Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2007
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
- Orlof
- Trúnaðarskylda
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2008. |
|
Nr. 336/2007. |
A. Karlsson ehf. (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Arnari Bjarnasyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Vinnusamningur. Uppsögn. Orlof. Trúnaðarskylda.
A, sem hóf störf hjá AK ehf. á árinu 2002 og gegndi starfi markaðsstjóra, sagði upp starfi sínu hjá félaginu í byrjun maí 2006. Þann 12. maí sama ár gerði AK ehf. starfslokasamning við A þar sem kveðið var á um að félagið óskaði ekki eftir frekari vinnuframlagi A það sem eftir lifði af þriggja mánaða uppsagnarfresti að öðru leyti en til ráðgjafar um einstök verkefni. Með bréfi AK ehf. 24. júlí 2006 tilkynnti félagið að það myndi ekki inna af hendi frekari greiðslu til A þar sem einsýnt væri að hann hefði ráðið sig til starfa hjá samkeppnisaðila félagsins F ehf. Hélt AK ehf. því fram að A hefði unnið við að koma á tengslum milli þess fyrirtækis og viðskiptavina AK ehf. og því brotið við sig trúnað. Deilt var um hvort AK ehf. bæri að greiða A laun í uppsagnarfresti auk orlofs. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði fyrst þegið laun frá F ehf. eftir að ráðningarsambandi hans við AK ehf. lauk. Sú trúnaðarskylda sem hvíldi á A á uppsagnarfresti fól ekki í sér bann við að A leitaði sér að starfi, jafnvel hjá samkeppnisaðila, enda var ekki samið sérstaklega um að A réði sig ekki til fyrirtækis í samkeppni við AK ehf. Þá var ekki talið sýnt fram á að A hefði búið yfir sérstakri vitneskju um reksturinn sem teldist til atvinnuleyndarmála í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005. Þótti jafnframt ósönnuð sú fullyrðing AK ehf. að A hefði eytt tölvugögnum úr tölvu þeirri er A hafði afnot af í starfi sínu. Voru kröfur A samkvæmt þessu því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að áfrýjandi er einkahlutafélag er rekur starfsemi á sviði heildverslunar meðal annars með lækningavörur og eldhúsvörur. Stefndi mun hafa ráðið sig til starfa hjá áfrýjanda á árinu 2002 og starfaði hjá honum til 12. maí 2006. Sinnti hann störfum markaðsstjóra. Skipulagsbreytingar urðu hjá áfrýjanda á vormánuðum 2006 en í apríl það ár var forstjóra áfrýjanda sagt upp störfum og nýr ráðinn. Í kjölfarið sögðu margir starfsmanna áfrýjanda upp störfum, þar á meðal stefndi í byrjun maí 2006. Fastus ehf. var stofnað í maí 2006 og mun meðal annars hafa stefnt að viðskiptum með sambærilegar vörur og áfrýjandi. Framkvæmdastjóri þess fyrirtækis hafði um það bil tíu árum áður verið framkvæmdastjóri hjá áfrýjanda. Áfrýjandi gerði starfslokasamning við stefnda 12. maí 2006 og er hann tekinn orðrétt upp í hinum áfrýjaða dómi. Þar var meðal annars kveðið á um að áfrýjandi óskaði ekki eftir vinnuframlagi stefnda það sem eftir lifði af þriggja mánaða uppsagnarfresti að öðru leyti en til ráðgjafar um einstök verkefni. Skyldi stefndi fá greidd laun og orlof í uppsagnarfresti auk tilgreindra aukagreiðslna. Áfrýjandi gerði einnig sambærilega starfslokasamninga við fleiri starfsmenn er sögðu upp störfum um svipað leyti. Hinn 5. júlí 2006 birtist svo frétt í Viðskiptablaðinu þar sem haft er eftir framkvæmdastjóra Fastus ehf. að félagið yrði í samkeppni við áfrýjanda. Tveir fyrrum starfsmenn áfrýjanda hefðu þegar hafið störf hjá hinu nýja félagi og hefði það ráðið til starfa 15 af þeim 20 starfsmönnum sem hætt hefðu hjá áfrýjanda þá um vorið. Áfrýjandi greiddi stefnda laun samkvæmt samningnum vegna júní en með bréfi 24. júlí 2006 tilkynnti áfrýjandi að hann myndi ekki inna af hendi frekari greiðslu til stefnda vegna þess að einsýnt væri að hann hefði ráðið sig til starfa hjá Fastus ehf. og unnið við að koma á tengslum milli þess fyrirtækis og viðskiptavina áfrýjanda. Stefndi kvað sér hafa verið boðið starf hjá Fastus ehf. í lok maí 2006 en hafa verið á leið í fæðingarorlof og ákveðið að bíða með að svara en þegið starfið í byrjun ágúst 2006. Hann hafi ekki hafið þar störf fyrr en að liðnum uppsagnarfresti, eða 1. september 2006. Bréf milli málsaðila og framburður aðila og vitna eru rakin í héraðsdómi.
Stefndi reisir dómkröfu sína á því að hann hafi sinnt starfsskyldum sínum gagnvart áfrýjanda sem beri að greiða honum laun í uppsagnarfresti samkvæmt starfslokasamningi. Málsástæður og lagarök stefnda eru nánar rakin í héraðsdómi og er dómkrafa hans sundurliðuð þar.
Áfrýjandi reisir dómkröfu sína einkum á því að sannað sé að stefndi hafi brotið trúnaðarskyldur gagnvart sér. Verði ekki talið að áfrýjandi hafi fært sönnur á þessa staðhæfingu sé rétt, eins og atvikum máls er háttað, að slaka á sönnunarbyrðinni eða leggja hana á stefnda. Áfrýjandi vísar einnig til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins þar sem stefndi hafi haft vitneskju um atvinnuleyndarmál áfrýjanda. Hann heldur því jafnframt fram að stefndi hafi eytt tölvugögnum áfrýjanda. Byggir áfrýjandi á reglum samningaréttar um brostnar forsendur og ákvæðum 30. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Áfrýjandi hefur uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir við að missa viðskipti við birgja og viðskiptavild. Áfrýjandi vísar einnig til 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Þá mótmælir hann sérstaklega kröfu stefnda um greiðslu orlofs og upphafstíma dráttarvaxta.
II.
