Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 4

 

Föstudaginn 4. maí 2001.

Nr. 146/2001.

Garðar Björgvinsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Siglingastofnun Íslands og

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var frávísunarúrskurður héraðsdóms, sem byggði á því að G hefði ekki gert nægilega grein fyrir þeim hagsmunum sem hann hefði af dómsúrlausn um kröfur sínar, auk þess sem kröfugerð G þótti óljós og vanreifuð að hluta. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun málsins verði hafnað og það tekið til efnislegrar úrlausnar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2001.

I

Mál þetta er höfðað af Garðari Björgvinssyni, kt. 040534-4079, Herjólfsgötu 18, Hafnarfirði, með stefnu birtri 17. ágúst 2000, á hendur Siglingastofnun Íslands, Vesturvör 2, Kópavogi, samgönguráðherra, sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, til ógildingar á stjórnvaldsákvörðunum, viðurkenningar á skaðabótakröfum og greiðslu málskostnaðar.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

I. Stefnandi gerir þá dómkröfu að synjun Siglingamálastofnunar ríkisins og samgönguráðherra um að veita vélbáti hans Rakkanesi HF 193 haffærniskírteini 18. ágúst 1990 verði felld úr gildi og sömuleiðis verði felldur úr gildi úrskurður samgönguráðherra sama efnis frá 4. maí 1992.

II. Stefnandi gerir þá dómkröfu, að synjun sjávarútvegsráðherra um að veita stefnanda veiðileyfi fyrir vélbát stefnanda Rakkanes HF 193 miðað við þann 18. ágúst 1990 verði felld úr gildi.

III. a. Stefnandi gerir til vara þá dómkröfu að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi skaðabótarétt á hendur stefndu in solidum, vegna synjunar Siglingamálastofnunar ríkisins og samgönguráðherra á útgáfu haffærisskírteinis fyrir vélbát stefnanda, Rakkanes HF 193, miðað við 18. ágúst 1990 og vegna synjunar sjávarútvegsráðherra á útgáfu veiðileyfis fyrir Rakkanesið miðað við 18. ágúst 1990 og tímabilið frá þeim degi til 5. nóvember 1993.

b. Stefnandi gerir til þrautavara þá dómkröfu að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi eigi skaðabótarétt á hendur stefndu in soldium, vegna synjunar Siglingamálastofnunar ríkisins og samgönguráðherra á útgáfu haffærisskírteinis fyrir vélbát stefnanda, Rakkanes HF 193, miðað við 18. ágúst 1990 og vegna synjunar sjávarútvegsráðherra á útgáfu veiðileyfis fyrir Rakkanesið miðað við 18. ágúst 1990 og frá þeim degi til 28. júní 1991.

IV. Stefnandi krefst þess í öllum tilvikum að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu, þar sem til þess verði tekið að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Af hálfu stefndu er aðallega gerð sú krafa að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Ef ekki verði fallist á kröfu stefndu um frávísun málsins gerir hann kröfu um að málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms.

Hinn 8. mars sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins hér til umfjöllunar. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru að frávísunarkröfunni verði hrundið og honum úrskurðaður málskostnaður í þessum þætti málsins sérstaklega, sem málið væri ekki rekið sem gjafsóknarmál, en stefnandi fékk þann 23. október 2000 gjafsókn vegna reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi.

 

II

Með afsali 21. desember 1989 eignaðist stefnandi bátinn Rakkanes HF 193.  Bátur þessi var frá Noregi og af gerðinni Selfa 28 Kystsjark með nýsmíðanúmerinu Reki 4. Skráningarnúmer bátsins var 2026 hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Þann 15. desember 1989 var báturinn skoðaður og í skýrslu skoðunarmanns sem dagsett er 18. desember 1989 eru gerðar ýmsar athugasemdir um ástand bátsins. Voru meðal annars gerðar athugasemdir við þykkt bols, festingar á þilfari við bol, skilrúm milli lestar og lúkars og fleira. 

Með beiðni stefnanda dagsettri 21. maí 1990 óskaði hann þess að Rakkanes yrði skráð á aðalskipaskrá.  Fór fram skoðun á bátnum þann 18. ágúst 1990 og í skýrslu skoðunarmanns sama dag kemur fram að ýmsu þótti áfátt við skoðun:

1)            Vélarrúmsþil væri opið

2)            Austurop vanti

3)            Aðalvél væri ófrágengin

4) Skrúfubúnað vantaði

5) Stýrisbúnaður væri ófrágenginn

6) Allir botn- og síðulokar ófrágengnir

7) Björgunarbátur væri ófrágenginn

8) Brunaviðvörunarkerfi vantaði, en væri í pöntun

9) Halon 1301 slökkvikerfi vantaði, en væri í pöntun

10)            Tekið fram að frágangur á gólfi í stýrishúsi yfir vél væri óviðunandi og

þyrfti að taka upp og steypa aftur af viðurkenndum aðilum.

11)            Björgunarbelti vantaði, en sagt í pöntun

12)            Skoðun vantaði á áttavita

13)            Varpakkeri vantaði, en sagt í pöntun

14)            Loftrás vantaði í lúkar.

Stefndu kveða tvo skoðunarmenn hafa annast skoðun bátsins enda beri skýrslur það með sér en stefnandi hefur haldið því fram að umrædd skoðun hafi farið þannig fram, að Kristján Þórðarson, bátaeftirlitsmaður Siglingamálastofnunar ríkisins, hafi mætt á staðinn, kl. 17:30, einn síns liðs.  Hafi hann farið um borð í bátinn og jafnskjótt horfið af vettvangi.  Kveður stefnandi að hann hafi vart skoðað bátinn og  ekki viljað ræða við stefnanda eða upplýsa hann um hvort báturinn fullnægði þeim skilyrðum, sem sett voru til að hann fengi haffærniskírteini.  Hafi stefnandi fengið þær upplýsingar síðar hjá Siglingamálastofnun að hann hefði ekki fengið haffærisskírteini þar sem björgunarbát, stýriskerfi, lenskerfi og fullnægjandi gólf í stýrishús vantaði. Hafi stefnandi strax upplýst að þetta væri rangt og beðið um skoðunarmann, sem hafi hins vegar ekki komið fyrr en í lok ágúst og þá haldið því fram að hlutir sem ófullnægjandi hefðu verið 18. ágúst hefðu verið lagfærðir í millitíðinni.

