Hæstiréttur íslands

Mál nr. 283/2008


Lykilorð

  • Þjófnaður


Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17

                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008.

Nr. 283/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Bjarna Sigurðssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður.

B var sakfelldur fyrir þjófnað fyrir að hafa brotist inn í hús og stolið þar nánar tilgreindum munum. Taldist brotið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. B var dæmdur til að sæta fangelsi í fimm mánuði. Með broti sínu rauf B skilorð eldri dóms þar sem hann var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðarbrot. Var sú refsing dæmd upp og B gerð refsing í einu lagi. Hún var ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. maí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Bjarni Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 169.879 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2008.

Mál þetta var upphaflega höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 1. október 2007, gegn Finni Frey Guðbjörnssyni, kt. 290663-3939, Óðinsgötu 21b, Reykjavík, og Bjarna Sigurðssyni, kt. 180661-1229, Framnesvegi 5h, Reykjanesbæ, „...fyrir þjófnað með því að hafa 14. apríl 2007 brotist inn í húsið Junkaragerði, Reykjanesbæ, og stolið þar Dell D-620 fartölvu ásamt spennugjafa, HP NX-9000 fartölvu ásamt spennugjafa, 2 Canon myndavélum, einum hörðum tölvudiski, 2 sparibaukum, farsíma af gerð Nokia 3100, Adidas tösku og ýmsum skartgripum.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar“.

Mál þetta var upphaflega rekið gegn ofangreindum ákærðu báðum undir málanúmerinu S-903/2007 en í þinghaldi 29. nóvember 2007 var þáttur ákærða Bjarna skilinn frá og þingfest mál með númeri þessa máls. Finnur Freyr Guðbjörnsson lést 7. febrúar sl. og var ákæra á hendur honum afturkölluð.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dagsettri 14. apríl 2007, barst tilkynning þann dag frá Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um innbrot í húsið Junkaragerði í Höfnum. Á vettvangi hefði heimilisfólkið sagt að á tímabilinu 12:15-14:30 hefði verið brotist inn á heimili þeirra og munum stolið. Þegar þau hefðu komið heim hefðu þau séð að það hafði verið farið inn á heimili þeirra á meðan þau voru í burtu.

Húsið Junkaragerði er eldra einbýlishús á þremur hæðum, í kjallara er þvottahús ásamt þremur herbergjum en unnið er að endurbótum á kjallara. Á annarri hæð eru stofa og eldhús ásamt anddyri og borðstofu en á þriðju hæð eru svefnherbergi ásamt snyrtingu. Farið hafði verið inn um glugga á jarðhæð hússins en þar var brotinn gluggi og stormjárn rifið úr og brotið. Engin ummerki var að sjá á grasi við gluggann önnur en glerbrot. Á glugganum voru fingraför og fyrir neðan hann voru skóför og far eftir stiga sem virtist hafa verið reistur upp við svalirnar til að auðvelda leið þangað upp.

Á eldhúsborði var Vodka Smirnoff peli, sem var í eigu heimilisfólks og hafði verið uppi í hillu. Drukkið hafði verið úr pelanum og hann skilinn eftir á borðinu. Að sögn húsráðenda var eftirtalinna muna saknað:

1 Dell D-620 fartölva ásamt spennugjafa,

1 HP NX-9000 fartölvu ásamt spennugjafa,

2 Canon myndavélum,

1 harður tölvudiskur, flakkari, ásamt spennugjafa,

2 sparibaukar, annar Maggi mörgæs og hinn Mikka mús dós,

1 GSM farsími af gerðinni Nokia 3100.

Þá sögðu húsráðendur að ýmsum skartgripum hefði einnig verið stolið.

Í frumskýrslu kemur fram að grunur hafi kviknað um að gerandi í þessu máli væri Finnur Freyr Guðbjörnsson og því var lýst eftir honum.

Í gögnum málsins kemur fram að heildarverðmætamat á þýfinu er 368.500 krónur og er það að hluta byggt á mati eigendanna sjálfra en að hluta til á mati starfsmanna Tölvulistans í Reykjanesbæ.

Samkvæmt skýrslu rannsakara var ofangreindur Finnur Freyr handtekinn kl. 16:55 sama dag í Hafnarfirði þar sem hann ók bifreið ákærða, MA-255, en ákærði var þá farþegi í bifreiðinni. Í bifreiðinni fannst töluvert af ætluðu þýfi úr innbrotinu í Junkaragerði. Að því er fram kemur í handtökuskýrslu var ákærði handtekinn kl. 21:15 sama dag. Í jakkavasa ákærða fundust kvenskartgripir og ýmislegt smádót. Því er lýst í skýrslu rannsakara að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi sökum áfengis- og lyfjaneyslu og ekki viðræðuhæfur.

Skór ákærða og Finns Freys voru haldlagðir og gerð á þeim samanburðarrannsókn við skóför, sem fundust á vettvangi, og kom í ljós að skór þeirra beggja áttu við þau för. Húsráðendur í Junkaragerði báru kennsl á þá muni sem haldlagðir höfðu verið í fórum ákærða og Finns Freys. Þýfið komst allt til skila.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.

