Hæstiréttur íslands
Mál nr. 302/2002
Lykilorð
- Skaðabætur
- Sameign
- Greiðslumark
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2003. |
|
Nr. 302/2002. |
Gunnar Hólm Guðbjartsson(Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Ólafi Guðbjartssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Skaðabætur. Sameign. Greiðslumark.
G var eigandi að um það bil helmings hlut í jörðinni K, en Ó og sex systkini þeirra áttu tæplega helmings hlut í jörðinni. Frá því að faðir systkinanna lést á árinu 1989 hafði Ó með höndum búrekstur á jörðinni á vegum dánarbús föður síns þar til á árinu 1995. Eftir það nýtti Ó að einhverju leyti mannvirki á jörðinni til búrekstrar á eigin vegum, að því er virtist með samþykki annarra systkina sinna en G. Á árunum 1996 og 1997 fékk hann jafnframt beingreiðslur vegna sauðfjárframleiðslu í skjóli greiðslumarks á jörðinni. Árið 2001 höfðaði G mál á hendur Ó til greiðslu skaðabóta vegna heimildarlausra afnota af eignarhluta sínum í jörðinni, þar með töldu ræktuðu landi og óræktuðu, mannvirkjum á henni og greiðslumarki. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að G hafi engar líkur leitt að því að kostur hafi í raun verið á að leigja jörðina og mannvirki á henni út til búrekstrar á umræddum tíma. Því hafi ekki verið hnekkt að flest hús á jörðinni og girðingar séu ófullnægjandi til slíkra afnota. Ekkert hafi verið leitt í ljós um að unnt hafi verið að leigja sérstaklega út íbúðarhús á jörðinni, enda sé að engu leyti tekið mið af því í forsendum matsgerðar, en um ástand hússins liggi ekki annað fyrir en sú staðhæfing Ó að það hafi verið óíbúðarhæft um árabil. Í málinu hafi heldur ekki komið nægilega fram í hvaða mæli Ó nýtti eignirnar, sem hér um ræðir, og hvort þau afnot hafi komið í veg fyrir að aðrir gætu hagnýtt sér þær. Að öllu þessu athuguðu hafi G ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna notkunar Ó á þessum eignum. Þá hafi hann ekki hnekkt því að hann hafi hvorki fyrr né síðar lagt stund á sauðfjárbúskap á jörðinni. Hafi hann ekki sýnt fram á að nýting Ó á öllu greiðslumarki jarðarinnar til að fá beingreiðslur árin 1996 og 1997 hafi orðið sér til tjóns. Var Ó sýknaður af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 443.360 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 1998 til 11. júlí 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins urðu aðilar þess ásamt sex systkinum sínum sameigendur að jörðinni Króki á Kjalarnesi við opinber skipti á dánarbúi Guðbjarts Hólm Guðbjartssonar og Gunnleifar Kr. Sveinsdóttur, en áfrýjandi átti fyrir helmingshlut í jörðinni og nokkrum mannvirkjum á henni. Skiptayfirlýsing um þessi eignarréttindi aðilanna og systkina þeirra var upphaflega gerð 16. maí 1995, en hún var síðan leiðrétt um tiltekin atriði með nýrri skiptayfirlýsingu 28. nóvember 1996. Samkvæmt henni var áfrýjandi að loknum skiptunum orðinn eigandi að 52,08335% hlut í jörðinni, ræktuðu landi, íbúðarhúsi, fjósi, hlöðu, votheysturni og haughúsi, en stefndi og önnur systkin þeirra eigendur að samtals 47,91665% af sömu eignum. Á landi jarðarinnar voru fleiri mannvirki, sem í gögnum málsins hafa verið kölluð skúr, nýrra fjós og gamalt íbúðarhús með heitinu Litli Krókur. Hlutur áfrýjanda í þessum mannvirkjum varð 4,1667%, en stefnda og hinna systkinanna alls 95,8333%. Hinn 29. desember 1995 lagði skiptastjóri í dánarbúinu út bústofn í eigu þess að arfi til stefnda og fimm systkina hans, en áfrýjandi var ekki í þeirra hópi. Fékk hver þessara erfingja 16,67% hlut í bústofninum, sem var nánar tiltekið 76 ær, 19 lömb eða gemlingar og 1 hrútur. Fram er komið að stefndi eignaðist síðar hlut samerfingja sinna í bústofninum. Þá liggur fyrir í málinu afsal 3. júní 1996 frá öllum sex systkinum aðilanna til stefnda fyrir rétti þeirra til greiðslumarks á jörðinni.
Óumdeilt er í málinu að frá því að faðir aðilanna lést í nóvember 1989 hafði stefndi með höndum búrekstur á jörðinni á vegum fyrrnefnds dánarbús þar til á árinu 1995. Eftir það nýtti stefndi að einhverju leyti mannvirki á jörðinni til búrekstrar á eigin vegum, að virðist með samþykki annarra systkina sinna en áfrýjanda. Stefndi fékk jafnframt á árunum 1996 og 1997 beingreiðslur vegna sauðfjárframleiðslu í skjóli greiðslumarks á jörðinni til samræmis við ákvörðun Framleiðsluráðs landbúnaðarins 10. september 1996 um að hann skyldi skráður handhafi þeirra. Stefndi heldur því fram að þrátt fyrir þennan búskap sinn hafi áfrýjandi átt kost á að hafa not af jörðinni. Hafi áfrýjandi þannig allt frá árinu 1995 stundað þar heyskap eins og hann hafi kosið.
Áfrýjandi leitaði 24. maí 1996 heimildar til að fá stefnda borinn út af jörðinni. Beiðni áfrýjanda um þetta var hafnað með dómi Hæstaréttar 27. ágúst 1996, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2384. Aftur leitaði áfrýjandi heimildar til útburðargerðar og var hún í það sinn veitt með dómi Hæstaréttar 3. nóvember 1997, sbr. dómasafn 1997, bls. 3137, en þó þannig að hún náði aðeins til lands jarðarinnar og áðurnefndra mannvirkja á henni, sem áfrýjandi átti meirihluta í. Útburðargerð fór fram eftir þessari heimild 12. janúar 1998 og voru áfrýjanda þá jafnframt fengin umráð jarðarinnar og umræddra mannvirkja. Stefndi leitaði í framhaldi af þessu úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gerðina. Með úrskurði dómsins 18. mars 1998, sem ekki var kærður til Hæstaréttar, var gerðin felld úr gildi að því er varðaði þann þátt hennar að áfrýjanda væru veitt umráð jarðarinnar og mannvirkja, en að öðru leyti var gerðin látin standa óbreytt. Upp frá þessu mun stefndi ekki hafa notað til búskapar jörðina eða önnur mannvirki á henni en nýrra fjósið, sem hann og önnur systkin hans en áfrýjandi hafa átt meirihluta í og útburðargerðin tók þannig ekki til.
