fengið annan aðila til að klára hið gallaða verk. Þá er fullyrðing gagnstefnanda um, að áður en hann hætti vinnu, hafi ágreiningur verið um greiðslu, röng eða að minnsta kosti alls ekki á vitorði gagnstefnda. Stenst fullyrðingin ekki heldur þegar haft er í huga að reikningurinn að fjárhæð 10.021.678 krónur  er dagsettur í lok desember 2002 þegar gagnstefnandi hafði lagt niður vinnu sína.

             Gagnstefndi bendir á, að það sé fyrst 21. október 2003 sem gagnstefnandi setti fram frekari kröfur en hafðar voru uppi í reikningi, dags. 31. desember 2002. Með bréfinu fylgdu tveir reikningar, dags. 10. október 2003 sem og tímaskýrslur vegna fyrri reikningsins. Þá hafði gagnstefndi tilkynnt gagnstefnanda að til stæði að fara fram á dómkvaðningu matsmanna til að staðreyna galla á verki gagnstefnanda.

Aðalkröfu sína um sýknu byggir gagnstefndi á því að hann hafi þegar greitt gagnstefnanda að fullu fyrir hans framlag að Miðhrauni 4 og raunar gott betur, en gagnstefndi hefur haft uppi kröfur í aðalsök vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna hátterni gagnstefnanda. Gagnstefndi bendir einkum á eftirfarandi til stuðnings aðalkröfu sinni um sýknu:

1.          Í fyrsta lagi er byggt á tómlæti.  Hafi gagnstefnandi átt kröfu á hendur gagnstefnda þá er ljóst, að hún er fallin niður fyrir tómlæti. Reikningur var ekki sendur fyrr en vitað var um ágreining aðila, þ.e. þegar lögmaður gagnstefnda hafði tilkynnt að fara átti fram á dómkvaðningu matsmanna. Eins og kemur fram í bréfi lögmanns gagnstefnanda, dags. 21. október 2003, voru reikningar, dags. 10. október 2003, afhentir á því tímamarki.

Tilgangur gagnstefnanda með því að senda reikningana var væntanlega að öðlast ímyndaða betri stöðu. Gagnstefndi telur að reikningstilhögun og tímasetning  bendi til þess að gagnstefnandi hafi ekki talið sig hafa átt frekari kröfur á hendur gagnstefnda. Hefði hann talið sig eiga frekari kröfur á hendur gagnstefnda, heldur en settar voru fram í reikningi, dags. 31. desember 2002, þá hefði hann vafalítið haft þær kröfur uppi á sama tíma, enda hafði hann þá lagt niður vinnu. 

Þá sé það rangt, að gagnstefndi hafi ekki mótmælt reikningstilhögun gagnstefnanda. Eini reikningurinn sem sendur var eftir að gagnstefnandi lagði niður vinnu er dagsettur 31. desember 2002.  Fylgigögn með þeim reikningi voru þó ekki lögð fram fyrr en 10. október 2003. Gagnstefndi hefur frá upphafi mótmælt þeim reikningi sem of háum sem og öðrum reikningum og forsendum allrar reiknings­gerðarinnar eftir að hún lá fyrir.

2.          Í öðru lagi var ekki um tímavinnu að ræða og því mótmælir gagnstefndi.  Hann telur einnig að viðurkennt sé af gagnstefnanda, að samið hafi verið um fast verð. Gagnstefnandi lýsir breytingum á reikningsfyrirkomulagi í stefnu að „grunnur samkomulagsins“ hafi ekki verið „réttur“ og því hafi verið leitast við að gera nýtt samkomulag. Ekkert samkomulag hafi náðst og því hafi verið miðað við vinnustundafjölda og efniskostnað. Ekkert af þessu fær staðist. Ósannað sé, að kvartað hafi verið undan tilhögun samningsins. 

