Hæstiréttur íslands

Mál nr. 631/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 10. nóvember 2010.

Nr. 631/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon, fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. nóvember 2010. Kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum síðar sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. nóvember 2010 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist að X, kt. [...], með lögheimili að F, [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. nóvember 2010 kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Kærði krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að nokkur innbrot hafi verið framin síðastliðna daga í Reykjanesbæ og hafi Lögreglustjórinn á Suðurnesjum verið með sérstakt þjófaeftirlit vegna þessa.

Þann 29. október sl. hafi verið brotist inn á heimili á A, þann 01. nóvember sl. hafi verið brotist inn á heimili á B, þann 3. nóvember sl. hafi verið brotist inn á heimili á C og þann 7. nóvember sl. hafi verið brotist inn á heimili á D, allt í [...] og á öllum stöðum hafi umtalsverð verðmæti verið tekin.

Samkvæmt ummerkjum og verknaðaraðferð hafi lögregla grun um að sömu aðilar hafi staðið að öllum þessum innbrotum. Við rannsókn lögreglu á vettvangi brotanna hafi lögregla náð afritum af fótsporum sem hún telji að séu eftir meinta innbrotsaðila.

Í gær 8. nóvember hafi verið tilkynnt um grunnsamlegar mannaferðir í [...]hverfi í [...]. Lögregla hafi farið á vettvang og séð kærða og Y, kt. [...] við E, [...] og hafði lögregla afskipti af þeim. Kærði hafi verið með tóman bakpoka og Y með 2 sporjárn meðferðis. Vegna gruns um að kærði og Y ættu aðild að innbrotum síðustu daga hafi þeir verið handteknir við E, [...] kl. 10:45.

Við frumskoðun lögreglu virðist sem að þau fótspor sem hafi náðst á vettvangi brotanna geti verið eftir þá skó sem að kærði hafi verið í þegar að hann var handtekinn.

Tekin hafi verið skýrsla af kærða og kveðst hann ekkert hafa komið nálægt þeim húsum sem brotist hafi verið inn í.

Kærði búi að F, [...]. Hafi verið farið í húsleit á F, [...] að kveldi gærdagsins þann 8. nóvember. Í þeirri húsleit hafi fundist svört taska en í henni hafi verið munir sem lögregla hafi ástæðu til að gruna að sé þýfi úr innbrotum á fyrrnefnd heimili. Meðal annars fannst Casio Exilim stafræn myndavél. Myndavélin hafi innihaldið myndir af heimilisfólki C í [...] en þar hafi verið brotist inn þann 03. nóvember sl. og hafi myndavélin verið ein af þeim munum sem að saknað hafi verið úr því innbroti.

Kærði hafi neitað að hafa átt aðild að þessum innbrotum.

Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Telur lögreglan rökstuddan grun fyrir því að kærði sé viðriðinn umfangsmikla og skipulagða þjófnaðastarfsemi og innbrot. Rannsaka þurfi tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og erlendis auk annarra atriða. Rannsaka þurfi frekar þau fótspor sem fundist hafi á vettvangi. Telur lögreglan að ætluð háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 einkum 244. gr. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, einkum 244. gr. telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. nóvembers 2010 til kl. 16.00.

Með vísan til framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald en rétt þykir að henni verði markaður tími svo sem nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og með vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. laganna fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi.

Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. nóvember nk. kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.