Ákærði hefur neitað sök. Hann hefur hins vegar kannast við að hafa farið inn í Junkaragerði umrætt sinn ásamt Finni Frey en staðið í þeirri trú að Finnur Freyr ætti húsið og ætti þar heima. Kvaðst ákærði ekki muna umrædd atvik vel. Þeir Finnur Freyr hefðu þekkst fyrir mörgum árum en Finnur Freyr hefði verið nýkominn frá Tælandi þegar þetta var. Finnur Freyr hefði komið í heimsókn til ákærða og hefði hann gefið ákærða  Rivotriltöflur sem ákærði tók inn áður en þeir fóru að Junkaragerði. Kvaðst ákærði hafa orðið utan við sig af töflunum. Aðspurður um tilgang ferðarinnar að Junkaragerði kvað ákærði þá hafa ætlað að skoða endurbætur sem Finnur Freyr var að láta gera á húsinu og hann hafði sagt ákærða frá einhverju áður. Einnig gaf ákærði þá skýringu að Finnur Freyr hefði sagst ætla að ná í eigur sínar sem þar voru í þeim tilgangi að selja þær.

Ákærði kvað Finn Frey hafa ekið bifreið ákærða að Junkaragerði og þá hefðu þeir Finnur Freyr gengið í kringum húsið og reist í sameiningu upp stiga til að reyna að spenna upp glugga til að komast inn. Síðan hefði Finnur Freyr brotið rúðu í kjallaranum og farið inn í húsið. Ákærði kvaðst ekki hafa hugsað út í það af hverju Finnur Freyr opnaði ekki með lykli enda kvaðst ákærði hafa verið illa fyrir kallaður vegna lyfjaneyslunnar. Ákærði hefði síðan farið út í bíl og minnti ákærða að Finnur Freyr hefði sagt að einhver þriðji maður hefði verið með þeim í bílnum. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa vitað af manninum sjálfur. Inni í húsinu hefði Finnur Freyr rétt ákærða einhverja hluti, þ. á m. tölvur og beðið hann um að taka þá fyrir sig en til hefði staðið að selja munina því Finn Frey skorti fé. 

Finnur Freyr hefði boðið ákærða inn og hann kvaðst hafa sest í eldhúsið og þegið í glas. Finnur Freyr hefði síðan komið með smádót og beðið ákærða að geyma það fyrir sig á meðan Finnur Freyr fór upp til að sækja tölvur sem hann hugðist selja. Kvaðst ákærði hafa talið að Finnur Freyr ætti alla þessa muni og þar með talda kvenskartgripina. Hefði dvöl þeirra í húsinu staðið í um það bil 15 til 20 mínútur og hefði enginn asi verið á þeim. Þeir hefðu síðan ekið sem leið lá til Reykjavíkur en verið handteknir í Hafnarfirði.

Ákærði kvað Finn Frey hafa búið hjá foreldrum sínum á meðan hann dvaldi hér á Íslandi en kvaðst þó einnig hafa talið að Finnur Freyr ætti heima í Junkaragerði. Aðspurður gat ákærði ekki lýst eigin fjárhagsstöðu í apríl 2007 en sagði að ekki hefði borið á góma milli þeirra Finns Freys hvort ákærði ætti að njóta söluverðmætis munanna að einhverju leyti.

Vitnið B rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa komið að rannsókn málsins í upphafi með þeim hætti að hann hefði tekið eftir Finni Frey Guðbjörnsson í mjög annarlegu ástandi á Hafnargötu í Keflavík. Hefði hann þá grunað að Finnur Freyr hefði komið að innbrotinu í Junkaragerði enda hefðu ummerki á vettvangi bent til þess að þeir sem fóru þarna inn þekktu til í húsinu. Hefði því verið lýst eftir Finni Frey en vitnið kvaðst hafa vitað að hann bjó áður í húsinu. Vitnið hefði síðan rannsakað vettvang.

Við handtöku hefðu þeir ákærði og Finnur Freyr verið í mjög annarlegu ástandi. Í upphafi hefði einungis Finnur Freyr verið handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur en síðan hefði lögregla einnig handtekið ákærða. Í bílnum hefði fundist þýfi auk þess sem sími hefði fundist í vasa Finns Freys en skartgripir í vasa ákærða.

Vitnið kvaðst hafa tekið lögregluskýrslu af þeim Finni Frey og ákærða. Við skýrslutökuna hefðu þeir verið uppteknir af því að sverja af sér ölvunarakstur. Finnur Freyr hefði sagt þá hafa verið á rúntinum og að þeir hafi ákveðið að kíkja á Junkaragerði. Hefði hann síðan lýst því hvernig hann fékk þá hugmynd að fara þar inn og gefið lýsingu á því hvernig þeir fóru inn í húsið. Vitnið kvað enga aðra ályktun hafa mátt draga af framburði Finns Freys hjá lögreglu en að þeir ákærði hefðu framið innbrot þar sem farið var inn í hús ókunnugs fólks til þess að stela hlutum. Hins vegar hefði ákærði sagst hafa haldið að húsið væri í eigu Finns Freys. 