Hefði gagnstefnandi ætlað að vinna verkið á annan hátt en samið hafði verið um, hefði hann átt að tilkynna gagnstefnda það. Leiðir það af meginreglum verktakaréttarins, m.a. þeim sjónarmiðum sem fram koma í ÍST 30 og fleiri stöðlum. Sönnunarbyrði um að breytt hafi verið um eðli samningsins í miðju verki hvílir á gagnstefnanda. Öll atvik benda til þess, að gagnstefnandi hafi sjálfur litið svo á að fast tilboð hafi gilt og samningur aðila að því leyti hafi verið óbreyttur. Raunar kemur fram á reikningi, dags. 31. 12. 2002, að reikningurinn sé vegna tilboðs. Síðbúnum skýringum gagnstefnanda í gagnstefnu á þessu er mótmælt. Það var ekki fyrr en með bréfi 10. október 2003  að loks bárust tímaskýrslur sem gagnstefnandi taldi að upplýstu um fjárhæð reikningsins.

3.          Í þriðja lagi er byggt á því, að ef fasti samningurinn er ekki talinn gilda milli aðila þá hafi hann greitt verkið að fullu. Er í því sambandi byggt á 45. gr. kaupalaga nr. 50/2000, eftir atvikum með lögjöfnun eða með vísan til undirstöðuraka ákvæðisins.

Fyrir það fyrsta blasir við að fjárhæðir reikninga gagnstefnanda eru í engu samræmi við gæði og umfang verksins. Bent er á, að verk gagnstefnanda var gallað í veigamiklum þáttum í skilningi kaupalaga nr. 50/2000, verksamningaréttar og almennra reglna kröfuréttar. Vísast um það að mestu til matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt, umfjöllun í stefnu og annarra skjala málsins. Verkið stóðst engar þær kröfur sem gerðar voru til gagnstefnanda en samkvæmt meginreglum verksamningaréttar ábyrgðist gagnstefnandi árangur verksins gagnvart gagnstefnda.  

Auk þess fékk gagnstefnandi í lið með sér undirverktaka sem hann ber ábyrgð á. Verkið í heild var haldið veigamiklum göllum, bæði vegna vinnu gagnstefnanda og einnig virðist efnisvali hafa verið ábótavant. Auk þess var verkið alls ekki klárað. Gagnstefnandi kaus að hætta vinnu sinni fyrir verklok og þrátt fyrir áskoranir gagnstefnda til hans um að klára verkið lét gagnstefnandi það algerlega undir höfuð leggjast. Er samkvæmt þessu augljóst að verk gagnstefnanda var haldið galla í skilningi IV. kafla kaupalaga nr. 50/2000, meginreglna verktakaréttar og eftir atvikum ÍST 30 og þeirra sjónarmiða sem staðallinn byggir á.

Þá telur gagnstefndi að umfang vinnu gagnstefnanda sé ósannað. Gagn-stefnandi byggir á því að verkið hafi verið mun umfangsmeira en efni stóðu til í fyrstu þegar hann kom að verkinu. Þó er enginn reki gerður að því að útskýra í hverju hin miklu aukaverk fólust. 

             Öllum framlögðum reikningum, sem stefnukrafa byggist á, er mótmælt, sem og fjárhæðum útseldra tíma. Ósannað er að nokkur fótur sé fyrir framlögðum tímaskýrslum. Samkvæmt þeim virðist fjöldi manna hafa unnið verk, sem átti að vera tiltölulega einfalt. Vakin er sérstök athygli á því að vinnuskýrslur voru ekki lagðar fram fyrr en með reikningi gagnstefnanda, dags. 10. október 2003, sem var lagður fram þegar ljóst var að ágreiningur væri uppi í málinu.

Þá verður ekki annað lesið út úr tímaskýrslunum en að einungis hluti vinnunnar, hafi hún verið unnin af þessum aðilum, hafi verið vegna annars en aðalverksins. Þannig kemur til að mynda fram að vinna vegna þaks sé 57,5 klst. þann 11. nóvember 2002. Að öðru leyti er meint vinna ekki sundurliðuð. Gagnstefnanda ber að sanna vinnuframlagið með óyggjandi hætti.