Með bréfi til Framleiðsluráðs landbúnaðarins 7. apríl 1998 krafðist áfrýjandi þess að felld yrði niður skráning stefnda sem handhafa beingreiðslna á grundvelli greiðslumarks jarðarinnar. Fyrir liggur að framkvæmdanefnd framleiðsluráðsins ákvað 10. júlí 1998 að greiðslumark sauðfjár á jörðinni yrði frá 1. janúar sama árs skráð í tvennu lagi, þannig að nýting stefnda yrði takmörkuð við 93,6 ærgilda greiðslumark. Þessari niðurstöðu skaut áfrýjandi 4. ágúst 1998 til svokallaðrar úrskurðarnefndar greiðslumarks, sem ákvað í úrskurði 2. október sama árs að frá fyrrgreindum tíma að telja skyldi hlutur stefnda takmarkast við 70,53 ærgilda greiðslumark.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál á hendur áfrýjanda haustið 1998 til heimtu skaðabóta vegna atvika, sem tengdust deilum þeirra um jörðina. Undir rekstri þess aflaði áfrýjandi matsgerðar dómkvadds manns 11. júní 1999 til stuðnings gagnkröfu, sem hann hafði þar uppi til skuldajafnaðar. Í matsgerðinni var nánar tiltekið metið samkvæmt beiðni áfrýjanda hvert væri hæfilegt leigugjald á mánuði fyrir í fyrsta lagi landbúnaðarafnot af jörðinni Króki og mannvirkjum á henni á tímabilinu frá 16. maí 1995 til 11. janúar 1998, í öðru lagi afnot íbúðarhúss á jörðinni á sama tímabili, í þriðja lagi „afnot af 147,2 ærgilda greiðslumarki jarðarinnar Króks árin 1996 og 1997” og í fjórða lagi not af mannvirkjum, sem fyrrgreind útburðargerð tók ekki til, á tímabilinu frá 11. janúar 1998 og þar til matsgerð var lokið. Því máli lauk með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 1999, þar sem áfrýjandi var sýknaður af kröfu stefnda án þess að gagnkrafa hans á grundvelli matsgerðarinnar kæmi efnislega til úrlausnar.
II.
Í málinu krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 443.360 krónur í skaðabætur vegna heimildarlausra nota af eignarhluta áfrýjanda í jörðinni Króki, þar með töldu ræktuðu landi og óræktuðu, mannvirkjum á henni og greiðslumarki. Í kröfu þessari, sem sundurliðuð er í héraðsdómi, styðst áfrýjandi við niðurstöðu áðurnefndrar matsgerðar um hæfilegt leigugjald fyrir einstakar eignir og réttindi, en miðar þó kröfuna aðeins við hlutfall af leigugjaldinu, sem svarar til eignarhluta hans í þeim.
Að því leyti, sem áfrýjandi reisir kröfu sína á niðurstöðum matsgerðarinnar um leigugjald fyrir „landbúnaðarafnot af jörðinni Króki ásamt húsakosti”, svo sem þar var komist að orði, á tímabilinu frá 16. maí 1995 til 11. janúar 1998 og jafnframt fyrir hluta mannvirkja þar eftir síðastgreindan dag, er til þess að líta að hann hefur engar líkur leitt að því að kostur hefði í raun verið á að leigja þessar eignir út til búrekstrar á umræddum tíma. Er þess og að gæta að því hefur ekki verið hnekkt, sem stefndi heldur fram, að flest hús á jörðinni og girðingar séu ófullnægjandi til slíkra afnota. Ekkert hefur verið leitt í ljós um að unnt hefði verið að leigja sérstaklega út íbúðarhús á jörðinni, enda er að engu leyti tekið mið af því í forsendum matsgerðar, en um ástand hússins liggur ekki annað fyrir en sú staðhæfing stefnda að það hafi verið óíbúðarhæft um árabil. Í málinu hefur heldur ekki komið nægilega fram í hvaða mæli stefndi nýtti eignirnar, sem hér um ræðir, og hvort þau afnot hafi komið í veg fyrir að aðrir gætu hagnýtt sér þær. Að öllu þessu athuguðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna notkunar stefnda á þessum eignum.
Í málatilbúnaði stefnda er meðal annars staðhæft að áfrýjandi hafi hvorki fyrr né síðar lagt stund á sauðfjárbúskap á jörðinni Króki. Þessu hefur áfrýjandi ekki hnekkt. Eins og málið liggur fyrir verður því ekki séð hvernig áfrýjandi hefði getað krafist beingreiðslna á grundvelli greiðslumarks sauðfjár á jörðinni á árunum 1996 og 1997, ef stefndi hefði ekki einn verið skráður handhafi þeirra á því tímabili. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu áfrýjanda að hann hafi ekki getað hagnýtt sér það greiðslumark á jörðinni, sem kom ekki í hlut stefnda með áðurnefndum úrskurði 2. október 1998, enda væri áfrýjanda ekki fært að selja það eða ráðstafa því á annan hátt án samþykkis annarra eigenda að jörðinni. Ekkert liggur fyrir um að áfrýjanda hefði frekar verið þetta unnt á árinu 1996 eða 1997. Að þessu virtu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að nýting stefnda á öllu greiðslumarki jarðarinnar til að fá beingreiðslur umrædd ár hafi orðið sér til tjóns.
Í héraðsdómsstefnu kom skýrlega fram af hálfu áfrýjanda að með málsókn þessari leiti hann skaðabóta úr hendi stefnda vegna þeirra atvika, sem áður greinir, svo og að krafa hans væri reist „á almennu skaðabótareglunni utan samninga.” Með málatilbúnaði áfrýjanda á síðari stigum hefur þessum grundvelli málsins ekki verið breytt. Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að háttsemi stefnda hafi bakað sér tjón. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gunnar Hólm Guðbjartsson, greiði stefnda, Ólafi Guðbjartssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnari Hólm Guðbjartssyni, kt. 200645-3249, Lyngási, Kjalarnesi, á hendur Ólafi Guðbjartssyni, kt. 241252-4349, Sjávarhólum, Kjalarnesi, með stefnu sem birt var 9. febrúar 2001.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 443.360 krónur með vöxtum samkvæmt. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá l. júní 1998 til 11. júlí 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati réttarins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda. Til vara að gagnkröfu stefnda að fjárhæð 443.600 krónur verði skuldajafnað við dómkröfur stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Helstu málavextir eru að málsaðilar ásamt sex systkinum sínum urðu sameigendur jarðarinnar Króks á Kjalarnesi og tiltekinna mannvirkja á landinu við opinber skipti á dánarbúi Guðbjarts Hólm Guðbjartssonar (d. 6. nóvember 1989) og Gunnleifar Kr. Sveinsdóttur, eiginkonu Guðbjarts, (d. 27. janúar 1973). Skiptayfirlýsing er dagsett 16. maí 1995 og leiðrétting og nánari útfærsla á henni 28. nóvember 1996.
Stefnandi, Gunnar Hólm Guðbjartsson, varð með gjafabréfi Guðbjarts Jónssonar eigandi helmings jarðarinnar Króks á Kjalarnesi 8. september 1946. Og átti Gunnar Hólm síðan jörðina í óskiptri sameign með föður sínum, Guðbjarti Hólm, þar til faðirinn lést.
Í skiptayfirlýsingu, dags. 28. nóvember 1996, segir m.a.: Í eigu búsins voru þessar fasteignir:
1. 50% jarðarinnar að Króki. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 92.000 krónur.
2. 50% ræktaðs lands. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 432.500 krónur.
3. 50% íbúðarhúss. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 252.500 krónur.
4. 50% fjóss. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 55.500 krónur.
5. 50% hlöðu. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 42.000 krónur.
6. 50% hlöðu. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 24.500 krónur.
7. 50% haughúss. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 19.500 krónur.
8. 100% skúrs. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 41.000 krónur.
9. 100% Litla Króks. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 184.000 krónur.