Í gögnum málsins er staðgreiðsluyfirlit frá Ríkisskattstjóra er sýnir að stefndi þáði fyrst laun frá Fastus ehf. eftir að ráðningarsambandi hans við áfrýjanda lauk. Meðan á uppsagnarfresti stóð bar stefndi sömu trúnaðarskyldur við áfrýjanda og með sama hætti og væri hann í starfi. Þær skyldur fólu þó ekki í sér bann við að stefndi leitaði sér eftir starfi, jafnvel hjá samkeppnisaðila áfrýjanda, enda var ekki sérstaklega um það samið að hann réði sig ekki til fyrirtækis í samkeppni við áfrýjanda að liðnum uppsagnarfresti.
Við mat á því hvort um brot á 2. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005 sé að ræða verður meðal annars að líta til þess hversu almenns eðlis viðkomandi upplýsingar eru, á hve margra vitorði þær eru og hversu auðvelt er fyrir utanaðkomandi mann að afla sér þeirra. Fram er komið að ýmsar upplýsingar um vörur áfrýjanda hafi verið aðgengilegar á heimasíðu hans. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefndi hafi búið yfir sérstakri vitneskju um reksturinn sem teljist til atvinnuleyndarmála. Til sönnunar fullyrðingu sinni um að stefndi hafi eytt gögnum úr tölvu er hann hafði afnot af í starfi sínu hefur áfrýjandi einungis vísað til undirritaðrar yfirlýsingar og skýrslu starfsmanns tölvufyrirtækisins Parlogis ehf. fyrir dómi, en það mun vera í eigu sama fyrirtækis og áfrýjandi. Fallist er á með héraðsdómi að ósannað sé að stefndi hafi eytt slíkum gögnum. Samkvæmt öllu framanrituðu er hvorki í ljós leitt að stefndi hafi skýrt frá upplýsingum sem hann var bundinn trúnaði um gagnvart áfrýjanda né brugðist öðrum trúnaðarskyldum sínum við áfrýjanda þannig að honum hafi verið heimilt að stöðva launagreiðslur til stefnda.
Framkomin andmæli áfrýjanda við greiðslu lögbundins orlofs sem kveðið er á um í umræddum starfslokasamningi eru engum haldbærum rökum studd. Því verður hvorki á þau fallist né andmæli áfrýjanda við upphafstíma dráttarvaxta sem miðast við umsamda gjalddaga samkvæmt samningnum.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, A. Karlsson ehf., greiði stefnda, Arnari Bjarnasyni, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. maí 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Arnari Bjarnasyni, kt. 020175-3549, Brekkustíg 14, Reykjavík, á hendur A. Karlssyni ehf., kt. 670976-0179, Brautarholti 28, Reykjavík, með stefnu sem birt var 24. október 2006.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi greiði honum 1.132.347 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 473.616 krónum frá 1. ágúst 2006 til 1. september 2006 og frá þeim degi af 1.132.347 krónum til greiðsludags. Krafist er að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 24. júlí 2007 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða félaginu málskostnað að skaðlausu.
Stefnandi greinir frá málavöxtum á þann veg að hann hafi starfað sem markaðsstjóri hjá stefnda frá á árinu 2002. Mánaðarlaun hafi verið samkvæmt launaseðlum 420.000 kr. auk bifreiðarhlunninda að fjárhæð 49.616 kr. Þá hafi aðilar samið um að stefndi greiddi einnig símakostnað á uppsagnarfresti, eða 4.000 kr. á mánuði.
Sagt er frá því að stefnandi hafi sagt um störfum hjá stefnda byrjun maí 2006 vegna fyrirhugaðra breytinga í rekstri og uppsagnar framkvæmdarstjóra félagsins. Starfslokasamningur hafi verið gerður við stefnanda 12. maí 2006, en ekki óskað eftir frekara vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti. Samkvæmt starfslokasamningi hafi stefndi skuldbundið sig til að greiða laun á uppsagnarfresti eða til loka ágúst 2006 auk orlofs.
Vísað er til þess að stefnandi hafi fengið bréf frá lögmanni stefnda 24. júlí 2006. Þar segir:
Til LEX hafa leitað fyrirsvarsmenn A. Karlssonar ehf. Fyrir liggur að þér hafið, ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum A. Karlssonar ehf., sagt upp störfum hjá félaginu.
Umbjóðandi minn telur að þér hafið brotið gegn skyldum yðar gagnvart félaginu, meðal annars trúnaðarskyldum, sbr. og 13. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Felast brotin meðal annars í þátttöku yðar í samkeppni við umbjóðanda minn á uppsagnafresti. Umbjóðandi minn telur einsýnt að þér hafið ráðið yður til starfa hjá Fastus ehf., sbr. yfirlýsingu stjórnarformanns félagsins á opinberum vettvangi. Þá hafa vitni greint umbjóðaanda mínum frá þessum aðgerðum yðar. Ljóst er að háttsemi yðar og nokkurra annarra fyrrverandi starfsmanna umbjóðanda míns, sem áður hefur verið rakin, er til þess fallin að valda félaginu verulegu tjóni. Umbjóðandi minn getur ekki fellt sig við að þér þiggið laun frá félaginu meðan þér starfið við það að ná með ótilhlýðilegum hætti birgjum og viðskiptavinum umbjóðanda míns.
Með hliðsjón af framangreindu hefur umbjóðandi minn tekið þá ákvörðun að greiða yður ekki frekari laun í uppsagnarfresti. Kemur því hvorki til greiðslu launa næstu mánaðamót né eftir það tímamark. Áunnið orlof verður innt af hendi. Samhliða því að tilkynna yður framangreint er enn á ný skorað á yður að láta af aðgerðum yðar sem eru til þess fallnar að skaða hagsmuni umbjóðanda míns. Af hálfu umbjóðanda míns er ítrekaður áskilnaður um frekari aðgerðir.
Greint er frá því að bréfi þessu hefði verið svarað með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 31. júlí 2006. Þar segir m.a.:
Í bréfi yðar er því haldið fram að umbj. minn hafi brotið gegn skyldum við umbj. yðar. Því er mótmælt enda engin rök færð fyrir ásökunum umbj. yðar.
Umbj. minn er nú á starfslokasamningi hjá umbj. yðar og er þeim samningi lýkur fer umbj. minn í fæðingarorlof í nokkra mánuði. Eftir þann tíma er alls óráðið hvað hann hyggst taka sér fyrir hendur. Staðhæfingar sem framkoma í bréfi yðar um að umbj. minn hafi ráðið sig hjá Fastus ehf. eiga því ekki við rök að styðjast. Hins vegar skal áréttað að umbj. mínum er frjálst að ráða sig til starfa það sem hann telur hagsmunum sínum best borgið hvort sem það er á sama starfssviði eða hjá samkeppnisaðila við fyrrum vinnuveitanda sinn eftir að starfslokasamningi aðila lýkur.
