Hæstiréttur íslands

Mál nr. 347/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hald
  • Gögn
  • Kæruheimild


Þriðjudaginn 29. maí 2012.

Nr. 347/2012.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins

(Theodóra Emilsdóttir forstöðumaður)

gegn

A

(sjálf)

Kærumál. Hald. Gögn. Kæruheimild.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var gert skylt að láta skattrannsóknarstjóra ríkisins í té yfirlit yfir nöfn og kennitölur allra þeirra sem leitað hefðu til hennar eftir lögfræðiaðstoð, vegna viðskipta sömu aðila við tiltekinn einstakling eða einkahlutafélag í hans eigu á tilteknu tímabili, á grundvelli 94. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með vísan til þess að það ákvæði gengi framar þagnarskylduákvæði 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert skylt að láta sóknaraðila í té yfirlit um nöfn og kennitölur allra þeirra sem leitað hefðu til hennar eftir lögfræðiaðstoð, vegna viðskipta sömu aðila við X sérfræðing [...] eða X ehf. á árunum 2006 til og með 2011. Varnaraðili hefur upplýst að hún hafi skráð nöfn og kennitölur þeirra [...], sem til hennar hafi leitað og gengust undir aðgerð hjá framangreindum [...], svo og hvaða ár aðgerðin var framkvæmd. Skilja verður niðurstöðu hins kærða úrskurðar svo, að sóknaraðila sé veitt heimild til að leggja hald á gögn með þessum upplýsingum. Kæruheimild felst í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu sóknaraðila hafnað.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012.

Héraðsdómi Reykjavíkur barst 3. maí sl. krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins, sóknaraðila í máli þessu, um að A, varnaraðila í málinu, yrði með úrskurði gert að láta sóknaraðila í té yfirlit yfir nöfn og kennitölur allra þeirra sem leitað hafa til hennar eftir lögfræðiaðstoð vegna viðskipta sömu aðila við X sérfræðing í [...], eða lögaðilann X ehf., á árunum 2006 til og með 2011.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur með höndum rannsókn á skattskilum X og X ehf. Rannsókn sóknaraðila fer fram á grundvelli heimilda í 2. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með bréfi 8. febrúar 2012 var tilkynning afhent á lögheimili X ehf. þess efnis að hafin væri formleg rannsókn á bókhaldi og skattskilum félagsins fyrir rekstrartímabilið 1. janúar 2006 til og með 31. desember 2010. Þá var einnig með bréfi sama dag afhent tilkynning á lögheimili X þess efnis að hafin væri rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuáranna 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010. Með bréfi 21. mars 2012 fór sóknaraðili þess á leit við varnaraðila að varnaraðili léti skattrannsóknarstjóra í té  upplýsingar og gögn vegna X og X ehf. rekstrarárin frá og með 2006 til og með 2011. Laut krafan að upplýsingum um nöfn og kennitölur þeirra aðila, sem leitað hafi til varnaraðila vegna viðskipta við X og/eða X ehf. Beiðni sóknaraðila var svarað með bréfi varnaraðila 28. mars 2012, þar sem synjað var um að afhenda umbeðin gögn og upplýsingar. 

II

Sóknaraðili lýsir því að ákvörðun um rannsókn á skattskilum X og X ehf. eigi rætur að rekja til ábendingar frá velferðarráðuneytinu um að læknar, sem byðu upp á heilbrigðisþjónustu án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, gæfu ekki að fullu upp tekjur sínar til skattyfirvalda. X hafi verið skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. Tilgangur félagsins sé meðal annars [...]lækningar, sbr. vottorð úr fyrirtækjaskrá. Þá hafi skattrannsóknarstjóra einnig borist ábendingar frá aðilum, sem greitt höfðu með peningum fyrir [...]aðgerð hjá X, án þess að gefinn hefði verið út sölureikningur vegna þeirra viðskipta. Grunur leiki á að X hafi í störfum sínum veitt þjónustu gegn greiðslu án þess að gefa þær tekjur sínar upp til skatts á skattframtölum sínum eða félags síns á gjaldárunum 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011. Við rannsókn hafi því vaknað sá grunur að annars vegar væru skattframtöl X ehf gjaldárin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011 og hins vegar persónuleg skattframtöl X gjaldárin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011 efnislega röng og að á skattframtölunum hafi ekki verið gerð viðhlítandi grein fyrir tekjum. 