10. 100% fjóss. Fasteignamati 1996 að fjárhæð 673.000 krónur.
Við skiptin varð stefnandi eigandi 52.0833 hundraðshluta af landi jarðarinnar, íbúðarhúss, fjóss, hlöðu og haughúss. Auk þess að verða eigandi af 4.1667 hundraðshlutum skúrs, Litla Króks og fjósi, sbr. tl. 8-10.
Meðan dánarbúið var í skiptum annaðist stefndi, Ólafur Guðbjartsson, rekstur búsins, en fjárstofn dánarbúsins var útlagður til erfingja 29. desember 1995.
Með aðfararbeiðni 24. maí 1996 krafðist stefnandi að stefndi yrði borinn út úr húsum af jörðinni Króki ásamt öllu, er honum tilheyrði, þar með talið bústofn og annað lausafé. Stefndi krafðist þess að beiðninni yrði synjað og féllst héraðsdómur á það. Stefnandi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 1996. Hæstiréttur ályktaði að stefnandi, sem eigandi meirihluta í sameign jarðarinnar Króks, nyti samkvæmt almennum reglum um óskipta sameign réttar til að víkja stefnda af jörðinni. Hins vegar yrði að líta til þess að stefndi hefði búið á jörðinni í rúm sex ár eftir lát föður málsaðila og haft þar með höndum búrekstur. Ætti stefndi rétt á uppsögn afnota áður en unnt væri að krefjast þess að honum yrði vikið af jörðinni en réttmæt uppsögn hefði ekki farið fram. Hafnaði Hæstiréttur þannig kröfu stefnanda um að stefndi yrði borinn út af jörðinni með dómi 27. ágúst 1996.
Með bréfi, sem birt var stefnda 25. september 1996, sagði stefnandi stefnda upp afnotum af jörð og húsakosti að Króki með sex mánaða fyrirvara frá 1. október 1996. Var stefnda tjáð að heimild hans til afnota eignanna félli niður við lok dags 31. mars 1997 og væri honum gert að rýma hús og jörð fyrir klukkan 13.00 daginn eftir. Í bréfi þessu segir m.a. að stefnandi áskilji sér rétt til að krefja stefnda um greiðslu vegna afnota sem hann hafi haft, þ. á m. í uppsagnarfresti. Stefndi varð ekki við þessu.
Stefnandi gerði þá aftur kröfu fyrir dómi um að stefndi yrði borinn út úr húsum og af jörðinni Króki ásamt öllu því er honum tilheyrði. Stefndi krafðist þess þá aðallega á móti að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að synjað yrði um framgang gerðarinnar. Úrskurður gekk 1. október 1997 og segir í úrskurðarorði m.a:
Gerðarþoli, Ólafur S. Guðbjartsson, skal ásamt öllu, sem honum tilheyrir, þ.m.t. sauðfé, vélum, tækjum og öðru lausafé, borinn út af landi jarðarinnar Króks, Kjalarneshreppi, og eftirtöldum mannvirkjum: íbúðarhúsi (matshluta 5305-02), fjósi (matshluta 5305-03), hlöðu (matshluta 5305-05), votheysturni (matshluta 5305-06) og haughúsi (matshluta 5305-07).
Synjað er um heimild til aðfarar að öðru leyti.
Stefndi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 1997 og var hinn kærði úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. nóvember 1997. Og mánudaginn 12. janúar 1998 var á vettvangi að viðstöddum aðilum lýst yfir af hálfu sýslumannsins í Reykjavík að stefndi væri borinn út af landi jarðarinnar Króks og öðrum mannvirkjum „skv. dómi Hæstaréttar nr. 434/1997." Þá var lýst yfir að stefnanda væru afhentar vörslur jarðarinnar og mannvirkja í samræmi við úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1997 sem Hæstiréttur staðfesti í málinu nr. 434/1997.
Stefndi hélt áfram að hafa fyrir sauðfé sitt afnot af gripahúsi í landi Króks, sem stefnandi átti ekki nema 4.1667 hundraðshluta á móti heildareignarhluta annarra erfingja dánarbúsins, enda sagði í dómi Hæstaréttar að stefnandi yrði að þola nauðsynlegan aðgang stefnda að þeim mannvirkjum.
Þann 27. febrúar 1998 kærði stefndi stefnanda fyrir að hindra vatnsrennsli til brynningar fyrir fé sem stefndi hafði í „fjósi" að Króki á Kjalarnesi. Við skýrslutöku lögreglunnar 9. mars 1998 skýrði stefndi svo frá:
Ég hef haldið fé í þessum húsum frá 1989, og nú síðast frá áramótum. Það hefur aldrei gerst áður að vatnslaust hafi orðið í húsunum. Ég hafði grun um að Gunnar Guðbjartsson hafi skrúfað fyrir vatnið og því óskaði ég eftir aðstoð lögreglunnar til þess að reyna að hafa áhrif á Gunnar og fá hann til að opna aftur fyrir rennslið út í fjósið. Það hefur ekki gengið eftir og valdið mér ómældri vinnu við að aka vatni að húsunum til að geta brynnt fénu. Það er krafa mín að þessu linni og gert verði eitthvað til þess að ég geti á eðlilegan máta haft fé í húsunum. Ég vil taka það fram að ég hef ekki lykil að íbúðarhúsinu þar sem vatnsinntakið er.
Við skýrslutöku lögreglunnar 13. mars 1998 í tilefni þess að grunur lék á að stefndi hafi lokað fyrir inntak á kaldavatninu inn í gamla íbúðarhúsið að Króki á Kjalarnesi, skýrði stefnandi svo frá:
Ég vil taka það fram að ég er umráðamaður þessa húss, og ber ábyrgð á því, enda er ég meirihlutaeigandi hússins. Þegar þessar frosthörkur gengu í garð núna um daginn ákvað ég að loka fyrir vatnið svo ekki yrði skaði vegna frostsprunginna leiðsla. Ég vissi ekkert um það að vatnið út í fjósið stoppaðist um leið og ég lokaði fyrir vatnið í húsinu. Tilefnið er það að húsið "Krókur" lá undir vatnsskemmdum því það ýrðist úr leiðslunni. Ég tel mig í fullum rétti til að loka fyrir þetta inntak og að ég með því sé ekki að skemma neitt fyrir einum eða neinum. ...
Stefndi hóf málsókn á hendur stefnanda til greiðslu bóta vegna þess tjóns, sem stefndi hefði orðið fyrir við að flytja vatn frá heimili sína að Sjávarhólum að Króki, tvisvar á dag, 6,4 km vegalengd, til að sinna vatnsþörf 83 fjár, sem hann hafði haldið í fjósinu. Sagði hann að krafan tæki til tímabilsins 12. janúar 1998 til 22. maí 1998. Stefnandi mótmælti kröfum stefnda og hafði jafnframt uppi gagnkröfu til skuldajöfnunar á kröfum stefnda vegna ýmissa landbúnaðarafnota hans af jörðinni.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 1999 var stefnandi sýknaður af kröfum stefnda. Segir í forsendum héraðsdóms m.a. að stefndi [hér stefnandi] hafi óskoraðan umráðarétt yfir íbúðarhúsi því, er hér sé um að ræða. Ekki sé fyrir að fara neinum samningsbundnum afnotum stefnanda [hér stefnda] af vatni, sem tekið sé inn í eignina. Þá sé ljóst að íbúðarhúsið hafi verið ónýtt á þeim tíma, sem stefndi [hér stefnandi] skrúfaði fyrir vatnsinntak þess. Enn fremur verði ekki af gögnum málsins ráðið að lögformlegs leyfis hafi verið aflað til að taka vatn frá húsinu í fjósið.