Stefnandi greinir frá því að stefndi hafi hvorki svarað bréfinu frá 31. júlí 2006 né greitt honum laun vegna júlí og ágúst 2006. Þá hafi ekki verið greidd orlofslaun vegna maí 2006 til og með ágúst 2006. Stefnandi hafi síðan hafið störf hjá Fastus ehf. í byrjun september 2006.
Af hálfu stefnda er aðdraganda þessa máls lýst á þann veg að félagið, sem er einkahlutafélag, reki starfsemi á sviði heildverslunar með lækningavörur, eldhúsvörur o.fl. Stefnandi hafi hafið störf hjá félaginu á árinu 2002 og starfað hjá því til 12. maí 2006. Hann hafi sinnt störfum markaðsstjóra.
Þá segir að verulegar breytingar hafi orðið á starfsmannahaldi félagsins í maí 2006. Meirihluti lykilstarfsmanna félagsins hafi sagt upp störfum nánast á sama tíma. Þar á meðal stefnandi, en hann hefði sagt upp 2. maí 2006. Starfslokasamningur hafi verið gerður, sbr. dskj. nr. 3. Þar komi fram að ekki væri óskað eftir starfsframlagi stefnanda frá 12. maí 2006 að öðru leyti en til ráðgjafar um einstök verkefni. Samið hefði verið um að félagið greiddi stefnanda laun í uppsagnarfresti í þrjá mánuði eftir starfslok hans, þ.e. fyrir júní til ágúst 2006. Fengi hann greidd laun annars staðar en frá félaginu skyldu þau dragast frá launagreiðslum í uppsagnarfresti.
Greint er frá því að bæði fyrir og eftir starfslok stefnanda og fleiri lykilstarfsmanna hafi farið að bera á því að birgjar, sem höfðu átt viðskipti við félagið, hættu sem viðskiptavinir hjá því. Á annan tug birgja hefðu hætt viðskiptum við félagið á þessum tíma og flestir þeirra hafið viðskipti við Fastus ehf. Fastus ehf. hafi hins vegar verið stofnað um það leyti sem stefnandi og aðrir lykilstarfsmenn hættu störfum hjá stefnda, A. Karlssyni ehf. Samþykktir Fastus ehf. væru dags. 11. maí 2006, sbr. dskj. nr. 11.
Vísað er til þess að forsvarsmenn stefnda hafi vitað að fyrrum starfsmenn félagsins, þar á meðal stefnandi, hefðu leitað eftir að ná birgjum til Fastus ehf., sem höfðu verið í áralöngum viðskiptum við stefnda. Stefnandi hefði þannig brotið skyldur sínar gagnvart stefnda og valdið stefnda tjóni. Ekki hafi farið saman að stefnandi þægi laun hjá stefnda á sama tíma og hann freistaði þess að ná til sín viðskiptum við aðila, sem voru í viðskiptum við stefnda.
Stefnandi byggir á því að aðilar hafi gert samning um starfslok sín hjá stefnda. Þar komi fram að vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti væri hafnað en stefndi skuldbindi sig til að greiða laun til loka uppsagnarfrests hinn 31. ágúst 2006. Stefndi hefði ekki staðið við starfslokasamninginn. Í þessu sambandi er vísað til bréfs lögmanns stefnda til stefnanda, dags. 24. júlí 2006, sem áður var greint frá.
Stefnandi hafnar því að ávirðingar þær, sem fram koma í bréfinu frá 24. júlí 2006, eigi við rök að styðjast. Stefnandi hafi ekki starfað fyrir annan aðila á uppsagnarfresti.
Stefnandi vísar til þess að hann eigi rétt á því að ráða sig til starfa hjá nýjum vinnuveitanda og hefja þar störf eftir að uppsagnarfresti lýkur hjá fyrri vinnuveitanda, hvort sem um samkeppnisaðila væri að ræða eða ekki. Engin ákvæði í ráðningarsamningi hans við stefnda kveði á um samkeppnisbann eftir starfslok.
Kröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:
Mánaðarlaun vegna júlí 2006 420.000 kr.
Mánaðarlaun vegna ágúst 2006 420.000 kr.
Bifreiðahlunnindi v/júlí 2006 49.616 kr.
Bifreiðahlunnindi v/ágúst 2006 49.616 kr.
Orlof vegna maí, júlí og ágúst 2006 185.115 kr.
Símakostnaður vegna júlí og ágúst 2006(2mán x kr.4.000) 8.000 kr.
Höfuðstóll 1.132.347 kr.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldur gagnvart félaginu. Stefna hefði því verið heimilt að stöðva launagreiðslur til stefnanda. Stefndi vísar til ákvæða 2. mgr. 13. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005 í þessu sambandi.
Þá reisir stefndi kröfur sínar á því að stefnandi hafi brotið á félaginu með meðferð sinni á tölvupósti í eigu félagsins.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi með hátterni sínu valdið stefnda verulegu fjárhagstjóni. Gagnkrafa væri gerð á hendur stefnanda til skuldajafnaðar sem nemi heildarfjárhæð dómkröfu stefnanda samkvæmt 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Byggt er á því að stefnandi hafi ráðið sig til Fastus ehf. meðan á uppsagnarfresti hans stóð. Vísað er til yfirlýsingar stjórnarmanns Fastus ehf. í viðtali við Viðskiptablaðið 5. júlí 2006. Þá er byggt á því að ákvæði 30. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 leiði til þess að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að upphaflega hefði hann hafið störf hjá stefnda í október 1995. Hafi hann unnið með skóla hjá stefnda alveg þar til hann kláraði skólann 2002 en þá hefði hann hafið störf hjá stefnda sem markaðsstjóri.
Starf sitt sem markaðsstjóra kveður stefnandi hafa falist í að veita sölumönnum stuðning, vinna mikið og náið með þeim. Þá hafi hann séð um tölvumál fyrirtækisins. Þeir hefðu ekki haft tölvudeild svo að hann hafi unnið náið með Parlogis.
Stefnandi kvaðst bæði hafa unnið með íslenskum og erlendum sölumönnum. Þegar finna þurfti vörutegund hafi hann oft verið fyrsti tengiliður við viðkomandi birgja og komið síðan á sambandi milli birgja og sölumanna. Þá hafi hann séð um auglýsingar, markaðsáætlanir og stefnumótun o.fl.