Varnaraðili sé lögmaður og umboðsmaður fjölda [...] sem keypt hafi læknisþjónustu af X. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra sé mikilvægt að afla gagna hjá varnaraðila um nöfn þeirra aðila sem keypt hafi þjónustu af X á áðurgreindum árum. Kunni þær upplýsingar að hafa verulega þýðingu við rannsókn málsins.

Sóknaraðili vísar til þess að heimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins til öflunar gagna og upplýsinga sé að finna í 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Sé í 1. mgr. 94. gr. mælt fyrir um skyldu framtalsskyldra aðila og allra annarra til að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað sé, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðist og unnt sé að láta þeim í té. Ákvæði þessi eigi ótvírætt við um varnaraðila. Telji skattrannsóknarstjóri að nefnd 94. gr. feli í sér skyldu til að veita upplýsingar og gangi m.a. framar þagnarskylduákvæði 22. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn. Þá sé afdráttarlaust og sjálfstætt ákvæði í 5. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, er kveði á um að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu skuli víkja fyrir ákvæðum 94. greinar. Sé til hliðsjónar vísað t.d. til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 514/2008. Einnig sé vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 156/1999 og úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2011 í málinu nr. R-404/2011. Þá sé til hliðsjónar vísað til dóms Hæstaréttar í XXVI. bindi 1955, bls. 239.

Beiðni skattrannsóknarstjóra hafi ekki verið sinnt af varnaraðila, sem beri fyrir sig, að áður þurfi að liggja fyrir dómsúrskurður um skyldu til afhendingar umbeðinna upplýsinga og gagna. Sé þannig gengið gegn afdráttarlausu ákvæði 94. gr. laga nr. 90/2003 af hálfu varnaraðila. Sé hér uppi slíkur ágreiningur um skyldu til afhendingar gagna sem geri það að verkum að sóknaraðili þurfi að leita úrskurðar héraðsdóms samkvæmt 6. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003. Skattrannsóknarstjóri telji að hafið sé yfir allan vafa að upplýsingar og gögn, sem sóknaraðili hafi beiðst, falli undir framangreind ákvæði, enda nauðsynleg til sannprófunar á réttmæti bókhalds og skattskila þeirra aðila, sem um ræði, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 156/1999 og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum nr. R-080/2004 og R-242/2004.

Tilvitnað ákvæði 94. gr. laga nr. 90/2003, sé meginheimild skattrannsóknarstjóra til rannsókna og öflunar gagna frá skattaðilum og öðrum þeim sem veitt geti upplýsingar varðandi skattskil. Orðalag þess ákvæðis sé ótvírætt og veiti skattrannsóknarstjóra m.a. heimild til aðgangs að starfsstöðvum fyrirtækja. Sé um áralangra lagaframkvæmd að ræða og hafi þeim lagaheimildum nánast ekki verið breytt um árabil. Séu þau ákvæði samhljóða m.a. ákvæðum, sem lögfest hafi verið með lögum nr. 40/1978, með síðari breytingum, sbr. lög 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, en þá hafi heimildir skattrannsóknarstjóra til aðgangs að gögnum verið nokkuð auknar frá því sem áður hafi verið. Samkvæmt þeim sé viðkomandi skattyfirvöldum ætlaðar mjög rúmar heimildir til að ganga úr skugga um að skattskil aðila séu með þeim hætti að þau hefðu getað verið grundvöllur til réttrar álagningar opinberra gjalda og til viðeigandi viðurlagameðferðar, ef á skorti að svo hafi verið.

Sóknaraðili vísi til augljósra hagsmuna þjóðfélagsins af því að á sviði skattamála sé haldið uppi virkri réttar- og refsivörslu og unnt sé að ganga úr skugga um hvort skattskil séu byggð á raunverulegum viðskiptum og þannig réttilega tilgreind. Það sé mikilvægur liður í því að unnt sé að upplýsa um hugsanleg brot á skattalögum. Fyrir þessum brýnu þjóðfélagshagsmunum verði ætlaðir hagsmunir varnaraðila af þagnarskyldu að víkja að lögum, enda hljóti þeir að teljast miklum mun veigaminni og hafi það verið niðurstaða dómstóla. Krafa sóknaraðila sé liður í hefðbundinni skattrannsókn og í samræmi við hlutverk skattyfirvalda sem handhafa opinbers valds að þessu leyti. Að baki kröfunni liggi málefnalegar og rökstuddar ástæður og séu skattyfirvöldum játaðar rúmar heimildir til mats á því hvenær umbeðinna gagna sé þörf, sbr. t.d. áðurnefndan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 156/1999 og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 325/2006. Synjun varnaraðila sé rökstudd með því að á lögmönnum hvíli þagnarskylda um allt það sem þeim er trúað fyrir í starfi sínu. Minnt sé á að á skattyfirvöldum hvíli rík þagnarskylda á þeim upplýsingum og gögnum sem aflað er, sbr. m.a. 117. gr. nefndra laga nr. 90/2003, og beri þeim að virða ríkari þagnarskyldu, sem samkvæmt öðrum lögum hvíli á  þeim upplýsingum og gögnum, sem þau hafa aflað með heimild í nefndri 94. gr.  