Stefnandi kveður að honum hafi verið mjög brugðið við þessi vinnubrögð og verið nokkra daga að jafna sig. Hafi hann og ekkert unnið í bátnum í nokkrar vikur. Þann 20. október 1990 hafi hann hins vegar fengið sent haffærisskírteini dagsett 16. október 1990 fyrir bátinn, en hann hafi þá ekkert verið skoðaður af eftirlitsmönnum Siglingamálastofnunar ríkisins frá því seinast í ágúst.  Staðreyndin sé því sú, að báturinn hafi fengið haffærisskírteini þann 16. október 1990 miðað við ástand bátsins þann 18. ágúst 1990.

Með bréfi Siglingamálastofnunar til stefnanda 24. ágúst 1990 kemur fram að hvað varði haffærisskírteini fyrir Rakkanes hafi ekki verið talið fært að gefa skírteinið út þann 18. ágúst 1990 í ljósi þess að vélbúnaður hafi ekki verið að öllu leyti fullfrágenginn og nokkrir hlutir í öryggisbúnaði ófáanlegir og ekki um borð.  Með bréfi stefnanda til sjávarútvegsráðuneytisins 24. ágúst 1990 sendi hann vottorð sem hann taldi sanna þá staðreynd að hann hefði ekki getað fullklárað bát sinn Rakkanes á tímabilinu 18. maí til 18. ágúst.

Að tilhlutan stefnanda fór fram skoðun á bátnum 12. október 1990 og kemur fram í skýrslu skoðunarmanns til Siglingamálastofnun að eftir ætti að ganga frá allmörgum atriðum varðandi bátinn. Aftur er skýrsla um skoðun bátsins sem sögð er hafa farið fram 16. ágúst 1990 og 15. október 1990 og er hún undirrituð af skoðunarmanni þann 16. ágúst 1990.  Þar kemur fram að eftir eigi að ganga frá stýrisbúnaði, eldsneytislögnum, brunaviðvörunarkerfi og rafgeymum.  Fyrir neðan þá upptalningu hefur verið skrifað: “Komið í lag 29/4´91”.

Bátur stefnanda, Rakkanes HF 193, fékk síðan haffærisskírteini þann 16. október 1990 og gilti það til 1. desember sama árs.  Með bréfi Sjávarútvegs­ráðuneytisins 19. febrúar 1991 var stefnanda tilkynnt að að ráðuneytið hefði ákveðið að skilyrði fyrir því að veita báti hans leyfi í atvinnuskyni væri að úreltur verði bátur sambærilegur báti hans sem hafi haft haffærisskírteini eftir gildistöku “laganna 15. maí 1990”.  Einnig kom fram í bréfinu hvernig færi með veiðileyfi og heimildir til veiða uppfyllti stefnandi skilyrði laganna.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi þann 9. apríl 1991 leitað Umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir, að samgönguráðuneytið og Siglinga­málastofnun ríkisins hefðu synjað honum um haffærisskírteini, þann 18. ágúst 1990, fyrir vélbátinn Rakkanes HF 193. Í kvörtun sinni hélt stefnandi því fram, að með afgreiðslu samgönguráðuneytisins og Siglingamálastofnunar ríkisins hefði verið brotinn á stefnanda réttur, þar sem sambærilegir bátar og Rakkanesið, sem ekki voru fullbúnir þann 18. ágúst 1990 hafi fengið haffærisskírteini til skamms tíma og verið veittur frestur til að ljúka frágangi þeirra. Kvörtun stefnanda hafi einnig lotið að því, að sambærilegir bátar og Rakkanesið hefðu fengið veiðileyfi á grundvelli laga nr. 38/1990 án þess að sambærilegir bátar hyrfu úr rekstri í þeirra stað, þó svo að þeir hafi ekki haft haffærisskírteini þann 18. ágúst 1990.   Kvörtun stefnanda til Umboðsmanns Alþingi 9. apríl 1991 ber hins vegar með sér að hann hafi kvartað yfir sjávarútvegsráðuneytinu vegna skilyrði þess sem það setji fyrir útgáfu fiskveiða í atvinnuskyni sbr. bréf ráðuneytisins 19. febrúar 1991.  Einnig kemur fram að hann kvartaði vegna framkvæmdar sjávarútvegsráðuneytisins á veitingu veiðileyfa til smábáta undir 6 brl.