Undir rekstri málsins, þar sem stefnandi hafði uppi gagnkröfur eins og áður sagði, fékk stefnandi dómkvaddan matsmann til að meta sem hér segir:
1. Hvert er hæfilegt afgjald (leigugjald) á mánuði fyrir landbúnaðarafnot af jörðinni Króki ásamt húsakosti að Króki frá 16. maí 1995 til 11. janúar 1998 á verðlagi í maí 1998. Óskað er eftir að sérgreint verði eftir því sem unnt er endurgjald fyrir jörðina þ.m.t. ræktað land, fjós, hlöðu, votheysturn, haughús, skúr, nýrra fjós (notað sem fjárhús) og framleiðslurétt.
2. Hvert er hæfilegt endurgjald (leigugjald) á mánuði fyrir afnot af íbúðarhúsi að Króki frá 16. maí 1995 til janúar 1998 miðað við verðlag í maí 1998.
3. Óskað er eftir að metið verði sérstaklega hæfilegt endurgjald (leigugjald) fyrir afnot af 147,2 ærgilda greiðslumarki jarðarinnar Króks árin 1996 og 1997 miðað við verðlag í maí 1998.
4. Hvert er hæfilegt mánaðarlegt endurgjald (leigugjald) fyrir afnot af mannvirkjum þeim sem matsþoli hefur í vörslu í dag þ.e. fjós og skúr frá 11. janúar 1998 til þess dags sem matsgerð er gerð. Gert er ráð fyrir að mat um hæfilegt endurgjald fram að þessu tímabili hafi komið fram í matslið nr. 1.
Í niðurstöðu matsgerðar, sem dagsett er 11. júní 1999 segir að endurgjald án virðisaukaskatts óskipt milli aðila frá 16. maí 1995 til 11. janúar 1998 sé metið a) fyrir fjós, hlöðu, votheysturn, haughús, skúr við turn (millibygging), nýrra fjós og íbúðarhús úr steini samtals að fjárhæð 188.069 krónur, b) fyrir jörð, ræktað land til heyskapar 158.537 krónur, c) hrossabeit sumar og vetur samtals að fjárhæð 236.250 krónur, d) endurgjald fyrir greiðslumark í kindakjöti samtals að fjárhæð 477.689 krónur, e) endurgjald fyrir greiðslumark í kindakjöti árin 1996 og 1997 samtals að fjárhæð 329.886 krónur, f) endurgjald fyrir fjós og skúr við turn (millibygging) frá 11. janúar 1998 til 14. júní 1999 samtals að fjárhæð 9.208 krónur.
Með bréfi 27. janúar 2000 krafði stefnandi stefnda um bætur samtals að fjárhæð 744.274 krónur og segir í bréfinu að krafan taki mið af matsgerðinni frá 11. júní 1999. En í stefnu þessa máls segir að krafist sé bóta fyrir heimildarlaus afnot stefnda á eignarhlut stefnanda í jörðinni Króki, mannvirkjum, greiðslumarki, ræktun og öðru því er fylgja ber. Krafist sé bóta fyrir afnot frá 16. maí 1995 til 12. janúar 1998 af eignum þeim, sem stefnandi á að meirihluta, en fyrir aðrar eignir, sem stefndi hafi haldið umráðum og afnotum af, sé krafist bóta frá 16. maí 1995 til dagsins í dag, en áskilinn sé réttur til að krefjast greiðslna fyrir afnot meðan þau standi.
Stefnandi sundurliðar stefnufjárhæðina þannig:
1. Íbúðarhús að Króki nýting frá 16.05.1995-12.01.1998
Hæfilegt endurgjald samkvæmt mati kr. 75.563 x 52.083% kr. 39.920,00
2. Hlaða, eldra fjós, votheysturn, haughús og skúr 16.05.1995-
12.01.1998. Hæfilegt endurgjald samkvæmt mati
kr. 36.943 x kr. 52.083% kr. 19.241,00
3. Jörð, ræktað land til heyskapar 16.05.1995-12.01.1998
Hæfilegt endurgjald samkvæmt mati kr. 158.537,00 x 52.083% kr. 82.571,00
4. Hrossabeit 16.05.1995-12.01.1998
Hæfilegt endurgjald samkvæmt mati kr. 236.250,00 x 52.083% kr. 123.046,00
5. Framleiðsluréttur á kindakjöti (greiðslumark) 1996 og 1997
Hæfilegt endurgjald samkvæmt mati kr. 329.886,00 x 52.083% kr. 171.815,00
6. Nýrra fjós (1978) 16.05.1995-01.02.2001
Hæfilegt endurgjald samkvæmt mati kr. 2.371,00 pr. mánuð
Kr. 104.015,00 x 4.1667% kr. 6.767,00
Samtals kr. 443.360,00
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að stefndi sé bótaskyldur gagnvart sér fyrir heimildarlaus og ólögmæt endurgjaldslaus afnot stefnda á eignarhlut hans í jörðinni Króki og mannvirkjum á jörðinni á því tímabili sem kröfugerð hans nær til. Með afnotum þessum hafi stefndi komið í veg fyrir að hann gæti haft réttmætan hag af eigum sínum. Tjón hans vegna þessa sé miðað við framlagða matsgerð þar sem reiknað sé hæfilegt endurgjald fyrir nýtingu þá sem stefndi hafði. Ekki sé rétt að stefndi hafi þessi afnot - sem stefndi veit að voru án heimildar og í óþökk stefnanda - án nokkurrar greiðslu af hálfu stefnda enda myndi hann með þeim hætti hagnast á kostnað stefnanda.
Þá kveðst stefnandi byggja á því að nýting stefnda á greiðslumarki jarðarinnar hafi verið ólögmæt og fyrir þau beri að greiða hæfilegar bætur sem metnar séu í matsgerðinni. Byggt sé á því að greiðslumark jarðarinnar Króks skiptist milli eigenda í sömu hlutföllum og eignaréttur að jörðinni sjálfri og sé bótakrafa miðuð við hæfilegt leigugjald skv. matsgerð. Samkvæmt bréfi Framleiðsluráðs landbúnaðarins 30. mars 1998 hafi stefndi fengið greiddar beingreiðslur fyrir 147,2 ærgildi á árinu 1996 og 118,4 á árinu 1997. Fjárhæðir í matsgerð, sem kröfur byggja á, séu færðar til verðlags í maí 1998 og sé í máli þessu krafist almennra vaxta frá l. júní 1998 til 11. júlí 1999 en þá hafi einn mánuður verið liðinn frá því matsgerð lá fyrir.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu fyrst og fremst á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni af völdum hans og fjárbúskapar hans á jörðinni Króki, það tímabil sem mál þetta snýst um, en stefnandi krefji hann um leigu tímabilið frá 16. maí 1995 til 12. janúar 1998, vegna óheimillar notkunar á íbúðarhúsinu að Króki, ásamt eftirtöldum eignarhlutum jarðarinnar: i. Hlöðu, eldra fjósi, votheysturni, haughúsi og skúr. ii. Jörð, ræktuðu landi til heyskapar. iii. Hrossabeit. iv. Framleiðslurétti og v. Nýrra fjósi. Miði stefnandi ofangreind tímamörk við útgáfu skiptayfirlýsingar skiptastjóra dánarbús Guðbjarts Guðbjartssonar, frá þeim 16. maí 1995, og útburðardag stefnda af jörðinni Króki, þann 12. janúar 1998. Þetta tímabil krefji stefnandi hann um leigu fyrir 52,083% af ofangreindum eignarhlutum. Í þessu sambandi sé bent á að það hafi ekki verið fyrr en 28. nóvember 1996 sem úthlutun skiptastjóra var að fullu lokið. Þá hafi dánarbú Guðbjarts Guðbjartssonar átt kindurnar til 29. desember 1995.