Krafa um úrskurð héraðsdóms sé einnig reist ákvæði 1. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003.

III

Varnaraðili kveður til sín hafa leitað töluverðan fjölda [...] sem fengið hafi [...] af gerðinni [...] hjá X [...]. Varnaraðili hafi þegar hitt og fengið umboð hjá hluta þessara [...] en hluta þeirra hafi hún rætt við símleiðis og tekið þannig niður allar upplýsingar sem nauðsynlegar séu og muni fá umboð frá hluta þeirra þegar þær hafi [...]. Eins og staðan sé í dag sé varnaraðili með upplýsingar um í kringum 100 [...] en umboð frá um 45 [...]. Um sé að ræða mjög viðkvæm mál þar sem margar af umræddum [...] vegna umræddra [...] ásamt því að [...] séu oft á tíðum illa staddar andlega þar sem fréttir um að [...] hafi lagst þungt á [...]. Ekki einungis vegna þeirrar staðreyndar að slíkt geti haft áhrif á þeirra heilbrigði heldur ótta um að það hafi haft áhrif á [...].

Í 71. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sé einstaklingum tryggt friðhelgi einkalífs. Nái ákvæðið meðal annars yfir rannsókn á skjölum og hvers konar sambærilegri skerðingu á einkalífi manna. Í 2. mgr. ákvæðisins sé tekið fram að friðhelgi einkalífs sé einungis heimilt að takmarka með lagaheimild ef brýna nauðsyn beri til. Óhætt sé að telja að fyrrgreint ákvæði sé undirstaða þagnarskyldunnar sem skjólstæðingar lögmanna eigi rétt á. Ekki verði séð að fyrir hendi sé brýn nauðsyn hjá sóknaraðila að fá umræddar upplýsingar afhentar. Sóknaraðili ætti að vera með upplýsingar um alla þá einstaklinga sem leitað hafi til umrædds [...] og greitt komugjald í móttöku læknastofunnar. Slík yfirferð muni taka lengri tíma í vinnslu en sé hins vegar gerleg. Eftir því sem varnaraðili telji hafi sóknaraðili ekki gert tilraun til þess að fá upplýsingar um þá einstaklinga sem farið hafi í aðgerð hjá umræddum [...] með öðrum aðferðum. Ef til vill geti listi með nöfnum og kennitölum einstaklinga í einhverjum tilfellum fallið undir að vera gagn sem ekki teljist viðkvæmt. Þegar um sé að ræða lista með nöfnum og kennitölum [...] sem farið hafi í [...] og leitað ráðgjafar vegna þess hjá lögmanni verði að telja ljóst að um viðkvæmar upplýsingar sé að ræða, enda hafi meirihluti umræddra [...] lagt mikið upp úr því þegar þær höfðu samband við varnaraðila að upplýsingar um þær færu ekki lengra, að minnsta kosti á meðan þær tækju ákvörðun um næstu skref.

Þegar um sé að ræða vinnslu viðkvæmra upplýsinga þurfi eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 að vera fyrir hendi, auk þess þurfi vinnslan að samrýmast meginreglum 7. gr. fyrrgreindra laga og vera nauðsynleg. Ekki verði séð að umrædd krafa sóknaraðila standist fyrrgreindar kröfur laganna. Ljóst sé að mun fleiri [...] hafi leitað til [...] eða um 300 [...]. Þýði þetta að [...] búi yfir upplýsingum um yfir þrefalt fleiri [...] sem gengist hafi undir aðgerð hjá umræddum [...] heldur en varnaraðili. Óljóst sé hvort sóknaraðili ætli einnig að sækjast eftir upplýsingum frá [...]. Ekkert í greinargerð sóknaraðila bendi til þess að hann hafi leitað annarra leiða til þess að verða sér út um upplýsingar um þær [...] sem gengist hafi undir aðgerð hjá fyrrgreindum [...], ekki sé heldur tekið fram hvers vegna leitast sé eftir því að fá afhent viðkvæm gögn hjá varnaraðila sem hann hafi komist yfir í starfi sínu sem lögmaður, frekar en að leita til [...] sem hafi upplýsingar um að minnsta kosti þrefalt fleiri [...]. Hæpið sé því að halda því fram að það sé sóknaraðila nauðsynlegt að fá fyrrgreindar upplýsingar afhentar hjá varnaraðila.