Þann 3. maí 1991 kveðst stefnandi hafa formlega óskað eftir því við sjávarútvegsráðuneytið, að hann fengi veiðileyfi fyrir Rakkanesið ef sambærilegur bátur yrði úreltur.  Í bréf sjávarútvegsráðuneytis, dags. 8. maí 1991 var með vísan til bréfs stefnanda og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 ásamt 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni fallist á að veita Rakkanesi HF 193 leyfi til veiða í atvinnuskyni. Var tekið fram að heimildin væri bundin því skilyrði að Búri HF 52 hafi verið tekinn af skipaskrá og honum eytt. Endurnýjunarréttur hans félli við svo búið niður. Þá var tekið fram í bréfi ráðuneytisins til stefnanda að þegar þessum skilyrðum væri fullnægt og að fyrir lægi staðfesting Siglingamálastofnunar ríkisins á því að Búra HF 52 hafi verið eytt myndi ráðuneytið veita nýja bátnum leyfi til veiða með línu og handfærum með dagatakmörkunum.  Áður hafði honum verið gefinn kostur á að velja milli veiðikerfis. Kom fram í bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 21. júní sama ár að staðfesting þessa efnis hefði ekki borist og því hefði Rakkanesi HF 193 ekki verið veitt leyfi til veiða í atvinnuskyni.   Fékkst umbeðið veiðileyfi stefnanda útgefið 28. júní 1991 en stefnandi kveðst ekki hafa fengið vitneskju um það fyrr en löngu seinna.  Umrætt veiðileyfi sem gefið var út hinn 28. júní 1991 var veitt fyrir fiskveiðitímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991, að uppfylltum skilyrðum, en stefndu kveða stefnanda ekki hafa leyst það út. Taka stefndu fram að það hafi ekki getað farið fram hjá stefnanda, enda hafi leyfi af þessu tagi verið send í póstkröfu.  Stefnandi, sem svo fast hafi sótt að afla sér veiðileyfis og hafi vitað hvaða skilyrðum útgáfa þess væri háð hafi vitaskuld verið meðvitaður um útgáfu þess. Var leyfi síðan endurnýjað við næstu fiskveiðiáramót þann 1. september 1991 og leysti stefnandi þá út leyfið.  Stefnandi hafði síðan veiðileyfi vegna bátsins Rakkaness HF 193 til veiða með handfæri og línu allt þar til báturinn var úreltur á árinu 1996.  Kveða stefndu að samkvæmt upplýsingum um skráðan afla allt frá því að veiðileyfi fékkst hafi bátnum aðeins verið haldið til veiða á árunum 1994 og 1996.

Í niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis 18. nóvember 1991 kemur fram að ekki séu eins og sakir standi uppfyllt lagaskilyrði til þess að hann geti haft frekari afskipti af máli því sem kvörtun stefnanda laut að þar sem skilyrði til að unnt sé að kvarta til umboðsmanns væri að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð í málinu og ákvörðun varðandi útgáfu haffærisskírteinis hafði ekki verið skotið til samgönguráðuneytisins.  Því gæti hann ekki að svo stöddu fjallað um málið.

Í framhaldi af því kærði stefnandi ákvörðun Siglingamálastofnunar til samgönguráðherra, þann 7. janúar 1992, sem þann 4. maí 1992 staðfesti ákvörðun Sigl­inga­málastofnunar ríkisins.

Þann 26. júní 1992 kvartaði stefnandi á ný til Umboðsmanns Alþingis og þá kvartaði hann undan meðferð samgönguráðuneytisins vegna ákvörðunar Siglinga­málastofnunar að veita bátnum Rakkanesi ekki haffæriskírteini hinn 18. ágúst 1990. Með afgreiðslu ráðuneytisins hafi verið brotnar jafnræðisreglur þar sem það hafi verið látið viðgangast að bátar sem ekki hafi verið fullkláraðir fyrir 18. ágúst 1990 hafi fengið haffæriskírteini eða fengið frest til að ljúka þeim síðar.  Hafi þessir bátar fengið veiðileyfi og taldi stefnandi því að hann hafi verið beittur ójafnri mismunun.  Lá skýrsla Umboðsmanns Alþingis fyrir 5. október 1993.   Kemur fram í niðurstöðum hans að hann taldi ástæðu til að mælast til þess við sjávarútvegsráðuneytið að það taki til athugunar á ný hvort veita eigi stefnanda leyfi til veiða fyrir Rakkanes á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990.  Ekki taldi hann ástæðu til á meðan ný ákvörðun sjávarútvegsráðuneytis lægi ekki fyrir að fjalla frekar um þá kvörtun stefnanda sem beint var að Siglingamálastofnun ríkisins og samgöngu­ráðuneytinu.

Telur stefnandi það koma skýrlega fram í niðurstöðu álits umboðsmanns í tilefni af ofangreindri kvörtun að umboðsmaður telji stefndu hafa brotið jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og þar með að réttur hafi verið brotin á stefnanda. Í niðurstöðu álitsins segi meðal annars:

"Með ákvörðun sinni um að veita veiðileyfi þeim bátum sem taldir voru í A- og B-flokki á umræddu minnisblaði, skýrði sjávarútvegsráðuneytið rúmt það skilyrði 3. ml. 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990 að haffæriskírteini skyldi hafa verið gefið út fyrir 18. ágúst 1990, svo bátur ætti kost á veiðileyfi. Hef ég ekkert við þá lögskýringu að athuga.  Á hinn bóginn verður ekki séð, að jafnræðis hafi verið gætt, er synjað var um veiðileyfi fyrir Rakkanesið, þegar borið er saman annars vegar ásigkomulag þeirra báta, sem skipað var í B-flokk, samkvæmt lýsingu í fyrrgreindum skoðunarskýrslum Siglingamálastofnunar og hins vegar það ástand, sem Rakkanesið var í á sama tíma. Virðist bátum þeim sem skipað var í B-flokk á nefndu minnisblaði, hafa verið mun meira áfátt en bréf Siglingamálastofnunar til sjávarútvegsráðuneytisins gefur til kynna, en bréfið er dagsett 25. október 1990. Er svo að sjá, að ófullkomnar upplýsingar í síðastgreindu bréfi hafi verið lagðar til grundvallar ákvörðunum ráðuneytisins. Með tilliti til þeirra atriða sem að framan hafa verið rakin, tel ég ástæðu til að mælast til þess við sjávarútvegsráðuneytið, að það taki til athugunar á ný, hvort veita eigi Garðari Björgvinssyni leyfi til veiða fyrir Rakkanesið HF 193 á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990."