Aðspurður sagði vitnið þá ákærða og Finn Frey hafa lesið yfir skýrslur sínar hjá lögreglu áður en þeir undirrituðu þær.

Vitnið A lögregluvarðstjóri kvað einu afskipti sín af málinu hafa verið þau að hann var viðstaddur skýrslutökur af ákærða og Finni Frey hjá lögreglu.

Niðurstaða.

Ákærði hefur kannast við að hafa farið inn í húsið Junkaragerði með Finni Frey Guðbjörnssyni umrætt sinn. Hann hefur hins vegar neitað sök og borið því við að hann hafi staðið í þeirri trú að Finnur Freyr byggi í húsinu og væri því að fara inn í eigið hús til að ná í eigur sínar sem hann hugðist selja. Samkvæmt framlögðum gögnum bjó Finnur Freyr síðast í Junkaragerði árið 2001.

Lýsingar ákærða á atvikum hér fyrir dóminum eru í flestum atriðum í samræmi við framburð hans í lögregluskýrslu. Hins vegar voru skýringar hans hér fyrir dóminum að sumu leyti óglöggar. Þannig hélt ákærði því fram að Finnur Freyr hefði verið búsettur í Junkaragerði en fullyrti þó á hinn bóginn að Finnur Freyr hefði einnig búið hjá foreldrum sínum í Keflavík. Þá gaf ákærði tvenns konar skýringar á því hvers vegna þeir Finnur Freyr hefðu farið í Junkaragerði umrætt sinn. Sagði hann tilganginn ýmist hafa verið þann að skoða endurbætur sem Finnur Freyr hefði gert á húsinu en sagði síðar frá því að þeir hefðu farið inn í húsið til að sækja muni í eigu Finns Freys sem hann hefði ætlað að selja til að útvega sér peninga.

Í lögregluskýrslu sem Finnur Freyr Guðbjörnsson gaf að kvöldi 14. apríl 2007 lýsti hann því að þeir ákærði hefðu hist á heimili ákærða nóttina áður og verið við drykkju. Þeir hefðu síðan farið á rúntinn í bíl ákærða og ákveðið að skoða húsið Junkaragerði. Þegar þeir lögðu af stað í bíltúrinn hefði ekki staðið til að brjótast inn í húsið en þegar þeir hefðu komið þar að og séð að enginn var heimavið, hefðu mál æxlast með þeim hætti. Hefðu þeir ákærði báðir brotist inn í húsið en þriðji maðurinn hefði beðið í bílnum fyrir utan. Lýsti Finnur Freyr því hvernig hann reisti stiga við vegg hússins í þeim tilgangi að spenna upp glugga og fara þannig inn. Það hefði mistekist og því hefði hann brotið rúðu í kjallaranum með sleggju en síðan hleypt ákærða inn um kjallaradyr. Eins og áður er komið fram lést Finnur Freyr í febrúar sl. og var því ekki unnt að taka skýrslu af honum fyrir dóminum.

Samkvæmt ákvæðum 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum, sem fram eru færð við meðferð máls fyrir dómi. Í þessu máli ræðst sök að nokkru leyti af mati á sönnunargildi framburðar fyrir dómi. Þarf þar einnig að líta til þess hvernig framburður samrýmist því sem áður er komið fram við lögreglurannsókn. Eins og áður er fram komið er það mat dómsins að skýringar ákærða séu að ýmsu leyti óglöggar en atvikalýsing Finns Freys í lögregluskýrslu er á hinn bóginn í samræmi við rannsóknargögn um allt það sem máli skiptir. Greiðleg játning Finns Freys hjá lögreglu á aðild sinni að innbrotinu eykur að mati dómsins sönnunargildi lögregluskýrslunnar sem sönnunargagns í málinu. Þegar litið á málið heildstætt og framburður ákærða metinn í ljósi alls framangreinds og sönnunargagna, er það mat dómsins að framburður ákærða sé ótrúverðugur. Þrátt fyrir neitun ákærða þykir því, að öllu framanrituðu virtu, fram komin nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er. 

Refsing.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1979 hlotið fjölmarga dóma og hlotið fangelsisdóma aðallega fyrir brot gegn 155. gr., 244. gr., 252. gr. og 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði var þann 11. október 2006 dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga en sá dómur var skilorðsbundinn í 3 ár með vísan til þess aðallega að hann stóðst tveggja ára skilorð eins mánaðar fangelsisdóms vegna brots gegn sama hegningarlagaákvæði frá 26. september 2002. Síðast var ákærði dæmdur til greiðslu 160.000 króna sektar fyrir ölvunarakstur og jafnframt sviptur ökurétti. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðsdómurinn frá 11. október 2006 tekinn upp og ákærða gerð refsing fyrir brot það, sem hann var dæmdur fyrir í þeim dómi, og það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir. Að öllu framanrituðu virtu og með vísan til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði.

Með vísan til ákvæða 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins sem nemur málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 209.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Júlíus Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómorð:

Ákærði, Bjarni Sigurðsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 209.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.