Í 22. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998 komi fram að lögmaður beri þagnarskyldu um hvaðeina sem þeim sé trúað fyrir í starfi sínu. Telja verði að þagnarskylda lögmanna sé mikilvægur liður í réttaröryggi þar sem einstaklingar verði að geta treyst því að ef þeir leiti ráða hjá lögmanni að honum beri ekki skylda til að skýra opinberum yfirvöldum frá aðstæðum. Undir þagnarskyldu lögmanna falli einkamálefni manna en dómstólar meti eftir eðli málsins hvort um einkamálefni sé að ræða eður ei. Í þessu tilliti sé bæði hægt að líta til vilja þess sem málefnið varði, í þessu tilfelli þeirra [...] sem til varnaraðila hafi leitað vegna [...], eða skynsamlegs mats á hagsmunum þess, sem krefjist leyndarinnar. Vert sé að taka fram að varnaraðili hafi haft samband við stóran hluta umræddra [...] þegar beiðni um afhendingu upplýsinganna hafi borist og meirihluti þeirra, af misjöfnum ástæðum, ekki viljað að gögnin yrðu afhent.

Líta verði til þess að viðkvæmt geti verið fyrir einstaklinga að opinber aðili fái upplýsingar um að hann hafi leitað til lögmanns. Í hópi þeirra [...] sem leitað hafi til varnaraðila séu [...] sem séu [...] X, tengdar [...] og fleira. Þessar [...] séu enn margar hverjar enn að íhuga hvort þær treysti sér til þess að fara í mál gegn honum. Myndi það valda þeim mikilli vanlíðan ef til væri listi þar sem þær væru beintengdar fyrirhuguðum málsóknum, jafnvel þótt listinn væri varðveittur hjá opinberum aðila.

Nokkuð hafi verið fjallað um undantekningar þær sem fyrir hendi séu á þagnarskyldu lögmanna. Fjallað hafi meðal annars verið um þagnarskyldu lögmanna í grein Tryggva Árnasonar um þagnarskyldu málflutningsmanna og lækna fyrir dómi um einkamál manna sem birst hafi í Tímariti lögfræðinga árið 1952. Þar taki höfundur fram að undantekning geti verið gerð ef sá sem máli varði, það er umbjóðandi viðkomandi lögmanns, samþykki eða „ef hagsmunir ríkis eða almennings heimta það“. Það þurfi því að vera ríkari nauðsyn að upplýsa um ákveðna vitneskja heldur en að varðveita einkamálefni manna og trúnaðarsamband lögmanns og skjólstæðinga hans. Sé litið til allra ofangreindra þátta sé ljóst að lögmenn séu bundnir þagnarskyldu um hvaðeina sem við komi starfi þeirra. Í því felist að öll frávik frá meginreglunni beri að túlka þröngt og gera verði ríka kröfu til þess að tryggt verði að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefji hverju sinni. Sé þessa ekki gætt sé hætta á að gengið verði of langt gegn rétti skjólstæðings og þá um leið trúnaðarskyldu lögmanna, sem aftur grafi undan réttarkerfinu í heild. Þrátt fyrir að sóknaraðili telji mikilvægt að fá afhentar umræddar upplýsingar sé ekki hægt að gefa afslátt af þeim grundvallarreglum sem ríki varðandi friðhelgi einkalífs og þagnarskyldu lögmanna.

Eðlilegra hafi því verið að sóknaraðili myndi leita til annarra aðila, til að mynda [...], þar sem [...] sem gengist hafi undir [...]aðgerð hjá hinum tiltekna [...] hafi fengið [...]. Bæði sé um að ræða mun stærri hóp eða rúmlega 300 [...] ásamt því að hópurinn sé ekki sérgreindur, líkt og hópur [...] sem leitað hafa aðstoðar varnaraðila. Listi sem varnaraðili sé með yfir [...] innihaldi einungis [...] sem leitað hafi sér lögfræðiráðgjafar um rétt sinn en þær [...] sem leitað hafi til [...] eigi það einungis sammerkt að hafa farið í [...] vegna umræddra [...].