Þann 5. nóvember 1993 fékk stefnandi bréf frá sjávarútvegs­ráðuneytinu og þar segir meðal annars að við umfjöllun ráðuneytisins um tilmæli umboðsmanns hafi verið dregið í efa að réttlætanlegt gæti talist að teygja jafnræðissjónarmið svo langt að jákvæð afgreiðsla erindis, sem gangi í raun lengra en til hafi verið ætlast af þar til bæru stjórnvaldi, vegna rangra upplýsinga um staðreyndir er legið hefðu fyrir við afgreiðsluna geri það að verkum að öllum væri réttkræft að hljóta afgreiðslu sambærilega þeirri sem reist hafi verið á hinum röngu upplýsingum. Þrátt fyrir þessar efasemdir hafi niðurstaðan orðið sú að ráðuneytið hafi ákveðið að taka fyrri ákvörðun til endurskoðunar og veita Rakkanesi HF 193 leyfi til veiða í atvinnuskyni, skv. lokamálslið 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990. Samkvæmt 6. mgr. I. bráða­birgðaákvæðis l. nr. 38/1990 gefist útgerð Rakkanessins fyrir fiskveiðiárið 1993/1994 kostur á að velja um veiðileyfi með aflamarki er byggist á meðalaflahlutdeild sambærilegra báta, sbr. 5. mgr. nefnds ákvæðis og leyfis til að veiða með línu og handfæri og dagatakmörkunum. Muni Fiskistofa senda útgerð Rakkanessins á næstu dögum nánari forsendur fyrir þessu vali.

Stefnandi fullyrðir að sú nánari útlistun eða skýring sem sjávarútvegsráðuneytið hafi boðað í ofangreindu bréfi hafi aldrei borist honum eða formlegt veiðileyfi samkvæmt 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990 fyrir Rakkanesið. Stefnandi tekur einnig fram í þessu sambandi að hann hafi skilið bréf ráðuneytisins þannig, að hann fengi veiðileyfi samkvæmt 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990 og það hafi þá ekki getað verið á annan hátt en samkvæmt síðasta málslið þessarar 1. málsgreinar eða frá og með 18. ágúst 1990. 

Þar sem stefnandi hafi á þessum tíma er þrjú og hálft ár voru liðin frá 18. ágúst 1990, orðið að snúa sér að annarri atvinnu hafi hann því ekki verið í stakk búinn til að hefja veiðar á Rakkanesinu.  Kveðst hann hafa gert kröfu til þess að sér yrði bætt með skaðabótum það tjón, sem hann hefði orðið fyrir, við það að fá ekki veiðileyfi á Rakkanesið miðað við 18. ágúst 1990.  Hafi afstaða sjávarútvegsráðuneytisins verið sú, að leita álits ríkislögmanns á því hvort um skaðabótaskyldu væri að ræða.

Í bréfi ríkislögmanns til samgönguráðuneytisins frá 10. mars 1994 kemur meðal annars fram að nú liggi fyrir að móta afstöðu til bótakröfu Garðars á hendur ríkissjóði vegna ætlaðs tjóns hans af völdum synjunar á veitingu haffærisskírteinis fyrir Rakkanesið HF 193 og um leið synjunar sjávarútvegsráðuneytis á veiðileyfi. Við það mat fari ekki hjá því að sömu efasemdir séu uppi og fram komi í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins dags. 5. nóvember 1993 varðandi það hversu langt sé réttlætanlegt að teygja jafnræðissjónarmið í þágu bótakrefjanda, eins og atvikum sé hér háttað. Við það mat verði að telja að ekki hafi verið hnekkt þeirri niðurstöðu Siglingamálastofnunar að ástand Rakkaness HF 193 hafi verið með þeim hætti hinn 18. ágúst 1990, að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði til að veita því haffærisskírteini. Bótaskylda verði ekki á því byggð, að Siglingamálastofnun hafi með því lagt bótaskyldu á ríkissjóð.  Þá sé og hafið yfir vafa að sjávarútvegsráðuneytið hafi haldið sig innan lögmætismarka með því að byggja ákvarðanir sínar varðandi framkvæmd við veitingu veiðileyfa til nýrri báta á mati Siglingamálastofnunar á ástandi einstakra báta. Bótaskylda ríkissjóðs gagnvart Garðari Björgvinssyni verði því ekki byggð á því að synjun á veitingu veiðileyfis hafi ekki verið efnislega réttmæt.  Var stefnanda tilkynnt þetta álit  með bréfi samgönguráðuneytisins þann 16. mars 1994.

Þann 14. júlí 1996 sótti stefnandi um úreldingarstyrk vegna bátsins úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Jafnframt lýsti hann því yfir að báturinn yrði ekki tekinn af skipaskrá, en honum verði ekki haldið til veiða í efnahagslögsögu Íslands né gert út sem fiskiskip á Íslandi. Þann 20. ágúst 1996 gaf stefnandi út óafturkallanlega yfirlýsingu þess efnis að báturinn hefði varanlega verið tekinn úr fiskiskipastól Íslendinga.  Þann sama dag lýsti hann því yfir að fallið væri frá endurnýjunarrétti og veiðileyfi bátsins.

 

III

Stefnandi kveður Rakkanes HF 193 vera þilfarsbát úr plasti, 5,72 brl. ætlaður til krókaveiða (handfæraveiða) í atvinnuskyni hér við land. Þegar hann var keyptur hafi verið í gildi lög nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988 til 1990.  Stefnandi  kveður að hann hafi ætíð talið að við athugun sjávarútvegsráðuneytisins og ríkislögmanns hafi átt að kanna þau vinnubrögð, sem Siglingamálastofnun viðhafði við athugun á Rakkanesinu þann 18. ágúst 1990.   Þá telur hann ríkislögmann ekki miða álit sitt við að sjávarútvegsráðuneytið hafi skýrt 3. málslið 1. mgr. 5. greinar laga nr: 38/1990 rúmt. Þá verði ekki farið fram hjá þeirri staðreynd að sjávarútvegsráðuneytið hafi viðurkennt að stefnandi ætti rétt á veiðileyfi samkvæmt 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990.

Kveðst stefnandi hafa orðið að afla sér tekna með öðrum hætti en handfæraveiðum, eins og hugur hans hafi staðið til þegar hann hafi staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að hann fengi ekki veiðileyfi.  Hafi honum gefist tækifæri á að fullgera fleiri báta, líka Rakkanesinu og gera þá sjóklára eftir að bolur og hús höfðu verið steypt úr plasti. Við þetta hafi stefnandi unnið sumarið 1991 og nokkur misseri þar á eftir fyrir nokkra aðila.