Stefnandi sagði að ekki væri þörf á að þekkja til atvinnuleyndarmála eða trúnaðarupplýsinga til að koma á sambandi milli birgja og sölumanna. Hann hefði notað internetið, fundið þar vörur og haft samband og reynt annað hvort að fá umboðið sem exclusive eða non exclusive. Þetta hefði í flestum tilfellum verið lítið mál.
Stefnandi sagði að fyrirtæki hefðu mismunandi hátt á því hvernig þau stæðu að þessu. Sum fyrirtæki bindi sig ekki og selji öllum, en önnur beini sjónum að einu fyrirtæki og haldi umboðinu þar. Hann sagði að misjafnalega hefði verið staðið að þessu hjá stefnda.
Stefnandi kvaðst hafa leitað sér að vinnu áður en hann sagði upp störfum hjá stefnda. Ástæðan fyrir því að hann tók endanlega þá ákvörðun hafi verið að framkvæmdastjórinn var rekinn. Eftir það hefði hann ekki átt samleið með fyrirtækinu.
Eftir að hann sagði upp störfum 2. maí 2006 hafi hann ætlað að vinna út uppsagnarfrestinn. Á fyrsta fundi sínum með Lindu, forstjóra stefnda, hefði hún farið fram á að hann ynni uppsagnarfrestinn. Skömmu síðar hafi komið í ljós að gera átti starfslokasamning við fjármálastjórann, sem er faðir stefnanda. Hafi hann þá óskað eftir að fá einnig starfslokasamning og á það hefði verið fallist.
Á þeim tíma sem starfslokasamningurinn var gerður, kvaðst stefnandi enga ákvörðun hafa tekið um það hvað hann færi að gera í framtíðinni. Hann sagðist vera með mastersgráðu í alþjóðlegum viðskiptum. Honum hafi verið boðin vinna hjá Fastus ehf. í lok maí. Hann hefði ákveðið að bíða þar sem hann var þá á leiðinni í fæðingarorlof og lá því ekkert á. Í byrjun ágúst hafi verið gengið á hann um að svara og þá hefði hann tekið ákvörðun um að taka boðinu. Hann hafi svo hafið störf hjá Fastus ehf. hinn 1. september 2006. Hann kvaðst hafa orðið hluthafi í Fastus ehf. í desember 2006.
Vísað var til þess að í greinargerð stefnda væri haldið fram að stefnandi hefði reynt að fá viðskiptaaðila eða birgja til samstarfs við Fastus ehf. og nýtt sér trúnaðarupplýsingar og brotið trúnað við stefnda. Stefnandi sagði að þetta væri rangt. Hann kvaðst ekki hafa verið í sambandi við birgja í uppsagnarfrestinum. Í starfi sínu hafi hann ekki verið í sambandi við birgja heldur markaðsdeildir hjá birgjunum. Hann hafi ekki verið í persónulegum viðskiptatengslum við erlenda eða innlenda birgja.
Vísað var til viðtals við Jón Garðar, núverandi framkvæmdastjóra Fastus ehf., í Viðskiptablaðinu 5. júlí 2006, sbr. dskj. nr. 10, þar sem hann talar um að hann væri búinn að ráða fimmtán menn með haustinu frá A. Karlssyni og spurt var, hvort hann hefði verið einn af þeim. Stefnandi sagði að hann hefði ekki verið búinn að gefa honum neitt svar á þeim tíma. Stefnandi kvaðst ekki hafa haft neinar tekjur á uppsagnarfrestinum.
Vísað var til þess að stefndi héldi fram í greinargerð að stefnandi hefði eytt út tölvupósti með viðskiptaupplýsingum. Stefnandi sagði að þetta væri rangt og óskiljanlegt. Hann hefði ekki einu sinni eytt sínum persónulega tölvupósti, þegar hann hætti störfum hjá stefnda.
Þegar hann fékk bréf frá lögfræðingi stefnda, þar sem sagt var, að hann hefði átt birgjamöppur og eytt úr þeim, kvaðst stefnandi hafa hringt í Guðmund í tölvudeildinni, sem var ágætis félagi hans, og spurt hann um þetta. Guðmundur hefði viðurkennt og sagt honum að hann skildi ekki hvers vegna hann væri á þessum lista.
Stefnandi sagði að á hverjum degi hafi starfsmaður, Bylgja að nafni, tekið afrit af öllum tölvupósti og fjárhagsgögnum hjá stefnda, nema á fimmtudögum. Þeir hefði verið með fimm eða sex fimmtudagsspólur sem þeir hefðu geymt til að eiga alltaf afrit af kerfinu í margar vikur aftur í tímann, allt að sex vikum. En upp hafi komið einu sinni eða tvisvar í fortíðinni að gögn hefðu tapast yfir ákveðin tímabil. Hafi þeir farið út í að láta taka svokallað kross back-up þannig að „þeir“ tóku afrit af „okkar“ kerfi af því að við vorum með „sörverana“ sinn á hvorum stað og mjög góða tengingu þar á milli. Afrit hafi verið tekin af því sem fór á milli og því enginn hætta á að gögn töpuðust. Varðandi möppurnar sagði stefnandi, að ekki hafi verið mikið pláss á „sörvernum“ og hafi þeir alltaf verið að áminna fólk um að taka til í póstinum og eyða út stærri skjölum, viðhengjum og þess háttar og vista það frekar, ekki vera með það á tveim stöðum. Þá hafi þeir verið með svonefndan „átóarkapp“ sem sjái um að taka gögnin af „sörvernum“ og setja hann inn á c-drifið í tölvunni til að spara plássið á „sörvernum“, því að óþarft væri að taka alltaf afrit af einhverjum eldgömlum gögnum. Þetta hafi verið mismunandi stillt hjá fólk, þrír mánuðir eða sex mánuðir eða þess háttar. Það gæti skýrt það að sumir væru með tómar birgjamöppur, því að ef stofnaðar væru möppur þá fari þær ekki í „átóarkapp“ heldur bara tölvupósturinn.
Vísað var til þess að í greinargerð stefnda segi að stefnandi hafi vegna starfs síns haft upplýsingar um aðila, sem áttu viðskipti við stefnda. Hann hafi haft upplýsingar um fjárhæðir samninga milli stefnda og birgja og ýmsar skrár um viðskiptavini og haft sérstaka þekkingu um viðskiptavini stefnda og birgjanna. Spurt var, hvort þetta væri rétt? Stefnandi taldi að svo væri ekki. Hann kvaðst ekki hafa búið yfir atvinnuleyndarmálum í starfi fyrir stefnda. Hann hafi ekki nýtt sér neinar trúnaðarupplýsingar eða atvinnuleyndarmál úr rekstri stefnda.
