Hæstiréttur íslands

Mál nr. 517/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samaðild
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 25. ágúst 2014.

Nr. 517/2014.

Guðbjörn Jónsson

(sjálfur)

gegn

Íbúðalánasjóði

(enginn)

Kærumál. Samaðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

G höfðaði mál gegn Í og krafðist viðurkenningar á því að Í hefði verið óheimilt að hækka mánaðarlega höfuðstól veðskuldabréfs, sem G og eiginkona hans höfðu gefið út, miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að G og eiginkona hans væru sameiginlega ábyrg fyrir greiðslu skuldarinnar og að útreikningur afborgana hennar  varðaði hagsmuni þeirra beggja. Væri óhjákvæmilegt að eiginkona G ætti aðild að málinu með honum. Var málinu því vísað frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar kom hins vegar fram að þegar skuldarar væru fleiri en einn væri það meginregla kröfuréttar að þeir bæru óskipta ábyrgð gagnvart kröfuhafa. Honum væri þannig unnt að ganga að hverjum þeirra um efndir að fullu án þess að þörf væri á aðild þeirra allra. G og eiginkona hans bæru samkvæmt þessu ekki óskipta skyldu þannig að samaðild væri fyrir hendi í skilningi áðurgreinds ákvæðis. Á hinn bóginn taldi rétturinn að héraðsdómsstefna málsins fullnægði ekki áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og ótvíræðan málatilbúnað. Var í því sambandi tekið fram að í stefnunni væri undir fyrirsögninni dómkröfur blandað saman í samfelldu máli kröfugerð, lýsingu á málsatvikum og málsástæðum G án þess að fram kæmi glögg lýsing á kröfugerð G í sérgreindu máli. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Samhliða er þess krafist að ,,lagt verði mat á hvort meðferð héraðsdóms á málinu hafi verið í samræmi við ákvæði laga ... nr. 91/1991 og lög um dómstóla nr. 15/1998“. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með samningi 17. júlí 2000 festi Ragnheiður Benediktsdóttir, eiginkona sóknaraðila, kaup á efri hæð í hússins að Haukshólum 6 í Reykjavík. Kaupverðið greiddi hún meðal annars með fasteignaveðbréfi skiptanlegu fyrir húsbréf. Það veðbréf gáfu hún og sóknaraðili út sama dag og nam fjárhæð þess 6.420.000 krónum, bundin vísitölu neysluverðs, með tilgreindum ársvöxtum. Bréfið var til 40 ára með mánaðarlegum gjalddögum og tryggt með 1. veðrétti í eigninni, sem mun vera þinglýst eign konunnar. Fasteignaveðbréfið var síðan framselt varnaraðila.

Sóknaraðili og eiginkona hans tókust bæði á hendur að greiða skuld samkvæmt því fasteignaveðbréfi sem þau gáfu út. Þegar skuldarar eru fleiri og standa samhliða er það meginregla kröfuréttar að þeir bera óskipta ábyrgð gagnvart kröfuhafa. Af því leiðir að unnt er að ganga að hverjum þeirra um efndir skuldarinnar að fullu og engin þörf er á aðild þeirra allra að máli sem rekið er um skuldbindingu hvers þeirra, þar með talin lánskjör. Samkvæmt þessu er ekki um það að ræða að sóknaraðili og eiginkona hans beri óskipta skyldu í málinu þannig að samaðild sé fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er í héraðsdómsstefnu undir fyrirsögninni dómkröfur blandað saman í samfelldu máli kröfugerð, lýsingu á málsatvikum og þeim málsástæðum sem sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á. Er hér um að ræða meginefni stefnunnar en því til viðbótar er stuttur kafli undir fyrirsögninni málavextir og málsástæður. Þótt stefnandi hafi að lögum óbundnar hendur um uppsetningu og efnisröð stefnu takmarkast það svigrúm af áskilnaði réttarfarslaga um skýran og ótvíræðan málatilbúnað. Í því tilliti er ófullnægjandi ef stefna hefur ekki að geyma í sérgreindu máli glögga lýsingu á kröfugerð, enda getur ekki komið í hlut dómara að afmarka hana á grundvelli samfelldrar lýsingar á málatilbúnaði stefnanda. Að þessu leyti fullnægir stefna í málinu ekki kröfum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og er þessi annmarki slíkur að staðfesta ber niðurstöðu héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.    

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2014.