Telur stefnandi að aðalatriði þessa máls sé að með lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem gildi hafi tekið þann 18. maí 1990, hafi ekki lengur verið skilyrði fyrir veitingu veiðileyfis á nýja báta undir 6 brl. að úrelda skyldi samskonar bát í staðinn, samanber 3. ml. 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990 er hljóði svo:

"Auk þess skal gefinn kostur á veiðileyfi fyrir nýja og nýkeypta báta undir 6 brl. enda hafi smíði þeirra hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma."  Telur stefnandi að hann hafi fyllt þann flokk útgerðarmanna sem fallið hafi undir ofangreint lagaákvæði.

Þrátt fyrir að bátur hans Rakkanesið hafi verið nær fullkláraður, þannig að aðeins hafi átt eftir að ljúka nokkrum atriðum við frágang bátsins, þann 18. ágúst 1990, hafi hann ekki fengið haffærisskírteini fyrir bátinn, eins og fjölmargir eigendur og útgerðarmenn sambærilegra báta á þessum tíma, sem hafi verið eins eða í lakara ásigkomulagi.

Stefnandi byggir ógildingarkröfur sínar á, að aðgerðir, ákvarðanir og synjanir stefndu varðandi umsókn stefnanda um haffærisskírteini og síðan veiðileyfi fyrir Rakkanes HF 193 hafi falið í sér brot á eftirfarandi grundvallarreglum íslenskrar stjórnsýslu, (a) að sjónarmið að baki stjórnvaldsákvörðunum verði jafnan að vera lögmæt og sömuleiðis verði þau lög sem á er byggt að standast stjórnarskrá, (b) að stjórnvöld verði ætíð að gæta jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, sérstaklega eigi það við í málum er varða atvinnuréttindi, (c) að stjórnvöld skuli sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst, áður en ákvarðanir eru teknar í þeim og síðan og ekki síst, (d) að andmælaréttar sé gætt, áður en stjórnvöld taki ákvörðun um atvinnuréttindi manna.

Stefnandi rökstyður ofangreindar staðhæfingar sínar með neðangreindum hætti:

a. Að með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 145 frá 3. desember 1998 (H.1998:4076) hafi verið staðfest að stefnandi hafi átt rétt á veiðileyfi 18. ágúst 1990 fyrir Rakkanesið HF 193 án þeirra skilyrða sem sett voru. Krókabátar hafi ekki verið háðir 7. grein laga nr. 38/1990, heldur hafi um þá gilt þær reglur sem fram komi í bráðabirgðaákvæði laganna númer tvö (II).

b. Að stjórnvaldið, sjávarútvegsráðuneytið, hafi með bréfi 5. nóvember 1993 viðurkennt að stefnandi hafi átt rétt á veiðileyfi fyrir Rakkanesið samkvæmt 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990. Veiðileyfið hafi því átt að vera í gildi frá 18. ágúst 1990, samanber ákvæði 3. málsliðar 1. málsgreinar 5. greinar laga nr. 38/1990. Ríkislögmaður sé ekki opinbert stjórnvald, enda hafi hann aðeins gefið álit í málinu. Þá sé vandséð með hvaða hætti afturköllun á stjórnvaldsákvörðun sjávarútvegs­ráðuneytisins eigi að hafa falist í bréfi samgönguráðuneytisins til stefnanda frá 16. mars 1994. Ekki verði því annað séð en stjórnvaldsákvörðun sjávarútvegs­ráðuneytisins frá 5. nóvember 1993 sé í gildi og eigi að vera hægt að byggja á henni.

c. Að ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins um að veita veiðileyfi til fjölda báta með bráðabirgðahaffærisskírteini, sýni að ráðuneytið hafi skýrt rúmt það skilyrði sem 3. ml. 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990 setti fyrir haffærisskírteini krókabáta. Jafnræðis og samræmis hafi því ekki verið gætt, þegar ráðuneytið synjaði stefnanda um veiðileyfi fyrir Rakkanesið miðað við 18. ágúst 1990, en veitti veiðileyfi til fjölda báta sem enn skemur á veg voru komnir varðandi búnað en Rakkanesið.  Byggi stefnandi á að um hafi verið að ræða ákveðna lagaframkvæmd sem sé í samræmi við að ráðuneytið byggði óhikað á ófullkomnum upplýsingum um búnað bátanna.  Sambærilegir bátar sem veiðileyfi hafi fengið í lakara eða svipuðu ástandi og Rakkanesið var í, varðandi búnað voru t.d.: Leon HF 66, Sunna Björg HF 82, Þórey RE 477, Jóhanna Helga ÞH 128, Krían HF 96, Elías Már ÍS 99 og Rakel María ÍS 199, svo dæmi séu nefnd.

Stefnandi byggi á að við ákvörðun ráðuneytisins um að synja stefnanda veiðileyfis hafi ekki verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum og að samskonar mál hafi verið leyst á mismunandi hátt án skýrrar lagaheimildar. Beri því að fella úr gildi synjun ráðuneytisins á veiðileyfinu og fallast á að stefnandi hafi átt rétt á veiðileyfinu miðað við 18. ágúst 1990.

d. Að ekki sé sannað, að bátur stefnanda Rakkanesið hafi verið í því ástandi, sem lýst sé í skoðunarskýrslu Siglingamálastofnunar ríkisins um skoðun bátsins þann 18. ágúst 1990 og á hafi verið byggt í málinu. Bendi stefnandi á að hann hafi ekki verið látinn staðfesta þá skoðun og að til skoðunarinnar hafi aðeins komið einn maður, sem ekki hafi skoðað bátinn á þann hátt að hægt hafi verið að ganga úr skugga um ástand hans og búnað.  Byggi stefnandi á að báturinn hafi verið í sama ástandi 18. ágúst 1990 og þann 16. október 1990.  Þá bendi stefnandi á, að ofangreind atriði sýni, að hann hafi ekki verið upplýstur um þau atriði sem sögð voru ófullnægjandi þann 18. ágúst 1990, er báturinn var skoðaður. Hann hafi því á engan hátt getað upplýst um atriði sem mikilvæg voru og leitt hefðu til þess að Rakkanesið hefði fengið haffærniskírteini miðað við 18. ágúst 1990.  Á stefnanda hafi því verið brotinn andmælaréttur og rannsóknarreglan.