Vísað var til myndar sem fram kemur á dskj. nr. 20, sem er mynd af starfsfólki Fastus ehf. Stefnandi var spurður hvenær þessi mynd hefði verið tekin? Stefnandi kvaðst halda að hún hefði verið tekið í byrjun september. Hægt væri að fá það staðfest hjá ljósmyndastofu Hrannars í Fákafeni, er séð hefði um myndatökuna. Þarna væru starfsmenn, sem starfað hefðu frá því í september hjá Fastus ehf., allir, nema Bjarni. Spyrja yrði Jón Garðar hvers vegna Bjarni var á myndinni.
Fyrsta september, þegar stefnandi hóf störf hjá Fastus ehf., kvað hann þrjá starfsmenn hafa starfað þar, en þá hafi þeir bæst við hópurinn, sem fram komi á myndinni, fyrir utan Bjarna.
Linda Björk Gunnlaugsdóttir, forstjóri stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að hún hefði verið ráðin forstjóri stefnda í lok apríl 2006. Hinn 26. apríl hafi starfsmannafundur verið haldinn. Fyrst hafi átta manna fundur verið haldinn. Þar hefði Bjarni Halldórsson komið fram og talað fyrir hönd starfsmanna og talað til hennar fyrir hönd allra starfsmannanna. Hann hefði tjáð henni að eftir starfsmannafundinn yrði ákveðið hvort megnið af starfsmönnunum myndi ganga út vegna þess að þeir væru á móti ákvörðun stjórnar stefnda. Fengi hún að vita það á föstudaginn. Síðan hafi verið haldinn starfsmannafundur aftur, þar sem þetta var tilkynnt og Haraldur kvaddi. Í kjölfarið hafi hún farið að ræða þetta við alla starfsmennina því að hagur fyrirtækisins hefði ekki verið að starfsmenn þess gengju út. Mikil þekking hefði falist í starfsmönnunum og því brýnt að halda þeim. Hefði hún rætt við hvern og einn, eða reynt það, og náð flestum fyrir helgi. Þá hafi starfsmenn komið til hennar og beðið um „áfallahjálparfund“ þar sem þeim hafi fundist þetta það mikil „tragedía“ að þeir yrðu að fá hjálp til að komast yfir það. Hafi henni þótt það sjálfsagt og boðið þeim að skipuleggja að geðlæknir hitti þau. Þá hafi starfsmannafélagið ákveðið að gera það og gert það, en það hafi verið 1. maí.
Þegar hún mætti í vinnuna hinn 2. maí, en hún hefði þá aðeins frétt af fundinum, hafi tíu manns staðið fyrir utan dyrnar hjá henni til að segja upp störfum. Þetta hefði verið fyrsti dagur hennar í starfi. Nokkrir þeirra hefðu lýst því yfir að þeir ætluðu í samkeppni við stefnda, t.d. Þórður. Hann hefði sagt henni að þeir hefðu verið að ræða það lengi. Þessi tíu manna hópur hefði viljað kaupa A. Karlsson ehf. en ekki fengið það. Þess vegna hefðu þeir rætt það lengi sín í milli að stofna fyrirtæki. Hafi Þórður sagt henni að hann ætlaði að gera það og beðið hana um að fá að hætta strax. Það hefði hann fengið.
Linda Björg sagði að Guðrún Gunnarsdóttir hefði komið stuttu síðar til hennar með sömu skilaboð. Vegna fyrirtækisins hefði hún þurft á því að halda að Guðrún starfaði aðeins lengur og hafi Guðrún hætt um miðjan maí.
Starfsmennirnir, sem sögðu upp 1. maí, og nokkrir, sem komu síðar, hefðu flestir farið fram á að vinna uppsagnarfrestinn. Í sumum tilvikum hefði hún beðið þá um það og beðið þá um að skoða hug sinn í þessu sambandi. Hafi hún reynt að halda þeim en allt hafi komið fyrir ekki. Eftir á að hyggja hafi augljóslega verið undirbúningur að þessu. Fólk hefði ákveðið að hætta saman.
Linda Björg kvaðst hafa orðið þess áskynja að menn voru að starfa í samkeppni við stefnda þó þeir þægju laun hjá stefnda. Það hafi verið ástæðan fyrir því að hinn 19. júní hafi verið ákveðið að losa stefnda við þetta fólk. Þetta hefði verið augljóst. Af samtölum hennar, m.a. við birgja, hefði komið ljós að þessir starfsmenn voru að vinna á móti stefnda. Hefðu þessir starfsmenn lýst því yfir við birgja að engir yrðu eftir hjá stefnda, fyrirtækið væri ónýtt. Atorka væri að eyðileggja fyrirtækið og þeir hafi lýst því að engin framtíð væri í fyrirtækinu ef þeir myndu hætta þar. Ljóst hefði verið að birgjarnir höfðu mjög miklar áhyggur og að gert hefði verið í því að skapa kvíða hjá þeim. Þetta hefði komið stefnda mjög illa.
Þegar hún fékk sannanir fyrir því að þessir starfsmenn stefnda voru í samkeppni við fyrirtækið - en birgjar hefðu beinlínis sagt henni það - kvaðst Lindu Björg hafa þótt óeðlilegt að greiða þessum starfsmönnum laun úr því að þeir væru búnir að ákveða að fara í samkeppni við stefnda.
Linda Björg sagði að nokkrir birgja, sem hefðu verið í viðskiptum við stefnda, hefðu hætt hjá félaginu. Þetta hefði gerst þegar umræddir starfsmenn voru enn í uppsagnarfresti hjá stefnda. Þessir birgjar hefðu fengið staðfestingu hjá Jóni Garðari, mjög snemma þetta sumar, að þessir starfsmenn myndu ganga til liðs við Fastus. Hér hafi sérstaklega verið um að ræða birgja á heilbrigðissviðinu. Um vörur væri að ræða, sem mikla þekkingu þurfi til að selja. Birgjar hefðu tekið ákvörðun um viðskipti við Fastus á þessum grundvelli, en Fastus hefði ekki haft þessa þekkingu á þeim tíma.