             Öllum efniskostnaði sem gagnstefnandi krefst er mótmælt sem ósönnuðum og of háum. Engin sönnun liggur fyrir kostnaðinum, sem hefði átt að bera undir gagnstefnda.

Varakröfu um lækkun stefnukrafna byggir gagnstefndi á sömu sjónarmiðum og rakin eru í þriðja tölulið hér að ofan. Ljóst er að stefnukrafan er í engum tengslum við framlag og gæði verks gagnstefnanda. Er einkum vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna að þessu leyti sem og sjónarmiða sem rakin eru að framan.

Dráttarvaxtakröfu gagnstefnanda er sérstaklega mótmælt sem og upphafsdegi hennar. Bent er á, að gagnstefnandi virðist fara fram á dráttarvexti frá 31. janúar 2003 af reikningi sem lagður var fram tæpu ári síðar eða 10. október 2003. Byggir hann kröfu sína þannig upp að fullar greiðslur gagnstefnda séu innborganir á þann reikning en reiknar fulla dráttarvexti á fyrri reikninginn, dags. 31. desember 2002.

 Um lagarök er vísað til kaupalaga nr. 50/2000 og meginreglna kröfuréttar og verksamningaréttar. Enn fremur er vísað til ÍST 30 og sjónarmiða sem staðallinn byggir á. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

VIII.

Skýrslur fyrir dómi.

             Í skýrslur Sigurðar Ingimarssonar, framkvæmdastjóra aðaðstefnanda, kom fram, að hann hafi fengið stefnda til að lagafæra galla á gluggum/hurðum á Miðhrauni 4. Þeir hafi bæði lekið og verið of veikir.  Hann kveðst hafa fengið tilboð dags. 5. september 2002 þar sem boðnar voru 10.000 krónur/fermetra að viðbættum virðisaukaskatti og gerði það 6.350.000 krónur.  Þetta hafi verið staðfest á fundi 17. september.  Hann kvað að munnlegur viðbótarsamningur hefði verið gerður, þar sem í ljós hafi komið, eftir að verkið var hafið, að um galla á einangrun var að ræða. Einnig þótti ráðlegt að breyta álfellum í kringum glugga. Vegna þessa var samið um viðbótarkostnað að fjárhæð 2.400.000 krónur. Hann kvað engar athugasemdir hafa borist frá stefnda um að þessar fjárhæðir myndu ekki duga. Varðandi kröfu stefnda um þóknun vegna aukaverka kveður hann að eina aukaverkið hafi verið, að stál neðan á þakkanti hafi verið tekið af og sett upp aftur að beiðni Jóns Guðmundssonar og síðan hafi verið skipt um gler í einum glugga, sem hafði brotnað. Samtals hafi H.B.Harðarson ehf. tekið 20 glugga. Verk þeirra hafi að mestu haldið á hinum gluggunum í húsinu en þeir eru hlémegin. Hann kveður tilgang með byggingu hússins hafa verið þann, að leigja húsið út. Hann hafi fyrst farið á fullt við að reyna að leigja það eftir að vinnu Fleyga var lokið.  Hann kveðst hafa leigt Latabæ ehf. 67% hluta húsnæðisins frá 1. október 2003. Hitt rýmið, þ.e. 33%, hafi verið í leigu meira og minna, þ.e. neðri hæðin að hluta allt árið er leið, en efri hæðin frá og með desember sl. Hann kvaðst hafa leigt húsnæðið á 700 kr./ fm.