Hvað snertir varakröfur sínar kveðst stefnandi á þessu stigi einungis krefjast viðurkenningar á bótaskyldu. Ekki ætti að vera umdeilt, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af þeirri ástæðu, að hann fékk ekki veiðileyfi fyrir Rakkanesið HF 193, samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990 þann 18. ágúst 1990 og frá þeim degi til 5. nóvember 1993.  Og ekki veiðileyfi með því skilyrði að annar bátur yrði úreltur fyrr en 28. júní 1991.  Ljóst sé að stefnandi hafi lagt í mikinn kostnað við kaup og smíði bátsins, sem síðan hafi ekki verið nýttur til krókaveiða í atvinnuskyni.

Stefnandi hafi meðal annars orðið fyrir veiðitjóni, sem auðvelt sé að sýna fram á með meðaltalsveiði vélbáta, eins og Rakkanesið er, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu Íslands, tímabilið frá 18. ágúst 1990 til 5. nóvember 1993.  Með tekjum af slíkri veiði samkvæmt upplýsingum um verð á afla frá Fiskistofu Íslands að frádregnum hefðbundnum rekstrarkostnaði.

Þá sé ljóst, að stefnandi hafi misst af möguleikum á að afla sér varanlegra aflaheimilda, eins og honum hafi staðið til boða samkvæmt öðru bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990. Auðvelt sé að ganga úr skugga um hvað sambærilegir bátar Rakkanesinu sem fengið hafi veiðileyfi þann 18. ágúst 1990 hafi aflað sér mikilla aflaheimilda og á hvaða verði aflaheimildirnar hafi síðan verið seldar.

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á, að stefndu hafi með ólögmætum hætti komið í veg fyrir að hann fengi veiðileyfi fyrir Rakkanesið þann 18. ágúst 1990, en við þann dag hafi verið bundin veigamikil réttindi.  Aðgerðir stefndu hafi falið í sér þau brot á meginreglum íslensks stjórnsýsluréttar sem leiði til skaðabótaskyldu stefndu. Einnig sé ljóst að stefnandi eigi rétt á miskabótum vegna ólögmætra aðgerða stefndu. Skaðabótakrafan byggist einnig á, að stefndi, sjávarútvegsráðherra, hafi viðurkennt að stefnandi hafi átt rétt á veiðileyfi samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 5. greinar laga nr. 38/1990.  Þeirri ákvörðun hafi ekki verið breytt eða hún afturkölluð. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar fái stefnandi ekki leiðréttingu mála sinna og uppreisn æru nema með bótum.

Stefnandi byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni til dómkrafnanna. Bendir stefnandi á að dómstólar eigi almennt úrskurðarvald um gildi stjórnvalds­ákvarðana samkvæmt 60. grein stjórnarskrár og þó að réttaráhrif um ógildi stjórnvaldsákvarðana geti ekki orðið til þess að stefnandi hefji veiðar 18. ágúst 1990 eða í framhaldi af þeim degi, þá eigi hann aðra hagsmuni af því að stjórn­valdsákvarðanirnar verði felldar úr gildi, svo sem hugsanlega skaðabótakröfu. Varðandi varakröfu um viðurkenningu á skaðabótaábyrgð, þá er sú kröfugerð byggð á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi kveðst vera réttur aðili sóknarmegin þar sem hinar opinberu aðgerðir hafi bitnað á honum. Varðandi aðild málsins varnarmegin, þá hafi Siglingastofnun Íslands tekið við réttindum og skyldum Siglingamálastofnunar ríkisins. Siglinga­stofnun Íslands hafi sjálfstæðan fjárhag og stefnist sem slíkri, en vinnuveitendaábyrgð eigi við varðandi verk þeirra starfsmanna stofnunarinnar sem í máli þessu séu til umfjöllunar. Aðild samgönguráðherra byggist á, að ráðherra hafi staðfest ákvörðun Siglingamálastofnunar ríkisins sem til ráðherra hafi verið skotið, einnig sé samgönguráðherra æðsta stjórnvald varðandi ákveðin verkefni Siglingamálastofnunar ríkisins, eins og þeim hafi verið skipað. Aðild sjávarútvegsráðherra byggist á því að embætti hans tók þá ákvörðun að veita stefnanda ekki veiðileyfi þann 18. ágúst 1990 og sé æðsta valdastofnun á því valdsviði sem mál þetta gerist á. Aðild fjármálaráðherra byggist á þeirri venju sem studd hafi verið skýrum ákvæðum auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969.  Nú hafi hins vegar verið gerðar breytingar á þessum reglum, sem ekki bendi ótvírætt til að nauðsynlegt sé að stefna fjármálaráðherra í slíkum málum. Það sé þó gert til frekara öryggis. Í samræmi við 5. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála og samkvæmt ábendingum í greinargerð með téðri lagagrein stefnist samgönguráðherra, sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins.

Hvað snertir lagarök þá kveðst stefnandi styðja dómkröfur sínar við ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi og jafnræði, sem og eignarréttarvarin atvinnuréttindi. Einnig kveðst stefnandi vísa til reglna stjórnsýsluréttarins; jafnræðisreglunnar, lögmætisreglunar, andmælareglunnar og rannsóknarregluna.  Hvað skaðabóta­kröfuna varði, vísar stefnandi til reglna um bótaábyrgð hins opinbera vegna löglausra stjórnvaldsákvarðana og stjórnvaldsgerða.  Þá sé vísað til 5. gr. laga nr. 38/1990 og bráðabirgðaákvæðis númer tvö, laga nr. 3/1988 og til laga nr. 51/1987.