Linda Björg sagði að aðalatriðið fyrir viðskipti á sviði stefnda væru góð umboð. Samband næðist ekki við birgja nema á grundvelli reynslu fólks sem gæti selt vöruna. Stefndi hefði í dag náð nýjum umboðum vegna þess að stefndi hefði nú á að skipa reyndu starfsfólki sem hæft væri til að selja þessa vöru.
Linda Björg sagði að eytt hefði verið tölvupósti úr tölvukerfi stefnda. Hafi hún sjálf skoðað tölvupóstana. Þetta hefði verið stór ákvörðun. Hafi hún varið tíma í þetta vegna þess að félagið hefði orðið að reyna að loka fyrir götin, sem augljóslega voru komin, og búin að valda fyrirtækinu skaða. Við skoðun á e-maili hvers og eins, hafi hún tekið eftir því, að þar vantaði visst tímabil úr flestum af e-mailunum. Dagsetningar hefðu verið þar til fólkið sagði upp og til þess tíma að það hætti störfum. Meðal annars væri þetta þannig að maður geymi í foldinum aðalbirgja. Augljóslega hafi það verið venja í fyrirtækinu. Foldar frá þeim birgjum, sem hættu hjá stefnda hefðu verið tómir og engin saga um það, ekki einu sinni síðustu dagana, sem fólkið var við vinnu, enda þótt hún vissi að það hefði á þessum tíma verið í samskiptum við birgjana og e-mail-samskiptum. Linda Björg kvaðst hafa rætt við lögmann stefnda í þessu sambandi og fengið tölvudeildina hjá Parlogis til að skoða þetta nánar, en Parlogis hafði annast tölvumál stefnda.
Linda Björg staðfesti að hafa skoðað e-mail starfsmanna. Hún hafi ekki látið starfsmenn vita af því. Hún hefði gert þetta í samráði við lögfræðing, en um eign fyrirtækisins hafi verið að ræða.
Linda Björg sagði að netföng starfsmanna hefðu verið lokuð daginn sem þeir hættu hinn 19. júní 2006. Eitt þessara e-maila hefði verið notað aftur, e-mail Guðrúnar. Ráðin hefði verið önnur með því nafni, sem fengið hefði e-mail addressuna Guðrún, í september 2006. E-mail Guðrúnar hefði verið lokað 5. maí og opnað aftur í september.
Linda Björg sagði að Parlogis væri í eigu Atorku.
Linda Björg sagði að menn hefðu eytt tölvupósti, enda þótt þeir hefðu vitað að back-up væri tekið af honum. Eyða mætti honum úr eyddu. Allir starfsmenn hefðu vitað að það var tekið upp á spólur og yrði til í fimm vikur.
Linda Björg sagði að stefndi hefi orðið af viðskiptum vegna þess að tölvupósti var eytt vegna þess að samskipti hafi með þessu hætt við birgja, þar sem starfsmenn stefnda hefðu sagt þeim, að þeir væru að fara annað.
Aðspurð sagði Linda Björg að gerð hefði verið krafa á Aðalstein Karlsson vegna kröfu sem gerð var á hendur Bjarna Jóni Halldórssyni. Hún sagði að krafa á hendur Bjarna, vegna 7.000.000 króna greiðslu til Austurbrúar ehf., væri ekki að fullu greidd. Hún sagði að ekki hefði verið samþykkt leiðrétting á viðskiptamannareikningi Aðalsteins að fjárhæð 536.787 kr. Hún kvaðst ekki vita, hvort þessi færsla hefði verið samþykkt í bókhaldi fyrirtækisins fyrir árið 2005.
Linda Björg sagði að Parlogis væri á sölu og til stæði að selja fyrirtækið.
Haraldur Gunnarsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði starfað meira og minna, með hléum, fyrir stefnda frá 1981 til 2006. Hann hefði verið framkvæmda-stjóri fyrirtækisins frá því í nóvember 2000 þar til í lok apríl 2006.
Lagt var fyrir Harald dskj. nr. 15, sem er bréf hans til lögmanns stefnanda, dagsett 7. mars 2007. Hann sagði að þetta væri svar hans við bréfi sem hann hefði fengið frá lögmanni stefnanda. Hann sagði að fyrirtækið hefði lent í bruna seint á síðasta áratug. Bruni hefði orðið í herbergi við hliðina á tölvuherberginu og hafi það vakið óhug meðal þeirra. Fyrirtækið hefði síðan verið selt í árslok 2000 og þá hefðu þeir lent í því að kaupverðið var byggt á bókhaldsgögnum, sem ekki hefðu reynst alveg rétt, eftir skipti á bókhaldskerfi, en gögn, er fóru á milli, hefðu skolast til. Kaupverðið á fyrirtækinu hefði verið „tekið upp“ og afkoman á árinu 2001 látin ráða því hvert var endanlegt kaupverð á A. Karlssyni ehf. Þetta mál kvað Haraldur hafa verið ótengt honum. Það hafi verið milli kaupanda og seljanda.
Í lok ársins 2001, sagði Haraldur, að fyrirtækið hefði orðið fyrir „tölvuslysi“. Keyptir höfðu verið nýir diskar, sem reynst hefðu vera skemmdir, þannig að þeir hefðu misst út tölvugögn í u.þ.b. tíu daga, þannig að öll afritunartaka fór í vaskinn. Í framhaldi af því hafi „þeir“ ákveðið að taka þessi mál föstum tökum. Niðurstaðan hefði orðið sú að gengið yrði til samstarfs við Parlogis, er þá hét Lyfjadreifing, um að þeir myndu sjá um öll tölvumál og einn af „okkar“ starfsmönnum, Árni Páll, sem nú væri hættur, hefði flust yfir. Hafi „þeir“ talið þetta farsæla lausn. Hafi verið farið yfir þessi mál á árunum 2002 og 2003 til að tryggja það að þetta væri í góðum höndum.
Haraldur kvaðst hafa skilið það svo að pottþétt back-up væri á allri tölvuvinnslu hjá fyrirtækinu eftir þetta. Hugmyndafræðin hefði verið sú að vera með tvöfalt kerfi, vera með spólur, sem teknar yrðu niðri í Brautarholti, og svo yrði krossafritun tekin hjá Parlogis. Gulltryggt yrði að gögn myndu ekki aftur tapast. Hafi gott samstarf verið við tölvudeildina hjá Parlogis.
Haraldur sagði að hann hefði skilið það svo unnt væri að afturkalla eyddan tölvupóst eftir daginn. Afrit væru tekin af öllum gögnum fyrirtækisins hvort sem það væri fjárhaldsbókhald eða gögn, sem tilheyrðu microsoft umhverfinu.