                Mál þetta höfðaði Guðbjörn Jónsson, kt. 101041-3289, Kríuhólum 4, Reykjavík, með stefnu birtri 11. febrúar 2014 á hendur Íbúðalánasjóði, kt. 661198-3629, Borgartúni 21, Reykjavík.  Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 25. júní sl. 

                Í þessum úrskurði er fjallað um þá kröfu stefnda að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. 

                Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað. 

                Í stefnu er undir fyrirsögninni dómkröfur að nokkru blandað saman kröfugerð og málsatvikalýsingu og málsástæðum stefnanda.  Kröfur má þó ljóslega sjá og er þær þessar: 

                Krafist er staðfestingar á því að frá upphafi lántöku stefnanda á árinu 2000 hafi Íbúðalánasjóði verið óheimilt að hækka höfuðstól íbúðaláns hans mánaðarlega, með uppfærslu höfuðstóls samkvæmt neysluvísitölu hvers mánaðar. 

                Krafist er ógildingar á verðbótareikningi á vaxtagreiðslur. 

                Krafist er leiðréttingar á grunnvísitölu lánsins sem hafi verið skráð 197,6, en átt að vera 200,1. 

                Krafist er leiðréttingar á fyrsta vaxtadegi, sem hafi verið sagður 29. maí 2000, en eigi að vera 17. júlí sama ár. 

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. 

                Við þingfestingu lagði stefnandi fram bæði stefnu og greinargerð, þar sem kröfur eru útskýrðar og rökstuddar ítarlega.  Þá er í lok greinargerðar settar fram kröfur stefnanda og er ekki fullt samræmi milli þess sem þar greinir og þess sem tilgreint er í stefnu. 

                Í stefnu er að finna stuttan rökstuðning og skýringar á einstökum kröfuliðum.  Málavaxtalýsing er stutt og hnitmiðuð.  Þar kemur fram að stefnandi hafi sótt um lán hjá stefnda í maímánuði árið 2000.  Umsóknin hafi verið samþykkt 29. maí.  Láns­samningur hafi hins vegar ekki verið undirritaður fyrr en 17. júlí 2000 og þá hafi lánsfjárhæðin verið greidd út.  Fyrsti gjalddagi hafi verið 15. október 2000. 

                Stefnandi kveðst ekki hafa tekið eftir því strax að fyrsti vaxtadagur var rangt tilgreindur.  Hann hafi á árinu 2004 ritað stefnda bréf og óskað eftir leiðréttingu á þessu.  Vegna veikinda sinna hafi orðið hlé á aðgerðum, en á síðasta ári hafi hann reynt að ná fundi forstjóra stefnda, en ekki tekist.  Þá hafi ýmsir fleiri þættir verið í ólagi í sambandi við lánveitinguna og hafi hann því ákveðið að höfða mál þetta til að fá leiðréttingu á því sem aflaga hefur farið. 

                Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á þremur röksemdum.  Í fyrsta lagi byggir hann á því að stefnandi sé ekki einn skuldari að umræddri veðskuld, heldur einnig kona hans, Ragnheiður Benediktsdóttir.  Stefnukrafa varði sameiginlega hagsmuni beggja skuldara bréfsins og því eigi þau samaðild.  Þar sem stefnandi standi einn að málssókninni verði að vísa málinu frá samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. 

                Þá segir stefndi að málatilbúnaður stefnanda sé samhengislaus og óskýr.  Ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um glöggan og skýran mála­tilbúnað.  Í stefnu sé blandað saman kröfum og málavaxtalýsingu og málsástæðum.  Þetta samræmist ekki d-lið 1. mgr. 80. gr.  Þá sé ýmist krafist ógildingar eða leið­réttingar á greiðslum sem þegar hafi verið inntar af hendi, en ekki sé sagt hvernig slíkt skuli gert.  Lýsing málsatvika og málsástæðna sé ruglingsleg og í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr.  Óljóst sé í hverju kröfur stefnanda felist, þær séu í mótsögn hver við aðra og alveg órökstuddar.  Hvorki sé gerð fjárkrafa né krafa um viðurkenningu réttinda eða lausn undan skyldu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna.  Ekki verði séð að úrlausn málsins tengist ákveðnu sakarefni.  Því sé lögð fyrir lögspurning, en það varði frá­vísun samkvæmt 1. mgr. 25. gr. 