 

IV

Stefndu kveða ljóst samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum að almenn veiðileyfi séu gefin út til eins árs í senn, sbr. 4. gr. laganna. Lögin hafi komið til framkvæmda 1. janúar 1991.  Fyrir liggi í málinu að 8. maí 1991 hafi  sjávarútvegsráðuneytið samþykkt að veita veiðileyfi fyrir Rakkanesið á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laganna, enda yrði Búri HF 52 (skipaskrnr. 5200) tekinn af skipaskrá og honum eytt og að þeim skilyrðum uppfylltum yrði veiðileyfið gefið út. Þetta hafi verið tilkynnt stefnanda sérstaklega, en fyrir hafi legið umsókn stefnanda þessa efnis frá 3. maí 1991 og þar sem óskað hafi verið eftir krókaleyfi. Var veiðileyfi gefið út fyrir Rakkanesið hinn 28. júní 1991 og verður að ætla að það hafi verið stefnanda fullkunnugt.  Þetta leyfi muni ekki hafa verið leyst út en endurnýjað leyfi frá næsta fiskveiðiári sem hófst 1. september hafi verið leyst út. Þá hafi bátnum ekki verið haldið til veiða nema á árunum 1994 og 1996 miðað við aflaskráningu.

Eins og rakið sé að framan hafi stefnandi afráðið að úrelda bátinn á árinu 1996 þannig að honum yrði ekki lengur haldið til veiða í efnahagslögsögunni eða hann gerður út sem fiskiskip frá Íslandi, gegn greiðslu á styrk frá sjóðnum. Hafi stefnandi gefið út óafturkallanlega yfirlýsingu þess efnis að báturinn hefði varanlega verið tekinn úr fiskiskipastól Íslendinga. Þá hafi verið staðfest af hans hálfu í samræmi við greind lög að allar veiðiheimildir bátsins hefðu verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og því lýst yfir að réttur til endurnýjunar bátsins yrði ekki endurnýjaður. Komi atvik þessi við sögu í dómi Hæstaréttar 3. júní 1999 í málinu nr. 484/1998 og að nokkru í dómi Hæstaréttar 1997, bls. 3704, auk framlagðra gagna.

Telja stefndu að í ljósi framanritaðs verði að draga í efa að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni fyrir því að fá dóm um gildi synjana á útgáfu haffærisskírteina og úrskurðar samgönguráðherra þar að lútandi eða um að veiðileyfi hafi átt að miðast við tiltekinn tíma þegar ekki voru lagaskilyrði til.  Þá verði í engu ráðið af kröfum stefnanda hvaða ákvörðun sjávarútvegsráðuneytis hann telur að eigi að fella úr gildi. Engin beiðni hafi komið fram um veiðileyfi á grundvelli eldri laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990 vegna bátsins enda ekki lagaskilyrði til.  Þá hafi engin lagaskilyrði verið til að veita veiðileyfi fyrir bátinn á grundvelli laga nr. 38/1990 "miðað við þann 18. ágúst 1990", eins og kröfugerð lúti að, en lög þau hafi komið til framkvæmda 1. janúar 1991 vegna fiskveiðiárs sem þá hófst. Krafa stefnanda er varði synjun sjávarútvegsráðherra um veiðileyfi miðað við 18. ágúst 1990 sé því ódómhæf en engin bein ákvörðun liggi fyrir þess efnis, heldur hafi verið um það að ræða að stefnandi uppfyllti ekki lagaskilyrði til að fá veiðileyfi á grundvelli lokamálsliðs 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990, svo sem honum hafi verið tilkynnt.  Sé því álitamál hvort í kröfu stefnanda felist að fella eigi úr gildi ákvörðun sjávarútvegsráðherra frá 19. febrúar 1991 eða síðar, en ekki sé þetta útskýrt í stefnu.

Krafa stefnanda um synjun sjávarútvegsráðherra sé því ekki tengd sérstakri ákvörðun og er svo óljós með tilliti til laga um stjórn fiskveiða að ógjörningur sé að leggja efnisdóm á hana að mati stefndu.

Í ljósi þessa og þar sem bátur stefnanda, Rakkanes HF 193, hafi fyrir alllöngu verið úreltur standi ekki eftir annað en beiðni um lögfræðilega álitsgerð, andstætt ákvæðum 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvað varði allar kröfur stefnanda undir lið I. og II.  Ljóst sé að báturinn hafi fengið um síðir bæði haffærisskírteini og almennt veiðileyfi, en síðan verið úreltur. Verði því ekki séð að stefnandi geti haft lögvarða hagsmuni af aðalkröfu sinni, en úrlausn um hana myndi engu breyta um réttarstöðu hans nú.  Þá verði ekki séð hverjir lögvarðir hagsmunir fælust í því eða þörf ætti að vera á að fá sérstaklega efnisdóm um gildi synjunar Siglingamálastofnunar sem skotið hafði verið til samgönguráðuneytis.

Þá kveða stefndu að til stuðnings frávísunarkröfu sé á því byggt að kröfugerð málsins er óljós að ýmsu leyti og gagnaöflun með öllu áfátt.  Uppfylli kröfugerð því ekki ákvæði 25. gr. eða 1. mgr. 80. gr. nefndra laga.