             Í skýrslu Hafliða Harðarsonar, fyrirsvarsmanns gagnstefnanda, kom fram, að forsvarsmaður aðalstefnanda bað hann um að laga lekann á gluggunum.  Hann kveðst hafa skoðað verkið með Þórhalli Borgþórssyni og þeir síðan átt fund með Sigurði og Jóni Guðmundssyni. Þeir hafi skriflega sett fram verð 5. september 2002, en fyrir mistök tilgreint Austurhraun 9 sem verkstað í stað Miðhrauns 4. Neðst á þessu tilboði komi fram að það þurfti að gera meira en tilgreind fjárhæð geri ráð fyrir.  Hann upplýsir að Sigurði  hafi ekki verið sérstaklega tilkynnt að þeir litu svo á, að verkið væri ekki lengur tilboðsverk, heldur unnið í tímavinnu. Ástæða þess að reikningur hafi fyrst verið gerður í desember og síðan í október sé beiðni frá Sigurði um að reikningur yrði gerður þegar verkið væri búið. Á tímabilinu reyndu þeir að ná sáttum um verð. Hann kveðst kannast við að í upphafi hafi verið samið um 6.3 milljónir en hafnar því að samið hafi verið um 2.4 milljónir fyrir aukaverk. Hann kveður aukaverkin hafa verið fólgin í klæðningunni á húsinu, í viðgerðum sem nauðsynlegar voru á húsinu, þakkanti og fleiru.

             Í framburði Þórhalls Borgþórssonar, byggingarmeistara kom fram, að smám saman hafi komið í ljós að verkið var meira en þeir áttuðu sig á í byrjun. Hann mótmælir því að fast tilboð að fjárhæð 6.3 milljónir hafi verið gert í byrjun, svo og tilboð að fjárhæð 2.4 millj. Hann kveður tímavinnu hafa verið frá byrjun.

             Í framburði Helga S. Gunnarssonar, dómkvadds matsmanns, kom fram að ástæður þess að þeir gátu ekki lagt mat á reikningana voru þær að þeir báru ekki með sér hvað verið var að fást við á hverjum tíma. Aðspurður kveður hann að þeir hafi reynt að fá upplýsingar um þau aukaverk sem unnin voru svo hægt yrði að meta það sem beðið var um í matslið 20 en það ekki tekist.

             Í framburði Hjalta Sigmundssonar, dómkvadds matsmanns, kom fram að lausnin sé ekki útfærð og teiknuð áður en á framkvæmdum var byrjað og það sé ekki í samræmi við reglugerð.  Varðandi reikninga þá sem lágu fyrir vegna aukaverka tekur hann fram að þeir beri ekki með sér hvað sé verið að rukka fyrir og því sé ekki hægt að leggja þá til grundvallar.

             Í skýrslu Jóns Guðmundssonar, verkfræðings, kom fram, að gagnstefnandi  sé sérfræðingur í meðhöndlun á álgluggum.  Engar útfærslur voru til en hann átti að sjá um þær.  Hann kvað að ákveðið hafi verið að taka tilboði stefnda að fjárhæð ca. 6.4 millj. Til viðbótar var samið um að skipta um álfellur kringum gluggana og setja þá einangrun sem vantaði og það var samið um rúmar 2 milljónir. Hann kvað samskiptin við stefndu hafa verið í lagi. Hann hafi ekki oft komið á staðinn og minnist þess ekki að útfærslur hafi verið bornar undir hann. Hann minni að gluggarnir hafi verið færðir innar og verkið hafi verið umfangsmeira en í upphafi var álitið.  Hann segir að klæðning hafi verið rofin í þakkanti að hans beiðni. Hann segir að hann hafi aðeins beðið um aukalega að taka plötur úr þakkanti. Hann leit á verkið sem tilboð. Hann upplýsir að verktakinn hafi átt uppástunguna um 2.4 milljónir króna fyrir seinna verkið.