Þá byggir stefndi einnig á því að not hans af ofangreindum eignarhlutum séu ósönnuð, nema að því leyti sem notin voru honum nauðsynleg til þeirra gegninga, sem hann stundaði í nýrra fjósinu að Króki. Þau not hefðu verið honum heimil í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar í málinu nr. 434/1997.
Þá telur stefndi ósannað að hann hafi notað nákvæmlega 52,083% af ofangreindum eignarhlutum það tímabil sem um ræðir. Mun sennilegra sé að það hafi hann ekki gert og því haldið sig innan við þau 47,917% af jörðinni sem ekki tilheyrðu stefnanda. Þó dómurinn staðfesti að stefnandi hafi getað meinað öðrum nytjar af eignum, sem hann átti að meirihluta, þá sé ekki hægt að gagnálykta frá niðurstöðunni á þann veg, að stefnandi hafi getað ráðstafað þessum eignarhluta upp á sitt eindæmi, þar sem stefnandi eigi jörðina í óskiptri sameign með öðrum. En verði litið svo á, að stefnandi hefði getað leigt jörðina og ofangreinda eignarhluta, þá eigi stefndi og systkini hans hlutdeild í þeirri leigu.
Þá kveðst stefndi einnig byggja á eftirfarandi málsástæðum sem hann greinir frá á þennan hátt:
a. Íbúðarhúsið að Króki, nýting frá 16.05.1995 - 12.01.1998. Stefndi byggir á að hann hafi keypt jörðina Sjávarhóla í mars 1995 og nýtt íbúðarhúsið þar til heimilishalds síðan. Stefndi tekur fram að íbúðarhúsið að Króki, það sem um er deilt, hafi verið orðið óíbúðarhæft löngu fyrir maí 1995. Hafi stefndi kynt húsið til að varna frekari niðurníðslu þess og borgað hita og rafmagn af húsinu, en stefndi taldi öruggara að halda húsinu heitu vegna vatnsinntaks þess sem í húsinu var og stefndi var háður varðandi nýtingu hans á fjósinu. Bendir stefndi á, að loksins þegar stefnandi hafi verið krafinn um greiðslu fyrir hita og rafmagn, þá hafi hann þegar lokað húsinu fyrir stefnda. Hafi hann látið loka fyrir veiturnar og látið fjarlægja gjaldmælana úr húsinu, án samráðs við sameigendur sína að íbúðarhúsinu. Einnig hafi hann sjálfur lokað sameiginlegu vatnsinntaki í íbúðarhúsið og fjósið, eins og rakið verður síðar...
b. Hlaða, eldra fjós, votheysturn, haughús og skúr. Stefndi byggir á, að hann hafi sáralítið notað ofangreinda eignarhluta frá haustinu 1995 og aldrei varnað stefnanda notkun þessara mannvirkja. Byggir stefndi á að öll not hans af þessum eignum og mannvirkjum svo að í bága hafi farið við heimildir stefnanda, séu ósannaðar.
c. Jörð, ræktað land til heyskapar. Stefndi byggir á, að hann hafi notað tún jarðarinnar lítilsháttar til heyskapar ofangreind tímabil en ekki til sauðfjárbeitar. Aðallega hafi stefndi heyjað að Sjávarhólum og að Presthúsum. Stefndi hafi á engan hátt meinað stefnanda að nýta tún jarðarinnar Króks eins og stefnandi hafi viljað til heyskapar. Raunin hafi einnig verið sú að stefnandi hafi notað um 70% túnanna, en stefndi um 30%.
d. Hrossabeit. Stefndi byggir á að hann hafi ekki notað jörðina til hrossabeitar ofangreind tímabil, slíkt verði stefnandi að sanna. Þá hafi stefndi aldrei meinað stefnanda að nýta jörðina til hrossabeitar.
e. Framleiðsluréttur í sauðfé (greiðslumark). Stefndi byggir í fyrsta lagi á, að faðir hans hafi verið handhafi búmarks jarðarinnar og fullvirðisréttar. Hafi dánarbúið tekið við þessum réttindum og síðan orðið handhafi greiðslumarksins og því átt rétt á svokölluðum beingreiðslum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Stefnandi hafi aldrei stundað búskap á lögbýlinu Króki og því aldrei haft ásetning til grundvallar beingreiðslum, samkvæmt búvörulögum ofangreind tímabil og því aldrei átt rétt á beingreiðslum. Stefnandi hafi af þeim sökum ekki orðið fyrir tjóni vegna notkunar stefnda á greiðslumarkinu. Hefði stefnanda og verið óheimilt að leigja greiðslumarkið og hafa þannig af því tekjur. Stefndi hafi hins vegar uppfyllt þau skilyrði, sem sett eru í 39. grein búvörulaga, til að handhafar greiðslumarks eigi rétt á beingreiðslum og hafi notið beingreiðslna á lögmætan hátt, í samræmi við þau skilyrði sem þar eru sett.
Stefndi byggir og á, að þó greiðslumark sé nú bundið við lögbýli og að nú hafi verið ákveðið af dómstólum, að um sé að ræða ákveðin fasteignatengd réttindi, þá hafi það verið breytilegt frá einum tíma til annars, hvaða heimildir og takmarkanir hafi verið í gildi um slík réttindi. Það hafi farið eftir löggjöf hvers tíma, er verið hafi ærið mismunandi. Fyrst og fremst hafi verið um að ræða atvinnuréttindi og þá atvinnuréttindi stefnda, sem ekki hafi mátt skerða með þeim hætti sem gert hafi verið.
Bendir stefndi á í því sambandi, að búvörulög nr. 99/1993 geri ráð fyrir að einn framleiðandi búvöru skuli vera skráður handhafi beingreiðslna. Þá geri lögin ráð fyrir að á einu lögbýli geti verið fleiri en einn handhafi slíkra réttinda. Réttur einstaks handhafa fer samkvæmt 3. mgr. 39. greinar búvörulaga fyrst og fremst eftir því hve margar vetrarfóðraðar ær viðkomandi á, en ekki hvað hann á stóran hluta viðkomandi lögbýlis.
Stefndi byggir og á, að hann hafi ekki misst handhöfn greiðslumarksins vegna útburðarmálsins, þar sem hann hafi haldið kindurnar og fóðrað þær vetrarlangt að lögbýlinu Króki í hinu umdeilda nýrra fjósi, sem stefnandi hafi ekki átt nema 4% í, sem einnig sé til áréttingar á að stefnandi eigi engan rétt til beingreiðslna.