Hvað snertir varakröfur stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að hann eigi skaðabótarétt á hendur stefndu vegna þeirra synjana sem aðalkröfum hans sé ætlað að hrinda. Bótakröfur stefnanda undir lið III. séu vanreifaðar og ódómhæfar þar sem þær uppfylli ekki skilyrði 25. gr. eða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Fram­setning kröfu um bótaskyldu sem varakröfu sé órökrétt og vandséð hvernig bótakrafa gæti þá fyrst komið til álita að aðalkröfum stefnanda væri áður hafnað.  Í dómkröfum sé ráðgert að kveðið verði á um bótarétt í tiltekinn tíma eða vegna tiltekins tíma að því er virðist, aðallega frá 18. ágúst 1990 og til 5. nóvember 1993, en til vara frá 18. ágúst 1990 til 28. júní 1991.  Krafan, byggð á synjun veiðileyfis, standist ekki um fyrra tímabilið vegna þess að veiðileyfi hafi verið í gildi stærstan hluta þess og í raun ekki um hið síðara heldur. Tímabil bótakröfunnar standist heldur engan veginn atvik málsins eða ákvæði laga nr. 38/1990 um það hvenær og vegna hvaða tíma til greina hafi komið að veita veiðileyfi. Óraunhæft sé að slá föstum bótarétti frá einum tíma til annars, en grundvallar­skilyrði bótaréttar sé tjón og verði það almennt að meta til peningafjárhæðar vegna tiltekinna atvika.  Hins vegar sé um að ræða þekktan tíma að mati stefnanda sem löngu sé liðinn og eigi að vera auðvelt að sýna fram á tjón.  Óljóst sé hvort eða hvernig stefnandi telji kostnað við kaup og smíði bátsins geti verið tjón, en hann telji sig meðal annars hafa orðið fyrir "veiðitjóni", sem hann telji auðvelt að sýna fram á. 

Kveða stefndu að í málinu sé ekki gerð tilraun til að sýna fram á ætlað tjón, en engin efni séu til að taka til efnismeðferðar kröfur um viðurkenningu á því hvort bótaréttur sé til staðar eða ekki þegar í engu sé upplýst um hvort frumskilyrði bótaréttar um tjón sé til staðar.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V

Eins og að framan er rakið gerir stefnandi þær dómkröfur í máli þessu aðallega að synjun Siglingamálastofnunar ríkisins og samgönguráðherra um að veita vélbáti hans Rakkanesi HF 193 haffærisskírteini 18. ágúst 1990 verði felld úr gildi og sömuleiðis verði felldur úr gildi úrskurður samgönguráðherra sama efnis frá 4. maí 1992.  Þá gerir hann jafnframt kröfu um að synjun sjávarútvegsráðherra um að veita stefnanda veiðileyfi fyrir vélbát hans Rakkanesi HF 193 miðað við þann 18. ágúst 1990 verði felld úr gildi. 

Í bréfi Siglingamálastofnunar 24. ágúst 1990 kemur fram að ekki hafi verið talið fært að gefa haffærisskírteini fyrir bátinn Rakkanes 18. ágúst 1990 þar sem vélbúnaður hafi ekki verið að öllu leyti fullfrágenginn og nokkrir hlutir í öryggis­búnaði ófáanlegir og því ekki um borð.  Þetta staðfestir stefnandi með bréfi til sjávar­útvegsráðuneytis sama dag þar sem hann lagði fram gögn því til sönnunar að hann gæti ekki fullklárað bát sinn á tímabilinu 18. maí til 18. ágúst.  Haffærisskírteini var síðan gefið út fyrir bátinn 16. október 1990 tímabundið til 1. desember 1990.  Þá liggur einnig fyrir í málinu að stefnandi fékk veiðileyfi gegn ákveðnum skilyrðum 8. maí 1991 og gaf sjávarútvegsráðuneytið út veiðileyfi til handa Rakkanesi tímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991 og er það dagsett 28. júní 1991.

Þá liggur fyrir í málinu og er óumdeilt að stefnandi lét úrelda bát sinn og gaf óafturkallanlega yfirlýsingu á árinu 1996 um að bátnum yrði ekki haldið lengur til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða gerður út sem fiskiskip frá Íslandi.

Af málatilbúnaði stefnanda hvað snertir aðalkröfur hans í kröfuliðum I og II verður ekki ráðið hvaða hagsmuni hann hafi af því að fá nú dóm fyrir þeim kröfum sínum sem lúta að því að fella úr gildi synjun á útgáfu veiðileyfis og haffærisskírteinis frá 18. ágúst 1990, enda vandséð til hvaða réttaráhrifa ógilding þeirra ákvarðana myndu leiða.  Fyrir liggur að stefnandi fékk haffærisskírteini og veiðileyfi útgefið síðar og að báturinn Rakkanes var varanlega tekinn úr fiskiskipastól Íslendinga árið 1996 og því lýst yfir af hálfu stefnanda að honum yrði ekki haldið til veiða frá Íslandi eftir það.  Er því ljóst að úrlausn um aðalkröfur stefnanda myndi engu breyta um réttarstöðu hans nú.  Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað að þessu leyti þykja dómkröfur stefnanda fela í sér beiðni um lögfræðilegt álit í skilningi 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þar sem segi að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli,  og verður dómkröfum stefnanda samkvæmt liðum I og II því þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi. 

Það er grundvallarregla íslensks réttar að sá sem krefst réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim.  Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 d lið segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi, dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum o.s.frv.  Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi varakröfur sínar á því að hann eigi skaðabótarétt á hendur stefndu vegna þeirra stjórnvaldsákvarðana sem hann krefst að verði felldar úr gildi í aðalkröfum sínum.  Í málinu hafi þó ekki verið lögð fram gögn eða leidd skýr rök að því að hann hafi orðið fyrir tjóni hvað þá heldur að leiða megi meint tjón af umræddum stjórnvaldsákvörðunum.  Verður því ekki dæmt um skaðabótaábyrgð af þeim sökum.  Þykir því skorta mjög á skýran og ljósan málatilbúnað af hálfu stefnanda að þessu leyti og verður því að vísa þessum kröfum hans frá dómi.

Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt er að verða við kröfu stefndu um að vísa málinu frá dómi í heild sinni.  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans Steingríms Þormóðssonar hrl. krónur 200.000, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurðinn kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en af hálfu stefndu Einar Karl Hallvarðsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda þar með talin málflutningsþóknun Steingríms Þormóðssonar hrl. krónur 200.000, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.