             Í skýrslu Þorsteins Egilssonar byggingatæknifræðings kom fram, að Jón Guðmundsson bað hann að koma að málinu og sjá hvort hægt væri að ná sáttum í uppgjörinu. Þetta var sennilega í mars 2003.  Hann kvað að H.B.H hafi ekki andmælt því á fundi að viðbótarsamningur hafi verið gerður vegna plasninga og einangrunar.  Viðbótasamningnum hafi fyrst verið andmælt af H.B.H. á fundi 29. apríl. Þá hafi Jón firrst við og sagst  ekki trúa því að þeir myndu andmæla viðbótarsamningi og þá hafi Þórhallur dregið í land. Hann nefnir að 2.4 milljónir hafi verið fyrir viðbótarverkið.  Hann upplýsti að í samningi vegna aukaverks átti að taka upp plasningar og ganga frá klæðningu og vinna viðbótarverk þar sem þakkantur var rifinn, rúða var brotin og fl. smálegt.

             Í skýrslu Auðuns Gunnarssonar  kom fram, að hann hafi setið fundi málsaðila og að samningur hafi verið gerður í byrjun svo og viðbótarsamningur, að hann minni að fjárhæð ca 2.500.000 hafi verið gerður milli málsaðila.

IX.

Forsendur og niðurstaða.

          Gagnstefnandi tók að sér að lagfæra leka á gluggum á fasteigninni nr. 4 við Miðhraun í Garðabæ.  Óumdeilt er, að í upphafi var gert tilboð í verkið að fjárhæð 6.361.950 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Er verkið var hafið, varð það mun umfangsmeira en aðilar héldu í fyrstu.  Gagnstefnandi heldur því fram, að eftir að umfang verksins hafi komið í ljós, hafi hann hætt að vinna samkvæmt tilboðinu og verkið hafi verið unnið í tímavinnu.  Aðalstefnandi heldur því hins vegar fram, að málsaðilar hafi sérstaklega samið um aukaverk fyrir 2.400.000 krónur.

             Ekki var gerður skriflegur samningur milli málsaðila varðandi verkið  í heild sinni. Þó liggur fyrir tilboð frá 5. september 2002 frá forsvarsmanni gagnstefnanda og Þórhalli Borgþórssyni f.h. Þ.B. verktaka ehf. varðandi glugga í Austurhrauni 9. Hér mun vera átt við Miðhraun 4, samkvæmt framburði fyrir dómi. Samkvæmt tilboðinu var gert ráð fyrir 10.000 krónum per fermetra í gluggum.  Virðisaukaskattur var ekki innifalinn, en allt efni, vinna og lyfta.  Þessi fjárhæð samsvarar því, að tilboð hafi verið gert að fjárhæð 6.361.950 krónur með virðisaukaskatti. Í lok nefnds tilboðs segir:  “Athuga þarf styrkingar á gluggum vegna byggingarreglugerðar.  Eins þyrfti að taka í burtu styrkingar á anddyri, setja nýjar að utanverðu til þess að hægt verði að setja hurðapumpur.”  Þannig liggur það strax fyrir, að verkið í heild sinni verður dýrara en 6.361.950 krónur. Gagnstefnandi hafnar því aftur á móti alfarið, að sérstakt tilboð hafi verið gert vegna aukaverka að fjárhæð 2.400.000 krónur.

             Við mat á því hvort samningur um vinnu vegna aukaverka að fjárhæð 2.400.000 krónur hafi komist á milli aðila eða ekki, er fyrst að líta til framburða fyrir dómi. Jón Guðmundsson verkfræðingur, eftirlitsaðili aðalstefnanda með verkinu og sá er hafði samskipti við gagnstefnanda, heldur því fram, að slíkur samningur hafi verið kominn á.  Á sömu lund er framburður Þorsteins Egilssonar tæknifræðings. Þessi skilningur fær einnig stoð í fundargerðum er Jón Guðmundsson og Þorsteinn Egilsson rituðu vegna funda 6. febrúar 2003 og 8. - 9. apríl 2003. Til þess er að líta, að báðir þessir aðilar störfuðu á vegum aðalstefnanda.  Í framburði Auðuns Guðmundssonar, sem starfaði hjá Norðurstáli, kom fram að hann minnti að samningur um viðbótarverk að fjárhæð 2.500.000 krónur hafi verið gerður milli málsaðila. Það að unnið hafi verið samkvæmt tilboði, á sér einnig stoð í reikningi gagnstefnanda til aðalstefnanda 31. desember 2002, en þar segir að reikningurinn sé vegna tilboðs, en hann hljóðaði uppá 10.021.678 krónur. 