Byggir stefndi á í þessu sambandi að dómstóll sé ekki bundinn af ákvörðunum Framleiðsluráðs landbúnaðarins og úrskurði þeirrar úrskurðarnefndar, sem starfaði samkvæmt 42. grein búvörulaga og stefnandi byggir rétt sinn á, sbr. Geitaskarðsdóminn (hæstaréttarmál nr. 279/2000 frá 8. mars 2001).
Byggir stefndi á, að hann hafi fengið greiðslumarkið frá þeim framleiðanda, sem búskap stundaði á lögbýlinu Króki, ákveðin atvinnuréttindi, sem hann hafi haft öll skilyrði til að taka við. Þeim skilyrðum hafi stefnandi ekki fullnægt. Þessi atvinnuréttindi hafi verið óheimilt að skerða með þeim hætti sem gert hafi verið, nema almanna þörf krefði og kæmu þá bætur fyrir.
Byggir stefndi og á, að sauðfjárbændur megi í dag framleiða eins mikið magn sauðfjár og þeir kjósi. Það fari hins vegar eftir eftirspurn sláturleyfishafa hvaða verð bændur fái fyrir hvern dilk. Greiðslumarkið sé hins vegar arfur frá þeirri tíð, þegar framleiðslutakmarkanir voru settar á hvern og einn framleiðanda með lögum. Hafa þessar framleiðslutakmarkanir í gegnum tíðina orðið ákveðin atvinnuréttindi, sem hafi verið framseljanleg milli jarða. Af því leiði að réttindi þessi verða ekki bundin jörðinni Króki með þeim hætti sem úrskurðað hefur verið af úrskurðarnefnd skv. 42. grein búvörulaga. Byggir stefndi og á að um sé að ræða ákveðin óbein eignarréttindi, sem afsalað hefur verið til stefnda og stefnandi eigi ekki tilkall til. Enda þó réttindi þessi verði talin fasteignatengd, þá hafi þau aldrei verið í sameign með stefnanda.
Stefndi byggir einnig á að hann leiði rétt sinn til greiðslumarksins af réttindum dánarbúsins. Stefnandi hafi ætíð vitað um notkun dánarbúsins á greiðslumarkinu og ekki gert athugasemdir um notkun þess. Hafi stefnandi að þessu leyti sýnt af sér tómlæti.
f. Nýrra fjós (1978). Stefndi byggir á, að hann hafi aldrei bannað stefnanda að nýta eignarrétt sinn í fjósinu og það hafi ætíð staðið stefnanda til boða. Fjósið hafi aldrei verið fullnýtt af stefnda. Í fjósið hafi komist um 130 kindur. Sauðfjárstofn dánarbúsins hafi verið 96 kindur, þ.e. 76 fullorðnar ær, 19 lömb og einn hrútur. Það er því með öllu ósannað að stefndi hafi með hagnýtingu sinni á fjósinu valdið stefnanda tjóni eða að stefnanda hafi verið meinað að nýta fjósið í samræmi við eignarhluta sinn í fjósinu.
Stefndi krefst skuldajafnaðar til frádráttar við kröfu stefnanda, verði hún dæmd. Um sé að ræða kostnað stefnda við vatnsflutninga að fjárhæð 137.330 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 20. október 1998 til greiðsludags. Kveðst stefndi byggja gagnkröfu sína á, að stöðvun vatnsnotkunar, hvort sem er til heimilis eða atvinnurekstrar, sé ekki á hendi annarra en viðkomandi veitustofnunar. Stefnandi hafi ekki mátt loka fyrir vatnið upp á sitt eindæmi, en stefndi hafði þá haldið fé í fjósinu og keypt til þess vatn í mörg ár úr opinberri vatnsveitu. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sönnunarbyrði um að ekki hafi verið um að ræða sameiginlegt vatnsinntak með íbúðarhúsinu og fjósinu og að hann hafi haft það vald að mega loka fyrir vatnið. Telur stefndi að um hafi verið að ræða sameiginlegt vatnsinntak og vísar í því efni til kvittunar nr. 336 frá 8. september 1981 þar sem fram komi að greitt sé heimtaugargjald vatnsveitu vegna húsa Guðbjarts H. Guðbjartssonar, en þarna sé áréttað að heimtaugargjaldið sé ekki eingöngu vegna íbúðarhússins. Segir stefndi að þessu til stuðnings sé tveggja tommu inntak, með tveggja tommu stoppkrana sem leiði vatn annars vegar inn í íbúðarhúsið og hins vegar inn í fjósið. Þetta fyrirkomulag sé í fyllsta samræmi við 14. grein reglugerðar fyrir vatnsveitu Kjalarneshrepps frá 14. desember 1973 sem í gildi var þegar heimtaugargjaldið var greitt þann 8. september 1981 og hljóðar svo: " Vatnsveitunni skal heimilt að fara inn á heimæðar til tengingar fleiri húsa sé flutningsgeta heimtaugarinnar nægjanleg."
Þar eð hann hafi ekki áður byggt á ofangreindum málsástæðum gagnkröfunnar fyrir dómi, telur stefndi, að dómur frá 30. september 1999 í málinu nr. E-4815/1998 hafi ekki res judicata áhrif í þessu máli. Þá telur stefndi að stefnandi hafi ekki mátt hindra nauðsynleg afnot hans af eignum jarðarinnar, sbr. hæstaréttarmálið nr. 434/1997, en þar með teljist tvímælalaust vatnsafnot.
Stefndi krefst þess að til frádráttar dómkröfum stefnanda komi krafa hans um greiðslu miskabóta að fjárhæð 400.000 krónur úr hendi stefnanda samkvæmt 26. grein skaðabótalaga vegna ólögmætrar meingerðar stefnanda í garð stefnda, gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnda. Gagnkröfu til grundvallar vísar stefndi til fyrrgreindra málsástæðna sinna, en greinilegt sé, að stefnandi hafi tekið sér í hendur opinbert vald og jafnvel þó svo yrði ekki talið, hafi eigi að síður verið um ólögmæta meingerð að ræða. Í þessu sambandi verði að líta til þess að hann hafi haft not af fjósinu fyrir atvinnustarfsemi sína og haft til þess fullan rétt. Og verði fallist á að stefnandi eigi kröfu á hann vegna ólögmætrar notkunar á greiðslumarki jarðarinnar, þá sé byggt á því, að hann eigi gagnkröfu á stefnanda vegna þess að hann hafi haldið greiðslumarkinu eða framleiðslurétti jarðarinnar við með fjárbúskapi sínum. Stefnandi hafi ekki stundað búskap eða með öðrum hætti uppfyllt skilyrði til að fá beingreiðslur úr ríkissjóði. Með notkun jarðarinnar til kindakjötsframleiðslu hafi stefndi hins vegar stuðlað að því, að framleiðsluréttur jarðarinnar hélst í gildi og kom stefnanda að lokum að notum sem ákveðin fjárverðmæti. Verði orðið við kröfu stefnanda beri að meta hlut stefnda í því greiðslumarki sem til stefnanda hefur gengið samkvæmt reglum ábúðarlaga, eins og um kúgildi væri að ræða. Stefndi eigi gagnkröfu á hendur stefnanda af þessum ástæðum að fjárhæð 500.000 krónur.