Krafa sóknaraðila um afhendingu gagna sé meðal annars byggð á 2. ml. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003. Umræddri kröfu sóknaraðila sé beint gegn lögmanni sjúklinga þess aðila sem rannsókn sóknaraðila beinist gegn. Umbjóðendur varnaraðila séu því ekki sjálfir krafðir um upplýsingar enda séu þeir ekki til rannsóknar. Telja verði, miðað við orðalag, að ákvæðið ætti einungis við ef verið væri að óska upplýsinga hjá X (ehf.), endurskoðanda hans eða lögmanni.  Samkvæmt 5. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 víki önnur lög um trúnaðar- og þagnarskyldu fyrir ákvæðum greinarinnar. Þrátt fyrir orðalag ákvæðisins verði þó að telja ljóst að vega og meta verði hvert tilvik fyrir sig. Í þessu máli geti t.d. verið um brot gegn stjórnarskrárvörðum réttindum að ræða ásamt öðru. Ef þagnarskylda lögmanna myndi ávallt víkja á grundvelli fyrrgreindrar greinar þá myndi það veikja til muna trúnaðarsamband milli lögmanna og skjólstæðinga þeirra og á sama tíma réttarríkið í heild sinni.

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, laga nr. 77/1998 um lögmenn og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili krefst málskostnaður úr hendi varnaraðila að mati dómsins. Krafa um málskostnað styðst við 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Sóknaraðili reisir kröfu sína á 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003. Heimild hans til að bera kröfuna undir héraðsdóm er að finna í 4. mgr. 94. gr. laganna.

Sóknaraðili byggir á því að upplýsingar þær sem hann fer fram á í máli þessu séu liður í hefðbundnu og nauðsynlegu skatteftirliti sem beinist að því að halda uppi virkri réttar- og refsivörslu og unnt sé að ganga úr skugga um hvort skattskil séu byggð á raunverulegum viðskiptum og þannig réttilega tilgreind. 

Varnaraðili reisir kröfu sína á því að honum sé óheimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar vegna lögboðinnar þagnarskyldu sem á honum hvíli samkvæmt 22. gr. laga nr. 78/1998 um lögmenn. Samkvæmt ákvæðinu hvíli þagnarskylda á lögmönnum um hvað eina sem þeim er trúað fyrir í starfi sínu.

Víðtæk skylda hvílir á öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, til að láta skattyfirvöldum í té allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau biðja um, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003. Játa verður skattyfirvöldum rúmar heimildir til mats um það hvenær slíkra upplýsinga er þörf. Það mat verður þó að vera málefnalegt og fara að reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar á meðal verður að gæta hófs í beitingu úrræða, sbr. 12. gr. þeirra laga. Dómstólar eiga mat um það, hvort réttmætar ástæður liggja fyrir beiðninni. Eftirlit sóknaraðila er í samræmi við hlutverk skattyfirvalda, sbr. 102. gr. laga nr. 90/2003. Verður ekki annað séð en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki beiðni sóknaraðila. Í 5. mgr. 94. gr. laga nr. 20/1993 er tekið fram að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir ákvæðum 94. gr. laganna. Þar sem ákvæði 94. gr. laga nr. 90/2003 felur í sér skyldu til að veita upplýsingar og telja verður ákvæðið sérákvæði gagnvart ákvæðum 22. gr. laga nr. 78/1998 gengur nefnd 94. gr. ákvæðum laga nr. 78/1998 framar. Beiðni sóknaraðila er rökstudd, undirbúin og afmörkuð með þeim hætti að telja verður hana réttmæta, og er varnaraðila skylt að verða við henni. Ákvæði 71 gr. stjórnarskrárinnar koma ekki heldur í veg fyrir það, að umbeðnar upplýsingar verði veittar. Með hliðsjón af þessu verða kröfur sóknaraðila teknar til greina svo sem í úrskurðarorði er mælt fyrir um.

Ekki verður úrskurðað um málskostnað. 

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðila, A héraðsdómslögmanni, er skylt að láta sóknaraðila, skattrannsóknarstjóra ríkisins, í té yfirlit yfir nöfn og kennitölur allra þeirra sem leitað hafa til hennar eftir lögfræðiaðstoð vegna viðskipta sömu aðila við X sérfræðing í [...] eða lögaðilann X ehf., á árunum 2006 til og með 2011.