             Forsvarsmaður gagnstefnanda, ásamt undirverktaka hans, Þórhalli Borgþórssyni, hafna því aftur á móti, að um tilboð hafi verið að ræða í aukaverkin að fjárhæð 2.400.000 krónur og telur gagnstefnandi að reikningsgerð hans, þar sem sérstaklega er tilgreint tilboðsverk, hafi verið mistök.  Ekki tilkynnti gagnstefnandi aðalstefnanda, að hann hafi hætt að vinna samkvæmt upphaflega tilboðinu og farið að vinna í tímavinnu.  Dómurinn lítur svo á, að gagnstefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt um þessa breyttu tilhögun sína.  Því lítur dómurinn svo á, að tilboð hafi verið til staðar á milli aðila að fjárhæð 8.761.950 krónur og að það hafi komið sem gjald fyrir þéttingar á gluggum og ýmsa aukavinnu m.a. áfellur og styrkingar á gluggum.

             Dómurinn lítur svo á að óumdeilt sé, að lagafæra þurfti 20 glugga af 40 gluggum er gagnstefnandi gerði við, eftir að gagnstefnandi fór frá verki sínu um áramótin 2002/2003. Þeir hafi lekið eftir viðgerðina og því hafi verkið ekki verið þeim kostum búið er aðalstefnandi mátti búast við.  Hafi því verið um galla að ræða. Gagnstefnandi fór frá verki sínu án þess að klára það.  Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til að aðalstefnanda hafi borið að gefa gagnstefnanda kost á að bæta verk sitt, samanber 36. gr. laga nr. 50/2000. Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna.  Í niðurstöðum matsmanna kemur fram að þeir telja að vinnubrögð gagnstefnanda við undirbúning, hönnun og gerð lausnar séu ófagleg og ekki í samræmi við byggingarreglugerð, góðar venjur og hefðir.  Matsmenn telja að lagfæring á 40 gluggum kosti 5.074.000.  Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati.  Ekki liggur annað fyrir en að réttra aðferða hafi verið gætt við framkvæmd matsins og sýnilega er hún ekki reist á röngum forsendum.  Því verður hún lögð til grundvallar í málinu.  Dómurinn telur því að gagnstefnanda beri að greiða aðalstefnanda 2.537.000 krónur en viðgerðin náði til 20 glugga. Aðrir gluggar hafa ekki lekið í 2 ár og því telur dómurinn ekki þörf á frekari viðgerðum á þeim.

             Af hálfu aðalstefnanda er gerð krafa um missi leigutekna fyrir tímabilið janúar 2003 til júní sama ár, samtals að fjárhæð 19.187.280 krónur. Í málinu liggur það fyrir, að gagnstefnandi fór frá verkinu um áramótin 2002/2003.  Fleygar ehf., tóku að sér að gera við glugga þá er láku og var það gert í apríl og maímánuði og var verkinu að fullu lokið í nóvember 2003.  Fasteignin var ekki í leigu fyrr en aðalstefnandi leigði Latabæ ehf., 67% hennar frá og með 1. október 2003.  Dómurinn lítur svo á að leki á hluta glugga í húsinu hafi ekki komið í veg fyrir það að hægt hefði verið að leigja húsnæðið, hafi á annað borð verið eftirspurn eftir leiguhúsnæði af þessari stærð og á þessum stað. Dómurinn lítur því svo á, að ósannað sé, að aðalstefnandi hafi haft til taks leigjanda  að fasteigninni á þeim tíma er hann krefur um í málinu. Kröfu vegna tapaðra leigutekna er því hafnað.