Stefndi vísar til þess að hverjum sameiganda sé heimil nýting og ráðstafanir, sem séu öðrum sameigendum að bagalausu. Hverjum eiganda sameignar sé heimil sú notkun sameignarinnar, sem gengið hafi verið út frá í byrjun og hverjum sameiganda sé heimilt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir skemmdir sameignarinnar. Sameigendur eigi eign saman - eignin í heild sinni sé eign þeirra - enginn einn þeirra eigi út af fyrir sig nokkurn afmarkaðan hluta hennar. Annað mál sé hvernig jafna skuli milli sameigenda tekjum og gjöldum, er eigninni fylgi, og hvernig eigninni skuli skipt við sameignarslit.
Stefndi, Ólafur Sigurgeir Hólm Guðbjartsson, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hafi verið launþegi hjá dánarbúi foreldra sinna við búreksturinn að Króki á Kjalarnesi. Hann kvaðst hafa hafið sjálfstæðan búskap 29. desember 1995. Hafi bústofninn verið sextán kindur til að byrja með. Hafi hann nýtt fjós að Króki árin 1996 og 1997. Hann kvaðst hafa keypt jörðina Sjávarhóla 15. mars 1995 og hafi búið þar og átt þar heima síðan.
Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 105, sem er bókun skiptafundar í dánarbúi Guðbjarts Guðbjartssonar á skrifstofu Jóhanns H. Níelssonar, skiptastjóra, 6. september 1995. Kvaðst Ólafur hafa farið fram á það á þessum fundi að skiptayfirlýsing yrði leiðrétt varðandi úthlutun á fjósi.
Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 9, sem er myndrit af skiptayfirlýsingu 28. nóvember 1996. Ólafur sagði að öllum eignum, sem þar er greint frá, hafi verið þinglýst á sama tíma. Fjósinu, sem hann hafi aðallega notað, hafi ekki verið þinglýst fyrr. Stefnandi, Gunnar Hólm Guðbjartsson, hafi aðeins átt lítinn hluta í því fjósi. Ólafur kvaðst ekki hafa nýtt jörðina að Króki til beitar fyrir búfénað sinn en lítilsháttar til heyskapar. Ólafur sagði að allar girðingar á jörðinni að Króki hafi á þessum tíma verið ónýtar.
Ólafur kvaðst hafa nýtt áðurgreint fjós með þeim hætti að hann hafi flutt kindurnar eftir að hann tók þær í hús út í fjósið. Þar hafi hann haldið þeim inni yfir vetrartímann. Hafi hann síðan flutt þær að Sjávarhólum fyrir burð. Þetta hafi hann gert á meðan hann gat nýtt fjósið. Hafi hann orðið að hætta því sökum vatnsleysis í fjósinu. Kvaðst hann ekki hafa notað íbúðarhúsið, þar sem vatnið er tekið inn, en haldið hita á því. Ólafur kvaðst alla tíð hafa greitt fasteignagjöld af fjósinu og vísaði í því sambandi til dskj. nr. 95. Þá hafi hann greitt brunatryggingar og vatnsskatt. Kvað hann stefnanda ekki hafa greitt fasteignagjöld af þessu fjósi.
Ólafur sagði að beingreiðslum til hans árið 1996 hafi verið hagað með þeim hætti að beingreiðslur hafi verið greiddar til dánarbúsins. Þann 14. júlí 1996 hafi Jóhann H. Níelsson endursent þær til framleiðsluráðs. Hefði Jóhann tjáð ráðinu að dánarbúið ætti ekki fjárstofninn. Hins vegar hafi dánarbúið átt fjárstofninn 1. desember 1995 og hafi því átt að fá beingreiðsluna. Ólafur kvaðst hafa gert tilkall til þeirra en þó ekki stærri hluta þeirra en hann ætti rétt til. Kvaðst Ólafur á þessum tíma hafa átt greiðslumark í Sjávarhólum er hann hefði keypt af Sveini í Bræðratungu 1996. Hafi hann ekki fylgst með hvernig skiptingin var þarna á milli. Hafi hann á þessum tíma verið skráður sauðfjárbóndi að Sjávarhólum og átt greiðslumark. Réttur hans til beingreiðslna hafi verið skertur út af því að hlutur stefnanda, Gunnars, hafi verið lagður við hans hluta, sbr. dskj. nr. 82. Þar með hafi hann ekki fengið varanlega svokallaðar jöfnunargreiðslur.
Ólafur sagði að stefnandi, Gunnar, hafi byrjað að heyja á jörðinni að Króki á árinu 1995 og hafi heyjað þar síðan. Enginn hafi hindrað hann í því eða til að nýta jörðina með öðrum hætti. Hann kvaðst ekki vita til þess, að húsin hafi verið nýtt af öðrum eftir að hann var borinn út af jörðinni. Hann sagði að húsin á jörðinni væru öll ónýt og ekki boðleg til leigu. Eftir að vatnið var tekið af fjósinu hafi verið mjög erfitt að nýta það. Hafi hann ekkert nýtt það á þessu ári.
Ólafur kvað stefnanda, Gunnar, lítinn áhuga hafa sýnt skiptingu jarðarinnar. Hafi hann boðað Gunnar til fundar við sig á árinu 1998 í þeim tilgangi en Gunnar ekki komið. Kvað hann Gunnar ekki hafa boðað fund hjá sér til að ræða þau mál. Kvaðst Ólafur hafa fengið Þorstein Pétursson lögmann til að reyna að ná sáttum um skiptingu jarðarinnar, en það hefði ekki tekist.
Lögð voru fyrir Ólaf dskj. nr. 73-83. Kvaðst Ólafur hafa gert fyrirspurn til landbúnaðarráðaneytisins hvernig staðið væri að leigu á ríkisjörðum og fengið svar við því. Komið hefði fram í svari ráðuneytisins að ekki væri tekin sérstök leiga fyrir sauðfjárkvóta á jörðum ríkisins.
Ólafur kvaðst enga nýtingu hafa haft af íbúðarhúsi að Króki [frá 16.05.1995-12.011998] og þá hafi hann ekki nýtt svokallað eldra fjós og ekki votheysturn eða haughús. Hann hafi einhvern tímann á árinu 1996 haft lítilsháttar hey inni í hlöðunni. Þá hafi hann notað skúr á jörðinni til að geyma hey í litlum mæli, en stefnandi eigi 4% af skúrnum.
Ólafur kvaðst ekki vita hve stór tún jarðarinnar að Króki væru. Hann sagði að stefnandi og Guðjón Guðbjartsson, bróðir hans, hefðu báðir byggt íbúðarhús á túnum jarðarinnar. Kvað hann það rangt að hann hefði notað 52,083% jarðarinnar til heyskapar. Þegar hann hafi notað túnin til heyskapar hafi hann nýtt um það bil 30% jarðarinnar.
Ólafur kvaðst ekki hafa verið boðaður til matsgerðar 13. maí 1997, sem vísað er til í matsgerðinni frá 11. júní 1999, og byggt er á í máli þessu, sbr. dskj. nr. 28.
Ólafur kvaðst ekki muna hvenær hann flutti lögheimili sitt að Sjávarhólum. Hann kvaðst bæði hafa fengið beingreiðslur á grundvelli greiðslumarks Króks og greiðslumarks Sjávarhóla á árunum 1996 og 1997.
Aðspurður vildi Ólafur ekki neita því að stefnandi hefði gert tillögu um skiptingu á jörðinni Króki milli erfingja.
Birgir Óli Einarsson gaf skýrslu símleiðis fyrir rétti. Hann játaði að hafa unnið matsgjörð, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 28. Hann kvað matsgjörðina hafa verið unna samkvæmt bestu vitund og samvisku.