Haraldur staðfesti að hafa undirritað með Bjarna Halldórssyni greinargerð til Eiríks Þorlákssonar, lögmanns stefnda, dagsetta 22. nóvember 2006. Í því samandi var vísað til „bakfærslu á kreditreikningi upp á 1.500.000“. Haraldur sagði að á árinu 2001 hafi Aðalsteinn keypt tækjabúnað fyrir 5.000.000 króna. Að vísu ekki í eigin nafni heldur í nafni fyrirtækis, sem hann muni ekki lengur hvað hét. Aðalsteinn hafi staðgreitt búnaðinn. Síðan hefði hann viljað skila vörunum á árinu 2002. Hafi hann sagt Aðalsteini að hann myndi taka tækjabúnaðinn til baka á sama verði og Aðalsteinn hefði greitt fyrir hann. Aðalsteinn hefði ekki viljað það vegna þess að verðið hafði þá lækkað, en gengið hafði styrkst frá árinu 2001 til ársins 2002. Niðurstaðan hefði orðið sú að „við“ myndum selja þetta fyrir hann. Hafi þetta verið að mjatlast út smátt og smátt. Muni hann það rétt þá hafi það verið í janúar eða febrúar á árinu 2006 sem tveir hlutir hafi verið eftir, líklega ofn og kaffivél. Muni hann það rétt þá hafi hann og Bjarni rætt um, að hugsanlega væri kominn kaupandi að ofninum, en varahlutir hefðu einnig verið teknir úr þessum tækjum. Sanngjarnt væri því að kreditfæra þetta. Hvenær þetta var rætt muni hann ekki. Þetta mál hafi oft komið upp á borðið vegna þess að Aðalsteinn vildi ljúka þessu. Kvaðst hann hafa rætt þetta einhvern tímann við Magnús Jónsson, sem þá var stjórnarformaður Atorku, sem er eigandi A. Karlssonar ehf. Magnús hefði haft símasamband við hann og spurt hann um þetta mál. Málið hafi verið hvenær þessu yrði lokið. Tveir hlutir hafi verið eftir af tólf eða fjórtán hlutum, sem Aðalsteinn skilaði.
Lögmaður stefnda sagði að þetta hafi verið þannig að Aðalsteinn var í viðskiptaskuld við stefna að fjárhæð u.þ.b. 3.000.000 kr. Þetta hafi endað með því að einn kreditreikningur var gefinn út að fjárhæð u.þ.b. 1.500.000 kr. sem núllað hafi út stöðu Aðalsteins. Spurði lögmaðurinn Harald hvort hann hefði komið að þessu. Haraldur sagði að þessi kreditreikningur hefði verið gefinn út eftir að hann fór frá fyrirtækinu. Hann kvaðst muna að ofninn var u.þ.b. 1.000.000 kr. virði og kaffivélin u.þ.b. 200.000 til 300.000 kr. virði. Væri þetta lagt saman og virðisaukaskatti bætt við þá gæti þetta verið mjög svipuð upphæð. Hvort hér væri um tilviljun að ræða kvaðst hann ekki vita.
Lögmaður stefnda vísaði til þess að í umræddri greinargerð Haralds og Bjarna til sín segi m.a.: „Var þetta ekki talið óeðlilegt sérstaklega í ljósi þess að Aðalsteinn hafði oft aðstoðað A. Karlsson ehf. við að styrkja viðskiptasambönd og koma með góðar hugmyndir.“ Spurði lögmaðurinn Harald hvor þetta hefði verið ástæðan fyrir því að kreditreikningurinn hefði verið gefinn út á Aðalstein. Haraldur sagði að á árinu 2002 þegar þetta kom upp þá hafi hann talið að „við“ værum að gæta hagsmuna félagsins með því að vilja ekki kreditfæra þetta. Hafi verið talið að með því að „við“ reyndum að selja þetta þá væri farið bil beggja. Síðan hefði þetta tekið miklu lengri tíma en við var búist. Kvaðst hann halda að „við“ hefðum verið komnir með kaupanda að ofninum.
Haraldur sagði að engar ákveðnar reglur hefðu gilt hjá félaginu um eyðingu tölvupósts.
Guðmundur Sævar Hreiðarsson, framkvæmdastjóri hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að breytingar sem gerðar voru í lok apríl 2006 hjá stefnda hefðu slegið alla og komið á óvart. Ef til vill ekki alls staðar, sökum þessa að lengi hefði eitthvað legið í loftinu og mikil fundahöld fyrir framan þá aðstöðu, sem hann var með - en hann hefði á þeim tíma verið sölustjóri fyrir röntgentæki hjá stefnda - og þar sem skrifstofa Haraldar var. Þar hafi verið tíð fundahöld í desember og svo aftur í janúar þannig að maður hafi skynjað að eitthvað var í gangi. Eins hefði honum fundist að ekki væri sami krafturinn í Haraldi, sem hann hefði starfað náið með, frá miðjum desember og þar til þetta leit dagsins ljós. Auðvitað hefði þetta slegið alla vegna þess að Haraldur var vel liðinn og góður starfsmaður.
Guðmundur Sævar kvaðst hafa fengið símtal kvöldið áður en þetta var tilkynnt formlega. Róbert Lee hefði hringt í hann og sagt honum að Haraldur hefði verið rekinn og þeir ákveðið að segja honum upp. Hafi Róbert Lee spurt hann hvort þeir ættu ekki að taka sig til og stofna nýtt fyrirtæki. Kvaðst hann ekki hafa gefið neitt út á það. Morguninn eftir, þegar hann mætti til vinnu, hafi Bjarni, sem var fjármálastjóri, kallað á hann og nokkra af þeim sem voru að vinna á því svæði sem hann var með. Þá hefðu flestir verið búnir að frétta þetta, búið að hringja í marga. Á starfsmannafundi eftir hádegið klukkan eitt hefði formlega átt að tilkynna þetta. Hefðu þeir farið inn til Bjarna og rætt þessi mál fram og til baka. Mönnum hefði verið misheitt í hamsi og sumir hefðu haft á orði að nú væri lag að stofna nýtt fyrirtæki og fara með einhver umboð í burtu eða umboð myndu elta menn. Einn hefði sagt að það skipti ekki máli hver ætti mann o.s.frv. Síðan hefði fundurinn verið haldinn klukkan eitt. Þá hafi komið í ljós að Haraldur hefði ekki verið rekinn en starfslokasamningur verið gerður við hann. Í samningnum hefði verið tekið fram að eigendur og Haraldur hefðu ekki verið sammála um hvert fyrirtækið skyldi stefna og því hefðu leiðir skilið.