Í þriðja lagi krefur aðalstefnandi um greiðslu að fjárhæð 314.106 krónur, þar sem honum hafi borið nauðsyn til að kaupa sér sérfræðiþjónustu Þorsteins Egilssonar tæknifræðings til að koma verkinu í samt lag og annast samskipti við gagnstefnanda.  Dómurinn lítur svo á, að í þetta stóru og vandasömu verki sé ekki óeðlilegt að aðalstefnandi leiti sér sérfræðiþjónustu og er því eðlilegt að hann beri þann kostnað.

Samkvæmt framangreindu ber gagnstefnanda að greiða aðalstefnanda 2.537.000 krónur að frádregnum 761.950 krónum, sem eru eftirstöðvar tilboðsverkanna.

             Í gagnsök málsins er gerð krafa um greiðslu þriggja reikninga gagnstefnanda, samtals að fjárhæð 10.736.624 krónur.  Fyrsti reikningurinn nr. 00088 er dags. 31.12.2002 að fjárhæð 10.021.678 og með honum 56 undirgögn s.s. kvittanir, vinnuseðlar og fleira.  Annar reikningurinn nr. 00235 er dags. 10.10.2003 að fjárhæð 8.599.666, en þar koma innborganir aðalstefnanda frá 15.09.2002 til 06.12.2002 að fjárhæð 8.000.000 króna til frádráttar.  Með þessum reikningi eru lögð fram 60 undirgögn. Þriðji og síðasti reikningurinn nr. 00237 er einnig dagsettur 10.10.2003 að fjárhæð 155.280 og honum fylgja 14 undirgögn. Upplýst er af lögmönnum að þetta séu þau sömu gögn og lögð voru fyrir dómkvadda matsmenn. Meginniðurstaða dómkvöddu matsmannanna varðandi kostnað vegna aukaverka var, að þeir gætu ekki staðfest af framlögðum gögnum hvort unnið hafi verið við aðra verkþætti en glugga. Þá hafi engin sundurliðun verið á reikningum þannig að hægt væri að gera sér grein fyrir því við hvað var unnið hverju sinni. Hinir dómkvöddu matsmenn viðurkenna þó (í matslið 16 og 19) kostnað við smellilista og lagfæringar á dreni glugga. Matsmenn meta þennan kostnað samtals að fjárhæð 175.000 krónur og fellst dómurinn á þá fjárhæð.  Einnig hefur forsvarsmaður aðalstefnanda viðurkennt fyrir dómi, að óskað hafi verið eftir eftirfarandi verkþáttum utan tilboðanna, það er annars vegar að skipta um brotið gler og hins vegar að taka niður klæðingu á þakkanti og setja upp aftur.  Kostnaður við þessa þætti áætlast um 280.000 krónur og er þá höfð til hliðsjónar fundargerð 6. febrúar 2003. Öðrum verkþáttum hefur verið mótmælt af hálfu aðalstefnanda og að mati dómsins hefur gagnstefnanda ekki  tekist að sanna réttmæti þeirrar kröfu sem hann fer fram á og er kröfu hans því hafnað að öðru leyti.

Niðurstaða málsins verður því sú að gagnstefnanda beri að greiða aðalstefnanda samtals  1.320.050 krónur (2.537.000-761.950-175.000-280.000). Rétt þykir að taka til greina vaxta- og dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda svo sem hún er fram sett, en henni hefur ekki verið mótmælt með rökum af hálfu gagnstefnanda.

             Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

          Af hálfu aðalstefnanda flutti málið Eiríkur Elís Þorláksson hdl.

             Af hálfu stefnda flutti málið Garðar Briem hrl.

             Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari, Björn Björnsson húsasmíðameistari og Vífill Oddsson verkfræðingur kváðu upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Gagnstefnandi, H.B. Harðarson ehf., greiði aðalstefnanda, Sigurnesi hf., 1.320.050  krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. janúar 2003 til 8. apríl 2004, en  með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. apríl 2004 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.