Birgir kvaðst vera viðskiptafræðingur að mennt og hagfræðingur. Kvaðst hann hafa unnið hjá hagþjónustu landbúnaðarins sem sérfræðingur. Þá hafi hann unnið að uppgjöri búreikninga. Hafi hann því talið sig vera sérfræðing á því sviði er varðaði matsgerðina.
Birgir sagði að orðið greiðslumark þýddi að greiðslumark lögbýla væri tiltekið mark kindakjöts mælt í kílóum sem réttur til beinna greiðslna miðast við. Hann sagði að beingreiðsla væri það sem hið opinbera tryggði framleiðendum fyrir framleiðslu á afurðum. Hann sagði að orðið ásetningur samkvæmt búvörulögum hefði ekki beina þýðingu fyrir beingreiðslur.
Lögmaður stefnanda upplýsti að afnotum stefnda af eignunum hafi verið lokið er matið fór fram.
Guðjón H. Guðbjartsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði byrjað að byggja íbúðarhús sitt að Króki á árinu 1974 en búið alla sína ævi á jörðinni. Hann sagðist ekki vita til þess að stefnanda, Gunnari, hafi verið meinuð afnot af jörðinni. Gunnar hafi stundað heyskap á jörðinni og heyjað til að selja allt frá árinu 1995. Hann sagði að girðingar jarðarinnar væru ónýtar og hefði stefndi, Ólafur, ekki nýtt jörðina til beitar fyrir hross. Hann sagði að Gunnar hefði ekki leigt öðrum húsin að Króki eftir að Ólafur var borinn út af jörðinni 1998, húsin væru ónýt. Hann sagði að húsin hefðu verið ónýt í mörg ár.
Jónas Guðmundsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann þekkti Gunnar, Guðjón og Ólaf. Hafi hann oft farið upp á Kjalarnes að sumri til á árunum 1995, 1996 og 1997. Kvaðst hann hafa tekið eftir því að Gunnar heyjaði á jörðinni Króki á þessum árum. Aðspurður kvað hann Ólaf vera vin sinn. Kvaðst hann hafa haft minni samskipti við Gunnar en þá bræður Guðjón og Ólaf.
Hjörtur Sigurðsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði á árunum 1996 og 1997 komið einstaka sinnum með Ólafi að jörðinni Króki á Kjalarnesi. Hann kvaðst vita hver stefnandi, Gunnar, væri. Kvaðst hann hafa séð Gunnar stunda heyskap á jörðinni, þegar hann hafi átt leið til Presthúsa, sem sé jörð á Kjalarnesi í eigu afa hans. Hann sagði að hann og stefndi, Ólafur, væru góðir kunningjar. Kvaðst hann hafa verið með hross hjá Ólafi og þekkt hann frá fyrri tíð.
Niðurstaða: Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum endurgjald fyrir nýtingu stefnda á íbúðarhúsi að Króki, hlöðu, svokölluðu eldra fjósi, votheysturni, haughúsi og skúr á jörðinni frá 16. maí 1995 til 12. janúar 1998, samtals að fjárhæð 59.000 krónur. Þá krefst hann þess að stefndi greiði honum 82.571 krónu í endurgjald fyrir nýtingu stefnda af jörðinni til heyskapar og 123.046 krónur fyrir nýtingu stefnda af jörðinni til hrossabeitar á sama tíma. Þá krefst hann þess að stefndi greiði honum 171.815 krónur í endurgjald fyrir nýtingu stefnda á framleiðslurétti á kindakjöti á árunum 1996 og 1997 og 6.767 krónur fyrir afnot af svokölluðu nýrra fjósi frá 15. maí 1995 til 1. febrúar 2001. Samtals krefst stefnandi af stefnda 443.360 króna í endurgjald.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að stefndi hafi án heimildar notað eignarhluta stefnanda í jörðinni Króki og mannvirkjum á jörðinni á því tímabili sem hér um ræðir. Með þessum ólögmætu afnotum hafi stefndi komið í veg fyrir að stefnandi gæti haft réttmætan hag af eigum sínum. Þá byggir stefnandi á því að nýting stefnda á svokölluðu greiðslumarki jarðarinnar hafi verið ólögmæt. Greiðslumark jarðarinnar Króks eigi að skiptast milli eigenda jarðarinnar í sömu hlutföllum og eignaréttur að jörðinni.
Stefndi byggir á því að hann hafi ekki valdið stefnanda tjóni og ekki hindrað hann í að hafa þau afnot af jörð og mannvirkjum að Króki sem hugur hans hefði staðið til.
Með yfirlýsingu skiptastjóra dánarbús Guðbjarts Hólm Guðbjartssonar og Gunnleifar Kr. Sveinsdóttur, eiginkonu Guðbjarts, 16. maí 1995 öðlast stefnandi meiri hluta í sameign um jörðina Krók á Kjalarnesi og tilteknum mannvirkjum er þar eru. Þó stefnandi, sem eigandi meiri hluta í sameign um jörðina Krók, hafi haft rétt til að víkja stefnda af jörðinni, verður ekki þar með talið, að stefnandi eigi ótvíræðan rétt til að stefndi greiði honum endurgjald, svo sem hann gerir kröfu til. Nýting stefnda á eignarhluta stefnanda frá 16. maí 1995 til 12. janúar 1998 er að ýmsu leyti umdeild. Líta verður til þess að sameigendur stefnanda höfðu veitt stefnda af sinni hálfu fulla heimild til að nýta þeirra hluta og naumast verður talið að á þessum tíma hafi verið um jörð og húsakost að ræða, sem unnt var að nýta að öllu leyti til landbúnaðarafnota - að um 100% nýtingu hafi verið að ræða, þ.e. að stefndi hafi auk þess að nýta 47,917% einnig nýtt að fullu 52,083% eignarhluta stefnanda og komið þannig í veg fyrir að stefnandi hefði nokkur not af eignarhluta sínum.
Bústofni dánarbúsins, 76 fullorðnum ám, 19 lömbum eða gemlingum og 1 hrúti, var úthlutað af skiptastjóra til erfingja 29. desember 1995. Á tímabilinu frá 16. maí til 29. desember 1995, verður að telja, að dánarbúið hafi nýtt jörðina og mannvirki á henni fyrir þennan bústofn en ekki stefndi. Vitni hafa borið að stefnandi hafi stundað heyskap á jörðinni frá 1995. Þá er upplýst að stefnandi byggði íbúðarhús á jörðinni og býr þar - sem og bróðir hans, Guðjón H. Guðbjartsson. Verður því ekki talið sannað gegn andmælum stefnda, að stefndi hafi komið í veg fyrir að stefnandi gæti haft lögmæt not og hagnað af jörð og mannvirkjum í samræmi við eignarhluta stefnanda í óskiptri sameign.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að hann hafi átt rétt til framleiðslu á kindakjöti á jörðinni Króki á Kjalarnesi, sem stefndi hafi með ólögmætum hætti komið í veg fyrir að hann nyti. Framleiðsluráð landbúnaðarins skráði stefnda handhafa beingreiðslna á sauðfé á jörðinni á þeim tíma er hér um ræðir. Ekki er við stefnda að sakast í þeim efnum.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Rétt er að stefnandi greiði stefnda 80.000 krónur í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Ólafur Sigurgeir Hólm Guðbjartsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Hólm Guðbjartssonar.
Stefnandi greiði stefnda 80.000 krónur í málskostnað.