Guðmundur Sævar sagði að síðan hefðu fleiri fundir verið haldnir í sömu vikunni. Flestir starfsmannanna hefðu þá farið niður í bæ og hist þar á veitingastað. Haraldur hefði mætt þar með konu sinni. Þá hafi honum fundist þetta farið að snúast upp í tilfinningaspennu, sem hefði ekkert með almenn viðskipti að gera, og hann hefði dregið sig út úr svokölluðum fundum, sem voru síðan haldnir eftir það.
Guðmundur Sævar sagði að í maí hafi þing eða sýning, sem reyndar hefði ekki verið á hans sviði, verið á Írlandi. A. Karlsson hefði komið að því með því að taka þátt í kostnaði við flugfar hjá hjúkrunarfræðingum sem fóru frá Landspítala og víðar. Hafi þau farið á þessa sýningu og þetta þing. Róbert Lee hefði hitt þar m.a. fulltrúa fyrirtækis, Rossalin in health, sem A. Karlsson hefur átt viðskipti við undan farin ár, en fyrirtækið framleiddi vörur sem notaðar væru við hjartaþræðingar. Róbert Lee hefði hitt fulltrúa þessa fyrirtækis ásamt Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem þá hafði látið af störfum hjá A. Karlssyni. Þau hefðu talað við fulltrúa fyrirtækisins og sagt þeim að Guðrún væri fulltrúi hjá nýju fyrirtæki og að Róbert Lee væri að ráða sig hjá því. Hefðu þau óskað eftir að vinna með Rossalin in health í framtíðinni.
Guðmundur Pétur Pálsson, upplýsingatæknistjóri hjá Parlogis, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann staðfesti að hafa undirritað yfirlýsingu sem liggur fyrir í málinu, dags. 19. febrúar 2007. Hann sagði m.a. að hann hefði annast tölvukerfi stefnda frá 2001. Hann sagði að komið hefði í ljós að tölvupósti hefði verið eytt úr tölvum umræddra sjö fyrrverandi starfsmanna stefnda, tómar möppur hefðu verið í póstinum er báru nöfn fyrirtækja eða birgja, sem hættu viðskiptum við stefnda. Ekki væri að sjá samskipti við birgja, sem fóru, en sjá mætti samskipti við aðra birgja langt aftur í tímann.
Guðmundur Pétur sagði að back-up kerfið hefði virkað þannig að tiltölulega fljótt hefði verið búið að skrifa yfir það, sem tekið var upp af tölvupósti, innan tveggja eða sex vikna. Hann hafi haft afrit, sem tekin voru í byrjun maí og síðan á viku fresti. Afrit, sem tekin voru 7. maí, voru með tómum möppum.
Ályktunarorð: Hinn 12. maí 2006 gerði stefndi starfslokasamning við stefnanda. Þar segir:
1.gr.
Starfsmaðurinn sagði upp störfum sínum í byrjun maí 2006. Ekki hefur veri óskað eftir starfsframlagi hans frá og með 12. maí sl. að öðru leyti en til ráðgjafar um einstök verkefni auk.
2. gr.
Félagið greiðir starfsmanninum laun í uppsagnarfresti í þrjá mánuði eftir starfslok hans, þ.e. fyrir júní, júlí og ágúst 2006. Fái starfsmaðurinn greidd laun annars staðar en frá félaginu í uppsagnarfresti þá dragast allar slíkar launagreiðslur frá launum starfsmannsins í uppsagnarfresti.
3. gr.
Starfsmaðurinn skilar bifreið og síma í eigu félagsins sem starfsmaðurinn hefur haft afnot af. Félagið greiðir starfsmanninum í uppsagnarfresti kr. 53.616,- á mánuði, sem koma í stað réttinda hans til afnota af þessum hlutum. Sundurliðst greiðslan þannig að kr. 49.616,- eru vegna bifreiðahlunninda og kr. 4.000,- vegna símanotkunar. Þessar greiðslur koma til viðbótar launum í uppsagnarfresti samkvæmt 2. gr. og eru greiddar mánaðarlega á sömu tímamörkum og þar er tilgreint.
4. gr.
Áunnið orlof greiðist með eingreiðslu 1. júní 2006.
Af hálfu stefnda var tekin sú ákvörðun að greiða stefnanda ekki laun í uppsagnarfresti í júlí og ágúst. Stefndi bar fyrir sig að stefnandi hefði ráðið sig til starfa hjá Fastus ehf. og gæti stefndi ekki tekið því að stefnandi þægi laun frá stefnda á meðan stefnandi ynni að því að ná með ótilhlýðilegum hætti birgjum og viðskiptavinum stefnda.
Um efni starfslokasamnings aðila er ekki deilt. Af hálfu stefnda er hins vegar talið að stefnandi hafi fyrirgert rétti samkvæmt samningnum. Stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldur við stefnda, sbr. ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 57/2005. Hann hafi brotið gegn stefnanda með meðferð sinni á tölvupósti í eigu stefnanda og með hátterni sínu valdið stefnda verulegu fjárhagstjóni. Væri gagnkrafa gerð á hendur stefnanda til skuldajafnaðar sem nemi heildarfjárhæð dómkröfu stefnanda með heimild í 28. gr. laga nr. 91/1991.
Ekki verður ætlað að starfslokasamningi aðila verði hnekkt á grundvelli ákvæða laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005. Í 1. mgr. 1. gr. laganna segir að lögin taki til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. að lögin taki ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningi.
Stefndi hefur hvorki sýnt fram á að stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldur sínar við stefnda á starfstíma hans hjá stefnda né á þeim tíma, er starfslokasamningur aðila markar sem uppsagnarfrest. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að stefnandi hafi unnið í þágu Fastus ehf. fyrr en hann hóf störf hjá félaginu hinn 1. september 2006.
Hvort stefnandi hafi eytt tölvupósti í eigu stefnda og með því skaðað stefnda, liggur ekki ljóst fyrir, en stefnandi hefur staðfastlega neitað því. Sjálfstæða skoðun eða rannsókn óháðra sérfræðinga á því sviði skortir.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði, allt eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, A. Karlsson ehf., greiði stefnanda, Arnari Bjarnasyni, 1.132.347 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 473.616 krónum frá 1. ágúst 2006 til 1. september 2006, en frá þeim degi af 1.132.347 krónum til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 249.000 krónur í málskostnað.