                Stefndi gerir athugasemd við það að stefnandi hafi lagt fram sérstaka greinargerð með stefnunni.  Það sé óheimilt, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá fullnægi greinargerðin ekki skilyrðum þeim sem 2. mgr. 99. gr. setji um ritun greinargerða.  Telur stefndi að líta beri á skjal þetta sem ígildi skriflegrar aðilaskýrslu.  Hún sé á sama hátt og stefnan bæði óskýr og ruglingsleg.  Í lokin séu tíundaðar helstu kröfur stefnanda, en þær séu ekki þær sömu og fram komi í stefnu.  Því sé erfitt að henda reiður á hvers stefnandi krefjist. 

                Við málflutning um frávísunarkröfuna mótmælti stefnandi henni.  Hann vísar til þess að forsvarsmaður stefnda, Sigurður Erlingsson, hafi ekki mætt við þing­festingu málsins og því hafi átt að fara með málið sem útivistarmál.  Lögmaður sem hafi sótt þing hafi ekki lagt fram skriflegt umboð um heimild sína. 

                Stefnandi kveðst höfða þetta mál sem viðurkenningarmál og að málatilbúnaður sé skýr. 

                Þá mótmælir hann því að hann eigi ekki einn aðild að málinu, hann hafi frá upphafi verið krafinn um greiðslu af skuldabréfinu, en ekki eiginkona hans. 

Niðurstaða

                Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 eru talin upp þau atriði sem koma skulu fram í stefnu.  Stefnan er annað tveggja skjala sem stefnandi getur lagt fram og er skrifað beinlínis í tilefni af málarekstrinum.  Önnur skjöl sem hann kann að leggja fram verða að vera sönnunargögn, til þess fallin að vitna um atvik máls.  Stefnandi hefur í þessu máli lagt fram, auk stefnu, skjal sem hann kallar greinargerð.  Er þar í löngu máli gerð grein fyrir málatilbúnaði stefnanda, málsástæðum og lagarökum.  Þessi texti hefði átt að vera í stefnu.  Við þingfestingu málsins mun hafa verið litið svo á að greinargerð þessi væri ígildi aðilaskýrslu og verður ekki fjallað um það frekar.  Hins vegar er ljóst af 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að kröfur stefnanda eiga að koma fram í stefnu og verður því að líta svo á að ekki séu aðrar kröfur hafðar uppi í málinu en þar greinir. 

                Mál þetta var þingfest á reglulegu dómþingi 18. febrúar sl.  Þá sótti Tryggvi Viggósson héraðsdómslögmaður þing fyrir stefnda og óskaði eftir fresti til greinar­gerðar.  Áratuga löng venja er fyrir því að lögmaður sem sækir þing þurfi ekki að sanna með skjölum umboð sitt til þingsóknar.  Þing var því réttilega sótt af hálfu stefnda og verður ekki fallist á það með stefnanda að málið hafi átt að sæta meðferð sem útivistarmál. 

                Kröfur stefnanda í máli þessu varða skuld samkvæmt veðskuldabréfi er hann og Ragnheiður Benediktsdóttir gáfu út þann 17. júlí 2000.  Bréfið var framselt stefnda sem hefur innheimt afborganir og vexti af því.  Greiðsluseðlar hafa verið sendir stefnanda einum, en ekki Ragnheiði. 

                Stefnandi lagði fram yfirlýsingu frá Ragnheiði Benediktsdóttur þar sem hún lýsir því yfir að algjör einhugur sé milli hennar og stefnanda um mál þetta, mála­tilbúnað og framsetningu þess. 

                Ekki liggur frammi í málinu veðbókaryfirlit um eign þá sem sett var að veði fyrir hinni umdeildu skuld.  Af yfirlýsingu Ragnheiðar Benediktsdóttur má ráða að hún sé ein þinglýstur eigandi íbúðarinnar.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að fallið hafi verið frá kröfum á hendur henni samkvæmt skuldabréfinu.  Eru hún og stefnandi sameiginlega ábyrg fyrir greiðslu skuldarinnar.  Útreikningur afborgana varðar því hagsmuni Ragnheiðar þannig að óhjákvæmilegt er að hún eigi aðild að máli þessu við hlið stefnanda.  Áðurgreind yfirlýsing hennar kemur ekki í stað formlegrar aðildar að málinu.  Verður því, samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, að vísa máli þessu frá dómi.  Þarf þá ekki að fjalla um það hvort kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda fullnægi skilyrðum 1. mgr. 80. gr. sömu laga. 

                Rétt er að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.