Hæstiréttur íslands
Mál nr. 358/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Brotaþoli
- Einkaréttarkrafa
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2017 þar sem vísað var frá dómi framhaldsákæru sóknaraðila og einkaréttarkröfu brotaþola í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í u. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af hálfu A er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún ,,þóknunar vegna kærumáls þessa úr ríkissjóði.“
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2017.
Mál þetta sem þingfest var fimmtudaginn 2. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 12. desember 2016, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...],
„ [...]
III.
fyrir líkamsárás
með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 19. september 2016 á [...], veist að A, kt. [...], tekið í hægri hönd hennar og snúið upp á hana.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
318-2016-10793
[...]“
Í framhaldsákæru dags. 30. janúar sl., er tekinn upp svohljóðandi einkaréttarkrafa:
„Vegna ákæruliðar III. [sic] gerir Jónína Guðmundsdóttir hdl. kröfu fyrir hönd A, kt. [...] þess efnis að ákærða verði gert að greiða A bætur að fjárhæð kr. 800.000,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. september 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram á síðari stigum málsins eða samkvæmt mati dómsins.“
Ákærði hefur neitað sök í málinu og hafnað framkomnum bótakröfum. Þá hefur ákærði mótmælt því að framangreind einkaréttarkrafa komist að í málinu. Við fyrirtöku málsins þann 26. apríl sl., var aðilum gefinn kostur á tjá sig um hvort þeir annmarkar væru á framangreindri einkaréttarkröfu sem valdið gætu því að vísa bæri henni frá dómi, sbr. 1. mgr. 159. gr. og 3. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008. Varðar þessi þáttur málsins framhaldsákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dags. 30. janúar 2017, og einkaréttarkröfu Jónínu Guðmundsdóttur hdl., f.h. A.
Samkvæmt gögnum málsins var brotaþola tilnefndur réttargæslumaður þann 21. september 2016, þar sem hún hafði þá farið fram á að ákærði sætti nálgunarbanni. Var það Jónína Guðmundsdóttur hdl., sem er lögmaður bótakrefjanda í máli þessu, sem tilnefnd var. Við skýrslutökur af brotaþola þann 20. september 2016, var brotaþola bent á varðandi bótakröfu að ákveðin hyggindi væru í því að njóta aðstoðar lögmanns, en við skýrslutökuna kom fram áðurnefnd krafa brotaþola um að ákærða yrði gert að sæta nálgunarbanni. Ekki var þó bótakrefjanda settur tilgreindur frestur til að koma bótakröfu að í málinu.
Líkt og að framan greinir mun hið meinta brot hafa verið framið 19. september sl., og samkvæmt gögnum málsins voru skýrslur teknar af brotaþola dagana 20. og 21. september sl. Þá var ákæra gefin út 12. desember 2016. Meðal gagna málsins liggur greinargerð bótakrefjanda, þar sem krafa hans kemur og fram, og er skjalið dags. 23. janúar 2017. Framhaldsákæra, þar sem einkaréttarkrafa bótakrefjanda var upp tekin var gefin út 30. janúar 2017. Loks var málið þingfest þann 2. febrúar sl. Framangreindri greinargerð bótakrefjanda fylgdu engin gögn, en í henni er vísað til lögregluskýrslna, læknisvottorða og annarra gagna sem liggja fyrir í málinu. Við fyrirtöku málsins þann 9. mars sl., var lagt fram læknisvottorð dags. 15. febrúar 2017, kröfunni til stuðnings. Rétt er að geta þess að á meðal rannsóknargagna lögreglu er áverkavottorð dagsett 3. nóvember 2016.
Samkvæmt 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal einkaréttarkröfu brotaþola í sakamáli komið á framfæri við lögreglu á meðan á rannsókn þess stendur eða við ákæranda áður en ákæra er gefin úr. Heimilt er og að koma kröfu á framfæri við ákæranda eftir útgáfu ákæru ef fullnægt er skilyrðum 1. mgr. 153. gr. til útgáfu framhaldsákæru eða ákærði samþykkir að hún komist að í málinu, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum til að hafa slíka kröfu uppi í málinu. Skilyrðin sem fram komi í síðastgreindu ákvæði eru það að leiðrétta þurfi augljósar villur eða ef upplýsingar sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin úr, gefa tilefni til. Líkt og að framan greinir fylgdi greinargerð bótakrefjanda engin gögn og ekki verður séð að bótakrefjandi byggi að öðru leyti á upplýsingum sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út. Að þessu virtu og með vísan til dóms Hæstaréttar frá 30. október 2014 í máli réttarins nr. 757/2013, voru ekki skilyrði til útgáfu framhaldsákæru í málinu. Þá liggur fyrir að ákærði hefur ekki samþykkt að framhaldsákæra lögreglustjóra komist að í málinu og ekki heldur einkaéttarkrafa bótakrefjanda. Verður því að vísa frá dómi framhaldsákæru lögreglustjóra sem og einkaréttarkröfunni.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi framhaldsákæru Lögreglustjórans á Suðurlandi, dags. 30. janúar 2017, sem og einkaréttarkröfu Jónínu Guðmundsdóttur hdl., fyrir hönd A.